Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 281. máls.

Þskj. 294  —  281. mál.



Frumvarp til laga

um Náttúruminjasafn Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




I. KAFLI
Markmið og hlutverk.
1. gr.

    Náttúruminjasafn Íslands er eign íslenska ríkisins. Safnið er höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Kostnaður af rekstri Náttúruminjasafnsins greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.

2. gr.

    Hlutverk Náttúruminjasafns Íslands er að varpa ljósi á náttúru Íslands, náttúrusögu landsins, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd, auk þess að varpa ljósi á samspil manns og náttúru og á náttúru landsins í alþjóðlegu samhengi.
    Náttúruminjasafnið safnar, skráir og varðveitir sýningarmuni. Safnið aflar upplýsinga er veita yfirlit yfir náttúru Íslands og nýtingu náttúruauðlinda innan lands og utan, rannsakar og annast kynningu með sýningum og annarri fræðslustarfsemi með það að markmiði að veita sem víðtækasta sýn á íslenska náttúru. Safnið skal miðla fræðslu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings.
    Náttúruminjasafn Íslands veitir öðrum náttúruminjasöfnum ráðgjöf, stuðlar að samvinnu þeirra hér á landi og vinnur að samræmdri safnastefnu á sviði náttúrufræða.
    Náttúruminjasafnið skal leitast við að eiga samstarf við vísinda- og rannsóknastofnanir á vegum ríkisins og annarra aðila á sviði náttúrufræða.

3. gr.

    Náttúrufræðistofnun Íslands er vísindalegur og faglegur bakhjarl Náttúruminjasafnsins og annast að verulegu leyti rannsóknarskyldu þess, sbr. lög nr. 60/1992. Stofnanirnar skulu hafa með sér náið samstarf sem skal grundvallast á sérstöku samkomulagi milli þeirra.
    Safnkostur Náttúruminjasafns Íslands ásamt vísindasöfnum Náttúrufræðistofnunar er undirstaða fræðslu- og sýningarstarfsemi safnsins og rannsókna þess og annarra aðila.

II. KAFLI
Skipulag og yfirstjórn.
4. gr.

    Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn Náttúruminjasafns Íslands.

5. gr.

    Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Náttúruminjasafns Íslands, safnstjóra, til fimm ára í senn. Skal safnstjóri hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfsemi safnsins. Safnstjóri situr í safnaráði samkvæmt stöðu sinni.
    Safnstjóri er stjórnandi safnsins og mótar stefnu þess. Hann er ábyrgur gagnvart ráðherra fyrir fjárhagslegum rekstri og starfsemi safnsins.

III. KAFLI
Ýmis ákvæði.
6. gr.

    Safninu er heimilt að taka aðgangseyri. Þá er safninu heimilt að taka gjald fyrir lán á munum, ljósmyndun muna, afrit af ljósmyndum, sérunnar munaskrár og úttak tölvugagna, sérfræðilega heimildaþjónustu og fjölföldun hvers konar til þess að standa straum af kostnaði. Gjaldskrá fyrir þessa þjónustu skal háð samþykki menntamálaráðherra.

7. gr.

    Menntamálaráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á safnalögum, nr. 106/2001: Í stað orðanna „og sýningar“ í 2. málsl. 5. mgr. 5. gr. laganna kemur: sýningar og rannsóknir.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Gripir, sem við gildistöku laga þessara tilheyra Náttúrufræðistofnun Íslands og hafa fyrst og fremst sýningargildi en ekki vísindagildi, skulu eftir gildistöku laga þessara vera á forræði Náttúruminjasafns Íslands samkvæmt samkomulagi stofnananna, sbr. 3. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Forsaga Náttúruminjasafns Íslands er að í júlí árið 1884 hvatti Björn Bjarnarson, síðar sýslumaður í Dalasýslu, til þess í riti sínu Heimdalli að stofnað yrði Náttúrusafn. Árið 1887 var stofnað íslenskt náttúrufræðifélag í Kaupmannahöfn, Hafnarfélagið, og voru aðalhvatamenn þess Björn og Stefán Stefánsson, síðar skólameistari á Akureyri, en félagið lognaðist út af þegar þeir félagar fóru heim til Íslands. Á vegum þessa félags var safnað nokkrum gripum er runnu til Hins íslenska náttúrufræðifélags sem stofnað var 16. júlí árið 1889. Tilgangur þess félags var „að koma upp sem fullkomnustu náttúrugripasafni á Íslandi, sem sé eign landsins og geymt í Reykjavík“ eins og sagt er í lögum félagsins. Fyrsti formaður var Benedikt Gröndal yngri, ritstjóri og rithöfundur, sem veitti safninu forstöðu út öldina en þá tók Helgi Pjeturs jarðfræðingur við (1900–1905) og síðar Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur (1905–1940). Í fyrstu átti Hið íslenska náttúrufræðifélag ekki völ á neinu húsnæði fyrir muni sína og var safnið þá vistað heima hjá Benedikt Gröndal á Vesturgötu í Reykjavík, en vorið 1890 var leigt herbergi handa safninu í einu af Thomsenshúsum við Hlíðarhúsastíg í Reykjavík (núna Vesturgata 38). Vorið 1892 var safnið flutt í tvö herbergi í húsi Kristjáns Ó. Þorgrímssonar bóksala, sem nú er Kirkjustræti 10 og í eigu Alþingis, en í þeim húsakynnum var safnið til sumarsins 1895. Á þessum fyrstu árum safnsins var það ekki formlega opið almenningi, en „samt getur hver sem vill fengið að sjá það, ef menn snúa sér til formannsins, en það er allt í óreglu“ (úr skýrslu Benedikts Gröndals fyrir árið 1890). Í ágúst 1895 var safnið flutt í húsið Glasgow við Vesturgötu, skömmu áður en Einar Benediktsson keypti það. Þar fékk safnið til umráða stóran sal og var opnað almenningi á hverjum sunnudegi eftir messu. Húsnæði Náttúrugripasafnsins í Glasgow þótti ekki nógu gott og fóru þá að heyrast kröfur um að safnið yrði viðurkennt sem opinber eign landsins, þjóðareign sem þyrfti fullnægjandi húsnæði. Glasgow brann til kaldra kola árið 1903, en áður hafði Náttúrugripasafnið verið flutt (1899) í Doktorshúsið þar sem Stýrimannaskólinn gamli var. Árið 1903 var enn flutt, að þessu sinni í nýtt hús sem Geir Zoëga hafði látið byggja á Vesturgötu 10 í Reykjavík. Þar fékk safnið þokkalega aðstöðu og í skýrslu Hins íslenska náttúrufræðifélags fyrir árið1905 segir m.a.: „Þótt safnið sé eigi stórt, þá er það farið að njóta töluverðrar alþýðuhylli, því aðsóknin er mikil að því þegar það er opið. Það verður því að líkindum smámsaman merkilegur þáttur í alþýðufræðslu vorri.“
    Þegar Safnahúsið við Hverfisgötu var teiknað árið 1906 var Náttúrugripasafninu markaður þar staður. Í félagsskýrslu ársins 1907 kemur fram að ánægja hefur ríkt yfir þessari ákvörðun stjórnvalda: „Það er sómi og ánægja fyrir oss ef vér getum komið upp góðu safni; söfn eru mikils verð menntatæki og að eiga góð söfn er vottur um menningu.“ Ánægjan var þó blandin efa: „Því miður lítur ekki út fyrir að safnið fái að nota þetta húsnæði lengur en 10 ár, því það er ætlað bókasafninu; en vonandi verður það þá einnig orðið of lítið en landið þess megandi að geta þá látið safninu það húsnæði í té sem geti orðið til frambúðar fyrir það og sérstaklega gert handa því.“ Árið 1908 var safnið flutt í hið nýreista safnahús. Þar fékk það til afnota 130 fm sýningarsal ásamt 50 fm geymslu. Árið 1926 þótti aðstaðan í Safnahúsinu vera orðin ófullnægjandi og þá hafði landsbókavörður einnig óskað eftir að fá húsnæði þess til umráða. Þá var ákveðið að byggja hús sem orðið gæti aðsetur safnsins til frambúðar og komst nokkur skriður á það mál.
    Á næstu áratugum voru uppi ýmsar hugmyndir um staðsetningu og byggingu húsnæðis fyrir náttúrugripasafn en engar þeirra urðu að veruleika. Árið 1946 náðist samkomulag um að Háskóli Íslands léti byggja hús fyrir Náttúrugripasafnið fyrir ágóða af happdrætti sínu, en einkaleyfi skólans á happdrættinu var bundið því skilyrði. Ári síðar afhenti Hið íslenska náttúrufræðifélag ríkinu safnið til eignar ásamt byggingarsjóði félagsins gegn loforði um að byggja yfir safnið. Unnið var ötullega að undirbúningi byggingarinnar og voru allar teikningar tilbúnar árið 1950 ásamt líkani af húsinu og lóð undir það. Árið 1951 voru fyrstu lög um náttúrugripasafnið sett, nr. 17/1951. Til að hefja framkvæmdir við húsbygginguna þurfti á þessum tíma svokallað fjárfestingarleyfi frá Innflutningsskrifstofu ríkisins. Sótt var um fjárfestingarleyfi í nóvember 1948, desember 1952, febrúar 1954, janúar 1955, desember 1956 og í janúar 1958. Í umsóknum kemur fram að búið var að tryggja fé til að greiða allan byggingarkostnað og ljúka verkinu. En þrátt fyrir það og þá staðreynd að ríkisstjórn og háskólaráð höfðu samþykkt framkvæmdina, lóð tilbúin og allar teikningar, fékkst fjárfestingarleyfið ekki frá Innflutningsskrifstofu ríkisins og ekkert varð af framkvæmdum.
    Náttúrugripasafnið var til húsa í safnahúsinu til ársins 1960 þegar því var lokað og öllum munum þess pakkað í kassa. Með lögum um almennar náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands, nr. 48/1965, sem tóku við af lögunum frá 1951, um náttúrugripasafn, er kveðið á um að meðal aðalverkefna hinnar nýju stofnunar sé að koma upp sýningarsafni sem veiti sem gleggst yfirlit um náttúru Íslands og sé opið almenningi. Kom að því árið 1967 að Náttúrugripasafn Íslands var opnað í 100 fm bráðabirgðahúsnæði við Hlemmtorg í Reykjavík. Þegar byggingarmálið var strandað 1958 var talið óumflýjanlegt að leysa húsnæðismálið með einhverjum hætti til bráðabirgða. Var þá afráðið að Háskóli Íslands keypti fyrir happdrættisfé heila hæð í þessu húsi við Hlemmtorg sem safnið og starfsmenn þess fengju til umráða. Starfsfólkið flutti þangað 1959, en sýningarsafnið var ekki sett þar upp fyrr en 1967 þegar aðstandendur þess voru orðnir úrkula vonar um fjárfestingarleyfi fyrir nýtt hús. Safnið hefur verið í þessu bráðabirgðahúsnæði allar götur síðan.
    Snemma á 9. áratug síðustu aldar urðu allnokkrar umræður í þjóðfélaginu að frumkvæði Hins íslenska náttúrufræðifélags um framtíð safnsins og framtíðarhúsnæði þess. Umræðan leiddi til þess að árið 1985 fluttu 12 þingmenn úr öllum flokkum þingsályktunartillögu um málið:
    „Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hraða, m.a. í samráði við hóp áhugamanna og Náttúrufræðistofnun Íslands, undirbúningi að byggingu yfir nútímalegt náttúrufræðisafn á höfuðborgarsvæðinu.
    Byggingarundirbúningur og fjárframlög til framkvæmda verði við það miðuð að unnt verði að opna safnið almenningi á árinu 1989 þegar 100 ár verða liðin frá stofnun Hins íslenska náttúrufræðifélags og náttúrugripasafns á þess vegum.“
    Í kjölfar tillögunnar skipaði menntamálaráðherra nefnd til að vinna að málinu, en í meirihlutaáliti hennar, sem skilað var í árslok 1987, er lagt til að Náttúrufræðisafnið verði sjálfseignarstofnun í eigu ríkisins, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands. Menntamálaráðherra skipaði nýja nefnd árið 1989 til að semja drög að frumvarpi til nýrra laga um náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands, kanna möguleika að samkomulagi um byggingu náttúrufræðihúss á höfuðborgarsvæðinu og að athuga stöðu náttúrugripasafna í öðrum landshlutum. Þessi nefnd tók í öllum veigamiklum atriðum undir álit fyrri nefndar og skilaði tvíþættu áliti í mars árið 1990, annars vegar um náttúruhús í Reykjavík og hins vegar nýja lagasetningu um náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands.
    Árið 1990 verða kaflaskil þegar umhverfisráðuneyti er sett á fót og Náttúrufræðistofnun Íslands er færð frá menntamálaráðuneyti til hins nýja ráðuneytis. Það kom því í hlut umhverfisráðherra að fylgja tillögum nefndarinnar eftir og í nóvember 1991 var lögð fram ítarleg skýrsla samstarfshóps um byggingu náttúruhúss í Reykjavík og 1. júní 1992 samþykkti Alþingi ný lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Nýju lögin tóku mið af því samkomulagi sem náðst hafði um stofnun og rekstur náttúrugripasafns á milli ríkisins, Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar. Samkvæmt lagabreytingunni var það ekki lengur lagaleg skylda Náttúrufræðistofnunar Íslands að koma upp sýningarsafni og reka það, heldur fékk stofnunin heimild til að gerast aðili að sýningarsöfnum sem rekin eru af öðrum en ríkinu. Með þessu var verið að greiða fyrir stofnun náttúrugripasafns í sameiginlegri eign Náttúrufræðistofnunar, Háskólans og Reykjavíkurborgar í samræmi við staðfest samkomulag þessara aðila. Unnið var á vegum umhverfisráðuneytis að undirbúningi hins nýja safns 1990–1992 með það fyrir augum að starfsemi gæti hafist í nýju húsi árið 1995, húsi sem hýsti bæði sýningar- og vísindasöfn, með öðrum orðum bæði Náttúruminjasafnið og Náttúrufræðistofnun. Málið strandaði þegar fjárlaganefnd Alþingis samþykkti ekki tillögu ríkisstjórnarinnar um fjárframlag á fjárlögum til verkefnisins þegar hrinda átti því af stað. Reykjavíkurborg og Háskólinn töldu að með því hefði ríkið sagt sig frá gerðu samkomulagi um stofnun og rekstur safnsins og samstarfið lagðist af. Næstu ár var ítrekað reynt að leita leiða til að koma veglegu náttúruminjasafni á fót og voru nokkrar nefndir skipaðar af umhverfisráðherra og ríkisstjórn í þeim tilgangi, en án árangurs.
    Náttúrugripasafnið heyrði til umhverfisráðuneytis frá stofnun þess 1990, en árið 2001 verða þáttaskil þegar Alþingi setur safnalög. Með safnalögum, nr. 106/2001, voru í fyrsta sinn sett rammalög um safnastarfsemi hér á landi. Samkvæmt lögunum taka þau til minja- og listasafna í þeim tilgangi að varðveita og kynna menningarsögu íslensku þjóðarinnar og náttúrusögu Íslands. Í 2. gr. laganna segir að menntamálaráðherra fari með yfirstjórn safnamála og að til minjasafna teljist menningarminjasöfn og náttúruminjasöfn. Í lögunum er fjallað um höfuðsöfn sem eiga að hafa forustu í safnamálum hvert á sínu sviði. Þar er Náttúruminjasafn Íslands tilgreint sem höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Í bráðabirgðaákvæði laganna segir orðrétt: „Ákvæði 5. mgr. 5. gr. sem kveður á um að Náttúruminjasafn Íslands hafi stöðu höfuðsafns kemur ekki til framkvæmda fyrr en sett hafa verið sérlög um Náttúruminjasafn Íslands.“ Af framangreindu er ljóst að setja þarf sérlög um starfsemi Nátttúruminjasafns Íslands. Til að vinna að undirbúningi lagasetningarinnar skipaði menntamálaráðherra 21. janúar 2002 þriggja manna nefnd sem hafði það verkefni að gera tillögu til ráðherra um lagafrumvarp um Náttúruminjasafn Íslands. Átti nefndin samkvæmt skipunarbréfi að skila tillögum sínum í apríl sama ár. Í nefndinni sátu Gunnar Jóhann Birgisson, hrl., formaður, Karitas H. Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri menningarmála í menntamálaráðuneyti, og Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, tilnefndur af umhverfisráðherra. Ragnheiður H. Þórarinsdóttir, sérfræðingur í menntamálaráðuneyti á sviði menningararfsmála, starfaði einnig með nefndinni.
    Það sem fyrst og fremst hefur tafið framlagningu frumvarps þessa er að vandasamt reyndist að leysa úr þeim vandamálum sem fylgja aðskilnaði og verkaskiptingu Náttúruminjasafns og Náttúrufræðistofnunar sem starfar samkvæmt lögum nr. 60/1992. Í safnalögum er að finna nokkur ákvæði um Náttúruminjasafn Íslands, þ.e. að forstöðumaður situr í safnaráði, safnið er miðstöð safnastarfsemi á sínu verksviði og á að vera öðrum söfnum til ráðgjafar. Safnið á að stuðla að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu og kalla eftir safnastefnu safna sem starfa á sviði þess og semja stefnuyfirlýsingu. Ekki síst er hlutverk safnsins sem höfuðsafns á sviði náttúrufræða að annast söfnun, skrásetningu, varðveislu, kynningu og sýningar á náttúru Íslands og nýtingu náttúruauðlinda. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði safnalaga hefur forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands setið í safnaráði. Mörg þau verkefni sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur á sinni könnu eiga einnig við um Náttúruminjasafn sem höfuðsafn. Þau verkefni Náttúrufræðistofnunar sem helst varða verkefni Náttúruminjasafns er skylda stofnunarinnar að stunda vísindalegar rannsóknir á náttúru Íslands, varðveita náttúrugripi, ritsmíðar og önnur gögn á vísindalegum heimildasöfnum, byggja upp aðgengilegt gagnasafn með sem fyllstum heimildum um íslenska náttúru, skrá kerfisbundið einstaka þætti íslenskrar náttúru, sjá um gerð og útgáfu korta, m.a. um jarðfræði og útbreiðslu tegunda, styðja við uppbyggingu sýningarsafna um náttúrufræði með upplýsingum og ráðgjöf og miðla þekkingu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings. Stofnunin getur enn fremur gerst aðili að sýningarsöfnum sem rekin eru af öðrum en ríkinu, hún aðstoðar við gerð sýninga og er heimilt að lána gripi úr söfnum sínum.
    Einnig þurfti að skoða hlutverk náttúrustofa sem sveitarfélögum er heimilt að stofna og starfa á þeirra vegum, því þær sinna einnig mörgum verkefnum sem varða Náttúruminjasafn Íslands. Af þessu leiddi að við gerð frumvarps um Náttúruminjasafn Íslands varð að horfa til laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Í frumvarpinu er gerð tillaga um að Náttúrufræðistofnun Íslands verði vísindalegur og faglegur bakhjarl safnsins og annist að verulegu leyti rannsóknarskyldu þess, sbr. lög nr. 60/1992. Einnig gerir frumvarpið ráð fyrir að aðrar vísinda- og rannsóknastofnanir á vegum ríkisins á sviði náttúrufræða verði nánir samstarfsaðilar Náttúruminjasafns þar sem safnið hefur víðtækar skyldur gagnvart öðrum þáttum náttúrusögunnar, t.d. á sviði veðurfræði, haffræði og jarðskjálftafræði svo eitthvað sé nefnt. Með frumvarpi þessu er lagt til að starfsemi Náttúruminjasafns Íslands verði skipað með sambærilegum hætti og starfsemi annarra höfuðsafna og í því felst m.a. að Náttúruminjasafn Íslands verði að sjálfstæðri stofnun í stað þess að vera deild hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, allt í samræmi við ákvæði safnalaga, nr. 106/2001. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir nánu samstarfi Náttúruminjasafns Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Æskilegt væri því að kanna möguleika þess að stofnanirnar tvær sameinist um húsnæði og aðstöðu fyrir þessa starfsemi.
    Frumvarp þetta er nær samhljóða frumvarpi sem lagt var fram á síðasta þingi (688. mál 132. löggjafarþings). Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérlög um Náttúruminjasafn Íslands sem höfuðsafn á sviði náttúrufræða í samræmi við ákvæði safnalaga, nr. 106/2001. Í frumvarpinu er hlutverk Náttúruminjasafns Íslands skilgreint og gerð grein fyrir skipulagi þess og yfirstjórn. Auk almenns hlutverks safnsins sem höfuðsafns er gert ráð fyrir að safnið hafi jafnframt rannsóknarhlutverk eins og önnur höfuðsöfn samkvæmt safnalögum þó svo að Náttúrufræðistofnun Íslands verði vísindalegur og faglegur bakhjarl safnsins og annist að verulegu leyti rannsóknarskyldu þess, sbr. lög nr. 60/1992. Frumvarpið kveður á um að þessar stofnanir skuli hafa náið samstarf sem skal grundvallast á sérstöku samkomulagi milli þeirra, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Samkvæmt núgildandi safnalögum hefur Náttúruminjasafn Íslands eitt höfuðsafna ekki rannsóknarskyldu, en þar sem öðrum höfuðsöfnum samkvæmt lögunum er ætlað slíkt hlutverk er í frumvarpinu jafnframt lögð til breyting á safnalögum til að samræmis sé gætt milli höfuðsafnanna að þessu leyti.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er kveðið á um að Náttúruminjasafn Íslands sé eign íslenska ríkisins og að það sé höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Er þetta í samræmi við ákvæði 1. mgr., sbr. 5. mgr. 5. gr. safnalaga sem fjallar um höfuðsöfn, en þar segir í 1. mgr. að höfuðsöfn séu í eigu íslenska ríkisins og séu miðstöð safnastarfsemi hvert á sínu verksviði. Þar segir jafnframt að höfuðsöfn skuli stofna með lögum þar sem nánar er kveðið á um starfsemi þeirra. Þá segir í ákvæðinu að kostnaður við reksturinn greiðist úr ríkissjóði.

Um 2. gr.


    Í greininni er fjallað um hlutverk Náttúruminjasafns Íslands og starfsemi þess. Þannig er í 1. mgr. gert ráð fyrir að hlutverk Náttúruminjasafns sé að varpa ljósi á náttúru Íslands, náttúrusögu landsins, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd, auk þess að varpa ljósi á samspil manns og náttúru og á náttúru landsins í alþjóðlegu samhengi. Saga þjóðarinnar er samofin náttúruöflunum og landsmenn hafa gegnum aldirnar sótt viðurværi sitt til náttúrunnar í lofti, á láði og legi. Hlutverk safnsins er ekki síður að lýsa náttúrusögu landsins óháð veru mannsins í landinu og því nauðsynlegt að starfsemin hafi sem víðtækasta skírskotun hvað varðar náttúrusögu. Þá er í málsgreininni undirstrikuð nauðsyn þess að líta á starfsemi safnsins í alþjóðlegu samhengi, m.a. í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga sem íslensk stjórnvöld hafa tekist á hendur.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að Náttúruminjasafnið safni, skrái og varðveiti sýningarmuni. Þá afli safnið upplýsinga er veiti yfirlit yfir náttúru Íslands og nýtingu náttúruauðlinda innan lands og utan, rannsaki og annist kynningu með sýningum og annarri fræðslustarfsemi með það að markmiði að veita sem víðtækasta sýn á íslenska náttúru. Gert er ráð fyrir að safnið vinni með tengsl náttúru og menningarsögu, m.a. þar sem íslensk tunga og menning eru mjög mótuð af náttúrunni. Þá er lögð áhersla á fræðsluhlutverk safnsins hvað varðar miðlun fræðslu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings.
    Í 4. gr. safnalaga er hugtakið safn skilgreint sem stofnun, opin almenningi, sem hefur það hlutverk af safna heimildum um manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar. Skilgreiningin er m.a. byggð á skilgreiningu sem fram kemur í siðareglum ICOM, Alþjóðaráðs safna. Í safnalögum er ekki samræmi milli safna og höfuðsafna hvað verkefni og verksvið snertir. Þannig hefur Náttúruminjasafn eitt höfuðsafna ekki rannsóknarskyldu, sbr. 5. mgr. 5. gr. safnalaga. Ljóst þykir að höfuðsafn verður að uppfylla grundvallarskilyrði safna samkvæmt safnalögum og því er nú lagt til að Náttúruminjasafn hafi rannsóknarhlutverk. Eins og fram kemur í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins mun Náttúrufræðistofnun Íslands annast að verulegu leyti rannsóknarskyldu þess, sbr. lög nr. 60/1992, en lagt er til að stofnanirnar skuli hafa með sér náið samstarf sem grundvallast á sérstöku samkomulagi milli þeirra.
    Í 3. mgr. er lagt til að Náttúruminjasafn Íslands veiti öðrum náttúruminjasöfnum ráðgjöf, stuðli að samvinnu þeirra hér á landi og vinni að samræmdri safnastefnu á sviði náttúrufræða. Safninu ber því nú að sinna öllum þeim meginskyldum sem höfuðsöfnum ber samkvæmt safnalögum.
    Að lokum er kveðið á um í 4. mgr. að Náttúruminjasafnið skuli leitast við að eiga samstarf við aðrar vísinda- og rannsóknastofnanir á vegum ríkisins og annarra aðila á sviði náttúrufræða. Til að Náttúruminjasafnið geti sinnt hlutverki sínu svo vel sé er nauðsynlegt að það hafi gott samstarf við vísinda- og rannsóknastofnanir á sviði náttúrufræða, en með því er m.a. átt við Háskóla Íslands og aðra háskóla, Hafrannsóknastofnunina, Veðurstofu Íslands, Veiðimálastofnun og Íslenskar orkurannsóknir. Einkum er hér miðað við að samstarfið grundvallist á samningum, sbr. 3. mgr. 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997.

Um 3. gr.


    Í greininni er fjallað um tengsl Náttúruminjasafns Íslands við Náttúrufræðistofnun Íslands. Þannig segir í 1. mgr. að Náttúrufræðistofnun Íslands verði vísindalegur og faglegur bakhjarl Náttúruminjasafnsins og annist að verulegu leyti rannsóknarskyldu þess, sbr. lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992. Hnykkt er á nánum tengslum Náttúrufræðistofnunar og Náttúruminjasafnsins og mikilvægi þess að stofnanirnar eigi náið samstarf sín á milli sem skal grundvallast á sérstöku samkomulagi á milli þeirra. Lagt er til í frumvarpinu að Náttúruminjasafnið hafi líkt og önnur höfuðsöfn rannsóknarskyldu, en gert er ráð fyrir að henni verði sinnt að verulegu leyti af Náttúrufræðistofnun Íslands sem vísindalegum og faglegum bakhjarli safnsins, svo sem fyrr greinir. Þannig er t.d. ekki gert ráð fyrir að Náttúruminjasafnið sinni almennt grunnrannsóknum á sviði náttúruvísinda heldur eru slíkar rannsóknir á verksviði Náttúrufræðistofnunar. Því munu rannsóknir safnsins snúa fyrst og fremst að náttúruminjum hvers konar og varðveislu þeirra sem safnið nýtur síðan aðstoðar Náttúrufræðistofnunar við eftir því sem um semst.
    Í 2. mgr. segir að safnkostur Náttúruminjasafns Íslands ásamt vísindasöfnum Náttúrufræðistofnunar verði undirstaða fræðslu- og sýningarstarfsemi safnsins og rannsókna þess og annarra aðila. Með safnkosti er hér átt við muni og minjar sem varðveitt eru á safninu. Gert er ráð fyrir að safnið geti nýtt gripi úr vísindasöfnum Náttúrufræðistofnunar í tengslum við sýningarhald ásamt með aðstoð og þekkingu sérfræðinga stofnunarinnar. Til að tryggja nána samvinnu milli Náttúruminjasafns Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands er mikilvægt að stefna að samnýtingu á geymslu gripa, forvörslu og rannsóknaraðstöðu.

Um 4. gr.


    Í greininni er kveðið á um að menntamálaráðherra fari með yfirstjórn Náttúruminjasafns Íslands og þarfnast greinin ekki frekari skýringa.

Um 5. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra skipi forstöðumann Náttúruminjasafns Íslands sem hafi starfsheitið safnstjóri og verði hann skipaður til fimm ára í senn í samræmi við ákvæði 23. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Lagt er til að forstöðumaður hafi háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfsemi safnsins. Um sambærileg starfsgengisskilyrði forstöðumanns er að ræða og í lögum um Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands. Reyndar er í þjóðminjalögum auk þess kveðið á um stjórnunarreynslu en í þeim síðari reynslu af rekstri listasafna. Ekki er talið nauðsynlegt að lögbinda slík skilyrði hér, enda verður að telja að litið sé m.a. til slíkra þátta sem og annarra sem teljast skipta máli við mat á hæfi umsækjenda um starf forstöðumanns. Þá skal safnstjórinn sitja í safnaráði samkvæmt stöðu sinni og er það í samræmi við ákvæði 2. mgr. 2. gr. safnalaga. Safnstjóri er stjórnandi safnsins og mótar stefnu þess. Hann er ábyrgur gagnvart ráðherra fyrir fjárhagslegum rekstri og starfsemi safnsins. Er þetta í samræmi við ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og laga um fjárreiður ríkisins.

Um 6. gr.


    Í greininni er kveðið á um heimild safnsins til að taka aðgangseyri. Þá er safninu heimilt að taka gjald fyrir ákveðna þætti þjónustunnar, þ.e. fyrir lán á munum, ljósmyndun muna, afrit af ljósmyndum, sérunnar munaskrár og úttak tölvugagna, sérfræðilega heimildaþjónustu og fjölföldun hvers konar til þess að standa straum af kostnaði. Lagt er til að gjaldskrá vegna þessarar þjónustu skuli háð samþykki menntamálaráðherra.

Um 7. gr.


    Í greininni er almenn heimild til handa menntamálaráðherra að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

Um 8. gr.


    Lagt er til að verði frumvarp þetta, sem byggist á safnalögum, nr. 106/2001, að lögum öðlist þau þegar gildi.
    Þá er lögð til breyting á safnalögum samfara því að lagt er til að Náttúruminjasafn hafi nú rannsóknarhlutverk, sbr. athugasemdir við 2. gr. frumvarpsins.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í ákvæði til bráðabirgða kemur fram að gripir sem við gildistöku laganna, verði frumvarp þetta að lögum, tilheyra Náttúrufræðistofnun Íslands og hafa fyrst og fremst sýningargildi en ekki vísindagildi skuli renna til Náttúruminjasafns Íslands. Fjölmargir gripir í eigu Náttúrufræðistofnunar Íslands koma frá Náttúrugripasafni því sem Hið íslenska náttúrufræðifélag stofnaði til árið 1889 og eru fyrst og fremst sýningargripir en ekki vísinda- og rannsóknargripir. Ekki er óeðlilegt að gert sé ráð fyrir að flestir þeirra renni til hins nýja Náttúruminjasafns. Lagt er til að stofnanirnar sjálfar komist að samkomulagi um skiptingu gripanna sín á milli á grundvelli samnings, sbr. 3. gr. frumvarpsins.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Náttúruminjasafn Íslands.


    Tilgangur frumvarpsins er að stofna nýja ríkisstofnun, Náttúruminjasafn Íslands, sem verður höfuðsafn samkvæmt safnalögum, nr. 106/2001. Verkefni stofnunarinnar verða samkvæmt frumvarpinu að safna, skrá og varðveita sýningarmuni, afla upplýsinga er veita yfirlit yfir náttúru Íslands og nýtingu náttúruauðlinda innan lands og utan, rannsaka og annast kynningu með sýningum og annarri fræðslustarfsemi, miðla fræðslu um íslenska náttúru, veita öðrum náttúruminjasöfnum ráðgjöf, stuðla að samvinnu þeirra og vinna að samræmdri safnastefnu á sviði náttúrufræða.
    Hlutverk og verkefni Náttúruminjasafns Íslands verða samkvæmt þessu hliðstæð og hjá Listasafni Íslands og Þjóðminjasafni Íslands samkvæmt safnalögum, nr. 106/2001. Í þeim lögum er Náttúruminjasafninu ekki ætlað rannsóknarhlutverk og eru boðaðar breytingar á því í athugasemdum með frumvarpinu.
    Náttúrufræðistofnun Íslands er ætlað að vera vísindalegur og faglegur bakhjarl Náttúruminjasafns Íslands og annast að verulegu leyti rannsóknarskyldur þess. Skulu stofnanirnar hafa náið samstarf á grundvelli sérstaks samkomulags milli þeirra. Náttúrminjasafninu er jafnframt ætlað að eiga samstarf við aðrar vísinda- og rannsóknastofnanir og aðra aðila á sviði náttúrufræða. Í athugasemdum kemur fram að gert er ráð fyrir að samstarf við þessa aðila grundvallist á formlegum samningum sem uppfylla skilyrði 30. gr. fjárreiðulaga, það er að segja að safnið geri samninga um kaup á þjónustu af þessum aðilum. Samkvæmt þessu má draga þá ályktun að ekki sé gert ráð fyrir að safnið komi upp rannsóknaraðstöðu og ráði fólk í rannsóknarvinnu heldur kaupi það rannsóknarþjónustu að.
    Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins með frumvarpi því sem varð að safnalögum kemur fram það mat að stofnun Náttúruminjasafns muni hafa í för með sér töluverð útgjöld. Útgjöldin voru þó ekki áætluð í umsögninni þar sem það þótti ekki tímabært.
    Samkvæmt upplýsingum menntamálaráðuneytisins liggja engar áætlanir fyrir um uppbyggingu og rekstur Náttúruminjasafnsins. Frumvarpið veitir takmarkaðar upplýsingar sem hægt er að byggja kostnaðarmat á. Þó kemur fram að ráðinn verður forstöðumaður, að gripir sem tilheyra Náttúrufræðistofnun Íslands og hafa fyrst og fremst sýningargildi verði á forræði safnsins og að æskilegt sé að kanna möguleika á að stofnanirnar tvær sameinist um húsnæði og aðstöðu geri með sér samkomulag um ýmis atriði svo sem varðandi sýningu á gripum í vísindasafni Náttúrufræðistofnunar, aðstoð og sérþekkingu starfsmanna Náttúrufræðistofnunar, geymslu gripa, forvörslu og rannsóknaraðstöðu. Að lokum er ekki gert ráð fyrir að Náttúruminjasafn stundi sjálfstæðar rannsóknir nema að litlu leyti heldur geri um þær samninga við ýmsa aðila á sviði náttúrufræða.
    Vegna þess að engar áætlanir liggja fyrir um hið nýja safn gefur fjármálaráðuneytið sér einfaldar forsendur við gerð þessa kostnaðarmats til að gefa grófar hugmyndir um hugsanlegan kostnað. Áætla má að ráðning forstöðumanns valdi 7–8 m.kr. launakostnaði á ári. Útgjöld vegna kaupa á lágmarksskrifstofubúnaði fyrir safnið gætu verið 1–3 m.kr. og lágmarkshúsnæðis- og rekstrarkostnaður sem tengist stofnun safnsins gæti verið á bilinu 1–3 m.kr. Verði fleira fólk ráðið má vænta þess að útgjöld aukist um 3–10 m.kr. fyrir hvert starf sem bætist við og er þá einnig gert ráð fyrir almennum rekstrarkostnaði. Ekkert liggur fyrir um fjölda og samsetningu starfsliðs og því ekki forsendur til að áætla kostnað en reikna má með að safnið verði ekki rekið með færri en 4–6 starfsmönnum að lágmarki og gæti árlegur rekstrarkostnaður þá numið 30–50 m.kr. Náttúrufræðistofnun hefur rekið náttúrugripasafn það sem færist til Náttúruminjasafns í tveimur herbergjum og innheimt aðgangseyri til að standa undir rekstrarkostnaði. Geymsluaðstöðu mun vera ábótavant. Náttúrufræðistofnun gæti, samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar, ef til vill hýst forstöðumann Náttúrufræðisafns í stuttan tíma meðan hann vinnur að áætlunum um stefnu, húsnæði og uppbyggingu þess. Fjármálaráðuneytið hefur litlar forsendur til að meta kostnað við þessa áætlanagerð sem gæti hlaupið á milljónum króna. Engar forsendur eru til að meta rekstrarkostnað safnsins eftir að það er hefur fengið framtíðarhúsnæði en hugsanlega gefa fjárveitingar til hinna höfuðsafnanna vísbendingu. Þjóðminjasafn Íslands fær 304 m.kr. fjárveitingu til rekstrar í fjárlögum 2006 og Listasafn Íslands 124 m.kr. en báðar þessar stofnanir greiða húsaleigu til Fasteigna ríkissjóðs sem stendur undir hluta af kostnaði við húsnæði stofnananna en það er í eigu ríkisins. Bygging nýs húsnæðis, uppsetning grunnsýningar, flutningur og öflun fleiri sýningargripa gæti kostað tugi eða hundruð milljóna króna.
    Verkefnin sem lagt er til að Náttúruminjasafni verði falin eru, að því sem næst verður komist, ekki með fjárveitingu í fjárlögum. Verði frumvarpið að lögum gerir fjármálaráðuneyti ráð fyrir að menntamálaráðuneytið greiði útgjöld sem af því leiða á árinu 2006 af óskiptum liðum ráðuneytisins. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að kostnaður við rekstur safnsins og uppbyggingu verði í samræmi við það sem ákveðið er í fjárlögum á næstu árum. Fjármálaráðuneytið gerir í því sambandi ráð fyrir að menntamálaráðuneytið láti útbúa vandaða áætlun um uppbyggingu og rekstur safnsins og geri ráð fyrir kostnaði við starfsemi þess við gerð fjárlaga, líkt og gildir um aðrar stofnanir, innan þess hluta langtímaáætlunar í ríkisfjármálum sem lýtur að menntamálaráðuneytinu.