Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 27. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 27  —  27. mál.




Frumvarp til laga



um rétt nefndar samkvæmt ályktun Alþingis til aðgangs að opinberum gögnum um öryggismál.

Flm.: Sólveig Pétursdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Össur Skarphéðinsson,


Hjálmar Árnason, Ögmundur Jónasson, Magnús Þór Hafsteinsson.



1. gr.

    Nefnd, sem skipuð var af forsætisráðherra 22. júní 2006 á grundvelli ályktunar Alþingis frá 3. júní 2006, um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál, skal hafa frjálsan aðgang að öllum gögnum í vörslum stjórnvalda sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991 til þess að gera tillögu um tilhögun á frjálsum aðgangi fræðimanna að þeim.
    Þrátt fyrir lögmælta þagnarskyldu er öllum opinberum starfsmönnum skylt að svara fyrirspurnum nefndarinnar um verklag við öflun, skráningu og varðveislu upplýsinga um öryggismál Íslands á árunum 1945–1991. Hið sama gildir um opinbera starfsmenn sem látið hafa af störfum.
    Nefndarmenn og starfsmaður nefndarinnar skv. 1. mgr. eru bundnir þagnarskyldu um viðkvæmar einkalífsupplýsingar sem þeir komast að í starfi sínu á vegum nefndarinnar. Hið sama gildir um upplýsingar um öryggismál Íslands sem varða enn þá virka öryggis- eða varnarhagsmuni Íslands.
    Upplýsingalög, nr. 50/1996, gilda ekki um störf nefndarinnar.
    Formaður nefndarinnar, sbr. 1. mgr. þessarar greinar, skal á starfstíma hennar gera forseta Alþingis og formönnum þingflokka grein fyrir framvindu verksins, sbr. síðari málsgrein ályktunar Alþingis frá 3. júní 2006.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í tilefni af umfjöllun sl. vor um sagnfræðilega rannsókn á hlerunum á dögum kalda stríðsins var samþykkt þingsályktun 3. júní 2006 þar sem ríkisstjórninni var falið að skipa nefnd til þess að annast skoðun gagna sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991 í vörslu opinberra aðila og ákveða frjálsan aðgang fræðimann að þeim. Með þessari þingsályktun hefur sú pólitíska stefna verið mörkuð að þessar upplýsingar skuli gerðar fræðimönnum aðgengilegar og sérstakri nefnd síðan falið að gera tillögu um hvernig staðið skuli að því, en nefndin var skipuð 22. júní 2006.
    Áður en nefndin getur skilað tillögum sínum um tilhögun á aðgangi fræðimanna að gögnunum þarf hún að kanna hvaða stjórnvöld hafa slík gögn í vörslum sínum og gera könnun á þeim. Þannig verður þá hægt að taka afstöðu til þess hvort rétt er að gera tillögu um að gögn um öryggismál Íslands frá þessu tímabili verði varðveitt í sérstakri deild, t.d. á Þjóðskjalasafni Íslands. Einnig þarf að kanna hvaða einkalífsupplýsingar hafa verið skráðar og taka afstöðu til þess hvort ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs leggja skyldu á löggjafann að setja í lög ákvæði til verndar þeim einstaklingum sem sætt hafa eftirliti eða rannsókn af hálfu stjórnvalda með vísan til öryggishagsmuna íslenska ríkisins.
    Þar sem ætla verður að öll gögn og upplýsingar um öryggismál íslenska ríkisins á árunum 1945–1991 séu ekki aðgengileg almenningi á grundvelli upplýsingalaga, nr. 50/1996, aðallega vegna einkalífsverndar þeirra sem sættu eftirliti eða rannsókn á þessu tímabili, er nauðsynlegt að mæla í lögum fyrir um aðgangsrétt nefndarmanna að þessum gögnum og leggja um leið þagnarskyldu á þá. Frumvarp þetta er flutt til þess að lögfesta slíka aðgangsheimild nefndarmanna. Þá er jafnframt lagt til að lögfest verði að öllum opinberum starfsmönnum, bæði núverandi og fyrrverandi, verði skylt að svara fyrirspurnum nefndarinnar um verklag við öflun, skráningu og varðveislu upplýsinga um öryggismál Íslands á árunum 1945–1991 þrátt fyrir ákvæði laga um þagnarskyldu. Ákvæðið er nefndinni nauðsynlegt svo að hún geti kannað með hvaða hætti gögn um öryggismál Íslands urðu til og hvernig varðveislu þeirra var hagað, hvar þau er að finna og hvaða gögnum hefur verið eytt.
    Þá er í frumvarpinu mælt svo fyrir að upplýsingalög, nr. 50/1996, gildi ekki um störf nefndarinnar. Þykir það rétt í ljósi eðlis starfa nefndarinnar sem er að gera tillögu um rýmri aðgang að gögnum um öryggismál íslenska ríkisins á árunum 1945–1991, en af því tilefni er nefndarmönnum nauðsynlegt að kanna umfang og eðli fyrirliggjandi gagna. Auk þess er rétt að benda á að væri slíkt ákvæði ekki sett mundu öll gögn, sem nefndin aflaði sér frá dómstólum í málum sem fjallað var um á árunum 1945–1991, færast undir gildissvið upplýsingalaga þar sem þau væru þá komin í vörslur stjórnvalds og orðin þáttur í ákveðinni stjórnsýslu nefndarinnar.
    Rétt þykir að taka upp í lögin það ákvæði sem var í síðari málsgrein þingsályktunarinnar frá 3. júní 2006 um að nefndin hafi á starfstíma sínum samráð við forseta Alþingis og formenn þingflokka um framvindu verksins. Slíkt samráð er afar mikilvægt til að tryggja áfram þá samstöðu um málið sem náðist við samþykkt ályktunarinnar sl. vor.