Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 443. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1247  —  443. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu.

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergdísi Ellertsdóttur og Önnu Jóhannsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Kristján Sturluson, Sólveigu Ólafsdóttur og Helgu Þórólfsdóttur frá Rauða krossi Íslands, Guðrúnu D. Guðmundsdóttur og Brynhildi G. Flóvenz frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og Árna Múla Jónasson frá Íslandsdeild Amnesty International.
    Frumvarp til laga um íslensku friðargæsluna var fyrst lagt fram á 132. löggjafarþingi (þskj. 933, 634. mál). Málinu var útbýtt 16. mars 2006 en fyrsta umræða fór fram 24. og 25. apríl og var málinu í kjölfarið vísað til utanríkismálanefndar. Málið varð ekki útrætt. Utanríkisráðherra lagði málið svo aftur fram á þessu þingi eftir smávægilegar endurbætur. Málinu var útbýtt 7. desember 2006 og því vísað til utanríkismálanefndar að lokinni 1. umræðu 6. febrúar sl. Eftir umfjöllun nefndarinnar var málið svo afgreitt frá nefndinni með breytingartillögum meiri hlutans á fundi 13. mars sl. Ekki var fallist á tillögur minni hlutans um frekari breytingar á málinu, einkum 1. gr. frumvarpsins.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Alþýðusambandi Íslands, Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Flugmálastjórn, Hjálparstarfi kirkjunnar, Íslandsdeild Amnesty International, landlækni, Landssambandi lögreglumanna, Ljósmæðrafélagi Íslands, Læknafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Rauða krossi Íslands, Samtökum heilbrigðisstétta, Samtökum hernaðarandstæðinga, Tollvarðafélagi Íslands og Tryggingastofnun ríkisins. Auk þess bárust nefndinni athugasemdir frá Elíasi Davíðssyni.
    Miklar og vel rökstuddar athugasemdir komu fram við ýmsar greinar frumvarpsins í þeim umsögnum sem bárust. Tekið er tillit til hluta þessara athugasemda í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar. Minni hlutinn styður þær breytingar en telur að lengra þurfi að ganga í því að breyta frumvarpinu til betri vegar.
    Minni hlutinn telur að 1. gr. frumvarpsins þurfi að endurrita svo að hún endurspegli verkefnaval sem samrýmist þeim markmiðum að íslensku friðargæslunni sé ekki ætlað að sinna öðrum verkefnum en þeim sem teljast borgaralegs eðlis. Í 1. gr. frumvarpsins er íslenskum stjórnvöldum falin yfirgripsmikil heimild til þess að senda friðargæsluliða til starfa í öðrum löndum. Ramminn um eðli og inntak verkefnanna er víður og rúmar t.d. þátttöku í verkefnum á vegum hernaðarbandalaga. Minni hlutinn er þeirrar skoðunar að það sé hvorki eftirsóknarvert né siðferðislega rétt að munstra íslenska friðargæsluliða til verkefna sem krefjast vopnaburðar. Einföld leið til þess að koma í veg fyrir að svo sé er að setja verkefni á vegum stofnana Sameinuðu þjóðanna á sviði friðargæslu í forgang. Víst er að af nógu er að taka af verðugum og brýnum verkefnum um allan heim.
    Samkrull hermennsku og hjálparstarfs skapar mikla hættu fyrir hjálparstarfsmenn á vettvangi. Heimamenn gera ekki alltaf greinarmun á hermönnum og friðargæsluliðum. Um það vitna nýleg og dapurleg dæmi frá Afganistan. Til að koma í veg fyrir að stofna hlutlausu starfsfólki hjálpar- og mannúðarsamtaka í óþarfa hættu er brýnt að íslenskum friðargæsluliðum verði ekki ruglað saman við hermenn á vettvangi. Það er best gert með því að setja íslenska friðargæsluliða til starfa í borgaralegum verkefnum sem ekki krefjast vopnaburðar.
    1. gr. frumvarpsins þarf einnig að endurspegla þá staðreynd að Íslendingar eru herlaus þjóð, sem hefur í hávegum virðingu fyrir alþjóðlegum mannréttinda- og mannúðarlögum. Um það má ekki vera hinn minnsti vafi. Því er tekið undir ábendingar umsagnaraðila um að fræðsla og þjálfun í beitingu mannúðarlaga (e. International Humanitarian Law) verði traustur þáttur í uppfræðslu friðargæsluliða áður en þeir eru sendir til starfa á erlendri grundu. Þá telur minni hlutinn að leggja beri meiri áherslu á borgaralegt og fyrirbyggjandi friðargæsluhlutverk í markmiðsgrein frumvarpsins.
    Þá telur minni hlutinn að mannúðar- og neyðaraðstoð vegna náttúruhamfara sé fyrst og fremst í verkahring hjálparsamtaka eins og Alþjóða Rauða krossins, sem hefur yfir að búa yfirburða þekkingu, reynslu og mannafla í öllum ríkjum heims til þess að veita neyðaraðstoð í kjölfar náttúruhamfara.
    Minni hlutinn áréttar nauðsyn þess að Genfarsáttmálarnir ásamt síðari viðaukum verði lögfestir hér á landi. Núgildandi lög leyfa til dæmis ekki að íslenskir ríkisborgarar séu sóttir til saka fyrir stríðsglæpi.
    Í frumvarpinu sér þess hvergi merki að samþætta eigi kynja- og jafnréttissjónarmið inn í verkefnaval og uppbyggingu íslensku friðargæslunnar. Það er miður og síst til þess fallið að efla vitund stjórnvalda og friðargæsluliða um gildi þess að kynja- og jafnréttissjónarmið eigi að hefja til vegs innan íslensku friðargæslunnar.
    Í ljósi framangreinds leggur minni hlutinn fram breytingartillögu við 1. gr. frumvarpsins sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 15. mars 2007.



Össur Skarphéðinsson,


frsm.


Jón Gunnarsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.



Steingrímur J. Sigfússon.