Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 342. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 365  —  342. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ.

Flm.: Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hefja nú þegar viðræður við bæjarstjórn Mosfellsbæjar um stofnun framhaldsskóla í sveitarfélaginu með það að markmiði að skólinn taki til starfa haustið 2007.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð fram á 132. löggjafarþingi (þskj. 176, 176. mál) og er nú lögð fram að nýju.
    Á síðustu árum hefur fjöldi framhaldsskólanemenda á höfuðborgarsvæðinu aukist mjög líkt og víðast hvar annars staðar á landinu. Á árunum 2000–2004 fjölgaði nemendum í framhaldsskólum á Íslandi úr 20.332 í 22.629 eða um rúm 11,2% samkvæmt hagtölum frá Hagstofu Íslands. Fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu að Reykjavík undanskilinni var rétt 18,5% á sama tímabili eða úr 4.593 í 5.443 nemendur. Þessi aukna sókn í menntun er mikið fagnaðarefni en hún leggur stjórnvöldum jafnframt skyldur á herðar í uppbyggingu framhaldsskóla.
    Mosfellsbær er tiltölulega ungt en vaxandi bæjarfélag með um 7.200 íbúa og hlutfall ungs fólks í þeim hópi er hátt. Nú eru þar um 130 manns í hverjum árgangi á framhaldsskólaaldri og margir stærri árgangar á grunnskólaaldri. Engum blöðum er um það að fletta að Mosfellsbær er langstærst þeirra sveitarfélaga landsins sem ekki hafa eigin framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að íbúafjöldinn nái 10.335 árið 2009 og verði um 13.000 árið 2012.
    Án efa er það nálægðin við Reykjavík sem mestu veldur um það að Mosfellsbær hefur setið eftir í uppbyggingu framhaldsskólakerfisins á undanförnum áratugum. Mosfellsbær fer með um 12% af áætluðum stofnkostnaði við Borgarholtsskóla sem er sá framhaldsskóli í Reykjavík sem er næst sveitarfélaginu. Almenningssamgöngur milli Mosfellsbæjar og Borgarholts eru hins vegar ekki nógu góðar til að gera Borgarholtsskóla að ákjósanlegum kosti fyrir framhaldsskólanema í Mosfellsbæ, umfram aðra framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. Það gefur auga leið að sú staðreynd ýtir undir einkabílanotkun þeirra sem þaðan þurfa að sækja framhaldsskóla til nágrannasveitarfélaganna og eykur umferð um Vesturlandsveg á álagstímum.
    Jafnframt er Borgarholtsskóli, sem var þegar með um 1.350 nemendur skólaárið 2004– 2005, að mörgu leyti sérskóli þótt þar séu almennar bóknámsbrautir í boði. Borgarholtsskóli státar til dæmis af fjölmenntabraut, félagsþjónustubraut, námsbrautum í margmiðlunarhönnun, bílgreinum, málmiðnum og verslunarþjónustu auk þess að sjá um nám fyrir skólaliða og stuðningsfulltrúa í grunnskólum Reykjavíkur. Þetta fjölbreytta námsframboð á tvímælalaust sinn þátt í mikilli aðsókn að skólanum og hefur að öllum líkindum laðað marga til framhaldsnáms sem ella hefðu ekki fundið nám við sitt hæfi.
    Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur nú um nokkurt skeið haft hug á að taka upp viðræður við ríkisvaldið um stofnun framhaldsskóla í bænum eins og fulltrúar hennar hafa greint frá á fundi með fjárlaganefnd. Gert er ráð fyrir framhaldsskóla á aðalskipulagi bæjarins og slíkur skóli mundi vafalaust styrkja innviði sveitarfélagsins verulega. Blómlegt félags- og tómstundastarf byggist jafnan upp í kringum starf einstakra framhaldsskóla sem gefa hverju byggðarlagi um sig tækifæri til að styrkja sína sérstöðu með samstarfi við skólana.
    Framhaldsskóli í Mosfellsbæ gæti því hæglega þjónað fleirum en heimamönnum ef þar byggðist upp sérhæft nám að einhverju leyti, t.d. á sviði heilsueflingar og ferðaþjónustu sem nú þegar standa sterkum fótum í bæjarfélaginu. Enn fremur yrði hentugt fyrir íbúa í Grundarhverfi, á Kjalarnesi, á Álfsnesi, í Kjós og nýju hverfi við Úlfarsfell að sækja slíkan skóla vegna nálægðarinnar.
    Mikið brottfall úr framhaldsskólum á Íslandi er áhyggjuefni þar sem nálega helmingur fólks á framhaldsskólaaldri lýkur ekki því skólastigi þrátt fyrir að það hefji þar nám. Eitt af því sem taka verður á til að sporna gegn brottfalli er að unglingum bjóðist sem víðast samfellt nám í heimabyggð til 18 ára aldurs. Flutningsmenn telja því einboðið að Alþingi feli menntamálaráðherra að hefjast handa um uppbyggingu framhaldsskóla í svo stóru og vaxandi sveitarfélagi sem Mosfellsbæ með það að markmiði að sá skóli taki til starfa haustið 2007.