Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 575. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1205  —  575. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um samgönguáætlun fyrir árin 2007–2018.

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Umfjöllun nefndarinnar um samgönguáætlanirnar tvær sem samgönguráðherra mælti fyrir á Alþingi 19. febrúar sl. geta með engu móti talist fullnægjandi. Umfang áætlanagerðar í samgöngumálum, til fjögurra og tólf ára, er meira en svo að það geti talist boðleg vinnubrögð að þingnefnd hafi innan við mánuð til þess að kynna sér málin til hlítar. Þingmenn Samfylkingarinnar í nefndinni hafa fyrirvara við afgreiðslu samgönguáætlunar 2007–2010 en munu þó ekki greiða atkvæði gegn afgreiðslu hennar, m.a. vegna þess að hún kemur til endurskoðunar innan tveggja ára.
    Samgönguáætlununum tveimur var dreift 12. febrúar sl. og alls hafa verið haldnir fjórir fundir í nefndinni þar sem áætlanirnar voru til umfjöllunar. Fjölmargir umsagnaraðilar hafa kvartað yfir því hve umsagnarfrestur var skammur. Vinnubrögð af þessu tagi bjóða upp á illa ígrundaðar ákvarðanir og grunnskreiða umfjöllun, svo ekki sé minnst á mistökin sem svo yfirborðskennd vinnubrögð geta haft í för með sér. Vinnubrögðin sem höfð voru við afgreiðslu samgönguáætlunarinnar eru á ábyrgð meiri hlutans og geta vart talist Alþingi Íslendinga til sóma. Þau bera þess merki að alþingiskosningar eru í nánd. Í framtíðinni væri nær að leggja samgönguáætlanir fyrir á miðju kjörtímabili, t.d. á öðrum vetri þess, og reyna þannig að tryggja yfirvegaða og vandaða afgreiðslu þeirra.
    Margir umsagnaraðilar gerðu veigamiklar athugasemdir við efni samgönguáætlananna en þó sérstaklega það sem varðar forgangsröðun í vegamálum. Í ítarlegri umsögn bæjarstjóra á höfuðborgarsvæðinu og borgarstjórans í Reykjavík kom fram djúpstæð óánægja með hlut höfuðborgarsvæðisins í samgönguáætlun. Því var lýst að í mikið óefni stefndi í umferðarmálum höfuðborgarsvæðisins ef tillögurnar næðu óbreyttar fram að ganga. Óhætt er að taka undir gagnrýni framkvæmdastjóra sveitarfélaganna í Suðvesturkjördæmi og tveimur kjördæmum höfuðborgarinnar. Jafnframt liggur ljóst fyrir að samgöngur sums staðar á landsbyggðinni, svo sem á Vestfjörðum og Norðausturlandi, eru a.m.k. 30 árum á eftir öðrum landshlutum og koma í veg fyrir að byggðarlögin séu samkeppnishæf í atvinnulífi og byggðaþróun. Þá eru samgöngumál á Miðausturlandi ekki í takt við uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu og hindra eðlileg samskipti og atvinnusókn á milli svæða. Einnig er ljóst að þjóðvegakerfið í heild er orðið um og yfir 20 ára gamalt og þolir engan veginn svo mikla umferð á vegunum ekki síst þar sem viðhaldsfé hefur haldist nær óbreytt í áratug. Ljóst er að samgöngumál hafa verið stórlega vanrækt á undanförnum árum og kemur í hlut næstu ríkisstjórnar að vinna þá vanrækslu upp með stórauknum fjárframlögum til samgöngumála.
    Í frumvarpi til vegalaga sem einnig hefur verið til umfjöllunar í samgöngunefnd er gert ráð fyrir þátttöku ríkisins í kostnaði við gerð hjólastíga og gangstíga. Sú breyting verður að teljast til bóta en óneitanlega skýtur skökku við að hvorki í samgönguáætlun til 2010 né í þeirri sem nær til 2018 er gert ráð fyrir fjárveitingu til lagningar hjóla- og gangstíga. Því miður verður því ekki séð að ríkisstjórnin muni standa við þessi fyrirheit sín í vegalögum.

Alþingi, 13. mars 2007.



Þórunn Sveinbjarnardóttir,


frsm.


Kristján L. Möller.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.