Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 338. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 361  —  338. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Flm.: Álfheiður Ingadóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Jón Bjarnason.


1. gr.

    3. málsl. ákvæðis til bráðabirgða X í lögunum fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var flutt á 130. og 131. löggjafarþingi en varð í hvorugt skiptið útrætt. Það er því endurflutt óbreytt.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að kaupendur almenningsvagna sitji við sama borð og kaupendur annarra hópferðabifreiða og njóti endurgreiðslu á 2/ 3 hlutum virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða á tímabilinu 1. september 2000 til 31. desember 2006.
    Með lögum nr. 57/2001 var bundin í lög heimild til að endurgreiða þeim sem hafa leyfi til fólksflutninga í atvinnuskyni 2/ 3 hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða á tímabilinu 1. september 2000 til 31. desember 2003. Með lögum nr. 72/2005 var heimildin framlengd til 31. desember 2006.
    Niðurfelling virðisaukaskatts vegna kaupa á almenningsvögnum er hins vegar óheimil samkvæmt lögum nr. 50/1988 og hafa þeir sem reka almenningssamgöngur, en það eru einkum sveitarfélög og fyrirtæki þeirra, engrar endurgreiðslu notið. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fyrirtæki sem reka almenningssamgöngur sitji við sama borð og þeir sem reka hópferðabifreiðar í samræmi við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
    Jafngild rök liggja að baki nauðsynlegrar endurnýjunar á flota almenningsvagna og flota hópferðabifreiða. Stærsta fyrirtækið á þessu sviði er Strætó bs., sem er byggðasamlag í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þjónustusvæði þess er dreifbýli á Kjalarnesi og í Mosfellsdal, þéttbýli í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ, á Seltjarnarnesi, Álftanesi og í Reykjanesbæ. Í ársbyrjun var þjónustusvæðið útvíkkað til Akraness í tilraunaskyni í tvö ár. Þá hafa Árborg, Hveragerði og Reykjanesbær lýst áhuga á samstarfi við Strætó bs. þannig að svipuð þjónusta verði veitt þessum sveitarfélögum og Akranesi.
    Strætó bs. heldur nú úti akstri með 115–120 vögnum á þjónustusvæði sínu, þar af 50–55 á vegum verktaka. Í bílaflota Strætó bs. eru tveir metanknúnir vagnar og þrír vetnisvagnar sem komu til landsins 2003 en Strætó bs. var meðal fyrstu almenningsvagnafyrirtækja í heiminum til að taka slíka vagna í notkun. Frá stofnun byggðasamlagsins 1. júlí 2001 hefur fyrirtækið keypt 45 nýja vagna og nemur álagður virðisaukaskattur vegna þeirra kaupa 161,6 millj. króna. 2/ 3 hlutar fjárhæðarinnar, þ.e. það sem endurgreiðslan tæki til, nemur því 107,3 millj. kr. Stærsti undirverktaki Strætó bs., Hagvagnar hf., hefur frá sama tíma keypt 21 strætisvagn til aksturs á áðurgreindu þjónustusvæði og nemur álagður virðisaukaskattur vegna þeirra kaupa u.þ.b. 64 millj. kr. og reiknuð endurgreiðsla ef jafnræði væri með almenningssamgöngum og öðrum hópferðum, tæplega 43 millj. kr.
    Utan höfuðborgarsvæðisins er haldið uppi reglubundnum almenningssamgöngum á Akureyri, Ísafirði, Fjarðabyggð, Reykjanesbæ og innan Akraness. Ætla má að endurgreiðsla 2/ 3 hluta virðisaukaskatts vegna kaupa á almenningsvögnum til allra þeirra fyrirtækja sem hér um ræðir gæti numið um 170 millj. kr. vegna tímabilsins 1. september 2000 til 31. desember 2006.
    Loftmengun, svifrik og sót af völdum samgangna er helsta umhverfisvandamálið á höfuðborgarsvæðinu enda byggjast samgöngur nær allar á notkun innflutts jarðefnaeldsneytis. Jafnframt því að styðja við þróun vistvænna orkugjafa í samgöngum er nauðsynlegt að auka hlut almenningssamgangna stórlega til að draga úr loftmengun. Fyrsta skrefið er að tryggja að almenningssamgöngur sitji a.m.k. við sama borð og hópferðaakstur við innkaup á nýjum farartækjum til fólksflutninga. Í þeim tilgangi er frumvarp þetta flutt.