Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 219. máls.

Þskj. 220  —  219. mál.
Prentað upp.




Frumvarp til laga

um gatnagerðargjald.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.
Markmið laganna.

    Markmið laga þessara er að lögbinda gjaldstofn fyrir sveitarfélög til töku sérstaks skatts, gatnagerðargjalds, af fasteignum og rétt sveitarfélaga til að ákveða innan marka laganna hvernig sá gjaldstofn er nýttur.

2. gr.
Gjaldskylda.

    Lóðarhafi, eða byggingarleyfishafi þar sem það á við, er gjaldskyldur samkvæmt lögum þessum og ber ábyrgð á greiðslu gatnagerðargjalds.

3. gr.
Gjaldstofn gatnagerðargjalds.

    Sveitarstjórn skal innheimta gatnagerðargjald af fasteignum í þéttbýli eins og það er afmarkað hverju sinni samkvæmt staðfestri skipulagsáætlun.
    Stofn til álagningar gatnagerðargjalds er fermetrafjöldi byggingar á tiltekinni lóð og getur sveitarstjórn ákveðið hann á eftirfarandi hátt í samþykkt, sbr. 12. gr.:
     a.      Þegar sveitarstjórn úthlutar eða selur lóð eða byggingarrétt á lóð skal leggja á gatnagerðargjald í samræmi við fermetrafjölda þeirra bygginga sem heimilt er að reisa á viðkomandi lóð samkvæmt gildandi deiliskipulagi.
     b.      Verði ekki lagt á gatnagerðargjald skv. a-lið, eða ef veitt er byggingarleyfi fyrir stærri byggingu en álagning skv. a-lið var upphaflega miðuð við, skal við útgáfu byggingarleyfis leggja á gatnagerðargjald í samræmi við fermetrafjölda þeirrar byggingar sem byggingarleyfi tekur til.
    Gatnagerðargjald skal innheimt vegna stækkunar byggingar sem nemur fermetrafjölda stækkunar, sbr. þó ákvæði 3. mgr. 5. gr.
    Gatnagerðargjald skal innheimt ef reist er ný og stærri bygging í stað annarrar á sömu lóð sem stækkuninni nemur. Gildir þessi regla um byggingar sem samþykkt er byggingarleyfi fyrir allt að fimm árum eftir að leyfi er gefið fyrir niðurrifi byggingar. Að öðrum kosti skal greiða fullt gatnagerðargjald. Ef hin nýja bygging er annarrar tegundar eða til annarrar notkunar en hið eldra húsnæði gilda ákvæði 5. mgr. þessarar greinar.
    Þegar veitt er byggingarleyfi fyrir endurbyggingu, breytingu eða breyttri notkun byggingar þannig að hún færist í hærri gjaldflokk samkvæmt samþykkt sveitarfélagsins, sbr. 4. gr., skal greiða gatnagerðargjald að því marki sem það er ekki innifalið í því gatnagerðargjaldi sem þegar hefur verið greitt. Lóðarhafi, eða byggingarleyfishafi þar sem það á við, á ekki rétt á endurgreiðslu ef bygging færist í lægri gjaldflokk við slíka breytingu.

4. gr.
Fjárhæð gatnagerðargjalds.

    Gatnagerðargjald er 15% af byggingarkostnaði fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis eins og hann er hverju sinni samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42/1987, um vísitölu byggingarkostnaðar, nema sveitarstjórn hafi mælt fyrir um lægra gjald í samþykkt sinni, sbr. 2. mgr.
    Sveitarstjórn skal í samþykkt sinni, sbr. 12. gr., ákveða hundraðshluta gatnagerðargjalds sem leggst á gjaldstofn þann sem mælt er fyrir um í 3. gr. Gjaldið má aldrei vera hærra en mælt er fyrir um í 1. mgr.

5. gr.
Almenn lækkunarheimild.

    Sveitarstjórn er heimilt að ákveða í samþykkt sinni um gatnagerðargjald, sbr. 12. gr., að mishátt gatnagerðargjald skuli greiða vegna eftirtalinna bygginga eftir notkun:
     1.      Íbúðarhúsnæðis.
     2.      Verslunar-, skrifstofu- og þjónustuhúsnæðis.
     3.      Iðnaðar- og geymsluhúsnæðis og annars atvinnuhúsnæðis.
     4.      Annarra bygginga.
    Sveitarstjórn er einnig heimilt að ákveða í samþykkt sinni um gatnagerðargjald að gjald af íbúðarhúsnæði megi vera mishátt eftir því hvort um er að ræða:
     1.      Einbýlishús.
     2.      Par-, rað-, tvíbýlis- og keðjuhús.
     3.      Fjölbýlishús.
    Sveitarstjórn er einnig heimilt að ákveða í samþykkt sinni um gatnagerðargjald að lækka eða fella niður gatnagerðargjald:
     1.      Þegar grafið er út kjallararými íbúðarhúsa enda sé húsrýmið gluggalaust og aðeins gengt í það innan frá.
     2.      Af yfirbyggðum göngugötum eða léttum tengibyggingum í eða á milli verslunar-, skrifstofu- og þjónustuhúsnæðis sem teljast til sameignar viðkomandi húsnæðis og eru til almenningsnota á afgreiðslutíma. Skilyrði þessa er þó að húsnæði sem yfirbygging eða tengibygging er byggð við sé svo sjálfstætt að það fullnægi kröfum byggingarlaga og byggingarreglugerðar án hennar og jafnframt að yfirbyggingin eða tengibyggingin sé þannig úr garði gerð að hún fullnægi ekki ein og sér kröfum byggingarlaga og byggingarreglugerðar.
     3.      Vegna stækkunar íbúðarhúss sem er a.m.k. 15 ára enda nemi stækkunin ekki meira en 30 fermetrum á hverja íbúð á hverju 10 ára tímabili. Tilheyri stækkunin sameign fjöleignarhúss skal meta hana eins og ef um stækkun vegna einnar íbúðar væri að ræða.
     4.      Svalaskýla íbúðarhúsa sem eru 20 fermetrar eða minni.
     5.      Sameiginlegra bifreiðageymslna fyrir þrjár eða fleiri bifreiðar.
     6.      Óeinangraðra smáhýsa sem eru minni en 6 fermetrar.

6. gr.
Sérstök lækkunarheimild.

    Sveitarstjórn er heimilt að lækka eða fella niður gatnagerðargjald af einstökum lóðum í sveitarfélaginu við sérstakar aðstæður, svo sem vegna þéttingar byggðar, atvinnuuppbyggingar, lítillar ásóknar í viðkomandi lóð eða eftirspurnar eftir leiguhúsnæði.
    Sveitarstjórn er enn fremur heimilt að lækka eða fella niður gjöld vegna sérhæfðs félagslegs húsnæðis, svo sem sambýla fyrir fatlaða, þjónustuíbúða fyrir aldraða og félagslegs leiguhúsnæðis enda sé slíkt húsnæði í eigu stofnana, félagasamtaka eða félaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Þinglýsa skal kvöð á umrætt húsnæði um að greiða skuli gatnagerðargjald af því ef það fellur af einhverjum ástæðum ekki lengur undir ákvæði þetta, til dæmis vegna sölu þess til annarra nota. Skal þá gjaldagi gatnagerðargjalds miðast við afhendingu húsnæðis til annarra nota.     
    Sveitarstjórn er heimilt að mæla nánar fyrir um skilyrði framangreindra lækkunarheimilda í samþykkt sinni um gatnagerðargjald, sbr. 2. mgr. 4. gr.

7. gr.
Gjalddagi og eindagi gatnagerðargjalds.

    Gatnagerðargjald skv. a-lið 2. mgr. 3. gr. fellur í gjalddaga við úthlutun lóðar eða sölu byggingarréttar sem er í eigu sveitarfélags eða sveitarfélagið hefur ráðstöfunarrétt á. Eindagi er 30 dögum eftir gjalddaga.
    Gatnagerðargjald skv. b-lið 2. mgr. 3. gr. og 5. mgr. 3. gr. fellur í gjalddaga við útgáfu byggingarleyfis. Eindagi er hinn sami og gjalddagi.
    Sveitarstjórn getur í samþykkt sinni um gatnagerðargjald ákveðið gjalddaga og eindaga gatnagerðargjalds með öðrum hætti. Sveitarstjórn er heimilt að mæla svo fyrir í samþykkt sinni að gjaldið skuli innheimt á fleiri en einum gjalddaga.

8. gr.
Innheimta vangreidds gatnagerðargjalds.

    Gatnagerðargjald ber dráttarvexti samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá gjalddaga.
    Gatnagerðargjald, ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði, er tryggt með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði í tvö ár frá gjalddaga. Gatnagerðargjald er aðfararhæft án undangengins dóms eða stjórnvaldsúrskurðar.
    Sveitarstjórn er heimilt að afturkalla lóðarúthlutun ef lóðarhafi greiðir ekki gatnagerðargjald á tilskildum tíma, enda sé kveðið á um það í úthlutunar- eða byggingarskilmálum. Sveitarstjórn skal með 30 daga fyrirvara senda lóðarhafa með sannanlegum hætti viðvörun um hina fyrirhuguðu afturköllun áður en lóðarúthlutun er afturkölluð.

9. gr.
Endurgreiðsla gatnagerðargjalds.

    Sveitarfélagi ber að endurgreiða gatnagerðargjald innan 30 daga ef lóðarúthlutun er afturkölluð eða ógilt eða lóð er skilað. Fjárhæð gatnagerðargjalds sem greidd var skal verðbætt miðað við vísitölu neysluverðs frá greiðsludegi til endurgreiðsludags. Við greiðsludrátt reiknast dráttarvextir á fjárhæðina samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá gjalddaga.

10. gr.
Um ráðstöfun gatnagerðargjalds.

    Sveitarstjórn skal verja gatnagerðargjaldi til gatnagerðar í sveitarfélaginu og til viðhalds gatna og annarra gatnamannvirkja. Ráðstöfun til viðhalds er óháð eignarhaldi gatna.
    Um skyldu sveitarstjórnar til gatnagerðar og viðhalds gatna fer eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.

11. gr.
Kæruheimild.

    Aðili máls getur skotið ákvörðun sveitarstjórnar samkvæmt lögum þessum til úrskurðar félagsmálaráðherra. Kærufrestur er þrír mánuðir frá því að aðili fékk vitneskju um ákvörðunina. Kæruheimild þessi skerðir þó eigi rétt aðila til að höfða mál fyrir dómstólum.
    Komist ráðherra að þeirri niðurstöðu að ákvörðun sveitarfélags hafi ekki verið í samræmi við lög getur hann ógilt ákvörðunina og eftir atvikum lagt fyrir sveitarstjórn að taka nýja ákvörðun.

12. gr.
Samþykkt sveitarfélags um gatnagerðargjald og birting hennar.

    Sveitarstjórn skal setja samþykkt um gatnagerðargjald fyrir sveitarfélagið þar sem eftir atvikum er kveðið á um álagningu gjaldsins, undanþágur frá því og afslætti, gjalddaga og eindaga gjaldsins, greiðslufyrirkomulag og annað er varðar innheimtu þess.
    Samþykktina skal birta í B-deild Stjórnartíðinda.

13. gr.
Gildistaka og lagaskil.

    Lög þessi taka gildi 1. júlí 2007. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 17/1996, um gatnagerðargjald.
    Um álagningu og innheimtu gatnagerðargjalds sem gjaldfallið er í tíð eldri laga fer samkvæmt þeim lögum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Samningar um gatnagerðargjald af tilteknum lóðum, sem lóðarhafar eða lóðareigendur hafa gert við sveitarstjórnir, svo og skilmálar varðandi gatnagerðargjald sem sveitarstjórn hefur sett og lóðarhafi eða lóðareigandi hefur undirgengist, halda gildi sínu þrátt fyrir ákvæði laga þessara, nema aðilar séu um annað sáttir.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið fyrir tilstuðlan félagsmálaráðherra. Með erindisbréfi, dags. 30. október 2003, skipaði félagsmálaráðherra fjögurra manna nefnd til að endurskoða lög nr. 17/1996, um gatnagerðargjald. Í nefndinni áttu sæti Sigurður Óli Kolbeinsson, sviðsstjóri lögfræðisviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kristbjörg Stephensen, skrifstofustjóri lögfræðiskrifstofu Reykjavíkurborgar, Ingibjörg Halldórsdóttir, lögfræðingur í umhverfisráðuneyti, og Guðmundur Ómar Hafsteinsson héraðsdómslögmaður sem var formaður. Einnig störfuðu fyrir nefndina Lárus Bollason, deildarsérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, Dýrleif Kristjánsdóttir, lögfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, og Lárus M. Ólafsson, lögfræðingur í félagsmálaráðuneytinu. Nefndin aflaði sér einnig álits Páls Hreinssonar prófessors á einstökum þáttum frumvarpsins. Þá studdist nefndin jafnframt við ráðgjöf frá sérfræðingum hinna ýmsu sveitarfélaga varðandi tæknileg atriði og kannaði sérstaklega framkvæmd álagningar gatnagerðargjalds hjá einstökum sveitarfélögum.

2. Þróun laga um gatnagerðargjald.
    Almenn lög um gatnagerðargjald voru fyrst sett með lögum nr. 51/1974, um gatnagerðargjöld, en fyrir setningu laganna höfðu hins vegar verið í gildi einstaka lög sem tryggðu tilteknum sveitarfélögum fjármagn til slíkra framkvæmda, til dæmis lög nr. 42/1911, um gjöld til holræsa og gangstétta í Reykjavík o.fl. Megineinkenni laga nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975, var skilgreining gatnagerðargjalds sem þjónustugjalds og skipting gatnagerðargjalds í svokölluð A- og B-gatnagerðargjöld.
    Lög um gatnagerðargjald voru endurskoðuð um miðjan tíunda áratug síðustu aldar og árið 1996 voru lögfest ný lög um gatnagerðargjald, nr. 17/1996. Lög nr. 17/1996 fólu í sér nokkrar grundvallarbreytingar frá því réttarástandi sem lögfest var með lögum nr. 51/1974. Í fyrsta lagi var aflögð tvískipting gatnagerðargjalds og voru B-gatnagerðargjöld að mestu lögð niður. Í öðru lagi var ráðstöfun gatnagerðagjalds ekki lengur bundin við gerð gatna við þær lóðir eða mannvirki sem gatnagerðargjald var innheimt af. Í þriðja lagi var hámark gatnagerðargjalds afmarkað með þeim hætti að það gat numið allt að 15% af heildarbyggingarkostnaði samsvarandi einingar í vísitöluhúsi fjölbýlis eins og hann var hverju sinni samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands. Loks var mælt fyrir um að ein reglugerð um gatnagerðargjald skyldi gilda fyrir landið allt en ekki reglugerð eða samþykkt fyrir hvert sveitarfélag fyrir sig.

3. Meginmarkmið frumvarpsins.
    Samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar var markmið endurskoðunar laga nr. 17/1996 að eyða óvissuþáttum sem upp höfðu komið við framkvæmd laganna, ekki síst um það hvort gatnagerðargjald teldist þjónustugjald eða skattur.
    Í lögum nr. 17/1996, um gatnagerðargjald, og lögskýringargögnum með þeim er gengið út frá því að gatnagerðargjald teljist til þjónustugjalda. Studdist sú túlkun einnig við eldri réttarframkvæmd. Á undanförnum árum hefur hins vegar verið á það bent, meðal annars í skrifum fræðimanna, að gatnagerðargjald beri viss einkenni skatta. Jafnframt hefur á þetta reynt í úrskurðum félagsmálaráðuneytisins og fyrir dómstólum, meðal annars í dómi Hæstaréttar í máli nr. 415/2005 þar sem Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um fjárhæð gatnagerðargjalds lyti hefðbundnum skattalegum sjónarmiðum. Er brýnt að skýrt sé ákvarðað í lögum um gatnagerðargjald á hvaða grunni gjaldtökuheimildin er reist. Það er markmið frumvarps þessa að eyða allri óvissu um slíkt og skjóta styrkari stoðum undir innheimtu gatnagerðargjalds. Þá hefur einnig reynt á það fyrir dómstólum og í úrskurðum félagsmálaráðuneytisins hvort heimilt sé að innheimta gatnagerðargjald í dreifbýli, en ekki er kveðið með skýrum hætti á um hvort slíkt sé heimilt eða óheimilt í núgildandi lögum. Með frumvarpi þessu er tekinn af allur vafi um það að gatnagerðargjald verði aðeins lagt á byggingar í þéttbýli sem er í samræmi við dómaframkvæmd.
    Að lokum er það einnig markmið með frumvarpi þessu að einfalda útreikninga á gatnagerðargjaldi, meðal annars með það fyrir augum að samræma gjaldtökuna milli einstakra sveitarfélaga og auðvelda samanburð.

4. Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu.
4.1    Gatnagerðargjald telst skattur.
    Í frumvarpi þessu er sett fram sú grundvallarskilgreining að gatnagerðargjald teljist skattur. Eftir gildistöku laga nr. 17/1996 hefur ríkt ákveðin óvissa um grundvöll innheimtu gatnagerðargjalds, nánar tiltekið hvort gatnagerðargjald sé þjónustugjald eða skattur. Þeirri óvissu hefur nú að mestu verið eytt með dómi Hæstaréttar í máli nr. 415/2005. Er því ekki um grundvallarbreytingu að ræða á gildandi réttarástandi, en rétt þykir þó að skilgreina gatnagerðargjald í lögum með skýrum hætti sem skatt og treysta stoðir álagningar gatnagerðargjalds þannig að þær uppfylli fyllilega kröfur sem gerðar eru til skattlagningarheimilda.

4.2.    Flatarmál húsnæðis og heimilt byggingarmagn.
    Með frumvarpinu er lagt til að eingöngu verði miðað við flatarmál byggingar við útreikning gatnagerðargjalds, í stað þess að veita sveitarstjórnum val milli flatarmáls lóðar, rúmmáls húss og fermetrafjölda húss eða blöndu af þessum leiðum, líkt og gert er í núgildandi lögum. Það er markmið með frumvarpi þessu að einfalda álagningu gatnagerðargjalds en um leið viðhalda því svigrúmi sem sveitarfélög hafa haft til álagningar gatnagerðargjalds. Var það ekki talið skerða svigrúm til álagningar gatnagerðargjalds þótt fyrrnefnt val væri aflagt. Þvert á móti gerir frumvarpið ráð fyrir að sveitarfélög hafi rúmar heimildir til reglusetningar um gatnagerðargjald, meðal annars með tilliti til heimildar sveitarfélaga til ákvörðunar álagningarprósentu, sem og almennum og sérstökum lækkunarheimildum. Afmarkaðri grunnur gatnagerðargjalda mun hins vegar einfalda til muna alla álagningu gatnagerðargjalds, auka fyrirsjáanleika og gegnsæi og auðvelda samanburð á milli sveitarfélaga.
    Þá er lögð til sú breyting að við úthlutun lóðar eða sölu byggingarréttar skuli gatnagerðargjald miðast við flatarmál þeirrar byggingar sem heimilt er að byggja á viðkomandi lóð, eða heimilt byggingarmagn, í stað flatarmáls samkvæmt byggingarleyfi eins og gert er í núgildandi lögum. Markmið þessarar breytingar er fyrst og fremst að einfalda álagningu gatnagerðargjalds. Þegar ekki er um að ræða úthlutun lóðar eða sölu byggingarréttar skal miða við fermetrafjölda samkvæmt samþykktu byggingarleyfi.

4.3.    Meginregla frumvarpsins um gjaldtöku og almennar og sérstakar lækkunarheimildir.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að fjárhæð gatnagerðargjalds nemi 15% af byggingarkostnaði fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis eins og hann er hverju sinni samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42/1987, um vísitölu byggingarkostnaðar. Er þetta sama hlutfall og markar hámark gatnagerðargjalds í núgildandi lögum. Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir að hverju sveitarfélagi beri að setja sér sérstaka samþykkt eða gjaldskrá þar sem fjárhæð gatnagerðargjalds er afmörkuð sem hlutfall af fyrrnefndum grunni. Að öðrum kosti standi lögin sem sjálfstæð skattlagningarheimild.
    Í samræmi við gildandi réttarástand heimilar frumvarpið einnig að sveitarfélög ákveði mishátt gatnagerðargjald fyrir einstakar tegundir húsnæðis á grundvelli almennra lækkunarheimilda. Að lokum heimilar frumvarpið sveitarfélögum einnig að lækka innheimt gatnagerðargjald í einstökum tilvikum.

4.4.    Innheimta gatnagerðargjalds verði bundin við þéttbýli.
    Í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er tekið af skarið um að innheimta gatnagerðargjalds sé bundin við þéttbýli sveitarfélags eins og það er skilgreint hverju sinni samkvæmt samþykktri skipulagsáætlun. Ákvæði þetta felur ekki sér efnisbreytingu frá því sem talinn hefur verið gildandi réttur, en hefur það að markmiði eins og áður segir að taka af öll tvímæli um þetta atriði.

4.5.    Aðrar breytingar.
    Að lokum má nefna nokkrar minni háttar breytingar. Í frumvarpi þessu er kveðið á um reglu um innheimtu gatnagerðargjalds vegna byggingar húss á lóð þar sem eldra hús hefur áður verið rifið. Um þetta atriði vísast til umfjöllunar um 4. mgr. 3. gr.
    Kæruheimild til ráðherra er óbreytt, en kveðið er sérstaklega á um heimild félagsmálaráðherra til að ógilda ákvörðun um álagningu gatnagerðargjalds og heimild til að leggja það fyrir sveitarstjórn að taka nýja ákvörðun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er að finna markmið laganna. Í ákvæðinu er kveðið á um að gatnagerðargjald teljist skattur. Sömuleiðis kemur þar fram að ráðstöfun gatnagerðargjalds sé háð tilteknum takmörkunum, þ.e. að gatnagerðargjald sé svonefndur markaður tekjustofn.

Um 2. gr.


    Í greininni er kveðið á um hver sé greiðandi gatnagerðargjalds eða gjaldskyldur aðili samkvæmt lögunum. Eins og gerð verður nánar grein fyrir í umfjöllun um 3. gr. eru gjaldskyldir aðilar annars vegar lóðarhafi, nánar tiltekið sá aðili sem hefur verið úthlutað lóð eða keypt byggingarrétt á lóð, og hins vegar aðilar sem sótt hafa um byggingarleyfi til dæmis fyrir stækkun húss eða byggingu nýs húss þar sem áður stóð gamalt.

Um 3. gr.


    Í greininni er kveðið á um hver sé gjaldstofn gatnagerðargjalds.
    Samkvæmt 1. mgr. er í fyrsta lagi afmarkað af hvaða fasteignum landsins innheimta skuli gatnagerðargjald. Er þar tekið af skarið um að eingöngu skuli innheimta gatnagerðargjald af lóðum og húsum í þéttbýli eins og það er afmarkað samkvæmt samþykktri skipulagsáætlun hverju sinni. Meðal markmiða með þessari málsgrein er að lögfesta með skýrum hætti að ekki sé heimilt að leggja á gatnagerðargjald í dreifbýli. Varðandi skil dreifbýlis og þéttbýlis afmarkast þau af ákvæðum skipulags- og byggingarlaga á hverjum tíma, en samkvæmt núgildandi lögum er þéttbýli skilgreint sem þyrping húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fer að jafnaði ekki yfir 200 metra.
    Í 2. mgr. er skilgreint hver sé stofn til álagningar gatnagerðargjalds, en hann er fermetrafjöldi þeirrar byggingar sem fyrirhugað er að reisa á viðkomandi lóð. Ákvæðið felur í sér þá grundvallarbreytingu frá núverandi réttarástandi að eingöngu skuli miða við fermetrafjölda byggingar, en þegar hefur verið gerð grein fyrir þeirri breytingu og forsendum hennar í umfjöllun í kafla 4.2 í almennum athugasemdum með frumvarpinu.
    Samkvæmt ákvæðinu skal fermetrafjöldi byggingar ákvarðaður með tvennum hætti. Annars vegar skal líta til fermetrafjölda þeirra byggingar sem samkvæmt deiliskipulagi er heimilt að reisa á viðkomandi lóð, oft nefnt heimilt byggingarmagn. Hins vegar skal í þeim tilvikum sem ekki hefur verið úthlutað lóð eða seldur byggingarréttur miða við fermetrafjölda samkvæmt byggingarleyfi. Er hér til dæmis átt við breytingar og viðbyggingar við eldri hús þegar byggingarleyfi er gefið út í eldra hverfi án undangenginnar lóðarúthlutunar og sambærileg tilvik.
    Í 3.–5. mgr. er að finna nánari útfærslu á reglum um gjaldstofn gatnagerðargjalds. Samkvæmt 3. mgr. skal innheimta gatnagerðargjald af stækkun húss, til dæmis vegna viðbyggingar. Þó ber til þess að líta að í þeim tilvikum þegar greitt hefur verið gatnagerðargjald samkvæmt heimilu byggingarmagni skal eingöngu innheimta gatnagerðargjald vegna stækkunar byggingar, sbr. 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins, eða nýbyggingar, sbr. 4. mgr. 3. gr., að því marki sem það er ekki innifalið í því gatnagerðargjaldi sem þegar hefur verið greitt fyrir viðkomandi byggingu. Sem dæmi um hið fyrrnefnda má nefna þegar eingöngu hefur verið byggður hluti þess fermetrafjölda sem heimilt var að byggja á viðkomandi lóð. Komi til þess að sótt verði um byggingarleyfi fyrir stækkun umrædds húss yrði ekki innheimt gatnagerðargjald vegna stækkunarinnar svo lengi sem hún rúmaðist innan þess fermetrafjölda, eða byggingarmagns sem upphaflega var heimilt að byggja á lóðinni.
    Loks skal vakin athygli á reglu 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins þar sem sveitarfélögum er heimilað að undanskilja tiltekin rými og tegundir húsnæðis gjaldskyldu, að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum.
    Í 4. mgr. er byggt á því sem meginreglu að þegar hús hefur verið rifið og sótt er um byggingarleyfi fyrir stærra húsnæði á sömu lóð verði eingöngu innheimt gatnagerðargjald sem stækkuninni nemur. Til dæmis felur ákvæðið í sér að ef hús er keypt til niðurrifs eigi viðkomandi eigandi eða lóðarhafi „inneign“ sem nemur stærð hins fjarlægða húss þegar kemur að álagningu gatnagerðargjalds vegna nýbyggingarinnar. Ef sveitarfélag kýs að nýta sér heimildir 5. gr. frumvarpsins og ákvarða mismunandi álagningu gatnagerðargjalds á einstakar tegundir húsnæðis er jafnframt gert ráð fyrir að eigandi húsnæðisins eigi inneign sem nemur gatnagerðargjaldi af sams konar húsnæði og rifið var, miðað við gildandi gjaldskrá þess tíma þegar nýtt byggingarleyfi er gefið út. Ef gatnagerðargjald af nýju húsnæði er hærra en framangreind inneign skal mismunur innheimtur. Gildir þessi inneign í fimm ár frá því að leyfi var gefið fyrir niðurrifi hins fjarlægða húss en fellur niður að þeim tíma liðnum.
    Í 5. mgr. er fjallað um gjaldtöku vegna breytinga á notkun húsnæðis. Hér er til dæmis átt við breytingu húsnæðis úr verslunar- og skrifstofuhúsnæði í íbúðarhúsnæði, en um flokkun húsnæðis vísast til umfjöllunar um 5. gr. Er gert ráð fyrir að í þeim tilvikum þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir breytingu á notkun húsnæðis, sem leiðir til þess að húsnæðið færist í hærri gjaldflokk samkvæmt samþykkt sveitarfélags, stofnist krafa um greiðslu gatnagerðargjalds. Gjalddagi gatnagerðargjalds samkvæmt ákvæðinu skal almennt vera við samþykki byggingarleyfis fyrir breyttum notum viðkomandi húsnæðis.

Um 4. gr.


    Í greininni er að finna reglu sem afmarkar grunnálagningu gatnagerðargjalds. Ákvæðið gerir ráð fyrir að gatnagerðargjald skuli vera 15% af byggingarkostnaði fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis eins og hann er hverju sinni samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42/1987, um vísitölu byggingarkostnaðar. Er þetta sama viðmiðun gatnagerðargjalds og í núgildandi lögum, en þar er þessi viðmiðun sett fram sem hámark gatnagerðargjalds. Í frumvarpi þessu er hins vegar gert ráð fyrir annarri nálgun við álagningu gatnagerðargjaldsins. Frumvarpið gerir ráð fyrir að fyrrnefnd viðmiðunarfjárhæð sé grunnfjárhæð gatnagerðargjalds fyrir hvern fermetra, en í 2. mgr. er síðan lögð sú skylda á sveitarfélög að ákveða hvert fyrir sig, með sérstakri samþykkt, gatnagerðargjald af einstökum flokkum húsnæðis í sveitarfélaginu. Er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin ákveði gatnagerðargjald sem hlutfall af fyrrnefndri grunnfjárhæð.
    Þrátt fyrir skyldu sveitarfélaga til ákvörðunar álagningarprósentu gerir frumvarpið engu síður ráð fyrir að lögin geti staðið sem sjálfstæð skattlagningarheimild, til dæmis þar sem misbrestur er á að samþykkt sé sett eða á annarri ákvarðanatöku um gatnagerðargjald í viðkomandi sveitarfélagi.

Um 5. gr.


    Í greininni er að finna almenna heimild til lækkunar á gatnagerðargjaldi frá grunngatnagerðargjaldi skv. 4. gr. Eru þar settir fram einstakir flokkar húsnæðis. Flokkun húsnæðis er að mestu í samræmi við gildandi lög og þær venjur sem skapast hafa um flokkun húsnæðis í gjaldskrám einstakra sveitarfélaga. Jafnframt er í ákvæðinu sett fram heimild til lækkunar eða niðurfellingar gatnagerðargjalds í einstökum tilvikum. Við afmörkun þessara undanþágureglna var einnig stuðst við venjur í réttarframkvæmd.
    Í 1. mgr. er sett fram grunnflokkun húsnæðis samkvæmt frumvarpinu. Flokkunin gerir ráð fyrir að heimilt sé að leggja mismunandi gatnagerðargjald á íbúðarhúsnæði, verslunar-, skrifstofu- og þjónustuhúsnæði, iðnaðar- og geymsluhúsnæði og annað atvinnuhúsnæði og að lokum aðrar byggingar. Orðið íbúðarhúsnæði í 1. tölul. þarfnast ekki skýringa. Sama gildir um verslunar- og skrifstofuhúsnæði, sbr. 2. tölul., en með þjónustuhúsnæði er til dæmis átt við hárgreiðslustofur og líkamsræktarstöðvar. Iðnaðar- og geymsluhúsnæði og annað atvinnuhúsnæði tekur til húsnæðis sem hýsir annars konar iðnaðarstarfsemi, til dæmis verkstæði, verksmiðjur, vöruskemmur, olíutankar og húsnæði sem hýsir annan atvinnurekstur sem ekki fellur undir 2. tölul. 1. mgr. Flokkurinn aðrar byggingar, sbr. 4. tölul., felur í sér safnhugtak fyrir húsnæði sem ekki fellur undir 1.–3. tölul. 1. mgr. Er hér meðal annars átt við ýmiss konar húsnæði sem hýsir almannaþjónustu, svo sem skóla, íþróttahús, kirkjur og þess háttar.
    Önnur málsgreinin geymir heimild til frekari flokkunar íbúðarhúsnæðis í samþykkt sveitarfélags, þ.e. í einbýlishús, sbr. 1. tölul., par-, rað-, tvíbýlis- og keðjuhús, sbr. 2. tölul., og að lokum fjölbýlishús, sbr. 3. tölul.
    Í 3. mgr. er að finna heimild til að lækka eða fella niður gatnagerðargjald vegna tiltekinna aðstæðna. Við val á þeim tilvikum sem tilgreind eru í ákvæðinu var einkum stuðst við áþreifanleg dæmi sem komið hafa upp við álagningu gatnagerðargjalds, en einstakir töluliðir þarfnast ekki skýringa. Rétt er þó að taka fram að í 6. tölul. er einkum átt við frístandandi smáhýsi á lóð annars húss, svo sem litla geymsluskúra.

Um 6. gr.


    Í greininni er að finna sérstaka lækkunarheimild þar sem sveitarfélögum er veitt heimild til þess að lækka eða fella niður gatnagerðargjald af einstökum lóðum í sveitarfélaginu við sérstakar aðstæður. Er gert ráð fyrir að ákvarðanir um slíkt verði teknar með sérstökum stjórnvaldsákvörðunum hverju sinni.
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að sveitarfélögum sé veitt tiltekið svigrúm til lækkunar eða niðurfellingar gatnagerðargjalds af skipulagsástæðum.
    Í 2. mgr. er lagt til að sveitarfélögum verði heimilað að lækka eða fella niður gjöld vegna sérhæfðs félagslegs húsnæðis sem ekki er rekið í ágóðaskyni. Sem dæmi um slíkt húsnæði má nefna sambýli fyrir fatlaða, þjónustuíbúðir fyrir aldraða og félagslegt leiguhúsnæði. Ákvæðið gerir ráð fyrir að í kjölfar samþykktar slíkrar undanþágu verði þinglýst sérstakri kvöð á viðkomandi húsnæði um undanþágu frá gatnagerðargjaldi. Komi til þess að umrætt húsnæði verði tekið til annarra nota, sem ekki falla undir ákvæði 2. mgr., er gert ráð fyrir að kvöðinni verði aflýst og eigendur húsnæðisins greiði gatnagerðargjald vegna þess. Miðað er við að gjalddagi gatnagerðargjalds samkvæmt ákvæðinu sé afhendingardagur eignarinnar til breyttra nota.
    Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að einstakar ákvarðanir um niðurfellingu eða lækkun samkvæmt þessari grein verði teknar með sérstakri stjórnvaldsákvörðun, er skv. 3. mgr. gert ráð fyrir að sveitarfélög setji reglur í samþykkt sína um nánari útfærslu slíkra undanþáguheimilda. Er tilgangur þessa meðal annars að auka gegnsæi og samræmi við ákvarðanatöku um lækkun eða niðurfellingu í viðkomandi sveitarfélagi.

Um 7. gr.


    Í greininni er að finna ákvæði varðandi gjalddaga og eindaga gatnagerðargjalds.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að gjalddagi gatnagerðargjalds skv. a-lið 2. mgr. 3. gr. sé við úthlutun lóðar eða sölu byggingarréttar sem er í eigu sveitarfélags eða sveitarfélagið hefur ráðstöfunarrétt yfir. Eindagi gatnagerðargjalds sem lagt er á skv. a-lið 2. mgr. 3. gr. er 30 dögum eftir gjalddaga.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að gatnagerðargjald sem lagt er á skv. b-lið 2. mgr. og 5. mgr. 3. gr. falli í gjalddaga við útgáfu byggingarleyfis. Greinarmunur þessi á milli gjalddaga er gerður þar sem forsendur álagningar gatnagerðargjalds skv. a-lið 2. mgr. 3. gr. annars vegar og b-lið 2. mgr. og 5. mgr. 3. gr. hins vegar eru ólíkar. Er greinarmunur þessi einnig í samræmi við ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, þar sem kveðið er á um að byggingarleyfi verði ekki gefið út nema eftir greiðslu meðal annars á gatnagerðargjaldi. Eindagi gatnagerðargjalds sem lagt er á skv. b-lið 2. mgr. og 5. mgr. 3. gr. er hinn sami og gjalddagi.
    Í 3. mgr. kemur fram að sveitarfélögum sé heimilt að víkja í samþykkt sinni um gatnagerðargjald frá 1. mgr. ákvæðisins og ákveða gjalddaga og eindaga gatnagerðargjalds með öðrum hætti. Þá er sveitarfélögum jafnframt heimilt að mæla svo fyrir í samþykkt sinni að gjaldið skuli innheimt á fleiri en einum gjalddaga. Með þessu er stefnt að því að sveitarfélög hafi ákveðið svigrúm innan ramma laganna til að ákveða gjalddaga og eindaga gatnagerðargjalds í samþykktum um gatnagerðargjald sem sveitastjórn setur.

Um 8. gr.


    Í greininni er að finna ákvæði um innheimtu vangreidds eða ógreidds gatnagerðargjalds.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að gatnagerðargjald beri dráttarvexti samkvæmt ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá gjalddaga. Ákvæði þetta verður að skoða í samræmi við 7. gr. þar sem mælt er fyrir um eindaga gatnagerðargjalds í 1. og 2. mgr.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að gatnagerðargjald ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði sé tryggt með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign, með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði. Samkvæmt ákvæðinu er lögveðsrétturinn tryggður í tvö ár frá gjalddaga. Ákvæði þetta er ítarlegra en ákvæði gildandi laga hvað varðar lögveðsrétt og aðfararrétt. Loks er í 2. mgr. kveðið á um að gatnagerðargjald sé aðfararhæft án undangengis dóms eða stjórnvaldsúrskurðar, en rétt þykir að kveða með skýrum hætti á um slíkt í lögum.
    Í 3. mgr. er sveitarstjórnum veitt heimild til að afturkalla lóðarúthlutun greiði lóðarhafi ekki gatnagerðargjald á tilskildum tíma, enda sé kveðið um það í úthlutunar- eða byggingarskilmálum. Ákvæði þetta ber að túlka í samræmi við ákvæði a-liðar 2. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 7. gr. þar sem nánar er getið um úthlutun lóðar og gjalddaga gatnagerðargjalds við slíka úthlutun. Málsgrein þessi setur sveitarstjórnum tvö skilyrði vegna afturköllunar á lóðarúthlutun, annars vegar að um sé að ræða drátt á greiðslu gatnagerðargjalds fram yfir tilskilinn tíma og hins vegar að kveðið hafi verið á um slíkt úrræði í úthlutunar- eða byggingarskilmálum. Í 3. mgr. er einnig kveðið á um að sveitarstjórn beri skylda til að tilkynna lóðarhafa um yfirvofandi afturköllun með a.m.k. 30 daga fyrirvara. Skal það gert með sannanlegum hætti, til dæmis með ábyrgðarbréfi eða símskeyti.

Um 9. gr.


    Samkvæmt greininni ber sveitarfélagi að endurgreiða áður innheimt gatnagerðargjald ef lóðarúthlutun er afturkölluð eða ógilt eða lóð skilað. Gjalddagi endurgreiðslunnar er 30 dögum síðar. Í ákvæðinu er jafnframt tekið á því hvernig beri að verðbæta þá fjárhæð sem greidd var vegna gatnagerðargjalds og skal miðað við vísitölu neysluverðs frá greiðsludegi til endurgreiðsludags. Loks skal við drátt á endurgreiðslu sveitarfélags reikna dráttarvexti frá gjalddaga samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðbætur.

Um 10. gr.


    Í 10. gr. er kveðið á um ráðstöfun gatnagerðargjalds.
    Samkvæmt þessari grein frumvarpsins telst gatnagerðargjald markaður tekjustofn fyrir sveitarfélög til að standa straum af gatnagerð sveitarfélagsins. Með orðinu gatnagerð er átt við undirbyggingu gatna, með tilheyrandi lögnum, meðal annars vegna götulýsingar, lagningar bundins slitlags og gangstétta, byggingar umferðareyja og hljóðmana og þess háttar þar sem gert er ráð fyrir slíku í skipulagi. Er þetta í meginatriðum í samræmi við gildandi lög.
    Í greininni er jafnframt lagt til að lögfest verði heimild til að láta gatnagerðargjald standa straum af viðhaldskostnaði gatna í sveitarfélaginu. Ákvæðið felur ekki í sér breytingu frá framkvæmd gildandi laga en rétt þykir að taka af allan vafa hvað þetta snertir. Að lokum er kveðið á um að sveitarfélögum sé heimilt að ráðstafa gatnagerðargerðargjaldi til viðhalds án tillits til eignarhalds gatna.
    Loks er í 2. mgr. tekið fram að skylda sveitarstjórna til gatnagerðar og viðhalds gatna fari eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.

Um 11. gr.


    Líkt og í núgildandi lögum um gatnagerðargjald er í frumvarpi þessu að finna ákvæði um kæruheimild til félagsmálaráðherra. Í 1. mgr. segir að aðili máls geti skotið stjórnvaldsákvörðun sveitarstjórnar samkvæmt lögum um gatnagerðargjald til úrskurðar félagsmálaráðherra, en kæruheimild þessi skerði þó ekki rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Ákvæði þetta er samhljóða ákvæði gildandi laga, sbr. 5. gr. laga nr. 17/1996.
    Í 2. mgr. er kveðið nánar á um heimildir félagsmálaráðherra til aðgerða vegna kærumála. Kemur þar fram að komist ráðherra að þeirri niðurstöðu að stjórnvaldsákvörðun sveitarfélags hafi ekki verið í samræmi við lög geti hann ógilt ákvörðunina og eftir atvikum lagt fyrir sveitarstjórn að taka nýja ákvörðun. Eru hlutverk og heimildir félagsmálaráðherra því skilgreind með ítarlegri hætti en áður.

Um 12. gr.


    Greinin fjallar um samþykktir sveitarfélaga um gatnagerðargjald og birtingu þeirra.
    Í 1. mgr. er kveðið á um skyldu sveitarfélags til að setja samþykkt um gatnagerðargjald fyrir sveitarfélagið. Sambærilegt ákvæði er að finna í 2. mgr. 6. gr. gildandi laga um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, en í ákvæðinu er mælt með ítarlegri hætti en áður fyrir um það hvaða atriði samþykktin skuli hafi að geyma.
    Í 2. mgr. er nánar kveðið á um birtingu samþykktar sveitarstjórnar um gatnagerðargjald en slíka samþykkt ber að birta í B-deild Stjórnartíðinda.

Um 13. gr.


    Í greininni er fjallað um gildistöku og lagaskil. Er þar kveðið á um að gildistaka laganna miðist við 1. júlí 2007 og að frá sama tíma falli lög nr. 17/1996, um gatnagerðargjald, jafnframt úr gildi.
    Í 2. mgr. er kveðið nánar á um lagaskil en ákvæðið gerir ráð fyrir að gjalddagi gatnagerðargjalda ráði því hvort um álagningu og innheimtu gatnagerðargjalds fari samkvæmt núgildandi lögum eða frumvarpi þessu. Falli gatnagerðargjald í gjalddaga fyrir 1. júlí 2007 samkvæmt núgildandi lögum skal því fara samkvæmt ákvæðum þeirra laga um álagningu gjaldsins og innheimtu.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæðið er samhljóða 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í núgildandi lögum. Í ákvæðinu er kveðið á um að þeir skilmálar um gatnagerðargjald, sem sveitarstjórn hefur ákveðið við úthlutun lóðar og lóðarhafi eða lóðareigandi hefur fallist á, skuli ekki víkja fyrir ákvæðum nýrra laga ef þeir eru þeim ósamrýmanlegir. Sama gildir um gerða samninga um gatnagerðargjald af tilteknum lóðum og samninga um greiðsluskilmála. Lóðarhafa og sveitarstjórn er hins vegar heimilt samkvæmt ákvæðinu að semja um að álagning og innheimta gatnagerðargjalds fari samkvæmt ákvæðum frumvarps þessa.


Fylgiskjal I.


Félagsmálaráðuneyti,
skrifstofa sveitarstjórnarmála:

Mat á áhrifum frumvarps til laga um gatnagerðargjald.
(Gert í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga, dags. 31. desember 2005.)


    Þær breytingar frá gildandi lögum um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, sem lagðar eru til í frumvarpinu miða einkum að því að eyða óvissuþáttum sem upp hafa komið við framkvæmd laganna, einkum um það hvort gatnagerðargjald teljist þjónustugjald eða skattur. Í frumvarpinu er sett fram sú grundvallarskilgreining að gatnagerðargjald teljist skattur og sömuleiðis kemur þar fram að ráðstöfun gatnagerðargjalds sé háð tilteknum takmörkunum, þ.e. að gatnagerðargjald sé markaður tekjustofn. Frumvarpið miðar jafnframt að því að að einfalda útreikninga á gatnagerðargjaldi, meðal annars með það fyrir augum að samræma gjaldtökuna milli einstakra sveitarfélaga og auðvelda samanburð.
    Með frumvarpinu er lagt til að eingöngu verði miðað við flatarmál byggingar við útreikning gatnagerðargjalds, í stað þess að veita sveitarstjórnum val milli flatarmáls lóðar, rúmmáls húss og fermetrafjölda húss eða blöndu af þessum leiðum, líkt og gert er í núgildandi lögum. Breytingin er ekki talin skerða svigrúm sveitarfélaga til álagningar gatnagerðargjalds þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að sveitarfélög hafi rúmar heimildir til reglusetningar um gatnagerðargjald, meðal annars með tilliti til heimildar til ákvörðunar álagningarprósentu, sem og almennum og sérstökum lækkunarheimildum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fjárhæð gatnagerðargjalds nemi 15% af byggingarkostnaði fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis eins og hann er hverju sinni samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42/1987, um vísitölu byggingarkostnaðar. Er þetta sama hlutfall og markar hámark gatnagerðargjalds í núgildandi lögum. Til að auka fyrirsjáanleika og gegnsæi er í frumvarpinu hins vegar gert ráð fyrir því að hvert sveitarfélag setji sér sérstaka samþykkt eða gjaldskrá þar sem fjárhæð gatnagerðargjalds er afmörkuð sem hlutfall af fyrrnefndum grunni.
    Í samræmi við gildandi réttarástand heimilar frumvarpið einnig að sveitarfélög ákveði mishátt gatnagerðargjald fyrir einstakar tegundir húsnæðis á grundvelli almennra lækkunarheimilda. Að lokum heimilar frumvarpið sveitarfélögum einnig að lækka innheimt gatnagerðargjald í einstökum tilvikum.
    Að framansögðu verður ekki séð að frumvarpið skerði möguleika sveitarfélaga til að innheimta gatnagerðargjöld né að frumvarpið feli í sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um gatnagerðargjald.


    Í frumvarpinu er gatnagerðargjald skilgreint sem skattur af fasteignum í þéttbýli sem er í samræmi við dómaframkvæmd. Þá er lagt til í frumvarpinu að álagning gatnagerðargjalds verði einfölduð og leitast við að auðvelda samanburð á álagningu gjaldsins á milli sveitarfélaga en um leið að viðhalda því svigrúmi sem þau hafa í gildandi lögum til að ákvarða álagningarhlutfall og beitingu lækkunarheimilda við sérstakar aðstæður.
    Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs þar sem það felur ekki í sér neinar breytingar á skyldum ríkissjóðs eða stofnana þess til greiðslu gatnagerðargjalds.