Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 655. máls.

Þskj. 981  —  655. mál.



Frumvarp til laga

um réttarstöðu liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins
og Samstarfs í þágu friðar o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Ríkisstjórninni er heimilt að fullgilda fyrir Íslands hönd eftirtalda alþjóðasamninga:
     1.      Samning frá 19. júní 1951 milli aðila að Norður-Atlantshafssamningnum um réttarstöðu liðsafla þeirra.
     2.      Samning frá 19. júní 1995 milli aðildarríkja að Norður-Atlantshafssamningnum og annarra ríkja, sem eru aðilar að Samstarfi í þágu friðar, um réttarstöðu liðsafla þeirra ásamt bókunum við þann samning frá 19. júní 1995 og 19. desember 1997.

2. gr.

    Ákvæði laga þessara gilda um erlendan liðssafla sem dvelur á Íslandi á grundvelli þeirra alþjóðasamninga sem tilgreindir eru í 1. og 2. tölul. 1. gr. eða á grundvelli bókunar frá 28. ágúst 1952 varðandi réttarstöðu fjölþjóðlegra hernaðarlegra höfuðstöðva sem stofnsettar eru samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum.
    Utanríkisráðherra er heimilt að ákveða með auglýsingu að ákvæði laga þessara skuli einnig gilda um annan erlendan liðsafla sem dvelur á Íslandi á grundvelli alþjóðasamninga sem veita slíkum liðsafla sömu réttarstöðu og veitt er í framangreindum samningum.
    Mönnum í erlendum liðsafla sem dvelur hérlendis á grundvelli heimildar skv. 1. eða 2. mgr. er heimilt að bera vopn hérlendis enda hafi þeir heimild til þess samkvæmt reglum þess sendiríkis sem þeir tilheyra og að uppfyllt séu skilyrði sem íslensk stjórnvöld kunna að setja varðandi slíkan vopnaburð.

3. gr.

    Utanríkisráðherra fer með fyrirsvar af hálfu íslenska ríkisins í samskiptum við erlendan liðsafla skv. 2. gr., sendiríki hans og þau hermálayfirvöld sem hann lýtur.
    Utanríkisráðherra fer með fyrirsvar af hálfu íslenska ríkisins vegna undirbúnings og fyrirkomulags friðargæsluæfinga og heræfinga sem haldnar eru hérlendis með samþykki íslenskra stjórnvalda og þátttöku erlends liðsafla skv. 2. gr.

4. gr.

    Erlendum hermálayfirvöldum er heimilt að fara með refsilögsögu og agavald yfir liðsafla sínum og borgaralegri deild hans, eða einstaklingi úr skylduliði framangreindra eininga, á íslensku yfirráðasvæði í samræmi við ákvæði alþjóðasamninga skv. 2. gr.

5. gr.

    Íslenskum lögregluyfirvöldum er heimilt að handtaka mann úr liðsafla sendiríkis eða borgaralegri deild þess, eða einstakling úr skylduliði framangreindra eininga, sé þess óskað vegna kæru fyrir verknað sem er refsiverður samkvæmt lögum sendiríkisins og hermálayfirvöld þess eiga lögsögu yfir á íslensku yfirráðasvæði á grundvelli alþjóðasamninga skv. 2. gr. Þetta gildir jafnvel þótt sá handtekni sé grunaður um verknað sem ekki er refsiverður samkvæmt íslenskum lögum. Framselja skal hinn handtekna til hermálayfirvalda sendiríkisins sem fyrst og í síðasta lagi tuttugu og fjórum tímum eftir handtökuna.


6. gr.

    Hver sá sem ljóstrar upp um eða kemur á framfæri vitneskju sem leynt á að fara varðandi öryggi þess erlenda liðsafla, sem dvelur á Íslandi á grundvelli samninga skv. 2. gr., eða varðandi öryggi aðildarríkja þessara samninga skal sæta fangelsi allt að sextán árum.
    Hver sá sem falsar, eyðileggur eða nemur á brott skjöl eða hluti sem hafa þýðingu fyrir erlendan liðsafla, sem dvelur hér á grundvelli samninga skv. 2. gr., eða aðildarríki þessara samninga skal sæta fangelsi allt að sextán árum.
    Hver sá sem með gáleysi eða ásetningi skýrir frá án leyfis, tekur eða birtir myndir hvers konar, þ.m.t. loftmyndir, af hernaðarmannvirkjum, birgðaskemmum, búnaði eða hernaðarundirbúningsaðgerðum erlends liðsafla skv. 2. gr., skal sæta sektum eða fangelsi í allt að þremur árum.
    Hafi verknaður skv. 1. og 2. mgr. þessarar greinar verið framinn af gáleysi varðar það fangelsi allt að þremur árum eða sektum ef sérstakar málsbætur eru fyrir hendi.

7. gr.

    Erlendur liðsafli og borgaralegar deildir hans sem dvelja hér á landi á grundvelli alþjóðasamninga skv. 2. gr. skulu hérlendis njóta þess skattfrelsis og þeirra tollundanþágna sem samningarnir kveða á um.

8. gr.

    Ákvæði þessara laga hafa engin áhrif á lög nr. 110/1951, um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess.

9. gr.

    Utanríkisráðherra setur með reglugerð fyrirmæli um málsmeðferð skaðabótakrafna utan samninga sem stofnast vegna verknaða manna sem dveljast hér á landi á grundvelli alþjóðasamninga skv. 2. gr., greiðslur úr ríkissjóði vegna slíkra krafna og endurkröfu þeirra. Utanríkisráðherra er heimilt að fela nefnd sérfræðinga að taka endanlega afstöðu til slíkra bótakrafna eða að kalla sér til ráðgjafar einn til þrjá sérfræðinga þegar sérkunnáttu þarf við úrlausn máls.

10. gr.

    Utanríkisráðherra er með reglugerð heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd þessara laga.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í utanríkisráðuneytinu. Í kjölfar brotthvarfs varnarliðs Bandaríkjanna frá Íslandi 30. september 2006 og með vísan til fyrirætlana íslenskra stjórnvalda um samstarf um varnir landsins við aðrar þjóðir en Bandaríkin þykir nauðsynlegt að lögfesta lágmarksreglur um framkvæmd tiltekinna þjóðréttarsamninga sem varða réttarstöðu liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og Samstarfs í þágu friðar o.fl. þegar hann dvelst hér á landi. Í frumvarpinu er að finna heimild til handa ríkisstjórninni til að fullgilda umrædda samninga fyrir Íslands hönd.
    Jafnhliða er með aðild Íslands að þessum þjóðréttarsamningum leitast við að tryggja sem best réttarstöðu íslenskra friðargæsluliða erlendis. Aðild Íslands að þeim þjóðréttarsamningum sem lög þessi vísa til felur í sér aðgangsheimild, til handa íslenskum friðargæsluliðum, til þátttöku í verkefnum á vegum NATO og NATO-samstarfsríkja á erlendri grundu.
    Frumvarpið byggist að miklu leyti á dönskum lögum um sama efni, þ.e. lögum nr. 143/1955 eins og þeim hefur verið breytt með lögum nr. 201/1999. Á dönsku nefnast þessi lög „Lov om retsstillingen for styrker tilhørende deltagerne i NATO og Partnerskab for Fred m.v.“

II. SOFA-samningurinn.
    Samningur milli aðila að Norður-Atlantshafssamningnum um réttarstöðu liðsafla þeirra var gerður 19. júní 1951. Til þessa samnings er oft vitnað sem „NATO-SOFA“-samningsins eða „SOFA“-samningsins en á ensku ber hann heitið „Agreement between the Parties to the North Atlantic Treaty regarding the Status of their Forces“. Samningurinn hefur þann tilgang að marka réttarstöðu liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins þegar hann dvelur í öðru aðildarríki á grundvelli samnings milli viðkomandi aðildarríkja, m.a. til að aðstoða við landvarnir á grundvelli 5. gr. stofnsamnings Atlantshafsbandalagsins.
    Ákvæði „SOFA“-samningsins eru að langstærstum hluta samhljóða ákvæðum í viðbæti við varnarsamninginn um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra en þau ákvæði hafa lagagildi á Íslandi, sbr. lög nr. 110/1951, um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess.
    Öll stofnríki Atlantshafsbandalagsins hafa fullgilt „SOFA“-samninginn að Íslandi undanskildu. Í kjölfar aðildar sinnar hafa ný aðildarríki bandalagsins einnig orðið aðilar að honum.
    Ísland undirritaði „SOFA“-samninginn 19. júní 1951 en fullgilti hann ekki. Ástæða þess var sú að Ísland gerði varnarsamninginn við Bandaríkin skömmu áður eða 5. maí 1951. Í 11. gr. síðarnefnda samningsins eru ákvæði þess efnis að ríkisstjórn Íslands veiti herliði hvers aðildarríkis Atlantshafsbandalagsins sömu réttindi og varnarliðið hefði samkvæmt varnarsamningum kæmi ósk um það frá viðkomandi aðildarríki ef herlið þess dveldist á Íslandi og starfaði þá í tengslum við bandaríska varnarliðið. Auk þess var talið að Ísland sem vopnlaus þjóð mundi aldrei senda herlið til annarra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Á þessum tíma var því ekki talin þörf á því að Ísland fullgilti „SOFA“-samninginn.

III. Parísarbókunin.
    Ísland staðfesti 11. maí 1953, sbr. auglýsingu nr. 46 í A-deild Stjórnartíðinda 1953, bókun, sem gerð var í París 28. ágúst 1952, um réttarstöðu fjölþjóðlegra hernaðarlegra höfuðstöðva sem stofnsettar eru samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum. Bókun þessa er að finna á ensku í ritinu Samningar Íslands við erlend ríki, sem gefið var út 1963, merkt nr. 97. Bókunin inniheldur ákvæði um höfuðstöðvar sem stofnað er til í aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins. Þar eru enn fremur ákvæði um að „SOFA“-samningurinn skuli ákvarða réttarstöðu liðsafla aðildarríkjanna sem sendur er til slíkra höfuðstöðva.

IV. Samningurinn um Samstarf í þágu friðar (PfP).
    Að frumkvæði Atlantshafsbandalagsins var Samstarfi í þágu friðar (e. Partnership for Peace – PfP) komið á fót 1994. Markmið þess var að gefa aðildarríkjum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu tækifæri til að vinna með og þróa samvinnu við Atlantshafsbandalagið, eftir áhuga hvers og eins þessara ríkja. Samstarf í þágu friðar er því grundvallað á gagnkvæmnissamkomulagi milli Atlantshafsbandalagsins annars vegar og einstakra ríkja sem óska eftir samvinnu hins vegar. Samstarfsríki Atlantshafsbandalagsins í Samstarfi í þágu friðar eru nú eftirfarandi: Albanía, Armenía, Austurríki, Aserbaídsjan, Bosnía og Hersegóvína, Finnland, Georgía, Hvíta-Rússland, Írland, Króatía, Kasakstan, Kirgisistan, Moldavía, Rússland, Serbía, Svartfjallaland, Svíþjóð, Sviss, Tadsjikistan, Makedónía, Túrkmenistan, Úkraína og Úsbekistan.
    Samstarf í þágu friðar snýst að miklu leyti um að gefa liðsafla samstarfsríkjanna tækifæri til að starfa við hlið liðsafla Atlantshafsbandalagsins, m.a. á vettvangi friðargæslu. Liður í þessu samstarfi eru sameiginlegar æfingar liðsafla Atlantshafsbandalagsins og einstakra samstarfsríkja sem ýmist fara fram í aðildarríkum Atlantshafsbandalagsins eða samstarfsríkjunum. Samningur milli aðildarríkja að Norður-Atlantshafssamningnum og annarra ríkja, sem eru aðilar að Samstarfi í þágu friðar, um réttarsstöðu liðsafla þeirra var, ásamt viðbótarbókun, gerður í Brussel 19. júní 1995 en gerð var frekari viðbótarbókun við samninginn 10. mars 1997. Samningur þessi kveður á um að ákvæði „SOFA“-samningsins skuli einnig gilda á milli aðildarríkja hans ef liðsafli og borgaralegar deildir þeirra dveljast í öðru aðildarríki. Ísland hefur undirritað samninginn og viðbótarbókanir hans en ekki fullgilt samninginn. Til að Ísland geti orðið aðili að samningnum um Samstarf í þágu friðar verður það að gerast aðili að „SOFA“-samningnum.
    Ljóst er að „SOFA“-samningurinn mun einnig gegna svipuðu hlutverki í samstarfi Norðurlandanna um friðargæsluverkefni, svonefnt „NORDCAPS“. Má jafnvel orða það svo að ,,SOFA”-samningurinn sé grundvallarsamningur í samstarfi aðildarríkja Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu um friðargæslu. Þátttaka Íslands í alþjóðlegri friðargæslu mun halda áfram að aukast á næstu árum. Íslandi er því nauðsynlegt að liðsmenn þess njóti sömu réttarstöðu og liðsmenn annarra þátttökuríkja.

V. Um fullgildingu þjóðréttarsamninga samfara lagasetningu.
    Þar sem ,,SOFA”-samningurinn er grundvallarsamningur í alþjóðlegri hernaðar- og friðargæslu getur það orðið mjög flókið fyrir Ísland að taka þátt í slíkri samvinnu ef það er ekki aðili að „SOFA“-samningnum og samningnum um Samstarf í þágu friðar ásamt viðbótarbókunum hans. Íslandi er því nauðsynlegt að fullgilda þá þjóðréttarsamninga sem tilgreindir eru í 1. gr. frumvarpsins og er í ákvæðinu að finna heimild til þess.
    ,,SOFA”-samningurinn, samningurinn um Samstarf í þágu friðar, ásamt viðbótarbókunum, og Parísarbókunin eru birt með frumvarpi þessu sem fylgiskjöl í íslenskri þýðingu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Með ákvæði 1. gr. er ríkisstjórninni veitt heimild fyrir hönd Íslands til að fullgilda „SOFA“-samninginn og samninginn um Samstarf í þágu friðar ásamt viðbótarbókunum hans. Um þörfina á aðild Íslands að þessum samningum er fjallað í V. kafla almennra athugasemda.


Um 2. gr.

    Í þessari grein er gildissvið laganna afmarkað. Þau taka til þeirra samninga og bókana sem tilgreindar eru í greininni og gerð hefur verið grein fyrir í II.– IV. kafla almennra athugasemda. Í ljósi þess að ,,SOFA”-samningurinn er grundvallarsamningur í alþjóðlegri hernaðar- og friðargæslusamvinnu er í 2. mgr. 2. gr. að finna heimild fyrir utanríkisráðherra til að veita erlendum liðsafla sem á Íslandi kann að dveljast samkvæmt öðrum samningum sem eru þjóðréttarlega skuldbindandi fyrir Ísland sömu réttarstöðu og ákvörðuð er í lögum þessum enda geymi þeir sömu ákvæði um réttarstöðu liðsafla sem dvelst í erlendu ríki og,,SOFA”-samningurinn.
    Í 3. mgr. er finna ákvæði sem heimilar vopnaburð erlends liðsafla skv. 1. eða 2. mgr. 2. gr. hérlendis að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Með þessari grein er innleitt í íslenskan rétt efni VI. gr. „SOFA“-samningsins en það samvarar 5. gr. viðbætis við varnarsamninginn.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. 3. gr. segir að utanríkisráðherra fari með fyrirsvar af hálfu íslenska ríkisins í samskiptum við erlendan liðsafla skv. 2. gr., sendiríki hans og þau hermálayfirvöld sem hann lýtur. Samskipti þau sem hér um ræðir eru milliríkjasamskipti og með ákvæðinu er hnykkt á þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. gr. laga nr. 39/1971, um utanríkisþjónustu Íslands, og 14. gr. reglugerðar nr. 3/2004, um Stjórnarráð Íslands, að það er hlutverk utanríkisráðherra að annast slík milliríkjasamskipti.
    Í 2. mgr. 3. gr. er kveðið á um fyrirsvar utanríkisráðherra af hálfu ríkisins vegna undirbúnings og fyrirkomulags friðargæsluæfinga og heræfinga sem haldnar eru hérlendis og erlendur liðsafli skv. 2. gr. tekur þátt í. Ákvæðið er í samræmi við þá stjórnsýsluframkvæmd sem tíðkast hefur að utanríkisráðherra fari með þetta fyrirsvarshlutverk. Benda má á að skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 176/2006, um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, fer utanríkisráðherra með yfirstjórn öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli. Öryggissvæðið er ætlað til varnarþarfa, þ.m.t. heræfinga og eftir atvikum friðargæsluæfinga, m.a. á vegum Bandaríkjanna eða annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins.

Um 4. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um að erlend hermálayfirvöld fari með refsilögsögu og agavald yfir liðsafla sínum og borgaralegri deild hans, eða einstaklingi úr skylduliði framangreindra eininga, á íslensku yfirráðasvæði í samræmi við ákvæði alþjóðasamninga skv. 2. gr.
    Af ákvæðinu leiðir að refsilögsaga íslenskra yfirvalda gagnvart þessum erlendu aðilum kann að takmarkast í samræmi við ákvæði umræddra alþjóðasamninga.
    Ákvæðin um refsilögsögu og refsivald sendiríkis er að finna í VII. gr. ,,SOFA”-samningsins sem og um skilin við refsilögsögu og refsivald viðtökuríkisins sem er Ísland í þessu tilfelli. Í 1. mgr. VII. gr. „SOFA“-samningsins eru ákvæði um hvenær sendiríkið og viðtökuríkið eigi refsilögsögu yfir herdeildum og borgaralegum starfsmönnum sendiríkisins. Í 2. mgr. er fjallað um það hvenær hvort ríki hafi eitt lögsögu en í 3. mgr. eru ákvæði um hvort ríkið hafi forrétt til lögsögu þegar bæði ríkin eiga hana samkvæmt ákvæðum samningsins. Ákvæði VII. gr. „SOFA“-samningsins samsvara 2. gr. viðbætis við varnarsamninginn. Hermálayfirvöld sendiríkisins hafa rétt innan viðtökuríkisins til að fara með refsilögsögu og agavald samkvæmt lögum sendiríkisins gagnvart þeim mönnum sem lúta herlögum sendiríkisins en bæði hermenn og borgaralegir starfsmenn geta lotið herlögum sendiríkisins. Viðtökuríkið hefur aftur á móti lögsögu yfir hermönnum sendiríkisins og borgaralegum starfsmönnum sendiríkisins fyrir refsiverð brot sem eru framin innan landsvæða viðtökuríkisins. Ákvæði 2. mgr. 2. gr. viðbætis við varnarsamninginn samsvara 1. mgr. VII. gr. „SOFA“-samningsins.
    Ákvæði a-liðar 2. mgr. VII. gr. „SOFA“-samningsins gera ráð fyrir að hermálayfirvöld sendiríkisins fari ein með lögsögu yfir hermönnum að því er varðar brot sem eru refsiverð samkvæmt lögum sendiríkisins en ekki refsiverð samkvæmt lögum viðtökuríkisins. Viðtökuríkið hefur aftur á móti einkalögsögu skv. b-lið gagnvart bæði hermönnum og borgaralegum starfsmönnum sendiríkisins varðandi brot sem eru refsiverð í því ríki en ekki í sendiríkinu. Undir bæði a- og b-liði 2. mgr. falla brot gegn öryggi ríkjanna en þau eru frekar skilgreind í c-lið 2. mgr. Þessi ákvæði samsvara ákvæði 3. mgr. 2. gr. viðbætis við varnarsamninginn.
    Þegar bæði viðtökuríki og sendiríki hafa rétt til lögsögu kveður 3. mgr. á um að hermálayfirvöld sendiríkisins skuli hafa forrétt til lögsögu gagnvart þeim mönnum sem lúta herlögum þeirra þegar brot beinist einungis gegn eignum eða öryggi sendiríkisins, gegn persónu eða eignum annars hermanns eða borgaralegs starfsmanns í liði sendiríkisins eða ef brot eru drýgð í sambandi við framkvæmd eða vanrækslu á starfsskyldu. Yfirvöld í viðtökuríkinu hafa forrétt til lögsögu varðandi önnur brot.
    Í c-lið 3. mgr. eru ákvæði um að ríki sem hefur forrétt til lögsögu skuli tilkynni það hinu ríkinu ef það hefur ekki í hyggju að nýta rétt sinn. Yfirvöld þess ríkis sem hefur rétt til lögsögu skal taka til vinsamlegrar athugunar beiðni yfirvalda hins ríkisins um að horfið sé frá lögsögu þegar síðarnefnda ríkið telur það varða sig miklu máli.
    Ákvæði 3. mgr. VII. gr. „SOFA“-samningsins samsvara 4. tölul. 2. gr. viðbætis við varnarsamninginn.
    Í 4. mgr. VII. gr. er sérstaklega tekið fram að hermálayfirvöld sendiríkisins hafa engan rétt til að fara með lögsögu yfir mönnum sem hafa ríkisfang í viðtökuríkinu eða eiga þar fasta búsetu nema þeir séu liðsmenn í herliði sendiríkisins. Ákvæði a-liðar 1. mgr. 2. gr. viðauka við varnarsamninginn eru hliðstæð þessu ákvæði en þar segir að herdómstólar Bandaríkjanna skuli aldrei hafa lögsögu á Íslandi yfir íslenskum ríkisborgurum eða öðrum mönnum sem ekki lúta herlögum Bandaríkjanna.
    Samkvæmt a-lið 7. mgr. VII. gr. samningsins er yfirvöldum sendiríkisins óheimilt að framkvæma dauðadóma í viðtökuríkinu nema kveðið sé á um slíka refsingu í hliðstæðu máli í löggjöf viðtökuríkisins. Þetta ákvæði er sambærilegt við a-lið 5. mgr. 2. gr. viðbætis við varnarsamninginn.

Um 5. gr.

    Ákvæði 5. gr. tekur mið af 5. og 6. mgr. VII. gr. „SOFA“-samningsins sem kveða á um gagnkvæma aðstoð yfirvalda viðtökuríkis og sendiríkis varðandi rannsókn brota og handtöku manna úr liði sendiríkisins. Þau eru efnislega samhljóða 6. og 7. mgr. 2. gr. viðbætis við varnarsamninginn.

Um 6. gr.

    Í 11. mgr. VII. gr. „SOFA“-samningsins er kveðið á um að þau ríki sem eru aðilar að samningnum skuli tryggja eftir því sem þau telja nauðsynlegt öryggi og vernd á landsvæði sínu fyrir búnað, tæki, eignir, skjöl og opinberar upplýsingar hinna samningsaðilanna og að mönnum verði refsað sem kunna að gerast brotlegir við þau lög. Ákvæði 6. gr. frumvarps þessa eru sett til að fullnægja þessari skuldbindingu sem Ísland tekst á hendur með því að fullgilda „SOFA“-samninginn. Ákvæðið á sér fyrirmynd í áðurnefndum dönskum lögum, nr. 143/1955.

Um 7. gr.

    Ákvæði greinar þessarar eru sett til að fullnægja ákvæðum „SOFA“-samningsins varðandi skatta- og tollaundanþágur hins erlenda liðsafla og borgaralegra deilda hans þegar hann dvelur í viðtökuríki. Einkum er hér um að ræða X., XI., XII. og XIII. gr. samningsins en samsvarandi ákvæði er að finna í 7., 8. og 9. gr. viðbætis við varnarsamninginn.

Um 8. gr.

    Frumvarpi þessu er í engu ætlað að hafa áhrif á lög nr. 110/1951, um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess. Komi til þess að herlið Bandaríkjanna snúi aftur til Íslands mun réttarstaða þess byggjast á lögunum frá 1951 enda er varnarsamningur milli Íslands og Bandaríkjanna frá 5. maí 1951 í gildi. Þar sem Bandaríkjamenn eru einnig aðilar að „SOFA“-samningum gæti hugsanlega komið til skörunar á milli þessara tveggja samninga. Í slíkum tilvikum sýnist nærtækast að láta þau samningsákvæði sem eru Bandaríkjamönnum hagstæðari ganga framar eftir því sem við verður komið.

Um 9. gr.

    Í greininni er að finna ákvæði um meðferð skaðabótakrafna utan samninga sem stofnast vegna verknaða manna sem dveljast hér á landi á grundvelli alþjóðasamninga skv. 2. gr. frumvarpsins. Í 5. mgr. VIII. gr. „SOFA“-samningsins, sem er að mestu samhljóða 2. mgr. 12. gr. viðbætis við varnarsamninginn, er kveðið á um skyldu viðtökuríkis til að fjalla um tilteknar skaðabótakröfur utan samninga og því m.a. heimilað að semja um slíkar kröfur og greiða þær. Í kjölfarið getur viðtökuríkið oftast nær endurkrafið sendiríkið um 75% af fjárhæð hinnar greiddu kröfu. Á vegum utanríkisráðuneytisins hefur um margra ára skeið starfað stjórnsýslunefnd sem tekið hefur afstöðu til skaðabótakrafna utan samninga vegna tjóns sem varnarliðsmenn hafa valdið utan samninga og hefur það fyrirkomulag gefist vel. Ákvæði 9. gr. byggist á framangreindri stjórnsýsluframkvæmd og heimilar utanríkisráðherra að fela nefnd sérfræðinga að taka endanlega afstöðu til slíkra bótakrafna eða að kalla sér til ráðgjafar einn til þrjá sérfræðinga þegar sérkunnáttu þarf við úrlausn máls. Gert er ráð fyrir að utanríkisráðherra setji fyrirmæli um málsmeðferð slíkra skaðabótakrafna í reglugerð.

Um 10. og 11. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.



Samningur
milli aðila að Norður-Atlantshafssamningnum um réttarstöðu
liðsafla þeirra.


    Aðilar að Norður-Atlantshafssamningnum, sem var undirritaður í Washington 4. apríl 1949,

sem telja að með samkomulagi sé unnt að senda liðsafla eins aðila til þjónustu á landsvæði annars aðila,

sem hafa í huga að ákvörðun þess efnis að senda hann og þau skilyrði sem munu gilda þar um, að því leyti sem ekki er mælt fyrir um slík skilyrði í samningi þessum, verða eftir sem áður efni sérstaks samkomulags milli hlutaðeigandi aðila,

sem óska þess, samt sem áður, að skilgreina réttarstöðu fyrrnefnds liðsafla þegar hann er á landsvæði annars aðila,

hafa orðið ásáttir um eftirfarandi:

I. gr.

1.        Í samningi þessum hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
         a)    „liðsafli“ merkir liðsmenn í land-, sjó- eða flugher eins samningsaðila þegar þeir eru á landsvæði annars samningsaðila á svæði Norður-Atlantshafssamningsins í tengslum við opinber skyldustörf sín, að því tilskildu að hlutaðeigandi tveir samningsaðilar geti samið um það sín á milli að eigi beri að líta svo á að tilteknir einstaklingar, einingar eða fylkingar séu „liðsafli“, að því er varðar samning þennan, eða hluti af honum,
         b)    „borgaraleg deild“ merkir borgaralega liðsmenn sem fylgja liðsafla samningsaðila og eru í þjónustu hers þess samningsaðila, enda séu menn þessir ekki ríkisfangslausir eða ríkisborgarar ríkis, sem er ekki aðili að Norður-Atlantshafssamningnum, eða ríkisborgarar þess ríkis þar sem liðsaflinn er staðsettur eða hafi fasta búsetu þar,
         c)    „einstaklingur úr skylduliði“ merkir maka manns í liðsafla eða manns í borgaralegri deild eða barn slíks manns sem er á framfæri hans,
         d)    „sendiríki“ merkir þann samningsaðila sem liðsaflinn tilheyrir,
         e)    „viðtökuríki“ merkir þann samningsaðila sem á landsvæði þar sem liðsaflinn eða borgaraleg deild er staðsett, hvort sem hann eða hún hefur þar setu eða fer þar um,
         f)    „hermálayfirvöld sendiríkis“ merkir þau yfirvöld sendiríkis sem samkvæmt lögum þess hafa vald til að framfylgja hermálalögum þess ríkis með tilliti til manna í liðsafla þess eða borgaralegum deildum,
         g)    „Norður-Atlantshafsráð“ merkir ráðið, sem var komið á fót skv. 9. gr. Norður- Atlantshafssamningsins, eða einhverja undirstofnun þess sem hefur heimild til að koma fram fyrir hönd þess.
2.          Samningur þessi gildir um yfirvöld sjálfstæðra umdæma samningsaðilanna, innan þeirra landsvæða þeirra sem samningurinn gildir um eða nær til í samræmi við XX. gr., með sama hætti og hann gildir um stjórnvöld sömu samningsaðila, að því tilskildu, samt sem áður, að eignir sjálfstæðra umdæma skuli ekki taldar eignir samningsaðila í skilningi VIII. gr.

II. gr.
    

    Liðsafla og borgaralegri deild hans, ásamt mönnum í honum og henni og skylduliði þeirra, ber að virða lög viðtökuríkisins og hafast ekkert það að sem fer í bága við anda samnings þessa og einkum skulu þeir forðast að hafa nokkur afskipti af stjórnmálum í viðtökuríkinu. Sendiríkinu ber að gera nauðsynlegar ráðstafanir í þessu skyni.

III. gr.

1.          Menn í liðsafla skulu undanþegnir reglum um vegabréf og áritanir og skoðun innflytjenda við komu eða brottför til eða frá landsvæði viðtökuríkis með þeim skilyrðum sem eru tilgreind í 2. mgr. þessarar greinar og með fyrirvara um að þau formsatriði sem viðtökuríkið ákveður um komu og brottför liðsafla eða manna í honum séu virt. Þeir skulu og undanþegnir reglum viðtökuríkisins um skráningu útlendinga og eftirlit með þeim, en eigi ber að líta svo á að þeir öðlist nokkurn rétt til fastrar búsetu eða lögheimilis á landsvæðum viðtökuríkisins.
2.          Einungis er gerð krafa um eftirtalin skilríki vegna manna í liðsafla. Skylt er að framvísa þeim sé þess krafist:
         a)    persónulegt kennivottorð, útgefið af sendiríkinu, þar sem fram koma nöfn, fæðingardagur og ár, staða og númer (ef um það er að ræða), þjónusta og ljósmynd,
         b)    fyrirmæli til einstaklinga eða hóps um ferð hans, á tungumáli sendiríkis og á ensku og frönsku, sem til þess bær stofnun sendiríkisins eða Atlantshafsbandalagsins gefur út og staðfesta réttarstöðu viðkomandi einstaklings eða hóps, sem manns eða manna í liðsafla, og þá ferð sem fyrirmælin fjalla um. Viðtökuríki getur gert kröfu um að til þess bær fulltrúi þess meðáriti fyrirmæli um ferð.
3.          Liðsmönnum í borgaralegri deild skal, ásamt skylduliði, lýst sem slíkum í vegabréfum þeirra.
4.          Hætti maður í liðsafla eða borgaralegri deild í þjónustu sendiríkisins og sé hann ekki sendur heim skulu yfirvöld sendiríkisins tilkynna yfirvöldum viðtökuríkisins um það án tafar og veita umbeðnar upplýsingar. Yfirvöld sendiríkisins skulu, með sama hætti, tilkynna yfirvöldum viðtökuríkisins um hvern þann mann sem er fjarverandi með ólögmætum hætti lengur en tuttugu og einn dag.
5.          Hafi viðtökuríkið farið fram á að maður í liðsafla eða borgaralegri deild verði fjarlægður af landsvæði sínu eða gefið út skipun um brottvísun fyrrum meðlims í liðsafla eða borgaralegri deild eða einstaklings úr skylduliði manns eða fyrrum meðlims í honum eða henni skulu yfirvöld sendiríkisins ábyrgjast viðtöku viðkomandi manns á landsvæði sínu eða að hann yfirgefi landsvæði viðtökuríkisins. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda einvörðungu um menn, sem eru ekki ríkisborgarar viðtökuríkisins og hafa komið til viðtökuríkisins sem menn í liðsafla eða borgaralegri deild eða í því skyni að gerast meðlimir í honum eða henni, og um skyldulið þeirra.

IV. gr.


    Viðtökuríkið skal gera eitt af tvennu:
         a)    taka gild, án þess að ökupróf fari fram eða gjald sé greitt, venjuleg ökuskírteini eða hermannaökuskírteini sem gefin eru út af sendiríkinu eða sjálfstæðu umdæmi þess til handa manni í liðsafla eða borgaralegri deild eða
         b)    gefa út eigið ökuskírteini til handa hverjum þeim manni í liðsafla eða borgaralegri deild sem hefur venjulegt ökuskírteini eða hermannaökuskírteini sem sendiríkið gefur út eða sjálfstætt umdæmi þess, enda sé ekki gerð krafa um ökupróf.

V. gr.

1.          Menn í liðsafla skulu að jafnaði vera einkennisklæddir. Að vera borgaralega klæddur skal, með fyrirvara um samkomulag um hið gagnstæða milli yfirvalda sendi- og viðtökuríkisins, háð sömu skilyrðum og gilda um menn í liðsafla viðtökuríkisins. Menn í reglulegum einingum eða fylkingum liðsafla skulu vera einkennisklæddir þegar þær fara yfir landamæri.
2.          Þjónustuökutæki liðsafla eða borgaralegrar deildar skulu, auk þess að hafa skráningarmerki, hafa sérstakt þjóðarauðkenni.


VI. gr.

    Mönnum í liðsafla er heimilt að eiga og bera vopn, enda hafi þeir heimild til þess samkvæmt reglum er um þá gilda. Yfirvöld sendiríkisins skulu taka beiðnir viðtökuríkisins í þessum efnum til vinsamlegrar athugunar.

VII. gr.

1.          Með fyrirvara um ákvæði þessarar greinar:
         a)    skulu hermálayfirvöld sendiríkisins eiga rétt á að beita, innan viðtökuríkisins, refsiréttarlögsögu og refsivaldi, sem lög sendiríkisins heimila þeim, gagnvart öllum mönnum sem heyra undir hermálalög sendiríkisins,
         b)    skulu yfirvöld viðtökuríkisins hafa lögsögu yfir mönnum í liðsafla eða borgaralegri deild og skylduliði þeirra að því er varðar brot sem eru framin innan landsvæðis viðtökuríkisins og eru refsiverð samkvæmt lögum þess ríkis.
2.          a)    Hermálayfirvöld sendiríkisins eiga rétt á að fara ein með lögsögu yfir mönnum, sem heyra undir hermálalög þess ríkis, að því er varðar brot, meðal annars brot er varða öryggi þess, sem eru refsiverð samkvæmt lögum sendiríkisins en ekki lögum viðtökuríkisins.
         b)    Yfirvöld viðtökuríkisins eiga rétt á að fara ein með lögsögu yfir mönnum í liðsafla eða borgaralegi deild og skylduliði þeirra, að því er varðar brot, meðal annars brot er varða öryggi þess ríkis, sem eru refsiverð samkvæmt lögum þess en ekki lögum sendiríkisins.
         c)    Eftirfarandi telst til brota gegn öryggi ríkis, að því er þessa málsgrein varðar og 3. mgr. þessarar greinar:
                 i.         landráð,
                   ii.    skemmdarverk, njósnir eða brot á öllum lögum er varða leyndarmál hins opinbera í því ríki eða leyndarmál er varða landvarnir þess ríkis.
3.          Beri réttur til lögsögu undir bæði ríkin skulu eftirfarandi reglur gilda:
         a)    hermálayfirvöld sendiríkisins skulu hafa forrétt til lögsögu yfir manni í liðsafla eða borgaralegri deild að því er varðar:
                 i.        brot er einungis beinast gegn eignum eða öryggi þess ríkis eða brot er einungis beinast gegn persónu eða eignum annars manns í liðsafla eða borgaralegri deild þess ríkis eða gegn persónu eða eignum einstaklings úr skylduliði hans,
                   ii.    brot sem verða rakin til verknaðar eða vanrækslu í tengslum við opinber skyldustörf,
    b)    yfirvöld viðtökuríkisins hafa forrétt til lögsögu í öllum málum vegna annarra brota,
    c)    ákveði það ríki sem hefur forrétt til lögsögu að fara ekki með hana skal það tilkynna yfirvöldum hins ríkisins um það svo fljótt sem verða má. Yfirvöld þess ríkis sem forrétt hefur skulu taka til vinsamlegrar athugunar beiðni yfirvalda hins ríkisins um að horfið sé frá lögsögu þegar síðarnefnda ríkið telur það mjög brýnt.
4.          Ákvæði þessarar greinar hér að framan veita hermálayfirvöldum sendiríkisins engan rétt til að fara með lögsögu yfir mönnum, sem hafa ríkisfang í viðtökuríkinu eða fasta búsetu þar, nema þeir séu menn í liðsafla sendiríkisins.
5.         a)    Yfirvöld viðtökuríkisins og sendiríkisins skulu veita hvort öðru aðstoð við handtöku manna í liðsafla eða borgaralegri deild eða einstaklinga úr skylduliði þeirra á landsvæði viðtökuríkisins, svo og við afhendingu þeirra til þess yfirvalds sem skal fara með lögsögu samkvæmt framanskráðum ákvæðum.
         b)    Yfirvöld viðtökuríkisins skulu tilkynna hermálayfirvöldum sendiríkisins tafarlaust um handtöku manns í liðsafla eða borgaralegri deild eða einstaklings úr skylduliði.
         c)    Sé sakborningur, sem er maður í liðsafla eða borgaralegri deild og viðtökuríkið skal hafa lögsögu yfir, í gæslu hjá yfirvöldum sendiríkisins skal hann vera þar áfram uns viðtökuríkið hefur saksókn gegn honum.
6.          a)    Yfirvöld viðtökuríkisins og sendiríkisins skulu veita hvort öðru aðstoð við nauðsynlega rannsókn á brotum og við að afla sönnunargagna og leggja þau fram; nefna má haldlagningu hluta er tengjast broti og, í málum þar sem það á við, afhendingu slíkra hluta. Afhending slíkra hluta getur, samt sem áður, verið með fyrirvara um að þeim sé skilað innan þeirra tímamarka sem yfirvöldin, sem afhentu þau, tilgreina.
         b)    Yfirvöld samningsaðilanna skulu tilkynna hvort öðru um lúkningu allra mála þar sem lögsögu getur borið undir hvorn aðila sem er.
7.         a)    Yfirvöld sendiríkisins skulu ekki fullnægja dauðadómum í viðtökuríkinu sé eigi kveðið á um slíka refsingu í hliðstæðu máli í löggjöf viðtökuríkisins.
         b)    Yfirvöld viðtökuríkisins skulu taka til vinsamlegrar athugunar beiðni yfirvalda sendiríkisins um aðstoð við fullnustu fangelsisdóms sem yfirvöld sendiríkisins kveða upp, samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, innan landsvæðis viðtökuríkisins.
8.         Hafi yfirvöld eins samningsaðila réttað í máli sakbornings samkvæmt ákvæðum þessarar greinar og hafi hann verið sýknaður eða sakfelldur og er að taka út refsingu eða hefur þegar tekið hana út eða hafi hann verið náðaður skal þá yfirvöldum annars samningsaðila óheimilt að rétta í sama máli hans að nýju á sama landsvæði. Ekkert í málsgrein þessari skal, samt sem áður, koma í veg fyrir að hermálayfirvöld sendiríkisins taki agabrot manns í liðsafla sínum fyrir, þ.e. brot sem drýgt er í tengslum við verknað eða vanrækslu og er sakamál sem yfirvöld annars samningsaðila hafa réttað í.
9.         Þegar maður í liðsafla eða borgaralegri deild eða einstaklingur úr skylduliði er sóttur til saka, og viðtökuríkið fer með lögsögu í málinu, á hann rétt á því:
         a)    að réttarhöldum yfir honum sé hraðað,
         b)    að fá vitneskju fyrir upphaf réttarhalda um sakargift eða sakargiftir á hendur honum,
        c)    að hann og vitni, sem bera gegn honum, séu samspurð,
         d)    að vitnum, sem geta borið honum í hag og eru innan lögsögu viðtökuríkisins, sé gert skylt að bera vitni,
        e)    að málflutningsmaður, að hans eigin vali, haldi uppi vörnum fyrir hann eða að njóta aðstoðar málflutningsmanns samkvæmt gildandi ákvæðum í viðtökuríkinu á hverjum tíma,
        f)    að hæfur dómtúlkur sé tilkvaddur, ef hann telur þess þörf, og
         g)    að hafa samband við fulltrúa ríkisstjórnar sendiríkisins og, ef dómreglur leyfa það, að sá fulltrúi sé viðstaddur réttarhöldin.
10.     a)    Reglulegum einingum eða fylkingum liðsafla ber réttur til að fara með lögregluvald í herbúðum, starfstöðvum eða öðrum athafnasvæðum, sem þær sitja í eða á, eftir því sem semst við viðtökuríkið. Lögreglu liðsafla er heimilt að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að halda uppi reglu og tryggja öryggi á fyrrnefndum athafnasvæðum.
         b)    Herlögreglu skal aðeins beitt utan athafnasvæðanna eftir samkomulagi við yfirvöld viðtökuríkisins og í samstarfi við þau og að því marki sem slík beiting er nauðsynleg til að halda uppi aga og reglu meðal manna í liðsaflanum.
11.          Sérhver samningsaðili skal afla lagaheimilda, eftir því sem hann telur nauðsynlegt, til að tryggja fullnægjandi öryggi og vernd á landsvæði sínu fyrir búnað, tæki, eignir, skjöl og opinberar upplýsingar hinna samningsaðilanna og að mönnum verði refsað sem kunna að gerast brotlegir við lög sem eru samþykkt í því skyni.

VIII. gr.


1.          Sérhver samningsaðili mun eigi gera kröfu um skaðabætur á hendur öðrum samningsaðilum vegna tjóns á eignum sem hann á og land-, sjó- eða flugher hans notar, hafi slíkt tjón:
         i.         hlotist af verknaði liðsmanns eða starfsmanns hers hins samningsaðilans er hann gegndi skyldustörfum sínum í tengslum við aðgerð samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum eða
         ii.    verði rakið til notkunar ökutækis, skips eða loftfars í eigu hins samningsaðilans sem her hans notaði, annaðhvort að því tilskildu að ökutækið, skipið eða loftfarið, sem rekja má tjónið til, hafi verið notað í tengslum við aðgerð samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum eða að tjónið hafi orðið á eign sem var notuð með þeim hætti.
         Samningsaðili mun ekki gera kröfu til björgunarlauna á hendur öðrum samningsaðila ef skipið eða farmur, sem var bjargað, var í eigu samningsaðila og notaður af her hans í tengslum við aðgerð samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum.
2.          a)    Verði tjón á öðrum eignum, sem samningsaðili á og eru á landsvæði hans, með þeim hætti sem fram kemur í 1. mgr. skal einn gerðarmaður, sem er valinn skv. b-lið þessarar málsgreinar, ákvarða bótaábyrgð annars samningsaðila og meta tjónið, nema hlutaðeigandi samningsaðilar komi sér saman um annað. Gerðarmaðurinn skal og taka ákvörðun um gagnkröfur sem leiðir af sama atviki.
         b)    Gerðarmaðurinn, sem um getur í a-lið hér að framan, skal valinn, með samkomulagi hlutaðeigandi samningsaðila, úr hópi ríkisborgara viðtökuríkisins sem gegna eða hafa gegnt háu embætti innan réttarkerfisins. Komist hlutaðeigandi samningsaðilar ekki að samkomulagi um gerðarmann innan tveggja mánaða getur hvor þeirra sem er farið þess á leit við formann fulltrúaráðs Norður-Atlantshafsráðsins að hann velji mann sem uppfyllir þær kröfur um hæfi sem fyrr getur.
         c)     Ákvarðanir gerðarmanns eru bindandi fyrir samningsaðila og endanlegar.
         d)    Jafna ber niður bótafjárhæð, sem gerðarmaðurinn dæmir, samkvæmt ákvæðum i., ii. og iii. liðar e-liðar 5. mgr. þessarar greinar.
         e)    Ganga ber frá bótum, sem gerðarmaðurinn ákveður, með samkomulagi milli hlutaðeigandi samningsaðila og skulu þeir greiða þær, ásamt óhjákvæmilegum kostnaði vegna skyldustarfa gerðarmannsins, að jöfnu.
         f)    Engu að síður mun sérhver samningsaðili eigi gera bótakröfu í neinu slíku máli sé tjón minna en nemur:

Bandaríkin: $ 1.400 Ísland: 22.800 kr.
Belgía: 70.000 b. fr. Ítalía: 850.000 lí.
Breska konungsríkið: £ 500 Kanada: $ 1.460
Danmörk: 9.670 d. kr. Lúxemborg: 70.000 l. fr.
Frakkland: 490.000 f. fr. Noregur: 10.000 n. kr.
Holland: 5.320 gy. Portúgal: 40.250 es.

                Enn fremur skulu aðrir samningsaðilar, sem urðu fyrir eignatjóni þegar sama atvik átti sér stað, fella niður bótakröfu upp að þeirri fjárhæð sem að framan greinir. Sé verulegt ósamræmi milli skráðs gengis þessara gjaldmiðla skulu samningsaðilar semja um hæfilegar breytingar á fyrrnefndum fjárhæðum.
3.          Í 1. og 2. mgr. þessarar greinar tekur orðatiltækið „í eigu samningsaðila“, þegar um skip er að ræða, til skips sem samningsaðilinn tekur á þurrleigu eða krefst afhendingar á með þurrleiguskilmálum eða leggur hald á til hernota (nema að því leyti sem ábyrgð á skipinu eða áhætta vegna tjóns á því hvílir á öðrum aðila en slíkum samningsaðila).
4.          Sérhver samningsaðili mun eigi gera kröfu um skaðabætur á hendur öðrum samningsaðilum vegna meiðsla eða dauða liðsmanns í her sínum á þeim tíma þegar slíkur liðsmaður sinnti opinberum skyldustörfum sínum.
5.          Viðtökuríkið skal fjalla um kröfur (aðrar en samningskröfur og kröfur sem ákvæði 6. eða 7. mgr. þessarar greinar gilda um), sem leiðir af verknaði eða vanrækslu manna í liðsafla eða borgaralegri deild við opinber skyldustörf eða af öðrum verknaði, vanrækslu eða atburði, sem liðsafli eða borgaraleg deild ber ábyrgð á lögum samkvæmt og tjón hlýst af á landsvæði viðtökuríkis fyrir þriðja aðila annan en samningsaðila, í samræmi við eftirfarandi ákvæði:
         a)    kröfur skulu gerðar, um þær fjallað og samið eða dómur á þær lagður, í samræmi við lög og reglur viðtökuríkisins, er um ræðir kröfur sem verða til vegna verka eigin liðsafla þess,
        b)    viðtökuríkið getur samið um hverja slíka kröfu og það skal greiða með innlendum gjaldeyri þá fjárhæð sem um er samið eða ákveðin er með dómi,
         c)    slík greiðsla, hvort sem staðið er skil á henni samkvæmt samningi eða úrskurði bærs dómstóls viðtökuríkisins í málinu, eða fullnaðardómur slíks dómstóls, þar sem synjað er um greiðslu, skal vera bindandi fyrir samningsaðilana og endanlegur,
         d)    sérhver krafa, sem viðtökuríkið greiðir, skal tilkynnt hlutaðeigandi sendiríkjum ásamt fullnægjandi upplýsingum og tillögu að niðurjöfnun skv. i., ii. og iii. lið e-liðar hér að aftan. Berist ekkert svar innan tveggja mánaða skal tillagan um niðurjöfnun teljast samþykkt,
         e)    kostnaði samfara því að fullnægja kröfum samkvæmt undirliðunum hér að framan og 2. mgr. þessarar greinar skal jafnað niður á samningsaðilana sem hér segir:
                i.        þar sem sendiríki, eitt og sér, ber ábyrgð skal fjárhæð þeirri sem er ákveðin með úrskurði eða dómi skipt í þeim hlutföllum að viðtökuríkið greiði 25% en sendiríkið 75%,
                ii.    þar sem fleiri en eitt ríki ber ábyrgð á tjóninu skal fjárhæð þeirri sem er ákveðin með úrskurði eða dómi skipt jafnt milli þeirra. Sé viðtökuríkið hins vegar ekki í hópi þeirra ríkja sem bera ábyrgð skal framlag þess vera helmingur framlags hvers og eins sendiríkis,
                iii.    ef tjónið er af völdum herja samningsaðilanna og eigi er unnt að rekja það til eins hers eða fleiri skal fjárhæð þeirri sem er ákveðin með úrskurði eða dómi skipt jafnt milli hlutaðeigandi samningsaðila. Sé viðtökuríkið hins vegar ekki í hópi þeirra ríkja sem herinn, sem olli tjóninu, tilheyrir skal framlag þess vera helmingur framlags hvers og eins hlutaðeigandi sendiríkis,
                iv.    senda ber hlutaðeigandi sendiríkjum skýrslu, á sex mánaða fresti, um þær fjárhæðir sem viðtökuríkið hefur greitt síðasta misserið vegna sérhvers máls, sem tillaga um niðurjöfnun hefur verið samþykkt vegna, ásamt kröfu um endurgreiðslu. Endurgreiðsla skal fara fram, eins fljótt og því verður við komið, í gjaldmiðli viðtökuríkisins,
        f)    í tilvikum þar sem beiting ákvæða b- og e-liðar þessarar málsgreinar myndi valda samningsaðila miklum erfiðleikum getur hann farið þess á leit við Norður- Atlantshafsráðið að það beiti sér fyrir því að annars konar samningur sé gerður,
         g)    eigi skal maður í liðsafla eða borgaralegri deild sæta málsmeðferð vegna fullnustu dóms sem hann hefur hlotið í viðtökuríkinu vegna máls sem komið hefur upp í tengslum við opinber skyldustörf hans,
         h)    ákvæði þessarar málsgreinar gilda ekki um neinar kröfur, sem leiðir af eða tengjast siglingu eða notkun skips eða lestun, flutningi eða losun farms, aðrar en kröfur vegna dauða eða meiðsla sem 4. mgr. þessarar greinar gildir ekki um, nema að því marki sem ákvæði e-liðar þessarar málsgreinar gilda um kröfur sem 2. mgr. þessarar greinar tekur til.
6.          Fjalla ber um kröfur á hendur mönnum í liðsafla eða borgaralegri deild, sem leiðir af verknaði eða vanrækslu sem tjón hlýst af í viðtökuríkinu, þegar slíkur verknaður eða vanræksla á sér stað utan þess tíma þegar þeir gegna opinberum skyldustörfum sínum, með þeim hætti sem hér greinir:
         a)    yfirvöld viðtökuríkisins skulu fjalla um kröfuna og meta bætur til handa krefjanda á sanngjarnan og réttlátan hátt, að teknu tilliti til allra málsatvika, meðal annars háttsemi þess sem verður fyrir líkamstjóni, og taka saman skýrslu um málið,
         b)    afhenda ber skýrsluna yfirvöldum sendiríkisins sem skulu því næst ákveða, án tafar, hvort þau muni bjóða fram greiðslu án þess að bera skylda til þess að lögum ( ex gratia) og, ef svo, að hvaða fjárhæð,
         c)    sé greiðsla boðin fram, sem ekki er lögum samkvæmt skylt að standa skil á, og krefjandi þiggur hana sem uppfyllingu kröfu sinnar að fullu skulu yfirvöld sendiríkisins sjálf inna greiðsluna af hendi og tilkynna yfirvöldum viðtökuríkisins um ákvörðun sína og þá fjárhæð sem er greidd,
         d)    ekkert í þessari málsgrein hefur áhrif á það að dómstólar viðtökuríkisins viðhafi lögsögu í máli, sem kann að verða sótt gegn manni í liðsafla eða borgaralegri deild, nema og þar til greiðsla til uppfyllingar kröfunni að fullu hefur verið innt af hendi.
7.          Fjalla ber um kröfur, er leiðir af óheimilaðri notkun ökutækis hers sendiríkis, skv. 6. mgr. þessarar greinar, nema að því leyti sem liðsaflinn eða borgaralega deildin ber ábyrgð lögum samkvæmt.
8.          Rísi deila um hvort verknaður eða vanræksla manns í liðsafla eða borgaralegri deild, þ.e. verknaður eða vanræksla sem tjón hlýst af, hafi átt sér stað við opinber skyldustörf eða hvort notkun ökutækis hers sendiríkis hafi verið óheimil skal senda málið gerðarmanni, sem tilnefndur er skv. b-lið 2. mgr. þessarar greinar, til úrlausnar og skal úrskurður hans, að því er þetta atriði varðar, vera endanlegur og óhagganlegur.
9.          Sendiríkið skal ekki gera kröfu um friðhelgi, að því er varðar lögsögu dómstóla viðtökuríkisins, til handa mönnum í liðsafla eða borgaralegri deild með tilliti til einkamálalögsögu dómstóla viðtökuríkisins, nema að því leyti sem mælt er fyrir um í g-lið 5. mgr. þessarar greinar.
10.          Yfirvöld sendiríkisins og viðtökuríkisins skulu vinna saman að öflun gagna til þess að sanngjörn dómsmeðferð geti farið fram og unnt sé að fjalla um kröfur á réttmætan hátt í málum þar sem samningsaðilarnir eiga hagsmuna að gæta.

IX. gr.


1.          Mönnum í liðsafla eða borgaralegri deild, ásamt skylduliði þeirra, er heimilt að kaupa á staðnum nauðsynlegar vörur til eigin neyslu og þá þjónustu sem þeir þarfnast á sömu kjörum og þegnar viðtökuríkisins.
2.          Vörur, sem liðsafli eða borgaraleg deild þarfnast sér til viðurværis, skulu að jafnaði keyptar fyrir atbeina þeirra yfirvalda sem annast slík vörukaup fyrir her viðtökuríkisins. Bær yfirvöld viðtökuríkisins skulu, til að koma í veg fyrir að slík kaup hafi skaðleg áhrif á hagkerfi þess, tilgreina, ef nauðsyn krefur, þær vörutegundir sem takmarka eða banna ber kaup á.
3.          Yfirvöld viðtökuríkisins skulu ein ábyrgjast, samkvæmt gildandi samningum eða samningum sem kunna að verða gerðir hér eftir milli réttbærra fulltrúa sendiríkisins og viðtökuríkisins, að gerðar verði viðeigandi ráðstafanir til að byggingar og land, sem liðsafla eða borgaralegri deild eru nauðsynleg, séu til reiðu fyrir hann eða hana ásamt tilheyrandi aðstöðu og þjónustu. Slíkir samningar og ráðstafanir skulu vera í samræmi við reglur um húsnæði og vistafar sambærilegra liðsmanna viðtökuríkisins, að svo miklu leyti sem því verður við komið. Hafi enginn sérsamningur verið gerður um hið gagnstæða skulu lög viðtökuríkisins skera úr um réttindi og skyldur er leiðir af setu í eða notkun á byggingum, landi, aðstöðu eða þjónustu.
4.          Fullnægja ber staðbundnum þörfum liðsafla eða borgaralegrar deildar fyrir borgaralegt vinnuafl á sama hátt og um sambærilegar þarfir viðtökuríkisins væri að ræða og með aðstoð yfirvalda þess og fyrir milligöngu vinnumiðlana. Ráðningarkjör og vinnuskilyrði, einkum vinnulaun, launauppbætur og öryggisráðstafanir við vinnu, skulu vera þau sömu og mælt er fyrir um í lögum viðtökuríkisins. Eigi ber að líta svo á að slíkir borgarar, sem starfa fyrir liðsafla eða borgaralega deild, séu með neinum hætti menn í liðsaflanum eða hinni borgaralegu deild.
5.          Hafi liðsafli eða borgaraleg deild ófullnægjandi aðstöðu til þess að veita læknis- eða tannlæknisþjónustu, þar sem hann eða hún er staðsett, geta menn hans eða hennar og skyldulið þeirra fengið sambærilega læknishjálp og tannlæknisþjónustu og sambærilegir liðsmenn viðtökuríkisins.
6.          Viðtökuríkið skal taka beiðnir um að láta mönnum í liðsafla eða borgaralegri deild í té aðstöðu til að ferðast og um að veita þeim afslátt af fargjöldum til vinsamlegrar athugunar. Hlutaðeigandi ríkisstjórnir munu gera með sér sérstakt samkomulag um fyrrnefnda aðstöðu og afslátt
7.          Stjórn liðsafla skal inna af hendi tafarlausar greiðslur, í gjaldmiðli hlutaðeigandi ríkis, fyrir vörur, húsnæði og þjónustu, sem eru látin í té skv. 2., 3., 4. og, ef nauðsyn ber til, 5. og 6. mgr. þessarar greinar, með fyrirvara um almennar eða sértækar fjárhagsráðstafanir sem samningsaðilarnir semja um sín á milli.
8.          Liðsafli, borgaraleg deild, menn í þeim eða skyldulið þeirra skulu ekki, í krafti ákvæða þessarar greinar, njóta undanþágu frá gjöldum eða tollum sem tengjast innkaupum og þjónustu og ber að greiða samkvæmt skattareglum viðtökuríkisins.

X. gr.


1.          Þar sem hvers kyns skattheimta í viðtökuríki, lögum samkvæmt, er því háð að viðkomandi hafi þar búsetu eða lögheimili ber eigi að líta á þann tíma sem maður í liðsafla eða borgaralegri deild dvelur á landsvæði þess ríkis, einvörðungu vegna stöðu sinnar sem maður í slíkum liðsafla eða borgaralegri deild, sem búsetutíma þar eða að sá tími breyti einhverju um búsetu eða lögheimili viðkomandi að því er skattheimtu varðar. Menn í liðsafla eða borgaralegri deild skulu undanþegnir sköttum í viðtökuríkinu á laun eða þóknanir, sem sendiríkið greiðir þeim sem slíkum liðsmönnum, eða á efnislega lausamuni í þeirra eigu sem eru í viðtökuríkinu einvörðungu vegna tímabundinnar veru þeirra þar.
2.          Ekkert í þessari grein kemur í veg fyrir að skattar séu lagðir á mann í liðsafla eða borgaralegri deild vegna gróðavænlegs framtaks hans í viðtökuríkinu, annars en starfs hans sem slíkur liðsmaður, og, að öðru leyti en við kemur launum hans og þóknunum og þeim efnislegu lausamunum hans sem um getur í 1. mgr., skal ekkert í þessari grein koma í veg fyrir að skattar séu lagðir á slíkan liðsmann, þ.e. skattar sem honum ber að greiða samkvæmt lögum viðtökuríkisins, jafnvel þótt litið sé svo á að hann hafi búsetu eða eigi lögheimili utan landsvæðis þess.
3.          Ekkert í þessari grein skal gilda um „toll“ samanber skilgreiningu í 12. mgr. XI. gr.
4.          Að því er varðar ákvæði þessarar greinar nær merking hugtaksins „maður í liðsafla“ ekki til manna sem hafa ríkisfang í viðtökuríkinu.

XI. gr.


1.          Menn í liðsafla og borgaralegri deild, ásamt skylduliði þeirra, skulu, nema kveðið sé á um hið gagnstæða berum orðum í samningi þessum, heyra undir þau lög og reglur sem tollyfirvöld viðtökuríkisins framfylgja. Tollyfirvöldum viðtökuríkisins skal einkanlega heimilt, samkvæmt almennum ákvæðum laga og reglna viðtökuríkisins, að leita á mönnum í liðsafla eða borgaralegri deild og skylduliði þeirra og skoða farangur þeirra og ökutæki og leggja hald á muni samkvæmt ákvæðum slíkra laga og reglna.
2.         a)    Heimila ber tímabundinn tollfrjálsan innflutning og endurútflutning þjónustuökutækja liðsafla eða borgaralegrar deildar, sem hann eða hún hefur yfirráð yfir, að framlögðu tollskjali í þríriti í þeirri mynd sem sýnd er í viðbætinum við samning þennan.
         b)    Um tímabundinn innflutning fyrrnefndra ökutækja, sem fyrrnefndir aðilar hafa ekki yfirráð yfir, gilda ákvæði 4. mgr. þessarar greinar og um endurútflutning þeirra ákvæði 8. mgr.
         c)    Þjónustuökutæki liðsafla eða borgaralegrar deildar skulu undanþegin gjöldum sem ber að greiða vegna notkunar ökutækja á vegum úti.
3.          Eigi skal tollskoða innsigluð opinber skjöl. Sérstakir sendiboðar, sem flytja slík skjöl, skulu, án tillits til þess hvaða stöðu þeir gegna, hafa meðferðis fyrirmæli um ferð sína, útgefin í samræmi við ákvæði b-liðar 2. mgr. III. gr. Í fyrirmælunum skal tilgreina fjölda sendinga, sem sendiboðarnir hafa meðferðis, og votta að þær innihaldi einungis opinber skjöl.
4.          Liðsafla er heimilt að flytja inn tollfrjálst tækjabúnað handa sjálfum sér og hæfilegt magn vista, birgða og annars varnings, einvörðungu til nota fyrir liðsaflann, og, í þeim tilvikum þegar viðtökuríkið heimilar slíka notkun, fyrir borgaralega deild sína og skyldulið. Þessi tollfrjálsi innflutningur skal háður því skilyrði að afhent sé, á tollskrifstofu á innflutningsstað, auk þeirra tollskjala sem gera ber samkomulag um, vottorð, í þeirri mynd sem viðtökuríkið og sendiríkið koma sér saman um, undirritað af manni sem sendiríkið veitir til þess umboð. Senda skal tollyfirvöldum viðtökuríkisins nafn þess manns sem hefur umboð til þess að undirrita vottorðin og sýnishorn af nafnritun og stimplum sem nota ber.
5.          Manni í liðsafla eða borgaralegri deild er heimilt, þegar hann kemur í fyrsta sinn til viðtökuríkisins til þess að taka við starfi sínu þar eða þegar einstaklingur úr skylduliði hans kemur í fyrsta sinn til samvista við hann, að flytja tollfrjálst inn persónulega muni sína og húsgögn til afnota meðan hann gegnir starfi sínu þar.
6.          Mönnum í liðsafla eða borgaralegri deild er heimilt að flytja inn vélknúin ökutæki sín í einkaeign til eigin nota og nota fyrir skyldulið sitt tímabundið og án þess að greiða innflutningstolla. Eigi ber, samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, að veita undanþágu frá gjöldum sem ber að greiða vegna nota á vegum fyrir ökutæki í einkaeign.
7.          Vörur, sem yfirvöld liðsafla flytja inn, aðrar en vörur einvörðungu til nota fyrir liðsaflann og borgaralega deild hans, og vörur, aðrar en vörur sem er fjallað um í 5. og 6. mgr. þessarar greinar og menn í liðsafla eða borgaralegri deild flytja inn, skulu ekki, sökum ákvæða þessarar greinar, undanþegnar tolli eða öðrum skilyrðum.
8.          Vörur, sem hafa verið fluttar inn tollfrjálst skv. b-lið 2. mgr. eða 4., 5. eða 6. mgr. hér að framan, skal fara með sem hér segir:
        a)    heimilt er að flytja þær út aftur óhindrað, enda sé vottorð, útgefið skv. 4. mgr., lagt fram á tollskrifstofu ef um ræðir innflutning samkvæmt þeirri málsgrein. Tollyfirvöld mega samt ganga úr skugga um að endurútfluttar vörur samræmist því sem lýst er í vottorðinu, ef um slíkt vottorð er að ræða, og að þær hafi í raun verið fluttar inn í samræmi við skilyrði b-liðar 2. mgr. eða 4., 5. eða 6. mgr., eftir því sem við á,
         b)    slíkar vörur skulu, að öllu jöfnu, eigi látnar af hendi í viðtökuríkinu, hvorki sem sölu- né gjafavara. Þó má, þegar sérstaklega stendur á, veita heimild til slíkrar afhendingar með þeim skilyrðum er hlutaðeigandi yfirvöld viðtökuríkisins setja (t. d. um greiðslu a tolli og gjöldum og um að kröfum um eftirlit með verslun og gjaldeyri sé fullnægt).
9.          Vörur, sem keyptar eru í viðtökuríkinu, skulu einungis fluttar út þaðan samkvæmt gildandi reglum í viðtökuríkinu.
10.     Tollyfirvöld skulu gera sérstakar ráðstafanir í þágu reglulegra eininga eða fylkinga, þegar farið er yfir landamæri, að því tilskildu að hlutaðeigandi tollyfirvöldum hafi verið tilkynnt um það fyrirfram með viðeigandi hætti.
11.     Viðtökuríkið skal gera sérstakar ráðstafanir til þess að unnt sé að afgreiða, toll- og gjaldfrítt, eldsneyti, olíu og smurningsolíur fyrir þjónustuökutæki, -loftför og -skip liðsafla eða borgaralegrar deildar.
12.     Merking eftirfarandi hugtaka í 1. til 10. mgr. þessarar greinar er sem hér segir:
            „tollur“ merkir tollgjöld og hvers konar aðra tolla og skatta sem greiða ber vegna innflutnings eða útflutnings, eftir því sem við á, að undanskildum gjöldum og sköttum sem eru aðeins endurgjald fyrir veitta þjónustu,
            „innflutningur“ merkir meðal annars að taka vöru úr tollvörugeymslu eða samfelldri vörslu tollyfirvalda, að því tilskildu að þær vörur er um ræðir hafi ekki verið ræktaðar, framleiddar eða unnar í viðtökuríkinu.
13.     Ákvæði þessarar greinar gilda ekki aðeins um umræddar vörur þegar þær eru fluttar inn til viðtökuríkisins eða út frá því, heldur einnig þegar þær eru fluttar um landsvæði samningsaðila og með tilliti til slíks umflutnings skal merking orðsins „viðtökuríki“ í þessari grein talin eiga við um hvern þann samningsaðila sem á landsvæði þar sem umflutningur varanna á sér stað.


XII. gr.

1.          Yfirvöld tolla- og fjármála í viðtökuríkinu geta gert þá kröfu, sem skilyrði fyrir hvers konar undanþágu frá eða ívilnun vegna tolla eða gjalda sem kveðið er á í samningi þessum, að skilyrðum, sem þau telja nauðsynlegt að setja til þess að koma í veg fyrir misnotkun, sé fullnægt.
2.          Fyrrnefnd yfirvöld geta synjað um undanþágur, sem kveðið er á um í samningi þessum, vegna innflutnings til viðtökuríkisins á vörum sem eru ræktaðar, framleiddar eða unnar þar og fluttar hafa verið út þaðan án þess að greidd hafi verið gjöld eða tollar, eða jafnhliða endurgreiðslu gjalda eða tolla, sem hefði verið heimilt að leggja á hefði ekki komið til slíks útflutnings. Líta ber svo á að vörur, sem hafa verið fjarlægðar úr tollvörugeymslu, séu innfluttar hafi afhending þeirra til vörslu í tollvörugeymslunni verið talin jafngilda útflutningi.


XIII. gr.

1.          Yfirvöld viðtökuríkisins og sendiríkisins skulu veita hvort öðru aðstoð við rannsókn og öflun gagna í því skyni að koma í veg fyrir brot á lögum og reglugerðum um tolla og fjármál.
2.          Yfirvöld liðsafla skulu veita alla þá aðstoð sem þeim er unnt til þess að tryggja að hlutir, sem yfirvöldum toll- og fjármála í viðtökuríkinu ber réttur til að haldleggja, eða að það sé gert fyrir þeirra hönd, séu afhentir þeim yfirvöldum.
3.          Yfirvöld liðsafla skulu veita alla þá aðstoð sem þeim er unnt til þess að tryggja að tollar, gjöld og sektir, sem mönnum í liðsafla eða borgaralegri deild eða skylduliði þeirra ber að greiða, séu greidd.
4.          Þjónustuökutæki og muni, sem tilheyra liðsafla eða borgaralegri deild hans en ekki manni í slíkum liðsafla eða borgaralegri deild og yfirvöld viðtökuríkisins leggja hald á í tengslum við brot á lögum og reglum þess um tolla og fjármál, skal afhenda réttum yfirvöldum hlutaðeigandi liðsafla.


XIV. gr.

         a)    Gjaldeyrisreglur sendiríkisins gilda áfram um liðsafla, borgaralega deild og liðsmenn hans og hennar, og um skyldulið þeirra, jafnframt því að reglugerðir viðtökuríkisins gilda áfram um þau.
         b)    Yfirvöld gjaldeyrismála í sendiríkinu og viðtökuríkinu geta sett sértækar reglur sem gilda um liðsafla eða borgaralega deild eða liðsmenn hans eða hennar og um skyldulið þeirra.


XV. gr.

1.          Samningur þessi gildir áfram, skv. 2. mgr. þessarar greinar, komi til hernaðarátaka, sem falla undir gildissvið Norður-Atlantshafssamningsins, að því undanskildu að ákvæðin um greiðslu krafna í 2. og 5. mgr. VIII. gr. gilda ekki um tjón í styrjöldum og að hlutaðeigandi samningsaðilar skuli tafarlaust endurskoða ákvæði samningsins, einkum III. og VII. gr., og er þeim heimilt að semja sín á milli um breytingar sem þeir kunna að álíta æskilegar með tilliti til framkvæmdar samningsins þeirra í milli.
2.          Komi til hernaðarátaka, er áður greinir, ber sérhverjum samningsaðila réttur til að fella hvaða ákvæði samnings þessa sem er tímabundið úr gildi, að því er hann varðar, með því að tilkynna hinum samningsaðilunum um það með 60 daga fyrirvara. Sé rétti þessum beitt skulu samningsaðilarnir eiga samráð sín á milli, eins fljótt og verða má, í því skyni að ná samkomulagi um viðeigandi ákvæði í stað þeirra sem numin eru tímabundið úr gildi.


XVI. gr.

    Leysa ber allan ágreining milli samningsaðila um túlkun eða framkvæmd samnings þessa með samningaviðræðum þeirra í milli, án þess að slíkum ágreiningi verði skotið til utanaðkomandi dómsvalds. Ágreiningi, sem ekki er unnt að leysa með beinum samningaviðræðum, ber að vísa til Norður-Atlantshafsráðsins, nema hið gagnstæða sé ákveðið berum orðum í samningi þessum.

XVII. gr.

    Sérhver samningsaðili getur, hvenær sem er, óskað eftir því að hvaða grein samnings þessa sem er verði tekin til endurskoðunar. Beiðni um endurskoðun skal beint til Norður- Atlantshafsráðsins.

XVIII. gr.

1.          Fullgilda ber samning þennan og afhenda ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku til vörslu skjöl um fullgildingu, eins fljótt og við verður komið, sem aftur skal tilkynna hverju undirritunarríki um afhendingardagsetningu þeirra.
2.          Þrjátíu dögum eftir að fjögur undirritunarríki hafa afhent skjöl sín um fullgildingu til vörslu öðlast samningur þessi gildi þeirra í milli. Samningurinn öðlast gildi gagnvart hverju öðru undirritunarríki þrjátíu dögum eftir að skjal þess um fullgildingu er afhent til vörslu.
3.          Samningur þessi skal, eftir að hann hefur öðlast gildi og með fyrirvara um samþykki Norður-Atlantshafsráðsins og með þeim skilyrðum sem það kann að ákveða, liggja frammi til aðildar af hálfu hvers þess ríkis sem gerist aðili að Norður-Atlantshafssamningnum. Aðild fer fram með því að afhenda ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku til vörslu skjal um aðild sem aftur skal tilkynna hverju ríki, sem hefur undirritað samninginn og gerst aðili að honum, um afhendingardagsetningu þess. Í því tilviki er skjal um aðild er afhent til vörslu af hálfu ríkis skal samningur þessi öðlast gildi gagnvart því þrjátíu dögum eftir þann dag þegar slíkt skjal er afhent til vörslu.

XIX. gr.

1.          Sérhver samningsaðili getur sagt samningi þessum upp eftir að fjögur ár eru liðin frá þeim degi þegar samningurinn öðlast gildi.
2.          Uppsögn samningsins af hálfu samningsaðila fer fram með skriflegri tilkynningu hans til ríkisstjórnar Bandaríkja Norður-Ameríku sem tilkynnir öllum öðrum samningsaðilum um hverja slíka tilkynningu og þann dag þegar henni er veitt viðtaka.
3.          Uppsögnin tekur gildi einu ári eftir þann dag þegar ríkisstjórn Bandaríkja Norður- Ameríku tekur við tilkynningunni. Eftir að fyrrnefndu eins árs tímabili lýkur gildir samningurinn ekki lengur gagnvart þeim samningsaðila sem segir honum upp, en gildir áfram gagnvart þeim samningsaðilum sem eftir standa.


XX. gr.

1.          Samningur þessi gildir, með fyrirvara um ákvæði 2. og 3. mgr. þessarar greinar, um móðurland samningsaðila eingöngu.
2.          Hverju ríki er þó heimilt, þegar það afhendir skjal sitt um fullgildingu eða aðild til vörslu eða hvenær sem er eftir það, að lýsa því yfir með tilkynningu, sem afhent er ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku, að samningur þessi skuli ná (með fyrirvara um að gengið sé frá sérsamningi milli þess ríkis sem gefur yfirlýsinguna út og hvers hlutaðeigandi sendiríkis, telji hið fyrrnefnda slíkt nauðsynlegt) til allra eða einhvers þeirra landsvæða sem það annast milliríkjasamskipti fyrir á svæði Norður-Atlantshafssamningsins. Samningur þessi skal þá ná til þess landsvæðis eða landsvæða, sem eru tilgreind í tilkynningunni, þrjátíu dögum eftir að ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku tekur við henni eða þrjátíu dögum eftir að gengið hefur verið frá fyrrnefndum sérsamningum, séu þeir nauðsynlegir, eða þegar hann hefur öðlast gildi skv. XVIII. gr., hvort sem síðar verður.
3.          Ríki, sem hefur gefið út yfirlýsingu skv. 2. mgr. þessarar greinar þar sem gildissvið samnings þessa er látið ná til landsvæðis sem það annast milliríkjasamskipti fyrir, er heimilt, skv. ákvæðum XIX. gr., að segja samningnum upp sérstaklega með tilliti til þess landsvæðis.
    Þessu til staðfestu hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

    Gjört í London 19. júní 1951 í einu frumeintaki á ensku og frönsku, sem afhenda ber til vörslu í skjalasafni ríkisstjórnar Bandaríkja Norður-Ameríku, og eru báðir textarnir jafngildir. Ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku skal senda öllum ríkjum, sem undirrita samning þennan og gerast aðilar að honum, staðfest endurrit af fyrrnefndu frumeintaki.



Fylgiskjal II.


Bókun
um réttarstöðu fjölþjóðlegra hernaðarlegra höfuðstöðva sem stofnsettar eru samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum.


Aðilar að Norður-Atlantshafssamningnum, sem var undirritaður í Washington hinn 4. apríl 1949,
sem telja að unnt sé, með sérstöku samkomulagi, að setja á stofn fjölþjóðlegar hernaðarlegar höfuðstöðvar á landsvæðum sínum samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum og

sem vilja skilgreina réttarstöðu slíkra höfuðstöðva og liðsmanna í þeim innan þess svæðis sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til,
hafa orðið ásáttir um bókun þessa við samninginn, sem var undirritaður í London hinn 19. júní 1951, viðvíkjandi réttarstöðu liðsafla þeirra:

I. gr.


    Í bókun þessari hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
     a.      „samningurinn“ merkir samninginn sem aðilar að Norður-Atlantshafssamningnum undirrituðu í London hinn 19. júní 1951 og fjallar um réttarstöðu liðsafla þeirra,
     b.      „herstjórnarmiðstöð“ merkir herstjórnarmiðstöð NATO í Evrópu, höfuðstöðvar æðsta yfirmanns herafla NATO á Atlantshafi og aðrar fjölþjóðlegar hernaðarlegar höfuðstöðvar sem stofnsettar eru samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum,
     c.      „sameiginlegar höfuðstöðvar“ merkir herstjórnarmiðstöð og fjölþjóðlegar hernaðarlegar höfuðstöðvar sem stofnsettar eru samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum og eru næsta undirstofnun herstjórnarmiðstöðvar,
     d.      „Norður-Atlantshafsráð“ merkir ráðið, sem var komið á fót skv. IX. gr. Norður-Atlantshafssamningsins, eða einhverja undirstofnun þess sem hefur heimild til að koma fram fyrir hönd þess.

II. gr.

    Samningurinn gildir, með fyrirvara um eftirfarandi ákvæði bókunar þessarar, um sameiginlegar höfuðstöðvar á landsvæði aðila að bókun þessari á því svæði sem Norður- Atlantshafssamningurinn tekur til og um hermenn og borgaralega liðsmenn í fyrrnefndum höfuðstöðvum og skyldulið þeirra, sem falla undir skilgreiningarnar í a-, b- og c-lið 1. mgr. III. gr. bókunar þessarar, þegar fyrrnefndir her- eða liðsmenn eru á einhverju því landsvæði er fyrr getur vegna opinberra skyldustarfa sinna eða, í tilviki einstaklinga úr skylduliði, opinberra skyldustarfa maka þeirra eða foreldris.

III. gr.

     1.      Þegar samningurinn skal gilda um sameiginlegar höfuðstöðvar skulu hugtökin „liðsafli“, „borgaraleg deild“ og „einstaklingur úr skylduliði“, hvar sem þau koma fyrir í samningnum, hafa þá merkingu sem sett er fram hér að aftan:
                  a.      „liðsafli“ merkir þá liðsmenn sem tengjast hinum sameiginlegu höfuðstöðvum og eru í land-, sjó- eða flugher aðila að Norður-Atlantshafssamningnum,
                  b.      „borgaraleg deild“ merkir borgaralega liðsmenn sem eru ekki ríkisfangslausir eða ríkisborgarar ríkis, sem er ekki aðili að Norður-Atlantshafssamningnum, eða ríkisborgarar viðtökuríkisins eða hafa fasta búsetu þar og eru i. tengdir hinum sameiginlegu höfuðstöðvum og eru í þjónustu hers aðila að Norður-Atlantshafssamningnum eða ii. í flokkum borgaralegra liðsmanna í þjónustu hinna sameiginlegu höfuðstöðva eftir því sem Norður-Atlantshafsráðið mun ákveða,
                  c.      „einstaklingur úr skylduliði“ merkir maka manns í liðsafla eða borgaralegri deild, samanber skilgreiningu í a- og b-lið þessarar málsgreinar, eða barn slíks manns sem er háð stuðningi hans.
     2.      Líta ber á sameiginlegar höfuðstöðvar sem liðsafla að því er varðar II. gr., 2. mgr. V. gr., 10. mgr. VII. gr., 2., 3., 4., 7. og 8. mgr. IX. gr. og XIII. gr. samningsins.

IV. gr.


    Réttindi og skyldur, sem leiðir af samningnum fyrir sendiríkið eða yfirvöld þess með tilliti til liðsafla þess eða borgaralegra deilda hans eða skylduliðs, skulu, með tilliti til sameiginlegra höfuðstöðva og liðsmanna þeirra og skylduliðs sem samningurinn gildir gagnvart skv. II. gr. bókunar þessarar, bundin við eða tengd viðeigandi herstjórnarmiðstöð og ábyrgum yfirvöldum, sem undir hana heyra, með þeirri undantekningu þó:
     a.      að binda beri réttinn, sem hermálayfirvöldum sendiríkisins er veittur skv. VII. gr. samningsins til þess að beita refsiréttarlögsögu og refsivaldi, við hermálayfirvöld þess ríkis, ef um það er að ræða, þar sem þau hermálalög gilda sem hlutaðeigandi einstaklingi ber að halda,
     b.      að skyldur, sem lagðar eru á sendiríkið eða yfirvöld þess skv. II. gr., 4. mgr. III. gr., a- lið 5. mgr. og a-lið 6. mgr. VII. gr., 9. og 10. mgr. VIII. gr. og XIII. gr. samningsins, skuli tengdar hinum sameiginlegu höfuðstöðvum og hverju því ríki sem heldur úti her eða liðsmönnum eða starfsmönnum eða skylduliði þeirra sem málið varðar,
     c.      að sendiríkið skuli vera, að því er varðar a-lið 2. mgr. og 5. mgr. III. gr. og XIV. gr. samningsins og þegar um ræðir menn í liðsafla og skyldulið þeirra, það ríki sem heldur úti þeim her sem viðkomandi liðsmaður tilheyrir eða, þegar um ræðir liðsmenn í borgaralegri deild og skyldulið þeirra, það ríki, ef um það er að ræða, sem heldur úti þeim her sem viðkomandi liðsmaður starfar hjá,
     d.      að skyldur, sem lagðar eru á sendiríkið samkvæmt 6. og 7. mgr. VIII. gr. samningsins, skuli tengdar því ríki sem heldur úti her sem viðkomandi einstaklingur tilheyrir, þ.e. einstaklingur sem með verknaði sínum eða vanrækslu hefur gefið tilefni til kröfugerðar eða, þegar um ræðir liðsmann í borgaralegri deild, því ríki sem heldur úti þeim her sem hann starfar hjá eða, ef ekki er um slíkt ríki að ræða, þeim sameiginlegu höfuðstöðvum þar sem viðkomandi einstaklingur er liðsmaður.
    Ríkið, ef um það er að ræða, sem hefur skyldum að gegna samkvæmt þessari málsgrein, og hlutaðeigandi sameiginlegar höfuðstöðvar skulu hafa rétt sendiríkis þegar skipa á gerðarmann skv. 8. mgr. VIII. gr.

V. gr.

    Sérhver liðsmaður í sameiginlegum höfuðstöðvum skal hafa persónulegt kennivottorð, sem höfuðstöðvarnar gefa út, þar sem fram koma nöfn, fæðingardagur og -staður, ríkisfang, metorð eða staða, kennitala (ef um hana er að ræða), ljósmynd og gildistími. Skylt er að framvísa þessu vottorði sé þess krafist.

VI. gr.

     1.      Sú skylda, sem lögð er á samningsaðila skv. VIII. gr. samningsins, að gera ekki kröfu um skaðabætur tengist bæði þeim sameiginlegu höfuðstöðvum og þeim aðila að bókun þessari sem málið varðar.
     2.      Að því er varðar 1. og 2. mgr. VIII. greinar samningsins,
                  a.      skal eign sameiginlegra höfuðstöðva eða aðila að bókun þessari, sem sameiginlegar höfuðstöðvar nota, talin eign samningsaðila sem her hans notar,
                  b.      skal tjón, sem maður í liðsafla eða borgaralegri deild, sbr. skilgreiningu í 1. mgr. III. gr. bókunar þessarar, veldur, eða einhver annar starfsmaður sameiginlegra höfuðstöðva, talið vera tjón sem liðs- eða starfsmaður í her samningsaðila veldur,
                  c.      skal skilgreining orðatiltækisins „í eigu samningsaðila“, sem er að finna í 3. mgr. VIII. gr., gilda gagnvart sameiginlegum höfuðstöðvum.
     3.      Til þeirra krafna sem ákvæði 5. mgr. VIII. gr. samningsins gildir um teljast kröfur (aðrar en samningskröfur og kröfur sem ákvæði 6. eða 7. mgr. þessarar greinar gilda um) sem leiðir af verknaði eða vanrækslu starfsmanna sameiginlegra höfuðstöðva, eða af öðrum verknaði, vanrækslu eða atburði sem sameiginlegar höfuðstöðvar bera ábyrgð á lögum samkvæmt og tjón hlýst af á landsvæði viðtökuríkis fyrir þriðju aðila, aðra en einhverja aðila að bókun þessari.

VII. gr.


     1.      Undanþága frá sköttum á laun og þóknanir, sem mönnum í liðsafla eða borgaralegri deild er veitt skv. X. gr. samningsins, gildir, að því er varðar liðsmenn í sameiginlegum höfuðstöðvum í skilningi a-liðar og i. liðar b-liðar 1. mgr. III. gr. bókunar þessarar, um laun og þóknanir, sem sá her sem þeir tilheyra eða ræður þá til starfa greiðir þeim sem slíkum liðsmönnum, þó með þeirri undantekningu að ákvæði þeirrar málsgreinar undanþiggur fyrrnefnda liðs- eða starfsmenn ekki frá sköttum sem ríki, þar sem þeir eiga ríkisfang, leggur á.
     2.      Starfsmenn sameiginlegra höfuðstöðva í flokkum, sem Norður-Atlantshafsráðið hefur samþykkt, skulu njóta undanþágu frá skatti á laun og þóknanir sem hinar sameiginlegu höfuðstöðvar greiða þeim sem slíkum starfsmönnum. Sérhver aðili að bókun þessari getur, engu að síður, gert samkomulag við hinar sameiginlegu höfuðstöðvar um að hann muni ráða til þeirra og úthluta þeim öllum þeim ríkisborgurum sínum (að þeim undanskildum sem ekki hafa fasta búsetu á landsvæði fyrrnefnds aðila, að fram kominni ósk hans þar um) sem til stendur að þjóni í starfsliði fyrrnefndra höfuðstöðva og greiða laun og þóknanir til slíkra einstaklinga úr eigin sjóðum samkvæmt launatöflu sem hann ákveður. Hlutaðeigandi aðili getur skattlagt laun og þóknanir, sem þannig eru greiddar, en allir aðrir aðilar skulu undanþiggja þau frá skatti. Geri aðili að bókun þessari samkomulag af því tagi er áður getur, þ.e. samkomulag sem síðar eru gerðar breytingar á eða sagt er upp, eru aðilar að bókun þessari ekki lengur skuldbundnir til þess, samkvæmt fyrsta málslið þessarar málsgreinar, að undanþiggja frá skatti laun og þóknanir sem ríkisborgurum þeirra eru greidd.

VIII. gr.

     1.      Í því skyni að auðvelda stofnun, byggingu, viðhald og rekstur sameiginlegra höfuðstöðva skulu þær njóta, eftir því sem við verður komið, skatta- og tollívilnana, sem hafa áhrif á tilkostnað þeirra í þágu sameiginlegra varna og eru í opinberri og eigin þágu þeirra, og skal sérhver aðili að bókun þessari hefja samningaviðræður við allar höfuðstöðvar, sem eru starfræktar á landsvæði hans, í því skyni að komast að samkomulagi um framkvæmd þessa ákvæðis.
     2.      Sameiginlegar höfuðstöðvar skulu hafa þann rétt sem liðsafla er veittur skv. XI. gr. samningsins og með sömu skilyrðum.
     3.      Ákvæði 5. og 6. mgr. XI. gr. samningsins gilda ekki gagnvart ríkisborgurum viðtökuríkjanna, nema því aðeins að þeir tilheyri her aðila að bókun þessari, annars en viðtökuríkisins.
     4.      Orðatiltækið „skattar og tollar“ í þessari grein tekur ekki til gjalda fyrir veitta þjónustu.

IX. gr.

    Með fyrirvara um ákvarðanir Norður-Atlantshafsráðsins um annað,
     a.      skal ráðstafa eignum, sem eru keyptar með fé úr fjölþjóðlegum sjóðum sameiginlegra höfuðstöðva samkvæmt fjárhagsáætlun þeirra og þær hafa ekki lengur þörf fyrir, samkvæmt tilhögun sem Norður-Atlantshafsráðið samþykkir og skal útdeila ávinningnum milli aðildarríkja Norður-Atlantshafssamningsins eða færa hann þeim til tekna í réttu hlutfalli við framlag þeirra til að mæta stofnkostnaði höfuðstöðvanna. Viðtökuríkið hefur forkaupsrétt að sérhverri fasteign, sem er ráðstafað með fyrrgreindum hætti á landsvæði þess, að því tilskildu að það bjóði ekki óhagstæðari skilmála en sérhver þriðji aðili,
     b.      skal skila viðtökuríkinu aftur landi, byggingum eða föstum mannvirkjum, sem viðtökuríkið afhendir sameiginlegum höfuðstöðvum til afnota endurgjaldslaust (að undanskildu lágmarksgjaldi) og höfuðstöðvarnar hafa ekki lengur þörf fyrir, og skal Norður-Atlantshafsráðið ákveða hækkun eða lækkun verðgildis eignar, sem viðtökuríkið afhendir, sem rekja má til notkunar höfuðstöðvanna (að teknu tilliti til gildandi laga viðtökuríkisins) og skal útdeila þeirri fjárhæð milli aðildarríkja Norður-Atlantshafssamningsins eða færa hana þeim til tekna eða skuldfæra þau fyrir henni í réttu hlutfalli við framlag þeirra til að mæta stofnkostnaði höfuðstöðvanna.

X. gr.

    Sérhver herstjórnarmiðstöð skal hafa réttarstöðu lögaðila og gerhæfi til samningsgerðar og til að kaupa eignir og ráðstafa þeim. Viðtökuríkið getur, engu að síður, haft þess konar gerhæfi samkvæmt sérstöku samkomulagi milli þess og hlutaðeigandi herstjórnarmiðstöðvar eða sameiginlegra höfuðstöðva sem eru undirstofnun hennar og koma fram fyrir hennar hönd.

XI. gr.

     1.      Herstjórnarmiðstöð getur, samkvæmt ákvæðum VIII. gr. samningsins, átt aðild að dómsmáli sem málshöfðandi eða varnaraðili. Viðtökuríkið og hlutaðeigandi herstjórnarmiðstöð, eða sameiginlegar höfuðstöðvar sem eru undirstofnun hennar og hún veitir umboð, geta komið sér saman um að viðtökuríkið komi fram fyrir hönd herstjórnarmiðstöðvarinnar í dómsmáli sem hún á aðild að og er rekið fyrir dómstólum viðtökuríkisins.
     2.      Sameiginlegar höfuðstöðvar skulu eigi sæta fullnustugerð eða hlíta ráðstöfunum, sem miða að haldlagningu eða löggeymslu eigna þeirra eða sjóða, nema að því er varðar ákvæði a-liðar 6. mgr. VII. gr. og XIII. gr. samningsins.

XII. gr.

     1.      Sameiginlegum höfuðstöðvum er heimilt að eiga fé og halda reikninga í hvaða gjaldmiðli sem er til þess að gera þeim kleift að framkvæma fjölþjóðlega fjárhagsáætlun sína.
     2.      Aðilar að bókun þessari skulu, að beiðni sameiginlegra höfuðstöðva, greiða fyrir því að þær geti yfirfært sjóði frá einu landi til annars og að sameiginlegar höfuðstöðvar geti skipt öllum gjaldmiðli sínum í hvaða annan gjaldmiðil sem er, þegar nauðsyn ber til í því skyni að fullnægja þörfum sameiginlegra höfuðstöðva.

XIII. gr.

    Skjalasöfn og önnur opinber skjöl sameiginlegra höfuðstöðva, sem eru varðveitt á athafnasvæði sem fyrrnefndar höfuðstöðvar nota eða eru í vörslu tiltekins liðsmanns höfuðstöðvanna með réttu, skulu friðhelg, nema höfuðstöðvarnar hafi afsalað friðhelgi þeirra. Höfuðstöðvarnar skulu, að beiðni viðtökuríkisins og í viðurvist fulltrúa þess, votta hvers eðlis öll skjöl eru til þess að staðfesta megi að þeim beri friðhelgi samkvæmt þessari grein.

XIV. gr.

     1.      Bókun þessi eða samningurinn getur í heild eða að hluta gilt, samkvæmt ákvörðun Norður-Atlantshafsráðsins, gagnvart hvaða fjölþjóðlegum hernaðarlegum höfuðstöðvum eða stofnun sem er (að frátöldum þeim sem skilgreiningar í b- og c-lið I. gr. bókunar þessarar ná til) sem er komið á fót samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum.
     2.      Þegar varnarsamstarf Evrópu verður að veruleika getur bókun þessi gilt gagnvart liðsmönnum evrópska varnarliðsins, sem tengjast sameiginlegum höfuðstöðvum, og skylduliði þeirra, þegar og með þeim hætti sem Norður-Atlantshafsráðið kann að ákveða.

XV. gr.

    Leysa ber allan ágreining, er kann að rísa milli aðila að bókun þessari eða milli sérhvers slíks aðila og sameiginlegra höfuðstöðva um túlkun eða framkvæmd bókunarinnar, með samningaviðræðum milli deiluaðila án þess að skjóta honum til utanaðkomandi dómsvalds. Ágreiningi, sem ekki er unnt að leysa með beinum samningaviðræðum, ber að vísa til Norður-Atlantshafsráðsins, nema annað sé ákveðið berum orðum í bókunn þessari eða samningnum.

XVI. gr.


     1.      Ákvæði XV. gr. og XVII. til XX. gr. samningsins gilda með tilliti til bókunar þessarar, sem væru óaðskiljanlegur hluti hennar, en með þeim hætti að unnt sé að endurskoða bókunina, fella hana tímabundið úr gildi, fullgilda hana, gerast aðili að henni, segja henni upp eða útvíkka hana í samræmi við fyrrnefnd ákvæði óháð samningnum.
     2.      Heimilt er að auka við bókun þessa með tvíhliða samningi milli viðtökuríkisins og herstjórnarmiðstöðvar og yfirvöld í viðtökuríki og herstjórnarmiðstöð geta komist að samkomulagi um að láta hvaða ákvæði bókunar þessarar eða samningsins, eins og hann gildir um hana, sem er koma til framkvæmda með stjórnsýsluaðgerðum áður en fullgilding fer fram.

Þessu til staðfestu hafa undirritaðir fulltrúar undirritað bókun þessa. Gjört í París hinn 28. ágúst 1952 í einu frumeintaki á ensku og frönsku, sem verður afhent til vörslu í skjalasafni ríkisstjórnar Bandaríkja Norður-Ameríku, og eru báðir textarnir jafngildir. Ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku skal senda öllum ríkjum, sem undirrita bókun þessa og gerast aðilar að henni, staðfest endurrit af fyrrnefndu frumeintaki.
Fylgiskjal III.


Samningur
milli aðildarríkja að Norður-Atlantshafssamningnum og annarra ríkja, sem eru aðilar að Samstarfi í þágu friðar, um réttarstöðu liðsafla þeirra.


    Aðildarríkin að Norður-Atlantshafssamningnum, sem var gerður í Washington 4. apríl 1949, og ríkin sem þiggja boð um þátttöku í samstarfi í þágu friðar, sem þjóðhöfðingjar og ríkisstjórnaleiðtogar aðildarríkja að Atlantshafsbandalaginu komu á framfæri og undirrituðu í Brussel 10. janúar 1994, og skrifa undir grunnskjalið um samstarf í þágu friðar,

    sem saman mynda hóp ríkja sem taka þátt í samstarfi í þágu friðar,

    sem telja að með samkomulagi sé unnt að senda liðsafla eins aðildarríkis að samningi þessum inn á landsvæði annars aðildarríkis og taka við honum þar,

    sem hafa í huga að ákvörðun um að senda liðsafla og taka við honum verður áfram sérstakt samkomulagsatriði milli hlutaðeigandi aðildarríkja,

    sem óska þess, samt sem áður, að skilgreina réttarstöðu fyrrnefnds liðsafla þegar hann er á landsvæði annars aðildarríkis,

    sem minnast samningsins milli aðildarríkja Norður-Atlantshafssamningsins um réttarstöðu liðsafla þeirra sem var gerður í London 19. júní 1951,

    hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

I. gr.
    

    Öll aðildarríki að samningi þessum skulu, nema kveðið sé á um annað í samningi þessum og viðbótarbókunum við hann með tilliti til aðila að honum, beita ákvæðum samningsins milli aðila að Norður-Atlantshafssamningnum um réttarstöðu liðsafla þeirra, sem var gerður í London 19. júní 1951 og hér á eftir nefndur NATO-SOFA-samningurinn, eins og öll aðildarríki að samningi þessum væru aðilar að NATO-SOFA-samningnum.

II. gr.

    Auk þess svæðis sem NATO-SOFA-samningurinn gildir um skal samningur þessi gilda um landsvæði allra aðildarríkja að samningi þessum sem eru ekki aðilar að NATO-SOFA- samningnum.
    Að því er samning þennan varðar skal líta svo á að vísanir í NATO-SOFA-samningnum til þess svæðis sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til eigi einnig við um þau landsvæði sem um getur í 1. mgr. samnings þessa og líta skal enn fremur svo á að vísanir til Norður-Atlantshafssamningsins feli í sér vísanir til samstarfs í þágu friðar.


III. gr.

    Komi til þess að beita ákvæðum samnings þessa vegna mála, er varða aðila sem eru ekki aðilar að NATO-SOFA-samningnum, skal túlka ákvæði NATO-SOFA-samningsins, sem fjalla um beiðnir eða ágreining sem vísa ber til Norður-Atlantshafsráðsins, formanns fulltrúaráðs Norður-Atlantshafsráðsins eða gerðarmanns, þannig að þess sé krafist af hlutaðeigandi aðilum að þeir leysi mál sín með samningaviðræðum sín á milli eða í sameiningu, án þess að þeim verði skotið til utanaðkomandi dómsvalds.

IV. gr.

    Heimilt er að samþykkja viðbætur við samning þennan eða gera breytingar á honum með öðrum hætti í samræmi við reglur þjóðaréttar.

V. gr.

    Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu hvers þess ríkis sem er annaðhvort aðili að NATO-SOFA-samningnum eða þiggur boð um að gerast aðili að samstarfi í þágu friðar og hefur undirritað grunnskjalið um samstarf í þágu friðar.
    Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki. Afhenda ber ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu sem aftur tilkynnir öllum ríkjum, sem hafa undirritað samninginn, um hverja slíka afhendingu.
    Þrjátíu dögum eftir að þrjú undirritunarríki, þar sem að minnsta kosti eitt er aðili að NATO-SOFA-samningnum og eitt hefur þegið boð um að gerast aðili að samstarfi í þágu friðar og undirritað grunnskjalið um samstarf í þágu friðar, hafa afhent skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu skal samningur þessi öðlast gildi gagnvart þeim. Samningurinn öðlast gildi gagnvart hverju öðru undirritunarríki þrjátíu dögum eftir að skjal þess er afhent til vörslu.

VI. gr.

    Sérhver aðili að samningi þessum getur sagt honum upp með því að tilkynna ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku skriflega um það sem aftur tilkynnir öllum undirritunarríkjum um hverja slíka tilkynningu. Uppsögnin tekur gildi einu ári eftir þann dag þegar ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku tekur við tilkynningunni. Eftir að fyrrnefndu eins árs tímabili lýkur gildir samningur þessi ekki lengur gagnvart þeim aðila sem segir honum upp, nema að því er varðar samninga um útistandandi kröfur sem koma fram fyrir þann dag er uppsögnin tekur gildi, en gildir áfram gagnvart þeim aðilum sem eftir standa.
    Þessu til staðfestu hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð ríkisstjórna sinna, undirritað samning þennan.
    Gjört í Brussel 19. júní 1995 í einu frumeintaki á ensku og frönsku, sem verður afhent til vörslu í skjalasafni ríkisstjórnar Bandaríkja Norður-Ameríku, og eru báðir textarnir jafngildir. Ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku skal senda öllum undirritunarríkjum staðfest endurrit af fyrrnefndu frumeintaki.

Fylgiskjal IV.


Viðbótarbókun
við samninginn milli aðildarríkja að Norður-Atlantshafssamningnum og annarra ríkja, sem eru aðilar að samstarfi í þágu friðar, um réttarstöðu liðsafla þeirra.



    Ríkin, sem eiga aðild að viðbótarbókun þessari við samninginn milli aðildarríkja að Norður-Atlantshafssamningnum og annarra ríkja, sem eru aðilar að samstarfi í þágu friðar, um réttarstöðu liðsafla þeirra, hér á eftir nefndur samningurinn,

    sem taka tillit til þess að eigi er kveðið á um dauðarefsingu í innlendri löggjöf sumra aðila að samningnum,

    hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

I. gr.

    Sérhvert ríki, sem er aðili að viðbótarbókun þessari, skal, að því leyti sem það fer með lögsögu samkvæmt ákvæðum samningsins, eigi fullnægja dauðadómi yfir manni í liðsafla og borgaralegri deild hans og einstaklingum úr skylduliði þeirra sem eru frá öðru ríki sem er aðili að viðbótarbókun þessari.

II. gr.

    Bókun þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu allra aðila sem hafa undirritað samninginn.
    Bókun þessi er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki. Afhenda ber ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu, sem aftur skal tilkynna öllum undirritunarríkjum um hverja slíka afhendingu.
    Bókun þessi öðlast gildi þrjátíu dögum eftir þann dag þegar þrjú undirritunarríki, þar sem að minnsta kosti eitt er aðili að NATO-SOFA-samningnum og eitt er ríki sem hefur þegið boð um að gerast aðili að samstarfi í þágu friðar og hefur undirritað grunnskjal um samstarf í þágu friðar, hafa afhent skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu.
    Bókun þessi öðlast gildi gagnvart hverju öðru undirritunarríki þann dag þegar það afhendir ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu.
    Gjört í Brussel 19. júní 1995 í einu frumeintaki á ensku og frönsku, sem verður afhent til vörslu í skjalasafni ríkisstjórnar Bandaríkja Norður-Ameríku, og eru báðir textarnir jafngildir. Ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku skal senda öllum undirritunarríkjum staðfest endurrit af fyrrnefndu frumeintaki.



Fylgiskjal V.



Frekari viðbótarbókun við samninginn milli aðildarríkja að Norður- Atlantshafssamningnum og annarra ríkja, sem eru aðilar að samstarfi í þágu friðar,
um réttarstöðu liðsafla þeirra.


    að teknu tilliti til „samningsins milli aðildarríkja að Norður-Atlantshafssamningnum og annarra ríkja, sem eru aðilar að samstarfi í þágu friðar, um réttarstöðu liðsafla þeirra“ og viðbótarbókunarinnar við hann, bæði gerð í Brussel 19. júní 1995,
    að teknu tilliti til nauðsynjar þess að ákvarða og koma reglu á réttarstöðu hernaðarlegra höfuðstöðva NATO og liðsmanna höfuðstöðva á landsvæði ríkja, sem eru aðilar að samstarfi í þágu friðar, í því skyni að auðvelda samskipti við heri einstakra samstarfsþjóða í þágu friðar,
    að teknu tilliti til nauðsynjar þess að veita liðsmönnum herja samstarfsríkja, sem tengjast eða eru í sambandi við hernaðarlegar höfuðstöðvar NATO, og að teknu tilliti til þess að aðstæður í ákveðnum NATO-ríkjum eða samstarfsríkjum kunna að gera að verkum að æskilegt sé að mæta þeim þörfum sem lýst er hér að framan með bókun þessari,
    hafa aðilar að bókun þessari orðið ásáttir um eftirfarandi:

I. gr.

    Í bókun þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
    1. „Parísarbókunin merkir“ „Bókun um réttarstöðu fjölþjóðlegra hernaðarlegra höfuðstöðva sem stofnsettar eru samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum“, gerð í París 28. ágúst 1952,
     a.      „samningurinn“ merkir, þar sem orðið kemur fyrir í Parísarbókuninni, samning NATO um réttarstöðu liðsafla eins og hann er látinn gilda með ákvæðum „samningsins milli aðildarríkja að Norður-Atlantshafssamningnum og annarra ríkja, sem eru aðilar að samstarfi í þágu friðar, um réttarstöðu liðsafla þeirra“ sem var gerður í Brussel 19. júní 1995,
     b.      „liðsafli“ og „borgaraleg deild“, þar sem þau orðatiltæki koma fyrir í Parísarbókuninni, hafa þá merkingu sem þeim er gefin í 3. gr. Parísarbókunarinnar og taka einnig til slíkra einstaklinga sem tengjast eða eru í sambandi við hernaðarlegar höfuðstöðvar NATO og eru frá öðrum aðildarríkjum sem eru aðilar að samstarfi í þágu friðar,
     c.      „einstaklingur úr skylduliði“ merkir, þar sem orðatiltækið kemur fyrir í Parísarbókuninni, maka manns í liðsafla eða borgaralegri deild, samanber skilgreiningu í b-lið þessarar greinar, eða barn slíks manns sem er háð stuðningi hans,
    2. „SOFA-samningur vegna samstarfs í þágu friðar“ merkir, þar sem orðatiltækið kemur fyrir í bókun þessari, „samninginn milli aðildarríkja að Norður-Atlantshafssamningnum og annarra ríkja, sem eru aðilar að samstarfi í þágu friðar, um réttarstöðu liðsafla þeirra“ sem var gerður í Brussel 19. júní 1995,
    3. „NATO“ merkir Atlantshafsbandalagið,
    4. „hernaðarlegar höfuðstöðva NATO“ merkir sameiginlegar höfuðstöðvar og aðrar fjölþjóðlegar hernaðarlegar höfuðstöðvar eða stofnanir sem falla undir 1. og 14. gr. Parísarbókunarinnar.

II. gr.

    Aðilar að bókun þessari skulu, með fyrirvara um rétt aðildarríkja NATO eða ríkja, sem eru aðilar að samstarfi í þágu friðar en ekki að bókun þessari, beita ákvæðum, sem eru samhljóða ákvæðum Parísarbókunarinnar, að undanskildum áorðnum breytingum á þeim samkvæmt bókun þessari, með tilliti til starfsemi hernaðarlegra höfuðstöðva NATO og hermanna og borgaralegra liðsmanna þeirra sem fer fram á landsvæði aðila að bókun þessari.

III. gr.

    1. Auk þess svæðis sem Parísarbókunin gildir um skal bókun þessi gilda um landsvæði allra aðildarríkja að bókun þessari eins og fram kemur í 1. mgr. II. gr. sem eru ekki aðilar að SOFA-samningnum vegna samstarfs í þágu friðar.
    2. Líta ber svo á að tilvísanir í Parísarbókuninni til þess svæðis þar sem Norður-Atlantshafssamningurinn gildir eigi, að því er bókun þessa varðar, við um þau landsvæði er um getur í 1. mgr. þessarar greinar.

IV. gr.

    Ákvæði Parísarbókunarinnar, sem fjalla um að vísa beri ágreiningi til Norður-Atlantshafsráðsins, skal túlka þannig, þegar beita á bókun þessari í tengslum við mál er varða samstarfsríki, að hlutaðeigandi aðilum beri að semja sín á milli án þess að vísa ágreiningi sínum til utanaðkomandi dómsvalds.

V. gr.

    1. Bókun þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu allra ríkja sem hafa undirritað SOFA-samninginn vegna samstarfs í þágu friðar.
    2. Bókun þessi er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki. Afhenda ber ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu sem aftur tilkynnir öllum ríkjum, sem hafa undirritað bókun þessa, um hverja slíka afhendingu.
    3. Þegar tvö undirritunarríki eða fleiri hafa afhent skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu skal bókun þessi öðlast gildi gagnvart þeim ríkjum. Bókunin öðlast gildi gagnvart hverju öðru undirritunarríki þann dag þegar það afhendir skjal sitt til vörslu.

VI. gr.

    Sérhver aðili að bókun þessari getur sagt henni upp með því að tilkynna ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku skriflega um það sem aftur tilkynnir öllum undirritunarríkjum um hverja slíka tilkynningu. Uppsögnin tekur gildi einu ári eftir þann dag þegar ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku tekur við tilkynningunni. Eftir að fyrrnefndu eins árs tímabili lýkur gildir bókun þessi ekki lengur gagnvart þeim aðila er segir henni upp, nema að því er varðar samninga um útistandandi kröfur sem komu fram fyrir þann dag er uppsögnin tekur gildi, en gildir áfram gagnvart þeim aðilum sem eftir standa.
    Þessu til staðfestu hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað bókun þessa.


Fylgiskjal VI.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um réttarstöðu liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og Samstarfs í þágu friðar o.fl.

    Meginmarkmiðið með þessu frumvarpi er að lögfesta lágmarksreglur varðandi framkvæmd tiltekinna þjóðréttarsamninga sem varða réttarstöðu liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og Samstarfs í þágu friðar o.fl. þegar hann dvelst hér á landi. Með frumvarpinu er ríkisstjórninni heimilað fyrir Íslands hönd að fullgilda þá þjóðréttarsamninga sem um ræðir. Jafnframt er að finna í frumvarpinu ákvæði varðandi fyrirsvar utanríkisráðherra vegna samskipta við hinn erlenda liðsafla o.fl.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu útgjöld ríkissjóðs aukast óverulega og gert er ráð fyrir að það muni rúmast innan fjárlagaramma viðkomandi ráðuneytis.