Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 452. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1034  —  452. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur og Þórunnar Sveinbjarnardóttur um Miðstöð mæðraverndar.

     1.      Hvernig sundurliðast kostnaður við endurbætur á húsnæði Miðstöðvar mæðraverndar í Heilsuverndarstöðinni og aðrar endurbætur á húsinu frá og með árinu 2000 og hver var heildarkostnaðurinn við þær?
    Unnið var að framkvæmdum árin 1999–2006. Á meðfylgjandi töflu er kostnaður sundurliðaður á verðlagi hvers árs. Heildarkostnaður var 59,4 millj. kr.

1999 2000 2001 2002 2003 2004 2005 2006 Samt.
Viðgerð frárennslislagna 11,3 12,9 0 0 0 0 0 0 24,2
Kostnaður við Miðstöð
mæðraverndar
17,0 1,7 13,9 0 2,6 0 0 0 35,2
Samtals 28,3 14,6 13,9 0 2,6 0 0 0 59,4

    Stór hluti þeirra framkvæmda sem unnin var á umræddu tímabili, þ.e. bæði viðgerð frárennslislagna og lagfæring á húsnæði mæðraverndar, laut að almennu og nauðsynlegu viðhaldi hússins. Því má ætla að kostnaðurinn hafi skilað sér í hærra söluverði húsnæðisins.

     2.      Reyndu stjórnvöld að koma í veg fyrir þá upplausn starfseminnar sem nú er orðin?
    Það er ekki mat ráðuneytisins að upplausn hafi orðið á umræddri starfsemi. Stefna heilbrigðisyfirvalda er sú að veita íbúum sem mesta þjónustu á hverfastöðvum heilsugæslunnar. Það er því í samræmi við stefnu heilbrigðisyfirvalda að þjónusta við konur í eðlilegri meðgöngu fari fram þar. Áhættumeðganga er hins vegar í eðli sínu viðfangsefni Landspítala – háskólasjúkrahúss. Þegar ákveðið var að áhættumeðgöngu yrði sinnt í húsnæði Miðstöðvar mæðraverndar í Heilsuverndarstöðinni var sú ákvörðun ekki síst tekin til að mæta húsnæðisvanda kvennadeildar LSH. Við flutning glasafrjóvgunar frá kvennadeildinni losnaði um húsnæði og þá var eðlilegt að flytja þjónustu við konur í áhættumeðgöngu aftur á LSH. Þær breytingar á þjónustu sem gerðar hafa verið lofa góðu og vel gengur að veita verðandi mæðrum þjónustu með þeim hætti sem lýst hefur verið.

     3.      Var þjónustu Miðstöðvar mæðraverndar að einhverju leyti ábótavant í Heilsuverndarstöðinni, að mati ráðherra? Ef svo er, þá að hvaða leyti? Ef ekki, af hverju var ráðist í þá vinnu að skipuleggja nýtt húsnæði fyrir starfsemina í Mjóddinni?
    Þjónusta mæðraverndar í Heilsuverndarstöðinni var góð að mati ráðherra. Í því felst þó ekki að henni megi ekki breyta, enda hefur verið stefnt að því um nokkurra ára skeið að flytja mæðravernd í vaxandi mæli á heilsugæslustöðvarnar. Þegar fyrir lá að Heilsuverndarstöðin yrði seld og starfsemi heilsugæslunnar flutt þaðan var ljóst að skynsamlegt væri að endurskipuleggja mæðraverndina, skipuleggja húsnæðið í Mjódd fyrir hluta hennar, endurnýja húsnæði á LSH fyrir áhættumeðgöngur og tryggja aðstöðu á heilsugæslustöðvum eftir þörfum fyrir verðandi mæður í eðlilegri meðgöngu.

     4.      Hvað kostuðu endurbætur á húsnæði Landspítala – háskólasjúkrahúsi fyrir móttöku kvenna í áhættuþungun? Í ljósi bágrar fjárhagsstöðu spítalans, hvaðan kom það fjármagn?
    Við flutning glasafrjóvgunardeildarinnar frá LSH losnaði rými á kvennadeild sjúkrahússins. LSH hefur gert ýmsar breytingar til að nýta þetta húsnæði sem best, m.a. fært saman göngudeildir og móttökur sem að hluta til hafa verið inni á legudeildum kvennasviðs. Fyrir móttöku kvenna í áhættuþungun voru endurinnréttuð þrjú skoðunarherbergi og ein snyrting sem hluti af þessari sameiginlegu móttöku. Heildarkostnaður við breytingar á húsnæði og lagfæringar með tilliti til brunavarna var um 2 millj. kr. Þá þurfti að kaupa tvo skoðunarbekki sem kostuðu samtals um 400 þús. kr. Fjárframlag til þessa verkefnis var tekið af viðhalds- og tækjakaupafé LSH.

     5.      Er þessi meðferð á opinberu fé ásættanleg að mati ráðherra? Ef ekki, hver ber ábyrgðina?
    Eins og ljóst má vera af framangreindum upplýsingum og þeirri staðreynd að húsnæðiskostnaður við núverandi húsnæði er lægri en ef húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar hefði verið notað áfram er þessi meðferð á opinberu fé eðlileg. Það er viðfangsefni stjórnvalda að tryggja að kostnaði við húsnæði fyrir opinbera þjónustu sé haldið innan skynsamlegra marka.