Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 408. máls.

Þskj. 458  —  408. mál.



Frumvarp til laga

um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin
um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

Markmið og yfirstjórn.

    Markmið laga þessara er að kveða á um skipan mála til bráðabirgða á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli í kjölfar samnings um skil Bandaríkjanna á svæðinu til íslenskra stjórnvalda og þar til varanlegri skipan er komið á. Um ytri mörk og skiptingu svæðisins í flugvallarsvæði (svæði A), öryggissvæði (svæði B) og svæði í umsýslu Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. (svæði C) vísast til uppdráttar í fylgiskjali.
    Utanríkisráðherra fer með yfirstjórn mála, þ.m.t. skipulagsmála, á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli uns forsætisráðherra gefur út auglýsingu um að landsvæðið, að hluta eða í heild, hafi verið tekið til annarra nota, sbr. þó ákvæði 3. mgr. 3. gr. laga nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, sbr. lög nr. 46/2006. Í slíkri auglýsingu er heimilt að ákveða að utanríkisráðherra fari til bráðabirgða áfram með yfirstjórn tiltekinna málaflokka á slíku svæði þótt að öðru leyti gildi um það almennar reglur.

2. gr.
Flugvallarsvæði.

    Flugvallarsvæði, þ.e. flugbrauta- og flugverndarsvæði, Keflavíkurflugvallar, sbr. lög nr. 34/2006, um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, er afmarkað sem svæði A í fylgiskjali.
    Utanríkisráðherra skal að höfðu samráði við samgönguráðherra skipa fimm manna nefnd sérfræðinga sem hafi það hlutverk að undirbúa snurðulausa færslu á stjórnun og rekstri Keflavíkurflugvallar, samkvæmt þessari grein, yfir til samgönguyfirvalda. Nefndin skal ljúka störfum og leggja fram tillögur sínar um framkvæmd yfirfærslunnar fyrir febrúarlok 2007.

3. gr.
Öryggissvæði.

    Utanríkisráðherra fer með yfirstjórn öryggissvæðis sem afmarkað er sem svæði B í fylgiskjali. Öryggissvæðið er ætlað til varnarþarfa, þ.m.t. heræfinga og eftir atvikum friðargæsluæfinga, m.a. á vegum Bandaríkjanna eða annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins.
    Heimilt er utanríkisráðherra í reglugerð að mæla nánar fyrir um takmarkanir á umferð og dvöl á öryggissvæði og önnur öryggisatriði. Brot á fyrirmælum reglugerðarinnar varða sviptingu aðgangsheimildar, sektum eða fangelsi allt að fimm árum.
    Utanríkisráðherra er heimilt að fela Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. umsýslu tiltekinna fasteigna á svæði B ef þörf krefur.

4. gr.

Starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf.

    Heimilt er að fela Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. að annast í umboði ríkisins umsýslu fasteigna á svæði sem koma á hið fyrsta í arðbær borgaraleg not, og merkt er sem svæði C í fylgiskjali.
    Enn fremur er heimilt að fela félaginu umsýslu tiltekinna fasteigna á svæði A og önnur verkefni sem tengjast framtíðarþróun og umbreytingu svæða A og C.
    Forsætisráðherra fer með hlutafé ríkisins í félaginu.

5. gr.
Opinber gjöld.

    Fasteignir ríkisins og mannvirki sem Bandaríkin eða Atlantshafsbandalagið hafa skilað til eignar, á svæðum sem tilgreind eru í 2. gr og 1. mgr. 4. gr., eru undanþegin öllum opinberum gjöldum og skyldutryggingu fasteigna. Sú undanþága fellur niður er þeim hefur verið ráðstafað með leigu eða sölu enda sé ekki sérstaklega mælt fyrir um undanþágu frá slíkum gjöldum í öðrum lögum. Undanþágan gildir einnig þótt gefin sé út auglýsing um svæðin skv. 2. mgr. 1. gr.
    Fasteignir og mannvirki ríkisins eða Atlantshafsbandalagsins á öryggissvæði skv. 3. gr. og starfsemi þeim tengd skulu enn fremur undanþegin öllum opinberum gjöldum og skyldutryggingu fasteigna. Utanríkisráðherra er heimilt í samráði við fjármálaráðherra að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd undanþágu frá opinberum gjöldum samkvæmt málsgrein þessari.

6. gr.

Gildistaka.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Reglugerðir, reglur og önnur stjórnvaldsfyrirmæli, sem sett hafa verið á grundvelli laga nr. 106/1954 og 10. gr. laga nr. 82/2000, skulu halda gildi sínu uns nýjar reglugerðir og stjórnvaldsfyrirmæli hafa verið gefin út.

7. gr.

Breyting á lögum.

    Við gildistöku laga þessara kemur í stað orðsins „utanríkisráðherra“ í 1. og 4. mgr. 1. gr. og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 34/2006, um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar: ráðherra.



Fylgiskjal.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 15. mars 2006 tilkynntu bandarísk stjórnvöld íslenskum stjórnvöldum að varanlegum varnarviðbúnaði Bandaríkjanna á Íslandi mundi ljúka í septemberlok 2006. Næstu mánuði fóru fram viðræður milli Íslands og Bandaríkjanna um framtíðarvarnir Íslands og skil á landi og aðstöðu til íslenskra stjórnvalda. Lauk þeim með samningum sem undirritaðir voru í Washington hinn 11. október 2006. Í því fólst að íslensk stjórnvöld tóku aftur við varnarsvæðunum á Keflavíkurflugvelli (þ.m.t. Helguvík og Sandgerði), í Hvalfirði, á Gunnólfsvíkurfjalli, Stokksnesi og Bolafjalli í núverandi ástandi. Jafnframt varð að samkomulagi að íslensk og bandarísk stjórnvöld mundu í sameiningu mæla með því við Atlantshafsbandalagið (NATO) að Íslendingar tækju hið fyrsta við hlutverki gistiríkis af Bandaríkjunum varðandi mannvirki fjármögnuð af bandalaginu á Íslandi.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006 er mörkuð stefna um hvernig staðið verði að umbreytingu varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli. Þar segir að fyrst um sinn verði stjórnsýsla á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli óbreytt en ríkisstjórnin muni vinna að því að yfirstjórn málaflokka og stjórnsýsla breytist til samræmis við það sem almennt tíðkast í landinu. Þá verði stofnað hlutafélag í eigu ríkisins um framtíðarþróun og umbreytingu varnarsvæðisins. Verkefni félagsins verði að koma svæðinu og mannvirkjum á því með skipulegum hætti í arðbær borgaraleg not án þess að það valdi röskun í samfélaginu. Félagið muni lúta forræði forsætisráðherra en sveitarfélögunum á Suðurnesjum verði boðin aðild að stjórn félagsins.
    Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 3/2004, breytt, sbr. reglugerð nr. 123/2006, og kveðið á um að utanríkisráðherra færi með yfirstjórn mála á varnarsvæðum uns auglýsing yrði birt um að svæði hefði verið tekið til annarra nota að hluta eða í heild. Jafnframt var sett ákvæði til bráðabirgða, sbr. reglugerð nr. 125/2006, um að forsætisráðherra færi með hlutafé ríkisins í félagi sem hefði það hlutverk að þróa og umbreyta varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
    Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. var stofnað 24. október 2006. Stjórn þess er skipuð Magnúsi Gunnarssyni, sem jafnframt er formaður stjórnar, Stefáni Þórarinssyni og Árna Sigfússyni. Varamenn eru Hildur Árnadóttir, Helga Sigrún Harðardóttir og Sigurður Valur Ásbjarnarson. Undanfarið hefur verið unnið að því að útfæra nánar verkefni félagsins.
    Frumvarp þetta er flutt til þess að taka af öll tvímæli um réttarstöðuna á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli eftir að því hefur skilað. Mælt er fyrir um óbreytta stjórnsýslu fyrst um sinn en síðan er gert ráð fyrir að svæðinu verði í áföngum komið í önnur not. Ef ekki væri gripið til lagasetningar er hætt við að óvissa skapaðist um það hvort gildandi lagaákvæði um yfirstjórn á Keflavíkurflugvelli stæðust enn og að hvaða marki utanríkisráðherra færi þar enn með stjórnsýslu. Með þessum hætti verður unnt að ganga skipulegar til verks þegar stjórnsýslan á svæðinu verður færð til samræmis við það sem er annars staðar í landinu.
    Erfitt er að áætla hve langan tíma það mun taka að umbreyta svæðinu í heild. Reynsla erlendis sýnir að það getur tekið nokkur ár og ræðst það m.a. af þeim notum sem fyrirhuguð eru. Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. er ætlað að vera leiðandi í þessu efni.
    Frumvarpið tekur ekki til annarra varnarsvæða sem skilað hefur verið en þegar þar að kemur mun utanríkisráðuneytið gefa út auglýsingar um þau svæði og að þau séu ekki lengur frátekin til varnarnota. Á þessum svæðum fer fram starfsemi á vegum Ratsjárstofnunar ef frá er talið varnarsvæðið í Hvalfirði. Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006 er unnið að framtíðartillögum um starfsemi Ratsjárstofnunar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Eins og segir í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er það markmið laganna að kveða til bráðabirgða á um skipan mála á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli uns varanlegri skipan er komið á. Er frumvarpinu einmitt ætlað að bregðast við brýnustu úrlausnarefnum er leiða af skilasamningnum við Bandaríkin. Varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli verður til bráðabirgða skipt í þrjú mismunandi svæði, þ.e. flugvallarsvæði, öryggissvæði og svæði í umsýslu Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. Eru svæðin afmörkuð á uppdrætti á fylgiskjali með frumvarpinu. Er nánar fjallað um hvert þessara svæða í athugasemdum við viðeigandi greinar frumvarpsins.
    Fram kemur í 2. mgr. 1. gr. að utanríkisráðherra fari með yfirstjórn mála eins og verið hefur á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli uns gefin er út auglýsing um svæðið, að hluta eða í heild, hafi verið tekið til annarra nota. Þannig er gert ráð fyrir að svæðinu verði í áföngum komið í önnur not en varnarnot, sbr. þó það sem segir um öryggissvæðið í 3. gr. frumvarpsins. Eins er minnt á að 1. janúar 2007 taka gildi lög nr. 46/2006, um breyting á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996, og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92 1. júní 1989, sem fela í sér að til verður nýtt embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum sem jafnframt mun gegna starfi sýslumanns á Keflavíkurflugvelli. Í lögunum segir að dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra beri að setja sér sameiginlegar leiðbeinandi reglur um meðferð og úrlausn mála sem varða verksvið lögreglustjórans á Suðurnesjum og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli. Í lokamálslið 2. mgr. 1. gr. kemur fram að heimilt sé til bráðabirgða að fela utanríkisráðherra að fara áfram með yfirstjórn tiltekinna málaflokka þótt svæði hafi að öðru leyti verið fellt undir almennar reglur. Þannig er gert ráð fyrir að skipulagsmálin á öllu svæðinu verði áfram fyrst um sinn á einni hendi, sbr. 61. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.

Um 2. gr.


    Samkvæmt lögum nr. 34/2006, um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, annast sú stofnun stjórnun, rekstur og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar í samræmi við ákvæði loftferðalaga. Þá annast stofnunin flugvernd og flugöryggi á flugvellinum. Athafnasvæði Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar innan varnarsvæðisins hefur hingað til ekki verið afmarkað landfræðilega. Er bætt úr því með 2. gr. frumvarpsins. Þar er flugvallarsvæðið skilgreint sem svæði A á fylgiskjali. Innan þessa svæðis gilda því sérstakar reglur sem greina það frá svæðum B og C.
    Starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar heyrir samkvæmt lögum nr. 34/2006 undir yfirstjórn utanríkisráðherra. Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006 munu samgönguráðuneytið og utanríkisráðuneytið vinna að snurðulausri færslu stjórnar samgöngumála á Keflavíkurflugvelli yfir til samgönguráðuneytis. Í þeirri vinnu verður jafnframt tekið tillit til varnarþátta og varnarmálahlutverks utanríkisráðuneytisins. Mun utanríkisráðherra í samráði við samgönguráðherra skipa fimm manna nefnd sérfræðinga til þess að gera tillögur um yfirfærsluna. Ber nefndinni að ljúka störfum ekki síðar en í lok febrúar 2007.
    Gert er ráð fyrir að sjálf yfirfærslan muni svo fara fram á grundvelli auglýsingar skv. 2. mgr. 1. gr.

Um 3. gr.


    Í 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um að utanríkisráðherra fari með yfirstjórn öryggissvæðis sem afmarkað er sem svæði B á fylgiskjali. Samkvæmt samkomulagi Bandaríkjanna og Íslands, sem gert var í Washington 11. október 2006, munu Bandaríkin halda árlega tvíhliða og/eða fjölþjóðlegar heræfingar á íslensku landsvæði og í íslenskri lofthelgi og landhelgi, að fengnu samþykki íslenskra stjórnvalda. Enn fremur er gert ráð fyrir æfingum Íslendinga, herafla annarra bandalagsríkja og eftir atvikum liðsafla annarra ríkja utan NATO, t.d. þátttökuríkja í Samstarfi í þágu friðar (PFP). Öryggissvæðið verður m.a. frátekið til þessara þarfa.
    Í 2. mgr. 3. gr. er utanríkisráðherra heimilað að mæla í reglugerð nánar fyrir um takmarkanir á umferð og dvöl á öryggissvæði og önnur öryggisatriði. Brot á fyrirmælum reglugerðarinnar varða sviptingu aðgangsheimildar, sektum eða fangelsi allt að fimm árum. Refsiramminn er í samræmi við 141. gr. loftferðalaga, nr. 60/1998.
    Í 3. mgr. 3. gr. er utanríkisráðherra heimilað að fela Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. umsýslu tiltekinna fasteigna á svæði B ef þörf krefur.
    Rétt er að geta þess að undir svæði B fellur svæði Ratsjárstofnunar eins og uppdráttur á fylgiskjali ber með sér, olíubirgðastöð í Helguvík og olíuleiðslan frá Helguvík og inn á flugvallarsvæðið.

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að heimilt sé að fela Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. í umboði ríkisins umsýslu fasteigna á svæði sem koma á hið fyrsta í arðbær borgaraleg not, og merkt er sem svæði C á fylgiskjali. Í umsýslu felst m.a. úttekt á svæðinu, hreinsun þess og eftir atvikum niðurrif mannvirkja, rekstur, sala og útleiga fasteigna. Þá tekur ríkið einnig við öllum veitukerfum á svæðinu og mun félagið annast þau fyrst um sinn að minnsta kosti. Gert er ráð fyrri að hreinsun fari fram í nánu samráði við heilbrigðsyfirvöld á Suðurnesjum og Umhverfisstofnun.
    Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. verður einnig heimilt að fela félaginu umsýslu tiltekinna fasteigna á svæði A. Er gert ráð fyrir því að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. taki að sér umsýslu fasteigna sem eru á uppdrætti í fylgiskjali færð á svæði A af flugverndarástæðum en falla vel að hlutverki félagsins. Mun listi yfir byggingarnar sem hér um ræðir fylgja þjónustusamningi sem fjármálaráðherrra gerir við félagið, sjá síðar. Þá er heimilt að fela félaginu önnur verkefni sem tengjast framtíðarþróun og umbreytingu svæða A og C. Er það í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006. Í því felst m.a. úttekt á þróunar- og vaxtarmöguleikum sem kunna að vera fyrir hendi og tillögugerð. Er gert ráð fyrir að félagið starfi í góðri samvinnu við alla þá sem hagsmuna eiga að gæta á Keflavíkurflugvelli og nágrenni, hvort sem um er að ræða ríki og sveitarfélög eða Flugstöð Leifs Eiríkssonar ehf. og þá verktaka sem þegar eru með starfsemi inni á varnarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að verkefni félagsins og greiðslufyrirkomulag verði útfærð í þjónustusamningi sem fjármálaráðherra gerir fyrir hönd ríkisins í samræmi við 30. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, eftir því sem við á. Félagið sjálft mun gagnvart þriðju aðilum lúta sömu reglum og ríkið varðandi t.d. útboðsskyldu verkefna og gagnsæi og jafnræði í rekstri og umsýslu eigna.
    Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. var stofnað 24. október 2006. Félagið er alfarið í eigu íslenska ríkisins. Fer forsætisráðherra fer með hlutafé ríkisins í félaginu, sbr. einnig ákvæði til bráðabirgða við reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 3/2004, sbr. reglugerð nr. 125/2006.

Um 5. gr.


    Fasteignir á varnarsvæðum eru nú þegar undanþegnar opinberum gjöldum á grundvelli laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, og reglugerðar um fasteignaskráningu og fasteignamat, nr. 406/1978.
    Í 1. mgr. 5. gr. er þessi undanþága framlengd uns fasteignir hafa verið teknar í not á grundvelli leigu- eða kaupsamnings. Er þessi ráðstöfun nauðsynleg, t.d. vegna fasteigna sem til stendur að rífa. Þessi undanþága nær til fasteigna ríkisins á varnarsvæðinu sem Bandaríkin eða Atlantshafsbandalagið hafa skilað til eignar, á svæðum sem tilgreind eru í 2. gr og 1. mgr. 4. gr., þ.e. svæði A og svæði C, sbr. fylgiskjal. Undanþágan fellur niður ef fasteignum er ráðstafað með leigu eða sölu enda sé ekki sérstaklega mælt fyrir um undanþágu frá slíkum gjöldum í öðrum lögum. Þar er vísað fyrst og fremst til þess að skv. 6. tölul. 4. gr. reglugerðar um fasteignaskráningu og fasteignamat, nr. 406/1978, eru flugbrautir flugvalla í eigu opinberra aðila og landsvæði umhverfis flugbrautir sem eru ónýtanleg vegna flugumferðar undanþegin fasteignamati og þar með fasteignasköttum. Þá er rétt að geta þess að mannvirki í eigu Atlantshafsbandalagsins munu áfram undanþegin fasteignasköttum á grundvelli c-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. einnig lög um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana, nr. 98/1992.
    Fram kemur í 1. mgr. 5. gr. að undanþágan frá opinberum gjöldum gildi einnig þótt gefin sé út auglýsing um svæðin skv. 2. mgr. 1. gr.
    Eðlilegt þykir að fasteignir og mannvirki á öryggissvæði skv. 3. gr., þ.e. svæði B, sbr. fylgiskjal, sem eru eign íslenska ríkisins eða Atlantshafsbandalagsins skuli enn fremur undanþegin öllum opinberum gjöldum. Svæðið er ætlað til varnarþarfa og því er eðlilegt að það sama eigi við um þetta svæði og gilt hefur um varnarsvæðið í heild til þessa. Sömu sjónarmið eiga við um varnartengda starfsemi af hálfu liðsmanna úr herafla annarra ríkja sem hingað koma í boði íslenskra stjórnvalda eða eftir atvikum æfingar friðargæsluliða. Utanríkisráðherra er heimilað að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd undanþágu frá opinberum gjöldum á öryggissvæðinu. Nauðsynlegt þykir að utanríkisráðherra hafi slíka heimild enda snúa undanþágurnar að varnartengdri starfsemi, mannvirkjum í eigu NATO og þjóðréttarlegum samskiptum við erlend ríki, alþjóðastofnanir og liðsafla þeirra sem njóta úrlendisréttar og skattfrelsis hér á landi. Þetta er einnig í samræmi við þær undanþágur frá opinberum gjöldum sem varnarliðið nýtur samkvæmt ákvæðum varnarsamningsins, lögum nr. 110/1951 og 48. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
    Með undanþágu frá skyldutryggingu fasteigna í 1. og 2. mgr. 5. gr. er vísað til brunatrygginga samkvæmt lögum nr. 47/1994, um brunatryggingar.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.


    Lagt er til að í stað orðsins „utanríkisráðherra“ í lögum nr. 34/2006, um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, komi „ráðherra“. Fyrir vikið verður hægt að ákveða yfirfærslu Keflavíkurflugvallar til samgönguyfirvalda með auglýsingu skv. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um ráðstafanir í kjölfar samnings við
Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

    Tilgangur frumvarpsins er að taka af tvímæli um réttarstöðu á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli í kjölfar samnings um skil Bandaríkjanna á svæðinu til íslenskra stjórnvalda. Mælt er fyrir um óbreytta stjórnsýslu fyrst um sinn en síðan er gert ráð fyrir að svæðinu verði í áföngum komið í önnur not. Á uppdrætti í fylgiskjali með frumvarpinu eru tilgreind ytri mörk svæðisins og skipting þess í flugvallarsvæði (svæði A), öryggissvæði (svæði B) og svæði í umsýslu Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. (svæði C). Í 4. gr. frumvarpsins er heimilað að fela Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. umsýslu fasteigna ríkisins á svæði C sem koma á hið fyrsta í arðbær borgaraleg not, auk tiltekinna fasteigna á svæði A og svæði B, sbr. einnig 3. gr. Áréttað er að fasteignir íslenska ríkisins og Atlantshafsbandalagsins á varnarsvæðum séu áfram undanþegnar öllum opinberum gjöldum og skyldutryggingu fasteigna uns þeim hefur verið ráðstafað með leigu eða sölu.
    Erfitt er að áætla hve langan tíma það muni taka að umbreyta svæðinu í heild. Þó svo að það verði ekki beinlínis rakið til þessa frumvarps má engu síður láta þess hér getið að í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2006 er sótt um 20 m.kr. framlag til að standa straum af stofnun og rekstri hlutafélags sem annast mun framtíðarþróun og umbreytingu varnarsvæðisins samkvæmt þjónustusamningi. Því til viðbótar er sótt um 142 m.kr. framlag í fjáraukalagafrumvarpinu og 280 m.kr. framlag í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007 til að standa straum af kostnaði við umsjón, rekstur, öryggisgæslu og viðhald varnarsvæðisins og mannvirkja íslenska ríkisins á svæðinu. Þar sem vinna við svæðið og umbreytingu þess er rétt að hefjast eru áætlanir um kostnað háðar óvissu. Gert er ráð fyrir að fjárveitingar taki breytingum eftir því sem fasteignum á svæðinu verður komið í borgaraleg not.
    Þessi útgjöld verða hins vegar, eins og áður sagði, ekki beinlínis rakin til frumvarpsins sem slíks og ekki verður séð að lögfesting þess hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.