Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 382. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 419  —  382. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um breytingar á skattlagningu lífeyrisgreiðslna.

Flm.: Ellert B. Schram, Jóhanna Sigurðardóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp þess efnis að lífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum verði skattlagðar á sama hátt og fjármagnstekjur. Sömuleiðis verði skoðaðir möguleikar á breyttri skattlagningu lífeyrisgreiðslna Tryggingastofnunar ríkisins og öðrum bótum til ellilífeyrisþega. Frumvarpið verði lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi með það fyrir augum að ný álagning taki gildi vegna tekna árið 2007 og komi til framkvæmda við skattálagningu árið 2008.

Greinargerð.


    Hagur eldri borgara, fólks sem hefur náð sextíu og sjö ára aldri, hefur mjög verið í sviðsljósinu undanfarna mánuði og missiri. Aðbúnaður, efnahagur og lífskjör almennt. Skort hefur þjónustuíbúðir og dvalarheimili fyrir aldraða, aðbúnaði er að mörgu leyti ábótavant og flestir sammála um að aðgerða sé þörf á því sviði.
    Ríkisstjórnin hefur m.a. viðurkennt þá staðreynd með yfirlýsingum sínum og fyrirheitum, sem gefin voru út í haust og nú aftur með ákvörðun heilbrigðisráðherra um byggingu hjúkrunarheimila í þágu aldraðra fyrir 1,3 milljarða kr. sem eigi að rísa á næstu fjórum árum.
    Þá hefur tekjuskerðing í almannabótakerfinu sömuleiðis legið undir harðri gagnrýni, enda leiðir það fyrirkomulag til vítahrings og sjálfheldu þegar almennar tekjur lífeyrisþega valda því að bætur til þeirra dragast saman sem nemur tekjuaukningunni. Ríkisstjórnin hefur í raun viðurkennt þessa annmarka með því að stíga það skref að hækka frítekjumarkið um 300 þús. kr. á ári. Sú hækkun er þó að mati margra bitamunur en ekki fjár.
    Þau mál sem nefnd eru hér að framan eru öll réttlætismál gagnvart þeirri kynslóð sem á annað betra skilið en að verða afskiptur hópur í okkar ríka og velstæða samfélagi.
    En langstærsta ranglætið sem snýr að sextíu og sjö ára gömlu fólki og þaðan af eldra er sú skattlagning sem felur það í sér að lífeyrisþegar greiði almennan tekjuskatt af lífeyrissjóðsgreiðslum og ellilífeyri sínum. Hér erum við að tala um allan þorra þess fólks sem er hætt störfum, býr við tiltölulega góða heilsu en hefur litlar sem engar tekjur aðrar en þær sem það hefur sparað til efri áranna, bæði með greiðslum í lífeyrissjóði og með sköttum sínum og gjöldum til hins opinbera.
    Almannatryggingakerfið var á sínum tíma sett á stofn einmitt í þeim tilgangi að fólk væri að tryggja ævikvöld sitt, leggja í sameiginlegan sjóð landsmanna, sem aftur greiddi því þokkalega, til framfærslu og lífsviðurværis, þegar starfsævinni væri lokið.
    Þetta kerfi var og hefur aldrei verið hugsað sem ölmusa. Þetta var og er lífeyrir, sem unnið hefur verið til og allir eiga rétt á, án þess að hann sé síðan klipinn og skertur og skattlagður langt niður fyrir lágmarksframfærslu.
    Á síðari hluta síðustu aldar voru hinir almennu lifeyrissjóðir lögfestir. Launafólki var gert að skyldu að greiða hluta af launatekjum sínum í þessa sjóði, gegn framlagi frá launagreiðanda. Hér var um lögþvingaðan sparnað að ræða. Lífeyrissjóðirnir hafa verið misjafnlega í stakk búnir til að greiða lífeyri þegar þar að kemur en fyrir hinn almenna launamann eru mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur að meðaltali á bilinu 90–180 þús. kr. eftir launum og lengd starfsævinnar. Af þessum lífeyrisgreiðslum borga lífeyrisþegar fullan skatt og lauslegar athuganir benda til að lífeyrisgreiðslur eftir skatt séu að meiri hluta til langt fyrir neðan þau mörk sem talin eru nauðsynleg til lágmarksframfærslu og lífsnauðsynja. Þar koma meðal annars til skattleysismörk, sem meðvitað hafa ekki fylgt launavísitölu og bitna fyrst og fremst á ellilífeyrisþegum.
    Óréttlætið með skattleysimörkin er þó ekki viðfangsefni þessarar tillögu, heldur hitt að leiðrétta það ranglæti sem lífeyrisþegar búa við, í ljósi þess að þeir sem njóta sjálfsaflafjár og ekki þurfa að greiða lögbundnar greiðslur í lífeyrissjóði geta lagt sparnað sinn til hliðar, til ávöxtunar á bankabókum eða í arðsömum viðskiptum, og greiða aðeins 10% fjármagnstekjuskatt af arði eða vöxtum. Annar sparnaður, þ.e. lífeyrisgreiðslurnar af hinum lögbundna skyldusparnaði, er skattlagður með almennum tekjuskatti.
    Það er réttlætismál að hér sitji allir við sama borð. Launamaðurinn sem er skyldugur til að leggja hluta af launum sínum í lífeyrissjóð til að spara til efri áranna á að njóta sömu kjara og skatta og þeir hinir, sem leggja sparnað sinn til hliðar með öðrum hætti.
    Þennan ójöfnuð þarf að laga. Það á ekki að mismuna fólki á þennan hátt enda er hér í eðli sínu um að ræða sparnað með einum eða öðrum hætti, sem á að lúta sömu reglum. Það á ekki að lögþvinga launafólk til að greiða í lífeyrissjóði og láta það svo greiða hærri skatta en aðra, þá sem ávaxta sitt pund með öðrum hætti.
    Sú breyting sem hér er gerð tillaga um væri að mati flutningsmanna geysimikil kjarabót fyrir allan þorra eldri borgara. Með öðrum orðum: gert er ráð fyrir að allir, sextíu og sjö ára og eldri, greiði fjármagnstekjuskatt, eins og hann er á hverjum tíma, af tekjum sínum úr lífeyrissjóðum. Þessi breyting er sanngjörn og réttlát.
    Samkvæmt svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Ágústs Ólafs Ágústssonar (þskj. 1245, 640. mál á 132. löggjafarþingi) kemur í ljós að kostnaður við breytingu á skattlagningu á lífeyristekjum eldri borgara úr lífeyrissjóðum þannig að þær beri fjármagnstekjuskatt kostar hið opinbera um 3,3 milljarða kr., sem er um 1% af heildarútgjöldum ríkissjóðs.
    Mestur hluti þess tekjutaps mundi lenda á sveitarfélögunum, eða um 2,4 milljarðar kr., og leggja því flutningsmenn til að ríkissjóður, að tillögu fjármálaráðherra, brúi það bil með tekjubreytingartillögum milli ríkis og sveitarfélaga. Flutningsmenn leggja ríka áherslu á að sveitarfélögin beri ekki þann kostnað sem hlytist af þessari skattalækkun heldur ríkisvaldið.
    Gera má ráð fyrir að þessi breyting krefjist einhverra annarra breytinga á skattalögum sem geta reynst flóknar og því er farið fram á að hið háa Alþingi samþykki þessa réttarbót sem sinn vilja og beini því til hæstvirts fjármálaráðherra að hann hafi forystu og verkstjórn um að laga skattalög að þessari mikilvægu stefnumótun Alþingis.
    Flutningsmenn telja einnig að í þessari vinnu eigi að koma til skoðunar breytt skattlagning á lífeyrisgreiðslum frá Tryggingarstofnun ríkisins. Í fyrrnefndu svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Ágústs Ólafs Ágústssonar kemur einnig fram að væru slíkar greiðslur skattlagðar með fjármagnstekjuskatti yrði tekjutap hins opinbera um 2,3 milljarðar kr.
    Áríðandi er að þessar lagfæringar verði að veruleika sem fyrst og því er gert ráð fyrir að þær taki gildi fyrir skattaárið 2007 og komi til framkvæmda við skattálagningu árið 2008.