Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 420. máls.

Þskj. 495  —  420. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „4,99%“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: 4,54%.

2. gr.

    Á eftir 3. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur nýr töluliður sem hljóðar svo: 0,25% af gjaldstofni skv. III. kafla renni til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða, sbr. VI. kafla.

3. gr.

    Á eftir V. kafla laganna kemur nýr kafli, VI. kafli, Jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða, með sex nýjum greinum, svohljóðandi:

    a. (17. gr.)

Markmið.

    Stuðla skal að því að mismunandi örorkubyrði lífeyrissjóða verði jöfnuð eins og nánar greinir í kafla þessum. Til að ná því markmiði skal ríkissjóður veita fjárframlag til lífeyrissjóða samkvæmt ákvæðum þessa kafla.

    b. (18. gr.)

Fjárframlag til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða.

    Fjárframlag til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða skal nema 0,25% af gjaldstofni tryggingagjalds skv. III. kafla, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 3. gr. Framlagið skal greitt í október ár hvert og byggjast á upplýsingum ríkisreiknings um fjárhæð gjaldstofns tryggingagjalds næstliðins árs.

    c. (19. gr.)

Móttakendur framlags til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða.

    Lífeyrissjóðir, sem taka við framlagi til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða, skulu hafa starfsleyfi frá fjármálaráðherra, sbr. ákvæði laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

    d. (20. gr.)

Stjórnsýsla.

    Fjármálaráðuneytið annast úthlutun og greiðslu framlaga til lífeyrissjóða samkvæmt kafla þessum.

    e. (21. gr.)

Skipting framlagsins milli lífeyrissjóða.

    Framlagi til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða skal skipt milli lífeyrissjóða með eftirfarandi hætti:
     1.      Fundin er hlutdeild hvers lífeyrissjóðs í heildarörorkulífeyrisgreiðslum allra lífeyrissjóða á næstliðnu ári.
     2.      Fundin er hlutdeild hvers lífeyrissjóðs í skuldbindingum lífeyrissjóða til greiðslu örorkulífeyris umfram 10% af heildarskuldbindingum sjóðanna í framtíðinni miðað við tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóða við lok næstliðins árs.
     3.      Meðaltalshlutfall skv. 1. og 2. tölul. myndar hlutdeild hvers lífeyrissjóðs í framlagi til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða.

    f. (22. gr.)

Reglugerðarheimild.

    Fjármálaráðherra skal setja reglugerð með nánari ákvæðum um skiptingu og úthlutun fjárframlags til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða.

4. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 4. tölul. 2. mgr. 3. gr. og 18. gr. laganna skal ráðstöfun hluta tryggingagjalds til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða, sbr. VI. kafla, vera sem hér segir á árunum 2007 og 2008:
     1.      Framlag á árinu 2007 skal vera 0,15% af gjaldstofni skv. III. kafla.
     2.      Framlag á árinu 2008 skal vera 0,20% af gjaldstofni skv. III. kafla.
    Þrátt fyrir ákvæði 17., 18. og 19. gr. laganna skal fjárframlag til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða á árunum 2007–2009 eingöngu renna til lífeyrissjóða á samningssviði Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007. Ákvæði 2. gr. kemur til framkvæmda 1. janúar 2009. Lögin koma til framkvæmda við staðgreiðslu tryggingagjalds á árinu 2007 og álagningu ársins 2008. Framlag til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða skal greitt í fyrsta skipti í október 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvíþættar breytingar á lögum um tryggingagjald. Í fyrsta lagi er lagt til, með vísan til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 7. mars 2004 vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, að tryggingagjald verði lækkað um 0,45% frá 1. janúar 2007.
    Í öðru lagi er lagt til að ríkissjóður greiði sem svarar til 0,25% af gjaldstofni tryggingagjalds til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða. Örorkulífeyrisþegum hjá lífeyrissjóðum hefur fjölgað ört undanfarin ár og voru þeir orðnir tæplega 13.000 í desember 2005. Fjölgunin hefur numið 750–800 sjóðfélögum árlega undanfarin þrjú ár. Þá fer meðalaldur öryrkja lækkandi og er nú um 50 ár, en lækkandi meðalaldur öryrkja þýðir jafnframt aukin heildarútgjöld lífeyriskerfisins. Árið 2004 var örorkulífeyrir alls 29% af greiddum lífeyri lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði, eða tæpir 4 milljarðar króna, og um 5 milljarðar króna í lífeyriskerfinu í heild. Örorkubyrðin leggst misjafnlega þungt á lífeyrissjóði og getur numið allt frá 6% til 43% af lífeyrisgreiðslum sjóðanna. Í ljósi þess hve misþungt örorkulífeyrisgreiðslur falla á lífeyrissjóði þykir rétt að jafna þann aðstöðumun sem sjóðirnir búa við með einhverjum hætti.
    Til að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga, gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu hinn 15. nóvember 2005 þar sem sagði að ríkisstjórnin væri reiðubúin að greiða fyrir jöfnun á örorkubyrði milli lífeyrissjóða á samningssviði Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins með framlagi sem svarar til hluta af tryggingagjaldsstofni og kæmi til framkvæmda á þremur árum. Með frumvarpi þessu er hins vegar lagt til að jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða eigi sér stað til frambúðar. Þótt fyrir liggi að örorkubyrði tiltekinna lífeyrissjóða á samningssviði Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sé nú meiri en örorkubyrði annarra lífeyrissjóða þykir eðlilegt að fjárframlag úr ríkissjóði til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða renni í framtíðinni til allra lífeyrissjóða með starfsleyfi fjármálaráðherra. Þannig gerir frumvarpið ráð fyrir því að frá og með árinu 2010 taki jöfnunin til allra lífeyrissjóða með starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Tryggingagjald er greitt af launum allra vinnandi manna og því eðlilegt að ráðstöfun þess til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða nái jafnt til allra lífeyrisþega óháð í hvaða lífeyrissjóð þeir hafa greitt á starfsævinni. Þá á fjöldi sjóðfélaga réttindi í fleiri sjóðum, jafnt sjóðum sem eru á samningssviði ASÍ og SA sem og öðrum lífeyrissjóðum. Vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á lífeyrissjóðaumhverfinu er heldur ekki um það að ræða að skil séu skýr milli einstakra lífeyrissjóða hvað það varðar að sjóðfélagar þeirra séu ýmist allir á samningssviði ASÍ og SA eða utan samningssviðs þessara samtaka. Nær sanni er að flestir lífeyrissjóðir séu blandaðir sjóðir hvað þetta varðar. Er því í frumvarpi þessu lagt til að jöfnunin nái, að loknu því þriggja ára tímabili sem yfirlýsing ríkisstjórnarinnar kveður á um, jafnt til allra sjóða. Þær viðmiðanir sem lagt er til að lagðar verði til grundvallar skiptingu framlagsins milli lífeyrissjóða munu hins vegar gera það að verkum að þeir lífeyrissjóðir sem á hverjum tíma búa við mestu örorkubyrðina munu fá stærstan hluta framlagsins.
    Í samræmi við fyrrgreinda yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verður það hlutfall af gjaldstofni tryggingagjalds, sem ráðstafað verður til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða, 0,15% árið 2007, 0,20% árið 2008 og 0,25% árið 2009. Miðað við áætlaðan gjaldstofn tryggingagjalds ársins 2006 verður framlagið um 940 millj. kr. í október 2007 og 1.336 millj. kr. í október 2008 miðað við áætlaðan gjaldstofn tryggingagjalds árið 2007. Áætlun gjaldstofns tryggingagjalds vegna ársins 2008 liggur ekki fyrir en miðað við áætlun fyrir árið 2007 yrði framlagið um 1.670 millj. kr. í október 2009.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til, með vísan til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 7. mars 2004 vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, að tryggingagjald verði lækkað um 0,45% frá 1. janúar 2007, úr 4,99% í 4,54%.

Um 2. gr.

    Með greininni er lagt til að við 2. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr töluliður, 4. tölul., sem kveður á um að 0,25% af gjaldstofni skv. III. kafla renni til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða, sbr. VI. kafla laganna.

Um 3. gr.

    Með greininni er lagt til að við lögin bætist nýr kafli, VI. kafli, sem ber heitið Jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða. Samkvæmt greininni bætast sex nýjar greinar við lögin sem verða 17.–22. gr.:
     a.      Í grein er ber heitið Markmið (17. gr.) kemur fram að markmið kaflans sé að stuðla að því að mismunandi örorkubyrði lífeyrissjóða verði jöfnuð. Til að ná því markmiði skuli ríkissjóður veita fjárframlag til lífeyrissjóða samkvæmt ákvæðum kaflans.
     b.      Í grein er ber heitið Fjárframlag til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða (18. gr.) kemur fram að fjárframlag til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða skuli nema 0,25% af gjaldstofni tryggingagjalds skv. III. kafla, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna. Framlagið skal greitt í október ár hvert og byggjast á upplýsingum ríkisreiknings um fjárhæð gjaldstofns tryggingagjalds liðins árs. Forsendur fjárframlagsins eru annars vegar gjaldstofn tryggingagjalds og hins vegar upplýsingar um stöðu lífeyrissjóða liðins árs. Framangreindar upplýsingar liggja öllu jöfnu ekki fyrir fyrr en líður á næsta ár. Því er lagt til að útborgun framlagsins eigi sér stað í október þegar allar forsendur liggja fyrir. Slíkt fyrirkomulag ætti að tryggja einfalda umsýslu og málsmeðferð.
     c.      Í grein er ber heitið Móttakendur framlags til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða (19. gr.) kemur fram að lífeyrissjóðir, sem taki við framlagi til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða, skuli hafa starfsleyfi frá fjármálaráðherra, sbr. ákvæði laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
     d.      Í grein er ber heitið Stjórnsýsla (20. gr.) kemur fram að fjármálaráðuneytið muni annast úthlutun og greiðslu framlaga til lífeyrissjóða.
     e.      Í grein er ber heitið Skipting framlagsins milli lífeyrissjóða (21. gr.) er gerð grein fyrir því hvernig skipta skuli framlagi til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða. Skal framlaginu samkvæmt greininni skipt með þeim hætti að í fyrsta lagi skal fundin hlutdeild lífeyrissjóða í heildarörorkulífeyrisgreiðslum meðal allra lífeyrissjóða á næstliðnu ári sem rétt geta átt á framlagi. Í öðru lagi skal fundin hlutdeild hvers lífeyrissjóðs í skuldbindingum lífeyrissjóða til greiðslu örorkulífeyris umfram 10% af heildarskuldbindingum sjóðanna í framtíðinni miðað við tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóða við lok næstliðins árs. Meðaltalshlutfall samkvæmt tveimur framangreindum aðferðum myndar hlutdeild hvers lífeyrissjóðs í framlagi til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða.
     f.      Í grein er ber heitið Reglugerðarheimild (22. gr.) kemur fram að fjármálaráðherra skuli setja reglugerð með nánari ákvæðum um skiptingu og úthlutun fjárframlags til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða.

Um 4. og 5. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

    Markmiðið með frumvarpinu er tvíþætt, annars vegar að lækka tryggingagjaldið og hins vegar að stuðla að því að mismunandi örorkubyrði lífeyrissjóðanna verði jöfnuð. Í frumvarpinu er lagt til að tryggingagjaldið verði lækkað úr 4,99 í 4,54%. Þá er lagt til að 0,25% af gjaldstofni tryggingagjalds skuli renna til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða. Hlutfallið af gjaldstofninum verður þó hækkað í skrefum eða í 0,15% árið 2007, í 0,20% árið 2008 og svo í 0,25% árið 2009. Í frumvarpinu er kveðið á um skiptingu framlagsins á milli lífeyrissjóða en fjármálaráðherra skal setja reglugerð um nánari útfærslu á skiptingu fjárframlags til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða.
    Lækkun á tryggingagjaldi lækkar tekjur um 2.800 m.kr. miðað við áætlaðan gjaldstofn tryggingagjalds ársins 2006. Framlög til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóðanna verða 940 m.kr. árið 2007, 1.300 m.kr. árið 2008 og 1.700 m.kr árið 2009.