Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 56. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 706  —  56. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um Ríkisútvarpið ohf.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Málið var sent til meðferðar í nefndinni að lokinni 2. umræðu samkvæmt samkomulagi þingflokkanna á Alþingi. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason, skrifstofustjóra í menntamálaráðuneyti, Sigurbjörn Magnússon hrl., Gunnar Björnsson, skrifstofustjóra starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis, Sigurð Þórðarson og Jón Loft Björnsson frá Ríkisendurskoðun, Ara Edwald forstjóra 365 miðla, Magnús Ragnarsson frá Skjá einum, Guðmund Gylfa Guðmundsson, framkvæmdastjóra fjármáladeildar Ríkisútvarpsins, Þorstein Þorsteinsson, forstöðumann markaðssviðs Ríkisútvarpsins, Baltasar Kormák frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Pál Gunnar Pálsson forstjóra og Guðmund Sigurðsson aðstoðarforstjóra Samkeppniseftirlitsins, Árna Stefán Jónsson, varaformann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og Halldóru Friðjónsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Áslaugu Björgvinsdóttur, dósent við Háskólann í Reykjavík, Sigurjón Högnason frá ríkisskattstjóra, Ólaf E. Friðriksson, Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti og Jón Vilberg Guðjónsson og Guðmund Árnason ráðuneytisstjóra frá menntamálaráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að ríkisstofnunin Ríkisútvarpið verði lögð niður og að opinbert hlutafélag verði stofnað um rekstur hennar. Frumvarp um Ríkisútvarpið er nú til umfjöllunar í þriðja sinn en frumvarpið var fyrst lagt fram á 131. löggjafarþingi.
    Meiri hlutinn leggur til tvenns konar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæði 98. gr. tekjuskattslaga, nr. 90/2003, gildi um nefskattinn. Í greininni er m.a. kveðið á um skyldur skattstjóra til að tilkynna álagningu opinberra gjalda og auglýsa lok álagningar, en slík auglýsing markar upphaf kærufrests. Með breytingunni er tryggt að málsmeðferðarreglur tekjuskattslaga gildi um nefskattinn og er orðalag hennar í samræmi við 3. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, sem er fyrirmynd ákvæðisins.
    Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til breytingu á ákvæðum frumvarpsins er fjalla um niðurfellingu laga nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið. Meiri hlutinn leggur til að lög um Ríkisútvarpið falli brott 1. apríl 2007 í stað 1. febrúar 2007. Með þeim breytingum er nægur tími tryggður fyrir Alþingi til að kjósa menn til setu í stjórn, halda stofnfund og að lokum skrá opinbera hlutafélagið formlega.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 12. jan. 2007.



Sigurður Kári Kristjánsson,


form., frsm.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Guðjón Ólafur Jónsson.



Gunnar Örlygsson.


Sæunn Stefánsdóttir.