Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 685. máls.

Þskj. 1068  —  685. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Á eftir orðinu „þjónustu“ í B-lið 7. gr. laganna kemur: tekjur af sölu veltuverðbréfa.

2. gr.

    5. mgr. 18. gr. laganna fellur brott.
    

3. gr.

    Við 31. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þá fjárhæð sem félög, er falla undir 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr., skulu á grundvelli 18. gr. færa sér til tekna sem hagnað af sölu hlutabréfa. Skilyrði er að seljandi hafi átt hin seldu hlutabréf í a.m.k. eitt ár og að þau teljist ekki til veltuhlutabréfa, þ.e. hlutabréfa sem keypt eru til endursölu í því skyni að hagnast á skammtímabreytingum á markaðsverði þeirra. Sömu heimild hafa félög í sömu félagaformum sem skylt er að greiða skatt skv. 4. og 7. tölul. 3. gr. af sölu hlutabréfa og eru heimilisföst í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Ákvæði þessa töluliðar tekur einnig til skattskylds hagnaðar af sölu hlutabréfa í félögum sem skráð eru erlendis ef seljandi sýnir fram á að hagnaður af starfsemi hins erlenda félags hafi verið skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér landi, með eigi lægra skatthlutfalli en gildir í einhverju aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD) eða aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2008.
    Ákvæði 5. mgr. 18. gr. skulu halda gildi sínu um hagnað af sölu hlutabréfa sem féll til fyrir gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á reglum um skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum. Í fyrsta lagi er lagt til að heimild til frestunar á skattlagningu slíks söluhagnaðar verði felld brott. Í öðru lagi er lagt til að félögum í tilteknum formum verði heimilað að draga frá skattskyldum tekjum þá fjárhæð sem söluhagnaðinum nemur að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Í þriðja lagi er lagt til að skotið verði styrkum stoðum undir gildandi framkvæmd skattlagningar viðskipta með hlutabréf sem keypt eru í þeim tilgangi að selja aftur og hagnast á skammtímaverðbreytingum.
    Samkvæmt núgildandi ákvæði 5. mgr. 18. gr. laganna geta lögaðilar, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, og einstaklingar í atvinnurekstri farið fram á að fresta tekjufærslu söluhagnaðar af sölu hlutabréfa, þar á meðal skiptum á hlutabréfum, um tvenn áramót frá söludegi. Tekið er fram að kaupi slíkur aðili önnur hlutabréf í stað hinna seldu innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar á kaupverði þeirra bréfa. Nemi kaupverð hinna keyptu hlutabréfa lægri fjárhæð en söluhagnaðurinn telst mismunurinn til skattskyldra tekna. Ef hlutabréf eru ekki keypt innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn til skattskyldra tekna á öðru ári frá því að hann myndaðist. Þannig er unnt að fresta skattlagningunni um tvö ár. Á frestunartímabili getur félag endurfjárfest í nýjum hlutabréfum og lækkað stofnverð þeirra um fjárhæð söluhagnaðarins. Frestaða fjárhæðin kemur þannig hugsanlega fram í auknum söluhagnaði þegar nýju hlutabréfin verða seld. Þannig getur frestun og lækkun stofnverðs gengið koll af kolli. Alla jafnan kemur því ekki til þess að lögaðilar greiði skatt af söluhagnaði hlutabréfa. Það má því segja að skattlagning komi í reynd fyrst til þegar arður er greiddur til endanlegra hlutafjáreigenda, þ.e. viðkomandi einstaklinga. Gildandi heimild til frestunar gildir þó ekki þegar um er að ræða veltuhlutabréf.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu háa fjárhæð félög greiða í skatt af söluhagnaði hér á landi þar sem söluhagnaður er talinn fram með öðrum tekjum á skattframtali. Það leiðir til þess að ekki er unnt að átta sig á hversu stór hluti teknanna er vegna hagnaðar af sölu hlutabréfa. Hins vegar liggja fyrir upplýsingar um fjárhæð frestaðs söluhagnaðar lögaðila vegna söluhagnaðar af hlutabréfum. Í upplýsingum úr skattframtölum lögaðila kemur fram að á tekjuárinu 2001 hafi frestaður söluhagnaður verið að fjárhæð 7.248 millj. kr., á tekjuárinu 2002 að fjárhæð 18.212 millj. kr., á tekjuárinu 2003 að fjárhæð 30.774 millj. kr., á tekjuárinu 2004 að fjárhæð 61.946 millj. kr. og á tekjuárinu 2005 að fjárhæð 165.705 millj. kr.
    Mörg íslensk félög hafa flutt eignarhald á hlutabréfum til ríkja sem ekki skattleggja söluhagnað. Til að sporna við slíkri tilfærslu fjármuna úr landi er lagt til að farið verði með skattlagningu söluhagnaðar með líkum hætti og gerist í þeim ríkjum, svo sem í Noregi, Svíþjóð og Hollandi.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimild til frestunar tekjufærslu hagnaðar af sölu hlutabréfa verði felld brott bæði hjá félögum og einstaklingum í atvinnurekstri, en félögum verði heimilaður frádráttur á móti hagnaði af sölu hlutabréfa sem þau hafa átt í a.m.k. eitt ár, enda teljist hlutabréfin ekki til veltuhlutabréfa, þ.e. hlutabréfa sem keypt hafa verið til endursölu í því skyni að hagnast á skammtímabreytingum á markaðsverði þeirra, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Ef þessum skilyrðum er ekki fullnægt kemur ekki til frádráttar söluhagnaðar frá skattskyldum tekjum og söluhagnaðurinn skattleggst eins og aðrar skattskyldar tekjur. Frádráttarheimildin tekur til félaga sem skráð eru hér á landi og félaga sem bera hér takmarkaða skattskyldu og eru heimilisföst á EES-svæðinu. Félög sem eru með takmarkaða skattskyldu á Íslandi en eru heimilisföst utan EES skulu áfram greiða hér á landi 15% tekjuskatt, eða lægra hlutfall hafi um það verið samið í tvísköttunarsamningi.
    Þegar íslensk félög hafa söluhagnað af hlutabréfum í erlendum félögum er það gert að skilyrði að hið erlenda félag hafi sætt sambærilegri skattlagningu af starfsemi sinni og gildir hér á landi. Jafnframt er gert að skilyrði að skatthlutfall hafi ekki verið lægra en almennt gildir í einhverju aðildarríkja OECD eða EES. Ef skilyrðum þessum er ekki fullnægt kemur ekki til frádráttar söluhagnaðar frá skattskyldum tekjum og söluhagnaðurinn skattleggst eins og aðrar skattskyldar tekjur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í löggjöf og skattframkvæmd er gerður greinarmunur á því hvort hlutabréf hafi verið keypt í skyni fjárfestingar eða til endursölu innan skamms tíma, á sama hátt og almennt er gerður greinarmunur á fjárfestingareignum og veltufjármunum. Með þessu er átt við að þegar tekjur af kaupum og endursölu er þáttur í reglubundinni starfsemi þá verður ekki farið með þær tekjur samkvæmt ákvæðum um söluhagnað eigna, hvort heldur seldar eru vörur, fasteignir eða hlutabréf. Með greininni er ætlunin að hnykkja á að viðskipti með veltuverðbréf, þ.e. hlutabréf og önnur verðbréf, sem keypt eru til endursölu í því skyni að hagnast á skammtímabreytingum á markaðsverði þeirra lúti almennum reglum um skattlagningu tekna af reglubundinni starfsemi.
    Á síðustu árum hafa hlutabréf sem og önnur verðbréf verið keypt í vaxandi mæli í þeim tilgangi að endurselja þau með hagnaði innan skamms tíma. Í lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, sbr. reglugerð nr. 696/1996, um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga, er kveðið á um að eignum skuli skipt í fastafjármuni og veltufjármuni. Fastafjármunir geta verið óefnislegar eignir, varanlegir rekstrarfjármunir, áhættufjármunir og langtímakröfur. Veltufjármunir geta verið handbært fé, vörubirgðir, skammtímakröfur og verðbréf, þ.m.t. hlutabréf. Samkvæmt reglum nr. 834/2003, um reikningsskil lánastofnana, ber lánastofnunum að skipta verðbréfum, þ.m.t. hlutabréfum, annars vegar í fjárfestingarverðbréf sem ákvörðun hefur verið tekin um með formlegum hætti að eiga til lengri tíma en eins árs og hins vegar veltuverðbréf sem ekki er aflað til varanlegrar eignar í rekstri. Í skattframkvæmd hefur verið litið svo á að heimild til frestunar á söluhagnaði nái ekki til sölu á hlutabréfum sem teljast til veltuverðbréfa.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að felld verði brott heimild lögaðila og manna í atvinnurekstri til að fresta tekjufærslu hagnaðar af sölu hlutabréfa um tvenn áramót og til lækkunar kaupverðs keyptra hlutabréfa, sem innan þess tíma eru keypt í stað hinna seldu, um fjárhæð sem söluhagnaðinum nemur. Með þeirri breytingu sem lögð er til í 3. gr. frumvarpsins bresta meginforsendur fyrir ákvæði þessu.

Um 3. gr.

    Lagt er til að heimilaður verði frádráttur hagnaðar af sölu hlutabréfa sambærilegur frádrætti vegna móttekins arðs skv. 9. tölul. 31. gr. laganna og sætti þá ágóði af slíkri sölu ekki skattlagningu fyrr en í hendi þeirra manna sem arðsúthlutunar njóta að lokum.
    Heimildinni er ætlað að taka til félaga í tilteknum félagaformum, þ.e. hlutafélaga, einkahlutafélaga, samlagshlutafélaga, gagnkvæmra vátryggingar- og ábyrgðarfélaga, kaupfélaga og annarra samvinnufélaga og samvinnufélagasambanda, hvort heldur félög þessi bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi eða takmarkaða skattskyldu og eru með heimilisfesti á EES- svæðinu.
    Heimildinni er ætlað að taka til félaga í framangreindum félagaformum sem bera hér á landi ótakmarkaða skattskyldu og jafnframt til þeirra félaga sem bera hér á landi takmarkaða skattskyldu og heimilisföst eru á EES-svæðinu.
    Heimildinni er ekki ætlað að taka til félaga sem eru heimilisföst utan EES og sætir því hagnaður þeirra af sölu íslenskra hlutabréfa áfram 15% tekjuskatti hér á landi, eða lægra hlutfalli hafi um það verið samið í tvísköttunarsamningi.
    Það er skilyrði frádráttar að seljandi hafi átt hlutabréfin í a.m.k. eitt ár og að þau teljist ekki til veltuhlutabréfa, þ.e. hlutabréfa sem keypt eru til endursölu í því skyni að hagnast á skammtímabreytingum á markaðsverði þeirra. Eins árs eignarhaldstími er í samræmi við almennan skilsmun fjárfestingarverðbréfa og veltuverðbréfa sem endurspeglast í 1. gr. frumvarps þessa og athugasemdum við hana.
    Frádráttarheimildin tekur til skattskylds hagnaðar af sölu hlutabréfa í félögum óháð heimilisfesti þeirra. Ef um er að ræða sölu hlutabréfa í félagi sem heimilisfast er utan Íslands er gert að skilyrði að félagið hafi sætt sambærilegri skattlagningu af starfsemi sinni og gildir hér á landi. Jafnframt er gert að skilyrði að skatthlutfall hafi ekki verið lægra en almennt gildir í einhverju aðildarríkja OECD eða EES.

Um 4. gr.

    Lagt er til að lög þessi öðlist þegar gildi og komi til framkvæmda við álagningu á árinu 2008.
    Samkvæmt 2. mgr. er gert ráð fyrir að þeir sem hafa selt hlutabréf með hagnaði fyrir gildistöku laga þessara hafi annaðhvort tekjufært söluhagnaðinn eða nýti sér rétt til að færa niður kaupverð nýrra hlutabréfa innan tímamarka gildandi ákvæðis 5. mgr. 18. gr.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003,
um tekjuskatt, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að heimild til frestunar skattlagningar á söluhagnaði af hlutabréfum verði afnumin en að rekstraraðilum verði á hinn bóginn heimilt að draga frá skattskyldum söluhagnaði þá fjárhæð sem söluhagnaðinum nemur að uppfylltum tilteknum skilyrðum, svo sem að hafa átt bréfin í a.m.k. eitt ár. Þá er í frumvarpinu ákvæði sem miðar að aukinni skilvirkni í skattlagningu á viðskipti með hlutabréf sem keypt eru til þess að hagnast á skammtímaverðbreytingum á verðbréfamarkaði. Samkvæmt núgildandi lögum er heimilt að fresta tekjufærslu af slíkum söluhagnaði um tvenn áramót frá söludegi og að kaup á öðrum hlutabréfum í stað hinna seldu innan þess tíma komi til lækkunar á kaupverði þeirra bréfa. Þannig geta frestun skattlagningar á söluhagnað og endurfjárfesting hans í nýjum hlutabréfum gengið koll af kolli og í reynd kemur því alla jafna ekki til þessarar skattlagningar. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum lögaðila hefur frestaður söluhagnaður vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum og var orðinn um 165,7 milljarðar króna á tekjuárinu 2005. Mörg íslensk félög hafa flutt eignarhald á hlutabréfum til ríkja sem ekki skattleggja söluhagnað og er frumvarpinu ætlað að sporna við þeirri þróun með því að söluhagnaðurinn verði í reynd ekki skattskyldur. Viðhlítandi upplýsingar um tekjur ríkissjóðs af skattlagningu söluhagnaðar lögaðila af hlutabréfum liggja ekki fyrir en ástæða er til að ætla að þær hafi verið hverfandi og að þessi breyting á lögunum hafi því lítil áhrif á tekjurnar. Verði frumvarpið samþykkt leiðir það til nokkurrar einföldunar á skattframkvæmdinni en ekki er talið að það hafi umtalsverð áhrif á kostnað skattyfirvalda.