Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 444. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 748  —  444. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar um greiðslur úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur fjármálaráðherra greitt úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum með vísan til heimildar í 33. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997? Ef svo er, hvenær og hversu oft? Hve há var fjárhæðin hverju sinni og hvenær fór fram lögbundið samráð við hlutaðeigandi ráðherra? Hvenær og hvernig var fjárlaganefnd Alþingis gerð grein fyrir slíkum greiðslum? Hvenær var aflað samþykkis Alþingis fyrir greiðslunum?

    Í spurningunni kemur ekki fram um hvaða tímabil er spurt en eftirfarandi svör miðast við síðastliðið ár. Sú grein fjárreiðulaganna sem vísað er til, 33. gr., fjallar um ófyrirséða greiðsluskyldu. Fjármálaráðherra er samkvæmt greininni heimilt, að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra, að inna greiðslu af hendi enda þoli hún ekki bið, jafnvel þótt hún eigi sér ekki heimild í fjárlögum. Tilefnin sem flokkast undir þetta ákvæði takmarkast því við greiðslur áður en frumvarp til fjáraukalaga verður að lögum sem hafa verið ófyrirséðar við samþykkt fjárlaga fyrir árið. Ýmsar ákvarðanir um útgjöld sem byggjast á samningum og samþykktum ríkisstjórnar falla því ekki undir 33. gr. fjárreiðulaganna.
    Útgjöld sem sannarlega voru ófyrirséð við samþykkt fjárlaga fyrir árið 2006 tengjast brottför varnarliðsins af Keflavíkurflugvelli. Um mitt ár 2006 var ljóst að kostnaður ríkissjóðs ykist verulega vegna þessa. Samráð við hlutaðeigandi ráðherra fór fram á ríkisstjórnarfundum þar sem lögð voru fram minnisblöð um afleiðingar af brotthvarfi varnarliðsins. Fljótlega eftir að greiðsluþörf myndaðist lagði fjármálaráðherra fram frumvarp til fjáraukalaga þar sem sótt var um heimildir vegna þessara gjalda. Með því var fjárlaganefnd Alþingis gerð grein fyrir málinu. Í fjáraukalögum sundurliðast þessar greiðslur á tvo liði, annars vegar 537 millj. kr. hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvelli og hins vegar 500 millj. kr. hjá Landhelgisgæslunni.
    Undir 33. gr. fjárreiðulaganna má einnig flokka gjaldfærslu fjármagnstekjuskatts hjá ríkissjóði en í fjárlögum var ekki gert ráð fyrir gjaldfærslu í þeim mæli sem raun varð. Skýrist það einkum af hærri vaxtatekjum af innistæðu ríkissjóðs í Seðlabankanum. Skatturinn færist reyndar einnig sem tekjur hjá ríkissjóði og hefur því ekki áhrif á afkomu ársins.