Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 347. máls.

Þskj. 376  —  347. mál.



Frumvarp til laga

um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Lánasjóður sveitarfélaga ohf. er opinbert hlutafélag í eigu sveitarfélaga á Íslandi. Félagið starfar samkvæmt hlutafélagalögum og sem lánafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

2. gr.

    Eignarhlutir í Lánasjóði sveitarfélaga ohf. geta eingöngu verið í eigu íslenskra sveitarfélaga og stofnana og fyrirtækja sem eru að fullu í þeirra eigu.

3. gr.

    Tilgangur Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. er að tryggja sveitarfélögum ásamt fyrirtækjum og stofnunum í eigu sveitarfélaga eða sveitarfélaga og ríkissjóðs lánsfé á hagstæðum kjörum og takmarkast útlán hans við verkefni sem hafa almenna efnahagslega þýðingu.
    Tilgangi og verkefnum félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög nr. 136/2004, um Lánasjóð sveitarfélaga, falla úr gildi þegar Lánasjóður sveitarfélaga ohf. tekur til starfa, sbr. ákvæði til bráðabirgða I.

5. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     a.      Á eftir orðunum „Lánasjóðs sveitarfélaga“ í 2. gr. laga um skattskyldu lánastofnana, nr. 65/1982, með síðari breytingum, kemur: ohf.
     b.      Á eftir orðunum „Lánasjóði sveitarfélaga“ og „Lánasjóðs sveitarfélaga“ í 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum, kemur: ohf.
     c.      Á eftir orðunum „Lánasjóður sveitarfélaga“ í 3. mgr. 2. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, með síðari breytingum, kemur: ohf.
     d.      Á eftir orðunum „Lánasjóður sveitarfélaga“ í 5. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum, kemur: ohf.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Stofna skal hlutafélagið Lánasjóð sveitarfélaga ohf. á stofnfundi sem haldinn skal eigi síðar en 31. mars 2007. Á stofnfundinum skal leggja fram drög að stofnsamningi, stofnefnahagsreikningi og samþykktum fyrir félagið og kjósa stjórn þess. Lánasjóður sveitarfélaga ohf. skal við stofnun yfirtaka allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Lánasjóðs sveitarfélaga og skal stofnefnahagsreikningur miðast við 1. janúar 2007.
    Stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga annast undirbúning að stofnun hlutafélagsins fyrir hönd eigenda þess og yfirtöku á rekstri Lánasjóðs sveitarfélaga. Allur kostnaður af stofnun hlutafélagsins greiðist af Lánasjóði sveitarfélaga.
    Ársfundur Lánasjóðs sveitarfélaga fyrir árið 2006 getur ákveðið að eigið fé lánasjóðsins verði fært niður um allt að 3 milljarða kr. enda uppfylli sjóðurinn þrátt fyrir lækkunina skilyrði laga um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja og hafi nægilegt handbært fé til að standa við skuldbindingar sínar.

II.


    Við yfirtöku Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. á Lánasjóði sveitarfélaga skulu eignarhlutir í félaginu skiptast á eftirfarandi hátt:
    17,472%    Reykjavíkurborg
    5,814%         Vestmannaeyjabær
    5,517%         Kópavogsbær
    5,458%         Akureyrarkaupstaður
    4,251%         Hafnarfjarðarkaupstaður
    4,148%         Ísafjarðarbær
    3,052%         Sveitarfélagið Árborg
    3,042%         Garðabær
    3,030%         Reykjanesbær
    2,995%         Fjarðabyggð
    2,410%         Akraneskaupstaður
    2,394%         Fjallabyggð
    2,339%         Sveitarfélagið Skagafjörður
    2,222%         Norðurþing
    1,853%         Stykkishólmsbær
    1,781%         Borgarbyggð
    1,766%         Snæfellsbær
    1,716%         Rangárþing ytra
    1,669%         Rangárþing eystra
    1,587%         Fljótsdalshérað
    1,489%         Mosfellsbær
    1,466%         Blönduósbær
    1,348%         Sveitarfélagið Hornafjörður
    1,347%         Dalvíkurbyggð
    1,320%         Vesturbyggð
    1,159%         Seltjarnarneskaupstaður
    1,089%         Grindavíkurbær
    0,977%         Seyðisfjarðarkaupstaður
    0,960%         Hveragerðisbær
    0,863%         Sveitarfélagið Ölfus
    0,857%         Húnaþing vestra
    0,831%         Bolungarvíkurkaupstaður
    0,722%         Sveitarfélagið Álftanes
    0,680%         Vopnafjarðarhreppur
    0,633%         Sandgerðisbær
    0,625%         Bláskógabyggð
    0,612%         Dalabyggð
    0,597%         Grundarfjarðarbær
    0,537%         Langanesbyggð
    0,457%         Sveitarfélagið Garður
    0,448%         Strandabyggð
    0,424%         Sveitarfélagið Vogar
    0,381%         Skaftárhreppur
    0,369%         Mýrdalshreppur
    0,367%         Eyjafjarðarsveit
    0,366%         Skeiða- og Gnúpverjahreppur
    0,348%         Breiðdalshreppur
    0,330%         Djúpavogshreppur
    0,299%         Súðavíkurhreppur
    0,298%         Reykhólahreppur
    0,293%         Höfðahreppur
    0,246%         Flóahreppur
    0,243%         Hrunamannahreppur
    0,223%         Grímsnes- og Grafningshreppur
    0,215%         Hvalfjarðarsveit
    0,211%         Skútustaðahreppur
    0,202%         Þingeyjarsveit
    0,201%         Tálknafjarðarhreppur
    0,177%         Svalbarðsstrandarhreppur
    0,153%         Húnavatnshreppur
    0,136%         Aðaldælahreppur
    0,129%         Grýtubakkahreppur
    0,111%         Hörgárbyggð
    0,092%         Borgarfjarðarhreppur
    0,081%         Kjósarhreppur
    0,081%         Akrahreppur
    0,078%         Svalbarðshreppur
    0,062%         Arnarneshreppur
    0,056%         Kaldrananeshreppur
    0,045%         Eyja- og Miklaholtshreppur
    0,039%         Ásahreppur
    0,036%         Árneshreppur
    0,036%         Bæjarhreppur
    0,030%         Skagabyggð
    0,027%         Grímseyjarhreppur
    0,027%         Fljótsdalshreppur
    0,020%         Tjörneshreppur
    0,017%         Helgafellssveit
    0,017%         Skorradalshreppur
    Hlutabréf í félaginu, útgefin í tengslum við stofnun þess, skulu undanþegin stimpilgjaldi.

III.


    Ekki mega fara fram viðskipti með hluti í félaginu fyrr en 1. janúar 2009. Sveitarfélögum er þó heimilt að færa eignarhluti sína til stofnunar eða fyrirtækis sem að fullu er í eigu sveitarfélagsins.

IV.


    Nú vanrækir sveitarfélag greiðslu afborgana og vaxta af lánum úr Lánasjóði sveitarfélaga, sem tekin voru fyrir 1. janúar 2005, á réttum gjalddaga, og getur félagsmálaráðherra þá greitt vanskilin af framlagi hlutaðeigandi sveitarfélags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eftir því sem til vinnst. Sama gildir um greiðslur sem Lánasjóður sveitarfélaga kann að hafa innt af hendi vegna ábyrgða sem hann hefur tekist á hendur skv. 10. gr. þágildandi laga, nr. 35/1966, um Lánasjóð sveitarfélaga.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.


    Frumvarp þetta er samið í félagsmálaráðuneytinu í samráði við Lánasjóð sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga. Með frumvarpinu er stefnt að því að hrinda í framkvæmd breytingum á félagsformi og skilgreina eignarhald lánasjóðsins ásamt því að skilgreina í lögum hlutverk hans og starfsemi í samræmi við ríkisstyrkjareglur EES-samningsins.
    Lánasjóður sveitarfélaga var stofnaður með lögum nr. 35/1966 en starfar nú samkvæmt lögum nr. 136/2004. Sjóðurinn hefur frá stofnun verið óskipt sameign allra sveitarfélaga á Íslandi og hefur hann það hlutverk að tryggja sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum með veitingu lána eða ábyrgða.
    Með setningu laga nr. 136/2004 var lagaumhverfi lánasjóðsins breytt til samræmis við almenn starfsskilyrði fjármálafyrirtækja á fjármálamarkaði eftir því sem fært var, meðal annars með niðurfellingu á ákvæðum um árleg framlög til hans úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og frá ríkissjóði. Í tengslum við niðurfellingu þessara framlaga var beinum afskiptum ríkisins af rekstri lánasjóðsins hætt og öll ábyrgð á stjórn hans og rekstri færð til sveitarfélaganna. Þá var Lánasjóði sveitarfélaga gert að starfa sem lánafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki á grundvelli starfsleyfis Fjármálaeftirlitsins og undir eftirliti þess fékk hann starfsleyfi í ágúst 2005. Verði frumvarp þetta að lögum verða tekin frekari skref í átt að aðlögun lánasjóðsins að almennum starfsskilyrðum fjármálafyrirtækja.

II.


    Í framhaldi af lagabreytingunni 2004 mótuðu sveitarfélögin nýja stefnu fyrir lánasjóðinn þar sem ákveðið var að efla starfsemi hans með því að auka hlutdeild hans í lánsfjármögnun sveitarfélaganna til hagsbóta fyrir þau.
    Lánasjóður sveitarfélaga hefur mjög gott lánstraust og getur tryggt sveitarfélögunum lánsfé á kjörum sem eru hagstæðari en þau sem sveitarfélögin geta útvegað sér eftir öðrum leiðum, bæði innan lands og utan. Lánveitingar sjóðsins hafa því aukist verulega eftir breytingarnar og námu þær samtals 26,6 milljörðum kr. 30. júní 2006 samanborið við 14,6 milljarða kr. í árslok 2004. Að sama skapi hafa lántökur sveitarfélaganna hjá öðrum aðilum dregist saman, bæði hjá innlendum og erlendum bönkum og á innlendum skuldabréfamarkaði.
    Efnahagur lánasjóðsins er afar traustur. Eigið fé hans var um 11,5 milljarðar kr. 30. júní 2006 og eiginfjárhlutfallið, svonefnt CAD-hlutfall, 206,6% en þarf að vera 8% samkvæmt reglum um eigið fé fjármálafyrirtækja.
    Auk traustrar fjárhagsstöðu helgast hið góða lánshæfi lánasjóðsins af því að á grundvelli 73. gr. sveitarstjórnarlaga er sveitarfélögum heimilt að veita sjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar fyrir lánum sem þau taka eða ábyrgðum sem þau veita. Sjóðurinn hefur því aldrei tapað útláni frá því að hann hóf starfsemi sína árið 1967.
    Annars staðar á Norðurlöndum er annað fyrirkomulag viðhaft til að ná fram sömu markmiðum. Til að tryggja lánstraust lánasjóða sveitarfélaga þar hafa sveitarfélögin tekið á sig óskipta ábyrgð á skuldbindingum lánasjóðanna til að tryggja þeim hæsta mögulegt lánshæfismat. Þetta á við um Danmörku, Finnland og Svíþjóð. Í Noregi er um að ræða banka sem er 80% í ríkiseigu auk þess sem sérstök yfirlýsing ríkisstjórnar styrkir lánshæfismatið.
    Telja verður mikilvægt að ákvæði 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga verði haldið í lögum enda er það forsenda þess að meginmarkmiðið með rekstri sérstaks lánasjóðs sveitarfélaga náist, þ.e. að tryggja þeim sveitarfélögum sem lakar standa aðgang að lánsfé á hagstæðum kjörum. Fjárhagsstaða sveitarfélaga er eins og kunnugt er afar misjöfn. Verst er hún hjá þeim sveitarfélögum sem glíma við fólksfækkun og einhæft atvinnulíf. Það er augljóslega mikið hagsmunamál fyrir þau sveitarfélög sem lakar standa að njóta sömu lánskjara og þau sveitarfélög sem eru vel sett fjárhagslega. Í því ljósi gegnir Lánasjóður sveitarfélaga þýðingarmiklu hlutverki í félagslegu og byggðalegu tilliti. Ef ákvæðisins nyti ekki við yrði mun erfiðara að tryggja umræddum sveitarfélögum hagstæðustu lánakjör því eins og áður er getið skiptir það umtalsverðu máli fyrir lánshæfi sjóðsins að tapsáhætta hans af útlánum er hverfandi. Ákvæðið gefur lánasjóðnum þannig kost á að útvega sér hagstæðara lánsfé til endurlána en annars væri mögulegt.

III.


    Í áliti félagsmálanefndar Alþingis um frumvarp til laga um Lánasjóð sveitarfélaga, sem síðar varð að lögum nr. 136/2004, segir meðal annars eftirfarandi:
    „Í 1. gr. gildandi laga um Lánasjóð sveitarfélaga kemur fram að sjóðurinn sé sameign allra sveitarfélaga á Íslandi og er ekki gerð breyting hvað þetta varðar í frumvarpinu. Nefndin telur mikilvægt að eignaraðild að sjóðnum verði skilgreind nákvæmar en nú er gert og að eignarhlutur hvers sveitarfélags fyrir sig verði skilgreindur. Slíka vinnu ætti að hefja sem fyrst og stefna að því að henni ljúki innan árs frá gildistöku laga þessara.“
    Félagsmálanefnd lagði einnig til þá breytingu á fyrirliggjandi frumvarpi að lögin yrðu endurskoðuð eigi síðar en við árslok 2008 í ljósi þróunar á íslenskum fjármálamarkaði.
    Í framhaldi af áliti félagsmálanefndar tók stjórn lánasjóðsins skilgreiningu eignarhalds til umfjöllunar og á fundi hennar 2. mars 2005 var gerð svohljóðandi samþykkt:
    „Með tilvísan til álits félagsmálanefndar Alþingis frá 8. desember sl., sem fram kom við afgreiðslu frumvarps til laga um Lánasjóð sveitarfélaga, samþykkir stjórnin að leita samninga við Ólaf Nilsson, endurskoðanda hjá KPMG, um að leiða vinnu við nánari skilgreiningu á eignarhaldi lánasjóðsins. Kvaddir verði til aðrir sérfræðingar eftir þörfum og framkvæmdastjóra falið að starfa með þeim. Verkið skal unnið í náinni samvinnu við stjórn lánasjóðsins. Jafnframt skal stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga upplýst um framgang þess og leita skal umsagnar hennar áður en niðurstöður verða lagðar fyrir ársfund lánasjóðsins. Stefnt er að því að nánari niðurstöður um skilgreiningu á eignarhaldi verði lagðar fyrir ársfund lánasjóðsins sem haldinn verður haustið 2006. Formanni var falið að kynna ákvörðun stjórnarinnar á komandi ársfundi.“
    Í framhaldinu hafa verið gerðar ýmsar kannanir á rekstri og eiginfjármyndun lánasjóðsins allt frá stofnun hans, jafnframt því sem leitað hefur verið hliðstæðna við formbreytingu fyrirtækja og stofnana hér á landi á liðnum árum. Þá voru kannaðir kostir og gallar helstu félagsforma á Íslandi og farið yfir starfsemi lánasjóða sveitarfélaga í öðrum norrænum ríkjum. Auk Ólafs hefur framkvæmdastjóri lánasjóðsins komið að verkinu og er endanleg skýrsla þeirra til stjórnar sjóðsins um málið dagsett 12. september 2006.
    Á grundvelli þessarar vinnu lagði stjórn lánasjóðsins fram tillögur á ársfundi sjóðsins og var þar samþykkt samhljóða svohljóðandi ályktun:
    „Ársfundur Lánasjóðs sveitarfélaga haldinn á Akureyri 28. september 2006 samþykkir að fela stjórn sjóðsins að vinna að breytingum á lagaumgjörð hans með það að markmiði að:
     1.      Eignarhald sveitarfélaga á sjóðnum verði skilgreint í lögum þannig:
                  –      Að íbúafjöldi sveitarfélaga á hverju ári frá 1967 til 2004 myndi skiptihlutfall á þeim hluta eigin fjár, sem varð til með framlögum hvers árs úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og ríkissjóði.
                  –      Að lánsviðskipti sveitarfélaga miðað við útistandandi lán í árslok hvers árs frá 1967 til 2004 myndi skiptihlutfall á þeim hluta eigin fjár, sem myndaður var ár hvert með vaxtatekjum af útlánum að frádregnum rekstrarkostnaði.
     2.      Stofnað verði opinbert hlutafélag um sjóðinn, sem eingöngu verði í eigu sveitarfélaga auk stofnana og fyrirtækja alfarið í þeirra eigu. Atkvæðisréttur einstakra hluthafa takmarkist við 15% af heildarhlutafé.
     3.      Lagðar verði hömlur á viðskipti með hluti í félaginu með þeim hætti að ekki verði hafin viðskipti með þá fyrr en reynsla er komin á rekstur sjóðsins í nýju félagsformi. Lagt er til að þeim hömlum verði létt af í fyrsta lagi við árslok 2008.“
    Að fenginni skilgreiningu eignarhalds á lánasjóðnum er ljóst að hann verður ekki áfram í óskiptri sameign allra sveitarfélaga á Íslandi eins og tilgreint er í gildandi lögum. Því var talið nauðsynlegt að lokinni skilgreiningu á eignarhlutum einstakra sveitarfélaga að finna hentugt félagsform fyrir lánasjóðinn til framtíðar. Í fyrrgreindri samþykkt ársfundar lánasjóðsins felst ósk eigenda sjóðsins um að lánasjóðnum verði breytt í hlutafélag. Þar sem félagið verður eingöngu í eigu sveitarfélaga beint eða óbeint verður lánasjóðurinn þá opinbert hlutafélag, sbr. lög nr. 90/2006, um breytingu á hlutafélagalögum.
    Er gert ráð fyrir því að við stofnun opinbers hlutafélags um sjóðinn verði eignarhald í samræmi við þau hlutföll sem tilgreind eru í ákvæði til bráðabirgða II. Nánari grein er gerð fyrir því í athugasemdum við það ákvæði frumvarpsins hvaða forsendur liggja til grundvallar skilgreiningu eignarhalds.
    Samkvæmt 8. gr. laga um Lánasjóð sveitarfélaga, nr. 136/2004, verður félagsformi lánasjóðsins ekki breytt nema með lögum og er nauðsynlegt að afla samþykkis Alþingis fyrir því að þær breytingar sem eigendur sjóðsins hafa samþykkt að ráðast í geti öðlast gildi. Jafnframt er talið mikilvægt í ljósi þess að sérstök lög gilda um sjóðinn að Alþingi staðfesti þá skiptingu á eignarhaldi sem samþykkt var á ársfundinum og móti að öðru leyti starfsumhverfi sjóðsins til framtíðar þannig að tryggt verði að lánasjóðurinn geti rækt sem best almannaþjónustuhlutverk sitt við sveitarfélögin í landinu.

IV.


    Jafnframt skilgreiningu á eignarhaldi og breytingu á félagsformi er eðlilegt að aðlaga lagaumgjörð sjóðsins að öllu leyti að samkeppnisákvæðum EES-samningsins, en svo var ekki gert að fullu við setningu laga um sjóðinn, nr. 136/2004. Þá var eins og áður er fram komið stigið það mikilvæga skref að fella brott ákvæði í lögum um framlög til sjóðsins úr ríkissjóði og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Jafnframt var lánasjóðnum gert að starfa sem lánafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og uppfylla þar með almennar kröfur sem gerðar eru til slíkra fyrirtækja.
    Þau sérstöku réttindi sem lánasjóðurinn nýtur nú samkvæmt lögum eru eftirfarandi:
          Undanþága frá greiðslu stimpilgjalds af skuldabréfum sem lánasjóðurinn tekur og veitir skv. 9. gr. laga um Lánasjóð sveitarfélaga, nr. 136/2004.
          Undanþága frá greiðslu fjármagnstekjuskatts skv. 2. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, og 5. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.
          Undanþága frá greiðslu tekjuskatts skv. 2. gr. laga um skattskyldu lánastofnana, nr. 65/1982.
          Heimild til sveitarfélaga til að veita lánasjóðnum veð í tekjum sínum sem tryggingu fyrir lánum sem þau taka eða ábyrgðum sem þau veita, sbr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.
    Með niðurfellingu núgildandi laga um sjóðinn sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi fellur niður undanþága frá greiðslu stimpilgjalds af lánum sem sjóðurinn tekur og veitir. Sjóðurinn er nú orðinn lánafyrirtæki og greiðir sem slíkur ekki stimpilgjald af lánsfjáröflun sinni skv. 6. gr. laga um skattskyldu lánastofnana, nr. 65/1982. Það mun því ekki hafa áhrif á rekstur sjóðsins eða lántökukostnað sveitarfélaganna hjá honum þótt undanþáguákvæði varðandi greiðslu stimpilgjalds verði afnumið.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að önnur sérréttindi lánasjóðsins verði óbreytt í lögum, en við þá breytingu að hann verður opinbert hlutafélag er nauðsynlegt að bæta skammstöfuninni „ohf.“ aftan við heiti sjóðsins í viðkomandi lagaákvæðum, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Er það ákvæði byggt á þeim rökum að formbreyting af þeim toga sem lögð er til í frumvarpinu eigi ekki að hafa áhrif á skattskyldu lánasjóðsins. Er rétt að ítreka að tilgangur sjóðsins, rekstur hans og eignarhald verða í meginatriðum óbreytt ef frá er talið rekstrarformið.
    Eins og fram kemur hér að framan er gert ráð fyrir að félagslegt og byggðalegt hlutverk lánasjóðsins verði fest í sessi með því að halda óbreyttum ákvæðum um heimild sveitarfélaga til að veita lánasjóðnum veð í tekjum sínum. Reglur EES-réttar um ríkisaðstoð gera ráð fyrir að aðildarríki þurfi að réttlæta sérstök réttindi á borð við skattfrelsi og á meðan lánasjóðurinn nýtur slíkra réttinda sem túlka má sem ríkisaðstoð skv. 61. gr. EES-samningsins er honum óheimilt að lána til annarra verkefna en þeirra sem teljast vera þjónusta sem hefur almenna efnahagslega þýðingu. Undir þá skilgreiningu falla lögákveðin verkefni sveitarfélaga og stofnana þeirra ef um er að ræða þjónustu sem einkaaðilar veita ekki. Starfsemi fyrirtækja eða félaga í eigu sveitarfélaga sem eru í samkeppnisrekstri eða veita þjónustu sem er í samkeppni við einkaaðila fellur hins vegar utan þeirrar skilgreiningar og verður lánasjóðnum því óheimilt að lána til slíkra aðila eða verkefna. Til þess að taka af allan vafa um að lánasjóðnum er ætlað að starfa í samræmi við reglur EES-samningsins er því nauðsynlegt að setja í lög ákvæði um að starfsemi hans takmarkist við lánveitingar til verkefna sveitarfélaga, stofnana þeirra og fyrirtækja sem veita þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu þannig að hann megi ekki lána til fyrirtækja í samkeppnisrekstri. Gert er ráð fyrir að eftirlit hvað þetta varðar falli undir almennt eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, með síðari breytingum.

V.


    Í aðdraganda tillögugerðar var á vegum stjórnar lánasjóðsins farið yfir starfsemi sambærilegra sjóða á Norðurlöndum. Lánasjóðir sveitarfélaga í öðrum norrænum ríkjum eiga sér mjög mismunandi sögu og eru þeir því afar frábrugðnir hver öðrum í uppbyggingu og skipulagi. Þar er því ekki um samræmt skipulag lánasjóða að ræða sem hafa mætti til hliðsjónar hér á landi, en fyrirkomulagið í Finnlandi er næst því sem lagt er til að verði tekið upp á Íslandi. Hér verður gerð stuttlega grein fyrir skipulagi og starfsemi lánasjóða sveitarfélaga á hverju Norðurlandanna fyrir sig.

Kommunekredit, Danmörku.
    Kommunekredit er stofnað með lögum frá árinu 1898 og er því elsti lánasjóður sveitarfélaga á Norðurlöndum. Félagið var stofnað af dönskum sveitarfélögum sem „kreditforening“ sem er algengt samvinnufélagsform í Danmörku.
    Kommunekredit er eini lánasjóðurinn á Norðurlöndunum sem ekki starfar sem fjármálafyrirtæki undir eftirliti fjármálaeftirlits. Félagið er undir eftirliti innanríkis- og heilbrigðisráðuneytisins og er það byggt á sérstökum lögum um sjóðinn. Á vordögum 2006 voru samþykkt ný lög um Kommunekredit sem taka gildi 1. janúar 2007. Kommunekredit mun samkvæmt hinum nýju lögum starfa áfram sem „kreditforening“. Samþykki ráðuneytisins þarf til að breyta samþykktum félagsins.
    Eingöngu er lánað til danskra sveitarfélaga eða til sameignarfélaga þeirra (I/S) eða félaga gegn ábyrgð dansks sveitarfélags. Öll sveitarfélög fá lán með sömu kjörum.

Municipality Finance PLC, Finnlandi.
    Municipality Finance PLC (f. Kuntarahoitus Oyj.) var upprunalega stofnað árið 1989 af Lífeyrisstofnun sveitarfélaga (Local Government Pension Institution – LGPI) til að útvega finnskum sveitarfélögum hagstætt lánsfé. Municipality Finance PLC tók þá lán með ábyrgð LGPI. Árið 1989 stofnuðu 186 finnsk sveitarfélög Municipal Housing Finance, og var tilgangur þess sjóðs að útvega sveitarfélögum hagstætt lánsfé vegna byggingar félagslegra leiguíbúða en sveitarfélögin tóku þá við því verkefni af ríkinu. Árið 1996 var stofnaður með sérstökum lögum Ábyrgðasjóður sveitarfélaga (Municipal Guarantee Board – MGB) með aðild svo til allra finnskra sveitarfélaga. Tilgangur MGB er að ábyrgjast lántökur sjóða sem fjármagna sveitarfélög til að lækka fjármagnskostnað þeirra. Ef lánasjóðirnir standa ekki við skuldbindingar sínar getur lánardrottinn krafist greiðslu frá MGB sem sendir kröfu á sveitarfélögin sem verða þá að greiða samstundis. Ábyrgð einstakra sveitarfélaga er skipt (pro rata). Með þessum hætti er sjóðunum tryggt hæsta mögulega lánshæfismat og bestu kjör í lántökum. Árið 2001 voru Municipality Finance og Municipality Housing Finance sameinuð í einn sjóð sem ber nafnið Municipality Finance PLC.
    Municipality Finance PLC er hlutafélag í eigu finnskra sveitarfélaga og Sambands finnskra sveitarfélaga (57,5%) og LGPI (42,5%). Samkvæmt samþykktum félagsins má enginn eiga hlut í félaginu nema sveitarfélög, stofnanir og félög í þeirra eigu, samtök sveitarfélaga og Lífeyrisstofnun sveitarfélaga nema til komi sérstök heimild félagsins.
    Lendi eignarhlutur af einhverjum ástæðum í höndum annarra eiga aðrir eigendur rétt á að leysa hlutinn til sín eftir ákveðnum reglum. Í samþykktum félagsins eru einnig ákvæði um hámark atkvæðisréttar. Hámark atkvæða sem hver einstakur eigandi má fara með á hluthafafundi er 15%. Ekki hafa orðið eigendaskipti á hlutum í Municipality Finance PLC frá því að félagið var stofnað.
    Ef eigandi hættir að uppfylla skilyrði um að geta verið eigandi, til dæmis við einkavæðingu félags í eigu sveitarfélags, hefur sá eigandi 60 daga til að koma eignarhlutnum í hendur aðila sem hefur rétt til að eiga eignarhlut. Verði það ekki gert má félagið sjálft leysa hlutinn til sín á verði sem er einn tíundi hluti nafnverðs.
    Municipality Finance PLC er með starfsleyfi sem lánafyrirtæki og er undir eftirliti fjármálaeftirlitsins í Finnlandi. Lög um hlutafélög gilda einnig um starfsemina, en engin sérlög eru um félagið. Húsnæðislán eru 42% af heildarútlánum sjóðsins og önnur lán til sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra nema 58%.

Kommunalbanken AS, Noregi.
    Kommunalbanken AS er hlutafélag í eigu norska ríkisins (80%) og Lífeyrisstofnunar sveitarfélaga (20%) stofnað árið 1999. Kommunalbanken AS tók við starfsemi Norges kommunalbank sem var stofnaður árið 1926. Norges kommunalbank var ríkisbanki og voru lántökur hans með ríkisábyrgð. Sá banki greiddi ekki tekjuskatt en Kommunalbanken AS greiðir tekjuskatt eftir venjulegum reglum eftir breytingarnar 1999.
    Bankinn er lánafyrirtæki undir eftirliti fjármálaeftirlitsins og starfar á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki og laga um hlutafélög.
    Markmið ríkisins með Kommunalbanken AS er að viðhalda og efla samkeppni á lánsfjármarkaði fyrir norsk sveitarfélög. Á síðasta ári voru uppi hugmyndir um að selja hlut ríkisins í bankanum til Eksportfinans sem er keppinautur Kommunalbanken AS í lánveitingum til sveitarfélaga, en horfið var frá þeim hugmyndum þar sem sveitarfélögin höfðu áhyggjur af að kjör þeirra á fjármagnsmarkaði versnuðu ef bankinn yrði seldur.
    Bankinn hefur hæsta lánshæfismat frá matsfyrirtækjum. Matið byggist á traustu útlánasafni og skriflegri yfirlýsingu norska ríkisins varðandi eignarhald og markmið með eignarhaldi ríkisins. Ekki er um ábyrgð sveitarfélaga að ræða á skuldbindingum bankans eins og í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð.
    Bankinn lánar svo til eingöngu til sveitarfélaga eða félaga í þeirra eigu með ábyrgð sveitarfélagsins. Verðlagning á lánum til sveitarfélaga er breytileg frá sveitarfélagi til sveitarfélags eftir fjárhagslegum styrk þeirra.

Kommuninvest, Svíþjóð.
    Kommuninvest var stofnað árið 1986 af sveitarfélögum í Örebro-léni undir nafninu Kommuninvest i Örebro í þeim tilgangi að útvega sveitarfélögum í léninu hagstætt lánsfé. Sveitarfélögin voru þá beinir eignaraðilar að félaginu. Vegna góðs árangurs var starfssvæðið útvíkkað og nær nú til allra sveitarfélaga í Svíþjóð. Var forminu þá jafnframt breytt þannig að stofnað var samvinnufélag sem sveitarfélögin eru aðilar að og á samvinnufélagið allt hlutafé í Kommuninvest. Verðmæti stofnfjár hvers sveitarfélags er uppreiknað á hverju ári, en hluti af þeim hagnaði sem myndast í Kommuninvest er yfirfærður í samvinnufélagið sem arðgreiðsla. Félagar í samvinnufélaginu eru nú 186 sveitarfélög en samtals eru 290 sveitarfélög og 18 landsþing í Svíþjóð. Félögum fjölgar á ári hverju. Sveitarfélög sem vilja vera félagar fara í sérstaka fjármálalega úttekt áður en þau eru samþykkt. Sveitarfélög sem eru félagar ábyrgjast skuldbindingar Kommuninvest með óskiptri sjálfskuldarábyrgð og er það grundvöllurinn að háu lánshæfismati.
    Kommuninvest er hlutafélag og greiðir tekjuskatt samkvæmt almennum reglum. Félagið er undir eftirliti sænska fjármálaeftirlitsins. Um samvinnufélagið fer eftir lögum um samvinnufélög. Engin sérlög eru um starfsemina.
    Kommuninvest lánar eingöngu til sveitarfélaga sem eru eignaraðilar og fyrirtækja þeirra sveitarfélaga með ábyrgð þeirra. Ef félag fer úr eigu sveitarfélags er krafist endurgreiðslu lánsins. Ekki er nægilegt að ábyrgðin haldist heldur er krafist yfirráða sveitarfélags/félaga yfir félaginu. Öll sveitarfélög fá lán á sömu vöxtum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er kveðið á um að Lánasjóður sveitarfélaga sé opinbert hlutafélag í eigu sveitarfélaga á Íslandi. Líkt og í gildandi lögum er gert ráð fyrir að lánasjóðurinn starfi sem lánafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Það felur í sér að lánasjóðurinn hefur starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins og sætir eftirliti þess eftir því sem lög kveða á um. Jafnframt kemur fram í greininni að lánasjóðurinn starfi samkvæmt hlutafélagalögum og gilda ákvæði þeirra laga um innri málefni sjóðsins að því leyti sem ekki eru fyrirmæli á annan veg í lögum um lánasjóðinn eða öðrum lögum.

Um 2. gr.


    Í greininni er að finna takmörkun á meðferð eignarhluta í lánasjóðnum sem felst í því að eignarhlutir geta eingöngu verið í eigu sveitarfélaga. Undantekning er þó gerð varðandi stofnanir og fyrirtæki sem eru að fullu í eigu sveitarfélaga. Einnig er gert ráð fyrir að lánasjóðurinn geti átt hluti í sjálfum sér í samræmi við hlutafélagalög. Ekki er því gert ráð fyrir að eignarhlutir í lánasjóðnum geti gengið kaupum og sölum nema milli einstakra sveitarfélaga eða annarra aðila sem falla undir ákvæðið.

Um 3. gr.


    Í greininni kemur fram tilgangur lánasjóðsins en hann er að tryggja sveitarfélögum og skyldum aðilum lánsfé á hagstæðum kjörum. Jafnframt er tekið fram að útlán lánasjóðsins takmarkist við verkefni sem hafa almenna efnahagslega þýðingu. Þessi afmörkun á tilgangi lánasjóðsins hefur þannig bein áhrif á útlán hans, bæði varðandi það til hvaða aðila sjóðurinn getur lánað og í hvaða tilgangi. Er ætlunin að tryggja það að lánasjóðurinn láni ekki til aðila eða verkefna sem geta haft áhrif á samkeppni á almennum markaði.

Um 4. gr.


    Í greininni er kveðið á um að lögin öðlist þegar gildi. Ekki er þó gert ráð fyrir því að gildandi lög um Lánasjóð sveitarfélaga falli úr gildi fyrr en sú formbreyting sem mælt er fyrir um í 1. gr. frumvarpsins og ákvæðum til bráðabirgða hefur náð fram að ganga.

Um 5. gr.


    Í greininni er lagt til að skammstöfuninni „ohf.“ verði bætt aftan við heiti Lánasjóðs sveitarfélaga í þeim lagaákvæðum sem tilgreind eru í greininni til að taka af allan vafa um að þau sérákvæði sem þar er að finna gildi áfram um lánasjóðinn eftir að honum verður breytt í opinbert hlutafélag. Annars vegar er um að ræða ákvæði skattalaga sem kveða á um skattfrelsi lánasjóðsins og hins vegar ákvæði sveitarstjórnarlaga sem kveður á um að sveitarfélög geti veitt lánasjóðnum veð í tekjum sínum.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Í ákvæðinu er mælt fyrir um stofnun opinbers hlutafélags til að taka yfir rekstur Lánasjóðs sveitarfélaga ásamt öllum eignum og skuldbindingum hans. Er gert ráð fyrir að stofnfundur verði haldinn eigi síðar en 31. mars 2007 og að undirbúningur að stofnun hlutafélagsins verði á ábyrgð stjórnar Lánasjóðs sveitarfélaga.
    Í 3. mgr. er ársfundi Lánasjóðs sveitarfélaga veitt heimild til að ákveða að eigið fé lánasjóðsins verði fært niður um allt að 3 milljarða kr. Þar sem eigið fé sjóðsins er mun hærra en krafist er samkvæmt reglum um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja er slík niðurfærsla eigin fjár talin skynsamleg. Gert er ráð fyrir að niðurfærslan verði greidd til eigenda á fjórum árum til að lánasjóðurinn hafi ávallt nægilegt handbært fé til að standa við skuldbindingar sínar. Útgreitt eigið fé mun skiptast á milli eigenda lánasjóðsins í þeim hlutföllum sem tilgreind eru í ákvæði til bráðabirgða II. Nauðsynlegt er að fá heimild löggjafans til þessarar ráðstöfunar vegna ákvæðis 7. gr. gildandi laga.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Samkvæmt efnahagsreikningi lánasjóðsins í árslok 2004 nam eigið fé hans 9.913 millj. kr., en fyrsta reikningsár sjóðsins var árið 1967. Ekki var lagt fram eigið fé í upphafi og hefur eiginfjármyndunin því öll orðið til af hagnaði sjóðsins á líftíma hans. Tekjum sjóðsins samkvæmt rekstrarreikningum má skipta í þrjá meginþætti. Þeir eru framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, framlag ríkissjóðs og síðan rekstrartekjur sjóðsins af útlánum umfram rekstrargjöld. Fyrstu árin vó jöfnunarsjóðsframlagið þyngst í tekjum sjóðsins en hin síðari ár eru það fjármunatekjurnar sem hafa myndað meginhluta hagnaðarins.
     Framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og ríkissjóðs.
    Framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga var ákveðið í lögum um lánasjóðinn frá stofnun hans þar til framlagið var fellt niður með lögum í árslok 2004. Hefur verið litið á það sem framlag sveitarfélaganna til lánasjóðsins þar sem það framlag hefur verið tekið af óskiptu fé jöfnunarsjóðsins og skerti því úthlutunarfé jöfnunarsjóðsins til einstakra sveitarfélaga. Í upphafi var kveðið á um 15 millj. kr. árlegt framlag jöfnunarsjóðsins. Frá upphafi var miðað við að árlegt framlag ríkissjóðs skyldi ákvarðað í fjárlögum hverju sinni.
    Vegna verðbólgu rýrnuðu framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og ríkissjóðs til sjóðsins verulega fyrstu árin en þau voru óbreytt árum saman. Stjórn lánasjóðsins beitti sér fyrir breytingu á lögunum árið 1973 og með lögum nr. 99/1974 var 5. gr. þágildandi laga um lánasjóðinn breytt á þá lund að árlegt framlag til sjóðsins úr jöfnunarsjóðnum varð 5% af heildartekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í stað 15 millj. kr. fastrar fjárhæðar. Framlag ríkissjóðs var ákveðið 2,5% af heildartekjum jöfnunarsjóðsins í stað fjárhæðar sem ákveðin var í fjárlögum hverju sinni og hafði til dæmis verið 8 millj. kr. í fjárlögum 1974. Við þessar breytingar hækkuðu framlög til lánasjóðsins verulega næstu ár á eftir. Framlag ríkissjóðs til sjóðsins féll niður að fullu frá og með árinu 1984.
    Með lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 91/1989, var framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til lánasjóðsins ákveðið 6,1% af vergum tekjum jöfnunarsjóðsins. Kom þessi breyting til framkvæmda frá og með árinu 1990. Á næstu árum voru framlögin hins vegar skert verulega með breytingum á lögum. Þannig var framlagið árið 1993 skert um 110 millj. kr. Árin 1997–2002 var framlagið skert um 135 millj. kr. á ári og árin 2002–2004 um 200 millj. kr. á ári. Skýrast þær skerðingar af því að Alþingi ákvað að fjármunum þessum yrði beint til stuðnings við stofnframkvæmdir vegna einsetningar grunnskólans. Eins og fram er komið voru lagaákvæði um framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til lánasjóðsins felld brott í árslok 2004 og hefur lánasjóðurinn ekki notið opinberra fjárframlaga frá þeim tíma.
     Fjármunatekjur.
    Framlög jöfnunarsjóðsins og ríkissjóðs til lánasjóðsins hafa verið færð í rekstrarreikning hans allt frá upphafi, en á þeim árum sem sjóðurinn hefur starfað hefur tekjumyndun hans tekið verulegum breytingum. Þannig hafa tekjur af útlánum aukist verulega og eru nú í raun einu tekjur sjóðsins. Samkvæmt rekstrarreikningi ársins 2004 nam hagnaður sjóðsins 810 millj. kr., þar af nam framlag jöfnunarsjóðsins 78 millj. kr. en aðrar tekjur að frádregnum gjöldum voru því 732 millj. kr.
     Myndun eigin fjár.
    Tekið hefur verið saman yfirlit um afkomu sjóðsins og eiginfjárstöðu frá stofnun hans til ársloka 2004 og fjárhæðir færðar til verðlags í september 2005. Rekstrarniðurstaðan, þ.e. hagnaður hvers árs, hefur verið umreiknuð sem mismunur eigin fjár í ársbyrjun og árslok á verðlagi í september 2005 og myndar samanlögð fjárhæð þannig reiknaðrar afkomu eigið fé í árslok 2004 eða 9.913 millj. kr. Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og ríkissjóðs hafa verið framreiknuð sérstaklega án nokkurs frádráttar, en öll rekstrargjöld sjóðsins eru dregin frá fjármunatekjum og hreinar fjármunatekjur eða hreinar tekjur umfram framlög síðan framreiknaðar með sama hætti.
    Niðurstaðan er sú að hagnaður sjóðsins greinist þannig í þúsundum króna milli framlaga og annarra tekna að frádregnum rekstrargjöldum:
Tekjur Hlutfall
Framlög Jöfnunarsjóðs og ríkissjóðs 4.330.599 43,688%
Hreinar tekjur fyrir framlög 5.581.908 56,312%
Samtals 9.912.507 100%
    Skilgreining eignarhalds.
    Lagt er til að eignarhald á Lánasjóði sveitarfélaga verði ákveðið á grundvelli myndunar eigin fjár sjóðsins allt frá stofnun hans þannig að þeim hluta eigin fjár sem myndast hefur af framlögum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og ríkissjóðs verði skipt eftir íbúafjölda sveitarfélaga, en að þeim hluta sem myndast hefur af öðrum tekjum að frádregnum rekstrargjöldum verði skipt eftir viðskiptum við sjóðinn.
    Framlög hvers árs hafa verið reiknuð til verðlags í september 2005 eftir vísitölu neysluverðs eða samsvarandi eldri vísitölum og er þeim skipt eftir íbúafjölda. Fjármunatekjum, þ.e. tekjum af útlánum sjóðsins að frádregnum rekstrargjöldum sjóðsins á hverju ári, hefur verið skipt eftir viðskiptum, en rekstrargjöld sjóðsins eru talin stafa fyrst og fremst af útlánum hans og því eðlilegt að draga þau frá fjármunatekjum en halda framlögum óskertum að þessu leyti. Hagnaður sjóðsins árin 1967 til og með árinu 1979 og enn fremur árið 1983 er eingöngu vegna framlaga, en á þeim árum voru fjármunatekjur lægri en rekstrargjöld í heild. Skipting eiginfjármyndunar á þeim árum byggist því eingöngu á íbúafjölda en fjármunatekjur umfram rekstrargjöld koma til skiptingar frá og með árinu 1980. Í nokkrum tilvikum voru lán skráð á fyrirtæki eða stofnun sveitarfélaga og var réttindum vegna þeirra skipt á þau sveitarfélög sem voru eignaraðilar að þeim fyrirtækjum og stofnunum.
    Með framangreindum aðferðum hefur eignarhlutur hvers sveitarfélags í Lánasjóði sveitarfélaga verið reiknaður eins og greinir í 1. mgr.
    Samkvæmt 2. mgr. er gert ráð fyrir að hlutabréf í hlutafélaginu sem gefin eru út í tengslum við stofnun þess verði undanþegin stimpilgjaldi.

Um ákvæði til bráðabirgða III.


    Í ákvæðinu er lagt til bann við því að viðskipti geti farið fram með hluti í félaginu fyrr en 1. janúar 2009. Talið er nauðsynlegt að reynsla komist á rekstur lánasjóðsins í nýju félagsformi áður er viðskipti með eignarhluti geti hafist. Þó er gert ráð fyrir að sveitarfélögum verði heimilt að færa eignarhluti sína til stofnunar eða fyrirtækis sem er að fullu í eigu sveitarfélagsins. Bent skal á að skv. 2. gr. frumvarpsins munu eignarhlutir í lánasjóðnum ekki geta gengið kaupum og sölum á milli annarra aðila en sveitarfélaga og stofnana eða fyrirtækja þeirra eftir þann tíma sem tilgreindur er í ákvæðinu.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.


    Í ákvæðinu er tekið upp óbreytt ákvæði 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í gildandi lögum um Lánasjóð sveitarfélaga, nr. 136/2004. Í ákvæðinu er fjallað um hvernig fara skuli með vanskil eldri lána og ábyrgða sem sjóðurinn hefur veitt sveitarfélögum.



Fylgiskjal I.


Félagsmálaráðuneyti,
skrifstofa sveitarstjórnarmála:

Mat á áhrifum frumvarps til laga um stofnun opinbers hlutafélags


um Lánasjóð sveitarfélaga.


    
Frumvarpið er samið í félagsmálaráðuneytinu í samráði við Lánasjóð sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga. Frumvarpið miðar að því að breyta félagsformi og skilgreina eignarhald lánasjóðsins ásamt því að skilgreina í lögum hlutverk hans og starfsemi í samræmi við ríkisstyrkjareglur EES-samningsins.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að eignarhlutir í lánasjóðnum geti eingöngu verið í eigu íslenskra sveitarfélaga og stofnana og fyrirtækja sem eru að fullu í þeirra eigu. Tilgangur lánasjóðsins verður sem fyrr að tryggja sveitarfélögum ásamt fyrirtækjum og stofnunum í eigu sveitarfélaga lánsfé á eins hagstæðum kjörum og kostur er á hverjum tíma en tilgangi og verkefnum sjóðsins verður nánar lýst í samþykktum hans.
    Ein mikilvægasta breytingin sem lögð er til í frumvarpinu er skilgreining á eignarhaldi lánasjóðsins en fram til þessa hefur sjóðurinn verið í óskiptri sameign allra sveitarfélaga á landinu. Verði frumvarpið að lögum mun það hafa talsverð áhrif á bókfærðar eignir sveitarfélaga. Eigið fé sjóðsins var um 11,5 milljarðar króna 30. júní 2006. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði I í frumvarpinu getur ársfundur Lánasjóðs sveitarfélaga fyrir árið 2006 ákveðið að eigið fé lánasjóðsins verði fært niður um allt að þrjá milljarða króna. Verði sú heimild nýtt verður hlutafé Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. 8,5 milljarðar króna sem færist til eignar hjá A-hluta sveitarfélaga. Samanlagðar bókfærðar eignir A-hluta sveitarfélaga í lok árs 2005 voru rúmlega 245,5 milljarðar króna og aukast því um tæplega 3,5% við eignfærslu á hlutafé lánasjóðsins.
    Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að gert sé ráð fyrir að niðurfærslan á eigin fé lánasjóðsins verði greidd til eigenda á fjórum árum og mun útgreitt eigið fé skiptast á milli eigenda lánasjóðsins í þeim hlutföllum sem tilgreind eru í ákvæði til bráðabirgða II. Ráðstöfunarfé sveitarfélaga verður því 750 m.kr. hærra en ella á árunum 2007 til 2010.
    Ekki verður séð að frumvarpið feli í sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélög.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um stofnun opinbers
hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

    Með frumvarpinu er stefnt að því að hrinda í framkvæmd breytingum á félagsformi Lánasjóðs sveitarfélaga og skilgreina eignarhald sjóðsins ásamt því að skilgreina í lögum hlutverk hans og starfsemi í samræmi við ríkisstyrkjareglur EES-samningsins. Í meginatriðum verður tilgangur og rekstur sjóðsins að öðru leyti óbreyttur.
    Ekki er gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi að óbreyttu áhrif á útgjöld ríkissjóðs.