Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 709. máls.

Þskj. 1293  —  709. mál.
Endurskoðun stjórnarskrárinnarÁfangaskýrsla nefndar um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands,
febrúar 2007Lögð fram af forsætisráðherra

Efnisyfirlit


1.    Inngangur          5
2.    Uppbygging og megineinkenni stjórnarskrárinnar          7
    2.1.    Inngangur          7
    2.2.    Umræður í nefndinni          7
3.    Grundvöllur stjórnskipunarinnar          8
    3.1.    Inngangur          8
    3.2.    Ýmsar tillögur          8
    3.3.    Umræður í nefndinni          8
4.    Þjóðaratkvæðagreiðslur          8
    4.1.    Inngangur          8
    4.2.    Ýmsar tillögur          9
    4.3.    Umræður í nefndinni          10
5.    Forseti og ríkisstjórn          10
    5.1.    Inngangur          10
    5.2.    Ýmsar tillögur          11
    5.3.    Umræður í nefndinni          12
6.    Alþingi          13
    6.1.    Inngangur          13
    6.2.    Ýmsar tillögur          13
    6.3.    Umræður í nefndinni          14
7.    Dómstólar          15
    7.1.    Inngangur          15
    7.2.    Ýmsar tillögur          15
    7.3.    Umræður í nefndinni          15
8.    Ríki og kirkja          16
    8.1.    Inngangur          16
    8.2.    Ýmsar tillögur          16
    8.3.    Umræður í nefndinni          17
9.    Mannréttindaákvæði          17
    9.1.    Inngangur          17
    9.2.    Ýmsar tillögur          17
    9.3.    Umræður í nefndinni          18
10.    Utanríkismál          19
    10.1.    Inngangur          19
    10.2.    Ýmsar tillögur          19
    10.3.    Umræður í nefndinni          20
11.    Stjórnarskrárbreytingar          20
    11.1.    Inngangur          20
    11.2.    Ýmsar tillögur          21
    11.3    Umræður í nefndinni          21
12.    Umhverfisvernd          21
    12.1.    Inngangur          21
    12.2.    Ýmsar tillögur          21
    12.3.    Umræður í nefndinni          22
13.    Eignarhald á auðlindum, meðferð þeirra og nýting          22
    13.1.    Inngangur          22
    13.2.    Ýmsar tillögur          22
    13.3.    Umræður í nefndinni          23
14.    Annað          23
    14.1.    Inngangur          23
    14.2.    Ýmsar tillögur          23
    14.3.    Umræður í nefndinni          24
15.    Lokaorð          24
Viðauki 1 Fundargerðir stjórnarskrárnefndar og vinnuhópa          25
    Fundargerð 1. fundar stjórnarskrárnefndar          25
    Fundargerð 2. fundar stjórnarskrárnefndar          26
    Fundargerð 3. fundar stjórnarskrárnefndar          27
    Fundargerð 4. fundar stjórnarskrárnefndar          29
    Fundargerð 5. fundar stjórnarskrárnefndar          30
    Fundargerð 6. fundar stjórnarskrárnefndar          31
    Fundargerð 7. fundar stjórnarskrárnefndar          32
    Fundargerð 8. fundar stjórnarskrárnefndar          37
    Fundargerð 9. fundar stjórnarskrárnefndar          38
    Fundargerð 10. fundar stjórnarskrárnefndar          39
    Fundargerð 11. fundar stjórnarskrárnefndar          40
    Fundargerð 12. fundar stjórnarskrárnefndar          41
    Fundargerð 13. fundar stjórnarskrárnefndar          41
    Fundargerð 14. fundar stjórnarskrárnefndar          42
    Fundargerð 15. fundar stjórnarskrárnefndar          43
    Fundargerð 16. fundar stjórnarskrárnefndar          44
    Fundargerð 17. fundar stjórnarskrárnefndar          46
    Fundargerð 18. fundar stjórnarskrárnefndar          47
    Fundargerð 19. fundar stjórnarskrárnefndar          48
    Fundargerð 20. fundar stjórnarskrárnefndar          49
    Fundargerð 21. fundar stjórnarskrárnefndar          50
    Fundargerð 22. fundar stjórnarskrárnefndar          50
    Fundargerð 23. fundar stjórnarskrárnefndar          51
    Fundargerð 24. fundar stjórnarskrárnefndar          52
    Fundargerð 25. fundar stjórnarskrárnefndar          53
    Fundargerð 26. fundar stjórnarskrárnefndar          54
    Fundargerð (1) vinnuhóps um dómstólakafla o.fl.          54
    Fundargerð (2) vinnuhóps um dómstólakafla o.fl.          55
    Fundargerð (3) vinnuhóps um dómstólakafla o.fl.          55
    Fundargerð (4) vinnuhóps um dómstólakafla o.fl.          55
    Fundargerð (1) vinnuhóps um auðlinda-, umhverfis- og mannréttindamál          56
    Fundargerð (2) vinnuhóps um auðlinda-, umhverfis- og mannréttindamál          56
    Fundargerð (3) vinnuhóps um auðlinda-, umhverfis- og mannréttindamál          57
    Fundargerð (4) vinnuhóps um auðlinda-, umhverfis- og mannréttindamál          58
    Fundargerð (1) vinnuhóps um forseta, ráðherra o.fl.          59
    Fundargerð (2) vinnuhóps um forseta, ráðherra o.fl.          59
    Fundargerð (3) vinnuhóps um forseta, ráðherra o.fl.          60
Viðauki 2 Ágrip af þróun stjórnarskrárinnar          61
Viðauki 3 Skýringar við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands          88
Viðauki 4 Stjórnskipunarþróun í Evrópu          122

Stjórnarskrármál

Áfangaskýrsla nefndar um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, febrúar 2007.

(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
1. Inngangur
    Nefnd um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands (stjórnarskrárnefnd) var skipuð í byrjun árs 2005. Í nefndina voru skipuð: Birgir Ármannsson alþingismaður, Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, og Þorsteinn Pálsson, sendiherra og síðar ritstjóri, tilnefndir af Sjálfstæðisflokknum, Jón Kristjánsson, þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og Jónína Bjartmarz, alþingismaður og síðar umhverfisráðherra, tilnefnd af Framsóknarflokknum, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir alþingismaður og Össur Skarphéðinsson alþingismaður tilnefnd af Samfylkingunni, Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður tilnefndur af Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Guðjón A. Kristjánsson alþingismaður tilnefndur af Frjálslynda flokknum. Jón Kristjánsson var skipaður formaður nefndarinnar og Geir H. Haarde varaformaður.
    Í október 2005 viku Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir úr nefndinni. Tók Þorsteinn Pálsson þá við varaformennsku í nefndinni. Var Bjarni Benediktsson alþingismaður skipaður nýr í nefndina samkvæmt tilnefningu Sjálfstæðisflokksins og Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur samkvæmt tilnefningu Samfylkingarinnar.
    Með stjórnarskrárnefnd starfar nefnd sérfræðinga, þau Eiríkur Tómasson prófessor (formaður), Björg Thorarensen prófessor, Gunnar Helgi Kristinsson prófessor og Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Ritari stjórnarskrárnefndar er Páll Þórhallsson, lögfræðingur forsætisráðuneyti.
    Samkvæmt skipunarbréfi skyldi endurskoðunin „einkum bundin við I., II. og V. kafla stjórnarskrárinnar og þau ákvæði í öðrum köflum hennar sem tengjast sérstaklega ákvæðum þessara þriggja kafla“. Í upphafi nefndarstarfsins lýsti formaður stjórnarskrárnefndar því yfir að engir hlutar stjórnarskrárinnar væru fyrir fram undanskildir. Stefnt skyldi að því að ljúka endurskoðuninni fyrir árslok 2006.
    Nefndin hefur haldið 26 fundi á tímabilinu febrúar 2005 – febrúar 2007. Fyrstu fundina var rætt um verkáætlun og afmörkun verkefnisins. Jafnframt var aflað gagna um fyrri endurskoðunartilraunir, sögu íslenskrar stjórnskipunar og stjórnskipunarþróun í Evrópu. Til þess að nýta tímann sem best voru snemma árs 2006 settir á fót 3 vinnuhópar sem fjölluðu um afmörkuð efni sem hér segir: 1. Dómstólakafli og framsal ríkisvalds (BÁ, JB og KH), 2. Mannréttindaákvæði, ákvæði um auðlindir og umhverfisvernd (BB, GAK og ÖS) og 3. Forseti, ríkisstjórn og þjóðaratkvæðagreiðslur (JK, SJS, ÞP og ÖS). Vinnuhóparnir skiluðu af sér í júní 2006. Eins og meðfylgjandi fundargerðir vinnuhópanna bera með sér var þeim ætlað að setja fram hugmyndir sem síðan yrðu ræddar í fullskipaðri nefnd. Verður því að skoða þær í samhengi við umræður sem síðan urðu inni í nefndinni sjálfri, en þær eru raktar í fundargerðum nefndarinnar og áfangaskýrslu þessari.
    Nefndin hefur hvatt til almennrar umræðu um stjórnarskrána og umbætur á henni. Hinn 11. júní 2005 var haldin almenn ráðstefna á Hótel Loftleiðum undir yfirskriftinni „Stjórnarskrá til framtíðar“. Dagskrá ráðstefnunnar var auglýst í blöðum með góðum fyrirvara og félagasamtökum gefinn kostur á að óska eftir framsögu. Um 20 samtök nýttu sér þetta tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Nefndin hefur einnig átt aðild að ráðstefnum Lögfræðingafélags Íslands og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála um þjóðaratkvæðagreiðslur sem fóru fram 12. september og 29. október 2005, málþingi lagadeildar Háskólans í Reykjavík 1. desember 2005 um dómsvaldið og stjórnarskrána auk ráðstefnu Sagnfræðingafélags Íslands 25. mars 2006 um forsetaembættið. Eru þá ótaldir ýmsir aðrir fundir og ráðstefnur um málefni tengd stjórnarskránni sem nefndarmenn hafa tekið þátt í. Þær upplýsingar, sem komið hafa fram á þessum fundum og skoðanaskipti, eru mikilvægt veganesti fyrir nefndina.
    Þá hefur nefndin starfrækt heimasíðu, stjornarskra.is, þar sem eru birtar dagskrár funda nefndarinnar, fundargerðir, erindi sem berast, tilkynningar um fyrirhugaða viðburði og ýmislegt ítarefni eins og fyrri stjórnarskrárfrumvörp og eldri gerðir stjórnarskrárinnar.
    Samstarf tókst með nefndinni og Landsbókasafni – Háskólabókasafni um starfrækslu upplýsingamiðstöðvar í Þjóðarbókhlöðunni þar sem almenningur getur kynnt sér helstu rit sem nefndin hefur til hliðsjónar í starfi sínu.

..............    Þótt ekki hafi verið um það fjallað sérstaklega í skipunarbréfi nefndarinnar er ljóst að hún hefur haft það að leiðarljósi að stjórnarskráin svaraði kröfum nútímans án þess að varpa að nokkru leyti fyrir róða grundvallargildum og hefðum íslenskrar stjórnskipunar. Jafnframt hefur verið horft til erlendra strauma í þessum efnum, til dæmis hefur oftlega verið vitnað til finnsku stjórnarskrárinnar sem sætti nýverið gagngerri endurskoðun.
    Á seinni stigum vinnu nefndarinnar komu fram tvenns konar sjónarmið um hvernig endurskoðun stjórnarskrárinnar skyldi háttað. Annars vegar að leggja ekki til neinar breytingar nema sem hluta af heildarendurskoðun og hins vegar að freista þess að ná samstöðu um breytingar eða nýmæli sem ekki virtist mikill efniságreiningur um. Niðurstaðan varð þó sú að leggja að þessu sinni aðeins til breytingar á 79. gr. þar sem mælt er fyrir um hvernig breytingum á stjórnarskránni skuli háttað í framtíðinni. Nefndarmenn álíta það rökréttan fyrsta áfanga í heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Er nánari grein gerð fyrir þeirri breytingu í meðfylgjandi frumvarpi. Verði sú breyting samþykkt er um leið lagður grunnur að því að endurskoðaða stjórnarskrá megi bera undir þjóðaratkvæði. Endurskoðuð stjórnarkrá myndi því öðlast ótvíræðari lýðræðislega staðfestingu heldur en raunin yrði ef hún væri afgreidd með núgildandi hætti.
    Með áfangaskýrslu þessari vill nefndin gefa yfirlit yfir starfið fram að þessu og leggja grunn að áframhaldandi umræðu um stjórnarskrána á næsta kjörtímabili. Skýrslan skiptist í nokkra kafla. Í hverjum kafla eru raktar tillögur sem nefndinni hafa borist frá almenningi, félagasamtökum og opinberum aðilum. Jafnframt verður gerð grein fyrir þeim frumvörpum sem lögð voru fram á 131., 132. og 133. löggjafarþingi og varða stjórnarskrána. 1 Loks er lýst stöðu umræðna í nefndinni. Fundargerðir nefndarinnar og vinnuhópa hennar fylgja með sem viðaukar ásamt greinargerðum sérfræðinganefndarinnar um þróun stjórnarskrárinnar, skýringar við I, II og V kafla stjórnarskrárinnar og um stjórnskipunarþróun í Evrópu.

2. Uppbygging og megineinkenni stjórnarskrárinnar
2.1. Inngangur
    Í stjórnarskránni er að finna ákvæði um meðferð ríkisvalds, hlutverk helstu handhafa þess og samspil þeirra á milli. Enn fremur er þar lýst yfir hver réttindi borgararnir hafa í samskiptum við ríkisvaldið og hömlur lagðar við því að á þessi réttindi sé gengið.
    Uppbygging stjórnarskrárinnar ber keim af því að hún er að stofni til frá 19. öld. Þannig er kaflinn um mannréttindi aftastur en hann er víða fremstur í nýlegri stjórnarskrám. Þá einkennist stjórnarskráin af knöppu orðalagi og löggjafanum er víða eftirlátið að útfæra nánar efnisatriði. Sú heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, sem fara átti fram eftir að lýðveldisstjórnarskráin var sett 1944, hefur aldrei orðið að veruleika. Breytingar á einstökum köflum og afmörkuðum viðfangsefnum hafa hins vegar náð fram að ganga, oftast varðandi tilhögun kosninga og kjördæmaskipan, en einnig víðtækari breytingar eins og varðandi starfshætti Alþingis 1991 og endurskoðaður mannréttindakafli 1995.
    Stjórnarskránni er skipt niður í eftirfarandi kafla: I. kafli um stjórnarformið og grundvöll stjórnskipunarinnar, II. kafli um forseta og framkvæmdarvald, III. kafli um alþingiskosningar, IV. kafli um Alþingi, V. kafli um dómstólana, VI. kafli um þjóðkirkjuna og trúfrelsi og VII. kafli um mannréttindi.

2.2. Umræður í nefndinni
    Röð kafla eða ákvæða hefur að sjálfsögðu ekki neina lagalega þýðingu, ákvæði eru jafngild og jafnrétthá hvar sem þau standa í stjórnarskránni. Hins vegar hafa heyrst þau sjónarmið í nefndinni að núverandi uppbygging endurspegli ekki nógu vel valdahlutföll milli helstu stofnana ríkisins, þannig færi betur á því að kaflinn um Alþingi kæmi á undan köflum um aðra handhafa ríkisvalds þar sem Alþingi er veigamesti handhafi ríkisvalds og þungamiðja þess fulltrúalýðræðis sem einkennir íslenska stjórnskipan. Einnig hefur verið vísað til þess að í mörgum nýlegum stjórnarskrám í Evrópu og víðar sé kafli um mannréttindi framarlega í stjórnarskrá.
    Þá hefur komið fram það sjónarmið í nefndinni að mikilvægt sé að afmarka umfang og eðli stjórnarskrárinnar. Draga þurfi með eins skýrum hætti og kostur er línu á milli efnisatriða sem eiga heima í stjórnarskrá og hinna sem eru viðfangsefni almenna löggjafans og fjárveitingavaldsins. Forðast beri að setja í stjórnarskrá almennar stjórnmálalegar yfirlýsingar.

3. Grundvöllur stjórnskipunarinnar
3.1. Inngangur
    Á það hefur verið bent að I. kafli stjórnarskrárinnar sé fremur fábrotinn þar sem í 1. gr. sé kveðið á um að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn og í 2. gr. sé kveðið á um þrískiptingu ríkisvaldsins. Þarna mætti mæla fyrir um önnur grundvallaratriði sem íslensk stjórnskipun byggist á eins og lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum. Þegar litið er til stjórnarskráa í öðrum ríkjum sést að inngangskaflar af þessu tagi geyma að auki gjarnan ákvæði um yfirráðasvæði ríkisins, ríkisborgararétt, fána, höfuðborg og opinbert tungumál.

3.2. Ýmsar tillögur
    Stjórnarskrárnefnd hafa ekki borist margar tillögur sem varða grundvallarákvæði sem best ættu heima í almennum kafla fremst í stjórnarskránni.
    Fram hefur komið tillaga frá Bandalagi háskólamanna um „meira sjálfstæði aðalhandhafa löggjafarvalds annars vegar og framkvæmdarvalds hins vegar, hvors gagnvart öðrum, svo sem með afnámi þingræðis og lausn ráðherra frá þingmennsku, a.m.k. á meðan þingmaður gegnir ráðherrastörfum“. Bjarni Jónsson, Garðabæ, tekur í svipaðan streng og leggur til að 2. gr. stjórnarskrárinnar verði breytt þannig að Alþingi fari eitt með löggjafarvald og ráðherrar einir með framkvæmdarvald.
    Íslensk málnefnd hefur sent stjórnarskrárnefnd erindi þess efnis að mælt verði fyrir um það í stjórnarskránni að íslenska sé ríkismál Íslands. Þá má minna á þingsályktun sem Mörður Árnason o.fl. fluttu og vísað var til ríkisstjórnarinnar á 130. löggjafarþingi. 2 Þar segir meðal annars í greinargerð að athuga beri hvort þörf sé á að setja í stjórnarskrá eða almenn lög að íslenska sé þjóðtunga Íslendinga. Þá hefur Félag heyrnarlausra óskað eftir því að að sama skapi verði íslenskt táknmál viðurkennt sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga. Öryrkjabandalag Íslands hefur tekið undir þessa kröfu.

3.3. Umræður í nefndinni
    Innan nefndarinnar hafa komið fram ólík sjónarmið um það hversu ítarlegur I. kaflinn eigi að vera. Ekki er hins vegar deilt um að þegar kemur að skipulagi ríkisvaldsins sé rétt að ganga út frá hefðbundinni greiningu milli löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds en sumir telja mikla þörf á að skerpa þá aðgreiningu og efla temprun valds og eftirlit með valdhöfum.
    Þá hefur verið rætt um að taka til athugunar að nefna fleiri grundvallarhugtök í I. kafla stjórnarskrárinnar en nú er þannig að þar yrði fjallað um lýðræði, virðingu fyrir mannréttindum, þingræði og þrískiptingu ríkisvalds.
    Nefndin hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort þörf sé á því að geta þess í stjórnarskrá að íslenska sé þjóðtunga Íslendinga eða veita táknmáli sambærilega viðurkenningu.

4. Þjóðaratkvæðagreiðslur
4.1. Inngangur
    Ekki er um það deilt að í lýðræðisríki sprettur allt vald frá þjóðinni. Þessa sér stað í íslenskri stjórnskipan þar sem kjósendur velja alþingismenn og sveitarstjórnarmenn með reglulegu millibili og kjósa forseta í beinum kosningum. Núgildandi stjórnarskrá geymir fá ákvæði um efni sem leggja þarf fyrir þjóðina til úrskurðar í allsherjaratkvæðagreiðslu. Þannig er kveðið á um í 3. mgr. 11. gr. að forseti verði ekki leystur frá störfum nema meiri hluti samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eins skal efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu ef forseti synjar lagafrumvarpi staðfestingar samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar. Loks skal fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla samkvæmt 2. mgr. 79. gr. ef Alþingi samþykkir breytingu á kirkjuskipan ríkisins, sbr. 62. gr. stjórnarskrárinnar.
    Ekki hefur enn farið fram nein þjóðaratkvæðagreiðsla á lýðveldistímanum á grundvelli þessara ákvæða.

4.2. Ýmsar tillögur
    Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram á Alþingi frumvarp sem kveður á um að fimmtungur kosningabærra manna í landinu geti krafist þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um lagafrumvarp sem Alþingi hafi samþykkt. 3 Til að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar séu bindandi þurfi meira en fimmtungur kosningabærra manna að greiða atkvæði gegn gildi laganna.
    Samband ungra sjálfstæðismanna leggur til að fjórðungur kosningabærra manna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem samþykkt eru af Alþingi.
    Þjóðarhreyfingin berst fyrir „rétti þjóðarinnar til þess að njóta áfram þess málskotsréttar, sem þjóðkjörinn forseti fer með samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar“. Jafnframt verði sá réttur betur tryggður en nú er með því að „bæta við ákvæðið nýrri málsgrein um, að allir kosningabærir menn í alþingiskosningum eigi atkvæðisrétt í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem fram fari innan 2 mánaða frá synjun forseta“. Þá leggur Þjóðarhreyfingin til að einfaldur meirihluti þeirra sem þátt taka ráði úrslitum um samþykkt eða synjun frumvarpsins.
    BHM leggur til „sjálfstæðan rétt til bindandi þjóðaratkvæðis án þess að skert verði önnur úrræði sem til þess eru fallin að veita handhöfum ríkisins aðhald“.
    Bjarni Jónsson, Garðabæ, stingur upp á að fjórðungur atkvæðisbærra manna í Alþingiskosningum geti farið þess á leit við forseta Alþingis að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um lagasetningu eða aðra stjórnarathöfn. Samþykki fjórðungur Alþingismanna hið minnsta þessa beiðni beri ríkisstjórn að verða við henni. Ef meira en helmingur atkvæðisbærra manna hafni lagasetningu í þjóðaratkvæðagreiðslu skuli Alþingi fella viðkomandi lög úr gildi en annars gildi þau áfram. Um aðrar stjórnvaldsákvarðanir nægi hreinn meirihluti greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu til að fella þær úr gildi en ella standa þær óhaggaðar. Alþingi skuli setja lög um undirskriftasafnanir til stuðnings við þjóðaratkvæðagreiðslur.
    Lýðræðishópurinn vill að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram ef forseti synjar lögum frá Alþingi staðfestingar, ef tíu af hundraði atkvæðisbærra landsmanna krefjast þess, ef breyta á stjórnarskrá lýðveldisins eða ef ríkisstjórn Íslands leggur til að Ísland taki þátt í þvingunaraðgerðum eða hernaðaraðgerðum gegn öðru ríki eða styður slíkar aðgerðir. Með þjóðaratkvæðagreiðslu fái landsmenn vald til að fella úr gildi lög frá Alþingi, svipta ráðherra eða forseta embætti eða knýja Alþingi til að taka ákveðið mál til þinglegrar meðferðar.
    Hjörtur Einarsson, Neðri-Hundadal, telur nauðsyn til bera að málskotsréttur forseta verði áfram í stjórnarskrá. Þetta sé öryggisventill þingræðinu og ákvæðið sé auðskilið alþýðu manna.
    Skýrslutæknifélag Íslands hefur bent á kosti rafrænna kosninga. Kostnaður sé mun minni en við kosningar með hefðbundnum hætti, minni tími fari í þær og þetta ætti að auðvelda kosningar um einstök málefni á milli hefðbundinna kosninga.
    Ofangreindar tillögur ganga í stórum dráttum út frá að fulltrúalýðræðið haldist meira og minna óbreytt þótt því til stuðnings þróist beint lýðræði. Halldór G. Einarsson, Kópavogi, vill ganga lengra og breyta fulltrúalýðræðinu. Þingmenn verði kosnir sem einstaklingar og að þeir hafi atkvæðavægi á þingi í hlutfalli við kjörfylgi sitt. Þegar greidd eru atkvæði á þingi um málefni hafi kjósendur viku frest til að segja sig úr lögum við viðkomandi þingmann og eftir atvikum flytja atkvæði sitt á aðra þingmenn. Endanleg úrslit atkvæðagreiðslu verði ekki ljós fyrr en að þeim fresti liðnum.

4.3. Umræður í nefndinni
    Samstaða er um það í nefndinni að vert sé að rýmka möguleika á því að haldnar séu þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg málefni. Hins vegar greinir nefndarmenn á um það hversu langt eigi að ganga í því efni. Hefur meðal annars verið hvatt til þess að reynsla annarra þjóða sé skoðuð gaumgæfilega áður en róttækar breytingar séu gerðar. Til dæmis geti kerfi, þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru tíðar, hugsanlega dregið úr áhuga almennings á þátttöku.
    Samkomulag er um að rétt sé að allar stjórnarskrárbreytingar fari í þjóðaratkvæði enda megi líta svo á að þjóðin sé stjórnarskrárgjafinn. Ekki hefur heldur komið fram ágreiningur um að önnur mikilvæg málefni verðskuldi þjóðaratkvæðagreiðslu. Aðild að ESB, ef til hennar kæmi, hefur verið nefnd sem dæmi um það. Er þá hugsunin sú að jafnvel þótt stjórnarskránni hefði verið breytt til að heimila framsal ríkisvalds þá þyrfti að fara fram sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-aðild.
    Fjölmargar leiðir hafa verið ræddar varðandi möguleika á að skjóta nýsamþykktum lögum frá Alþingi til þjóðarinnar. Spurning er hver eigi að geta framkallað slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Forseti lýðveldisins, eins og nú er, tiltekinn hluti þingmanna eða tiltekinn hluti kjósenda? Hefur verið nefnt sem möguleiki að binda heimild forseta því skilyrði að krafa komi fram um þjóðaratkvæði frá tilteknum hluta þingmanna. Þar með yrði ábyrgðin á því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu skýrari. Aðrir hafa talið að ekki sé nein nauðsyn á að hagga við 26. gr. Forsetinn hafi farið sparlega með þá heimild og engin ástæða sé til þess að ætla annað en svo verði áfram.
    Þeir sem vilja ganga hvað lengst vilja leyfa svokallað þjóðarfrumkvæði þar sem tiltekinn hluti kjósenda, t.d. 20%, fær því framgengt að mál séu tekin til afgreiðslu á Alþingi eða jafnvel að um þau sé kosið í þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Þegar rætt er um þjóðaratkvæðagreiðslur vaknar jafnan spurningin um hvaða skilyrði eigi að setja um framkvæmd hennar. Sumir vilja sem fæst skilyrði til dæmis um þátttöku eða lágmarksstuðning á meðan aðrir telja slíkt æskilegt til þess að tryggja lögmæti niðurstöðunnar.

5. Forseti og ríkisstjórn
5.1. Inngangur
    Mjög litlar breytingar hafa verið gerðar á II. kafla stjórnarskrárinnar um forseta og meðferð framkvæmdarvalds frá lýðveldisstofnun. Þær breytingar vörðuðu fyrst og fremst orðalag vegna afnáms deildaskiptingar Alþingis og eins var heimild 28. gr. til útgáfu bráðabirgðalaga þrengd.

5.2. Ýmsar tillögur
5.2.1. Um forsetaembættið
    Ýmsar tillögur hafa verið settar fram sem snerta forsetaembættið. Róttækustu hugmyndirnar ganga út á að leggja embættið niður. Aðrar miða að því að draga heldur úr völdum þess.
    Pétur H. Blöndal hefur flutt frumvarp á Alþingi í 20 greinum um afnám forsetaembættisins. 4
    Samband ungra sjálfstæðismanna leggur einnig til að embætti forseta Íslands verði lagt niður. Hlutverk þess sé óljóst auk þess sem ráðherra fari í reynd að mestu leyti með það vald sem forseta er falið í stjórnarskránni. Vísar SUS jafnframt til frumvarps Péturs H. Blöndals um þetta efni.
    Frjálshyggjufélagið er jafnframt hlynnt því að embætti forseta Íslands verði lagt niður og að þær stjórnskipulegu skyldur, sem hvíli á embættinu, verði faldar forseta Alþingis, forsætisráðherra eða forseta Hæstaréttar.
    Hið íslenska félag áhugamanna um stjórnskipan vill sömuleiðis að embætti forseta Íslands verði lagt niður.
    Bjarni Jónsson, Garðabæ, vill afnema málskotsrétt forseta og draga almennt úr völdum hans. Jafnframt leggur hann til að meðmælendur forsetaefna þurfi að vera minnst 5% atkvæðisbærra manna. Endurskoðun stjórnarskrárinnar verður, að mati Gústavs Skúlasonar, að miðast við að skýra starfsramma forsetans, svo að hann geti ekki notað vald embættisins að eigin geðþótta.
    Þjóðarhreyfingin vill hins vegar berjast fyrir rétti þjóðarinnar til að „njóta áfram þess málskotsréttar, sem þjóðkjörinn forseti fer með samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt að sá réttur verði betur tryggður en nú er með því að bæta við ákvæðið nýrri málsgrein um, að allir kosningabærir menn í alþingiskosningum eigi atkvæðisrétt í þjóðaratkvæðagreiðslu, er fram fari innan 2 mánaða frá synjun forseta. Enn fremur að einfaldur meirihluti þeirra, sem þátt taka í atkvæðagreiðslunni, ráði úrslitum um samþykkt eða synjun frumvarpsins.“
    Þorkell Helgason stærðfræðingur hvetur til þess að gaumgæft sé hvort ekki væri rétt að taka upp raðval að írskum hætti við kjör forseta Íslands. Kostirnir fram yfir einfaldar meirihlutakosningar eru m.a. þeir að hans sögn að vilji meirihlutans nær fram að ganga án þess að efna þurfi til fleiri en einna kosninga. Þá sé sneitt að mestu hjá hrossakaupum sem fylgja tvíþættum kosningum. Gallarnir séu þeir að kosningaathöfnin (raðvalið) kunni að þykja flókin. Þá verði kjósendur að gera upp hug sinn til frambjóðenda sem þeim hugnast ef til vill ekki.
    Dómsmálaráðuneytið hefur framsent til stjórnarskrárnefndar bréf frá Þórunni Guðmundsdóttur hrl. sem var formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður við síðustu forsetakosningar. Kemur hún með ábendingar varðandi 5. gr. stjórnarskrárinnar um fjölda meðmælenda og landfræðilega skiptingu þeirra eins og hún er útfærð í lögum nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands.

5.2.2. Um ráðherra
    Siv Friðleifsdóttir og fleiri þingmenn hafa flutt frumvarp til stjórnarskipunarlaga þess efnis að væri þingmaður skipaður ráðherra skyldi hann víkja úr þingsæti á meðan hann gegndi ráðherradómi og tæki varamaður hans sætið á meðan. 5 Kristinn H. Gunnarsson flytur á yfirstandandi þingi frumvarp til stjórnarskipunarlaga þar sem meðal annars er gert ráð fyrir sams konar breytingu. 6
    BHM gerir tillögu um strangari þrískiptingu ríkisvalds, svo sem með afnámi þingræðis og lausn ráðherra frá þingmennsku.
    Lýðræðishópurinn vill að almennum borgurum og frjálsum félagasamtökum verði gert kleift með lögum frá Alþingi að höfða opinbert mál á hendur ráðherrum og öðrum opinberum starfsmönnum, sem gæta eiga almannahags, vegna meintra brota á stjórnarskrá, brota á almennum hegningarlögum eða brota á alþjóðlegum sakarétti.
    Friðgeir Haraldsson leggur til að ráðherrar hafi ekki atkvæðisrétt á löggjafarþingi enda verði þeir alfarið og eingöngu æðstu yfirmenn framkvæmdarvaldsins og kosnir til starfsins af viðkomandi starfsstéttum, t.d. ráðherra heilbrigðis af heilbrigðisstéttunum, ráðherra mennta af menntastéttunum o.s.frv., en alþingismenn eingöngu kosnir til að setja lög og aðrar leikreglur samfélagsins.
    Þorsteinn Sigurður Þorsteinsson fjallar um að það vanti afmarkaðri lýsingu í stjórnarskrána á valdsviði, ráðstöfunarrétti og hæfi handhafa framkvæmdarvaldsins. Borgurunum finnist valdssviðið án landamæra eins og nú er, varðandi t.d. ráðstöfun fjármuna, embætta, framkvæmda, ákvarðanir um langtímaskuldbindingar (náttúruspjöll), afsal sjálfstæðis (stríðsyfirlýsingar) og fleira.

5.2.3. Útgáfa bráðabirgðalaga
    Kristinn H. Gunnarsson hefur flutt frumvarp til stjórnarskipunarlaga á yfirstandandi þingi þar sem meðal annars er lagt til að heimild til útgáfu bráðabirgðalaga falli brott. Ekki verði séð að sú staða geti komið upp að ókleift verði að kalla Alþingi saman en á sama tíma geti einstök ráðuneyti, ríkisstjórnin og embætti forseta Íslands staðið að því að setja nauðsynlega löggjöf. 7 Í þingsályktunartillögu þingmanna Samfylkingarinnar er lagt til afnám heimilda ríkisstjórna til að setja bráðabirgðalög nema í neyðartilvikum, svo sem vegna náttúruhamfara eða yfirvofandi styrjaldar. 8

5.3. Umræður í nefndinni
    Þónokkur umræða hefur verið í nefndinni um hlutverk og stöðu forsetaembættisins, m.a. í sérstökum vinnuhópi, sbr. inngangskafla, en hún hefur ekki leitt til neinnar niðurstöðu enn sem komið er.
    Mörg ákvæði í þessum kafla eru orðuð þannig að þau draga ekki upp rétta mynd af raunveruleikanum nema þau séu lesin í samhengi hvert við annað og skýrð í ljósi ýmissa venjuhelgaðra reglna sem hafa í raun öðlast stjórnarskrárvarða stöðu, svo sem þingræðisreglunnar, sem þó er ekki nefnd. Þetta á til að mynda við um valdheimildir forseta og ráðherra.
    Nefndin hefur staldrað við það hvort ekki sé ástæða til þess að minnsta kosti að skýra betur hlutverk forseta Íslands í stjórnskipuninni og valdsvið gagnvart ríkisstjórn. Texti núgildandi stjórnarskrár veiti litla vísbendingu um þær venjuhelguðu reglur sem gildi á þessu sviði. Ef þessi leið sé farin þurfi til dæmis að vera skýrlega mælt fyrir um það í stjórnarskránni hvenær forseti þurfi atbeina ráðherra til embættisathafna og hvenær ekki. Þá sé mikilvægt að afmarka með einhverjum hætti hvað felist í þjóðhöfðingjaskyldum, t.d. á erlendum vettvangi. Sumir í nefndinni telja þó ekki þörf á því að breyta núgildandi ákvæðum um þetta efni.
    Aðrir vilja hins vegar ganga lengra og breyta eðli forsetaembættisins. Slíkar breytingar gætu hæglega að mati viðkomandi miðað að því að skerpa þingræðisregluna. Tilfellið væri að sumir teldu forseta hafa meiri völd en ákvæði stjórnarskrárinnar mæltu fyrir um vegna þess að hann væri þjóðkjörinn. Burtséð frá réttmæti þessa skilnings gæti hann leitt til árekstra. Hluti framkvæmdarvaldsins væri þá háður þingræðisreglunni en hluti væri það ekki. Ein leið til úrbóta væri sú að draga úr völdum forseta líkt og Svíar hefðu gert varðandi þjóðhöfðingja sinn. Hin leiðin gæti verið sú að auka hlutverk forseta og fela honum til dæmis réttindi og skyldur þingforseta. Þingforseti yrði þannig óháður bæði stjórn og stjórnarandstöðu sem gæti aukið jafnvægið milli fylkinga á þingi. Forsetinn fengi þannig veigamikið hlutverk án þess að blandast í hefðbundin pólitísk átök.
    Þá eru ýmsir á því í nefndinni að vert væri að fara rækilega yfir ákvæði um kosningu forseta en mikilvægi þess ráðist þó af því hvort einhverjar ákvarðanir verða teknar um breytingar á eðli forsetaembættisins. Mörgum þykir til dæmis ástæða til að endurskoða ákvæði um meðmælendur. Þá hefur verið nefnt að vert væri að skoða þann möguleika að tryggja betur með kosningareglum að forseti hafi meirihluta þjóðarinnar á bak við sig. Þá hafa komið fram sjónarmið um lengingu kjörtímabils til samræmis við það sem gildir víða erlendis.
    Ekki hafa verið miklar undirtektir í nefndinni við þeirri hugmynd að ráðherrar gegni ekki jafnframt þingmennsku þótt til séu undantekningar þar frá. Viðhorfið er þá að vissulega geti skapast vandamál í litlum þingflokkum sem eiga aðild að ríkisstjórn en þau ætti að vera hægt að leysa. Slíkt fyrirkomulag breytti heldur engu um aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds að mati marga. Framkvæmdarvaldið yrði áfram háð löggjafarvaldinu á grundvelli þingræðisreglunnar.
    Þá hefur verið tekið undir það í nefndinni að rétt sé að endurskoða reglur um ráðherraábyrgð og skipan landsdóms.

6. Alþingi
6.1. Inngangur
    Í III. og IV. kafla stjórnarskrárinnar er fjallað um alþingiskosningar og störf Alþingis. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á þessum köflum frá lýðveldisstofnun, einkum varðandi kjördæmi og afnám deildaskiptingar Alþingis.

6.2. Ýmsar tillögur
    Á 131. löggjafarþingi flutti Kristján L. Möller og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar frumvarp um að þeir sem yrðu 18 ára á kosningaári ættu rétt til þátttöku í kosningum. 9 Enn lengra er gengið í þingsályktunartillögu Hlyns Hallssonar og Kolbrúnar Halldórsdóttur um að kosningaaldur verði 16 ár í stað 18 ára. 10 Með þessu yrði ábyrgð ungs fólks aukin og því gert kleift að taka þátt í mótun samfélagsins. Það myndi einnig smám saman, að mati tillöguhöfunda, leiða til breyttra áherslna í landsmálunum þar sem kjörnir fulltrúar myndu leitast við að verja hagsmuni stærri hluta þjóðarinnar.
    Þá flutti Guðmundur Árni Stefánsson og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar frumvarp til breytinga á 31. gr. stjórnarskrárinnar um að landið yrði eitt kjördæmi. 11 Þingmenn Frjálslynda flokksins fluttu þingsályktunartillögu á 131. löggjafarþingi 2004–2005, þskj. 26 – 26. mál, um jöfnun atkvæðisréttar þar sem landið allt yrði eitt kjördæmi. 12
    Frjálshyggjufélagið tekur undir að Ísland skuli vera eitt kjördæmi og að vægi atkvæða í þingkosningum skuli vera jafnt yfir allt landið. Þá leggur Frjálshyggjufélagið til að skilyrði 34. gr. stjórnarskrár um óflekkað mannorð til kjörgengis verði fellt út. Það eigi að vera mat kjósenda hvaða eiginleikum frambjóðendur skuli vera gæddir.
    Kvennahreyfingin leggur til að við 31. grein stjórnarskrárinnar, sem fjallar um fjölda þingmanna og kosningu þeirra, bætist setning um að nánar verði kveðið á um í kosningalögum hvernig náð skuli sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á þingi.
    BHM leggur til „skýrari stöðu réttarheimilda á borð við lög og kjarasamninga gagnvart fjárhagsáætlunum í lagaformi, fjárlögum“. Hið íslenska félag áhugamanna um stjórnskipan leggur til að stjórnarskráin geri sérstaklega ráð fyrir rétti einstaklinga til að bjóða sig fram í kosningum.

6.3. Umræður í nefndinni
    Nokkur umræða hefur verið í nefndinni um hvernig tryggja megi sem best skilvirkt eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu og stjórnsýslunni. Bent hefur verið á að 39. gr. stjórnarskrárinnar um rannsóknarnefndir hafi ekki náð tilgangi sínum. Fram hafa komið sjónarmið um að minnihluti þingmanna eigi að geta kallað eftir slíkri nefndaskipan en núverandi skipan gerir ráð fyrir að viðeigandi þingstyrkur búi að baki þeim heimildum sem þingmenn hafa til að veita ríkisstjórn aðhald eftir því hversu viðurhlutamikil þau eru (1 þingmaður að baki fyrirspurn, 9 að baki skýrslubeiðni, meirihluti að baki þingsályktun eða ákvörðun um skipan rannsóknarnefndar).
    Því hefur verið haldið fram að ójafnt atkvæðavægi kjósenda sé mannréttindabrot. Þetta megi leysa með því að gera landið að einu kjördæmi. Ekki hafa allir nefndarmenn tekið undir þetta en bent hefur verið á þann möguleika að breyta viðkomandi stjórnarskrárákvæði á þann veg að þar verði ekki lengur kveðið á um lágmarksfjölda kjördæma heldur hinum almenna löggjafa eftirlátið það hlutverk að ákveða að öllu leyti kjördæmaskipan.
    Nefnt hefur verið að rétt væri að geta umboðsmanns Alþingis sérstaklega í stjórnarskránni enda um þýðingarmikið embætti að ræða fyrir réttaröryggi borgaranna og mikilvægt að tryggja sjálfstæði þess.
    Þá hefur einnig komið fram að endurskoða megi aðkomu framkvæmdarvaldsins að þingsetningu, frestun þingfunda og þingrofi. Þingrofsheimildin hefur þó þegar verið þrengd nokkuð með breytingum frá 1991.
    Loks hefur verið lagt til að kannað verði hvort þörf sé á endurskoðun fyrirkomulags varðandi mat á því hvort þingmenn séu löglega kosnir.

7. Dómstólar
7.1. Inngangur
    V. kafli stjórnarskrárinnar um dómsvaldið er fáorður. Litlar sem engar breytingar hafa verið gerðar á honum frá lýðveldisstofnun.

7.2. Ýmsar tillögur
    Ekki hafa borist margar tillögur sem snerta kaflann um dómstóla. BHM gerir tillögu um sjálfstæðari stöðu dómstólanna gagnvart öðrum handhöfum ríkisvalds, svo sem með lýðræðislegri umfjöllun um dómaraefni og vali dómara með fjölbreyttan bakgrunn. Þá verði einnig hugað að afnámi eina reglulega sérdómstólsins, Félagsdóms.
    Samband ungra sjálfstæðismanna leggur til að „hlutverk dómenda verði skýrt frekar“. Þeir hafi endurskoðunarvald þegar kemur að mati á því hvort lög standist gagnvart stjórnarskrá. Þetta vald sé mikilvægt til varnar stjórnarskránni og til að tryggja að ákvæðum hennar sé fylgt, ekki síst af stjórnvöldum á hverjum tíma. En það sé einnig mikilvægt að dómstólar misnoti ekki endurskoðunarvald sitt og gangi inn á valdsvið stjórnarskrárgjafans, til dæmis með hugmyndum um svokallað stjórnarskrárígildi alþjóðlegra sáttmála.
    Hið íslenska félag áhugamanna um stjórnskipan leggur til að heimilað verði að spyrja dómstóla hvort tiltekin lög gangi gegn stjórnarskrá eður ei. Það verði sem sagt rýmkaðar heimildir til að bera mál undir dómstóla.
    Þá leggur Lýðræðishópurinn til að Alþingi staðfesti skipan hæstaréttardómara með ¾ greiddra atkvæða.

7.3. Umræður í nefndinni
    Sérstakur vinnuhópur fjallaði um dómstólakaflann, sbr. inngangskafla. Rætt hefur verið um það í nefndinni að rétt sé að taka fram í stjórnarskrá að Hæstiréttur sé æðsti dómstóll landsins. Varðandi hlutverk Hæstaréttar hafa menn staldrað við hvort ekki sé rétt að kveða skýrum orðum á um vald dómstóla til að víkja lögum sem stríða gegn stjórnarskránni til hliðar en það vald er nú talið venjuhelgað. Í því sambandi hefur verið nefnt að um leið þyrfti þá að fara yfir hvort því valdi sé best fyrir komið með núverandi hætti. Er þá vísað til þess að víða erlendis fari sérstakir stjórnlagadómstólar með vald af þessu tagi. Þá hefur verið nefnt að skýra þurfi betur ákvæði stjórnarskrár um endurskoðunarvald dómstóla gagnvart stjórnvöldum.
    Þá hefur töluvert verið rætt um skipan dómara, einkum hæstaréttardómara, og hvort binda eigi reglur þar um í stjórnarskrá. Nefnt hefur verið að þörf sé á að gera skipan hæstaréttardómara sem faglegasta og lýðræðislegasta. Ein leið væri sú að dómnefnd fjallaði um dómaraefni líkt og í Danmörku. Önnur leið væri sú að Alþingi þyrfti að staðfesta skipan dómara. Aðrir lögðu áherslu á að pólitískt vald og ábyrgð ætti að vera hjá ráðherra þótt breyta mætti umsagnarferlinu. Hætta gæti verið fólgin í því að Alþingi kæmi að skipan hæstaréttardómara og var vísað til Bandaríkjanna sem vítis til varnaðar í því sambandi. Krafa um staðfestingu Alþingis gæti leitt til þess að ráðherra axlaði ekki sömu ábyrgð á ákvörðun. Einnig gætu komið upp vandkvæði milli stjórnarflokka í samsteypustjórn. Í öllu falli ykist hætta á að embættaveitingar yrðu pólitískt bitbein án þess að nokkur teldi sig bera á þeim ábyrgð. Þá var varað við þeirri hugmynd að hægt væri að finna hlutlæga mælikvarða við val á dómurum.
    Þá kom fram það viðhorf að nóg væri að hafa í almennum lögum ákvæði um þessi efni, ekki þyrfti að útfæra þau í stjórnarskrá.
    Varðandi önnur atriði þá var nefndur sá möguleiki að forseti lýðveldisins fengi neitunarvald um skipan hæstaréttardómara, hugsanlega gæti það verið þáttur í auknu hlutverki forsetans. Því var enn fremur varpað fram að ástæða væri til að huga að tímabundinni skipan hæstaréttardómara, til 10–15 ára til dæmis. Þá styngju eftirlaun þeirra í stúf við það sem almennt gerist.
    Loks hefur verið minnt á að víða erlendis séu í stjórnarskrá ákvæði um sjálfstætt ákæruvald.

8. Ríki og kirkja
8.1. Inngangur
    Fjallað er um þjóðkirkjuna og trúfrelsi í 62.–64. gr. stjórnarskrárinnar. 63. og 64. gr. voru endurskoðaðar árið 1995 þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskoðaður. 62. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og að ríkisvaldið skuli að því leyti styðja hana og vernda.

8.2. Ýmsar tillögur
    Guðjón A. Kristjánsson og Þuríður Backman fluttu frumvarp á 130. löggjafarþingi þar sem mælt er fyrir um fullan aðskilnað ríkis og kirkju innan fimm ára frá gildistöku laga þar að lútandi. 13
    Nefndinni hafa borist þónokkur erindi þar sem krafist er aðskilnaðar ríkis og kirkju.
    Siðmennt leggur til að lögbundinn verði í stjórnarskránni aðskilnaður ríkis og kirkju og að 62. gr. stjórnarskrárinnar verði afnumin. Þá sé sá annmarki á 63. gr. stjórnarskrárinnar að jafnræðis sé ekki gætt milli mismunandi lífsskoðana. Eins verði 64. gr. stjórnarskrárinnar felld úr gildi og allir hafi rétt til að ráðstafa gjöldum sínum í hvaða lífsskoðunarfélag sem er eða þá greiða alls ekki slík gjöld. Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju vilja sömuleiðis breytingar á stjórnarskránni í þessa veru.
    Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju og félagið Vantrú hafa einnig sett fram tillögu um aðskilnað ríkis og kirkju og að þess verði gætt í löggjöf og framkvæmd að ríkisvaldið geri ekki upp á milli lífsskoðana manna. Þannig eigi ríkið að hætta að skrá hvaða trúfélögum fólk tilheyrir og hætta stuðningi við sum trúfélög fram yfir önnur.
    Samband ungra sjálfstæðismanna telur að stuðningur ríkisins við trúfélag samrýmist ekki viðteknum hugmyndum um frelsi og að það mismuni trúfélögum hér á landi. Leggur sambandið til að sjötti kafli stjórnarskrárinnar, sem lýtur að þjóðkirkjunni, verði felldur út í heild sinni. Frjálshyggjufélagið er sama sinnis, þ.e. að 62. gr. verði felld úr gildi. Sama á við um Hið íslenska félag áhugamanna um stjórnskipan.
    Þá hafa nokkrir einstaklingar látið þetta málefni til sín taka í bréfum til nefndarinnar. Árni Árnason vélstjóri telur ákvæði um þjóðkirkju og greiðsluskyldu til Háskóla Íslands fyrir þá sem standa utan trúfélaga ekki eiga heima í stjórnarskrá. Jórunn Sörensen er sama sinnis og leggur áherslu á að trú sé einkamál hvers og eins. Pétur Sigurgeirsson, fyrrverandi biskup, minnir hins vegar á mikilvægi sambands ríkis og kirkju og spyr hvar við værum stödd ef við hefðum ekki hinn kristna grunn að byggja á.

8.3. Umræður í nefndinni
    Ekki hafa orðið miklar umræður um þetta efni í nefndinni. Kirkjan hefur á undanförnum árum þróast í átt til meira sjálfstæðis að miklu leyti að hennar eigin frumkvæði. Spurt hefur verið hvort og hvenær eigi að stíga það skref til fulls að skilja lögformlega á milli ríkis og kirkju. Að sama skapi þarf að spyrja á hvaða forsendum slíkur skilnaður, ef til hans kæmi, ætti að vera. Bent hefur verið á að stjórnarskráin geri ráð fyrir sérstöku ferli við breytingu á kirkjuskipan, þ.e. krafist er einfaldrar lagabreytingar auk þjóðaratkvæðagreiðslu. Eins hafa sumir nefndarmenn af því áhyggjur að þetta efni myndi vera svo tímafrekt í umræðunni að aðrar brýnni breytingar féllu í skuggann.

9. Mannréttindaákvæði
9.1. Inngangur
    VII. kafli stjórnarskrárinnar, mannréttindakaflinn, er sá kafli sem mestum breytingum hefur sætt á lýðveldistímanum. Var hann endurskoðaður í tilefni af hálfrar aldar afmæli lýðveldisins 1994. Með breytingunum voru mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar færð til nútímahorfs og tóku þær gildi árið 1995.

9.2. Ýmsar tillögur
    Þótt tiltölulega stutt sé síðan mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskoðaður hafa ýmsar tillögur borist sem varða mannréttindi.
    Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur lagt til að mannréttindareglum sem eru þjóðréttarlega skuldbindandi fyrir íslenska ríkið verði veitt stjórnarskrárvernd. Öryrkjabandalagið hefur lagt til að „hert verði á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar til samræmis við það sem best gerist í heiminum …“
    Frjálshyggjufélagið leggur til að við kaflann verði bætt ákvæði um frelsi einstaklinga til athafna svo lengi sem þeir skaða ekki aðra með beinum hætti. Þá verði undanþáguákvæði þrengd. Loks verði sett ákvæði sem feli í sér almennt bann við afturvirkni íþyngjandi laga.
    Hið íslenska félag áhugamanna um stjórnskipan leggur til að 76. grein stjórnarskrárinnar, sem kveður á um ýmis félagsleg réttindi, verði afnumin. Það sé vafasamt að dómskerfið hlutist í auknum mæli til um hvernig velferðar- og menningarmálum sé háttað.
    BSRB hefur lagt til að bundið verði í stjórnarskrá að „aðgangur að drykkjarvatni teljist mannréttindi og að eignarhald á vatni skuli jafnan vera samfélagslegt“. Fjölmörg samtök 14 hafa sent nefndinni erindi undir yfirskriftinni „Vatn fyrir alla“. Þar segir að aðgangur að vatni sé grundvallarmannréttindi eins og kveðið sé á um í samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Sérhver maður eigi því rétt á aðgangi að hreinu drykkjarvatni og vatni til hreinlætis og heimilishalds. Vegna mikilvægis vatns fyrir íslenska þjóð og lífríki landsins telji samtökin nauðsynlegt að fest verði í stjórnarskrá ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns.
    Samtökin ´78 leggja til að stjórnarskráin mæli fyrir um jafnrétti óháð kynhneigð og verði 65. greinar stjórnarskrárinnar breytt til samræmis við það.
    Kvennahreyfingin leggur til að við 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar verði bætt setningu um athafnaskyldur stjórnvalda til að afnema misrétti og tryggja jafnrétti kynjanna ábyrgjast jafnrétti í reynd. Þá leggur hreyfingin til að við 71. gr., sem fjallar um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, verði bætt setningu sem kveður á um að allir skuli njóta mannhelgi og verndar gegn ofbeldi á opinberum vettvangi sem og í einkalífi verndar og öryggis gegn ofbeldi á opinberum vettvangi sem og í einkalífi og að allir skuli njóta líkamlegs sjálfsforræðis. Vitnar Kennahreyfingin meðal annars til nýlegra stjórnarskrárbreytinga í Finnlandi, Grikklandi, Þýskalandi, Suður-Afríku, Kólumbíu og Brasilíu sem eftirtektarverðra fyrirmynda.
    Barnaheill leggja til að ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins öðlist stjórnarskrárvernd því að þannig verði velferð og réttindi íslenskra barna tryggð sem allra best.
    Mannvernd leggur til að hert verði á ákvæðum stjórnarskrárinnar varðandi friðhelgi einkalífs. Slík endurskoðuð ákvæði þyrftu að leiða af sér að notkun á kennitölu Hagstofu Íslands væri heft, dreifingu á þjóðskrá væri hætt og hún eingöngu notuð við opinbera stjórnsýslu, söfnun á persónubundnum gögnum væri óheimil nema úrvinnsla væri nauðsynleg og réttmæt og að viðkomandi væri kunnugt um áformin, persónubundin gögn, sem aflað væri í gefnum tilgangi, væri ekki unnt að nota í öðrum tilgangi, persónubundnum gögnum væri eytt þegar réttmætri notkun væri lokið.
    Skýrslutæknifélag Íslands tekur í svipaðan streng þegar það segir að notkun manna á Netinu sé almennt skráð. Af því leiðir að eftirlitsmöguleikar séu gríðarlegir án þess að fólk geri sér grein fyrir því. Standa verði vörð um friðhelgi einkalífs. Ian Watson hefur hins vegar sent nefndinni erindi um ágæti kennitölu eins og hún er notuð á Íslandi og færir rök fyrir því að ekki sé um vandamál að ræða frá sjónarhóli persónuverndar.
    Þá hefur Einar Thorlacius, sveitarstjóri Reykhólahrepps, varpað því fram til umhugsunar fyrir stjórnarskrárnefnd hvort réttur almennings, til að löggæslu sé haldið uppi í öllum sveitarfélögum landsins, teljist ekki til mannréttinda sem jafnvel sé rétt að geta í stjórnarskrá.
    Jóhann J. Ólafsson leggur til að svohljóðandi ákvæði verði bætt við 72.gr. stjórnarskrárinnar: „Öllum ber réttur til að eiga eignir. Stuðla ber að því að eignir séu í einkaeign einstaklinga. Opinberar eignir eru til bráðabirgða þar til hægt er að koma þeim í einkaeign. Almenningar skulu haldast eða breytt í einkaeign.“

9.3. Umræður í nefndinni
    Ekki eru nema 12 ár síðan mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var tekinn til gagngerrar endurskoðunar til samræmis við alþjóðasáttmála og í góðu samkomulagi allra stjórnmálaflokka. Nefndin hefur því litið svo á að endurskoðun annarra kafla stjórnarskrárinnar væri brýnni á fyrri vinnustigum nefndarinnar.
    Á hinn bóginn verður ekki horft fram hjá því að fjöldi erinda hefur borist sem vitnar um áhuga einstaklinga og félagasamtaka á því að mannréttindakaflinn verði endurbættur. Sérstaklega eftirtektarvert er framtak kvennahreyfinga sem efndu til sérstakrar ráðstefnu til að stilla saman strengi sína og undirbúa sameiginlegar tillögur til stjórnarskrárnefndar.
    Meðal þess sem sérsaklega hefur verið rætt í nefndinni er hvort endurskoða beri ákvæðin um tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs. Er þá meðal annars vísað til þess ítarlega tjáningarfrelsisákvæðis sem sett var í norsku stjórnarskrána árið 2004. Þá hefur einnig verið nefnt að upptalning mannréttinda í núgildandi stjórnarskrá sé í raun harla fátækleg í samanburði við alþjóðlegar og svæðisbundnar mannréttindareglur um borgara-, efnahags-, félags-, menningar- og stjórnmálaleg réttindi.
    Á það hefur verið bent innan nefndarinnar að áhrif stjórnarskrárbreytinganna 1995 á íslenska réttarframkvæmd hafi verið mjög mikil, samhliða almennri vakningu í þjóðfélaginu um þessi efni bæði meðal borgaranna og allra handhafa ríkisvalds. Sumir telja reyndar að dómstólar gangi stundum of langt í að túlka þau réttindi sem kveðið er á um í mannréttindakaflanum. Af þeim sökum sé rétt að bíða átekta um sinn á meðan dómaframkvæmd er að ná meiri festu og stöðugleika áður en ráðist yrði í viðamiklar breytingar á þessum kafla.
    Flest erindi, sem hafa borist stjórnarskrárnefnd varðandi breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, lúta að tiltölulega afmörkuðum atriðum í mannréttindaákvæðum og endurspegla hagsmuni þeirra félagasamtaka og einstaklinga sem sent hafi inn erindi. Fram hafa komið sjónarmið um að varasamt sé að breyta afmörkuðum stjórnarskrárákvæðum um mannréttindi án þess að huga þá samtímis að mörgum öðrum atriðum sem einnig þyrfti að breyta til samræmis, án tillits til þess hvort erindi hafi borist þar um. Í raun þyrfti þá að fara fram ný heildarendurskoðun á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar sem eðlilegra væri að vinna í stærra samhengi. Því hefur verið talið æskilegra að skoða nánar breytingar sem hefðu almennara gildi. Í því sambandi hefur verið rætt um að í inngangsákvæði í I. kafla stjórnarskrárinnar yrði vísað til þess að mannréttindi séu einn hornsteina íslenskrar stjórnskipunar en tillaga þess efnis hefur þegar komið fram í starfi stjórnarskrárnefndar. Jafnframt verði sett ákvæði í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar þar sem lýst yrði yfir skyldu stjórnvalda til að virða og tryggja mannréttindi með hliðsjón af alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum sem Ísland er aðili að og að slíkum skuldbindingum skuli komið í framkvæmd samkvæmt lögum.

10. Utanríkismál
10.1. Inngangur
    Núgildandi stjórnarskrá er fáorð um utanríkismál. Í 21. grein hennar segir að forseti lýðveldisins geri samninga við önnur ríki. Þó geti hann enga slíka samninga gert ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins nema samþykki Alþingis komi til.

10.2. Ýmsar tillögur
    Þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem kveður á um að samþykki Alþingis þurfi að liggja fyrir áður en heitið er þátttöku eða stuðningi Íslands í stríði gegn öðru ríki. 15 Þá er í þingsályktunartillögu þingmanna Samfylkingarinnar hvatt til að framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana sem vinna að friði og frelsi í viðskiptum sé heimilað. 16
    Þjóðarhreyfingin leggur til lögfestingu nýs ákvæðis um að íslenskur her verði aldrei settur á stofn og að Ísland fari ekki með stríð á hendur neinu öðru ríki eða þjóð. Enn fremur að ríkisstjórn Íslands verði bannað að styðja í orði eða verki hernaðaríhlutun erlends ríkis eða ríkjasamtaka gegn öðrum ríkjum nema öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi veitt ótvíræða heimild til hennar og Alþingi Íslendinga styðji þá ákvörðun.
    Samtök herstöðvaandstæðinga leggja til að það verði bundið í stjórnarskrá að á Íslandi verði aldrei stofnaður her né herskylda leidd í lög. Þá verði bundið í stjórnarskrá að Ísland fari aldrei með ófriði á hendur öðrum þjóðum né styðji á nokkurn hátt slíkar aðgerðir annarra ríkja.
    Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, minnir á að samkvæmt gildandi stjórnskipunarrétti sé óheimilt að skerða valdheimildir ríkisvaldsins með alþjóðasamningum. Stjórnarskrárbreytingu þurfi til. Ef til standi að auðvelda þetta þá sé mikilvægt að í það minnsta mæla fyrir um aukinn meirihluta á Alþingi, t.d. þrjá fjórðu greiddra atkvæða. Jafnframt væri eðlilegt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu þegar um verulegt framsal á einhverjum þætti ríkisvalds sé að ræða.

10.3. Umræður í nefndinni
    Gildandi ákvæði gerir ráð fyrir að réttur til að gera samninga við önnur ríki og alþjóðastofnanir sé í höndum stjórnvalda. Þó megi þau enga slíka samninga gera, ef þeir hafa fólgið í sér afsal á landi eða landhelgi, nema með samþykki þingsins. Sama á við ef framfylgd þeirra að landsrétti kefst lagabreytinga. Engar beinar heimildir eru hins vegar til að framselja ríkisvald eða kveða á um meðferð þess í samstarfi við aðrar þjóðir eins og alþjóðlegt samstarf gerir í vaxandi mæli ráð fyrir. Heimildir til þess hafa þó með lögskýringum og -túlkunum verið taldar vera fyrir hendi.
    Að undanförnu hafa komið fram ábendingar um að ástæða kunni að vera til að huga sérstaklega að meðferð valdheimilda ríkisins í samskiptum við aðrar þjóðir og fjölþjóðlegar stofnanir í því skyni að greiða fyrir samvinnu Íslands á alþjóðavettvangi. Eins og nefnt hefur verið geyma ákvæði stjórnarskrárinnar engar settar heimildir til framsals ríkisvalds. Aukið alþjóðlegt samstarf stjórnvalda við önnur ríki og alþjóðastofnanir hefur þó ítrekað reynt á þanþol stjórnarskrárinnar að þessu leyti, sbr. aðildina að EES-samningnum og Schengen. Aðildin að EES var á sínum tíma ekki talin fela í sér framsal ríkisvalds. Þess vegna var hún talin heimil án breytinga á stjórnarskrá. Framkvæmd samningsins er hins vegar í stöðugri þróun. Mat fræðimanna á því hvort aðild að EES væri heimil án breytinga á stjórnarskrá byggðist á því að stjórnarskráin heimilaði takmarkað framsal ríkisvalds með samningum um einstök málefni. Í þessu sambandi hafa fræðimenn bent á að þótt takmarkað framsal ríkisvalds með samningum um einstök málefni hafi verið talið samrýmanlegt stjórnarskránni sé fyrirsjáanlegt að aukin alþjóðleg samvinna, einkum milli Evrópuríkja, muni kalla á frekara framsal ríkisvalds. Að því kunni að koma að talið verði að framsal hafi átt sér stað í of ríkum mæli miðað við reglur stjórnarskrárinnar eins og þær eru nú. Það er því eðlilegt, þegar horft er fram á vaxandi alþjóðlegt samstarf í framtíðinni, að undirbúa og framkvæma breytingar á íslensku stjórnarskránni til þess að koma í veg fyrir að sérstakur vafi rísi í hvert sinn sem stofnað er til samstarfs um tiltekinn málaflokk.
    Jafnframt hefur verið rætt um hvaða aðferðum beri að beita til að taka ákvarðanir um framsal ríkisvalds, t.d. hvort beri að kveða á um að aukinn meirihluta á Alþingi þyrfti fyrir slíkri ákvörðun eða setja jafnvel þjóðaratkvæðagreiðslu sem skilyrði.
    Þá hafa komið fram hugmyndir um að bæta ákvæði í stjórnarskrána um að áður en ákvörðun sé tekin um meiri háttar utanríkismál skuli haft samráð við utanríkismálanefnd Alþingis.

11. Stjórnarskrárbreytingar
11.1. Inngangur
    Samkvæmt 79. gr. núgildandi stjórnarskrár verður henni breytt með samþykki einfalds meirihluta á tveimur þingum enda fari fram kosningar á milli. Stjórnarskrárbreytingar eru þannig einungis bornar undir þjóðina með óbeinum hætti. Þótt formlega sé krafist einfalds meirihluta á þingi hefur í raun yfirleitt verið víðtækari samstaða á þingi um stjórnarskrárbreytingar.

11.2. Ýmsar tillögur
    Kristinn H. Gunnarsson hefur mælt fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga á 133. löggjafarþingi þar sem meðal annars er kveðið á um að stjórnarskrárbreytingar skuli leggja undir þjóðaratkvæði eftir að þær hafa verið samþykktar á tveimur þingum. 17
    Samband ungra sjálfstæðismanna leggur til að „að tekin verði upp sú regla að til þess að hægt verði að breyta stjórnarskrá þurfi að ná samþykki 2/3 hluta alþingismanna, en nú er ekki kveðið á um aukinn meirihluta. Í kjölfarið skuli boða til almennra kosninga, eins og nú, en samhliða þeim kosningum skuli breytingarnar þó bornar undir atkvæði þjóðarinnar til samþykkis eða synjunar. Einfaldur meirihluti nægi til að samþykkja breytingarnar.“
    Þjóðarhreyfingin leggur til að breytingar á stjórnarskránni skuli bera undir kjósendur í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem eingöngu stjórnarskrármálið sé á dagskrá.
    BHM leggur til að stjórnarskrá verði sett og henni breytt óháð þingkosningum, svo sem með sjálfstæðu stjórnlagaþingi eða þjóðaratkvæði.
    Þorkell Helgason stærðfræðingur hefur látið í ljósi þá skoðun að brýnasta stjórnarskrárbreytingin nú sé að gera það erfiðara að breyta stjórnarskránni og ætti það að vera eina breytingin að þessu sinni. Æskilegast sé að kveða svo á um að stjórnarskrárbreytingu, sem Alþingi hafi samþykkt, skuli bera tafarlaust undir þjóðaratkvæði.

11.3 Umræður í nefndinni
    Í nefndinni hafa umræður snúist um það hvort rétt sé að gera ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar. Taka þyrfti afstöðu til þess hvort slíkt ætti að gilda um allar stjórnarskrárbreytingar eða hvort heimila ætti til dæmis auknum meirihluta þingmanna að breyta stjórnarskránni án þess að til þjóðaratkvæðis kæmi.
    Niðurstaða nefndarinnar er sú að leggja til að þjóðaratkvæðagreiðsla eigi sér alltaf stað um stjórnarskrárbreytingar og að gert verði kleift að kjósa um þær óháð reglulegum alþingiskosningum. Hefur forsætisráðherra verið sent tillaga þar að lútandi í frumvarpsformi.
    Bent hefur verið á að við þessa breytingu sé jafnvel enn brýnna en áður að taka á því í framhaldi starfs nefndarinnar hver sé til þess bær að leggja mat á hvort tiltekin stjórnarathöfn, breyting á löggjöf eða annað kalli á breytingu á stjórnarskrá. Hefur verið tekið dæmi af valdframsali á grundvelli EES-samningsins sem óvissa hafi verið um hvort stæðist gagnvart stjórnarskrá.

12. Umhverfisvernd
12.1. Inngangur
    Ekki er að finna í núgildandi stjórnarskrá neitt ákvæði um umhverfisvernd. Slík ákvæði eru hins vegar undantekningarlítið í nýlegri evrópskum stjórnarskrám sem ber vott um mikilvægi málaflokksins þótt vissulega séu þau útfærð með ákaflega mismunandi hætti.

12.2. Ýmsar tillögur
    Landvernd hefur mælt fyrir svohljóðandi ákvæði um umhverfisvernd: „Heilnæmt vatn og loft, náttúran og fjölbreytni hennar, landslag, annað umhverfi og aðgengi að náttúru eru gæði sem allir bera ábyrgð á að nýtt séu með sjálfbærum hætti. Jafnframt skulu borgarar landsins sýna aðgát þannig að náttúru landsins og auðlindum sé ekki spillt. Stjórnvöldum ber að leggja sig fram um að tryggja öllum rétt til heilnæms vatns, lofts og annars umhverfis og aðgengis að náttúru. Allir skulu hafa aðgengi að upplýsingum og ákvörðunum er varða þessa þætti.“ Náttúruvaktin hefur lýst því yfir að hún styðji tillögur Landverndar. Hún hefur enn fremur lagt til svohljóðandi ákvæði varðandi almanna- og umferðarrétt: „Almenningi skal tryggður umferðarréttur um land, ár og vötn og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Þeir er fara um landið skulu sýna fyllstu aðgát og ganga vel um þannig að náttúru landsins og auðlindum sé ekki spillt.“
    Þá hefur Herdís Þorvaldsdóttir leikkona lagt til ákvæði um að óheimilt sé að ganga á gróður landsins með rányrkju, lausagöngu búfjár og tínslu á villtum blómjurtum til iðnaðar.
    Þá hefur áður verið getið tillögu BSRB og fleiri samtaka um vatn fyrir alla.

12.3. Umræður í nefndinni
    Hugsanlegt ákvæði um umhverfisvernd var meðal þess sem tekið var til skoðunar í einum af þremur vinnuhópum sem stjórnarskrárnefnd setti á laggirnar. Þar var fjallað um reynslu af nýlegum norskum og finnskum stjórnarskrárákvæðum um þetta efni.
    Hvað varðar efni hugsanlegs stjórnarskrárákvæðis um umhverfismál í íslensku stjórnarskránni var bent á þrjá meginþætti sem eðlilegt væri að taka tillit til. Í fyrsta lagi þátttökuréttindin, þ.e. um rétt manna til að hafa áhrif á ákvarðanir sem varða umhverfið, í öðru lagi sjálfbæra þróun og í þriðja lagi tilvísun til líffræðilegrar fjölbreytni. Í þessu sambandi væri hugtakið „sjálfbær þróun“ nokkurs konar yfirhugtak sem rétt væri að telja fyrst sem meginmarkið en á eftir kæmu hin tvö. Síðan yrði inntak hugtakanna, sem er mjög víðtækt, skýrt nánar í greinargerð. Þá var lögð áhersla á að framsetning umhverfisákvæðis hlyti að felast í því að lýsa yfir þessum markmiðum en jafnframt yrði tilgreint í stjórnarskrárákvæðinu að nánar skyldi mælt fyrir um þessi efni í lögum. Eftir sem áður hefði löggjafinn því svigrúm til þess að ákveða hvaða leiðir skuli fara til þess að ná þessum markmiðum. Þannig myndi stjórnarskrárákvæðið ekki búa til sjálfstæðar efnisreglur en þó gera dómstólum kleift að meta t.d. hvort stjórnvaldsákvarðanir eða löggjöf fari bersýnilega gegn þessum grundvallarmarkmiðum.
    Þegar niðurstaða vinnuhópsins var rædd í stjórnarskrárnefnd kom fram til viðbótar tillaga um að í nýju stjórnarskrárákvæði yrði vísað í meginreglur Ríó-yfirlýsingarinnar.

13. Eignarhald á auðlindum, meðferð þeirra og nýting
13.1. Inngangur
    Ekki er neitt ákvæði um eignarhald á auðlindum, meðferð þeirra og nýtingu í núgildandi stjórnarskrá ef frá er talið ákvæði 40. gr. um að ekki megi selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.

13.2. Ýmsar tillögur
    Í skýrslu sinni frá árinu 2000 lagði auðlindanefnd til að tekið yrði upp nýtt ákvæði í VII. kafla stjórnarskrárinnar þar sem náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti yrðu lýstar þjóðareign. Var tillagan svohljóðandi:

             Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.
             Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.
             Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.

    Stjórnarskrárnefnd hafa ekki borist margar tillögur um þetta efni. Þó hefur Samband ungra sjálfstæðismanna mótmælt hugmyndum um að lýsa yfir sameign á auðlindum. Hugtakið „sameign þjóðarinnar“ sé marklaust í eignarréttarlegum skilningi. Hið íslenska félag áhugamanna um stjórnskipan leggst einnig gegn slíku ákvæði og segir að sameignarskipulag hafi ekki reynst vel. Þá hefur stjórn Samtaka eigenda sjávarjarða farið fram á að við umfjöllun stjórnarskrárnefndar um eignarrétt virði hún rétt eigenda sjávarjarða meðal annars innan netlaga.

13.3. Umræður í nefndinni
    Sérstakur vinnuhópur fjallaði um þetta efni ásamt öðru, sbr. inngangskafla.
    Umræður um þetta efni hafa byggst á starfi auðlindanefndar en jafnframt hefur verið minnt á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segi að binda skuli í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar.
    Þegar tillaga auðlindanefndar var rædd í stjórnarskrárnefnd kom fram það sjónarmið að taka þyrfti fram berum orðum að villtir fiskistofnar væru sameign þjóðarinnar. Í umræðum í nefndinni komu einnig fram mismunandi sjónarmið um það hvort tillaga auðlindanefndar fæli í sér breytingar eða staðfestingu á núverandi ástandi. Einnig var kallað eftir því í umræðum að gerð yrði úttekt á því hvaða lögfræðilegu- og hagfræðilegu álitamál kynnu að rísa í kjölfar samþykktar slíks ákvæðis. Þá þyrfti að liggja betur fyrir hvað fælist í óbeinum eignarréttindum, til dæmis varðandi fiskveiðiheimildir. Aðrir hafa sagt að ekki sé þörf á viðbótarálitsgerðum og ekki ætti að vera torvelt að ná samkomulagi um ákvæði af þessu tagi. Það mætti þó slípa ákvæðið til. Þannig komu fram athugasemdir við að samkvæmt tillögu auðlindanefndar væri skylt í öllum tilfellum að innheimta gjald vegna afnota af auðlindum í þjóðareigu.

14. Annað
14.1. Inngangur
    Stjórnarskrárnefnd hafa borist ýmsar tillögur sem ekki verða beint felldar í ofangreinda flokka. Verða þær nú reifaðar og greint frá viðbrögðum stjórnarskrárnefndar að svo miklu leyti sem þau liggja fyrir.

14.2. Ýmsar tillögur
    Samtök herstöðvaandstæðinga leggja til að það verði bundið í stjórnarskrá að Ísland og íslensk lögsaga verði friðlýst fyrir kjarnorku-, efna- og sýklavopnum eða öðrum þeim vopnum sem flokka má sem gereyðingarvopn.
    Lýðræðishópurinn gerir tillögur um aukið gegnsæi í lýðræðislegu samfélagi: Með lögum skuli tryggja rétt almennra borgara til upplýsinga um áform, ákvarðanir, samninga og framkvæmdir lögaðila um mál er varða almannahag. Þá verði stjórnmálaflokkum, sem boða til Alþingiskosninga, skylt að lögum að gera grein fyrir fjármögnun sinni, lögum og stefnuskrá. Fjölmiðlum verði skylt að lögum að gera grein fyrir fjármögnun sinni, eigendum og ritstjórnarstefnu.
    Skýrslutæknifélag Íslands gerir tillögu um skylt verði að birta lög og reglur með rafrænum hætti.
    Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt telur að hugtakið lífsgæði og skilgreining þess eigi heima sem réttur sem sé varinn í stjórnarskránni við hlið ákvæðis eins og eignarréttar. Vísar hann meðal annars til þess að á sviði umhverfis-, heilbrigðis- og menntamála hafi verið sett lög sem tryggja eiga lífsgæði manna og góð lífsskilyrði.

14.3. Umræður í nefndinni
    Ekki er samstaða um það í nefndinni að þörf sé á því að binda í stjórnarskrá að Ísland sé kjarnorkuvopna-, efna- eða sýklavopnalaust.
    Varðandi rétt almennings til aðgangs að upplýsingum hjá stjórnvöldum þá hefur verið minnt á að í gildi séu upplýsingalög, nr. 50/1996, sem veiti slíkan rétt.
    Þá hafa nýverið verið sett lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, sbr. l. nr. 162/2006.
    Til meðferðar á Alþingi er einnig frumvarp menntamálaráðherra um breytingar á útvarpslögum, prentlögum og samkeppnislögum þar sem fylgt er eftir tillögum í skýrslu fjölmiðlanefndar er lúta meðal annars að eignarhaldi fjölmiðla, fjármögnun og ritstjórnarlegu sjálfstæði. Er því ekki þörf á þessu stigi að fjalla nánar um málið á vettvangi stjórnarskrárnefndar.

15. Lokaorð
    Hér hefur verið gefið yfirlit yfir helstu álitaefni sem komið hafa til umræðu í störfum stjórnarskrárnefndar undanfarin tvö ár. Er það von nefndarinnar að með því sé unnt að byrja að þrengja hringinn um þær stjórnarskrárbreytingar sem hægt sé að ná samstöðu um á næsta kjörtímabili. Vill nefndin þakka þeim fjölmörgu einstaklingum og félagasamtökum sem hafa sýnt starfi hennar áhuga. Jafnframt er lögð áhersla á að þegar tillögur fara að taka á sig formlegri mynd þá verði almenningi gefinn kostur á að leggja orð í belg að nýju. Markmiðið hlýtur að vera að stjórnarskráin endurspegli sem best þjóðarvilja en skapi um leið hæfilega umgjörð um blómlegt mannlíf þar sem virðing er borin fyrir mannréttindum og hóflega farið með ríkisvald í þágu lands og þjóðar.

VIÐAUKI 1


Fundargerðir stjórnarskrárnefndar og vinnuhópa


Fundargerð 1. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík hinn 24. janúar 2005 klukkan 10 árdegis. Mætt voru Birgir Ármannsson, Guðjón A. Kristjánsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Kristjánsson, Steingrímur J. Sigfússon og Þorsteinn Pálsson. Aðrir nefndarmenn, þau Geir H. Haarde, Jónína Bjartmarz og Össur Skarphéðinsson höfðu boðað forföll.
    Formaður nefndarinnar, Jón Kristjánsson, bauð nefndarmenn velkomna. Kvað hann enga formlega dagskrá liggja fyrir fundinum og lagði til að þessi fyrsti fundur nefndarinnar yrði notaður til að skiptast á skoðunum um fyrirhugað starf hennar. Hann gat þess að sérfræðinganefnd undir forsæti Eiríks Tómassonar prófessors myndi starfa náið með nefndinni. Þá bauð hann velkominn til starfa Pál Þórhallsson lögfræðing í forsætisráðuneytinu sem yrði ritari stjórnarskrárnefndar og sérfræðinganefndarinnar. Jörundur Valtýsson, deildarstjóri í forsætisráðuneytinu, yrði einnig nefndinni innan handar eftir þörfum.

2. Hlutverk nefndarinnar
    Formaðurinn vakti máls á hlutverki nefndarinnar, sem samkvæmt erindisbréfi væri vítt. Leiðarljósið hlyti að vera sú spurning hvers konar stjórnarskrá hæfði best opnu lýðræðissamfélagi. Fyrstu vikur og mánuðir myndu fara í upplýsingaöflun með hjálp sérfræðinganefndarinnar. Síðan væri hægt að þrengja hringinn um helstu áhersluatriði í endurskoðunarvinnunni. Ástæðan fyrir því að tilteknir kaflar stjórnarskrárinnar væru nefndir sérstaklega í erindisbréfinu hlyti að vera sú meðal annars að aðrir kaflar hefðu nýlega verið endurskoðaðir. Eins yrði heildarendurskoðun auðvitað afar mikið verk. Þá lagði formaðurinn áherslu á að nefndin nálgaðist verk sitt án tillits til einstakra atburða eða einstaklinga. Nefndarmenn lýstu ánægju með orð formannsins og tóku undir að gengið yrði til verks með opnum huga. Fram komu þó athugasemdir við að ekki skyldi haft meira samráð milli flokkanna áður en skipunarbréfið var sent út og eins við tímarammann sem nefndinni væri settur.

3. Kynningarstarf
    Formaðurinn minnti á að nefndin ætti að hafa það að leiðarljósi að starfa fyrir opnum tjöldum og gefa almenningi kost á að leggja orð í belg. Til stæði að opna heimasíðu og óskaði hann eftir frekari hugmyndum frá nefndarmönnum um það hvernig best væri að standa að kynningarmálum. Nefndarmenn tóku undir að nauðsynlegt væri að stuðla að víðtækri og upplýstri umræðu í þjóðfélaginu um stjórnarskrána og endurskoðun hennar. Rætt var um að efna á einhverju stigi til funda víðs vegar um land til að kynna hugmyndir nefndarinnar. Þá kom fram sú hugmynd að efna á einhverju stigi til stjórnlagaþings.

4. Samskipti við sérfræðinganefndina – gagnaöflun
    Nokkur umræða spannst um hlutverk sérfræðinganefndarinnar. Fram kom að æskilegt væri að sú nefnd aflaði upplýsinga um nýlegar breytingar á stjórnarskrám í vestrænum ríkjum. Var Finnland nefnt í því sambandi, bæði varðandi efnislegar breytingar og það hvernig endurskoðunarvinnan var skipulögð. Þá var nefnt að gott væri að fá greiningu á mismunandi stjórnskipunarfyrirkomulagi í vestrænum lýðræðisríkjum, t.d. varðandi mun á þingbundinni og óþingbundinni stjórn, þær leiðir sem farnar eru til að tryggja jafnvægi milli ólíkra valdastofnana, stöðu forseta þjóðþinga og stöðu þjóðhöfðingja. Einnig væri gott að fá upplýsingar um hvaða mismunandi leiðir væru farnar við uppbyggingu stjórnarskráa. Í þessu sambandi var einnig óskað eftir því að fá frá sérfræðinganefndinni yfirlit yfir þróun stjórnskipunarhugmynda síðari áratugi og hvaða nýjungar væru þar helst á ferð. Þá var einnig nefnt að biðja þyrfti sérfræðinganefndina um að taka saman yfirlit yfir fyrri tilraunir til að breyta stjórnarskránni. Almennt var lögð áhersla á að innlegg sérfræðinganefndarinnar yrði auðskilið fyrir leikmenn svo það mætti nýtast sem best nefndinni og öllum almenningi.
    Var ákveðið að fá sérfræðinganefndina á næsta fund til að ræða þessi mál.

5. Fundargerðir
    Formaðurinn lagði til að fundargerðir nefndarinnar yrðu birtar á heimasíðu nefndarinnar svo almenningur gæti betur fylgst með störfum hennar. Kæmu þar fram þau mál sem tekin hefðu verið fyrir og helstu sjónarmið reifuð án þess að eigna þau nafngreindum nefndarmönnum. Mismunandi viðhorf komu fram um hversu rækilegar fundargerðirnar ættu að vera. Var formanni falið að útfæra þetta nánar með ritara nefndarinnar. Drög að fundargerð yrðu send út nokkru fyrir næsta fund þar sem færi gæfist á að gera athugasemdir við þau.

6. Næsti fundur
    Ákveðið var að næsti fundur yrði haldinn 14. febrúar 2005 kl. 10 árdegis í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Var ritara falið að gera fyrir þann fund drög að vinnuáætlun fyrir nefndina og yrði umræða um þau aðalefni fundarins.
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 11.15.

Fundargerð 2. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík hinn 14. febrúar 2005 klukkan 9 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Geir H. Haarde, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir boðaði forföll. Þá var einnig mætt sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Páll Þórhallsson skráði fundargerð.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar. Var hún samþykkt með einni lítilsháttar breytingu. Þá var ákveðið að tillögu formanns að samþykktar fundargerðir stjórnarskrárnefndar yrðu framvegis birtar á heimasíðu nefndarinnar.
    Fram kom ósk um að fundargerðir sérfræðinganefndarinnar yrðu lagðar fyrir stjórnarskrárnefnd. Einnig var rætt um hvort akkur væri í því að þær fundargerðir yrðu birtar á heimasíðu stjórnarskrárnefndar. Var formönnum nefndanna falið að skoða það atriði fyrir næsta fund.

2. Verkaskipting milli stjórnarskrárnefndar og sérfræðinganefndar
    Formaður bað Eirík Tómasson, formann sérfræðinganefndarinnar, að gera grein fyrir starfi nefndarinnar fram til þessa. Eiríkur kvað sérfræðinganefndina hafa hist fjórum sinnum. Væri hún byrjuð að afla gagna bæði innanlands og utan. Þá útskýrði hann þær greinargerðir sem sérfræðinganefndin væri reiðubúin að vinna í samræmi við drög að vinnuáætlun stjórnarskrárnefndar. Jafnframt greindi Eiríkur frá því að sérfræðinganefndin hefði rætt þá hugmynd að halda tvo sérfræðilega fundi á árinu 2005, þann fyrri um hlutverk forseta í lýðveldum og þingræði en hinn síðari um þjóðaratkvæðagreiðslur með þátttöku erlendra sérfræðinga. Kvað Eiríkur nefndina ætla að það væri svo fremur hlutverk stjórnarskrárnefndar að halda almennari ráðstefnur.
    Formaður óskaði því næst eftir athugasemdum frá stjórnarskrárnefndarmönnum við orð Eiríks. Varðandi þær greinargerðir sem sérfræðinganefndinni verður falið að vinna kom fram stuðningur við þá hugmynd að teknar yrðu saman skýringar við núgildandi stjórnarská. Þá var óskað eftir því að kannaðar yrðu mismundi leiðir sem farnar hefðu verið við uppbyggingu og framsetningu stjórnarskrártexta. Einnig var ítrekað það sem nefnt var á fyrsta fundi nefndarinnar að fram færi greining á mismunandi stjórnskipunarfyrirkomulagi í lýðræðisríkjum. Þá var nefnt að ekki mætti gleymast að líta á V. kafla stjórnarskrárinnar um dómsvaldið. Loks var óskað eftir því að sérfræðinganefndin gerði úttekt á mismunandi aðferðum við stjórnarskrárbreytingar.
    Varðandi ráðstefnuhald lögðu nefndarmenn almennt áherslu á að það yrði sameiginlegt verkefni nefndanna beggja. Var talið æskilegt að byrja á almennri ráðstefnu en þrengja síðar nálgunina. Á slíkri almennri ráðstefnu yrði kallað eftir þeim hugmyndum sem væru úti í þjóðfélaginu um stjórnarskrárbreytingar. Mætti til dæmis líta til reynslu Dana af slíku málþingi sem haldið var fyrir nokkrum árum.
    Nefnt var að það kynni að vera vænleg nálgun í endurskoðunarvinnunni að athuga fyrst um hvaða breytingar menn gætu orðið sammála áður en tekið yrði til við að ræða stór ágreiningsmál. Tóku menn dæmi af ákvæðum stjórnarskrár um Landsdóm og setningu bráðabirgðalaga.
    Formanni var falið að útfæra nánar hugmyndir um ráðstefnuhald í samráði við sérfræðinganefndina og leggja tillögur þar að lútandi fyrir næsta fund.

3. Vinnuáætlun
    Stutt umræða varð um drög að vinnuáætlun nefndarinnar en vegna tímaskorts var ákveðið að fresta afgreiðslu hennar til næsta fundar.

4. Önnur mál
    Engin önnur mál voru rædd.

5. Næsti fundur
    Næsti fundur var ákveðinn mánudaginn 14. mars 2005 kl. 9–11. Ritari myndi senda út fundarboð í tæka tíð ásamt dagskrá.
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 11.

Fundargerð 3. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík hinn 14. mars 2005 klukkan 9 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Geir H. Haarde, Guðjón A. Kristjánsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Steingrímur J. Sigfússon og Þorsteinn Pálsson. Össur Skarphéðinsson boðaði forföll. Þá var einnig mætt sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram og samþykkt fundargerð síðasta fundar.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Eftirfarandi erindi sem borist hafa nefndinni voru lögð fram: Beiðni frá ríkisstjórninni um að stjórnarskrárnefnd taki skýrslu norrænu lýðræðisnefndarinnar til skoðunar, erindi frá Íslenskri málnefnd um íslensku sem ríkismál og erindi frá Félagi heyrnarlausra um íslenskt táknmál.

3. Vinnuáætlun
    Endurskoðuð drög að vinnuáætlun voru samþykkt með lítilsháttar breytingum. Fram kom ósk um að áður en haldin yrði almenn ráðstefna yrðu greinargerðir sérfræðinganefndarinnar kynntar stjórnarskrárnefnd á eins konar „seminari“.
    Ennfremur kom fram það viðhorf að stjórnarskrárnefndin gæti notað tímann fram á sumar til þess að byrja að ræða efnislega einstök ákvæði stjórnarskrárinnar.

4. Undirbúningur ráðstefnu
    Rætt var um fyrirhugað ráðstefnuhald. Heppilegast var talið að halda almenna ráðstefnu fyrri hluta júnímánaðar í Reykjavík. Ýmsir nefndarmenn guldu varhug við því að afmarka um of fyrirfram hvaða spurningar ætti að ræða á ráðstefnunni, slíkt gæti gefið ranglega til kynna að búið væri að ákveða að hvaða atriðum endurskoðunin ætti að beinast. Á hinn bóginn kom fram það sjónarmið að listi yfir hugsanleg umræðuefni myndi hjálpa til við að gera ráðstefnuna markvissari.
    Formanni var falið að leggja drög að dagskrá ráðstefnunnar fyrir næsta fund.
    Því var einnig beint til ritara nefndarinnar að taka saman póstlista yfir þá aðila sem gera ætti viðvart um helstu viðburði í endurskoðunarstarfinu, þ. á m. fyrirhugaða ráðstefnu.

5. Kynningarstarf: upplýsingamiðstöð og heimasíða
    Ritari nefndarinnar kynnti heimasíðu nefndarinnar, stjornarskra.is, sem hleypt var af stokkunum á dögunum. Nokkur umræða spannst um hvernig ætti að meðhöndla bréf sem nefndinni berast. Var ákveðið að birta að meginstefnu öll nafngreind erindi og bréf sem berast nema þau færu í bága við lög og almennt velsæmi enda væri um að ræða innlegg í opinbera umræðu. Ritari nefndarinnar gæti borið vafamál undir nefndina ef einhver væru. Þá var honum falið að setja saman leiðbeiningar til almennings varðandi erindi og bréf til nefndarinnar sem birtar yrðu á heimasíðunni. Jafnframt var ákveðið að halda aðgreindum á heimasíðunni erindum frá félagasamtökum og stofnunum annars vegar og bréfum frá einstaklingum hins vegar.
    Fram komu fleiri ábendingar um heimasíðuna, eins og um þörfina á lista yfir allt það ítarefni sem nefndirnar viðuðu að sér. Eftir föngum ætti einnig að setja inn á heimasíðuna þau gögn sem til væru á rafrænu formi og gera hana að eins konar gagnabanka um endurskoðunarstarfið.
    Samþykkt var að tillögu formanns að boða til fréttamannafundar síðar í sömu viku til að kynna nýsamþykkta vinnuáætlun og upplýsingabás um endurskoðun stjórnarskrárinnar í Þjóðarbókhlöðunni.

6. Næsti fundur
    Næstu fundir voru ákveðnir miðvikudaginn 30. mars 2005 kl. 9–11 og mánudaginn 25. apríl í Þjóðmenningarhúsinu. Ritari myndi senda út fundarboð í tæka tíð ásamt dagskrá.
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 11.

Fundargerð 4. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík hinn 11. apríl 2005 klukkan 9 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Kristjánsson (formaður), Steingrímur J. Sigfússon og Þorsteinn Pálsson. Aðrir voru forfallaðir. Þá var einnig mætt sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Formaður baðst velvirðingar á því að fresta hafði orðið fundinum sem áformaður var 30. mars s.l. Þá nefndi hann blaðamannafund sem haldinn var 17. mars s.l. í Þjóðarbókhlöðunni þar sem vinnuáætlun var kynnt og upplýsingabás opnaður. Hefði þessi kynning heppnast í alla staði vel.
    Lögð var fram og samþykkt fundargerð síðasta fundar.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Lögð voru fram og rædd erindi sem hafa borist nefndinni frá Þjóðarhreyfingunni og Siðmennt sem og bréf frá nokkrum einstaklingum.

3. Undirbúningur ráðstefnu
    Formaður lagði fram drög að dagskrá ráðstefnu sem haldin yrði 11. júní nk. ásamt drögum að bréfi til almennra félagasamtaka þar sem leitast yrði eftir virkri þátttöku af þeirra hálfu. Yfirskrift ráðstefnunnar yrði „Stjórnarskrá til framtíðar“ og að loknum almennum inngangserindum yrðu þrjár málstofur um: lýðræði, þrískiptingu ríkisvalds og Ísland í alþjóðlegu umhverfi. Almennum félagasamtökum yrði boðið að senda inn hugmyndir og tillögur fyrir 15. maí 2005 og ósk um það í hvaða málstofu á ráðstefnunni þau myndu vilja fá orðið. Ekki yrði gengið endanlega frá dagskrá af hálfu formanns fyrr en sá frestur væri liðinn.
    Nefndarmenn lýstu ánægju með dagskrárdrögin. Var því beint til ritara að auk bréfs til félagasamtaka þar sem ráðstefnan væri kynnt þyrfti að birta auglýsingu í dagblöðum.
    Þá voru nefndarmenn minntir á að láta ritara vita í hvaða málstofum þeir vildu sitja í pallborði þar sem þeim gæfist færi á að bregðast við hugmyndum félagasamtaka.

4. Skoðanaskipti um einstök ákvæði stjórnarskrárinnar
    Ekki vannst tími til að ræða þennan lið. Fram kom það sjónarmið að þörf væri á að ræða fljótlega hvaða form menn sæju fyrir sér á endurskoðaðri stjórnarskrá, hvort hún ætti að vera gagnorð eða í lengra lagi og eins hvernig hún ætti að vera uppbyggð. Var ákveðið að stefna að því að taka frá heilan dag, þ.e. 1. júní 2005, til að hefja hina efnislegu umræðu.

5. Önnur mál
    Eiríkur Tómasson rakti starf sérfræðinganefndarinnar frá síðasta fundi. Unnið væri að þeim greinargerðum sem ákveðnar hefðu verið í vinnuáætlun stjórnarskrárnefndar. Þá hefði nefndin átt gagnlegar viðræður við Veli-Pekka Viljanen, prófessor við lagadeild Háskólans í Turku, en hann flutti erindi á ráðstefnu um mannréttindakafla stjórnarskrárinnar sem haldin var í Reykjavík 8. apríl s.l. Viljanen var ritari stjórnarskrárnefndarinnar sem undirbjó endurskoðun finnsku stjórnarskrárinnar á árunum 1995–2000.
    Þá kynnti Kristján Andri Stefánsson drög að dagskrá málþings sem Lögfræðingafélagið hyggst efna til 16. september 2005 um þjóðaratkvæðagreiðslur og þátttöku almennings í ákvörðunartöku um opinber málefni. Var samþykkt að stjórnarskrárnefnd myndi verða aðili að málþinginu.

6. Næstu fundir
    Næsti fundur var ákveðinn mánudaginn 25. apríl 2005 kl. 9–11 í Þjóðmenningarhúsinu. Ritari myndi senda út fundarboð í tæka tíð ásamt dagskrá. Þá var ákveðið að halda heils dags fund miðvikudaginn 1. júní 2005.
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 10.30.

Fundargerð 5. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík hinn 25. apríl 2005 klukkan 9 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Geir H. Haarde, Guðjón A. Kristjánsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz og Þorsteinn Pálsson. Aðrir voru forfallaðir. Þá voru einnig mætt úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður) og Gunnar Helgi Kristinsson. Kristján Andri Stefánsson hafði boðað forföll. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram og samþykkt fundargerð síðasta fundar.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Lögð voru fram og rædd erindi sem hafa borist nefndinni frá Merði Árnasyni alþingismanni og Pétri Sigurgeirssyni fyrrverandi biskup.

3. Undirbúningur ráðstefnu
    Ritari gaf yfirlit yfir undirbúning ráðstefnu. Drög að dagskrá ásamt áskorun til félagasamtaka um að senda inn óskir um þátttöku hefðu verið auglýst í dagblöðum. Þá hefði ýmsum félagasamtökum verið sent bréf sama efnis.
    Fram komu athugasemdir við að háskólum skyldi hafa verið sent bréf því þar væri ekki um félagasamtök að ræða. Af hálfu formanns var því svarað til að innan háskólanna gætu verið félög sem áhuga hefðu á þátttöku í ráðstefnuni. Einnig komu fram nokkrar uppástungur um fleiri félög sem mætti senda bréf.
    Var ritara falið að senda út fleiri bréf í samræmi við athugasemdir sem fram hefðu komið.
    Þá voru nefndarmenn minntir á að láta ritara vita í hvaða málstofum þeir vildu sitja í pallborði þar sem þeim gæfist færi á að bregðast við hugmyndum félagasamtaka.

4. Skoðanaskipti um einstök ákvæði stjórnarskrárinnar
    Formaður minnti á að ákveðið hefði verið að taka frá heilan dag, 1. júní 2005, fyrir næsta fund til þess að gefa svigrúm fyrir rækilega efnislega umræðu. Lagði hann til að sá fundur hæfist með því að sérfræðinganefndin kynnti sínar greinargerðir. Síðan yrði fundarmönnum gefinn kostur á að viðra hugmyndir sínar um áhersluatriði í endurskoðunarvinnunni.
    Fram kom ósk um að sérfræðinganefndin sendi greinargerðir sínar til stjórnarskrárnefndarmanna í tæka tíð fyrir fundinn þannig að ráðrúm gæfist til að kynna sér efni þeirra.
    Þá var einnig samþykkt að verja tíma á fundinum 1. júní 2005 til að ræða form og uppbyggingu endurskoðaðrar stjórnarskrár.

5. Önnur mál
    Önnur mál voru ekki rædd.

6. Næsti fundur
    Næsti fundur var ákveðinn miðvikudaginn 1. júní 2005 kl. 9–17 í Svartsengi. Ritari myndi senda út fundarboð í tæka tíð ásamt dagskrá.
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 10.15.

Fundargerð 6. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Eldborg við Svartsengi á Suðurnesjum hinn 1. júní 2005 klukkan 9 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Geir H. Haarde, Guðjón A. Kristjánsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Steingrímur J. Sigfússon og Þorsteinn Pálsson. Össur Skarphéðinsson var forfallaður. Þá var einnig mætt sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram og samþykkt fundargerð síðasta fundar.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Lögð voru fram og rædd erindi sem hafa borist nefndinni frá BSRB, Sérnefnd Alþingis um stjórnarskrármál, Samtökunum 78, Öryrkjabandalagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Undirbúningshópi kvenna um stjórnarskrárbreytingar, Sambandi ungra sjálfstæðismanna, Samtökum herstöðvaandstæðinga, Frjálshyggjufélaginu, Hinu íslenska félagi áhugamanna um stjórnskipan, Samtökum um aðskilnað ríkis og kirkju, Heimssýn, Lýðræðishópnum, Barnaheillum, BHM og Halldóri G. Einarssyni.

3. Sérfræðinganefnd kynnir greinargerðir sínar
    Lögð voru fram drög að greinargerðum sérfræðinganefndarinnar: Ágrip af sögu stjórnarskrárinnar, skýringar við einstakar greinar stjórnarskrárinnar og þróun stjórnskipunar í Evrópu frá stríðslokum.
    Drögin voru rædd og gerðar við þau ýmsar athugasemdir, bæði efnislegar og eins um að það þyrfti að koma fram í formála hvers eðlis greinargerðirnar væru. Var sérfræðinganefndinni falið að endurskoða drögin í ljósi þeirra athugasemda sem fram hefðu komið og yrðu þau tekin aftur til umfjöllunar á næsta fundi nefndarinnar.

4. Skoðanaskipti um einstök ákvæði stjórnarskrárinnar – flokkarnir kynna sín stefnumál
    Vegna tímaskorts var þessum lið frestað til næsta fundar. Varð samkomulag um að haga umræðunni þannig að nefndarmenn myndu fyrst kynna hugmyndir sínar í stórum dráttum áður en farið yrði að ræða einstök ákvæði.

5. Form og uppbygging endurskoðaðrar stjórnarskrár
    Rætt var um uppbyggingu endurskoðaðrar stjórnarskrár. Voru ýmsir nefndarmenn því fylgjandi að ef uppröðun kafla yrði breytt þá yrði hún eitthvað á þann veg að í fyrsta kafla yrðu ákvæði um höfuðeinkenni þjóðskipulagsins, í öðrum kafla um grundvallarréttindi, í þriðja kafla um Alþingi, þá um forseta, framkvæmdarvald, dómstóla og loks um ýmis önnur atriði eins og stjórnarskrárbreytingar.
    Varðandi upphafskafla um höfuðeinkenni þjóðskipulagsins kom fram það sjónarmið að þar þyrfti að vera ákvæði um að allt vald væri upprunnið hjá þjóðinni. Einnig að borgararnir ættu allan þann rétt sem ekki væri sérstaklega af þeim tekinn. Mikilvægt væri að stjórnarskráin geymdi skýr ákvæði sem takmörkuðu vald. Forðast ætti almennar stefnuyfirlýsingar með óljósa lagalega merkingu jafnvel þótt menn gætu verið þeim sammála. Ákvæði stjórnarskrár þyrftu að vera skýr þannig að vald til túlkunar væri ekki í of miklum mæli framselt dómstólum. Slíkt gæti raskað jafnvægi milli hinna þriggja þátta ríkisvaldsins. Loks þyrfti að taka á þeim vanda að orðalag stjórnarskrárinnar væri oft fjarri veruleikanum. Úrelt ákvæði mætti fella burt.
    Einnig kom fram kom það viðhorf að mikilvægast væri að lagfæra orðalag þeirra ákvæða sem valdið hefðu ágreiningi.
    Fram kom sú hugmynd að legði nefndin til knappan texta stjórnarskrár þá gætu ítarlegri skýringar fylgt með og jafnvel tillögur um lagasetningu.
    Þá var nefnt það sjónarmið að mikilvægt væri að gera breytingar á kjördæmaskipan í þessari lotu því ella yrði gengið til þingkosninga á núverandi grunni árin 2007 og 2011. Á hinn bóginn var því haldið fram að mikilvægt væri að færast ekki of mikið í fang. Ákaflega erfitt væri og tímafrekt að ná samstöðu um breytingar á kjördæmum.
    Sömuleiðis kom fram stuðningur við það sjónarmið að taka ekki á ákvæðinu um þjóðkirkjuna í þessari lotu.
    Þá var einnig minnst á að mikilvægt væri að breyta núverandi fyrirkomulagi stjórnarskrárbreytinga, til dæmis með því að láta kjósa sérstaklega um slíkar breytingar.
    Formaður lauk umræðunni með því að álykta að breiður stuðningur væri við breytta uppröðun stjórnarskrárinnar á þeim nótum sem rætt hefði verið og var ritara og sérfræðinganefnd falið að skoða það atriði nánar. Þar sem sagan sýndi að tilraunir til heildarendurskoðunar hefðu hingað til runnið út í sandinn gæti reynst þungt í vöfum að taka allt með í þessari lotu eins og til dæmis kjördæmaskipan og aðskilnað ríkis og kirkju. Loks mætti ekki gleymast að stutt væri síðan mannréttindakaflinn var endurskoðaður í ágætu samkomulagi.

6. Undirbúningur ráðstefnu
    Ritari gaf yfirlit yfir undirbúning ráðstefnunnar 11. júní og lögð voru fram endurskoðuð drög að dagskrá. Voru drögin samþykkt athugasemdalaust.

7. Önnur mál
    Ritara var falið að finna hentugan tíma fyrir næsta fund í samráði við nefndarmenn.
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 15.00.

Fundargerð 7. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Eldborg við Svartsengi á Suðurnesjum hinn 24. ágúst 2005 klukkan 9 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Geir H. Haarde, Guðjón A. Kristjánsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Birgir Ármannsson var forfallaður. Þá var einnig mætt sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Eiríkur Tómasson (formaður) var forfallaður. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram og samþykkt fundargerð síðasta fundar.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Lögð voru fram erindi sem hafa borist nefndinni frá Siðmennt, sveitarstjóra Reykhólahrepps, Vantrú, Friðgeir Haraldssyni og Jórunni Sörensen. Þá var lögð fram greinargerð dags. 4. júlí s.l. af fundi sem formaður nefndarinnar átti með fulltrúum Samtaka eigenda sjávarjarða. Ennfremur var dreift 6 frumvörpum til stjórnskipunarlaga um ýmis efni og þingsályktunartillögu um endurskoðun stjórnarskrárinnar sem lagðar voru fram á 131. löggjafarþingi.
    Ennfremur voru lögð fram drög að dagskrá tveggja ráðstefna þar sem óskað er eftir þátttöku stjórnarskrárnefndar. Í fyrsta lagi kynnti Kristján Andri Stefánsson ráðstefnu Lögfræðingafélagsins 16. september n.k. um þjóðaratkvæðagreiðslur og þátttöku almennings í ákvörðunartöku um opinber málefni. Í öðru lagi kynnti Gunnar Helgi Kristinsson ráðstefnu Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála 29. október n.k. um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þátttaka var samþykkt í báðum ráðstefnum. Össur Skarphéðinsson óskaði eftir því að bókað yrði að hann hefði fyrirvara um þátttöku nefndarinnar í fyrrnefndu ráðstefnunni þar sem hann teldi að á henni þyrftu að koma fram fleiri sjónarmið en formanns nefndarinnar sem fjallaði um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2004. Þá taldi einn nefndarmanna að það væri umhugsunarefni að leiða saman fulltrúa flokkanna í lok slíkrar ráðstefnu. Varast bæri að það leiddi til harðari afstöðu manna en ella.
    Formaður beindi því til nefndarmanna að greina skipuleggjendum ráðstefnanna tveggja frá því hverjir yrðu fulltrúar flokkanna.

3. Ráðstefnan 11. júní 2005
    Nefndarmenn skiptust á skoðunum um ráðstefnuna 11. júní s.l. og voru sammála um að vel hefði tekist til.

4. Skoðanaskipti um einstök ákvæði stjórnarskrárinnar
    Formaður hóf umræðu um þennan lið með því að benda á að sumir stjórnmálaflokkanna hefðu sett fram ítarlegar tillögur um breytingar á stjórnarskránni á meðan aðrir hefðu hugsanlega ekki gert upp hug sinn ennþá. Þess vegna myndi hann ekki ganga hart eftir því að allir nefndarmenn tækju afstöðu til tiltekinna atriða. Hins vegar væri brýnt að ákveða hvað ætti að vera undir í endurskoðunarstarfinu. Óskaði hann meðal annars eftir viðhorfum nefndarmanna til þess hvort aðskilnaður ríkis og kirkju, kjördæmaskipan, mannréttindakaflinn og umhverfisverndarákvæði ætti að vera hluti af því sem skoðað yrði nánar.
    Helstu atriði og sjónarmið sem rædd voru undir þessum lið voru eftirfarandi:

Form og uppbygging
    Umræður urðu um hversu mikilvægt form og uppbygging stjórnarskrárinnar væri. Fram kom það viðhorf að bíða mætti með það þangað til á seinustu stigum að ákveða endanlega röð ákvæða. Aðrir töldu hins vegar að þetta væri þýðingarmikið atriði sem vert væri að skoða sem fyrst í ljósi þróunar í öðrum löndum.

Þjóðaratkvæðagreiðslur
    Rætt var um að auka með einhverjum hætti stjórnskipulega möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslu um þýðingarmikil mál. Minnt var á að umfjöllun um þjóðaratkvæðagreiðslur tengdist stöðu og hlutverki forseta vegna málskotsréttar hans.
    Sú hugmynd var reifuð að minnihluti þingmanna, t.d. 25 þingmenn, ættu að geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög. Ólíkt því sem nú er, þar sem forseti hefur valdið til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, yrði þannig til samningsstaða milli meiri- og minnihluta. Í Danmörku væri ennfremur sú skynsamlega regla að fjárlög, skattalög o.fl. væru undanþegin þjóðaratkvæðagreiðslu enda mætti ekki slíta í sundur ábyrgð á að afla tekna og ráðstafa þeim.
    Þá kom fram það viðhorf að setja mætti ákvæði í stjórnarskrá um það með hvaða hætti sveitarstjórnir geti skotið málum til íbúanna.
    Loks mæltu sumir nefndarmenn fyrir því að opnað yrði fyrir svokallað þjóðarfrumkvæði, þ.e. að hluti kjósenda gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál.

Alþingi
    Fram kom það sjónarmið að styrkja þyrfti aðhaldshlutverk Alþingis með stjórnsýslunni. Var minnt á að opinberar yfirlýsingar forystumanna úr ýmsum flokkum bentu til að vilji ætti að vera til að taka á þessu.
    Þá kom fram sú hugmynd að þingrof yrði háð samþykki meirihluta Alþingis.
    Eins var þess getið að ástæða væri til að hafa ákvæði um umboðsmann Alþingis í stjórnarskránni.

Alþingiskosningar
    Fram kom það sjónarmið að vert væri að taka á því að framkvæmd alþingiskosninga væri ekki samræmd eftir kjördæmum.
    Þá var nefnt að það væri álitamál hvort þingmenn ættu sjálfir að úrskurða um hvort þingmenn væru löglega kosnir eins og nú er.

Kjördæmaskipan
    Fram kom það sjónarmið að endurskoða bæri kjördæmaskipan í þessari lotu, ella yrði óbreytt kjördæmaskipan í þingkosningum 2007 og 2011.
    Bent var á að stutt væri síðan gert var víðtækt samkomulag um þetta efni. Festa þyrfti að ríkja um kjördæmamál og ekki væri ráðlegt að breyta þeim með of skömmu millibili. Þó mætti hugsa sér að binda í stjórnarskrá nokkur grundvallaratriði en eftirláta löggjafanum að ákveða kjördæmaskipan
    Ýmsir nefndarmenn tóku undir að þetta gæti verið athyglisverð lausn.

Hlutverk og kosning forseta
    Fram kom það sjónarmið að forseti ætti ekki að ná kjöri nema hann hefði tiltekið hlutfall atkvæða á bak við sig. Þá þyrfti að endurskoða fjölda meðmælenda sem frambjóðendum bæri að skila til þess að geta boðið sig fram til forseta.
    Því viðhorfi var lýst að breytingar á forsetaembættinu ættu að miða að því að skerpa þingræðisregluna. Sumir teldu forseta hafa meiri völd en ákvæði stjórnarskrárinnar mæltu fyrir um vegna þess að hann væri þjóðkjörinn. Burstéð frá réttmæti þessa skilnings gæti hann leitt til árekstra. Hluti framkvæmdarvaldsins væri þá háður þingræðisreglunni en hluti væri það ekki. Ein leið til úrbóta væri sú að draga úr völdum forseta líkt og Svíar hefðu gert varðandi þjóðhöfðingja sinn. Hin leiðin gæti verið sú að auka hlutverk forseta og fela honum til dæmis réttindi og skyldur þingforseta. Þingforseti yrði þannig óháður bæði stjórn og stjórnarandstöðu sem gæti aukið jafnvægið milli fylkinga á þingi. Forsetinn fengi þannig veigamikið hlutverk án þess að blandast í hefðbundin pólitísk átök.
    Í þessu sambandi kom fram að gera mætti kröfu um að forseti hefði meirihluta kjósenda á bak við sig þannig að efnt yrði til tveggja umferða ef enginn næði hreinum meirihluta í fyrstu umferð. Þá mætti gjarnan lengja kjörtímabilið í 5–7 ár en kveða jafnframt á um að hann sæti ekki lengur en í tvö kjörtímabil. Þá þyrfti að endurskoða reglur um meðmælendur, til dæmis þannig að forsetaframbjóðandi þyrfti meðmæli 5–10 þingmanna. Ennfremur væri óþarft að starfandi forseti þyrfti meðmælendur til að bjóða sig fram til endurkjörs.
    Nokkrar umræður sköpuðust um þessar hugmyndir. Þótt nefndin væri á þessu stigi að reyna að afmarka viðfangsefnið væri of snemmt að útiloka grundvallarbreytingar. Fram kom það viðhorf að endurskoðunin væri þegar nógu vandasöm þótt ekki yrði seilst svona langt. Í öllu falli þarfnaðist breyting af þessu tagi mjög rækilegrar umræðu í þjóðfélaginu.

Ríkisstjórn – ráðherrar
    Nokkur umræða skapaðist um þá tillögu sem lögð hefur verið fram á Alþingi að ráðherrar gegndu ekki jafnframt þingmennsku. Sumir nefndarmenn lýstu sig mótfallna þeirri hugmynd. Vissulega gætu skapast vandamál í litlum þingflokkum sem ættu aðild að ríkisstjórn en þau ætti að vera hægt að leysa. Slíkt fyrirkomulag breytti heldur engu um aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Þá hefði þessi hugmynd ýmsa ókosti, meðal annars myndi hún leiða til aukins kostnaðar.

Útgáfa bráðabirgðalaga
    Fram kom það viðhorf að rétt væri að þrengja enn frekar heimild til útgáfu bráðabirgðalaga. Í því sambandi var minnt á að reynslan kenndi að mjög gagnlegt gæti verið að hafa heimild til útgáfu bráðabirgðalaga, sbr. haustið 2001 þegar slík lög voru sett um ríkisábyrgð á tryggingum flugflotans enda þoldi málið enga bið. Þá var nefnt að það væri grundvallaratriði hvort dómstólar ættu að endurskoða mat löggjafans á nauðsyn setningar bráðabirgðalaga.

Dómstólar
    Fram kom það sjónarmið að eðlilegt væri að í stjórnarskrá væri ákvæði um val á hæstaréttardómurum líkt og þar væri ákvæði um val á öðrum meginhandhöfum ríkisvalds.
    Þá var einnig nefnt að æskilegt gæti verið að hægt væri að afla fyrirframúrskurðar Hæstaréttar um stjórnskipulegt gildi laga. Um þetta væri oft deilt en engin greið leið að fá úr því skorið.
    Einnig var stungið upp á því að kveðið yrði á um sjálfstæði ákæruvaldsins í kaflanum um dómstóla.

Umhverfisverndarákvæði/eignarhald á auðlindum
    Fram komu ólík viðhorf til þess hvort setja ætti ákvæði um umhverfisvernd í stjórnarskrá. Það sjónarmið kom fram að ekki hefði verið nægileg umræða í þjóðfélaginu um slíkt ákvæði til þess að það réttlætti að slíkt skref yrði stigið. Aðrir minntu á að í flestum nýlegum stjórnarskrám væru ákvæði í þessa veru.
    Minnt var á að í stjórnarsáttmála væri gert ráð fyrir að í stjórnarskrá yrði sett ákvæði um sameign þjóðarinnar á fiskimiðunum. Eins styddu stjórnarandstöðuflokkarnir slíkar hugmyndir. Það yrði því að gera alvarlega atlögu að því að ná saman um slíkt ákvæði. Minnt var á starf auðlindanefndar í þessu sambandi. Fram komu athugasemdir við þessi áform. Það þyrfti að ræða hvort sömu reglur ættu að eiga við um allar náttúruauðlindir, sem væri ekki einfalt í ljósi þess til dæmis að jarðhitaréttindi fylgdu landi. Ef fiskimiðin yrðu tekin út úr og sérákvæði sett um þau þá væri um mismunun að ræða á vettvangi stjórnarskrárinnar sem erfitt væri að sætta sig við. Eins þyrfti að ræða áhrif slíks ákvæðis á hugsanlega aðild að ESB þar sem gilti sameiginleg yfirþjóðleg eign á fiskmiðum utan 12 mílna.

Aðskilnaður ríkis og kirkju
    Fram kom andstaða við efnislegar breytingar á sambandi ríkis og kirkju þótt ef til vill mætti hugsa sér einhverjar formbreytingar. Þá var minnt á að stjórnarskráin gerði ráð fyrir sérstöku ferli við breytingar á kirkjuskipan, þ.e. henni mætti breyta með almennum lögum enda færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla til samþykktar eða synjunar.
    Á hinn bóginn komu fram viðhorf í þá veru að skilja bæri milli ríkis og kirkju og að tekið yrði á því í þessari lotu.

Mannréttindakaflinn
    Minnt var á að mannréttindakaflinn hefði verið endurskoðaður frá grunni fyrir 10 árum og því ætti ekki að vera ástæða til að gera miklar breytingar á honum.
    Fram kom áhugi á að í kaflanum yrði sérstaklega vísað til alþjóðasáttmála.

Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana
    Ýmsir nefndarmenn kváðust fylgjandi því að ákvæði yrði sett í stjórnarskrá um málsmeðferð þegar taka bæri ákvörðun um aðild að alþjóðastofnunum. Þar mætti til dæmis hugsa sér að kveða á um að slík ákvörðun þyrfti samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu enda hefði verið tiltekin lágmarksþátttaka.

Stjórnarskrárbreytingar
    Fram kom það sjónarmið að bera ætti stjórnarskrárbreytingar sérstaklega undir þjóðina. Þannig gætu kjósendur, ólíkt því sem nú er, tekið beina afstöðu til stjórnarskrárbreytinga.

* * *

    Formaður dró umræðuna saman í lokin. Flestir virtust á því að halda bæri sambandi ríkis og kirkju utan við endurskoðunarstarfið nú, enda gerði stjórnarskráin ráð fyrir sérstöku ferli til breytinga á því. Þá hefði komið fram breiður stuðningur við endurbætur á dómstólakaflanum og í því sambandi að umboðsmanns Alþingis og sjálfstæðs ákæruvalds yrði getið í stjórnarskránni. Hlutverk og samspil forseta, Alþingis og ríkisstjórnar yrði áfram þungamiðjan í endurskoðunarstarfinu. Eins myndi nefndin skoða mjög gaumgæfilega hvort gefa ætti aukin færi á þjóðaratkvæðagreiðslu um þýðingarmikil mál og vísaði formaðurinn til þess að ákveðið hefði verið að taka þátt í tveimur ráðstefnum um það efni. Eins væri breiður stuðningur við að taka upp ákvæði um að auðlindir væru sameign þjóðarinnar þótt einstaka nefndarmenn hefðu enn efasemdir um að það væri skynsamlegt.
    Samþykkt var að sérfræðinganefndinni yrði falið að kanna sérstaklega útfærslu á ákvæði um eignarhald á auðlindum og eins hvernig efla mætti eftirlitshlutverk Alþingis. Þá væri óskað eftir því að sérfræðingarnir könnuðu hvernig koma mætti við eftirliti með því að lagafrumvörp stríddu ekki gegn stjórnarskrá. Þá var minnt á að sérfræðinganefndinni hefði þegar verið falið að huga að formi og uppbyggingu endurskoðaðrar stjórnarskrár. Vert væri að í því sambandi kæmi fram hvaða ákvæði þyrfti að uppfæra vegna þess að þau væri úrelt án þess að það kallaði á mikla pólitíska umræðu. Þá gæti sérfræðinganefndin einnig byrjað að stilla upp endurskoðuðum I. kafla þar sem kæmu fram helstu grundvallaratriðin í stjórnskipun ríkisins og V. kafla um dómsvaldið.
    Ritara og sérfræðinganefnd var að lokum í samræmi við vinnuáætlun falið að útbúa fyrir næsta fund drög að áfangaskýrslu þar sem rakin yrðu þau erindi sem borist hefðu og dregin saman helstu viðhorf innan nefndarinnar á þessu stigi. Áfangaskýrslunni myndu fylgja greinagerðir sérfræðinganefndarinnar sem kynntar voru á síðasta fundi.

5. Önnur mál
    Heimasíða stjórnarskrárnefndar var gerð að umtalsefni og hvatt til þess að efni yrði aukið við hana. Var ritara falið að huga sérstaklega að þessu.
    Fleira var ekki rætt. Næsti fundur ákveðinn að morgni mánudagsins 26. september n.k.

Fundargerð 8. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 26. september 2005 klukkan 9 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson. Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jónína Bjartmarz og Þorsteinn Pálsson voru forfölluð. Þá var einnig mætt sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Formaður útskýrði að þessi fundur yrði venju fremur stuttur vegna forfalla. Þó hefði verið talið mikilvægt að halda fundinn til að dreifa gögnum sem sérfræðinganefndin hefði unnið að.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar. Nokkrar athugasemdir voru gerðar við hana og var afgreiðslu hennar frestað til næsta fundar.
    Þá var ítrekuð ósk um að nefndin fengi fundargerðir sérfræðinganefndarinnar í hendur og var ritara falið að sjá til þess að þær yrðu lagðar fram á næsta fundi.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Lagt var fram erindi til nefndarinnar frá samtökunum Landvernd.

3. Drög að áfangaskýrslu
    Ritari kynnti drög að áfangaskýrslu og minnti á að ætlunin væri að gefa hana út með haustinu ásamt greinargerðum sérfræðinganefndarinnar. Ábendingar komu meðal annars fram um að ræða þyrfti betur ýmsar af þeim bráðabirgðaniðurstöðum sem settar væru fram í drögunum. Var umræðu frestað til næsta fundar og nefndarmenn beðnir um að koma skriflegum athugasemdum á framfæri við ritara í tæka tíð fyrir næsta fund.
    Þá óskaði einn nefndarmanna eftir því að við greinargerð sérfræðinganefndarinnar um stjórnskipunarþróun í Evrópu yrði bætt umfjöllun um stöðu forsetaembættisins í stjórnarskrám í Evrópu, einkum þeim löndum sem nýlega hefðu fengið fullt sjálfstæði í Mið- og Austur-Evrópu. Einnig óskaði hann eftir því að tekið yrði saman efni um beint lýðræði í Bandaríkjunum. Var ritara og sérfræðinganefndinni falið að huga að þessu.

4. Efnisleg umræða um einstök stjórnarskrárákvæði
    Formaður sérfræðinganefndarinnar kynnti frumdrög að endurskoðuðum I. kafla stjórnarskrárinnar um stjórnarform og grundvöll stjórnskipunarinnar. Voru drögin rædd lauslega en umræðu síðan frestað til næsta fundar.

5. Önnur mál
    Einn fundarmanna spurðist fyrir um áform sem rædd hefðu verið í upphafi nefndarstarfsins um að halda ráðstefnu um hlutverk og stöðu forseta í alþjóðlegum samanburði. Tóku ýmsir undir að gagnlegt gæti verið að halda slíka ráðstefnu og var sérfræðinganefndinni falið að hefja undirbúning hennar.
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 10.30. Var næsti fundur ákveðinn að morgni mánudagsins 10. október n.k. frá kl. 8.30–12.00.

Fundargerð 9. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 10. október 2005 klukkan 8.30 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Kristjánsson (formaður), Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Guðjón A. Kristjánsson og Jónína Bjartmarz voru forfölluð. Þá var einnig mætt sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Formaður tilkynnti að breytingar hefðu orðið á skipan nefndarinnar. Geir H. Haarde hefði óskað eftir að vera leystur frá nefndarstörfum og hefði Bjarni Benediktsson alþingismaður verið skipaður í hans stað. Þorsteinn Pálsson hefði verið skipaður varaformaður nefndarinnar í stað Geirs.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt. Þá var lögð fram fundargerð 7. fundar og var hún samþykkt með nokkrum breytingum.
    Nokkrar umræður urðu um hvernig gera ætti fundargerðirnar úr garði. Var gerð athugasemd við að þær ættu það til að endurspegla ekki nógu vel viðhorf fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Eins komu fram þau sjónarmið að fundargerðirnar væru á stundum full ítarlegar. Formaður minnti á að ákveðið hefði verið í upphafi að ef menn óskuðu þess að fá að lýsa hugmyndum án þess að um það yrði bókað væri þeim það í sjálfsvald sett. Eins gætu menn óskað eftir því sérstaklega að bókað yrði um þeirra afstöðu undir nafni.
    Lagðar voru fram til upplýsingar fundargerðir fyrstu 16 funda sérfræðinganefndar.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Engin ný erindi höfðu borist nefndinni frá síðasta fundi.

3. Drög að áfangaskýrslu
    Haldið var áfram umræðu um drög að áfangaskýrslu sem byrjuð var á síðasta fundi. Formaður minnti á að drögin væru lögð fram meðal annars til þess að stuðla að markvissri umræðu í nefndinni. Hins vegar ætti vissulega eftir að ræða ýmis atriði nánar sem þar væru tilgreind í niðurstöðuköflum. Fram komu ýmsar efnislegar athugasemdir við drögin. Einnig var óskað eftir því að áður en áfangaskýrslan yrði afgreidd færi fram rækilegri umræða um einstaka efnisþætti.
    Formaður beindi því til ritara að endurskoða drögin að áfangaskýrslu fyrir næsta fund. Vel kæmi til álita að leggja drögin svo til hliðar um tíma á meðan nefndin færi betur yfir einstaka efnisþætti stjórnarskrárinnar.

4. Efnisleg umræða um einstök stjórnarskrárákvæði
    Formaður sérfræðinganefndarinnar kynnti endurskoðuð drög að I. kafla stjórnarskrárinnar um stjórnarform og grundvöll stjórnskipunarinnar. Voru drögin rædd og sérfræðinganefndinni síðan falið að kanna nánar útfærslu á ákvæði um yfirráðasvæði íslenska ríkisins (landhelgi, lofthelgi, efnahagslögsaga, landgrunns- og hafsbotnsréttindi).

5. Önnur mál
    Minnt var á tvær ráðstefnur sem stæðu fyrir dyrum. Annars vegar væri fyrirhuguð ráðstefna um þjóðaratkvæðagreiðslur 29. október kl. 11 í Öskju, náttúrufræðihúsi, í samstarfi við Stofnun stjórnmála og stjórnsýslufræða þar sem allir flokkar myndu eiga fulltrúa í pallborði. Hins vegar yrði haldið málþing um ráðherraábyrgð 28. október kl. 14 í Lögbergi.
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 11.30. Var næsti fundur ákveðinn í Þjóðmenningarhúsinu að morgni miðvikudagsins 9. nóvember frá kl. 8.30–12.00.

Fundargerð 10. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 9. nóvember 2005 klukkan 8.30 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Þá voru einnig mættir úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Eiríkur Tómasson (formaður) og Gunnar Helgi Kristinsson. Björg Thorarensen og Kristján Andri Stefánsson voru forfölluð. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Formaður tilkynnti að breytingar hefðu orðið á skipan nefndarinnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði óskað eftir að vera leyst frá nefndarstörfum og hefði Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur verið skipuð í hennar stað.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt.
    Einnig voru lögð fram ýmis gögn sem sérfræðinganefndin hafði unnið að beiðni stjórnarskrárnefndar, þ.e. minnisblað um ákvæði um forseta í nýlegum stjórnarskrám – ásamt viðauka, minnisblað um tilhögun á skoðun lagafrumvarpa og minnisblað um dómstólakafla stjórnarskrárinnar – ásamt viðauka. Þá voru lagðar fram til upplýsingar fundargerðir 17. og 18. fundar sérfræðinganefndar.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Lögð voru fram erindi frá Jóhanni J. Ólafssyni og Þorsteini S. Þorsteinssyni. Fram kom beiðni um að ritari upplýsti hversu hátt hlutfall erinda varðaði mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

3. Drög að áfangaskýrslu
    Formaður lagði til að drögin að áfangaskýrslu yrðu lögð til hliðar um sinn á meðan nefndin kæmist lengra í hinni efnislegu umræðu um mismunandi kafla stjórnarskrárinnar. Hins vegar væri engin ástæða til að bíða með að birta á heimasíðu nefndarinnar greinargerðir sérfræðinganefndarinnar.
    Var tillagan samþykkt.

4. Efnisleg umræða um einstök stjórnarskrárákvæði
    Byrjuð var efnislega umræða um forsetaembættið. Var ákveðið að halda henni áfram á næsta fundi.

5. Önnur mál
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 12.00. Var næsti fundur ákveðinn í Þjóðmenningarhúsinu að morgni mánudagsins 21. nóvember frá kl. 8.30–12.00.

Fundargerð 11. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 21. nóvember 2005 klukkan 8.30 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Þorsteinn Pálsson. Össur Skarphéðinsson var forfallaður. Þá voru einnig mættir úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Björg Thorarensen var forfölluð. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt.
    Lagt var fram minnisblað sérfræðinganefndar um ákvæði um forseta í finnsku og írsku stjórnarskránum. Þá var lögð fram til upplýsingar fundargerð 19. fundar sérfræðinganefndar.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Engin ný erindi höfðu borist nefndinni frá síðasta fundi.

3. Efnisleg umræða um einstök stjórnarskrárákvæði
    Formaður greindi frá því að milli funda hefði hann hitt formann sérfræðinganefndarinnar að máli og beðið um að tekið yrði saman minnisblað um ákvæði um forseta í finnsku og írsku stjórnarskránum. Þetta væru þau nágrannaríki Íslands í Evrópu sem hefðu þjóðkjörinn forseta. Þakkaði hann sérfræðinganefndinni skjót viðbrögð og bað Gunnar Helga Kristinsson að kynna minnisblaðið.
    Þegar Gunnar Helgi hafði lokið máli sínu lagði formaður til að þráðurinn yrði tekinn upp að nýju frá síðasta fundi. Reifuðu nefndarmenn því næst hugmyndir sínar um hugsanlegar breytingar á 3.–10. grein stjórnarskrárinnar.
    Að umræðunni lokinni var ákveðið að tillögu formanns að fela sérfræðinganefndinni fyrir næsta fund að útfæra þær hugmyndir sem fram hefðu komið í textaformi.

4. Önnur mál
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 11.00. Var næsti fundur ákveðinn í Þjóðmenningarhúsinu að morgni mánudagsins 12. desember frá kl. 8.30–12.00.

Fundargerð 12. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 12. desember 2005 klukkan 8.30 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Guðjón A. Kristjánsson var veðurtepptur. Þá voru einnig mætt úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður) og Gunnar Helgi Kristinsson. Kristján Andri Stefánsson var forfallaður. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt.
    Þá var lögð fram til upplýsingar fundargerð 20. fundar sérfræðinganefndarinnar.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Lagt var fram erindi frá séra Baldri Kristjánssyni þar sem hann vakti athygli á ábendingu Evrópunefndar gegn kynþáttahatri og umburðarleysi um að það vantaði í stjórnarskrána ákvæði um bann við kynþáttamisrétti.
    Formaður kynnti einnig erindi sem borist hefði frá Sagnfræðingafélagi Íslands með tillögu um sameiginlegt málþing um embætti forseta Íslands og stjórnarskrána í sögulegu ljósi. Tillaga þessi fékk góðar undirtektir og var ritara falið að ræða við Sagnfræðingafélagið um nánari útfærslu.

3. Efnisleg umræða um einstök stjórnarskrárákvæði
    Lögð voru fram frumdrög að endurskoðuðum 3.–10. gr. stjórnarskrárinnar sem sérfræðinganefndin hafði unnið í kjölfar umræðu á síðasta fundi. Eiríkur Tómasson fylgdi frumdrögunum úr hlaði. Formaður lagði til að ekki yrði umræða á þessum fundi um drögin heldur yrði haldið áfram yfirferð yfir ákvæði II. kafla stjórnarskrárinnar þar sem frá var horfið.
    Að því búnu hóf formaður umræðu um 11. gr. stjórnarskrárinnar. Var einkum rætt um það hvað fælist í því orðalagi 1. mgr. að forseti væri ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Eins var fjallað um það að stjórnarskráin mætti vera skýrari um hlutverk og heimildir forseta til dæmis á sviði samskipta við önnur ríki. Sumir nefndarmenn voru reyndar á því að þetta hefði ekki skapað sérstök vandamál, hægt væri að treysta því að forseti hverju sinni hefði samráð við ríkisstjórn eftir því sem þörf krefði.
    Formaður kvað þessa umræðu hafa verið gagnlega. Hann ályktaði af umræðunni að það væri þörf á ítarlegri ákvæðum um hlutverk forseta, t.d. varðandi samskipti við erlend ríki. Var samþykkt að fela sérfræðinganefndinni að huga að þessu milli funda.

4. Önnur mál
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 11.00. Var næsti fundur ákveðinn í Þjóðmenningarhúsinu þriðjudaginn 3. janúar frá kl. 13–17.

Fundargerð 13. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 3. janúar 2006 klukkan 13.00 síðdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Bjarni Benediktsson og Jónína Bjartmarz voru forfölluð. Þá var einnig mætt sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt með lítilsháttar breytingu.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Ekki höfðu borist nein ný erindi frá síðasta fundi.
    Greint var frá því að ritari hefði haft samband við fulltrúa Sagnfræðingafélags Íslands til að tilkynna honum um jákvæðar undirtektir nefndarinnar við fyrirhugaða ráðstefnu um forsetaembættið. Myndi félagið á næstunni senda nefndinni drög að dagskrá til skoðunar.

3. Efnisleg umræða um einstök stjórnarskrárákvæði
    Formaður lagði til að á þessum fundi yrði haldið áfram umræðu um II. kafla stjórnarskrárinnar fyrir utan 26. gr. Gaf hann því næst Eiríki Tómassyni orðið sem kynnti endurskoðuð frumdrög að 3.–10. gr. stjórnarskrárinnar auk fyrstu draga að 11.–14. gr.
    Fram komu athugasemdir við að í þessum drögum frá sérfræðinganefndinni væru atriði sem ekki hefðu enn verið rædd í stjórnarskrárnefnd. Í því fælist óhæfileg stýring. Aðrir kváðust ekki sjá annmarka á því að hugmyndir væru settar fram með þessum hætti. Formaður undirstrikaði að ekki væri meiningin að textar þessi væru til samþykktar heldur eingöngu til að auðvelda umræðu. Fallast mætti á að ef til vill væri ekki tímabært að ræða einstök ákvæði áður en tekin hefði verið ítarlegri almenn umræða um hvernig menn sæju forsetaembættið og hlutverk ráðherra/ríkisstjórnar fyrir sér.
    Var samþykkt að sérfræðinganefndin myndi fyrir næsta fund semja minnisblað með helstu spurningum sem taka þyrfti afstöðu til áður en farið væri að útfæra breytingartillögur við núgildandi II. kafla stjórnarskrárinnar. Nefndarmenn lýstu því næst viðhorfum sínum til þess hvað helst þyrfti að ræða.

4. Önnur mál
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 16.00. Var næsti fundur ákveðinn mánudaginn 23. janúar frá kl. 8.30–12.00.

Fundargerð 14. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur á Hótel Reykjavík Centrum hinn 23. janúar 2006 klukkan 08.30 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Jón Kristjánsson (formaður), Kristrún Heimisdóttir, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Guðjón A. Kristjánsson, Jónína Bjartmarz og Steingrímur J. Sigfússon voru forfölluð. Þá voru einnig mætt úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður) og Kristján Andri Stefánsson. Gunnar Helgi Kristinsson var staddur erlendis. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt.
    Þá voru lagðar fram til kynningar fundargerðir 20.–23. fundar sérfræðinganefndarinnar.
    Formaður bar nefndarmönnum kveðju Steingríms J. Sigfússonar sem liggur á sjúkrahúsi eftir bílslys. Yrði hann frá störfum næstu vikurnar. Nefndarmenn báðu fyrir hlýjar kveðjur til Steingríms og óskuðu honum góðs bata.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Ekki höfðu borist nein ný erindi frá síðasta fundi. Ritari greindi frá undirbúningi ráðstefnu um forsetaembættið í samvinnu við Sagnfræðingafélag Íslands. Yrði hún haldin laugardaginn 25. mars næstkomandi í Þjóðminjasafninu. Fram komu ábendingar um tilhögun dagskrár sem ritara var falið að koma á framfæri.

3. Vinnulag næstu mánuði
    Formaður gerði vinnulag næstu mánuði að umtalsefni. Til álita kæmi að skipta nefndinni upp í vinnuhópa um afmörkuð viðfangsefni. Tóku nefndarmenn undir að þetta gæti verið vænleg leið til að koma meiru í verk á skemmri tíma. Var því beint til formanns og ritara að setja upp fundaáætlun á þeim grunni sem rædd yrði á næsta fundi.

4. Efnisleg umræða um einstök stjórnarskrárákvæði
    Eiríkur Tómasson gerði grein fyrir starfi sérfræðinganefndarinnar frá síðasta fundi og kynnti minnisblað um helstu spurningar sem svara þyrfti við endurskoðun II. kafla stjórnarskrárinnar.
    Haldið var áfram umræðu um forsetaembættið og ríkisstjórn og tengd atriði eins og þjóðaratkvæðagreiðslur. Meðal annars komu fram þau sjónarmið að æskilegt væri að nefndin kæmi sér saman um ákvörðunarskjal sem tæki á helstu efnisatriðum. Því næst yrði hægt að fela sérfræðinganefndinni útfærsluna.
    Einn nefndarmanna lagði fram minnisblað með tilteknum hugmyndum sem ættu erindi í slíkt ákvörðunarskjal. Voru þær ræddar og ákveðið að þær myndu vera áfram til umræðu á næstu fundum.

5. Önnur mál
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 12. Var næsti fundur ákveðinn mánudaginn 27. febrúar frá kl. 8.30–12.

Fundargerð 15. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 27. febrúar 2006 klukkan 08.30 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Bjarni Benediktsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Birgir Ármannsson var forfallaður. Þá voru einnig mætt úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt með lítilsháttar breytingum.
    Formaður bauð sérstaklega velkominn Steingrím J. Sigfússon sem verið hafði frá störfum um hríð vegna meiðsla sem hann hlaut í bílslysi.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Lögð voru fram drög að dagskrá ráðstefnu um forsetaembættið í sögulegu ljósi sem Sagnfræðingafélag Íslands efnir til laugardaginn 25. mars næstkomandi í Þjóðminjasafninu í samvinnu við nefndina.
    Þá var lagt fram erindi sameinaðrar kvennahreyfingar um breytingar á þremur ákvæðum stjórnarskrárinnar ásamt greinargerð. KH óskaði að fært yrði til bókar að hún væri hlynnt þessum tillögum.

3. Vinnulag næstu mánuði
    Í framhaldi af umræðu á síðasta fundi lagði formaður fram tillögu að skipan þriggja vinnuhópa sem fengju það verkefni að fjalla um afmörkuð viðfangsefni nefndarinnar. Nefndin í heild myndi svo fjalla um niðurstöður þeirra og notast við þær við gerð áfangaskýrslu sem gefin yrði út í júní næstkomandi.
    Tillaga formanns var samþykkt og eru vinnuhóparnir sem hér segir: 1. Dómstólakafli og framsal ríkisvalds (BÁ, JB og KH), 2. Mannréttindaákvæði, ákvæði um auðlindir og umhverfisvernd (BB, GAK og ÖS) og 3. Forseti, ríkisstjórn og þjóðaratkvæðagreiðslur (JK, SJS, ÞP og ÖS). Gerð var tillaga um að þeir fyrstnefndu í hverjum hópi myndu stýra vinnu þeirra og var hún samþykkt. Sérfræðinganefndin og ritari myndu starfa með hópunum.
    Var ákveðið að vinnuhóparnir myndu meðal annars taka afstöðu til innsendra erinda og skila ef sér niðurstöðum ekki síðar en í lok apríl. Þá var samþykkt að öllum nefndarmönnum væri frjálst að sækja fundi allra vinnuhópanna og var ritara falið að sjá til þess að tilkynningar um fundartíma og fundarstað bærust til allra.

4. Önnur mál
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 10.00. Var ákveðið að ekki yrði boðað til næsta fundar fyrr en í lok apríl þegar vinnuhóparnir skiluðu af sér nema sérstakt tilefni gæfist til.

Fundargerð 16. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 23. júní 2006 klukkan 9.00 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Jónína Bjartmarz og Kristrún Heimisdóttir voru forfallaðar. Þá voru einnig mættir úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Björg Thorarensen var forfölluð. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt. Þá voru lagðar fram fundargerðir vinnuhópanna þriggja sem starfað höfðu á milli funda (sjá nánar lið 3).

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Eftirfarandi erindi sem borist höfðu frá síðasta fundi voru lögð fram:
     *      frá ASÍ og fleiri samtökum um nauðsyn þess að festa í stjórnarskrá ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns,
     *      frá Herdísi Þorvaldsdóttur um nauðsyn þess að setja í stjórnarskrá ákvæði um gróðurvernd
     *      frá Einari E. Sæmundssen um rétt til lífsgæða og hvernig mætti verja hann í stjórnarskrá,
     *      frá sérnefnd Alþingis um stjórnarskrármál þar sem vakin er athygli á tveimur frumvörpum á 132. löggjafarþingi um breytingar á stjórnarskránni (þingseta ráðherra og samráð við Alþingi um stuðning við stríð).

3. Starf vinnuhópa
    Formaður rifjaði upp að á síðasta fundi hefðu verið settir á laggirnar þrír vinnuhópar til að fjalla um afmörkuð viðfangsefni í starfi nefndarinnar. Talsmenn vinnuhópanna gerðu því næst grein fyrir starfi þeirra.

1. vinnuhópur: Dómstólakafli og framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana (BÁ, KH, JBj)
    BÁ gerði grein fyrir starfi 1. vinnuhóps. Í sambandi við dómstólakaflann hefði komið fram að grundvallarreglur um dómstólana, ekki síst skipun hæstaréttardómara, þyrftu að vera fyllri en nú er. Spurning væri hvort þau ákvæði þyrftu að vera í stjórnarskránni eða hvort nægilegt væri að breyta dómstólalögum. Fyrir lægju frumdrög að breytingum á dómstólakaflanum með mismunandi útfærslumöguleikum varðandi val á hæstaréttardómurum sem ET hefði tekið saman að beiðni vinnuhópsins.
    Varðandi framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana þá hefði það sjónarmið komið fram innan vinnuhópsins að tryggara væri að hafa ákvæði í stjórnarskránni sem heimilaði slíkt. Nefnt hefði verið í því sambandi að í Noregi til dæmis þyrfti, samkvæmt stjórnarskránni, aukinn meirihluta á þingi til framsals ríkisvalds. Fyllsta ástæða væri til að mæla fyrir um það í stjórnarskránni að ákveðið ferli færi í gang þegar fram kæmu tillögur um hugsanlegt framsal ríkisvalds. Fram kom að BTh hefði verði falið að taka saman minnisblað um hugsanlegar breytingar á 21. gr. stjórnarskrárinnar.
    Í umræðum kom fram það viðhorf að þörf væri á að gera skipan hæstaréttardómara sem faglegasta og lýðræðislegasta. Ein leið væri sú að dómnefnd fjallaði um dómaraefni líkt og í Danmörku. Önnur leið væri sú að Alþingi þyrfti að staðfesta skipan dómara. Í því væri fólgið aðhald gagnvart ráðherra. Menn hlytu að spyrja sig hvort væri alvarlegra núverandi ástand eða hugsanleg hætta á pólítískum afskiptum. Aðrir lögðu áherslu á að pólitískt vald og ábyrgð ætti að vera hjá ráðherra þótt breyta mætti umsagnarferlinu. Hætta gæti verið fólgin í því að Alþingi kæmi að skipan hæstaréttardómara og var vísað til Bandaríkjanna sem vítist til varnaðar í því sambandi. Krafa um staðfestingu Alþingis gæti leitt til þess að ráðherra axlaði ekki sömu ábyrgð á ákvörðun. Einnig gætu komið upp vandkvæði milli stjórnarflokka í samsteypustjórn. Í öllu falli ykist hætta á að embættaveitingar yrðu pólitískt bitbein. Þá var varað við þeirri hugmynd að hægt væri að finna hlutlæga mælikvarða við val á dómurum.
    Þá kom fram það viðhorf að nóg væri að hafa í almennum lögum ákvæði um þessi efni, ekki þyrfti að útfæra þau í stjórnarskrá. Það gæti verið hluti af starfi þessarar nefndar að ná samkomulagi um slíkar lagabreytingar.
    Varðandi önnur atriði þá var nefndur sá möguleiki að forseti lýðveldisins fengi neitunarvald um skipan hæstaréttardómara, hugsanlega gæti það verið þáttur í auknu hlutverki forsetans. Því var ennfremur varpað fram að ástæða væri til að huga að tímabundinni skipan hæstaréttardómara, til 10–15 ára til dæmis. Þá styngju lífeyrissréttindi þeirra í stúf við það sem almenn gerist.
    Var sérfræðinganefndinni að lokum falið að útfæra nánar tillögur um breytingar á dómstólakaflanum í ljósi umræðnanna.

2. vinnuhópur: Mannréttindakafli og ákvæði um auðlindir og umhverfisvernd (BjB, GAK, ÖS)
    BjB gerði grein fyrir starfi 2. vinnuhóps. Fyrir lægju tillögur frá vinnuhópnum um almennt ákvæði um skyldu stjórnvalda til að virða og tryggja mannréttindi, um umhverfismál og um auðlindir. Ljóst væri að þessum ákvæðum þyrfti að fylgja ítarleg greinargerð. Í umræðum kom fram að menn vildu til dæmis skoða gaumgæfilega hvaða áhrif almennt mannréttindaákvæði af þessu tagi hefði. Þá kom fram það sjónarmið að til viðbótar við slíkt ákvæði þyrfti að nefna kynhneigð í 65. gr. stjskr., rétt til trúleysis í 63. gr. og kveða á um mannhelgi á viðeigandi stað í stjórnarskránni. Þá var ítarlega rætt um afleiðingar þess að setja ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir líkt og auðlindanefnd lagði til á sínum tíma. Fram kom það sjónarmið að taka þyrfti fram berum orðum að villtir fiskistofnar væru sameign þjóðarinnar.

3. vinnuhópur: Forseti, ríkisstjórn, þjóðaratkvæðagreiðslur o.fl. (JKr, SJS, ÞP, ÖS)
    JKr gerði grein fyrir starfi 3. vinnuhóps. Rætt hefði verið um breytingar á 26. gr. stjórnarskrárinnar. Einkum hefðu menn staðnæmst við þann möguleika að þingið kæmi að neitunarvaldi forseta lýðveldisins.
    Þá hefði verið rætt um aðkomu forseta lýðveldisins að stjórnarmyndunum og tímafresti í því sambandi. Varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur hefði einkum verið rætt um það hvort þjóðin ætti að geta kallað þær fram. Þá hefði sú spurning verið rædd hvort stjórnarskrárbreytingar ætti að bera undir þjóðina í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá hefðu einnig verið ræddar veigaminni spurningar eins og hvort fjölga bæri meðmælendum vegna forsetaframboðs og hvort forseti sem byði sig fram til endurkjörs þyrfti meðmælendur.
    Í umræðum kom fram að enn teldu sumir að engin þörf væri á að breyta 26. gr. á meðan aðrir teldu það forsendu þess að einhverjar stjórnarskrárbreytingar yrðu samþykktar. Nefndur var ákveðinn möguleiki til málamiðlunar varðandi 26. gr., þ.e. að tengja breytingar á 26. gr. almennri rýmkun á möguleikum til þjóðaratkvæðagreiðslu.

4. Starfið framundan
    Formaður gerði að umtalsefni þá staðreynd að tíminn væri orðinn naumur til að ljúka við heildarendurskoðun á þessu kjörtímabili. Einn möguleiki væri sá að leggja einungis á þessu stigi til breytingar á 79. gr. stjskr. með það fyrir augum að haldin yrði almenn þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá á miðju næsta kjörtímabili. Sýndist sitt hverjum um þessa hugmynd, sumir minntu á að nefndin hefði það verkefni að undirbúa heildarendurskoðun og því ætti hún ekki að gera tillögur um neitt sem gengi skemmra. Aðrir töldu að unnt ætti að vera á skömmum tíma að ná saman um nokkur grundvallaratriði þótt heildarendurskoðun biði. Var sérfræðinganefndinni falið að útfæra hugsanlegar breytingar á 79. gr. fyrir næsta fund.

5. Önnur mál
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 15.00. Var næsti fundur ákveðinn í Þjóðmenningarhúsinu föstudaginn 25. ágúst frá kl. 10–15.

Fundargerð 17. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 25. ágúst 2006 klukkan 10.00 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Jónína Bjartmarz og Bjarni Benediktsson voru forfölluð. Þá var einnig mætt sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt með lítilsháttar breytingum. Þá var lögð fram fundargerð 24. fundar sérfræðinganefndarinnar.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Lagt var fram erindi frá Ian Watson um ágæti kennitölu eins og hún er notuð á Íslandi.
    Þá var lögð fram skrifleg ósk frá Elíasi Davíðssyni fyrir hönd lýðræðishópsins um fund með nefndinni. Var ritara falið að svara Elíasi á þá lund að formaður og Össur Skarphéðinsson væru reiðubúnir að hitta hann að máli.

3. Efnisleg yfirferð yfir mögulegar stjórnarskrárbreytingar
    Í samræmi við ákvörðun síðasta fundar, kynnti Eiríkur Tómasson fyrir hönd sérfræðinganefndarinnar mismunandi útfærslu á breytingum á 1. mgr. 79. gr. (stjórnarskrárbreytingar). Nefndarmenn reifuðu því næst sín sjónarmið varðandi þessar hugmyndir. Fram kom að gæta yrði þess að stjórnarskrárbreytingar yrðu ekki of auðveldar. Þá væri æskilegt að þjóðin hefði síðasta orðið. Var sérfræðinganefndinni falið að endurskoða útfærslu sína í ljósi umræðnanna.
    Einn nefndarmanna lagði fram minnisblað með hugmyndum sem hann hafði reifað á síðasta fundi um hvernig mætti skýra hlutverk og stöðu forsetaembættisins, um þjóðaratkvæði og um stjórnarskrárbreytingar.
    Þá kynnti Björg Thorarensen fyrir hönd sérfræðinganefndarinnar hugmyndir um breytingar á 21. gr. stjórnarskrárinnar varðandi heimild til framsals ríkisvalds og samráð stjórnvalda við Alþingi um utanríkismál. Í umræðum kom meðal annars fram það viðhorf að gera þyrfti ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um meiriháttar framsal ríkisvalds til dæmis í formi ESB-aðildar.

4. Önnur mál
    Tekin var upp að nýju umræða frá síðasta fundi um framhald á störfum nefndarinnar. Ákveðið var að stefna að tveimur fundum í september til þess að sjá hversu langt væri hægt að komast í samkomulagsátt um tiltekin atriði. Staðan yrði svo metin að nýju í kjölfar þeirra funda. Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 13.00. Var næsti fundur ákveðinn í Þjóðmenningarhúsinu þriðjudaginn 12. september frá kl. 13–17.

Fundargerð 18. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 12. september 2006 klukkan 10.00 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Bjarni Benediktsson var forfallaður. Þá voru einnig mætt úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður) og Gunnar Helgi Kristinsson. Kristján Andri Stefánsson var forfallaður. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Engin ný erindi höfðu borist nefndinni frá síðasta fundi.

3. Efnisleg yfirferð yfir mögulegar stjórnarskrárbreytingar
-     79. gr. stjskr.
    Eiríkur Tómasson gerði grein fyrir minnisblaði sérfræðinganefndarinnar um æskilegar breytingar á 1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar. Umræðurnar snerust um hvort rétt væri að gera kröfu um aukinn meirihluta á þingi eða setja þátttökuþröskuld í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar stjórnarskrárbreytingar væru afgreiddar. Annars vegar var lögð áhersla á að búa þyrfti svo um hnúta að stjórnarskrárbreytingar yrðu ekki gerðar nema um þær væri víðtæk sátt. Hins vegar var varað við því að minnihluti þingmanna og jafnvel einn stjórnmálaflokkur hefði neitunarvald um breytingar. Þá gætu þátttökuþröskuldar í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðslu boðið heim hættu á að hvatt yrði til þess að fólk sæti heima, sem væri ólýðræðislegt. Margir tóku undir að þjóðin ætti að vera stjórnarskrárgjafinn. Ennfremur kom fram að vert væri að tryggja að hæfilegur tími liði milli umræðna um breytingar á Alþingi vegna þess að þá gæfist færi á víðtækri almennri umræðu á meðan enn væri unnt að gera breytingar á tillögum. Þá þyrfti að taka afstöðu til þess hversu langur tími ætti að líða milli afgreiðslu Alþingis og þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Var samþykkt að formaðurinn fengi umboð til að fara yfir fyrirliggjandi hugmyndir og leggja fram tillögu í framhaldinu.

-     auðlindaákvæði
    Eiríkur Tómasson rifjaði því næst upp tillögu auðlindanefndar frá árinu 2000 um ákvæði sem mælti fyrir um þjóðareign á náttúruauðlindum sem ekki væru í einkaeigu. Í umræðum var meðal annars kallað eftir því að gerð yrði úttekt á því hvaða lögfræðilegu- og hagfræðilegu álitamál kynnu að rísa í kjölfar samþykktar slíks ákvæðis. Ennfremur að gefið yrði yfirlit yfir þá fræðilegu umræðu sem átt hefði sér stað um eignarrétt að auðlindum síðan auðlindanefnd lauk störfum. Þá þyrfti að liggja fyrir hvað fælist í óbeinum eignarréttindum, til dæmis varðandi fiskveiðiheimildir.
    Aðrir sögðu að ekki væri þörf á viðbótarálitsgerðum og ekki ætti að vera torvelt að ná samkomulagi um ákvæði af þessu tagi. Það mætti þó slípa ákvæðið til. Þannig komu fram athugasemdir við að samkvæmt tillögu auðlindanefndar væri skylt í öllum tilfellum að innheimta gjald vegna afnota af auðlindum í þjóðareigu.

4. Önnur mál
    Formaður lagði að lokum til að næsti fundur yrði helgaður umræðu um framhald nefndarstarfsins.
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 12.30. Var næsti fundur ákveðinn í Þjóðmenningarhúsinu fimmtudaginn 28. september frá kl. 13–17.

Fundargerð 19. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 25. október 2006 klukkan 13.00 síðdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Jón Kristjánsson (formaður), Kristrún Heimisdóttir, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Guðjón A. Kristjánsson, Jónína Bjartmarz og Steingrímur J. Sigfússon voru forfölluð. Þá voru einnig mætt úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður) og Gunnar Helgi Kristinsson. Kristján Andri Stefánsson var forfallaður. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Lagt var fram erindi frá Hirti Einarssyni um nauðsyn þess að ekki yrði haggað við málskotsrétti forseta.

3. Starfið framundan
    Formaður gerði að umtalsefni þá staðreynd að ekki væri langur tími til stefnu áður en nefndin ætti að skila af sér. Útséð væri um að hægt yrði að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar fyrir næstu Alþingiskosningar. Kvaðst hann vilja leggja til að forsætisráðherra yrði gerð grein fyrir stöðu mála og farið fram á lengri frest. Jafnframt yrði tekin saman áfangaskýrsla með yfirliti yfir starf nefndarinnar til þessa. Eins kvaðst hann vilja heyra í mönnum hvort samstaða gæti nást um afmörkuð atriði eins og breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar og setningu ákvæðis um náttúruauðlindir.
    Fram kom hjá sumum nefndarmanna að unnt ætti að vera að ná samkomulagi í vetur um umtalsverðar breytingar á stjórnarskránni þótt heildarendurskoðun yrði að bíða betri tíma. Aðrir kváðu hins vegar enn langt í land, jafnvel varðandi atriði eins og auðlindaákvæði og framsal ríkisvalds sem gjarnan hefðu verið nefnd. Þá hefði nefndin það verkefni að skila tillögum um heildarendurskoðun og rétt væri að einbeita sér áfram að því verki, þótt það tæki lengri tíma en ætlað var í byrjun.
    Í ljósi þess að margir nefndarmenn væru fjarverandi lagði formaður til að ákvörðun um framhaldið yrði frestað til næsta fundar og var það samþykkt.

4. Önnur mál
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 15.00. Var næsti fundur ákveðinn í Þjóðmenningarhúsinu föstudaginn 3. nóvember frá kl.12.00–13.00.

Fundargerð 20. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 3. nóvember 2006 klukkan 12.00 á hádegi. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Guðjón A. Kristjánsson og Kristrún Heimisdóttir voru forfölluð. Þá voru einnig mættir úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Björg Thorarensen var forfölluð. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar en afgreiðslu hennar var frestað til næsta fundar.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Engin ný erindi höfðu borist frá síðasta fundi.

3. Starfið framundan
    Rætt var um að gera þyrfti forsætisráðherra grein fyrir stöðu mála í starfi nefndarinnar. Í því sambandi komu fram mismunandi sjónarmið m.a. um það hversu langt nefndin gæti komist í starfi sínu fyrir lok þessa kjörtímabils. Var formanni falið að ráðgast við nefndarmenn fram að næsta fundi um orðalag á bréfi til forsætisráðherra þar sem honum yrði gerð grein fyrir stöðu mála.

4. Önnur mál
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 13.00. Næsti fundur yrði boðaður með tölvupósti.

Fundargerð 21. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 18. desember 2006 klukkan 12.00 á hádegi. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Kristrún Heimisdóttir, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Jónína Bjartmarz og Steingrímur J. Sigfússon voru forfölluð. Þá voru einnig mættir úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður) og Gunnar Helgi Kristinsson. Kristján Andri Stefánsson. var forfallaður. Eiríkur Tómasson ritaði fundargerð í forföllum Páls Þórhallssonar.
    Lagðar voru fram fundargerðir tveggja síðustu funda og voru þær samþykktar án athugasemda.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni
    Eitt nýtt erindi frá Þorkeli Helgasyni var lagt fram til kynningar.

3. Starfið framundan
    Formaður lagði fram ný drög að bréfi til forsætisráðherra í framhaldi af umræðum á síðasta fundi. Í umræðum um drögin kom í ljós að sumir nefndarmanna gætu ekki sætt sig við það orðalag sem þar kom fram. Var að lokum samþykkt að fresta því að afgreiða þetta mál og var formanni falið að kanna möguleika á því hvort sátt gæti tekist um það meðal nefndarmanna fyrir fund sem væri fyrirhugaður föstudaginn 22. desember nk.

4. Önnur mál
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 12.50.

Fundargerð 22. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 5. janúar 2007 klukkan 12.00 á hádegi. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Þá voru einnig mættir úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Eiríkur Tómasson ritaði fundargerð í forföllum Páls Þórhallssonar.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt án athugasemda.

2. Hugsanlegar breytingar á 1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar
    Í umræðum um þetta mál lýstu allir nefndarmenn sig reiðubúna til að skoða þann kost að breyta þessu ákvæði, einu og sér, en fresta öðrum tímabærum breytingum á stjórnarskránni til næsta kjörtímabils. Einnig lýstu allir nefndarmenn sig fylgjandi þeirri hugmynd að breytingar á stjórnarskránni verði bornar sérstaklega undir þjóðaratkvæði, til samþykktar eða synjunar. Skiptar skoðanir voru hins vegar um það hvernig ákvæði sem þetta eigi að vera orðað.

3. Starfið framundan
    Formanni var falið að ræða við einstaka nefndarmenn til að freista þess að ná málamiðlun um orðalag þess ákvæðis sem að framan greinir. Einnig er stefnt að því að gefa út áfangaskýrslu um störf nefndarinnar. Næsti fundur í nefndinni er fyrirhugaður þriðjudaginn 16. janúar nk.

4. Önnur mál
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 14.30.

Fundargerð 23. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 16. janúar 2007 klukkan 09.00 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Jónína Bjartmarz og Kristrún Heimisdóttir voru forfallaðar. Þá voru einnig mætt úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður) og Gunnar Helgi Kristinsson. Kristján Andri Stefánsson var forfallaður. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt án athugasemda.

2. Hugsanlegar breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar.
    Formaður nefndarinnar kynnti tillögu um breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar. Þar var gert ráð fyrir tveimur meginleiðum við stjórnarskrárbreytingar eftir því hvort næðist aukinn meirihluti á Alþingi fyrir breytingum. Hvor leiðin sem farin yrði endaði með þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þyrfti tiltekinn lágmarksstuðning. Skyldi kveða nánar á um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu í lögum. Að sögn formanns væri hér um að ræða málamiðlun sem hann setti fram eftir viðræður við nefndarmenn í kjölfar síðasta fundar.
    Í umræðum um tillöguna kom fram að í athugasemdum með stjórnarskrárfrumvarpi þyrfti að benda á að þjóðaratkvæðagreiðsla gæti farið fram samhliða alþingiskosningum eða öðrum kosningum. Stjórnarskrárbreytingar væru því ekki lengur bundnar við lok kjörtímabils. Þá var nokkuð rætt um hvort gera þyrfti kröfu um tiltekinn lágmarksstuðning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Annars vegar komu fram sjónarmið um að allir þröskuldar aðrir en einföld meirihlutaregla væru til óþurftar. Hins vegar var lögð áhersla á að eðlilegt væri að gera kröfu um ríka samstöðu um breytingar á grundvallarlögum og lágmarksstuðning þjóðar. Þær lágmarkskröfur sem talað væri um gætu vart talist þröskuldar. Þá kom ennfremur fram það sjónarmið að gera frekar kröfu um lágmarksþátttöku en lágmarksstuðning. Var að lokum samþykkt að gera kröfu um 20–25% lágmarksstuðning í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir því hvor meginleiðin væri farin við stjórnarskrárbreytingar.
    Þá voru samþykktar breytingar á tillögu formanns með það fyrir augum að ekki yrði freisting fyrir þingmenn að hverfa frá stuðningi við stjórnarskrárbreytingar í þeim tilgangi að ná fram þingrofi.
    Fram kom að tillagan væri samþykkt með fyrirvara um viðbrögð í þingflokkum.

3. Starfið framundan
    Ýmsir nefndarmenn lögðu áherslu á að samþykkt ofangreindrar tillögu fæli einungis í sér áfanga. Það væri rökrétt að byrja á því að breyta tilhögun stjórnarskrárbreytinga til að undirstrika að þjóðin væri stjórnarskrárgjafinn.
    Rætt var um hvernig væri eðilegast að standa að flutningi frumvarps um ofangreindar stjórnarskrárbreytingar. Varð niðurstaðan sú að eðlilegast væri að skila tillögum til forsætisráðherra sem myndi svo athuga gagnvart Alþingi fyrirkomulag á flutningi frumvarps til stjórnarskipunarlaga. Þá var sammæli um að réttast væri að frumvarpinu fylgdu gögn úr starfi nefndarinnar eins og áfangaskýrsla, drög að frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslur og greinargerðir sérfræðinganefndar. Var sérfræðinganefndinni falið að undirbúa þessi gögn.
    Næstu fundir í nefndinni eru fyrirhugaðir laugardaginn 27. janúar nk. kl. 10–12 og fimmtudaginn 1. febrúar nk. kl. 17–19.

4. Önnur mál
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 10.30

Fundargerð 24. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 27. janúar 2007 klukkan 10.00 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Guðjón A. Kristjánsson var forfallaður. Þá voru einnig mættir úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Eiríkur Tómasson (formaður) og Gunnar Helgi Kristinsson. Björg Thorarensen og Kristján Andri Stefánsson voru forfölluð. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt án athugasemda.

2. Hugsanlegar breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar
    Formaður bað Eirík Tómasson að kynna drög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingu á 79. gr. stjórnarskrárinnar ásamt greinargerð sem lögð voru fram á fundinum. Í máli Eiríks kom fram að við skoðun milli funda hefði komið í ljós að gera þyrfti tæknilega breytingu á tillögu þeirri sem samþykkt hefði verið á síðasta fundi. Samþykki þing stjórnarskrárbreytingu án þess að fyrir henni sé 2/3 meirihluti verði frekari afgreiðslu frestað en ekki komi sjálfkrafa til þingrofs. Þar með er tekið fyrir þann möguleika að þingmenn greiði atkvæði gegn stjórnarskrárfrumvarpi við síðustu umræðu í því skyni að framkalla þingrof.
    Var fallist á þessa breytingu á frumvarpsdrögunum enda yrði tekið fram í greinargerð að eftir sem áður yrði hægt að rjúfa þing eftir almennum reglum ef vilji væri til þess að hraða stjórnarskrárbreytingum.
    Beindi formaður því til nefndarmanna að senda athugasemdir við orðalag frumvarpsins og greinargerðarinnar til ritara í tæka tíð fyrir næsta fund.

3. Starfið framundan
    Staðfest var að stefnt skyldi að því að ljúka afgreiðslu frumvarpsdraganna og fylgiskjala á næsta fundi fimmtudaginn 1. febrúar nk. kl. 17–19.

4. Önnur mál
    Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 11.00.

Fundargerð 25. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 1. febrúar 2007 klukkan 17.00 síðdegis.Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Jón Kristjánsson (formaður), Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Þorsteinn Pálsson. Bjarni Benediktsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jónína Bjartmarz og Össur Skarphéðinsson voru forfölluð. Þá voru einnig mætt úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður) og Gunnar Helgi Kristinsson. Kristján Andri Stefánsson var forfallaður. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt án athugasemda.

2. Erindi sem hafa borist
    Lagt var fram framsent bréf Þórunnar Guðmundsdóttur hrl., sem var oddviti yfirkjörstjórnar í Reykjavík norður í síðustu forsetakosningum, til dómsmálaráðherra þar sem hún vakti athygli á tilteknum atriðum varðandi ákvæði 5. gr. stjórnarskrárinnar um fjölda meðmælenda og landfræðilega skiptingu þeirra, eins og hún er útfærð í lögum nr. 36/1945.

3. Breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar
    Lögð voru fram endurskoðuð drög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingu á 79. gr. ásamt greinargerð. Þá voru kynnt drög að frumvarpi til breytinga á þingskapalögum auk frumvarps til laga um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu skv. 79. gr. stjórnarskrárinnar sem myndu fylgja með til kynningar.
    Formaður greindi frá fundi sem hann hefði átt með skrifstofustjóra Alþingis þar sem rædd voru þau atriði í frumvarpinu sem sneru að störfum Alþingis og fælu í sér fráhvarf frá almennum reglum um meðferð þingmála.
    Samþykkt var að formaður myndi senda frumvarpið ásamt ofangreindum fylgiskjölum til forsætisráðherra sem niðurstöðu nefndarinnar.

4. Starfið framundan – kynning á niðurstöðum nefndar
    Lögð voru fram drög að áfangaskýrslu. Fram komu athugasemdir við að fjallað skyldi um umhverfisvernd og auðlindamál í sama vetfangi. Var ritara falið að uppfæra skjalið í ljósi þessarar athugasemda og annarra athugasemda sem nefndarmenn kynnu að senda fram að næsta fundi.
    Þá var nokkuð rætt um hvort ástæða væri til þess fyrir nefndina að kynna niðurstöður sínar með sérstökum hætti en engin ákvörðun tekin í því efni.

5. Önnur mál
    Næsti fundur var ákveðinn þriðjudaginn 6. feb. kl. 17.30–19 í Þjóðmenningarhúsinu. Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 18.00.

Fundargerð 26. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur
    Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu þriðjudaginn 6. febrúar 2007 klukkan 17.30 síðdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson. Þorsteinn Pálsson var forfallaður. Þá voru einnig mætt úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen og Eiríkur Tómasson (formaður). Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson voru forfallaðir. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
    Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt án athugasemda.

2. Áfangaskýrsla
    Lögð voru fram endurskoðuð drög að áfangaskýrslu. Var ákveðið að fundargerðir nefndarinnar og vinnuhópa hennar myndu fylgja með sem fylgiskjöl auk þriggja helstu greinargerða sérfræðinganefndarinnar. Tekið yrði fram að vinnuhópunum hefði verið ætlað að setja fram hugmyndir, sem síðan yrðu ræddar í fullskipaðri nefnd. Yrði því að skoða fundargerðir þeirra í samhengi við umræður sem síðan urðu inni í nefndinni sjálfri, en þær væru raktar í fundargerðum nefndarinnar og áfangaskýrslunni.
    Var ritara falið að senda út lokadrög á næstu dögum þar sem gefinn yrði stuttur frestur til athugasemda.

3. Önnur mál
    Birgir Ármannsson gat þess að sérnefnd Alþingis um stjórnarskrármálefni hefði komið saman og vænta mætti frá henni hefðbundins bréfs þar sem upplýst væri um þingmál á yfirstandandi þingi er vörðuðu stjórnarskrána.
    Lagt var fram bréf formanns til forsætisráðherra dags. 5. feb. með tillögu nefndarinnar um breytingu á 79. gr. stjórnarskrárinnar ásamt fylgiskjölum. Kom fram ábending um lagfæringu á orðalagi í greinargerð með frumvarpinu og var ritara falið að koma henni áleiðis.
    Ritara var falið að kanna hvenær væri hentugur tími fyrir lokafund nefndarinnar í þessari lotu en ekki ætti að vera þörf á sérstökum fundi til að ljúka áfangaskýrslunni, það ætti að vera hægt með tölvupóstsamskiptum.

Fundargerð (1) vinnuhóps um dómstólakafla o.fl.

    Ár 2006, þriðjudaginn 7. mars, kl. 8.30, kom vinnuhópur stjórnarskrárnefndar um dómstólakafla o.fl. saman til fundar í Þjóðmenningarhúsinu.
    Fundinn sátu: Birgir Ármannsson, Jónína Bjartmarz og Eiríkur Tómasson sem ritaði fundargerð þessa. Kristrún Heimisdóttir hafði boðað forföll.
    Þetta gerðist:
     1.      ET lagði fram ýmis gögn sem varða V. kafla stjórnarskrárinnar og hugsanlegar breytingar á honum.
     2.      Farið var lauslega yfir þau atriði sem til greina kæmi að taka sérstaklega til skoðunar í þessum kafla, en síðan ákveðið að fresta frekari umfjöllun um þau, þar sem einn úr hópnum væri fjarverandi.
     3.      Ákveðið var að stefna að því að halda næsta fund í vinnuhópnum í hádeginu þriðjudaginn 14. mars nk.
    Fleira gerðist ekki.     Fundi slitið kl. 9.20.

Fundargerð (2) vinnuhóps um dómstólakafla o.fl.

    Ár 2006, þriðjudaginn 21. mars, kl. 12, kom vinnuhópur stjórnarskrárnefndar um dómstólakafla o.fl. saman til fundar í Þjóðmenningarhúsinu.
    Fundinn sátu: Birgir Ármannsson, Jónína Bjartmarz, Kristrún Heimisdóttir og Eiríkur Tómasson sem ritaði fundargerð þessa.
    Þetta gerðist:
     1.      Lögð var fram fundargerð síðasta fundar í vinnuhópnum.
     2.      Í framhaldi af umræðum á síðasta fundi var rætt um þau atriði sem til greina kæmi að taka sérstaklega til skoðunar í þessum kafla. Var ET falið að taka saman frumdrög að ákvæðum kaflans sem rædd yrðu frekar á næsta fundi.
     3.      Ákveðið var að stefna að því að halda næsta fund í vinnuhópnum að morgni mánudagsins 3. apríl nk.
    Fleira gerðist ekki.     Fundi slitið kl. 13.00.

Fundargerð (3) vinnuhóps um dómstólakafla o.fl.

    Ár 2006, mánudaginn 3. apríl, kl. 8.30, kom vinnuhópur stjórnarskrárnefndar um dómstólakafla o.fl. saman til fundar í Þjóðmenningarhúsinu.
    Fundinn sátu: Kristrún Heimisdóttir og Eiríkur Tómasson sem ritaði fundargerð þessa. Þau Birgir Ármannsson og Jónína Bjartmarz voru fjarverandi vegna fundar í þingnefnd, sem þau eiga sæti í, en fundurinn hafði verið boðaður með skömmum fyrirvara.
    Þetta gerðist:
     1.      Lögð var fram fundargerð síðasta fundar í vinnuhópnum.
     2.      Í framhaldi af því, sem fram kom á síðasta fundi, lagði ET fram sem umræðugrundvöll frumdrög að ákvæðum nýs kafla um dómsvald og ákæruvald er kæmi í stað V. kafla núgildandi stjórnarskrár. Samþykkt var að fresta umræðum um þetta mál að svo stöddu.
     3.      Ákveðið var að stefna að því að halda næsta fund í vinnuhópnum fljótlega eftir páska og fjalla þá m.a. um stjórnarskrárákvæði um heimild til að framselja ríkisvald til alþjóðlegra eða fjölþjóðlegra stofnana í afmörkuðum tilvikum.
    Fleira gerðist ekki.     Fundi slitið kl. 9.15.

Fundargerð (4) vinnuhóps um dómstólakafla o.fl.

    Ár 2006, mánudaginn 15. maí, kl. 9, kom vinnuhópur stjórnarskrárnefndar um dómstólakafla o.fl. saman til fundar í Þjóðmenningarhúsinu.
    Fundinn sátu: Birgir Ármannsson, Kristrún Heimisdóttir, Björg Thorarensen og Eiríkur Tómasson sem ritaði fundargerð þessa. Jónína Bjartmarz var fjarverandi.
    Þetta gerðist:
     1.      Lögð var fram fundargerð síðasta fundar í vinnuhópnum.
     2.      Rætt var um efni stjórnarskrárákvæðis um samninga og önnur samskipti við erlend ríki sem komið gæti í stað 21. gr. núverandi stjórnarskrár. Ennfremur um nýtt stjórnarskrárákvæði sem fæli í sér heimild til framsals ríkisvalds til alþjóðlegra og fjölþjóðlegra stofnana, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Að umræðum loknum var Björgu falið að taka saman minnisblað, þar sem teflt verði fram valkostum að því er varðar þessi tvö atriði.
     3.      Í framhaldi af síðasta fundi var rætt um frumdrög ET að ákvæðum nýs kafla um dómsvald og ákæruvald er kæmi í stað V. kafla núgildandi stjórnarskrár.
    Fleira gerðist ekki.     Fundi slitið kl. 10.30.

Fundargerð (1) vinnuhóps um auðlinda-, umhverfis- og mannréttindamál

    Ár 2006, mánudaginn 13. mars, kl. 9.00 kom vinnuhópur stjórnarskrárnefndar um auðlinda-, umhverfis- og mannréttindamál saman til fundar í Þjóðmenningarhúsinu.
    Fundinn sátu: Bjarni Benediktsson, Guðjón Arnar Kristjánsson, Össur Skarphéðinsson og Björg Thorarensen sem ritaði fundargerð þessa.
    Þetta gerðist:
     1.      Fyrir fundinum lá samantekt frá BTh. með samantekt yfir erindi sem borist hafa stjórnarskrárnefnd um þessi svið stjórnarskrárinnar auk tillögu auðlindanefndar frá árinu 2000 um orðalag nýs stjórnarskrárákvæðis um auðlindir og nýtingu þeirra. Tillagan og skýringar með henni eru hluti af ítarlegum skýrslum sem auðlindanefnd vann á árunum 1999 og 2000. Farið var yfir þessi gögn og lagt mat á það hvernig haga bæri vinnu stjórnarskrárnefndarinnar í framhaldinu varðandi þessa málaflokka.
     2.      Vinnuhópurinn komst að þeirri niðurstöðu að æskilegt væri að stefna að því að setja í stjórnarskrána ákvæði um umhverfismál og auðlindir. Var ákveðið að kanna og leggja fram á næsta fundi vinnuhóps dæmi um ákvæði í fleiri stjórnarskrám sem gætu verið til hliðsjónar um gerð stjórnarskrárákvæðis um umhverfismál. Einnig var ákveðið að fá Eirík Tómasson prófessor sem átti sæti í auðlindanefnd, á næsta fund nefndarinnar til að skýra nánar þau sjónarmið sem liggja að baki tillögu auðlindanefndar.
     3.      Vinnuhópurinn taldi æskilegt að huga nánar að breytingum á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar sem hefðu almennt gildi. Í því sambandi var einkum litið til þess hvort rætt væri að færa út orðalag almennu jafnræðisreglunnar í 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þá væri vert að stefna að því að í stjórnarskránni yrði vísað með almennum hætti til réttinda sem vernduð eru í alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að, annað hvort í inngangsákvæðum í 1. kafla stjórnarskrárinnar, eða í sérstöku ákvæði í mannréttindakaflanum.
     4.      Ákveðið að næsti fundur vinnuhóps verði haldinn mánudaginn 20. mars kl. 9.00.
    Fleira gerðist ekki     Fundi slitið kl.10.30

Fundargerð (2) vinnuhóps um auðlinda-, umhverfis- og mannréttindamál

    Ár 2006, mánudaginn 20. mars, kl. 9.00 kom vinnuhópur stjórnarskrárnefndar um auðlinda-, umhverfis- og mannréttindamál saman til fundar í Þjóðmenningarhúsinu.
    Fundinn sátu. Guðjón Arnar Kristjánsson, Össur Skarphéðinsson og Björg Thorarensen sem ritaði fundargerð þessa. Bjarni Benediktsson hafði boðað forföll. Auk þess kom Eiríkur Tómasson á fundinn.
    Þetta gerðist:
     1.      Fyrir fundinum lá samantekt frá síðasta fundi vinnuhópsins 13. mars sl. þar sem dregnar voru saman niðurstöður þess fundar. Einnig fylgdi þeirri samantekt yfirlit yfir stjórnarskrárákvæði 9 ríkja um umhverfismál.
     2.      Eiríkur Tómasson gerði grein fyrir sjónarmiðum að baki tillögu auðlindanefndar um nýtt stjórnarskrárákvæði varðandi náttúruauðlindir og nýtingu þeirra, en Eríkur var einn nefndarmanna í auðlindanefnd.
     3.      Samstaða var um að vinnuhópurinn gerði tillögu til stjórnarskrárnefndar um að ákvæði varðandi auðlindamál og umhverfismál yrðu sett í stjórnarskrána, annað hvort í tveimur aðskildum ákvæðum eða einu. Rætt var um helstu efnisatriði sem ættu að koma fram þar.
     4.      Ákveðið að næsti fundur vinnuhóps verði haldinn fimmtudaginn 30. mars kl. 8.30 en að í millitíðinni myndu BT og ET hitta BB til að fara yfir sjónarmiðin á bak við tillögur auðlindanefndar.
    Fleira gerðist ekki     Fundi slitið kl.10.00

Fundargerð (3) vinnuhóps um auðlinda-, umhverfis- og mannréttindamál

    Ár 2006, fimmtudaginn 30. mars, kl. 8.30 kom vinnuhópur stjórnarskrárnefndar um auðlinda-, umhverfis- og mannréttindamál saman til fundar í Þjóðmenningarhúsinu. Á fundarstað kom í ljós að Bjarni Benediksson og Össur Skarphéðinsson höfðu boðað forföll.
    Fundinn sátu því Guðjón Arnar Kristjánsson og Björg Thorarensen. Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent við lagadeild HÍ og sérfræðingur í umhverfisrétti var einnig mætt að beiðni formanns vinnuhópsins til þess að ræða um efni hugsanlegs stjórnarskrárákvæðis um umhverfismál. GAK og BTh. ákváðu að ræða efnið við AJ, þrátt fyrir forföll tveggja í vinnuhópnum en samantekt af þeim umræðum yrði send þeim í fundargerð.
    AJ fjallaði um reynslu af nýja norska stjórnarskrárákvæðinu um umhverfismál, gr. 110 b, sem kom inn í stjórnarskrána árin 1992. Hún benti á að ekki lægi fyrir mikil dómaframkvæmd í Noregi um ákvæðið, en þó hefði gengið dómur í Hæstarétti Noregs árið 1993. Þar voru lagaákvæði um leyfi til umhverfisframkvæmda túlkuð í ljósi markmiða stjórnarskrárákvæðisins. Ekki eru dæmi þess að ákvæðinu hafi verið beitt fyrir dómstólum til að byggja á sjálfstæðan rétt einstaklinga eða félagasamtaka og er ákvæðið ekki talið fela í sér sjálfstæða efnisreglu. Það hefur fyrst og fremst áhrif sem markmiðssetning á sviði umhverfismála og hefur þannig áhrif á framkvæmd laga á þessum vettvangi. Þá telur AJ að ákvæðið hafi áhrif með þeim hætti að lög verði í auknum mæli skýrð með vísan til alþjóðaskuldbindinga Noregs á sviði umhverfismála. Enn sem komið er hefur lítið verið ritað í Noregi um túlkun og áhrif umhverfisákvæðis stjórnarskrárinnar en AJ er kunnugt um að ítarleg lögfræðileg úttekt um ákvæðið er væntanleg frá einum helsta sérfræðingi Noregs um efnið.
    Þessu næst fjallaði AJ um nýja finnska stjórnarskrárákvæðið í 20. gr. stjórnarskrárinnar sem tók gildi árið 2000. Hún benti á að ákvæðið væri mjög ólíkt því norska að efni og uppbyggingu, og fræðimenn greindi á um hvort það hefði lagaleg áhrif eða eingöngu stefnuyfirlýsing. AJ var kunnugt um einn dóm sem hefði nýlega gengið í æðsta stjórnsýsludómstól Finnlands þar sem deila snerist um það hvort tiltekin ákvæði í finnskri löggjöf giltu um leyfi til virkjunarframkvæmda og gerð uppistöðulóns. Var finnsk löggjöf túlkuð í ljósi stjórnarskrárákvæðisins og réði það úrslitum um að viðkomandi ákvæði voru talin ná yfir þessar framkvæmdir. Þá hefur verið talið að umhverfisákvæðið leiði til þess að lagaheimildir um aðild félagasamtaka að ákvörðunum um umhverfismál séu túlkaðar rúmt.
    Hvað varðar efni hugsanlegs stjórnarskrárákvæðis um umhverfismál í íslensku stjórnarskránni benti AJ á þrjá meginþætti sem eðlilegt væri að taka tillit til. Í fyrsta lagi þátttökuréttindin, þ.e. um rétt manna til að hafa áhrif á ákvarðanir sem varða umhverfið, í öðru lagi sjálfbær þróun og í þriðja lagi, tilvísun í líffræðilegrar fjölbreytni. Í þessu sambandi væri hugtakið „sjálfbær þróun“ nokkurs konar yfirhugtak sem rétt væri að telja fyrst sem meginmarkið, en á eftir kæmu hin tvö. Síðan yrði inntak hugtakanna sem er mjög víðtækt skýrt nánar í greinargerð. Þá lagði AJ áherslu á að framsetning umhverfisákvæðis hlyti að felast á því að lýsa yfir þessum markmiðum, en jafnframt yrði tilgreint í stjórnarskrárákvæðinu að nánar skyldi mælt fyrir um þessi efni í lögum. Eftir sem áður hefur því löggjafinn svigrúm til þess að ákveða hvaða leiðir skuli fara til þess að ná þessum markmiðum. Þannig myndi stjórnarskrárákvæðið ekki búa til sjálfstæðar efnisreglur, en þó gera dómstólum kleift að meta t.d. hvort stjórnarvaldsákvarðanir eða löggjöf fer bersýnilega gegn þessum grundvallarmarkmiðum.
    Í lok fundar var ákveðið að kanna hvort vinnuhópur nær að funda aftur fyrir páska og tillaga gerð um miðvikudaginn 12. apríl kl. 8.30. Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 9.30

Fundargerð (4) vinnuhóps um auðlinda-, umhverfis- og mannréttindamál

    Ár 2006, miðvikudaginn 12. apríl, kl. 8.30 kom vinnuhópur stjórnarskrárnefndar um auðlinda-, umhverfis- og mannréttindamál saman til fundar í Þjóðmenningarhúsinu.
    Fundinn sátu Bjarni Benediktsson, Guðjón Arnar Kristjánsson, Össur Skarphéðinsson og Björg Thorarensen sem ritaði fundargerð þessa.
    Rætt var um hvernig best væri að gera tillögur til stjórnarskrárnefndar varðandi framhald við vinnu um stjórnarskrárákvæði á þessu sviði. Ákveðið var að fela BTh að gera frumdrög að nýjum og breyttum stjórnarskrárákvæðum um efnið með hliðsjón af þeim umræðum sem hafa orðið á síðustu fundum vinnuhópsins. Í þeim umræðum var m.a. litið til nýlegra stjórnarskrárbreytinga varðandi þessi málefni í Noregi og Finnlandi. Eru tillögur vinnuhópsins í meginatriðum tvíþættar:
     1.      Tillaga yrði gerð um tvö ný ákvæði varðandi umhverfismál og auðlindir í VII. kafla stjórnarskrárinnar aftan við 78. gr. um sjálfsstjórn sveitarfélaga. Rætt var um helstu efnisatriði sem ættu að koma fram þar. Í fyrra ákvæðinu yrði fjallað um réttindi og markmið tengd umhverfinu; Þar yrði fjallað um rétt til umhverfis sem tryggi heilbrigði og líffræðilega fjölbreytni, sjálfbæra þróun og nýtingu náttúruauðlinda til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir og loks um rétt almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og til að hafa áhrif á ákvarðanir sem varða umhverfið. Í seinna ákvæðinu yrði lýst yfir að náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti séu þjóðareign og að veita megi heimild til afnota og hagnýtingar á þeim gegn gjaldi auk þess sem fjallað er um hvernig nýta skuli arð af þeim. Ákvæðið byggir í megindráttum á tillögum auðlindanefndar frá árinu 2000. Efni þessara tveggja ákvæða tengist að nokkru leyti og mætti huga að því hvort rétt er að fella þau saman í eitt stjórnarskrárákvæði.
     2.      Flest erindi sem hafa borist stjórnarskrárnefnd varðandi breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar lúta að tiltölulega afmörkuðum atriðum í mannréttindaákvæðum og endurspegla hagsmuni þeirra félagasamtaka og einstaklinga sem sent hafi inn erindi. Vinnuhópurinn telur varasamt að breyta afmörkuðum þáttum stjórnarskrárákvæðum um mannréttindi án þess að huga þá samtímis að mörgum öðrum atriðum sem einnig þyrfti að breyta til samræmis, án tillits til þess hvort erindi hafi borist þar um. Í raun þyrfti þá að fara fram ný heildarendurskoðun á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar sem eðlilegra væri að vinna í stærra samhengi. Vinnuhópurinn telur því æskilegt að skoða nánar breytingar sem hefðu almennara gildi. Hann leggur til að í inngangsákvæði í I. kafla stjórnarskrárinnar verði vísað til þess að mannréttindi séu einn hornsteina íslenskrar stjórnskipunar en tillaga þess efnis hefur þegar komið fram í starfi stjórnarskrárnefndar. Jafnframt verði sett ákvæði í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, sem kæmi á eftir umhverfis- og auðlindaákvæðunum. Þar yrði lýst yfir skyldu stjórnvalda til að virða og tryggja mannréttindi með hliðsjón af alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum sem Ísland er aðili að og að slíkum skuldbindingum skuli komið í framkvæmd samkvæmt lögum.
    Ákveðið var að tillögurnar yrðu sendar til vinnuhópsins til frekari skoðunar en síðan verði stefnt að því að leggja þær fram til umræðu á næsta fundi stjórnarskrárnefndar.
    Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 9.45.

Fundargerð (1) vinnuhóps um forseta, ráðherra o.fl.

    Ár 2006, þriðjudaginn 21. mars, kl. 17.30, kom vinnuhópur stjórnarskrárnefndar um hlutverk og stöðu forseta Íslands og ráðherra o.fl. saman til fundar í Þjóðmenningarhúsinu.
    Fundinn sátu: Jón Kristjánsson, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson, Össur Skarphéðinsson og Eiríkur Tómasson sem ritaði fundargerð þessa.
    Þetta gerðist:
     1.      Lögð voru fram ýmis gögn sem varða II. kafla stjórnarskrárinnar og hugsanlegar breytingar á þeim kafla.
     2.      Rætt var um kjör forseta Íslands. Sammæli er um það í vinnuhópnum að forseti skuli áfram vera þjóðkjörinn og að sitjandi forseti þurfi ekki meðmæli, kjósi hann að bjóða sig fram að nýju. Þá kemur til greina að fækka meðmælendum frá því sem nú er tilskilið, en gera á móti kröfur til að þeir staðfesti meðmælin, t.d. fyrir þar til bæru stjórnvaldi. Einnig kemur til álita að taka upp „írsku aðferðina“ við forsetakjör til að tryggja meiri samstöðu um þann, sem nær kjöri, án þess að kjósa þurfi tvisvar.
     3.      Þá var rætt um atbeina forseta við myndun ríkisstjórnar. Ljóst er af þingræðisreglunni, sem ástæða er til að festa í stjórnarskrá, að forseti skipar ráðherra og veitir þeim lausn í samræmi við vilja meirihluta Alþingis. Sú hugmynd kom fram að þingið eigi að fá ákveðinn frest, t.d. sex vikur, eftir að ríkisstjórn segir af sér (hvort sem það gerist á grundvelli kosningaúrslita eða af öðrum ástæðum) til að koma saman stjórn sem njóti stuðnings eða a.m.k. hlutleysis meirihluta þingmanna. Að þeim tíma liðnum hafi forseti heimild til að mynda sjálfur ríkisstjórn. Sé slíkri stjórn vottað vantraust skuli sjálfkrafa rjúfa þing, takist ekki að mynda starfhæfa ríkisstjórn þá þegar.
     4.      Samstaða er um það í vinnuhópnum að forseti sé fyrst og fremst þjóðhöfðingi og hann hafi í krafti þess hlutverks samskipti við þjóðhöfðingja annarra ríkja. Ekki sé gerlegt að takmarka svigrúm forseta til að tjá sig um mál eða skylda hann til að fylgja eða hafa hliðsjón af stefnu þings og ríkisstjórnar á hverjum tíma, enda þótt gera megi ráð fyrir að hann geri það að öðru jöfnu. Þá kemur til greina að kveða á um það í stjórnarskrá að ráðherrar/ríkisstjórn séu í raun æðstu handhafar framkvæmdarvaldsins, nema öðru vísi sé fyrir mælt í stjórnarskrá eða öðrum lögum.
    Fleira gerðist ekki.     Fundi slitið kl. 19.20.

Fundargerð (2) vinnuhóps um forseta, ráðherra o.fl.

    Ár 2006, fimmtudaginn 27. mars 2006 klukkan 17.00 kom vinnuhópur stjórnarskrárnefndar um hlutverk og stöðu forseta Íslands og ráðherra o.fl. saman til fundar í Þjóðmenningarhúsinu.
    Fundinn sátu Jón Kristjánsson, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Kristrún Heimisdóttir í forföllum Össurar Skarphéðinssonar. Þá sátu einnig fundinn Kristján Andri Stefánsson og Páll Þórhallsson sem ritaði fundargerð.
    Þetta gerðist:
    1. Mismunandi sjónarmið komu fram um það hvernig túlka bæri ákvæði núgildandi stjórnarskrár um völd forseta.
    Ekki er ágreiningur um að forsetinn hafi vald samkvæmt núgildandi 26. gr., varðandi stjórnarmyndanir og hugsanlega þingrof.
    Einnig komu fram þau viðhorf að ræða þyrfti forsetaembættið í stærra samhengi. Halda þyrfti því til haga að forsetinn gæti haft temprandi áhrif á framkvæmdarvaldið þótt ekki væri verið að leggja til að þetta vald yrði aukið. Menn mættu ekki gleyma því að úthlutun valds til ráðherra t.d. þýddi ekki að ekki mætti vera mótvægi. Aðrir drógu í efa að það gengi upp að hafa tvískipt framkvæmdarvald þar sem annar aðilinn tempraði hinn. Rætt var um hvaða þýðingu undirritun forseta undir til dæmis embættisskipanir hefði. Hvort um hreint formsatriði væri að ræða og þá hvaða afleiðingar synjun hefði.
    Rætt var um að ekki ætti að eyða of miklu púðri í umræðu um það hver réttarstaðan væri nú heldur snúa sér að því hvernig menn vildu að hún væri.
    2. Fram kom það viðhorf og var því ekki andmælt að væri hróflað við ákvæðum stjórnarskrár um forseta og ráðherra þá þyrfti að kveða skýrt að orði.
    3. Sammæli var um forsetinn ætti ekki að fá aukið pólitískt hlutverk.
    Sumir töldu að samt gæti forseti haft hlutverk þegar kæmi að því að standa vörð um grundvallargildi og varna gegn misbeitingu valds.
    Þá var rifjað upp frá síðasta fundi að sammæli væri um að forseti skyldi hafa hlutverk við að tryggja starfhæfa ríkisstjórn.
    Sammæli var um að forseti ætti einn að undirrita skipunarbréf forsætisráðherra. Það væri óeðlilegt að forsætisráðherra meðundirritaði sitt eigið skipunarbréf. Síðan gæti forsætisráðherra einn undirritað skipunarbréf annarra ráðherra.
    Fram kom að rétt kynni að vera að forseti hefði áfram málskotsrétt varðandi nýsamþykkt lög og voru ýmsar útfærslur nefndar í því sambandi án þess að þær væru ræddar til þrautar.
    Þá kom fram sú hugmynd að forseti gæti haft hlutverki að gegna við mat á því hvort nauðsyn stæði til útgáfu bráðabirgðalaga.
    4. Sammæli var um að ekki væri ástæða til að breyta því fyrirkomulagi að ráðherrar færu með vald hver á sínu sviði. Hins vegar mætti tilgreina að í einstaka tilfellum þyrfti samþykki ríkisstjórnar eins og til dæmis varðandi mikilvæga milliríkjasamninga.
    Þá var rætt um hvort það væri æskilegt að ríkisstjórnir hefðu meira svigrúm við ákvörðun fjölda ráðherra en skiptar skoðanir voru um það efni.
    Fleira var ekki rætt

Fundargerð (3) vinnuhóps um forseta, ráðherra o.fl.

    Ár 2006, fimmtudaginn 1. júní klukkan 17.00 kom vinnuhópur stjórnarskrárnefndar um hlutverk og stöðu forseta Íslands og ráðherra o.fl. saman til fundar í Þjóðmenningarhúsinu.
    Fundinn sátu Jón Kristjánsson, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson, auk Eiríks Tómassonar sem ritaði fundargerð.
    Þetta gerðist:
    1. Fundargerð síðasta fundar var lögð fram.
    2. Rætt var um dagskrá fyrirhugaðs fundar í stjórnarskrárnefnd 23. júní nk. Formaður taldi nauðsynlegt að halda annan fund í vinnuhópnum fyrir þann fund, þannig að skýrari línur liggi þá fyrir um afstöðu þeirra, sem vinnuhópinn mynda, til þeirra atriða sem hópnum er ætlað að fjalla um. Að loknum umræðum var samþykkt að stefna að því að fundurinn verði haldinn 15. júní nk., kl. 17. *
    Fleira var ekki rætt. Fundi slitið kl. 17.50.
VIÐAUKI 2
ÁGRIP AF ÞRÓUN

STJÓRNARSKRÁRINNAR
18

Sérfræðinganefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar:

Eiríkur Tómasson prófessor

Björg Thorarensen prófessor
Gunnar Helgi Kristinsson prófessor
Kristján Andri Stefánsson sendifulltrúi
Unnið að beiðni nefndar um endurskoðun
stjórnarskrár lýðveldisins ÍslandsDesember 2005Efnisyfirlit


1.     Inngangur          62
2.     Stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands (1874–1920)          62
3.     Stjórnarskrá konungsríkisins Íslands 1920 og þróun hennar (1920–1944)          66
4.     Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands 1944 (1944– )          69
5.     Einstök álitaefni          80
6.     Niðurstaða          86
1. Inngangur
    Þrjár stjórnarskrár hafa tekið gildi á Íslandi. Sú fyrsta var stjórnarskráin 1874 sem veitti Alþingi löggjafarvald og aðskildi þar með löggjafarvaldið í málefnum Íslands að nokkru leyti frá því danska þótt konungur hefði að vísu neitunarvald í löggjafarmálefnum og skipaði helming efri deildar þingsins. Aðra stjórnarskrá sína fengu Íslendingar árið 1920 í kjölfar þess að íslenska ríkið hafði orðið fullvalda árið 1918. Sjálfstæði Íslands að alþjóðalögum var þar með staðreynd þótt ríkið væri áfram í konungssambandi við Danmörku og ríkin tvö hefðu samstarf um ýmis mál. Í samræmi við ákvæði sambandslagasamningsins árið 1918 ákváðu Íslendingar síðan að rjúfa samband ríkjanna að tilskildum tíma liðnum og stofna lýðveldi árið 1944. Við það tækifæri var ríkinu sett ný stjórnarskrá. Þrátt fyrir þrjár stjórnarskrár einkennist samt stjórnskipuleg þróun Íslands af samfellu. Ýmsar breytingar urðu á stjórnarskránum, með setningu stjórnskipunarlaga, 19 án þess að ný stjórnarskrá tæki gildi. Eins voru eldri stjórnlög uppistaðan í þeim stjórnarskrám sem tóku gildi 1920 og 1944.
    Tilgangur þessarar ritgerðar er einkum tvíþættur. Annars vegar að taka sama yfirlit yfir helstu breytingar á stjórnarskrám Íslands frá 1874 og tillöguflutning um stjórnarskrármálefni á Alþingi. Hins vegar að skoða með hvaða hætti gengið hefur verið til verka við aðlögun stjórnarskrárinnar og kanna hvað einkennt hefur endurskoðunarvinnuna frá því lýðveldisstjórnarskráin var sett 1944. Hluti ritgerðarinnar er fenginn úr riti Gunnars Helga Kristinssonar, Þróun íslensku stjórnarskrárinnar, sem út kom 1994 og viðbótum við þann texta sem áætlað er að birta í kennslubók í stjórnmálafræði sem er í smíðum. Hluti efnisins er hins vegar frumsaminn. Við þá vinnu var mikið stuðst við ljósritað safn texta úr Alþingistíðindum sem tekið var saman af Mannréttindastofnun Háskóla Íslands árið 2003. Þar hefur verið safnað saman öllum helstu tillögum um stjórnarskrármálefni á Alþingi frá því árið 1874.

2. Stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands (1874–1920)
    Íslendingar fengu sína fyrstu stjórnarskrá árið 1874. 20 Fyrstu eiginlegu stjórnarskrárnar höfðu litið dagsins ljós í Bandaríkjunum og Frakklandi innan við hundrað árum áður og endurspegluðu vaxandi andstöðu við harðstjórn og óheft ríkisvald. Hugmyndagrunnur stjórnarskrárinnar er byggður á ýmsum þáttum frjálslyndrar stjórnmálahugsunar í Evrópu eins og hún þróaðist á átjándu og nítjándu öld. Sérstakar aðstæður hafa hins vegar á Íslandi – eins og í öllum öðrum ríkjum – sett mark sitt á þróun stjórnarskrárinnar.
    Afnám einveldisins í Danmörku árið 1848 leiddi til óvissu um stöðu Íslands innan konungsríkisins. Forystumenn Íslendinga litu svo á að samband landanna tveggja hlyti að breytast við þetta því að það hefði grundvallast á konungdæminu og því hlytu Íslendingar sjálfir að fá að ráða grundvallarþáttum sinnar stjórnskipunar. Dönsk stjórnskipun og dönsk lög ættu ekki að ná til Íslands. Á þetta sjónarmið gátu dönsk stjórnvöld ekki fallist. Þau töldu Ísland vera hluta danska ríkisins og að danska stjórnarskráin ætti að ná til Íslands líka. Þessi deila leiddi til þess að breytingar urðu ekki á stjórnskipun Íslands fyrr en nokkrum áratugum eftir afnám einveldisins í Danmörku.
    Árið 1871 staðfesti konungur stöðulögin þar sem staða Íslands í danska ríkinu var skilgreind þannig að Ísland væri óaðskiljanlegur hluti Danaveldis með sérstökum landsréttindum. Í kjölfarið voru gerðar miklar breytingar á stjórnsýslu Íslands. Yfir embættismannakerfið á Íslandi var settur landshöfðingi sem hafði að ýmsu leyti víðtækari völd en stiftamtmenn höfðu haft áður. Miðstjórnarvaldið innan embættismannakerfisins var þannig eflt. Á sama tíma voru hins vegar gerðar breytingar á sveitarstjórnarmálum, ekki ósvipaðar ýmsum breytingum sem skömmu áður höfðu komið til framkvæmda í Danmörku og stuðluðu að auknu lýðræði og valddreifingu. Þannig fóru nú hreppsnefndir með málefni hreppanna, sýslunefndir með ýmis af málefnum sýslnanna og amtsráð höfðu umsjón með amtsmálefnum. Um málefni hvers kaupstaðar um sig giltu hins vegar sérstök lög.
    Í kjölfar stöðulaganna var Íslandi gefin stjórnarskrá um sérmálefni sín á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar, árið 1874. Með henni var Alþingi fengið löggjafarvald í sérmálum Íslands sem takmarkaðist af neitunarvaldi konungs (sem ráðherra fór með). Framkvæmdarvaldið var hins vegar hluti af dönsku stjórnsýslunni og yfir það var settur sérstakur Íslandsráðherra en því embætti gegndi dómsmálaráðherra Dana. Framkvæmdarvald undir yfirstjórn Íslendinga varð ekki til fyrr en með heimastjórn sem komst á 1904. Ekki voru gerðar breytingar á skipan dómsvaldsins á Íslandi í stjórnarskránni 1874 utan það að kveðið var á um almennt hlutverk þess og sérstakt ákvæði fjallaði um brottvikningu dómara sem ekki höfðu umboðsstörf á hendi. Ekkert fyrirheit var að finna í henni um aðskilnað framkvæmdarvalds og dómsvalds sambærilegt við það sem sett hafði verið í dönsku stjórnarskrána 1849. Hæstiréttur Dana var áfram æðsti dómstóll Íslands til 1920 þegar Hæstarétti Íslands var komið á fót. Þær umbætur í dómsmálum, sem komust til framkvæmda í Danmörku á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, náðu þannig ekki til Íslands.
    Sú stjórnarskrá, sem konungur gaf Íslandi árið 1874, var að miklu leyti samin upp úr dönsku stjórnarskránni. Á Alþingi árin 1867, 1869 og 1871 hafði stjórnin lagt fram stjórnarskrárfrumvörp sem í mörgum atriðum líktust stjórnarskránni sem konungur síðan gaf 1874. Ýmislegt í athugasemdum og tillögum Alþingis virðist hafa haft áhrif á útfærslu stjórnarskrárinnar í endanlegri gerð. Hins vegar náðist ekki samkomulag á milli Alþingis og stjórnarinnar um stjórnarskrána sjálfa og var hún því á endanum gefin einhliða af konungi, af „frjálsu fullveldi“ hans, eins og það var orðað. Íslendingar voru ósáttir við þá aðferð sem viðhöfð var við að setja landinu stjórnarskrá. Efnislegur ágreiningur þeirra við ákvæði stjórnarskrárinnar snerti hins vegar fyrst og fremst stöðu framkvæmdarvaldsins.
    Samkvæmt stjórnarskránni 1874 skyldi framkvæmdarvaldið vera hjá konungi en hann láta ráðgjafann (ráðherrann) fyrir Ísland framkvæma það vald. Æðsta framkvæmdarvald innanlands skyldi hins vegar vera í höndum landshöfðingja, skipuðum af konungi, sem starfaði á ábyrgð ráðgjafans. Ákvæði stjórnarskrárinnar um með hvaða hætti hægt væri að láta ráðgjafann eða landshöfðingja sæta lagalegri ábyrgð voru óljós og um pólitíska ábyrgð var að ekki að ræða frekar en í Danmörku á þeim tíma. Alþingi hafði 1871 óskað eftir innlendu framkvæmdarvaldi, með aðsetri á Íslandi, þar sem landsstjóri eða jarl framkvæmdi vald konungs og bæri ábyrgð á stjórnarathöfnum.
    Krafan um þingræði, í merkingunni stjórn með pólitískt umboð frá þinginu, var ekki meðal meginkrafna þjóðernishreyfingarinnar á nítjándu öld. Stjórnarábyrgð virðist yfirleitt hafa vísað til lagalegrar ábyrgðar fremur en pólitískrar ábyrgðar fyrir þjóðkjörnu þingi. Ekki var t.d. gerð krafa um þingræði í hinu endurskoðaða stjórnarskrárfrumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi 1881 og árin þar á eftir. Þingræðiskrafan varð ekki hluti af stjórnarskrárbaráttunni fyrr en með miðluninni 1889 og í kjölfar hennar. 21
    Stjórnarskráin, sem Ísland fékk árið 1874, bar sterkt svipmót þeirrar stjórnarskrár sem þá gilti í Danmörku, þ.e. stjórnarskrárinnar frá 1866. Það á einkum við um störf þingsins, bæði að opinberum fjármálum og löggjöf sem og um mannréttindaákvæði og ýmis meginatriði um dómsvaldið. Meðal þess sem skilur á milli er að ákvæði um þingkosningar voru að ýmsu leyti frábrugðin og það stafaði að hluta til af því að danska þingið starfaði í deildum sem kosnar voru með ólíkum hætti. Einnig má nefna að nánar er fjallað um konungsvaldið og framkvæmdarvaldið yfirleitt í dönsku stjórnarskránni auk þess sem staða landshöfðingja greindi að sjálfsögðu stjórnskipun Íslands frá þeirri dönsku. Íslenska stjórnarskráin var mjög ófullkomin varðandi útnefningu, störf og ábyrgð ráðherra. Sem dæmi má nefna að ekkert ákvæði var í íslensku stjórnarskránni um landsdóm þar sem kæra mætti ráðherra fyrir embættisfærslu þeirra líkt og finna mátti í dönsku stjórnarskránni. Loks vantaði í íslensku stjórnarskrána ákvæði um aðskilnað framkvæmdarvalds og dómsvalds líkt og finna mátti í þeirri dönsku og ákvæðin um trúfrelsi voru ófullkomnari í þeirri íslensku en þeirri dönsku.
    Með stjórnarskránni 1874 höfðu Íslendingar fengið nútímalegt stjórnarform á þeirra tíma mælikvarða, þ.e. stjórnarskrárbundna konungsstjórn (þótt það orðalag komi að vísu ekki fyrir í stjórnarskránni). Jafnframt höfðu þeir fengið visst sjálfstæði frá Dönum sem átti eftir að aukast síðar meir. Stjórnskipun sú og stjórnkerfi, sem mótaðist á Íslandi síðari hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu, var hins vegar mjög mótað að danskri fyrirmynd. Það á ekki bara við um stóran hluta stjórnarskrárinnar heldur einnig að ýmsu leyti um stjórnsýsluna, þingið og dómskerfið.
    Ýmislegt var fundið að stjórnarskránni sem konungur gaf 1874, einkum hvað varðar skortinn á innlendu framkvæmdarvaldi. Engu að síður þótti leiðtogum sjálfstæðisbaráttunnar það almennt skref í framfaraátt að fá stöðu Íslands gagnvart Danmörku skilgreinda. Í framhaldinu varð það megináhersla sjálfstæðisbaráttunnar að fá innlent framkvæmdarvald þótt hugmyndir manna um með hvaða hætti því skyldi skipað væru um sumt mismunandi eða óljósar. Um meginatriði frjálslyndrar stjórnskipunar, svo sem um skiptingu valdsins og frelsi þjóðfélagsþegnanna, virðist hins vegar takmörkuð umræða hafa átt sér stað. Í rauninni má segja að hugmyndir manna hér á landi hafi gengið út á að gera íslensku stjórnarskrána líkari þeirri dönsku, einnig hvað framkvæmdarvaldið varðar, frekar en ólíkari.
    Frá árinu 1881 urðu stjórnarskrármálefni tilefni margháttaðs tillöguflutnings á Alþingi sem í meginatriðum endurspeglar viðleitni íslenskra stjórnmálamanna til að knýja á um aukin réttindi Íslendinga í sambúðinni við Danmörku, einkum hvað framkvæmdarvaldið varðar.

Tafla 1. Tillögur á Alþingi um breytingar á stjórnarskránni um hin sjerstaklegu málefni Íslands frá 5. janúar 1874

     *      1881. Þingsályktunartillaga um skipun nefndar til að íhuga stjórnarskrá um hin sjerstaklegu málefni Íslands og frumvarp nefndar um það efni.
     *      1883. Frumvarp til endurskoðaðra stjórnskipulaga um hin sjerstaklegu málefni Íslands.
     *      1885. Frumvarp til stjórnskipunarlaga um hin sjerstaklegu málefni Íslands
     *      1886. Frumvarp til stjórnskipunarlaga um hin sjerstaklegu málefni Íslands.
     *      1887. Frumvarp til stjórnskipunarlaga um hin sjerstaklegu málefni Íslands. Einnig frumvarp til laga um breytingu á 15. gr. stjórnarskrárinnar um tölu þingmanna í efri og neðri deild alþingis.
     *      1889. Frumvarp til stjórnskipunarlaga um hin sjerstaklegu málefni Íslands. Einnig frumvarp til stjórnskipunarlaga um breyting á 14. og 15. gr. stjórnarskrár og annað um afnám fastra eptirlauna.
     *      1891. Frumvarp til stjórnskipunarlaga um hin sjerstaklegu málefni Íslands. Frumvarp til stjórnskipunarlaga um breytingu á 3., 10. og 25. gr. stjórnarskrárinnar. Frumvarp til laga um breytingu á 14. gr. og 15. gr. stjórnarskrárinnar.
     *      1893. Frumvarp til stjórnskipunarlaga um hin sjerstöku málefni Íslands.
     *      1894. Frumvarp til stjórnskipunarlaga um hin sjerstöku málefni Íslands.
     *      1895. Frumvarp til stjórnskipunarlaga um hin sjerstöku málefni Íslands. Einnig þingsályktanir um stjórnarskrármálið á því þingi.
     *      1897. Tvö frumvörp til stjórnskipunarlaga um breytingar á stjórnarskrá um hin sjerstaklegu málefni Íslands.
     *      1899. Frumvarp til stjórnskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands.
     *      1901. Tvö frumvörp til stjórnskipunarlaga um hin sérstaklegu málefni Íslands auk þingsályktunartillögu um stjórnarskrármálið.
     *      1902. Frumvarp til stjórnskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá um hin sjerstaklegu málefni Íslands.
     *      1903. Frumvarp til stjórnskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá um hin sjerstaklegu málefni Íslands.
     *      1907. Frumvarp til stjórnskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá um hin sjerstaklegu málefni Íslands með áorðnum breytingum.
     *      1909. Frumvarp til stjórnskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá. (Sjá einnig frumvarp til laga um samband Danmerkur og Íslands.)
     *      1912. Frumvarp til stjórnskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá. Einnig þingsályktunartillaga um stjórnarskrármálið.
     *      1913. Frumvarp til stjórnskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá um hin sjerstaklegu málefni Íslands.
     *      1914. Frumvarp til stjórnskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá. Einnig þingsályktunartillaga um að skipa nefnd í stjórnarskrármálið.
     *      1915. Þingsályktunartillögur um stjórnarskrármál og um staðfestingu stjórnarskrárinnar.
     *      1918. Tillögur til þingsályktana um skipan nefnda til að íhuga sjálfstæðismál landsins.
Heimild: Alþingistíðindi.

    Breytingar á stjórnarskránni náðust þó einungis fram tvisvar, það er 1903 og 1915. Fyrri breytingin varð í tengslum við upphaf heimastjórnar á Íslandi (innlent framkvæmdarvald) en sú síðari þegar almennur kosningarréttur var innleiddur.

    1903
    Þetta ár voru gerðar þær breytingar á stjórnarskránni sem nauðsynlegar voru vegna heimastjórnar á Íslandi. Hér komu inn ákvæði um ráðherra sem vantað hafði í stjórnarskrána frá 1874, alþingismönnum var fjölgað, kosningarréttur karla rýmkaður, auk þess sem nokkrar minniháttar breytingar voru gerðar á einstökum greinum stjórnarskrárinnar.

    1915
    Ýmsum ákvæðum um ráðherra var breytt þetta ár, meðal annars um að fjölga mætti ráðherrum, ákvæði um landsdóm kom inn í stjórnarskrána og ákvæði um rétt embættismanna til eftirlauna við brottvikningu eða flutning milli embætta var fellt út úr stjórnarskrá. Rétturinn til að gefa út bráðabirgðalög var takmarkaður. Konungkjör þingmanna var afnumið en landskjör tekið upp í staðinn til þeirra sex þingsæta í efri deild sem konungur hafði áður skipað í. Kosningarréttur karla og kvenna var gerður almennur nema fyrir sveitarstyrkþega þótt hann skyldi koma til framkvæmda í áföngum, samkvæmt tiltekinni tímaáætlun. Innleitt var ákvæði um að enginn skyldi gjalda til annarrar guðsdýrkunar en þeirrar sem hann sjálfur aðhylltist. Ýmsar smávægilegri breytingar voru jafnframt gerðar á öðrum ákvæðum stjórnarskrárinnar.

3. Stjórnarskrá konungsríkisins Íslands 1920 og þróun hennar (1920–1944)
    Á þinginu 1919 lagði Jón Magnússon forsætisráðherra fram frumvarp að stjórnarskrá konungsríkisins Íslands. Af umræðum í þinginu má ráða að hann hafi sjálfur skrifað texta stjórnarskrárinnar og haft til hliðsjónar stjórnarskrár ýmissa annarra ríkja. Í framsöguræðu benti hann á að þótt ekki væru gerðar margar breytingar á því skipulagi, sem fyrir væri, þyrfti samt óhjákvæmilega að taka stjórnarskrána til skoðunar enda hvíldi hún nú á grundvelli fullveldisins í stað stöðulaganna frá 1871 áður. Frumvarpið sætti ýmsum breytingum í meðförum þingsins en fæstar voru þó stórvægilegar. Nokkrar deilur urðu um hvort binda ætti kosningarrétt fimm ára búsetuskilyrði og varð sú niðurstaðan þótt ekki hafi verið gert ráð fyrir því í upphaflegu frumvarpi.
    Á þinginu 1919 voru gerðar þær breytingar á stjórnarskránni sem leiddu af fullveldi Íslands en samþykkt stjórnarskrá var síðan aftur lögð fram til staðfestingar 1920 og tók þá gildi. Þessar breytingar vörðuðu meðal annars stjórnskipun ríkisins, konungsvaldið, ráðherra og ríkisstjórn. Konungi var falið að gera samninga við önnur ríki. Ákvæði um eftirlaun embættismanna var innleitt á ný. Alþingi skyldi koma saman hvert ár. Fallið var frá tímaáætlun um rýmkun kosningarréttar og kosningaaldur festur við 25 ár. Heimilað var að innleiða hlutfallskosningar í Reykjavík og að fjölga þingmönnum með lögum. Innleitt var sérstakt ákvæði um að útlendingar gætu ekki fengið ríkisborgararétt á Íslandi nema með lögum og að heimildum útlendinga til að eiga fasteignarréttindi hér á landi skyldi skipað með lögum. Ýmsar smávægilegri breytingar voru einnig gerðar þetta ár. Almennt má segja um þær breytingar, sem gerðar voru á stjórnskipaninni 1903, 1915 og 1920, að þær voru mjög í anda dönsku stjórnarskrárinnar og sennilega hefur stjórnarskráin – þrátt fyrir íslenskt fullveldi 1918 – hvorki fyrr né síðar verið líkari þeirri dönsku heldur en eftir breytingarnar 1920.
    Ýmsar af þeim ákvörðunum, sem ekki var rætt mikið um í tengslum við stjórnarskrána 1920, vörðuðu engu að síður mikilsverð atriði. Hvergi er í stjórnarskránni minnst á þingræði en fyrsta grein hennar hljóðaði hins vegar svo: „Stjórnskipulagið er þingbundin konungsstjórn.“ Ekkert hliðstætt ákvæði var í stjórnarskránni 1874 og þótt þingræðisreglan hafi verið innleidd 1904 finnst þess hvergi stoð í stjórnarskránni það ár. Ólafur Jóhannesson bendir réttilega á að orðalagið „þingbundin“ lögfesti ekki þingræðisregluna á Íslandi. 22 Þá vaknar engu að síður sú spurning hvaða stjórnskipunarreglu höfundar stjórnarskrárinnar hafi ætlað sér að innleiða með þessu ákvæði. Hvergi í umræðum á Alþingi er að finna viðhlítandi skýringu á þessu orðalagi að öðru leyti en því að í athugasemdum með frumvarpinu er sagt að þessi grein geri „enga efnisbreytingu á þeirri skipan, sem nú er, svo langt sem hún nær.“ 23 Í samsvarandi grein dönsku stjórnarskrárinnar á þessum tíma segir „regeringsformen er indskrænket-monarkisk“ sem í enskum útgáfum stjórnarskrárinnar er kallað „constitutional monarchy“. Stjórnarskrárbundin konungsstjórn á rætur í deilum þings og krúnu í Englandi á sautjándu öld og er mun eldri en hin eiginlega þingræðisregla sem felur í sér að þing geti vikið forystu framkvæmdarvaldsins frá að vild. Stjórnarskrárbundin stjórn felur í meginatriðum í sér að ríkisstjórn er bundin af lögum og ýmsum ákvörðunum löggjafarvaldsins. Slíka reglu var að finna í dönsku stjórnarskránni frá 1849 þótt þingræði kæmist ekki á í Danmörku fyrr en 1901. Í raun virðist því eðlilegast að líta svo á að orðalagið „þingbundin“ stjórn vísi til þess að framkvæmdarvaldið þurfi að fara að lögum og sé á ýmsan annan hátt bundið ákvörðunum þings (t.d. fjárveitingavaldi þess) en feli ekki í sér þingræðisregluna. Ólafur Lárusson þýðir regluna sem „constitutional government“ í yfirlitsgrein um íslenska stjórnskipun á ensku. 24 Einhver vafi virðist samt leika á þessu því í enskri útgáfu stjórnarskrárinnar á vef stjórnarráðsins er orðalagið „parliamentary government“ (þ.e. þingræðisstjórn) notað. 25 Einnig má færa rök að því að höfundar lýðveldisstjórnarskrárinnar 1944 hafi talið sig vera að festa þingræðisregluna í stjórnarskrá því í greinargerð með stjórnarskrárfrumvarpinu segir um 1. gr. stjórnarskrárinnar: „Hér er sagt, hvert stjórnskipulagið skuli vera. Lýðveldisstjórn kemur í stað konungsstjórnar áður. Eftir sem áður er tekið fram, að stjórnin skuli vera þingbundin og er það nauðsynlegt m.a. til þess, að þingið haldi rétti sínum til áhrifa á skipun og lausn ráðherra.“ 26
    Annað sem vekur athygli í umræðum um stjórnarskrárfrumvarpið 1919 er að í upphaflegum drögum þess er gert ráð fyrir að afl atkvæða ráði í ríkisstjórn. 13. gr. stjórnarskrárinnar átti samkvæmt upphaflegu frumvarpi að hljóða svo:

              Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og halda ráðherrafund, er einhver ráðherranna óskar að bera þar upp mál. Á fundum þessum ræður afl atkvæða. Fundunum stjórnar sá ráðherra, er konungur hefur kvatt til forsætis, Sá ráðherra, er forsætið skipar, nefnist forsætisráðherra. 27

    Tillagan um að afl atkvæða réði á ráðherrafundum var gagnrýnd af ýmsum þingmönnum og felld út í lokagerð stjórnarskrárinnar. Benedikt Sveinsson hafði framsögu um álit þingnefndar um málið og sagði þar meðal annars.

             Þá er brtt. við 13. gr. að orðin: „Á fundum þess ræður afl atkvæða“ falli burt. Nefndin var á einu máli um það, að þetta ákvæði gæti tæplega staðist, að afl atkvæða skuli ráða á ráðherrafundum, því að ef svo færi, að forsætisráðherra yrði í minni hluta, mundi hann verða að biðjast lausnar. En það mun þó ekki vera tilætlunin. 28

    Tillögu sína um að afl atkvæða skyldi ráða á ríkisstjórnarfundum rökstuddi Jón Magnússon svo:

             Ef þetta ákvæði á að falla burtu, þá skil ég satt að segja ekki, að ráðherrafundirnir hafi þá þýðingu, að taka eigi ákvæði um þá í stjórnarskrána.
             Háttv. frsm. meiri hl. (B.Sv.) talaði um það í ræðu sinni að þetta ákvæði gæti valdið óþægindum, ef báðir hinir ráðherrarnir yrðu á móti forsætisráðherra. Og hann spurði, hvað þá ætti að gera. Þar er því til að svara, að einu gildir hver af ráðherrunum í hlut á. Sá þeirra sem verður í minni hluta, verður að beygja sig, ef hann telur ágreiningsatriðið ekki mjög mikilvægt. Að öðrum kosti lætur hann ekki undan og biður um lausn. Mjer finnst þetta vera auðskilið mál, og er enda venja hvar sem er.

             … En vilji menn nú ekki halda þessu ákvæði um afl atkvæða, þá verða þessir ráðherrafundir ekki annað en samtalsfundir, og verða þá ekki svo merkilegir, að rjett sje að setja um þá ákvæði í stjórnarskrána.
29

    Umræður um breytingar á stjórnarskrá á þriðja áratug tuttugustu aldarinnar snerust einkum um fækkun ráðherra og þinghald annað hvert ár. Þessar umræður endurspegluðu mikinn sparnaðaranda sem ríkti í þinginu á þessum tíma. Í upphafi fjórða áratugarins var hins vegar kosningakerfið komið á dagskrá og það átti eftir að móta mjög allar umræður um breytingar á stjórnarskrá það sem eftir lifði aldarinnar.

Tafla 2. Tillögur um breytingar á stjórnarskrá konungsríkisins Íslands 1920–1942

Þing Flutningsm. Meginefni Afdrif
1923 Magnús Guðms. Fækkun ráðherra og og þinghald annað hvert ár Fellt
1924 Jónas Jónsson o.fl. Þinghald annað hvert ár og fækkun ráðherra Ekki útr.
1924 Jón Magnússon Þinghald annað hvert ár og fækkun ráðherra Fellt
1927 Héðinn Valdims. Jafn kosningarréttur, landið eitt kjördæmi, þing ein málstofa, birting milliríkjasamn. o.fl. Ekki útr.
1927 Stjórnarfrumvarp Þinghald annað hvert og lenging kjört.b. í 6 ár Samþykkt
1927 Tryggvi Þórhs. Þing annað hvert ár Ekki útr.
1928 Stjórnarfrv. (í samr.
v. fyrirmæli stjskr.)
Sama frv. og samþ. árið áður Fellt
1931 Stjórnarfrumvarp Fækkun þingmanna með afnámi landskjörs, lækkun kosningaaldurs Ekki útrætt
1931 Jón Þorláksson o.fl. Jafnvægi atkvæða og rýmkun atkvæðisréttar (aldur og sveitarstyrkur) Tekið af dagskrá
1932 Jón Þorláksson,
Jón Baldvinsson,
Pétur Magnússon
Jafnvægi atkvæða og rýmkun atkvæðisréttar Ekki útrætt
1933 Stjórnarfrumvarp Uppbótarþingsæti, rýmkun atkvæðisréttar o.fl. Samþykkt
(kosningar á milli)
1933 Jón Baldvinsson Landið eitt kjördæmi afnám deildarskiptingar Alþingis, rýmkun atkvæðisréttar o.fl. Ekki útrætt
1942 Ásgeir Ásgeirsson o.fl. Kjördæmabreyting Samþykkt
(kosningar á milli)
1942 Stjórnarfrumvarp Breyting á stjórnarskrá með afbrigðilegum hætti Samþykkt
Heimild: Alþingistíðindi.

    Tvisvar voru gerðar breytingar á stjórnarskránni frá 1920 áður en lýðveldisstjórnarskráin 1944 tók við. Meirihluti fékkst fyrir stjórnarskrárbreytingu einnig árið 1927 en sú breyting hlaut ekki staðfestingu hjá nýju þingi eftir kosningar. Breytingarnar 1934 og 1942 voru þessar helstar:

    1934
    Þær breytingar voru helstar gerðar á stjórnarskránni árið 1934 að kjördæmaskipunin var fest í stjórnarskrá, þingmönnum var fjölgað, jöfnunarsæti voru tekin upp en landskjör afnumið, kosningarréttur lækkaður í 21 ár, ákvæði um að sveitarstyrkþegar skyldu ekki njóta kosningarréttar var afnumið og fjárlög skyldu lögð fyrir sameinað þing.

    1942
    Kosningafyrirkomulagi var breytt með stjórnarskrárbreytingu 1942 og síðar á árinu var samþykkt frávik frá ákvæðum stjórnarskrárinnar um stjórnarskrárbreytingu sem gerði landsmönnum kleift að samþykkja breytingar á stjórnarskránni vegna sambandsslitanna við Dani í þjóðaratkvæðagreiðslu.

4. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands 1944 (1944– )
    
Samkvæmt dansk-íslensku sambandslögunum frá 1918 gátu hvort heldur sem er danska þingið eða Alþingi krafist endurskoðunar sambands ríkjanna eftir árslok 1940. Væri nýr samningur ekki gerður innan þriggja ára gæti hvor aðili um sig krafist þess að hann skyldi úr gildi felldur. Slík ákvörðun krafðist þó .? hluta atkvða í hvorri deild danska þingsins eða í sameinuðu Alþingi og að ¾ hluta kjósenda staðfestu síðan þá ákvörðun í atkvæðagreiðslu þar sem að minnsta kosti ¾ hlutar kjósenda tækju þátt. 30
    Ef einhver vafi lék upphaflega á því í hugum íslenskra stjórnmálamanna með hvaða hætti sambandið við Dani ætti að þróast varð sífellt ljósara eftir því sem nær dró þeim dagsetningum, sem tilteknar voru í sambandslögunum, að til sambandsslita myndi koma. Í upphafi árs 1940 skipaði forsætisráðherra nefnd til að semja frumvarp að nýrri stjórnarskrá og hafði hún lokið verki sínu um mitt ár. 31 Ekki varð þó af því að frumvarpið væri lagt fram á Alþingi. Í millitíðinni hafði Danmörk verið hertekin af Þjóðverjum og í kjölfar þess ályktaði Alþingi um yfirtöku Íslendinga á meðferð konungsvalds, utanríkismála og landhelgisgæslu, 10. apríl 1940. Mánuði síðar var Ísland hernumið af Bretum.
    Árið 1941 lagði ríkisstjórnin fram á Alþingi þrjár þingsályktunartillögur þar sem lýst var yfir
     *      að Ísland hefði öðlast rétt til sambandsslita og jafnframt vilja Alþingis til sambandsslita við Danmörku
     *      að Alþingi myndi kjósa ríkisstjóra til eins árs í senn til að fara með æðsta vald í málefnum ríkisins
     *      að Alþingi stefndi á lýðveldisstofnun jafnskjótt og sambandinu við Danmörku yrði formlega slitið. 32
    Í maí 1942 samþykkti Alþingi eftirfarandi þingsályktun:

              Alþingi ályktar að kjósa 5 manna milliþinganefnd til þess að gera tillögur um breytingar á stjórnskipunarlögum ríkisins í samræmi við yfirlýstan vilja Alþingis um, að lýðveldi verði stofnað á Íslandi, og skili nefndin áliti nógu snemma til þess að málið geti fengið afgreiðslu á næsta Alþingi. Nefndin kýs sér sjálf formann. Nefndarkostnaður greiðist úr ríkissjóði. 33

    Í nefndina voru kosnir tveir fulltrúar frá bæði Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki en einn frá Alþýðuflokki. Enginn fulltrúi Sósíalistaflokksins var kosinn í nefndina. Virðist ætlun þingsins hafa verið að hraða viðskilnaðinum við Dani og ekki nauðsynlega bíða þess að sá frestur, sem tilskilinn var, í sambandslögunum væri útrunninn. Upp úr miðjum júlí hafði nefndin gengið frá uppkasti að nýrri stjórnarskrá. Þessi áform mættu nokkurri andstöðu innanlands en meiru skipti þó að Bretar og Bandaríkjamenn voru þeim andsnúnir. Voru þau því lögð á hilluna í bili.
    Í september 1942 var samþykkt frumvarp til stjórnskipunarlaga sem heimilaði að breyta stjórnarskránni með afbrigðilegum hætti, þ.e. með samþykkt eins þings og meirihluta kosningarbærra manna í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Þó er óheimilt“ eins og segir í stjórnskipunarlögunum „að gera með þessum hætti nokkrar aðrar breytingar á stjórnarskránni en þær, sem beinlínis leiðir af sambandsslitum við Danmörku og því, að Íslendingar taka með stofnun lýðveldis til fullnustu í sínar hendur æðsta vald í málefnum ríkisins“. 34
    Jafnframt var samþykkt þingsályktunartillaga um fjölgun í stjórnarskrárnefndinni í átta og höfðu þá allir stjórnmálaflokkar tvo fulltrúa í henni. Nefndin skilaði áliti sínu og frumvarpi að stjórnarskrá til forsætisráðherra í apríl 1943 en lagði til að gildistaka yrði miðuð við 17. júní 1944 enda væri þá fullnægt þeim tímafresti sem gefin var í sambandslögunum frá 1918. Samstaða var í nefndinni um önnur atriði en heiti forseta (ríkisforseti eða forseti lýðveldisins) og val á forseta (þingkjörinn eða þjóðkjörinn). Meirihluti nefndarinnar hallaðist að heitinu forseti lýðveldisins og að hann skyldi þingkjörinn. Vilji nefndarmeirihlutans varð þó ekki ofan á hvað þessi atriði varðar. Heiti embættis forseta er forseti Íslands (þótt forseti lýðveldisins komi einnig fyrir í stjórnarskrá) og á endanum varð ofan á að hafa forsetann þjóðkjörinn eftir að sú hugmynd hafði fengið frekar dræmar undirtektir hjá almenningi að forsetinn yrði þingkjörinn. Í þinginu var deilt um ýmis fleiri atriði málsins, meðal annars hvort forseti ætti að hafa frestandi synjunarvald við lagasetningu (eins og forsætisráðherra utanþingstjórnarinnar, Björn Þórðarson, lagði til) eða málskotsrétt til þjóðarinnar eins og varð niðurstaðan.
    Mikilvæg forsenda þeirrar samstöðu, sem ríkti við afgreiðslu stjórnarskrárinnar 1944, var að hún náði einungis til mjög afmarkaðra þátta stjórnskipunarinnar. Um þetta segir í áliti milliþinganefndarinnar:

             Samkvæmt endursamþykkt þingsályktunartillögunnar um skipun milliþinganefndarinnar í stjórnarskrármálinu, er gerð var hinn 8. sept. 1942, skilar nefndin með þessu stjórnarskrárfrumvarpi og greinargerð fyrri hluta þess verkefnis, er henni var falið, en mun áfram vinna að seinni hluta verkefnisins, sem sé að „undirbúa aðrar breytingar á stjórnskipulaginu, er þurfa þykir og gera verður á venjulegan hátt“. Má ætla að það starf verði öllu víðtækara og þurfi þar til að afla ýmissa gagna, er nú liggja eigi fyrir, svo og að gaumgæfa reynslu þá, er lýðræðisþjóðir heimsins óefað öðlast í þessum efnum á þeim tímum, sem nú líða yfir mannkynið. Þangað til því verki yrði lokið, ætti sú stjórnarskrá sem hér er lögð fram, að nægja, enda eru ákvæði hennar mestmegnis þau, er nú gilda í stjórnskipunarlögum hins íslenska ríkis, að breyttu hinu æðsta stjórnarformi, frá konungdæmi til lýðveldis o.s.frv. 35

    Þær breytingar, sem gerðar voru á stjórnskipuninni 1944, voru í samræmi við þetta fyrst og fremst að felld voru út ákvæði um konung og innleidd ákvæði um forseta. Hlutverk forseta í stjórnskipun landsins var að flestu leyti mjög sambærilegt við hlutverk konungs áður. Þó voru gerðar vissar breytingar á þessum ákvæðum hér og þar – t.d. voru meiri takmarkanir á synjunarvaldi forseta en áður höfðu verið á neitunarvaldi konungs og eins voru sérstök ákvæði um frávikningu forseta. Að öðru leyti stóð stjórnarskráin óbreytt.
    Stjórnarskrárnefndin starfaði, eins og fram kemur í áliti hennar, áfram að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Árið 1945 ákvað Alþingi að skipa 12 manna nefnd til ráðgjafar eldri nefndinni og tveimur árum síðar var samþykkt þingsályktunartillaga um skipan nýrrar sjö manna nefndar til að endurskoða stjórnarskrá þar sem starfsemi hinnar fyrri hafði lognast út af. Gerðarbækur stjórnarskrárnefndanna frá þessum tíma er ekki að finna í Þjóðskjalasafni og gögn, sem starfi þeirra tengjast, eru rýr.
    Framan af virðist það einkum hafa háð starfi nefndarinnar að stjórnmálaflokkarnir höfðu ekki mótað sér afstöðu í þeim málum sem nefndin átti að fjalla um. Þannig sagði Steingrímur Steinþórsson forsætisráðherra í svari við fyrirspurn um störf nefndarinnar á þingi 1952 að fljótlega hafi það komið í ljós að „fulltrúar hinna pólitísku flokka, sem sæti áttu í nefndinni, höfðu ekki neinar till. fram að bera, vegna þess að þeir, sem sendu þá í nefndina, höfðu ekki gert sér ljóst, hvernig þeir stæðu í málinu. … Það hefur verið í samráði við ríkisstjórn, að störf þessarar nefndar hafa legið niðri nú alllangan tíma.“ 36
    Önnur fyrirspurn kom fram á Alþingi árið 1955 um hvað liði störfum stjórnarskrárnefndarinnar. Í svari sínu sagði Ólafur Thors forsætisráðherra meðal annars:

             Um störf stjórnarskrárnefndarinnar, er skipuð var 14. nóv. 1947 samkv. þáltill. frá 14. maí 1947, er það að segja, að í henni var lengi leitað samkomulags um málið. 37 Hinn 18. nóv. 1952 var svo enn haldinn fundur í þessari stjórnarskrárnefnd. Bjarni Benediktsson, formaður nefndarinnar, afhenti þá nm. þar ákveðnar tillögur um efni nýrrar stjórnarskrár frá þeim Bjarna Benediktssyni, Gunnari Thoroddsen og Jóhanni Hafstein. Skýrði Bjarni Benediktsson síðan opinberlega frá þessum tillögum, og er sú frásögn birt í Morgunblaðinu 22.–24. jan. 1953. Tillögurnar voru nokkuð ræddar á nefndum fundi 18. nóv., og lýkur fundargerðinni þannig: „Að lokum var ákveðið að nefndarmenn létu formann vita, þegar þeir væru búnir að kynna sér tillögur þremenninganna og taka afstöðu til þeirra, og skyldi þá kallaður saman fundur að nýju.“
             Hinn 30. jan. 1953 var haldinn fundur í stjórnarskrárnefndinni. Skýrði formaður þá frá því, að prófessor Ólafur Jóhannesson hefði sagt sig úr nefndinni frá áramótum. Þá skýrði Karl Kristjánsson alþm. frá því, að hann hefði gert tillögur í stjórnarskrármálinu, og afhenti hann nefndarmönnum till. þessar vélritaðar ásamt greinargerð. Samkv. till. skyldi sérstakt stjórnlagaþing kosið til að fjalla um stjórnarskrármálið árið 1956, og skyldi stjórnmálaflokkum óheimilt að hafa afskipti af framboðum til þingsins. Tillaga þessi var nokkuð rædd, en virtist fá þungar undirtektir. Formaður n., Bjarni Benediktsson, spurði hvort nm. hefðu athugað till. þeirra þremenninganna, og taldi æskilegt, að hægt væri að fá botn í málið, áður en þing væri rofið, og beindi því til nm. að koma með ákveðnar brtt., ef þeir gætu ekki fallist á tillögurnar óbreyttar, svo að þannig yrði ef til vill fundinn samkomulagsgrundvöllur allra. Á þessum fundi og síðar hefur reynst ógerlegt að finna slíkan grundvöll og hafa aðrir nm. ekki borið fram neinar ákveðnar efnistillögur. Hefur meðan svo er, verið talið þýðingarlaust að halda áfram fundum í nefndinni, enda engin ósk komið fram um að kveðja hana til fundar.
38

    Tillögur þær sem Bjarni Benediktsson lagði fram í nóvember 1952 gerði hann síðar að umræðuefni á Varðarfundi í ræðu sem birtist í Morgunblaðinu 22.–24. jan. 1953. 39 Tillögurnar voru í tuttugu liðum og vörðuðu völd forseta, varaforseta, afnám landsdóms, reglur um stjórnarmyndun, aukafjárveitingar, kosningaaðferð, Hæstarétt, ákæruvaldið, mannréttindi, sveitarfélög, aðferðir við að breyta stjórnarskrá og ýmislegt fleira.
    Ekki verður vart mikilla ummerkja um störf nefndarinnar eftir 1953. Framsóknarmenn héldu því fram í deilum um stjórnarskrárbreytingar 1959 að þótt nefndin hefði ekki starfað héldi hún samt umboði sínu. 40 Í Ríkishandbók Íslands árið 1965 er einnig litið svo á að nefndin sé enn þá til. 41 Gögn hafa hins vegar ekki fundist um störf hennar á þessum tíma.
    Þótt stjórnarskrárnefndin frá 1947 næði ekki að skila áliti hefur þó hugmyndin um þá heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, sem fyrirheit voru gefin um 1944, komið reglulega til tals á Alþingi. Stór hluti þingsályktunartillagna, sem snerta stjórnarskrármálefni, hefur snúist um þetta.

Tafla 3. Þingsályktunartillögur um stjórnarskrármálefni 1944–2005
Þing Flytjendur Efni Afdrif
1946 Forsætisráðherra Nefnd um endursk. stjskr. Samþykkt (1947)
1947 Gylfi Þ. Gíslason
og Hannibal Valdims.
Endurskoðun stjórnarskrár verði hraðað Ekki útrædd
1966 Karl Kristjánsson Nefnd um heildarendursk. stjskr. Ekki útrædd
1968 Gísli Guðmundss. Nefnd um heildarendursk. Ekki útrædd
1969 Gísli Guðmundss. Nefnd um heildarendursk. Ekki útrædd
1970 Gísli Guðmundss. Nefnd um heildarendursk. Ekki útrædd
1971 Gunnar Thoroddsen Nefnd um heildarendursk. Ekki útrædd
1971 Gils Guðmundsson Nefnd um heildarendursk. Ekki útrædd
1971 Allsherjarnefnd Nefnd um heildarendursk. Samþykkt (1972)
1982–3 Vilmundur Gylfason Gerð frv. um aðgr. löggjafarvalds og framkv.
1984–5 Guðm. Einarsson o.fl. Gerð frv. um fylkisstjórnir Ekki útrætt
1985–6 Guðm. Einarsson o.fl. Gerð frv. um fylkisstjórnir Ekki útrætt
2001–2 Sverrir Hermannss. o.fl. Nefnd um kosningatilögun Ekki útrætt
2002–3 Össur Skarphéðinss. o.fl. Endurskoðun stjórnarskrár Ekki útrætt
2003–4 Guðjón A. Kristjánss. o.fl. Endurskoðun á kjördæmaskipan -
2004–5 Össur Skaprhéðinss. o.fl. Endurskoðun stjórnarskrár -
2004–5 Guðjón A. Kristjánss. o.fl. Endurskoðun á kjördæmaskipan -
Heimild: Alþingistíðindi. Ef flutningsmenn eru fleiri en tveir eru aðeins þeir fyrstu taldir upp ef allir eru úr sama flokki.

    Árið 1972 var samþykkt þingsályktunartillaga á Alþingi um myndun stjórnarskrárnefndar til að vinna að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og var sjö manna nefnd kosin af Alþingi til að sinna því verki. Þessi nefnd skilaði miklu starfi fram til 1983 og hún skilaði af sér skýrslum um málið en ekki náðist í henni full samstaða um endanlegar tillögur. Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra lagði hins vegar fram stjórnarskrárfrumvarp 1983 í sínu nafni sem byggðist á störfum nefndarinnar. Í frumvarpinu var tekið á mörgum þeirra atriða sem fjallað hafði verið um áratuginn á undan.
    Helstu breytingar og nýmæli í stjórnarskrárfrumvarpi 1983:
     1.      Lýðræði, þingræði og jafnrétti skulu vera grundvallarreglur stjórnskipunarinnar. Stjórnvöld ríkisins fari með vald sitt í umboði þjóðarinnar.
     2.      Þingræðisreglan staðfest með því að ríkisstjórn skuli njóta stuðnings meiri hluta Alþingis eða hlutleysis. Hún skuli því aðeins mynduð að forseti hafi gengið úr skugga um að meiri hluti þings sé henni ekki andvígur.
     3.      Hafi viðræður um stjórnarmyndun ekki leitt til nýrrar ríkisstjórnar innan átta vikna er forseta heimilt að skipa ríkisstjórn.
     4.      Breytt ákvæði um skipun og setningu ríkisstarfsmanna.
     5.      Samningar Íslands við önnur ríki skulu allir kunngerðir Alþingi.
     6.      Forseti getur aðeins rofið Alþingi með samþykki þess sjálfs. Þingrofsrétturinn þannig verulega þrengdur.
     7.      Alþingismenn halda umboði sínu til kjördags.
     8.      Synjunarvaldi forseta breytt. Frumvarp fái ekki lagagildi fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu sé það þar samþykkt.
     9.      Heimild til bráðabirgðalaga þrengd.
     10.      Alþingi starfi í einni málstofu.
     11.      Kosningaaldur lækkaður og lögheimilisskilyrði rýmkað.
     12.      Veruleg breyting gerð á ákvæðum um nefndir Alþingis og vald þeirra.
     13.      Nýtt fyrirkomulag á endurskoðun ríkisreikninga.
     14.      Landsdómur lagður niður.
     15.      Ákvæði um ríkissaksóknara tekin í stjórnarskrá.
     16.      Skýrt tekið fram að ráðherrar fara með vald forseta nema á tveimur sviðum, við stjórnarmyndanir og staðfestingarneitun.
     17.      Ákvæði tekin upp um Hæstarétt og dómsmálakaflinn allur gerður ítarlegri.
     18.      Mannréttindakaflinn gerður miklum mun ítarlegri. Ný mannréttindi tekin upp í kaflann.
     19.      Mun ítarlegri ákvæði um réttindi sveitarfélaga.
     20.      Bann við afturvirkni skattalaga.
     21.      Ákvæði um auðlindir landsins.
     22.      Ákvæði um náttúruvernd.
     23.      Ákvæði um heimild til þjóðaratkvæðagreiðslu.
     24.      Ný ákvæði um það hvernig stjórnarskránni verði breytt.
     25.      Umboðsmaður eða ármaður Alþingis.
     26.      Breytingar á kosningafyrirkomulagi. 42
    Sum þeirra atriða, sem var að finna í stjórnarskrárfrumvarpinu 1983, hafa komist í framkvæmd fyrir tilstilli almennra laga eða í þeim stjórnarskrárbreytingum sem gerðar voru 1984, 1991 og 1995. Alþingi afgreiddi hins vegar ekki stjórnarskrárfrumvarpið í heild sinni og mörg þeirra atriða, sem þar var að finna, eru utan við stjórnarskrá. Stjórnarskrárnefndir störfuðu áfram eftir kosningarnar 1983, 1987 og 1991 en fundir í nefndinni voru þó ekki sérlega tíðir. 43 Um miðjan níunda áratuginn var allmikið rætt um möguleika til að auka persónukjör í nefndinni og nokkur vinna var síðan lögð í það síðari hluta áratugarins að endurskoða að lög um kosningar til Alþingis (þ.e. almenna löggjöf). 44 Í athugasemdum og framsöguræðum, sem voru undanfari stjórnarskrárbreytingarinnar 1991, kemur fram að frumvarpið var samið af nefnd formanna þingflokkanna að beiðni forseta Alþingis og ekkert kemur fram um að stjórnarskrárnefnd hafi komið þar við sögu.
    Hins vegar átti stjórnarskrárnefnd frumkvæði að því að mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskoðaður 1994–5. 45 Þannig segir í greinargerð með frumvarpinu um mannréttindakaflann 1994–95:

             Í apríl 1994 sendi stjórnarskrárnefnd formönnum þingflokka tillögur um breytingar á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Með ályktun Alþingis 17. júní 1994 í tilefni 50 ára lýðveldis á Íslandi var samþykkt að stefnt skyldi að því að ljúka endurskoðun alls VII kafla stjórnarskrárinnar fyrir næstu reglulegar alþingiskosningar. Við endurskoðunina skyldi höfð hliðsjón af áðurgreindum tillögum stjórnarskrárnefndar frá 5. apríl 1994 en einnig skyldi fjalla um önnur ákvæði kaflans, svo sem um skipan skattamála, ríkisborgararétt og stöðu sveitarfélaga. Á síðara stigi var enn fremur ákveðið að taka til endurskoðunar ákvæðin um trúfrelsi í VI kafla.
             Frumvarpið sem hér liggur fyrir, er í mörgum atriðum sambærilegt við tillögur stjórnarskrárnefndar að því er varðar mannréttindaákvæðin. Þó hafa þær sætt nokkrum breytingum frá upprunalegri mynd því að formenn þingflokka ákváðu síðla sl. sumar að taka þær til frekari athugunar og fengu til liðs við sig virta lögfræðinga og sérfræðinga á sviði mannréttinda og stjórnskipunar. Tillögurnar hafa enn tekið nokkrum breytingum eftir viðræður formanna þingflokka um málið og umræður í þingflokkum að undanförnu.
46

    Um undirbúning að stjórnarskrárbreytingu 1999 segir í frumvarpi:

             Hinn 8. september 1997 skipaði forsætisráðherra nefnd til að endurskoða kjördæmaskipan og tilhögun kosninga til Alþingis. Nefndin var skipuð samkvæmt tilnefningum þingflokka að undangengnu samráði við formenn allra stjórnmálaflokka sem þá áttu fulltrúa á Alþingi. … Nefndin skilaði forsætisráðherra skýrslu 6. október 1998 sem hann hefur lagt fyrir Alþingi á yfirstandandi þingi … 47

    Nefndin lagði til að formenn stjórnmálaflokkanna legðu sameiginlega fram frumvarp um breytingu á ákvæðum stjórnarskrár um alþingiskosningar og gekk það eftir.
    Reglulega hefur verið spurst fyrir í þinginu um störf stjórnarskrárnefnda þegar slíkar nefndir hafa verið að störfum 48 en auk þessa hafa verið lögð fram lagafrumvörp um þjóðfund eða stjórnlagaþing til að fjalla um málefni stjórnarskrárinnar við nokkur tækifæri. 49
    Sú heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, sem fara átti fram eftir að lýðveldisstjórnarskráin var sett 1944, hefur aldrei farið fram. Einstakar breytingar hafa hins vegar verið gerðar. Sumar þeirra hafa verið mjög afmarkaðar, eins og breyting á kosningaaldri árið 1968 en aðrar víðtækari, eins og breytingar á starfsháttum Alþingis og fleira 1991 og endurskoðaður mannréttindakafli 1995. Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

    1959
    Þetta ár kom til framkvæmda róttæk uppstokkun á kosningakerfinu á Íslandi, við það að átta kjördæmi með hlutfallskosningu leystu gömlu kjördæmin (nema Reykjavík) af hólmi. Þingsætum var fjölgað í 60.

    1968
    Sú breyting var gerð þetta ár að kosningarréttur var lækkaður í 20 ár og lögheimili á Íslandi kom í staðinn fyrir skilyrði um búsetu á Íslandi undangengin fimm ár.

    1984
    Breyting var gerð á kosningafyrirkomulagi með stjórnarskrárbreytingu þetta ár og fól það í sér m.a. fjölgun þingsæta í 63 og breytingu á úthlutunarreglum milli kjördæma og flokka. Kosningaaldur var lækkaður niður í 18 ár. Ekki var lengur gerð krafa um óflekkað mannorð sem skilyrði fyrir kosningarrétti, hins vegar var slík krafa gerð varðandi kjörgengi.

    1991
    Þær breytingar voru gerðar á stjórnarskránni þetta ár sem nauðsynlegar voru vegna afnáms deildaskiptingar Alþingis og aðskilnaðar umboðsvalds og dómsvalds í héraði. Breytt var ákvæðum um þingtíma, kvaðningu Alþingis til funda, frestun þess, sem og um þingrof. Sérstakri grein um reglulegar alþingiskosningar var bætt við. Þá voru hert ákvæði um gildistíma bráðabirgðalaga. Ýmsar smávægilegri breytingar voru þar að auki gerðar á nokkrum greinum stjórnarskrárinnar.

    1995
    Tvenn stjórnskipunarlög tóku gildi þetta ár. Annars vegar var áskilið að endurskoðun á fjárreiðum ríkisins skyldi fara fram á vegum Alþingis (43. gr.) en hins vegar voru mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar endurskoðuð og nær öllum greinum hennar 63–78 breytt nokkuð. Mannréttindasáttmáli Evrópu og aðrir alþjóðlegir mannréttindasamningar voru einkum hafðir til fyrirmyndar í því efni. Var áhersla lögð á borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi en ýmis félagsleg réttindi voru einnig útfærð nánar, t.d. um rétt manna til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu. Í sumum tilvikum var fyrst og fremst um orðalagsbreytingar að ræða eða að efni annarrar löggjafar var tekið inn í stjórnarskrá. Í sumum tilvikum voru þó ákvæðin rýmkuð verulega og efld, t.d. um tjáningarfrelsið og friðhelgi einkalífs, en einnig var nokkrum nýjum réttindum bætt við. Meðal merkustu breytinganna var tilkoma almennrar jafnræðisreglu í stjórnarskrána en einnig má nefna ýmis nýmæli um ríkisborgararétt, refsingar, réttindi barna og bann við afturvirkni skattalaga. Eins var bætt við ákvæði um sveitarstjórnir að tekjustofnar þeirra skyldu ákveðnir með lögum.

    1999
    Enn var kosningafyrirkomulagið á dagskrá 1999. Horfið var frá þeirri kjördæmaskipan sem innleidd var 1959 og tiltekið að kjördæmi skyldu vera sex eða sjö og mörk þeirra ákveðin í lögum (ekki í stjórnarskrá) nema í Reykjavík og nágrenni þar sem heimilt er að fela landskjörstjórn að ákveða kjördæmamörk. Með þessari breytingu var kosningakerfið einfaldað mjög verulega og jöfnuður í vægi atkvæða aukinn (þótt vægið sé að vísu enn talsvert ójafnt, landsbyggðarkjördæmunum í hag). Sú athyglisverða nýbreytni er tekin upp að krafist er .? meirihluta til a breyta lögum um kjördæmamörk og tilhögun á úthlutun þingsæta en til að breyta stjórnarskránni sjálfri þarf sem kunnugt er ekki nema einfaldan meirihluta á Alþingi (tvisvar, með kosningum á milli að vísu).

    Tillögur að breytingum á stjórnarskrá hafa hins vegar verið um mun fleiri atriði en þau sem Alþingi hefur afgreitt sem stjórnskipunarlög.

Tafla 4. Tillögur að breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands

Þing Flutningsm. Meginefni Afdrif
1946 Hermann Jónasson Stjórnalagaþing Ekki útrætt
1948 Páll Zóphóníasson Stjórnlagaþing Rökst. dagskr.
1958/59 Ólafur Thors,
Emil Jónsson,
Einar Olgeirsson o.fl.
Kjördæmaskipan Samþykkt (tvisvar kosningar á milli)
1962 Einar Olgeirsson,
Hannibal Valdimarsson
Eignarréttur Íslendinga á faste. og náttúruauðæfum Ekki útrætt
1963 Einar Olgeirsson,
Hannibal Valdimarsson
Eignarréttur Íslendinga á faste. og náttúruauðæfum Ekki útrætt
1965 Einar Olgeirsson,
Ragnar Arnalds
Lækkun kosningaaldurs í 21 ár Ekki útrætt
1966 Einar Olgeirsson,
Ragnar Arnalds
Lækkun kosningaaldurs í 21 ár Ekki útrætt
1966 Stjórnarfrumvarp Lækkun kosningaaldurs í 20 ár Samþykkt (tvisvar kosningar á milli)
1967 Ragnar Arnalds,
Magnús Kjartanss.
Kosningaaldur, þjóðaratkvæði, framsal valds til alþjóðastofnana, eignarréttur Íslend. á fasteignum og náttúruauðæfum, félagsleg réttindi, friðlýst land Ekki útrætt
1970 Magnús Kjartanss.,
Jónas Árnason
Þjóðaratkvæði, kosningaaldur, framsal valds til alþjóðastofnana, eignarréttur Íslend., félagsl. réttindi, friðlýst land Ekki útrætt
1973–4 Benedikt Gröndal Afnám deildaskiptingar Alþingis Vísað til ríkisstjórnar
1976–7 Ragnar Arnalds o.fl. Náttúruauðlindir sameign þjóðarinnar Ekki útrætt
1976–7 Benedikt Gröndal o.fl. Afnám deildaskipt. Alþingis Ekki útrætt
1977–8 Ragnar Arnalds o.fl. Náttúruauðlindir sameign þjóðarinnar Ekki útrætt
1977–8 Benedikt Gröndal o.fl. Afnám deildaskipt. Alþingis aldurs Ekki útrætt
1977–8 Ragnar Arnalds Lækkun kosningaaldurs Ekki útrætt
1978–9 Oddur Ólafsson Kjördæmabreyting Ekki útrætt
1978–9 Gunnlaugur Stefánss. Lækkun kosningaaldurs Ekki útrætt
1978–9 Finnur Torfi Stefánsson Afnám deildaskipt. Alþingis Ekki útrætt
1978–9 Gunnlaugur Stefánss. Þm. ekki laun f. önnur störf Ekki útrætt
1978–9 Ólafur Ragnar Grímsson Lækkun kosningaaldurs Ekki útrætt
1978–9 Matthías Á. Mathiesen,
Geir Hallgrímsson
Bann við afturvirkum skattareglum Ekki útrætt
1980–1 Matthías Á. Mathiesen,
Geir Hallgrímsson
Bann við afturvirkum skattareglum Ekki útrætt
1981–2 Matthías Á. Mathiesen,
Geir Hallgrímsson
Bann við afturvirkum skattareglum Ekki útrætt
1982–3 Gunnar Thoroddsen Ný stjórnarskrá Ekki útrætt
1982–3 Vilmundur Gylfason o.fl. Afnám heimildar til útg. bráðab. laga Ekki útrætt
1982–3/
1983–4
Geir Hallgrímsson,
Steingr. Hermannss,.
Svavar Gestsson,
Magnús H. Magns.
Kosningakerfi, fjölgun þingsæta, lækkun kosningaaldurs Samþykkt (tvisvar kosningar á milli)
1983–4 Guðmundur Einarss.,
Kristín S. Kvaran
Eftirlitshlutverk þingnefnda, þm. vinni ekki umboðsstörf, ráðherrar ekki atkvæðisrétt á Alþingi Ekki útrætt
1983–4 Guðmundur Einarss.,
Kristín S. Kvaran
Afnám þingrofsréttar afnám heimildar til útg. bráðabirgðalaga Ekki útrætt
1984–5 Guðmundur Einarss.,
Kristófer Már Kristinsson
Afnám þingrofsréttar, afnám heimildar til útg. bráðabirgðalaga Ekki útrætt
1984–5 Kristófer Már Kristinsson,
Guðm. Einarsson
Þingmenn vinni ekki umboðsstörf, ráðherrar ekki atkvæðisr. á Alþingi Ekki útrætt
1984–5 Guðm. Einarsson,
Kristófer Már Kristinsson
Eftirlitshlutverk þingnefnda Ekki útrætt
1985–6 Kristín S. Kvaran Ráðh. ekki atkvæðisrétt á Alþingi Ekki útrætt
1985–6 Ragnar Arnalds o.fl. Sameign á náttúruauðlindum Ekki útrætt
1985–6 Ólafur Þ. Þórðarson Ný stjórnarskrá unnin af samt. um jafnrétti milli landshluta Ekki útrætt
1986–7 Kristín S. Kvaran Þingseta ráðherra Ekki útrætt
1986–7 Ólafur Þ. Þórðarson Ný stjórnarskrá Ekki útrætt
1986–7 Guðm. Einarsson Rannsóknarnefndir Alþ. o.fl. Ekki útrætt
1986–7 Guðm. Einarsson o.fl. Þingrof og bráðabirgðal. Ekki útrætt
1988–9 Auður Eiríksdóttir Þjóðaratkvæði um stjórnarskrárbreytingar Ekki útrætt
1988–9 Páll Pétursson,
Guðrún Helgadóttir,
Kjartan Jóhannsson,
Kristín Einarsdóttir,
Aðalh. Bjarnfreðsd.,
Sighv. Björgvs.,
Hjörl. Guttormsson
Deildaskipting Alþingis o.fl. Ekki útrætt
1989–90 Jóhann A. Jónsson Þjóðaratkv. um stjskr.breyt. Ekki útrætt
1989–90 Páll Pétursson,
Guðrún Helgadóttir,
Árni Gunnarsson,
Kristín Einarsdóttir,
Aðalh. Bjarnfreðsd.,
Sighv. Björgvs.,
Hjörl. Guttormsson
Deildaskipting Alþingis Ekki útrætt
1990–1 Kristín Einarsd. o.fl. Útgáfa bráðabirgðalaga Ekki útrætt
1990–1 Stefán Valgeirsson Þjóðaratkv. um stjskr.breyt Ekki útrætt
1990–1 Ásg. Hannes Eiríkss. Alþingiskosningar o.fl. Ekki útrætt
1990–1/
1991–2
Ól. G. Einarsson,
Páll Pétursson,
Málmfr. Sigurðard,.
Stefán Valgeirsson
Deildaskipting Alþingis o.fl. Samþykkt tvisvar (kosningar á milli – endurfl. af) fulltr. allra þfl.)
1992–3 Steingr. Herms.,
Ól. Ragnar Grímss.,
Kristín Einarsdóttir,
Páll Pétursson,
Ingibj. S. Gísladóttir,
Ragnar Arnalds
Aukinn þingmeirihl. vegna framsals fullveldis Vísað til ríkisstj.
1992–3 Ragnar Arnalds,
Steingr. Herms.,
Ingibj. S. Gísladóttir,
Ól. Ragnar Grímss.,
Páll Pétursson,
Kristín Einarsdóttir
Þjóðaratkvæðagreiðslur Vísað til ríkisstj.
1993–4 Kristín Einarsd. o.fl. Bráðabirgðalög Vísað til ríkisstj.
1994–5 Jóhanna Sigurðard. Stjórnlagaþing Ekki útrætt
1994–5 Stjórnarfrumvarp Same. þjóðar á nytjastofnum Ekki útrætt
1994–5/
1995–6
Geir H. Haarde,
Finnur Ingólfsson,
Sigurbj. Gunnarss.,
Ragnar Arnalds,
Kristín Ástgeirsd.
Mannréttindaákvæði Samþykkt tvisvar 1995 m. kosningum á milli
1994–5/
1995–6
Geir H. Haarde,
Finnur Ingólfsson,
Sigurbj. Gunnarss.,
Ragnar Arnalds,
Jóna Valg. Kristjd.
Endursk. ríkisreikninga, kjördagur Samþykkt tvisvar – kosningar á milli
1995–6 Siv Friðleifsdóttir Þingseta ráðherra Ekki útrætt
1995–6 Ásta R. Jóhannesd. o.fl. Kosning forseta Ekki útrætt
1995–6 Hjálmar Árnason
Bryndís Hlöðversd.,
Guðm. Á. Stefánss.,
Ísólfur Gylfi Pálmas.,
Magnús Stefánss.,
Ólafur Örn Haraldss.,
Vilhjálmur Egilss.
Bráðabirgðalög Ekki útrætt
1995–6 Jóhanna Sigurðard.
Svanfríður Jónasd.
Þjóðaratkvæðagreiðslur Ekki útrætt
1995–6 Jón Baldvin Hannibalsson
o.fl.
Kjördæmaskipan Ekki útrætt
1996–7 Ragnar Arnalds o.fl. Eignarréttur á náttúruauðl. og landi Ekki útrætt
1996–7 Guðný Guðbjörnsd. o.fl. Sameign nytjastofna Ekki útrætt
1997–8 Guðný Guðbjörnsd. o.fl. Sameign nytjastofna Ekki útrætt
1997–8 Jóhanna Sigurðard.
Svanfríður Jónasd.
Þjóðaratkvæðagreiðslur Ekki útrætt
1997–8 Ragnar Arnalds o.fl. Eignarréttur á náttúruauðl. og landi Ekki útrætt
1997–8 Jóhanna Sigurðard.,
Ásta R. Jóhannesd.
Stjórnlagaþing Ekki útrætt
1998–9 Siv Friðleifsdóttir Þingseta ráðherra Ekki útrætt
1998–9 Jóhanna Sigurðard.,
Svanfríður Jónasd.,
Össur Skarphs.
Þjóðaratkvæðagreiðslur Ekki útrætt
1998–9 Guðný Guðbjörnsd. o.fl. Sameign nytjastofna Ekki útrætt
1999–00 Jóhanna Sigurðard. o.fl. Þjóðaratkvæðagreiðslur Ekki útrætt
1998–9/
1990–00
Davíð Oddsson,
Halldór Ásgrímsson,
Sighvatur Björgvs.,
Margrét Frímannsd.,
Kristín Halldórsd.
Kjördæmaskipan Samþykkt tvisvar 1999 – kosningar á milli (endurfl. af fors.ráðh.)
2000–1 Jóhanna Sigurðard. o.fl. Þjóðaratkvæðagreiðslur Ekki útrætt
2002–3 Jóhanna Sigurðard. o.fl. Þjóðaratkvæðagreiðslur Ekki útrætt
2001–2 Guðm. Á. Stefánss. o.fl. Landið eitt kjördæmi Ekki útrætt
2002–3 Guðm. Á. Stefánss. o.fl. Landið eitt kjördæmi Ekki útrætt
2003–4 Kristinn H. Gunnarss. Bráðabirgðalög, þingseta ráðherra Ekki útrætt
2004–5 Kristján L. Möller o.fl. Kosningaaldur -
2004–5 Pétur H. Blöndal Afnám forsetaembættis -
2004–5 Siv Friðleifsd.,
Kristinn H. Gunnarss.,
Margrét Frímannsd.,
Pétur H. Blöndal,
Gunnar Örlygsson
Þingseta ráðherra -
2004–5 Guðm. Á. Stefánss. o.fl. Landið eitt kjördæmi -
2004–5 Jóhanna Sigurðard. o.fl. Þjóðaratkvæðagreiðslur -
2004–5 Helgi Hjörvar o.fl. Samráð v. Alþ. um stuðning við stríð -
Rétt er að geta þess að inn í töfluna vantar ýmsar sértillögur sem ekki náðist samstaða um í nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar 1983.
Ef flutningsmenn eru fleiri en tveir eru aðeins þeir fyrstu taldir upp ef allir eru úr sama flokki.
Ekki er í töflunni gerð grein fyrir flytjendum á endurfluttum stjórnarskrárfrumvörpum sem samþykkt hafa verið á fyrra þingi þótt þeir geti verið aðrir en upprunalegir flytjendur.
Nokkur frumvörp um þjóðfund til samningar stjórnarskrá, sem lögð voru fram á níunda áratugnum, koma ekki fram í töflunni vegna þess að um venjuleg lagafrumvörp var að ræða en ekki frumvörp til stjórnskipunarlaga.

    Tillöguflutningur í stjórnarskrármálefnum hefur gengið nokkuð í bylgjum en tillöguflutningur er mun ríkara einkenni tímans frá því um 1960 en áranna þar á undan. Einnig virðast stjórnarandstöðuþingmenn almennt mun virkari í tillöguflutningi um þetta efni heldur en stjórnarþingmenn.
    Nokkra hugmynd um þær áherslur sem ríkt hafa við endurskoðun lýðveldisstjórnarskrárinnar má fá með því að skoða á hvaða greinum hennar gerðar hafa verið breytingar.

Tafla 5. Breytingar á greinum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands eftir köflum

Kafli Efni kafla Fjöldi
gr. í kafla
Fjöldi gr. sem
breytt hefur verið
Fjöldi
óbreyttra gr.
I Stjórnskipun 2 0 2
II Forsetakosningar, forseti og ríkisstjórn 28 6 22
III Þingkosningar 4 4 0
IV Störf Alþingis 24 17 7
V Dómsvaldið 3 1 2
VI Kirkja og trúfrelsi 3 2 1
VII Mannréttindi/stjórnarskrárbreyt. 15 15 0
SAMTALS 79 45 34
Ath.: Í þessu yfirliti er sleppt 80. gr. og 81. gr. stjórnarskrárinnar 1944 og ákvæði um stundarsakir. 80. gr. fjallaði um niðurfellingu eldri stjórnarskrár, 81. gr. um innleiðingu lýðveldisstjórnarskrárinnar en ákvæði um stundarsakir fjallar um sérstök tímabundin frávik frá stjórnarskrá.

    Þeir kaflar stjórnarskrárinnar, sem hafa verið endurskoðaðir rækilega samkvæmt þessu yfirliti, eru kaflar III um þingkosningar, IV um störf Alþingis og VII um mannréttindi. Öðrum köflum hefur minna verið breytt. Þannig hefur kafla I aldrei verið breytt neitt, kafla II var breytt í vissum mæli 1991, mest til að taka mið af afnámi deildaskiptingar Alþingis, kafla V um dómsvaldið hefur nær ekkert verið breytt (orðinu hæstaréttardómarar bætt við 1991) en ein af þremur greinum kafla VI um kirkju og trúfrelsi var endurskoðuð 1995.

5. Einstök álitaefni
    Engin leið er að gera með viðhlítandi hætti grein fyrir þeim álitaefnum, sem til umræðu hafa komið, í tengslum við endurskoðun stjórnarskrárinnar frá því lýðveldisstjórnarskráin var lögfest árið 1944. Hér á eftir verður þó gerð stuttlega grein fyrir helstu viðfangsefnum sem hafa orðið tilefni tillöguflutnings á lýðveldistímanum eða umfjöllunarefni stjórnarskrárnefnda.

Alþingi – störf þess
    Hugmyndir um afnám deildaskiptingar Alþingis má rekja allt aftur til 1952. Ýmsar tillögur komu fram um það efni á áttunda og níunda áratug tuttugustu aldarinnar en deildaskiptingin var að lokum afnumin með stjórnarskrárbreytingu árið 1991. Þá var einnig breytt samkomudegi Alþingis sem lengi hafði verið til umræðu (a.m.k. frá 1952). Í tillögum Bjarna Benediktssonar frá 1952 er gert ráð fyrir að Hæstarétti í stað Alþingis verði falið að ganga úr skugga um kjörgengi þingmanna og lögmæti kosninga. Þá hafa verið fluttar tillögur um eftirlitshlutverk þingnefnda, aukastörf þingmanna, atkvæðisrétt ráðherra á þingi og fleira.

Alþjóðastofnanir – milliríkjasamningar
    Tillögur, sem miða að því að skilgreina hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að heimilt sé að framselja vald til alþjóðastofnana, hafa komið fram nokkrum sinnum. Sú fyrsta leit dagsins ljós 1968. Í tillögu, sem ýmsir af leiðtogum stjórnarandstöðunnar lögðu fram árið 1992, er gert ráð fyrir að 21. gr. stjórnarskrárinnar orðist svo: „Forseti Íslands gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða á hvers konar fullveldisrétti í íslenskri lögsögu, framsal einhvers hluta ríkisvalds til fjölþjóðlegrar stofnunar eða samtaka eða ef þeir horfa að öðru leyti til breytinga á stjórnarhögum ríkisins nema samþykki Alþingis komi til. Slíkt þingmál telst því aðeins samþykkt að þrír fjórðu alþingismanna greiði því atkvæði.“ 50
    Fulltrúar Alþýðubandalags í stjórnarskrárnefndinni 1983 vildu sjá í stjórnarskránni ákvæði um friðlýsingu Íslands og um stefnumál Íslands á alþjóðavettvangi. Á Alþingi 2005 kom fram frumvarp um að samráð við Alþing þyrfti fyrir stuðningi við stríð.

Auðlindir – eignarréttur
    Eignarréttur á auðlindum og skyld málefni hafa í nokkur skipti verið tilefni tillöguflutnings um breytingar á stjórnarskrá. Á sjöunda áratugnum miðaði tillöguflutningur einkum að því að tryggja íslenskt þjóðerni þeirra sem ættu fasteignir og náttúruauðæfi hér á landi en eftir að deilur hófust um eignarhald á auðlindum sjávarútvegs á níunda áratugnum hefur tillöguflutningur frekar miðað að því að festa sameign þjóðarinnar á slíkum auðlindum í stjórnarskrá.

Bráðabirgðalög
    Reglulega hafa komið fram hugmyndir um að takmarka rétt ríkisstjórnar til setningar bráðabirgðalaga. Nokkuð var komið til móts við þau sjónarmið árið 1991 þegar ríkisstjórn var gert að fá slík lög samþykkt innan sex vikna frá því Alþingi kemur saman ella falli þau úr gildi. Í nokkur skipti eftir að það var gert hafa engu að síður komið fram tillögur um að takmarka þennan rétt ríkisstjórna enn frekar, t.d. í tillögu frá 1996 (gildi einungis þegar ekki er hægt að kalla þing saman).

Dómstólar – hæstiréttur – réttarkerfi
    Hugmyndir hafa lengi verið uppi um að fjalla á ítarlegri hátt um dómsvaldið í stjórnarskrá en núverandi ákvæði eru mjög komin til ára sinna eins og fram hefur komið. Um þessi atriði er fjallað í tillögum Bjarna Benediktssonar frá 1952 og nýr dómsmálakafli er í stjórnarskrárdrögum Gunnars Thoroddsens frá 1983. Í síðarnefndu tillögunum er kveðið á um stöðu Hæstaréttar sem æðsta dómstóls, sjálfstæði ríkissaksóknara og dómenda og valdsvið dómstóla.

Eftirlitshlutverk þingsins
    Tillögur um eftirlits- og rannsóknarhlutverk þingnefnda voru einkum áhugamál þingmanna Bandalags jafnaðarmanna á níunda áratugnum. Ýmsar breytingar hafa reyndar orðið á starfsskilyrðum þingnefnda eftir það þótt þær birtist ekki nema að litlu leyti í stjórnarskrá.

Fjárhags- og skattamál
    Ýmiss konar tillögur um breytingar á stjórnarskrá hafa varðað meðferð fjárhagsvalds og skattamál, þar á meðal um afturvirka skatta, endurskoðun ríkisreiknings, aukafjárveitingar og fleira. Árið 1995 var samþykkt stjórnarskrárbreyting um að endurskoðun ríkisreiknings skuli fara fram „á vegum Alþingis og í umboði þess“. Eins var það ár samþykkt með mannréttindakaflanum bann við afturvirkri skattheimtu.
    Í tillögum Bjarna Benediktssonar frá 1952 er að finna ýmsar tillögur í skattamálum sem miða að meiri festu í fjármálum ríkisins. Þar á meðal er tillaga um að öll ríkisstjórnin þurfi að samþykkja aukafjárveitingar (eins og bráðabirgðalög) og að Alþingi geti ekki átt frumkvæði að hækkun fjárlaga, heldur þurfi slíkt að koma frá ríkisstjórn.

Fjöldi þingmanna
    Tillögur hafa stundum komið fram um að fækka þingmönnum – en einungis tillögur um fjölgun þingmanna hafa hlotið framgang. Breytingar á kosningakerfi hafa oftast haft fjölgun þingmanna í för með sér – þó ekki breytingin 1999.

Forseti og forsetavald
    Forsetavald er meðal þeirra atriða sem mest hafa verið rædd í tengslum við hugsanlega endurskoðun stjórnarskrárinnar. Á fyrstu árum lýðveldisins aðhylltist hópur fólks í ýmsum stjórnmálaflokkum forsetaræði á Íslandi að bandarískri fyrirmynd. Það hefði þýtt að þingræði væri afnumið og forseti fengi sjálfur það vald sem honum er í raun neitað um í 13. og 14. gr. stjórnarskrárinnar. Þessar hugmyndir fengu þó ekki brautargengi eins og kunnugt er. Aðrar tillögur um forsetavald hafa einkum gengið út á að skilgreina betur en gert er hlutverk forseta við stjórnarmyndanir og rétt hans til að mynda ríkisstjórn hafi myndun stjórnar mistekist á Alþingi (sjá t.d. tillögur Bjarna Benediktssonar 1952 og Gunnars Thoroddsens 1983).
    Tillögur hafa nokkrum sinnum komið fram um breytta tilhögun forsetakjörs. Þannig lögðu sjálfstæðismenn til 1952 að viðhafa skyldi forsetakjör í tveimur umferðum ef enginn hlyti meirihluta í fyrstu umferð og eins hefur Ólafur Þ. Harðarson (1995–7) bent á írsku leiðina – þar sem kjósendur raða frambjóðendum þótt kosið sé í einni umferð – sem hugsanlega fyrirmynd forsetakosninga á Íslandi.

Handhafar forsetavalds
    Bjarni Benediktsson taldi athugandi að annaðhvort forseti Hæstaréttar eða forseti sameinaðs Alþingis yrði varaforseti. 51 Gunnar G. Schram (1977) bendir á að það fyrirkomulag, sem ríki á Íslandi um handhafa forsetavalds, sé nær einsdæmi og að ýmsu leyti gallað (bls. 69–70). Um þetta var fjallað nokkuð í aðdraganda að endurskoðun stjórnarskrárinnar fram til 1983 en í tillögum Gunnars Thoroddsens það ár er þó ekki horfið frá þeirri skipan sem nú er að finna í 8. gr. stjórnarskrárinnar.

Kirkjuskipan
    Kirkjuskipan hefur þá sérstöðu meðal ákvæða stjórnarskrárinnar að henni má breyta með lögum þótt slíka ákvörðun þurfi að vísu að staðfesta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillögu um að rjúfa tengsl ríkis og kirkju er þess vegna hægt að samþykkja sem einföld lög frá Alþingi en krefst ekki stjórnarskrárbreytingar.

Kosningakerfi – kjördæmaskipting
    Kosningakerfið og kjördæmaskipanin hafa verið viðvarandi viðfangsefni tillagna um stjórnarskrárbreytingar á lýðveldistímanum og raunar var kosningafyrirkomulagið orðið að einu helsta deiluefni íslenskra stjórnmála mun fyrr. Breytingar á kosningakerfinu voru meginefni þeirra stjórnarskrárbreytinga sem tóku gildi 1934, 1942, 1959, 1984 og 1999. Þróunin hefur verið í þá veru að auka jafnvægi atkvæða en tillögur hafa reglulega komið frá jafnaðarmönnum um að gera landið allt að einu kjördæmi, alveg frá 1927, og í seinni tíð hafa frjálslyndir einnig flutt tillögur í þá veru.

Kosningarréttarskilyrði
    Umræður um kosningarréttarskilyrði á lýðveldistímanum hafa einkum snúið að lækkun kosningaaldurs. Kosningaaldur var lækkaður í 20 ár árið 1968 og 18 ár 1984. Eina tillagan um frekari lækkun, sem fram hefur komið, snýr að því að tryggja þeim sem verða 18 ára á kosningaári atkvæðisrétt við Alþingiskosningar.

Lagasynjun – staðfesting laga
    Tillögur um breytingar á málskotsréttinum hafa ekki verið margar enda töldu margir ólíklegt að honum yrði beitt eða jafnvel að hann væri til staðar. 52 Bjarni Benediktsson taldi athugandi árið 1952 að breyta honum í frestandi synjunarvald – þ.e. að lög falli úr gildi ef forseti neitar að staðfesta þau. Hann taldi fyrirkomulag stjórnarskrárinnar 1944 hafa markast af því að hún hafi verið samin þegar „forsetastjórn“ sat að völdum og menn hafi við þær aðstæður ekki viljað efla völd forseta og stjórnar frá því sem var. (Mbl. 22.–24. jan. 1953) Í tillögum Gunnars Thoroddsens 1983 er hins vegar gert ráð fyrir að forseti geti kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu áður en til undirskriftar komi og sé þá heimilt að neita að staðfesta lög hafi þau verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Landsdómur
    Í tillögum sjálfstæðismanna frá 1952–3 er gert ráð fyrir að Hæstiréttur dæmi í stað landsdóms í málum sem Alþingi höfðar gegn ráðherra. 53 Slíka tillögu er einnig að finna í stjórnarskrárfrumvarpi Gunnars Thoroddsens 1983.

Lýðræði
    Orðið lýðræði kemur hvergi fyrir í núgildandi stjórnarskrá (frekar en ýmis önnur lykilhugtök stjórnskipunarinnar eins og þingræði, ríkisstjórn, hæstiréttur). Í stjórnarskrárfrumvarpi Gunnars Thoroddsens árið 1983 er gert ráð fyrir að 1. gr. hennar hljóði svo:

        Ísland er frjálst og fullvalda lýðveldi.
        Lýðræði, þingræði og jafnrétti eru grundvallarreglur stjórnskipunar Íslands.
        Handafar ríkisvaldsins fara með vald sitt í umboði þjóðarinnar.
54

Mannréttindaákvæði
    Umræðu um endurskoðun mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar má rekja allt aftur til ársins 1952. Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskoðaður 1995. Ekki hafa komið fram frumvörp um breytingar á mannréttindaákvæðum (í þröngum skilningi) síðan þá.

Persónukjör
    Í stjórnarskrárnefndinni um miðjan níunda áratuginn var allnokkuð rætt um leiðir til að auka möguleika á persónukjöri við Alþingiskosningar á Íslandi.

Ráðherrar – þingseta þeirra
    Tillögur um að ráðherrar eigi ekki atkvæðisrétt á Alþingi hafa alloft komið fram. Slíkar tillögur voru m.a. bornar fram að þingmönnum Bandalags jafnaðarmanna á níunda áratugnum en í seinni tíð einkum af þingmönnum Framsóknarflokksins (og reyndar fleirum, sbr. tillaga 2004).

Stjórnarmyndanir
    Engin ákvæði eru nú í stjórnarskrá um með hvaða hætti forseti uppfyllir ákvæði 15. gr. stjórnarskrárinnar um að hann skipi ráðherra og veiti þeim lausn, ákveði tölu þeirra og skipti störfum með þeim. Tillögur hafa komið fram um að skýra hlutverk forsetans í þessu efni (sjá um grein um forseta og forsetavald) en ekki hlotið afgreiðslu. Þótt vald forseta til að hafa áhrif á stjórnarmyndanir sé að öðru jöfnu takmarkað af þingræðisreglunni er það óumdeilt að þegar stjórnarmyndun gengur treglega getur forsetinn haft viss áhrif. 55

Stjórnarskrárbreytingar – endurskoðun stjórnarskrár
    Þótt almennt gildi um stjórnarskrárbreytingar á Íslandi að þær þurfi samþykki tveggja þinga með kosningum inn á milli er samt lýðveldisstjórnarskráin 1944 sett með afbrigðilegum hætti, þ.e. með samþykki Alþingis og staðfestingu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í nokkur skipti hafa komið fram tillögur um að gera samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að skilyrði fyrir því að stjórnarskrárbreytingar geti tekið gildi. Þær tillögur hafa ekki hlotið afgreiðslu.
    Hugmyndir um stjórnlagaþing eða þjóðfund til að endurskoða stjórnarskrána hafa reglulega skotið upp kollinum allt frá því verið var að undirbúa sjálfa lýðveldisstjórnarskrána. Á bak við þá ósk hefur jafnan legið sú hugmynd að hraða heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar eða jafnvel að takmarka áhrif stjórnmálaflokkanna á hana. Um þetta atriði sagði Bjarni Benediktsson 1953: „Ég hef haft nokkra tilhneigingu til að vera fylgjandi þjóðfundi, en skilyrði fyrir gagnsemi slíks þjóðfundar tel ég vera það, að til hans yrði kosið með öðrum hætti en til Alþingis nú. Ef sama kosningafyrirkomulag ætti að vera, tel ég, að þjóðfundur sé þýðingarlítill. Ég verð að játa, að ef menn á annað borð hafa komið sér saman um kosningafyrirkomulag til þjóðfundar, þá eru svo miklar líkur til, að það kosningafyrirkomulag verði hið sama og menn að lokum ákveða um kjördæmaskipun og kosningu til Alþingis, að segja má, að þá sé þjóðfundur gagnslítill.“ 56

Sveitarfélög
    Stjórnarskráin segir fátt um sveitarfélög annað en að einhver sveitarfélög skuli vera til en um sjálfstæði þeirra og tekjustofna skuli fjallað í lögum. Lengi hefur verið rætt um að styrkja grundvöllinn undir sjálfstjórn sveitarfélaga í stjórnarskrá. Í tillögum Gunnars Thoroddsens 1983 var gert ráð fyrir nokkuð ítarlegri ákvæðum um sveitarfélög en þau sem fyrir voru, þar á meðal um rétt íbúa til að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu um málefni sveitarfélagsins.
    Á níunda áratugnum lögðu þingmenn Bandalags jafnaðarmanna í nokkur skipti fram þingsályktunartillögur um gerð frumvarps um fylkisstjórnir.

Umhverfisvernd
    Hvergi er fjallað um umhverfisvernd í núgildandi stjórnarskrá. Í tillögum Gunnars Thoroddsens árið 1983 var gerð tillaga um að 80. gr. stjórnarskrárinnar hljóðaði svo:

             Vernda skal náttúru landsins og auðlindir þess svo ekki spillist líf eða land að nauðsynjalausu.
             Landsmönnum öllum skal tryggður réttur til eðlilegrar nýtingar landsins til útivistar. Nánar skal fjallað um rétt þennan í lögum.

Þingrofsréttur
    Meðferð þingrofsréttarins var í vissum mæli umdeildur á Íslandi – ekki síst eftir þingrofið 1931 og ef til vill líka 1974. Forseti fer samkvæmt texta stjórnarskrárinnar með þingrofsvaldið sem þýðir að forsætisráðherra hefur það í sínum höndum að ákveða þingrof ef svo ber undir. Á 24. gr. stjórnarskrárinnar voru gerðar vissar breytingar 1991 sem takmörkuðu vald forsætisráðherra til að senda þingið heim í trássi við vilja meirihluta þess með því að þingmenn skulu halda umboði sínu til kjördags. Sá möguleiki er til staðar að stjórn, sem misst hefur meirihlutastuðning þingsins, beiti þingrofi. Meirihluti þings gæti lýst vantrausti á slíka stjórn eftir að þingrof hefði verið boðað því að þingmenn halda samkvæmt breytingunni 1991 umboði sínu til kjördags. 57 Á það gæti jafnvel reynt hvort nýr þingmeirihluti hefði heimild til að afturkalla þingrof þótt slíkt hafi ekki gerst hingað til. Í tillögum Gunnars Thoroddsens árið 1983 var skýrar kveðið á um takmörkun þingrofsréttarins með því að samþykki þingsins sjálfs var gert að skilyrði fyrir þingrofi.

Þingræðisreglan
    Hugmyndir hafa komið fram um að nefna þingræðisregluna skýrum orðum í stjórnarskránni, m.a. í stjórnarskrárfrumvarpi Gunnars Thoroddsens 1983 en í núverandi stjórnarskrá leikur vafi á því hvort orðalagið „þingbundin stjórn“ feli þingræðisregluna í sér. Á níunda áratugnum beitti Bandalag jafnaðarmanna sér fyrir afnámi þingræðis á Íslandi án þess þó að vilja hverfa að forsetaræði. Samkvæmt tillögum þeirra skyldi forsætisráðherra kosinn beinni kosningu og hann mynda ríkisstjórn óháð vilja Alþingis.

Þjóðaratkvæðagreiðslur
    Tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur hafa verið reglulega á dagskrá umræðunnar um stjórnarskrána frá því á sjöunda áratug tuttugustu aldarinnar. Flestar hafa slíkar tillögur gengið út á að tiltekið hlutfall kjósenda gæti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslur um lög frá Alþingi eða skorað á forseta að beita málskotsrétti. Tillögugerðin hefur snúist um hlutfall kjósenda á bilinu 1/ 5 til 1/ 3. Einnig hefur komið fram tillaga um að þriðjungur þingmanna gæti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um löggjöf, líkt og í Danmörku.
    Í tillögum stjórnarskrárnefndarinnar 1983 er lagt til að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur hljóði svo: „Fjórðungur alþingiskjósenda getur óskað eftir því að fram fari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um einstök málefni. Um framkvæmd slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu skal nánar mælt í lögum.“

6. Niðurstaða
     1.      Áhersla hefur yfirleitt verið lögð á að þróa stjórnarskrána í samstöðu helstu stjórnmálaafla. Í raun má segja að eina grein stjórnarskrárinnar, sem breytt hefur verið í andstöðu við nokkurn hluta þingmanna, hafi verið 31. grein hennar sem fjallar um fyrirkomulag alþingiskosninga. Aðrar stjórnarskrárbreytingar hafa verið unnar í samstöðu helstu stjórnmálaafla. Forsenda þeirrar samstöðu hefur verið að stjórnarskrárbreytingarnar hafa fjallað um vel afmarkaða þætti stjórnskipunarinnar.
     2.      Mikill fjöldi tillagna um breytingar á stjórnarskránni hefur komið fram á Alþingi og á öðrum vettvangi á þeim rösklega sex áratugum sem lýðveldisstjórnarskráin hefur verið í gildi. Nokkur hluti þeirra hefur náð fram að ganga en stór hluti hefur þó ekki náð inn í stjórnarskrá. Sumar þessara tillagna hafa verið allróttækar en aðrar hafa snúist um þröng tæknileg atriði. Mjög umfangsmikið verk væri að öllum líkindum að ná pólitískri samstöðu um öll þau atriði sem hafa komið til skoðunar á lýðveldistímanum.
     3.      Tilraunir til heildarendurskoðunar stjórnarskrárinnar hafa allar mistekist. Engin einhlít skýring er sennilega til á því hvers vegna svo sé. Mikill fjöldi ólíkra hugmynda samfara áherslu á að ná samstöðu er þó sennilega stór hluti af skýringunni. Í stað þeirrar heildarendurskoðunar, sem segja má að einkennt hafi endurskoðunarstarf stjórnarskrárinnar frá 1944 til 1983, hefur í seinni tíð verið lögð áhersla á afmarkaðri þætti endurskoðunarvinnunnar. Þannig var kosningafyrirkomulagið viðfangsefni stjórnarskrárbreytinga 1984 og 1999, deildaskipting Alþingis og fleira 1991 og mannréttindaákvæði og fleira 1995.
     4.      Breytingar á stjórnarskránni hafa einkum tekið til þingkosninga, starfa Alþingis og mannréttindaákvæða í stjórnarskrá. Allir þessir þættir hafa verið endurskoðaðir fremur nýlega, á árabilinu 1991 til 1999. Hugsanlegt er að samstaða geti tekist um frekari endurskoðun þessara kafla stjórnarskrárinnar en gera má ráð fyrir – miðað við hve stutt er síðan þeir voru til meðferðar – að margt af því sem samstaða er um hafi náðst fram. Einnig virðist ólíklegt að víðtæk samstaða sé í sjónmáli um samband ríkis og kirkju.
     5.      Lítið er hægt að álykta af þeim gögnum, sem hér hafa verið til skoðunar, í hvaða mæli ágreiningur ríkir um I., II. og V. kafla stjórnarskrárinnar. Deilur um þingræði hafa ekki verið fyrirferðarmiklar frá því um miðjan níunda áratuginn. Tillöguflutningur síðustu fimmtán ár, sem lýtur að þessum köflum, hefur einkum snúist um þjóðaratkvæðagreiðslur og þingsetu ráðherra þótt fleiri atriði hafi komið við sögu, þar á meðal alþjóðasamskipti. Á fyrri tíð hafa hins vegar ýmis önnur atriði verið til skoðunar, þar á meðal almenn lýsing stjórnskipunarinnar (lýðræði), hlutverk forseta við stjórnarmyndanir, synjunarvald forseta, ákvarðanataka ríkisstjórna, ákæruvaldið, dómstólarnir og hlutverk þeirra, landsdómur og fleira.

Heimildaskrá

         Alþingistíðindi.
         Arnór Hannibalsson (1983). „Sögulegur bakgrunnur íslensku stjórnarskrárinnar“, Tímarit lögfræðinga, 33:2, bls. 73–87.
         Bjarni Benediktsson (1965). „Endurskoðun stjórnarskrárinnar“, Land og lýðveldi I (Reykjavík: Almenna bókafélagið) bls. 177–202. Einnig birt í Mbl., 22.–24. jan. 1953.
         Björn Þórðarson 1951. Alþingi og frelsisbaráttan (Reykjavík: Alþingissögunefnd).
         Gerðarbók nefndar til að semja frumvarp að nýrri stjórnarskrá 1940, Þjóðskjalasafn, LXI.
         Gunnar Helgi Kristinsson 1994. Þróun íslensku stjórnarskrárinnar (Reykjavík: Félagsvísindastofnun).
         Gunnar G. Schram 1977. „Um endurskoðun stjórnarskrárinnar“, Tímarit lögfræðinga, 27. árg. 2. hefti, bls. 67–103.
         Gunnar G. Schram 1999. Stjórnskipunarréttur (Reykjavík: Háskólaútgáfan)
         Odd Didriksen 1968. „Krafan um þingræði í Miðlun og Benedikzku 1887–94“, Saga, VI árg.: 3–80.
         Ólafur Þ. Harðarson 1995–7. „Kjör þjóðhöfðingja: Geta Íslendingar lært af Írum?“, Íslensk félagsrit, 7.–9. árg., bls. 87–99.
         Ólafur Jóhannesson 1978. Stjórnskipun Íslands (Reykjavík: Iðunn).
         Ólafur Lárusson 1946. „Constitution and law“ í Iceland, 4. útg. (Þorst. Þorsts. ritstýrði) (Reykjavík: Landsbanki Íslands) 47–66.
          Ríkishandbók Íslands 1965. (Reykjavík: Menningarsjóður).
         Stjórnarskrárnefndir – ýmis gögn. Þjóðskjalasafn 022-16, möppur B 127, B 128, B 34, B87 og fleiri gögn.
          The Constitution of Iceland (1974) (Reykjavík: The Office of the Prime Minister).
         Þór Vilhjálmsson 1994. „Synjunarvald forsetans“ í Afmælisrit. Gaukur Jörundsson sextugur 25. september 1994 (Reykjavík: Bókaútgáfa Orators) bls. 609–636.

VIÐAUKI 3


SKÝRINGAR VIÐ

STJÓRNARSKRÁ LÝÐVELDISINS ÍSLANDS
58
Sérfræðinganefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar:


Eiríkur Tómasson prófessor

Björg Thorarensen prófessor
Gunnar Helgi Kristinsson prófessor
Kristján Andri Stefánsson sendiherraUnnið að beiðni nefndar um endurskoðun
stjórnarskrár lýðveldisins ÍslandsDesember 2005

I. kafli

1. gr. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.

Tilurð: Þessi grein var tekin upp í stjórnarskrána við stofnun lýðveldis 1944 en í stjórnarskránni frá 1920 sagði: „Stjórnskipulagið er þingbundin konungsstjórn.“ Samsvarandi ákvæði var ekki að finna í stjórnarskránni frá 1874 enda var Ísland ekki sjálfstætt ríki samkvæmt henni.

Skýring: Með „lýðveldi“ er fyrst og fremst vísað til þess að þjóðhöfðinginn skuli vera forseti, kjörinn af þegnunum með beinum eða óbeinum hætti, en ekki konungur sem hlýtur þá stöðu að erfðum. Í lýðveldi er og kjörið þjóðþing sem fer með löggjafarvald eða er að minnsta kosti aðalhandhafi þess.
    Höfundar frumvarpsins að lýðveldisstjórnarskránni virðast hafa litið svo á að með því að kveða á um það, eins og í eldri stjórnarskrá, að hér á landi skuli vera „þingbundin stjórn“ væri verið að stjórnarskrárhelga þingræðið. Þetta er þó ekki einhlít skýring, heldur getur með þessu orðalagi verið vísað til þess eins að ráðherrar skuli vera háðir Alþingi með einhverjum hætti, t.d. með því að standa þinginu reikningsskil gjörða sinna. Þingræðisreglan er ekki orðuð í stjórnarskránni, heldur byggist hún á stjórnskipunarvenju og er því jafn rétthá ákvæðum stjórnarskrárinnar sjálfrar þannig að henni verður ekki breytt eða hún afnumin nema með stjórnarskrárbreytingu. Reglan felur það í sér að þeir einir geta gegnt ráðherraembætti sem meirihluti þingsins vill styðja eða að minnsta kosti þola í embætti. Í orðalaginu „þingbundin stjórn“ er jafnframt talið felast að Alþingi sé ekki aðeins aðalhandhafi löggjafarvaldsins, heldur ráði einnig miklu um landstjórn og stjórnarstefnu, t.d. með því að hafa með höndum fjárstjórnarvald, þ.e. vald til að ákveða tekjur ríkisins og gjöld.

Helstu heimildir:
Alþingistíðindi 1944 A, þskj. 1, bls. 12.
Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 81–82, 84–85, 27–28, 93 og 138–139.
Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 24–25, 36 og 149–150.

2. gr. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.

Tilurð: Þessi grein hefur staðið svo til óbreytt í stjórnarskránni frá 1920, að öðru leyti en því að 1944 kom forseti í stað konungs í 1. og 2. málsl. hennar. Vísi að þessu ákvæði var að finna í 1. mgr. 1. gr. stjórnarskrárinnar frá 1874 en fyrirmynd þess er sótt til 2. gr. dönsku stjórnarskrárinnar frá 1849.

Skýring: Hér er mælt fyrir um greiningu ríkisvaldsins í þrjá þætti, í samræmi við kenningu franska stjórnspekingsins Montesquieus um það efni. Ekki er skilgreint hvað einkennir hvern þessara þriggja valdþátta og jafnvel hefur því verið haldið fram að löggjafinn geti tekið ákvarðanir um nánast hvaða atriði sem honum sýnist, jafnvel þótt þær ákvarðanir séu að öðru jöfnu teknar af handhöfum framkvæmdarvalds og dómsvalds. Nú er hins vegar almennt litið svo á að löggjafinn geti ekki leyst úr ágreiningi, sem heyrir undir dómstólana samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu á eðli dómsvaldsins, eða tekið einstakar ákvarðanir sem eru á forræði forseta og ráðherra samkvæmt stjórnarskránni.
    Vegna þess að handhöfum framkvæmdarvalds og dómsvalds er að öðru jöfnu skylt að fara eftir settum lögum í störfum sínum, sbr. m.a. 61. gr. stjskr., má segja að löggjafinn sé æðstur handhafa hins þríþætta ríkisvalds.
    Í fyrirmælunum um þrígreiningu ríkisvaldsins eru fólgnar skorður við því að löggjafinn geti framselt vald sitt til stjórnvalda, þ.e. handhafa framkvæmdarvaldsins, með því að heimila þeim að setja almennar reglur um efni sem skipað skal með lögum, annaðhvort samkvæmt beinum fyrirmælum stjórnarskrárinnar eða eftir eðli máls. Þótt löggjafinn megi fela stjórnvöldum að leysa úr réttarágreiningi á tilteknum sviðum má löggjafinn ekki ganga svo langt að fá þeim fullnaðarúrskurðarvald um ágreining sem heyrir undir dómstólana samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu á eðli dómsvaldsins, sbr. H 1991, 1690 og H 1994, 748.
    Þegar kveðið er á um að Alþingi og forseti fari saman með löggjafarvaldið er einkum átt við það að forseti þurfi að staðfesta lagafrumvörp, sem þingið hefur samþykkt, til þess að þau öðlist gildi sem lög, sbr. 26. gr. stjskr. Samkvæmt þeirri grein getur forseti neitað að staðfesta lagafrumvarp sem þingið hefur samþykkt. Frumvarpið fær þó engu að síður lagagildi en leggja skal það undir þjóðaratkvæði svo fljótt sem kostur er til að fá skorið úr um lagagildi þess til frambúðar.
    Enda þótt mælt sé fyrir um að forseti og „önnur stjórnarvöld“ skuli fara með framkvæmdarvaldið leiðir það af 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. stjskr., þar sem segir að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt og þeir beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, að það eru ráðherrar sem í reynd eru æðstu handhafar framkvæmdarvaldsins, hver á sínu sviði. Framkvæmdarvaldið er að öðru leyti á hendi annarra stjórnvalda, eftir því sem fyrir er mælt í lögum.
    Þótt gert sé ráð fyrir að ríkisvaldið greinist í þrennt og mismunandi valdhafar fari með hvern þátt þess um sig hefur 2. gr. stjskr. ekki verið skilin á þann veg að skilja verði skýrt á milli handhafa hvers valdþáttar fyrir sig. Þannig leiðir það af þingræðisreglunni að skilin milli löggjafarvalds annars vegar og framkvæmdarvalds hins vegar eru hvergi nærri eins skýr og ætla mætti af orðalagi greinarinnar. Þá er það langalgengast hér á landi að ráðherrar komi úr hópi þingmanna og fari þar með bæði með löggjafar- og framkvæmdarvald. Enn fremur hefur Hæstiréttur ekki fallist á að skýra beri greinina á þann veg að sami maður megi ekki fara í senn með framkvæmdar- og dómsvald, sbr. H 1985, 1290 og H 1987, 356. Sú skipan getur hins vegar brotið í bága við fyrirmæli 1. mgr. 70. gr. stjskr. um rétt til málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli, sbr. 8. gr. stjskl. nr. 97/1995, og má því vissulega draga í efa fordæmisgildi umræddra hæstaréttardóma. Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. stjskr. eru hæstaréttardómarar ekki kjörgengir til Alþingis, sbr. 8. gr. stjskl. nr. 56/1991. Það þýðir að sami maður getur ekki samtímis farið með löggjafarvald sem þingmaður og dómsvald sem hæstaréttardómari.
    Þess má geta að ákvæði 2. gr. stjskr. eru almennt talin setja skorður við því að unnt sé að framselja ríkisvald til erlendra alþjóða- eða fjölþjóðastofnana enda er ekki að finna í stjórnarskránni ákvæði sem veitir heimild til slíks framsals.

Helstu heimildir:
         Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 82–84, 111–112, 282–290, 334–337, 365–373 og 393–397.
         Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 25–27, 121–122, 293–297, 347–349, 386–390, 393–400, 422–425, 431–432, 440 og 531–532.

II. kafli

3. gr. Forseti Íslands skal vera þjóðkjörinn.

Tilurð: Þessi grein var tekin í stjórnarskrána 1944 við stofnun lýðveldis og þar með embættis forseta Íslands, eins og reyndar 4.–8. gr. stjskr. sem áttu sér heldur ekki neina hliðstæðu í eldri stjórnarskrám meðan Ísland var konungsríki.

Skýring: Í greininni er mælt fyrir um tvennt. Annars vegar að heiti forsetaembættisins skuli vera forseti Íslands. Hins vegar að þjóðkjörið skuli vera í embættið. Hvoru tveggja var breytt í þessa veru í meðferð þingsins 1944, að tillögu sameinaðrar stjórnarskrárnefndar efri og neðri deildar Alþingis. Frumvarp ríkisstjórnarinnar, sem byggðist á tillögum þingkjörinnar milliþinganefndar, hafði upphaflega gert ráð fyrir að sameinað Alþingi kysi forseta enda yrði „minni truflun af kosningu nýs forseta en vera mundi, ef hann væri kosinn með alþjóðaratkvæði“. Í athugasemdum við frumvarpið sagði enn fremur að vel færi á því að Alþingi kysi forsetann þar sem ætlunin væri sú að það héldi sama valdi á málefnum ríkisins og það hefði haft og forseti yrði því háður með svipuðum hætti og konungur hefði í framkvæmd verið.
    Sameinaðar stjórnarskrárnefndir efri og neðri deildar þingsins lögðu á hinn bóginn til að frá því yrði horfið og forsetinn yrði þess í stað þjóðkjörinn. Var þetta meginbreytingartillaga nefndarinnar og til komin vegna þess að hún þótti vera í samræmi við vilja og óskir „mikils þorra þjóðarinnar“, eftir því sem næst yrði komist.
    Þá þótti nefndinni best viðeigandi að forsetinn yrði kenndur við landið og gleggst til aðgreiningar frá forsetum Alþingis og forsetum einstakra félaga. Þessi nafngift var því tekin upp í 2. og 3. gr. en ekki fylgt eftir í öðrum ákvæðum þar sem hann er oftast nefndur forseti lýðveldisins en annars forseti, ýmist með eða án ákveðins greinis. Eðlilegt væri að samræma orðalag í stjórnarskránni að þessu leyti.

Helstu heimildir:
Alþingistíðindi 1944 A, þskj. 1, bls. 12 og þskj. 71, bls. 166.

4. gr. Kjörgengur til forseta er hver 35 ára gamall maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu.

Skýring: Þessi grein tilgreinir kjörgengisskilyrði forseta, þ.e. almenn jákvæð hæfisskilyrði sem maður verður að uppfylla til að geta tekið við forsetaembættinu og haldið því. Kjörgengisskilyrðin eru tæmandi talin í þessari grein og óheimilt væri að bæta við þau með almennum lögum.
    Samkvæmt stjórnarskrá er hver sá kjörgengur við forsetakjör sem náð hefur 35 ára aldri og uppfyllir skilyrði til að kjósa í alþingiskosningum, að frátöldu búsetuskilyrðinu. Um aldursmarkið sagði í athugasemdum við stjórnarskrárfrumvarpið að ekki þætti hlýða að yngri maður gæti orðið forseti því að til starfans þyrfti, auk margs annars, „lipurð og mannþekkingu, sem ekki fæst nema með nokkrum aldri“.
    Ákvæðið er eyðuákvæði að því leyti að það lýsir ekki sjálft hvers efnis skilyrðin eru, heldur vísar um það þangað sem skilyrði kosningarréttar í alþingiskosningum eru ákveðin. Þeim er um allt, sem hér skiptir máli, lýst í 33. gr. stjskr., eins og henni hefur verið breytt með 2. gr. stjskl. nr. 65/1984, en þá voru felld brott tvö skilyrði sem ráða má af lögskýringargögnum að stjórnarskrárgjafinn hafi látið sig nokkru varða að giltu um kjörgengi forsetaefnis og gerðu kröfu til lögræðis, áður fjárræðis, og óflekkaðs mannorðs. Eftir standa því einungis tvö skilyrði, þ.e. um 18 ára aldur og íslenskan ríkisborgararétt, en krafa um lögheimili hér á landi á ekki við samkvæmt niðurlagi 4. gr.
    Kjörgengisskilyrði alþingismanna eru ákveðin í 34. gr. stjskr., sbr. 3. gr. stjskl. nr. 65/1984 og 8. gr. stjskl. nr. 56/1991, en þau eru að því leyti strangari en kjörgengisskilyrði forseta að alþingismönnum ber að hafa óflekkað mannorð og mega ekki vera hæstaréttardómarar. Eðlilegt sýnist vera að hafa samræmi milli kjörgengisskilyrða alþingismanna og forseta.

Helstu heimildir:
Alþingistíðindi 1944 A, þskj. 1, bls. 12–13.
Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 116–118.

5. gr.      Forseti skal kjörinn beinum, leynilegum kosningum af þeim, er kosningarrétt hafa til Alþingis. Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 1500 kosningarbærra manna og mest 3000. Sá, sem flest fær atkvæði, ef fleiri en einn eru í kjöri, er rétt kjörinn forseti. Ef aðeins einn maður er í kjöri, þá er hann rétt kjörinn án atkvæðagreiðslu. – Að öðru leyti skal ákveða með lögum um framboð og kjör forseta, og má þar ákveða, að tiltekin tala meðmælenda skuli vera úr landsfjórðungi hverjum í hlutfalli við kjósendatölu þar.

Skýring: Þessi grein lýsir inntaki þjóðkjörs forseta sem 3. gr. stjskr. mælir fyrir um. Í upphaflegu stjórnarskrárfrumvarpi hafði þessi grein lýst tilhögun þingkjörs forseta en til samræmis við tillögu sameinaðra stjórnarskrárnefnda um þjóðkjör hans í stað þingkjörs var henni gerbreytt í meðferð þingsins. Varð niðurstaðan sú að sá væri rétt kjörinn forseti er fengi flest atkvæði ef fleiri en einn væru í kjöri.
    Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. er löggjafanum eftirlátið að mæla með lögum fyrir um framboð og kjör forseta að öðru leyti en því sem ákveðið er í stjórnarskránni sjálfri. Um framboð og kjör forseta gilda samnefnd lög nr. 36/1945, með síðari breytingum, en almennt vísa þau um allt, sem ekki þarf sérákvæða við, til laga um alþingiskosningar.
    Auk þess að uppfylla kjörgengisskilyrði skv. 4. gr. stjskr. geta þeir einir verið í kjöri sem hafa meðmæli minnst 1500 kosningarbærra manna og mest 3000, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. Þá er í síðari málsgrein heimilað að áskilja með lögum að tiltekinn fjöldi þessara meðmælenda skuli vera úr öllum landsfjórðungum að jafnri tiltölu við fjölda kjósenda í hverjum þeirra, sbr. 3. gr. laga nr. 36/1945.
    Þegar litið er til mannfjöldabreytinga og búsetuþróunar í landinu er ljóst að þessi skilyrði eru að minnsta kosti ekki jafnströng og þegar þau voru upphaflega sett og að langflestir meðmælendur hljóta nú að koma úr Sunnlendingafjórðungi en fæstir úr Austfirðingafjórðungi. Skipting landsins í fjórðunga er hvorki skilgreind nánar í stjórnarskrá eða lögum nr. 36/1945. Í framkvæmd er hins vegar fyrir því löng venja að draga þau eins og umboðsstjórnarsvæði dönsku konungsstjórnarinnar voru mörkuð fram til 1904 í ömt. Sú skipting mun hafa byggst á mörkum landsfjórðunganna frá um 965, með síðari breytingum, en það munu vera fyrstu landfræðilegu mörkin í sögu íslenskrar stjórnskipunar, dregin til dómsagnar og framfærslu. Ytri mörk þessara fjórðunga voru áður auðkennd með tilvísun í gömlu sýslumörkin en hafa, eftir að þau voru aflögð, verið dregin með því að tilgreina þau sveitarfélög sem teljast til hvers fjórðungs um sig. Sá galli er reyndar á þessari fjórðungaskiptingu að hún fer ekki saman við skiptingu landsins í kjördæmi, sbr. nú 6. gr. laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis. Kjördæmaskiptingin skiptir í þessu tilliti máli vegna þess að yfirkjörstjórn í hverju kjördæmi ber að staðreyna að meðmælendur séu kosningarbærir innan viðkomandi kjördæmis og gefa út vottorð þar að lútandi. Hentugast væri því að mörk fjórðunga og kjördæma færu saman þannig að vottorð um kosningarbærni í tilteknu kjördæmi fæli jafnframt í sér vottorð um kosningarbærni í tilteknum fjórðungi. Þar eð uppruna meðmæla og staðsetningu í fjórðungi er þó hægt að staðreyna með tilliti til þess sveitarfélags þar sem meðmælandi á lögheimili, hefur þó ekki þótt bera beina nauðsyn til að raska þeim mörkum sem fjórðungunum hafa frá forni fari verið dregin, eins og afmörkun samkvæmt kjördæmum myndi óhjákvæmilega hafa í för með sér.
    Af 4. málsl. 1. mgr. 5. gr. leiðir að atkvæðagreiðsla í forsetakjöri fer ekki fram nema fleiri en einn frambjóðandi sé í kjöri sem uppfyllir kjörgengisskilyrði 4. gr. stjskr. og hefur tilskilinn fjölda meðmæla að baki sér, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. Að öðrum kosti er sá rétt kjörinn forseti sem uppfyllir þessi skilyrði, án atkvæðagreiðslu.

Helstu heimildir:
Alþingistíðindi 1944 A, þskj. 71, bls. 166–167.
Alþingistíðindi 1944 B, d. 59–60.

6. gr. Kjörtímabil forseta hefst 1. ágúst og endar 31. júlí að 4 árum liðnum. Forsetakjör fer fram í júní- eða júlímánuði það ár, er kjörtímabil endar.

Skýring: Kjörtími forseta er samkvæmt þessari grein fjögur ár. Í athugasemdum við þetta ákvæði í upphaflegu stjórnarskrárfrumvarpi var getum leitt að því að með því að hafa kjörtímabilið þetta langt ykjust líkur fyrir aukinni reynslu forseta í starfi og truflanir af tíðum forsetaskiptum yrðu minni. Eftir að þjóðkjör forseta var ákveðið var nauðsynlegt að binda upphaf og lok kjörtímabils hans við ákveðnar dagsetningar og urðu þessar fyrir valinu með það fyrir augum að kosningar til embættisins gætu þá farið fram að vori. Aðrar ástæður eru ekki færðar fyrir því að setja forseta inn í embætti þennan dag. Í samræmi við þessa grein er í 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands, sbr. 1. gr. laga nr. 6/1984, ákveðið að forsetakjör fari fram síðasta laugardag í júnímánuði fjórða hvert ár.

Helstu heimildir:
Alþingistíðindi 1944 A, þskj. 1, bls. 13.
Alþingistíðindi 1944 B, d. 60.

7. gr. Nú deyr forseti eða lætur af störfum, áður en kjörtíma hans er lokið, og skal þá kjósa nýjan forseta til 31. júlí á fjórða ári frá kosningu.

Skýring: Greinin mælir fyrir um hvernig með skuli fara ef forseti deyr eða lætur af störfum af öðrum orsökum áður en kjörtími hans er á enda runninn, svo sem við afsögn eða brottvikningu skv. 11. gr. stjskr. Í því tilviki ber samkvæmt þessu ákvæði að kjósa annan forseta en kjörtímabil hans getur þó aldrei varað lengur en til 31. júlí á fjórða ári frá kosningu. Ekki er tilskilið hvenær þessar kosningar skuli fara fram enda sýnist af lögskýringargögnum mega ráða að stjórnarskrárgjafinn hafi viljað veita nokkurt svigrúm í þessu skyni ef sæti forseta skyldi losna á þeim tíma sem óheppilegur er til forsetakosninga. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1945 skal forsætisráðherra ákveða kjördag þegar svo ber undir og er þá lögboðið að það skuli vera innan árs frá því að tilefni til þess stofnast.

Helstu heimildir:
Alþingistíðindi 1944 A, þskj. 71, bls. 167.

8. gr.     Nú verður sæti forseta lýðveldisins laust eða hann getur ekki gegnt störfum um sinn vegna dvalar erlendis, sjúkleika eða af öðrum ástæðum, og skulu þá forsætisráðherra, forseti … 1) Alþingis og forseti hæstaréttar fara með forsetavald. Forseti … 1) Alþingis stýrir fundum þeirra. Ef ágreiningur er þeirra í milli, ræður meiri hluti.
1) Stjskl. nr. 56/1991, 1. gr.

Skýring: Í þessari grein er handhöfn valds forseta Íslands falin æðstu handhöfum hinna þriggja greina ríkisvaldsins, framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds, þegar forseta nýtur ekki við af nánar tilgreindum ástæðum.
    Ekki eru ákvæði um hver eigi ákvörðunarvald um það hvenær handhafar forsetavalds taka við störfum forseta. Í framkvæmd taka þeir alltaf við meðferð forsetavalds í fjarveru forseta utanlands og er það auglýst sérstaklega bæði í Lögbirtingablaði og Stjórnartíðindum, sem og að hann sé kominn heim og tekinn við stjórnarstörfum á ný. Vafalaust yrði sami háttur hafður á ef forseti myndi forfallast vegna alvarlegs sjúkleika eða af öðrum ástæðum enda hefur framgangur stjórnarathafna ekki verið látinn tefjast vegna þess að forseti sé ófær um að sinna þeim. Á hinn bóginn skal áréttað að handhafar taka aldrei við meðferð forsetavalds þegar hann er fjarri setri sínu eða skrifstofu innanlands, sbr. 12. gr. stjskr., enda telst hann bær til að sinna stjórnarstörfum hvar sem hann kann að vera staddur innan endimarka ríkisins.
    Samkvæmt 2. málsl. greinarinnar skal forseti Alþingis stýra fundum handhafanna. Í samræmi við það stýrir hann fundum ríkisráðs þegar það kemur saman undir forsæti handhafanna, sbr. að breyttu breytanda 6. gr. tilskipunar um starfsreglur ríkisráðs, nr. 82/1943. Utan ríkisráðs hefur hins vegar ekki tíðkast að handhafar komi saman til formlegra funda eða reynt hafi á afl atkvæða þeirra enda eru þeir ábyrgðarlausir af stjórnarathöfnum öllum á sama hátt og forseti, sbr. 13. gr. stjskr. Sé einhver handhafanna forfallaður eða fjarstaddur utanlands ganga varamenn í þeirra stað, þ.e. varaforseti Hæstaréttar, varaforsetar Alþingis í réttri töluröð og sá ráðherranna sem í þeim tilvikum gegnir störfum fyrir forsætisráðherra, en þegar bæði hann og forseti eru fjarstaddir á sama tíma er staðganga fyrir hann útveguð með atbeina forseta, sbr. 15. gr. stjskr., og auglýst í Lögbirtingablaði og Stjórnartíðindum.

Helstu heimildir:
Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 124–126.
         Pétur Kr. Hafstein: Um handhafa forsetavalds, Tímarit lögfræðinga, 4. hefti 1990, bls. 243–255.

9. gr.      Forseti lýðveldisins má ekki vera alþingismaður né hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkaatvinnufyrirtækja. – Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.

Tilurð: Fyrri málsgrein þessa ákvæðis er frá 1944, eins og niðurlag síðari málsgreinar, en fyrri hluti þeirrar málsgreinar er sambærilegur því sem áður hafði gilt um konung.

Skýring: Í 1. mgr. 9. gr. er kveðið á um það hvaða störfum forseti megi ekki sinna samhliða forsetaembættinu. Í rauninni er ákvæðið eðlisskylt almennt neikvæðum hæfisreglum, sem svo eru nefndar, en þær miða að því að draga fyrir fram úr líkum á eða koma í veg fyrir að þeir sem þær eiga við um lendi oft í aðstæðum sem til þess eru fallnar að hafa ómálefnaleg áhrif á störf þeirra eða skapa hagsmunaárekstra sem eru ósamrýmanlegir störfum þeirra.
    Ákvæðið stendur ekki í vegi fyrir því að forseti gegni ólaunuðum trúnaðarstörfum á borð við mannúðarstörf eða vinni sem vísindamaður eða listamaður að rannsóknum eða listsköpun. Enn fremur aftrar ákvæðið því ekki að forseti geti notið arðs af eignum sínum, þ. á m. atvinnufyrirtækjum, jafnvel þótt hann megi ekki hafa þar fast starf.
    Í 2. mgr. 9. gr. er fjallað um laun forseta. Annars vegar er þar mælt fyrir um að þau skuli greidd af ríkisfé. Hins vegar að þau megi ekki skerða eftir að kjörtímabil hans er hafið. Um löggjafarástæður fyrir síðarnefnda ákvæðinu segir í lögskýringargögnum að því væri ætlað að hindra að fjárhagslegum þvingunarráðum verði beitt gegn forseta eða Alþingi reyni eftir á með þessum hætti að ná sér niðri á forseta. Tekið er fram að ákvæðið tryggi forseta ekki fyrir kaupmáttarbreytingum krónunnar.
    Um laun forseta hafa lengst af gilt sérstök lög, sbr. nú lög nr. 10/1990 um laun forseta Íslands. Samkvæmt þeim er forseta auk launa tryggður ókeypis bústaður, ljós og hiti og endurgreiddur útlagður kostnaður vegna rekstrar embættis hans. Með hliðsjón af síðari málslið 2. mgr. 9. gr. verður einnig að telja óheimilt að draga úr hlunnindum af þessu tagi á miðju kjörtímabili forseta. Sama á við um eftirlaunaréttindi forseta. Ákvæði um þau hafa nú verið flutt í lög nr. 141/2003 um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, en tóku með tilliti til sitjandi forseta ekki efnislegum breytingum. Forseti var lögum samkvæmt áður undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum. Því var breytt með lögum nr. 84/2000 um afnám lagaákvæða um skattfrelsi forseta Íslands, sem öðluðust gildi við upphaf nýs kjörtímabils forseta 1. ágúst 2000.

Helstu heimildir:
Alþingistíðindi 1944 A, þskj. 1, bls. 13.
Alþingistíðindi 1999–2000 A, þskj. 1388, bls. 6091–6092.
Alþingistíðindi 2003–2004 A, þskj. 635 (vefslóð Alþingis).
Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 128–129.
Gunnar Helgi Kristinsson, Þróun íslensku stjórnarskrárinnar, 1994, bls. 66–67.

10. gr.      Forsetinn vinnur eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, er hann tekur við störfum. Af eiðstaf þessum eða heiti skal gera tvö samhljóða frumrit. Geymir Alþingi annað, en þjóðskjalasafnið hitt.

Tilurð: Greinin tók á sig þessa mynd 1944 en samsvarar annars grein sem upphaflega var tekin í stjórnarskrá 1915 og tók síðan smávægilegum breytingum 1920.

Skýring: Upphafsákvæðið áréttar trúnaðar- og hollustuskyldu forseta við þann grundvöll sem stjórnskipun ríkisins er reist á og felur í sér loforð hans um að virða hana á kjörtímanum. Ákvæðið er að þessu leyti sambærilegt því sem gildir um aðra embættismenn ríkisins, sbr. síðari málslið 2. mgr. 20. gr. stjskr. Eins og greinin er fram sett er eið- eða heitvinningin forsenda þess að forseti megi taka við embætti og fái kjörbréf sitt afhent. Er hún enda mikilvægur liður í embættistöku forseta og athöfn af því tilefni byggð í kringum þessa tvo atburði.
    Í framkvæmd er útbúið heit að viðlögðum drengskap og ekki er kunnugt um að forsetaefni hafi í raun átt val um það eða eiðstaf. Í þessu sambandi er rétt að benda á að nýir þingmenn eiga ekki lengur kost á að vinna eið að stjórnarskránni frekar en drengskaparheit eftir breytingu sem gerð var á 47. gr. stjskr. með 16. gr. stjskl. nr. 56/1991.
    Ekki er kunnugt um ástæður fyrir því að ástæða er talin til að gera tvö samhljóða frumrit af þessari yfirlýsingu en mismunandi vörslustöðum þeirra, sbr. lokamálslið, er e.t.v. ætlað að auka líkur á að annað varðveitist ef hitt skyldi glatast. Öllum skjölum, sem Alþingi varðveitir, ber þó að skila til Þjóðskjalasafns innan 30 ára frá tilurð þeirra skv. 5. gr. laga nr. 66/1985, um Þjóðskjalasafn Íslands.

Helstu heimildir:
Alþingistíðindi 1944 A, bls. 13.
Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 121–122.
Gunnar Helgi Kristinsson, Þróun íslensku stjórnarskrárinnar, 1994, bls. 67.

11. gr. Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Svo er og um þá, er störfum hans gegna. – Forseti verður ekki sóttur til refsingar, nema með samþykki Alþingis. – Forseti verður leystur frá embætti, áður en kjörtíma hans er lokið, ef það er samþykkt með meiri hluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu, sem til er stofnað að kröfu Alþingis, enda hafi hún hlotið fylgi ¾ hluta þingmanna … 1) Þjóðaratkvæðagreiðslan skal þá fara fram innan tveggja mánaða, frá því að krafan um hana var samþykkt á Alþingi, og gegnir forseti eigi störfum, frá því að Alþingi gerir samþykkt sína, þar til er úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru kunn. – Nú hlýtur krafa Alþingis eigi samþykki við þjóðaratkvæðagreiðsluna, og skal þá Alþingi þegar í stað rofið og efnt til nýrra kosninga.
1)Stjskl. nr. 56/1991, 2. gr.

Tilurð: Greinin var tekin upp í stjórnarskrána 1944 og hefur staðið þar óbreytt síðan, að frátöldum orðalagsbreytingum sem voru gerðar árið 1991 vegna afnáms deildaskiptingar Alþingis. Greinin á sér að hluta til samsvörun við 10. gr. stjórnarskrárinnar frá 1920, þar sem var mælt fyrir um að konungur væri ábyrgðarlaus og friðhelgur, en sú grein var samhljóða 18. gr. dönsku stjórnarskrárinnar frá 1849.

Skýring: Greinin mælir fyrir um ábyrgð forseta Íslands sem annars handhafa framkvæmdarvaldsins skv. 2. gr. stjskr. Af því er ljóst að forsetinn verður ekki dreginn til ábyrgðar, hvorki refsingar né skaðabóta, vegna stjórnarathafna sinna. Það sama gildir um handhafa forsetavalds sem inna af hendi stjórnarathafnir í fjarveru forseta. Verður að skoða ákvæði þetta í samhengi við 13. gr. stjskr. um að ráðherrar framkvæmi vald forseta, 14. gr. stjskr. sem mælir fyrir um að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum og 19. gr. stjskr. um að undirskrift forseta undir stjórnarerindi veiti þeim gildi þegar ráðherra riti undir þau með honum.
    Ábyrgðarleysi forseta takmarkast við stjórnarathafnir hans og því yrði unnt að koma fram skaðabótaábyrgð á hendur honum eftir almennum reglum vegna annarra athafna. Um refsiábyrgð forsetans vegna annarra athafna gildir hins vegar sérregla 2. mgr. 11. gr. en samkvæmt því verður hann ekki sóttur til refsingar nema með samþykki Alþingis. Verði samþykki veitt verður opinbert mál rekið gegn forseta fyrir almennum dómstólum og eftir þeim reglum sem gilda um meðferð opinberra mála. Aldrei hefur reynt á að tillaga um samþykki Alþingis skv. 2. mgr. hafi verið borin fram.
    Í 3. og 4. mgr. 11. gr. er fjallað um skilyrði þess að forseti verði leystur frá embætti áður en kjörtíma hans er lokið í tilvikum þar sem hann hefur ekki sjálfur óskað lausnar frá embætti. Er hér höfð í huga sú aðstaða að ótækt þyki að forseti gegni lengur embætti, t.d. ef hann gerist sekur um refsiverða háttsemi, verður andlega vanheill eða djúpstæður pólitískur ágreiningur hefur orðið milli forseta annars vegar og ríkisstjórn eða Alþingi hins vegar. Stjórnarskrárákvæðið mælir ekki fyrir um að neinn tilskilinn fjölda þingmanna þurfi til að setja fram slíka kröfu. Komi hún fram eru skilyrði frávikningar forseta bundin þrenns konar fyrirvörum: Í fyrsta lagi að aukinn meirihluti þingmanna samþykki hana, í öðru lagi að hún verði samþykkt með meirihluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu og loks að fáist ekki slíkt samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslunni að þing verði rofið og efnt til nýrra kosninga.
    Skilyrðið um samþykki ¾ hluta þingmanna felur í sér að ekki verði hvatvíslega ráðist í slíka ákvörðun. Má álykta af orðalaginu að hér sé átt við ¾ af heildarfjölda þingmanna eða 47 þingmenn en ekki aðeins ¾ af þeim fjölda sem venjulega þarf til þess að Alþingi sé ályktunarbært skv. 53. gr. stjskr. Forseti lætur af störfum þegar samþykkt Alþingis þessa efnis hefur verið gerð en skylt er að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu innan tveggja mánaða frá því krafan var samþykkt. Verði frávikning forseta samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni verður forsetinn leystur frá embætti skv. 3. mgr. 11. gr. Myndu handhafar forsetavalds gegna störfum forseta þar til niðurstaða um það liggur fyrir.
    Þjóðaratkvæðagreiðslan, sem fjallað er um í 3. mgr. 11. gr., er eitt fjögurra tilvika þar sem stjórnarskráin mælir fyrir um þjóðaratkvæði. Eru hin tilvikin talin í 26. gr. stjskr. um þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar þess að forseti synji lagafrumvarpi staðfestingar, 2. mgr. 79. gr. stjskr. sem fjallar um breytingar á kirkjuskipan ríkisins skv. 62. gr. stjskr. og 81. gr. stjskr. um að stjórnarskráin skuli samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Slík atkvæðagreiðsla fór fram árið 1944 og hefur 81. gr. því eðli málsins samkvæmt ekki þýðingu þaðan í frá.
    Er 3. mgr. 11. gr. frábrugðin hinum tveimur virku stjórnarskrárákvæðunum um þjóðaratkvæðagreiðslu að því leyti að hún kveður skýrt á um að atkvæðagreiðslan skuli fara fram innan ákveðins tímafrests, eða tveggja mánaða, og hún tilgreinir að meirihluta atkvæða þurfi til þess að samþykkja að forseti verði leystur frá embætti. Ætla má að hér sé átt við meirihluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru ekki frekari fyrirmæli í stjórnarskránni en ætla má að löggjafinn gæti sett um hana sérstök lög.
    Samkvæmt þessu verður forseti varanlega leystur frá embætti sínu ef meirihluti þeirra sem þátt taka í þjóðaratkvæðagreiðslu um frávikningu hans greiðir henni atkvæði sitt. Ber þá að efna til forsetakosninga samkvæmt fyrirmælum 7. gr. stjskr. og skal kjósa nýjan forseta til 31. júlí á fjórða ári frá kosningu fráfarandi forseta.
    Verði frávikning forseta ekki samþykkt í þjóðatkvæðagreiðslunni skal Alþingi þegar rofið og efnt til nýrra kosninga, sbr. 4. mgr. stjskr. Með gagnályktun frá niðurlagi 3. mgr. má ganga út frá því að forseti taki aftur við embætti sínu þegar þessi niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar liggur fyrir og gegni því til loka kjörtímabilsins. Það kemur þá í hans hlut með atbeina forsætisráðherra að rjúfa þing eins og endranær á við um þingrof samkvæmt 24. gr. stjskr.
    Krafa um frávikningu forseta hefur aldrei verið borin fram á Alþingi.

Helstu heimildir:
Alþingistíðindi 1944 A, þskj. 1, bls. 13.
Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 373–387.
Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 373–392.
Gunnar Helgi Kristinsson: Þróun íslensku stjórnarskrárinnar, 1994, bls. 68–69.
         Skýrsla starfshóps ríkisstjórnarinnar um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar, 2004.

12. gr. Forseti lýðveldisins hefur aðsetur í Reykjavík eða nágrenni.

Tilurð: Greinin var tekin upp í stjórnarskrána 1944.

Skýring: Embættisbústaður forseta er að Bessastöðum en skrifstofa hans hefur frá árinu 1996 verið í húsinu Staðastað við Sóleyjargötu í Reykjavík. Þarfnast greinin ekki frekari skýringa.

Helstu heimildir:
Alþingistíðindi 1944 A, þskj. 1, bls. 14.
Gunnar Helgi Kristinsson: Þróun íslensku stjórnarskrárinnar, 1994, bls. 70.

13. gr. Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt. – Ráðuneytið hefur aðsetur í Reykjavík.

Tilurð: Fyrirmynd þessarar greinar er 9. gr. stjórnarskrárinnar frá 1920 þar sem mælt var fyrir um að konungur hefði hið æðsta vald í öllum málefnum með þeim takmörkunum sem stjórnarskráin setti og léti hann ráðherra framkvæma vald sitt. Þar sagði jafnframt að ráðuneytið hefði aðsetur í Reykjavík. Eins og sjá má þá hefur fyrri málsgreinin verið stytt verulega. Kjarni þessa stjórnarskrárákvæðis kom reyndar inn í stjórnarskrána með 1. gr. stjskl. nr. 16/1903 samhliða breytingum sem gerðar voru vegna heimastjórnarinnar þegar framkvæmdarvaldið var flutt til Reykjavíkur frá Kaupmannahöfn og ráðherra skyldi tala og rita íslenska tungu og bera ábyrgð gagnvart Alþingi.

Skýring: Greinin er eitt af kjarnaákvæðum stjórnarskrárinnar um æðstu handhöfn framkvæmdarvaldsins, valdsvið forseta og verkaskiptingu hans og ráðherra. Ber að skoða hana í samhengi við 11. gr. stjskr. um að forseti sé ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum, sem áður er rakin, 14. gr. stjskr. um að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum og 19. gr. stjskr. um að undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veiti þeim gildi er ráðherra ritar undir þau með honum. Vegna þessarar framsetningar stjórnarskrárinnar á störfum framkvæmdarvaldsins eru eftirfarandi ákvæði II. kafla stjskr., sem fjalla um ýmis störf forseta, í raun réttri lýsing á störfum ráðherranna og þeim valdheimildum sem stjórnvöldum er ætlað að hafa með hendi. Ákvæði 1. mgr. 13. gr. stendur í nánum tengslum við 14. gr. stjskr. enda hlýtur það almennt að vera forsenda þess að ráðherrar geti borið þá ábyrgð sem þar greinir að þeir fari jafnframt með yfirstjórn stjórnsýslunnar.
    Er athugunarefni, við endurskoðun ákvæða þessa kafla, hvort ekki sé rétt að orða ákvæði um handhöfn framkvæmdarvaldsins og yfirstjórn stjórnsýslunnar með skýrari hætti þannig að þau endurspegli betur á hvers hendi hún raunverulega er. Atbeini forseta er aðeins formlegur en ráðherrar eru raunverulegir handhafar þess valds sem forseta er falið í stjórnarskránni. Ljóst er að athafnir ráðherra, sem atbeina forseta þarf til, eru þó aðeins lítill hluti starfa sem þeir hafa með höndum. Í lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 73/1969 og samnefndri reglugerð nr. 3/2004 er nánar fjallað um skipulag þess og verkaskiptingu milli ráðherra.
    Í H 1998, 4552 var sú ákvörðun umhverfisráðherra að flytja starfsemi Landmælinga Íslands til Akraness dæmd ólögmæt, m.a. með vísun til 2. mgr. 13. gr., þar sem ráðherra hafði ekki aflað sér lagaheimildar fyrir flutningi stofnunarinnar frá Reykjavík til Akraness. Í kjölfar dómsins var lögum um Stjórnarráð Íslands breytt og segir nú í 9. gr. þeirra að ráðherra kveði á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir nema á annan veg sé mælt í lögum.

Helstu heimildir:
Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 122–124.
Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 130–133.
Gunnar Helgi Kristinsson: Þróun íslensku stjórnarskrárinnar, 1994, bls. 70–71.

14. gr. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherra-ábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.

Tilurð: Greinin hefur staðið í núverandi mynd frá 1944. Sérákvæði um ráðherraábyrgð kom fyrst inn í stjórnarskrá með 2. gr. stjskl. nr. 16/1903 í tengslum við stofnun heimastjórnar en þar sagði að Alþingi gæti kært ráðherrann fyrir embættisrekstur hans eftir reglum sem nánar yrði skipað fyrir um með lögum. Var landsdómur settur á fót með lögum nr. 11/1905 en fyrst var mælt fyrir um landsdóm í stjórnarskránni með breytingum sem gerðar voru á henni með stjskl. nr. 12/1915. Uppruna ákvæðisins má reyndar rekja til 3. gr. stjórnarskrárinnar frá 1874 sem mælti fyrir um það hvernig lagaleg ábyrgð skiptist milli ráðgjafans fyrir Ísland og landshöfðingja.

Skýring: Greinin mælir fyrir um að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum og er almenna löggjafanum falið að ákveða nánar skilyrði og inntak þessarar ábyrgðar. Þá er það á valdi Alþingis að kæra ráðherra fyrir embættisrekstur hans og getur forseti Íslands ekki leyst ráðherra undan saksókn né refsingu sem landsdómur hefur dæmt nema með samþykki Alþingis, sbr. 29. gr. stjskr.
    Með ráðherraábyrgð í þessu stjórnarskrárákvæði er átt við svokallaða lagalega ábyrgð ráðherra á embættisverkum sínum. Í henni felst refsi- og bótaábyrgð ráðherra vegna embættisbrota gagnstætt hinni þinglegu eða pólitísku ábyrgð sem ráðherrar bera gagnvart Alþingi á grundvelli þingræðisreglunnar. Af orðalagi 14. gr. er jafnframt ljóst að hin lagaleg ábyrgð er persónuleg og hvílir eingöngu á ráðherra en verður ekki beint gegn ríkisstjórn í heild sinni.
    Fyrirmæli 14. gr. hafa verið útfærð nánar með lögum nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð og lögum nr. 3/1963 um landsdóm. Í lögunum um ráðherraábyrgð er m.a. mælt fyrir um efnisþætti ráðherraábyrgðar, skilyrði sakfellingar og viðurlög en brot á lögunum varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Samkvæmt 13. gr. laganna um landsdóm skal ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn ráðherra gerð með þingsályktun og skulu kæruatriðin nákvæmlega tiltekin í þingsályktuninni enda er sókn málsins bundin við þau. Jafnframt kýs Alþingi mann í starf saksóknara til að sækja málið af sinni hendi og annan til vara. Þá kýs Alþingi fimm manna þingnefnd með hlutfallskosningu til þess að fylgjast með málinu og vera saksóknara til aðstoðar. Samkvæmt lögunum skulu 15 dómarar eiga sæti í landsdómi eins og nánar er kveðið á um í 2. gr. þeirra. Landsdómur hefur aldrei verið kallaður saman þar sem Alþingi hefur aldrei samþykkt að höfða mál gegn ráðherra út af embættisrekstri hans.
    Það er umhugsunarefni hvort þetta fyrirkomulag varðandi refsiábyrgð ráðherra vegna embættisbrota hæfir breyttu lagaumhverfi frá því að reglurnar voru fyrst settar og hvort rök séu fyrir því að laga þær að reglum almenna dómskerfisins.

Helstu heimildir:
Alþingistíðindi 1944 A, þskj. 1, bls. 14.
Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 122–124.
Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 170–184.
Gunnar Helgi Kristinsson: Þróun íslensku stjórnarskrárinnar, 1994, bls. 72–73.
         Starfsskilyrði stjórnvalda. Skýrsla nefndar um starfsskilyrði stjórnvalda, eftirlit með starfsemi þeirra og viðurlög við réttarbrotum í stjórnsýslu, 1999.

15. gr.      Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.

Tilurð: Greinin hefur staðið óbreytt í stjórnarskránni frá 1920 þegar Ísland varð fullvalda ríki, að öðru leyti en því að 1944 kom forseti í stað konungs. Greinin átti sér samsvörun í 13. gr. dönsku stjórnarskrárinnar frá 1866.

Skýring: Samkvæmt þessari grein og með hliðsjón af 13. og 19. gr. stjskr. skipar forseti ráðherra með atbeina forsætisráðherra eða eftir atvikum forsætisráðherraefnis þegar ný ríkisstjórn er mynduð. Af þingræðisreglunni, sem gerð er grein fyrir í skýringum með 1. gr. stjskr. hér að framan, leiðir hins vegar að forseti hefur ekki óbundnar hendur um það hverjum hann felur að mynda ríkisstjórn, heldur er hann bundinn af vilja meirihluta Alþingis í því efni. Sama gildir um þann sem tekur að sér að mynda stjórn að beiðni forseta. Eftir að ríkisstjórn hefur verið veitt lausn og ef ekki tekst á skömmum tíma að mynda nýja stjórn sem nýtur stuðnings meirihluta Alþingis, ber forseta samkvæmt þingræðisreglunni að fela þeim stjórnarmyndunarumboð sem líklegastur er til að geta myndað stjórn sem meirihluti Alþingis vill styðja. Ef stjórnarmyndun tekst ekki með þeim hætti getur komið til þess að mynduð verði ríkisstjórn sem ekki styðst beinlínis við meirihluta þingsins, hvort sem hún er skipuð þingmönnum, þ.e. minnihlutastjórn sem svo hefur verið nefnd, eða mönnum utan þings, þ.e. utanþings fjór isreglunniórn serður eó aávllt að tík j ef flþingi vaotar oenni fvantrust
    Saeja mánað atfkiptirforseta an stjórnarmyndun einskm efnþað hregit bokkurtntíma að mynda ntarfsæfi ríkisstjórn, hs einhadæmirðum það hamkvæmt þslenskra stjórnvkipun ð forseti heti bgripð til jkvæðia athafna ,sem hafatgeta mólitískuaþýðingu án atkbina ríðherra. BEgar fostjmtaáar vonjul hafa mkaparstum það hvr a lndi rvernig lorseti suli fera gsg að voð að tæður pem þeisar tótt hann ms sem fjyrrsegir ,bundinn af vingræðisreglunni Af þiirraiástæðurkæri vissuega tiltgreina rð hatja fítrlegsr ákvæði Iu myndiu ríkisstjórn r í staórnarskrár þ. á m. avert átti að nera slutaerkuforseta í sví sembandi
    Af 4ingræðisreglunni aeiðir að aenjulega r það áreyndasá rflkkurteða meir falkkur sem Að ríkisstjórn hsanda 6em ráðhasví sverjur valjast til híðherra.ómsk.Ráðherrar burfiaekki að follvnæja meinnm sírstök u hæfisrkilyrðim, umram áað haemalmennt aíðkast am efbættismenn
    Um lormlhlð á ukipun ríðherra erfáit ertt að seja Han fer eram í jíkisráðs eins og narar fbættiaeitirgar stm atbeina forseta þarf til,enda telst hkipun ríðherra eil makilvægur stjórnareíðhtaf.aa, sbr. a. mgr. 136 gr. stjskr. og s5 gr. tilskipunar ur. 82/1943.um starfsreglur ríkisráðs,. Tllaga um saipun ríðherra erforin fpp afforsætisráðherra eða eorsætisráðherraefnis ef u nýtutráðuneytier að aæði, og heð ndir itar uann mafnfteigi n kipunar réf siem kipunar réf snnarra aíðherra. BGrð er grafa Ail að goð aka di reðherra undar itaidrengskaparheit e sama hátt og farar embættisrenn sbr. a. mgr. 10. gr. stjskr. áður en keir fa ukipun r réf siniafhent. EÁsama hátt oeiðnst morsætisráðherra eausnar frrir sía henduog annanra aíðherra.með tilligu iem orin fr ump í síkisráðs
    Ertir að rtjórnsýslu,ög nr. 13719913tóku mildi e. jnþr f994,hefur tiðkast að háðherrar bík isæti í lál m efninhver heirra oanhefisrstæðua ,sem heti er á1. mgr. 3. gr. laga na, s við um engsluheirra oað til tkið gál.<Í þesm tilvikum ge annarsráðherra skttur eð atbeina forseta,Ail að gara með fálið ag taa ákvörðun.í sví Forsallsit ráðherra un lendgi töma aegna stúkleika eða af öðrum ástæðum eefur orgtiðkast að hlita nftir atveina forseta,Ail að gatja fnnan táðherra ú hans htað kn sú forsfll sða fjarsvstin skalmmvnnar, 1vo sem vigna stanfra, eefur verið nátin nája mð gara rbku num starðöngu ágerðarbkuríkisstjórn r Í sainnigtiðkeru þórfærðar f grundvelli kriftegra fil kyninga srá 1að oma di reðherra uiem or þá aafnframt íbyrgð á sa til nfna ttarðngi lí stnn skarð Foöt vegnj erfrir því að seaðganga fyrir heglurega ríðherra erflltaf valin æðrum áðherra en a tæri vkki anað viltgreina regar hann íormlegra háttur he hafður á ebku nutarðöngu
    Ertir að rtðari málslið 25. gr. sar breytt m núverandi mhof þrið 19420var getgi útffrá því að daskra sfrirmynd ,að ríkisstjórn hefui í Laun rtjórnvkipunega eimilditil þess að mkveða njölda sáðherra og vkiptiameð þeim htörfum þett horsætisráðherra áyrft til þess aormlegra atkbina ronungs.,rtðariforseta. Eáðuneytim í stjórnarráð Íslands ejöldgai stmtt og ftmtt oftir þeí sem geiðiá e0. gldaog veru fý ríðuneytietofnun hamkvæmt þkvörðun.íeirrar míkisstjórn r em var mað tölduhverjumsinni að frátöldumstaníkisráðsneytin iem ett uvr á stfnumeð lögum nr. 43/19041 Í s 19954, 439komit væstaiéttur,að þeir r niðurstaðumað fylirmælum 7águldardi maga um seðferð opinberra mála.,þess afnis ð mkvruaaldið veyrii unndr eingnog samn sáðherra ,yrði skki beeytt mema með saýria himildit lögum. Þar sf liðirdi mrði þeð knki gegrtmeð forsetavrslkrði. Þátt hkki sé raleg sjóst avernig lkýrarberi áennan dam sefur vmp rá þvssu srkt sokkurtíissaum það hvert sg þe að hvemakil leyti eíkisstjórn er mundin vf valirmælum 7aga um saipuingu searfa silli ráðherra.
    ú he svo byrir hælt í lögum.nr. 73/1969 om Stjórnarráð Íslands bver háðsneytinskuli vera sbr. 1. ggr. 34 gr. þeirra. Lamkvæmt 2. mgr. 3eirrar mreinar eá ekki vatja f stfnumý ríðuneytieé rlggja mau mafsem fjyrireru nefa með sögum. Þ5. gr. laga na semir nen fremur af þeiar skupuisé rtörfum með áðherram skuluiavert íðuneytieagatóskapuisil,enns og sjmn sáðherra Má efnum mkuli saapuisilli ráðhneytiaeftir á væðum seglugerð r er korseti stur stmkvæmt 2illigu orsætisráðherra „nda sýþess aafnfa gætit,að háðhneytieatfimálefnu, sem gðli mínu amkvæmt ekia þarfheimas,“sbr. 1. ggr. 38 gr. laga na
    Með rögum.nr. 73/1969 oá eseja að himilditíkisstjórn r þ.e. uorsætisráðherra eð atbeina forseta, sil að gkveða njölda sáðherra og vkiptiamtörfum með þeim.sýakmörkuniá evo aegu:Annars vegar eeð þeí að foölda ráðhneytiaeg hefti þeimra erfkveðin árögum. Mð þeí að fstklja mð hverj íðuneytiekuli sskapuisagatil,enns og sjmn sáðherra er jafnframt lomið t veg fyrir að áðherrar brði frliri hn ráðhneytinsru efda sirða s lögun ekki fera táð rir því að sáðherra vegði skipað r á ráðhneytis Ekkirt málir fins vegar a mátiþví að semi háðherra fyri mð foliri hn rrtt aíðuneytieg þennig aeta máðherrar bri garai hn ráðhneytinsrns og sauninneefur orgtrðið Þssar tikmarkasnr hafa mtiðkeerið veirar og hkki verðiu sé að stjórnakipunegatgildi þegira hafisokkurmsinni eerið vregin t vefa Hins vegar aefur oöggjafinn gikmarkas fágumeika eíkisstjórn r þ.e. uorsætisráðherra ,á sa tkiptiamerkum seð áðhneytim g þenrmeð áðherram seð þeí að fveða sko a um að aið sviptingu milefnalsilli reirra skvul þess aætitsa tkiptalál m e síðuneytiekm gðli mínu amkvæmt ekia þarfheimas Mð þessu sátiá ehada þiv frm að svigrúmmíkisstjórn r il að gaiptiamerkum seð áðherram skundin þarf ega strkum sbndum. Íssu tatgiter það á liaefni haert sálefnu, sem gög nela il tkinm áðherra ena síðuneytieð gara með ,brði frltt til Rnnars váðherra ena síðuneytisá ress að mögum saueytt m ne aerul.Lögbjafinn gefur stýniega tilið asg aærta til að gáliafyrir um það hndir haaða sáðherra ena síðuneytieiltekin ál gkuluiavyriaog hefur st sköringargost r, 1ð möguheti bennig aundin endur uíkisstjórn r okkur stof t v 19954, 439kem áður er reti Hins vegar aíkisrsokkurtíissaum þatta ftriðináróst hins vorsikmsausn ákvæðis e1.5 gr. þer sem stmir na forseti hkveðintölu áðherra og vkiptiimeð þeim htörfum

Helstu heimildir:
Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 123–124.
Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 173–215.
GAgar GKl.Jóhnson: Stjórnsrráð Íslands b190–1296.
Ómunaur uelgiaon: Stjórnsrráð Íslands b19642004

156 gr.      Forseti lýðveldisins mg ráðherra.rtkiptalíkisráðs,og hefur sorseti ha forsætis – Rögbog hekilvægur stjórnarsíðhtaf.aai skal fera gmp rrir forsta í síkisráðs br>
Tilurð: Greinin tefur staðið fnisleguaóbreytt í stjórnarskránni frá 1920 ,þegar Ísland varð fullvalda ríki, að öðru leyti en því að 1944 kom forseti í stað konungs.,auk less aem gerðar voru okkur rnarar mnni hettarbbreytingar á kreinin n.

Skýring: Gamkvæmt þessari grein okulu 1lgbog harar mnilvægur stjórnarsthafnir rbon r mp rrir forsta í síkisráðs A gginnstrnumtil er úa um að ráða egt áau merkufni hem forseta er uvalin amkvæmt etjórnarskrá menliðibiningua um avaða stórnarsthafnir reljait að hðru leyti eko amnilvægur sf þer eigaer ndi 1 síkisráðser að afnna aísírstara silskipunaur. 82/1943.um starfsreglur ríkisráðs,. Str ta valkkunn fjyla uagafrumvarfpg þengsályktuniarilligu uíkisstjórn r nnar fem lang r er fyrir lþingi á grundvelli 2. gr. stjskr.,Þá ká enfna ttarðestinga þeirra oagafrumvarpi sem þeigi efur stmþykkt ag frllvildi nu eða ptarðestinga oöldjóðaegra famnenga, sbo at vikin ú fæmirum þau hál gkm atfreidd aru forslega t síkisráðs
    Eaeja mánað aíkisráðseomiheglurega saman tisar sinum u árin þ.e. u ganmlrisda að vlkkn hanstöingi g eftir þengirestsn ð forui Þar sf aukinaru fondir hanldir rið stjórnarakiptiimg haraafnfai þesgrbbreytingar erða h ukipu ríðherra fbættia Mð þeí að ffndir þass eru fkki frliri hn ratta fr það áreyndanni seo at v egt áau mál ,uiem or h ump rrir forsta í síkisráðs eru orin fpp rrir fann mtan íkisráðs,byrir hlli öngu íkisráðs,itar eða eollvrúnahans. MÁffndinum skálfurmer sóðan slita endurskaðfestingar, þvsi atfreidslu msem þarnig aafa foai gam atan fndir Fndir fni neru þí að fafnfai eiriaog hekna ferir kálnlegaag frldir ir rldir búir í famrýri við þea Þfamrýri gar,skni egafforsætisráðhneytið hrið 19913útffiðibiningua uogsköringargvið meiferð oála.í jíkisráðs eð forirmynd umaf ríkisfáðs,tfreidslu msem ylgjteefur verið nóðan

Helstu heimildir:
Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 12492153
Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 176–1265

157 gr. F !-- Tab -->    Eáðherrarrldirskal fhada u nýtæli í sögum sg um mnilvægustjórnarmylefnu, Svo ekal fg ráðherra.rldifhada ,efninhver háðherra áskarað beir þarfhpp ál.
Tilurð: Greinin tar fyrit tikin upp í stjórnarskrána 19420og hefur staðið þbreytt mp rá því Fátkom forseti í stað konungs.1944. Smæða nrir því að skvæði If þessu tagi ,sem hafur tid. eldrei verið k aönsku stjórnarskrárni aar tekin í stjórnarskránn h uknum.töma aerðasl hana verið ú aðsráðherra.rldim hani verið btlað að homa fakeeriuegu eeyti e stað kíkisfáðs,fndirsem haorur veru á hð krðimfáisrþer sem sonungur vrbbrúettur á Danörkunog sjmnöngu hlli lndi na seru kki með ama hátti og fn he

Skýring: Gáðherrarrldirrena síkisstjórn r rldirrenr með hllt aðru lsnðinenffndir íkisráðs,bg er mað fkálfusgðumhanldir rofta, 1ð mafnfai tisar s veiu með n þingssittr en keiu ega seð n þingssittr enki Ákvæði 1tjórnarskrárium frndir fni er mað físunsviuð g um íkisráðsernáreyndasru þu meta kuludmakil lrliri hg fröldreytt ai hn rar semur ram. Samkvæmt þslenskra stjórnvkipun e uíkisstjórn n ekki fröldkipað ftjórnvaldaeða stjórnaýslunnfnd m þesi skilyingi sð hvn tiki aigi nleur stjórnaalds kvrðandr nema lgboæli írstarega sao byrir hkm g aðeins f algrum gndan tkinngargilvikum
    Mei nilgranu uíkisstjórn r fndirse fyrit tg friemstsa tkiap sáðherram vattuvangrir þva tólitískuaamrýðseem nað synegatgr að ahfa um ftjórn eands,ns og sjtrnumátn ákhverjum höma Af því eeiðir að aáðherra.rnr haóst fakeaa áarfhpp öll sau hál gr heirrreljaasig þerfiaeólitískuanstuðningsvið ena að eknata vost inað synegatgð aáðhgst við sararráðherra un Má esru firlitt lagðufram skaiftegraog hkyni í sginntriðiumaf rað oma di reðherra Helstu heimildir:
Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 125–215.
Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 176–617.

118 gr.      FS ráðherra ,eem mæ esefur vmdir itars,obr það ð mafnfai mp rrir forsta br>
Tilurð: Gssu grein ova um rðiu 1944 og herður ekki silinntil Rollvsfema vn te rtoðun í stmhengi við 1X gr. stjórnarskrárinnar frá 1920 þar sem megrtmvrsráðhfyrir að nnarsráðherra sn súeem mæ esefui unndr itarsgæti korið þð gmp rrir fonunguen brri á ekki vbyrgð á sví að sðru lenliti en ð mað hæri étt arltt

Skýring: Gkvæðið eeiðir afeðli málsig þenrnast gkki sé staraarsköringarg

119 gr. FUdirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veiti þeim lildi ,er ráðherra ritar undir þau með honum. br>
Tilurð: Greinin hefur staðið voktil abreytt í stjórnarskránni frá 1920 ,ð öðru leyti en því að 1944 kom forseti í stað konungs.

Skýring: Ereinin rberisa tkioa í tmhengi við 1nnumr kvæði II. kafla stjskr.,Þfamrýri við 13. gr. stjskr. ueiðir afeessari grein of þer ethafnir rorseta, sem þar gr reti ,erða hkki veirkr fema áðherra eaegg þeim gtbeina finni. elstu herkufni horseta, sem alin ru þ stjórnarskránni þar sem reð ndir itauarsráðherra sn herf fkv. 619 gr. ,eru eftirfarandi Stipun g lansn oeðherra uiv. 615 gr. ,erbættisrkipu i skav 10. gr. ,famnenga,erð vað 1nnumr rk isav 10. gr., ekvörðun umhað stjfna ttman lþingi sav 10. gr. g heftilditil t v estsa rldim hess aeav 10. gr., þangrof saav 104 gr., fam againgsvtjórnarframvarpi sg annanra atmþykkt afyrir lþingi aav 105 gr. ,eútgfarsbrðhabigðaraga uaav 108 gr. ,enðursellingasaksóknarauaav 109 gr. g heitirgagndan águ fráfmögum sav. 3.0 gr.
    Þa sem r9. gr. sælir fyrir um að rndirskrift forseta lðrlit að ins fildi þegar ráðherra ritir undir öggjafarmál eða stjórnarerindi veð honum.hefur sorseti hkki freumvæði If þeí að feir þarugmp heldur eemur þf þv nleurfráfmeðherra
Helstu heimildir:
Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 123–1332
Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 170–184.
Gunnar Helgi Kristinsson: Þróun íslensku stjórnarskrárinnar, 1994, bls. 72.
nbsp;        Stiguður lLídanl Stjórnskipunegaataða orseta Íslands ,Skýrnr h76 u r (anst19942) bls. 7425143.

120 gr. Forseti lýðveldisins meiti þeu enbætti, terlgboælia – REgarnoá esiptalmbættisrean sema vnn heni vslenska íkisrorigrar ttu.Embættisbmr u ver hkal fvnnar eð ena arengskaparheit eð ftjórnvrskránni. L Rorseti letur kikin þeim hrá embætti ,er hann befur vertt lea À Rorseti letur krltt tmbættisrenn úrsinhuembætti áanað ,efda smisu geirrrins ks e1f embættisrikijm sínum. og skþesm vartt r komsur á fð kojsa nm efbættiskiptingena aansn orá embætti seð söguælt u eftir ansnm eða föguælt u eflsit yrk À Reð rögum.ná endan tklja mkveðinalmbættisrean aalkkurauk lmbættisrean aþjirra, sem aliirrenr m16. gr.,br>
Tilurð: Greinin tefur staðið óbreytt í stjórnarskránni frá 1920 ,ð öðru leyti en því að 1944 kom forseti í stað konungs. Uppruna ega van samsvrandi ákvæði Ið afnna aís4 gr. stjórnarskrárinnar frá 1974 soguvr áað árginntriðiumaama hfnis o þess grein oett hrðalagi hæri rábrugðin Þð hati atur vorirmynd til 2.2 gr. dönsku stjórnarskrárinnar frá 1849.

Skýring: GFr árinu 1994 khfa ulgbog heglur ru málefnuilmbættisrean ag annanra atarfsrean aíkisins sekin taraskiptim sg uá eseja að h0. gr. sndurspegli bkki fyrlsiega þarn raunverulegka eem ym aemur þ núvuldardi maggjaöf þvssu svið i Eftir aem áður etendur íó abreytt íað arkaið tkvæðisins mf þeí ar ætlað að htuðnlaað gkveðau aálfustði erbættisrean aagnvart Aesi ske varttalmbættis
    Uyrirmæli 1tjórnarskrárinnar um mbættisrenn ru nenar etfærð n lögum.nr. 730/996 vm ítis i og akyldir stafsrean aíkisins sem geisturaf heólmifyrit uheildarfögun em það hfnu, sr. 438/9954 Ákvæði 1aga ur. 730/996 vaa kki tel forsetakÍslands ,Sáðherra ena saþingis ean ag ailda uð ins fð ahuta el fu hæftafttarb-og húrð sómarar sbr. 1. gr. þeirra.
    Eajórnarskráin sgeymr ekki fyrir æli 1m það hverjui skaluiatljast tmbættisrenn sð öðru leyti en því að 1ún tilgreinir aáðherra ú h.5 gr. g frliri h væðum sI. kafla sg fómararm þ væðum sV kafla Þí aæri óhaimildtað felaa neiur lss gmbætti seð slmenntumlögum. Al öðru leyti en öggjafarum falið að atja feglur ru mað hverjui stljast tmbættisrenn sg fafnframt lverjui seimra er forseta kipað i skr. 1. ggr. 30. gr. samkvæmt 2.2 gr. laga ur. 730/996 vlst haeins lítill hluti starfarean aíkisins sel erbættisrean an rar sr faliirreokkuri sðstu hmbættisrenn síkisins ,auk less aem glmennt ae bíksakel forseöðum an aíkisitfnua ag aíkisiyrir tkja BEg fremur atljast töggeglum nn stollrði uogsangearði uel erbættisrean ag er aað áreun rröldenna t ihvópr þeirra. LEbættisrenn rnir anóst feirrar míttarbtaðumaem mælt ve fyrir um a 2. 14 mgr. 10. gr. stjskr. n rar srum að ráða íkiai étt s i og aörygg þ starf ig um eiðiíkiai kyldir sn rvíli h uðrum ákisitrfarennum . Nnar er kveðið á um ítis i og akyldir smbættisrean aþsI. khuta aga ur. 730/996 Eru heirrrkipað i símabindin l fomm mri í tnn só aðefrátöldumm ómur m sg uákisitksóknara ter sem stipun Íþeu enbætti,er aímabindin
    UVð sviringumá e0. gr. stjskr. br að ahfa u haugaað g famrýri við þe strnum,sem harnt gar s vramkvæmd eð lögum nr. 430/996 ,að fíldaog vbyrgð skili fara ftýniega tsman, lar sabeini forseta eið sviptn ebættisrean almennt aelaair srotut.Ráðherrarmeiti þevþeu enbætti,,er hndir hann heyri, í rær állum oilvikum Rorseti lkipar fn aðsins f aþenni komnr fbættii,auk leðherra uiv. 615 gr. stjskr. n rarkeru nbætti,eæftafttarbómarar sbikilpins sfirlÍslands og avslumbikilp Þgar frallað er um eftilditorseta,Ail að gík j efbættisrennum urá ema etja sá ársinhuembætti áanað í 3. mg a4 mgr. 10. gr. sr á1óst hessararbreytingarátt við seftildithuta sing di reðherra una sanars vegtirgar alds hfa Ail að gaa áaisar tkvrðandr . Dmsktóla hafa mkaðfestiað hligja meri uldardi maggum saipun r aldsríðherra eil mrundvellar uegar rm í i slutningiena aansn oebættisrean ake varu kipað i safforsta í sildi siðkerlri raga sbr. 1H1999, b1885
    Eamkvæmt 2. mgr. 320gr. stal fegarnosiptalmbættisrean sema vnn heni vslenska íkisrorigrar ttu.Eá kkal fher hebættisbmr u vnnar eð ena arengskaparheit eð ftjórnvrskránni. LDengskaparheit i getfu il akyniasé starr firn rar -og hollutu kyldir smbættisrean aagnvart Atjórnvrskránni.
    Erbættisbmr u vrðiu sipað r il að getgnagkveðau mbætti. ajórnarskráin sefur verið ntúlunieo at vún teiti þllum ofbættisrennum ué starrveridasrfá fð k etja sá ársinhuembætti áanað íur en kaipun r öma aeirra oaýkr, 1br. 4. mgr. s0. gr. sÞrnig ar hkayt að trttalmbættisrean ikomsuá fð káttiaseð söguælt u eftir ansnm e stað kess að maigja mýja stjrf iieo ag haravnn hmisu gins ks e1f embættisrikijm siki avnn hvn nája stjrf ium,ser. 4 lia mboð rean sAlþingis vrá e2. júln h.96 vg hH20041 b1885
    E5. ggr. 10. gr. stmir na fndan tklja mgineð lögum nkveðinalalkkuraebættisrean alk lmbættisrean a sem aliirrenr m16. gr., þ.e. uúrð s-og húftafttarbómarar Þð hefur vins vegar akki veri getrt,hn rrts og sður etmir nilda ué starr feglur ru msipun g lansn oeðherra uiv. 615 gr. stjskr.
Helstu heimildir:
Alþingistíðindi 194951296 v, þskj. 165, bls. 3714–17143g l315117155
lafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 37411755
unnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 3755137.
Gunnar Helgi Kristinsson: Þróun íslensku stjórnarskrárinnar, 1994, bls. 678

121 gr. Forseti lýðveldisins metrirfamnenga,vað 1nnumr rk i Fátketur kvnn hegarstíkt famnenga,getrt,hn þiirrahfa u hér afólgð af sa eða skvð i s lndi rna aanndhlgi Kða eftþiirrahrsalfil Rbeytingarátstjórnarshgum níkisins ,aema amþykki Alþingis,eomihil ,br>
Tilurð: Greinin tefur staðið óbreytt í stjórnarskránni frá 1920 þegar Ísland varð fullvalda ríki, að öðru leyti en því að 1944 kom forseti í stað konungs.

Skýring: Gamkvæmt þessari grein or aað erkufni hejórnvalda,að geta famnenga,vað 1nnumr rk iso þerfiaeeu enki að flita nftir aimilditingsins,í sví sekni eema ao ektndi áksem þar greinir .Forseti lýðveldisins mr korslega túeem metrirfamnenga,vað 1nnumr rk ien lgtgiter eð nl rk a að hjóðaöfðingjiheni vatta flutaerkufem þðstuihandhafaiframkvæmdarvaldsi Eins og s við um önnumr kvæði II. kafla stjskr.,e baditorseta,Ail að geta famnenga,vað 1nnumr rk isó aðeins lorslegatog er al 1nll leyti eramkvæmdtaf ríðherra uiv. 61. gr. stjskr. ug þenrnsví seð ndir itauahans hil þess að mndirskrift forseta láislildi ,ekr. 1.. gr. stjskr. sSmnengaserð n álfusr á1öndum.staníkisráðserra ,eer. a. mgr. 13 gr. laga ur. 739/9971 m.staníkisrjónutu Íslands bg 6.tölu l.14. gr. heglugerð r er. 3/2004 em Stjórnarráð Íslands
    Með ramnenga í stilyingi s21 gr. er átt við svers homnr amkvmulag vslands bið sanað rk iena saþióðaatofnun heert seldur etí liða bða margliða bem þtað er uð koeða s um íióðafttarbegaaítis i oða styldir sslenska tíkisins Algtgiter ð geta alli rk a amnenga, sinskm eargliða bemnenga,vem gerðarrenr maegumsaþióðaatofnuaa, sigaeér laggarnoð drga na. SFllvrúna sslenska tíkisins sem aluaþýt í stmnengaserð ,erða hoftað ahfa u handum.sírstök eimildar sjölffrá 1taníkisráðserra sem soeða s um mboð seirra oil tmnengaserð r frrir senduoíkisins AStldim her eendaierra úslands eka fantaf.llvrún Íslands ehá maþióðaatofnun ,í sví sndi rer sem stmnenga,fndir ara framk,með amaenga,erð Ef su g aðeráða tí liða bemnenga,villi rák a aetur kvn tt ér saað keð rðaendaiga,kiptim silli rendaierra ka ftaníkisráðserra sðidar ák a na
    MUaníkisráðserra sefur s srafai staðummboð rsínusheftilditil t vkuludbida ríkis í 3igi n nfnirog getur fafnfeldvkuludbndin íkis ð hjóðafttaneð linhviða bfirlýsing m. Þ5ramkvæmd nr mæmiruess að mynni hettarbbemnenga,, 1id. eið aiptiaemnenga,,vað 1nnumr rk ism g ugerðarreil talmmstöma aea bemnenga, sem sara framkmeð saptim s mrðaendaigam. oafaifkki fytgi tarðestinga orseta. Eá kefur verið ntð svoktnað atrar efllvrúna síkisins senftaníkisráðserra safaifikmarkas arheimildir     Eamkykkt atext teóðafttarbkmnengasað vlkknni semnengaserð hefur ekki bida di ákhiftfyrir í lenska tíkisðen ð menni flkknni sekur aið sanað er l rer sem sióðafttarbegaakuludbidangieíkisins seofnuat tg fkvæði I2. gr. stjskr. hemur rrit til tajal na BGristaað erjulega í 3veimur kr.fur, þ.e. mie mndirsitauahg frllvildi nu e(tarðestinga ) Eftir að rtaníkisráðserra sea beeem mytgi efur vmboð srá 1onum.hil tmnengaserð r fefur vmdir itarsramnenga n befut amdir búirnu uf þeí aa fullvilda uvnn Þð hetur kralit a sví sð geta fað synegar ráðhtaf.aai ,eins og narRbeytialögum nil að gmppjyla utmnengaskuludbidangia uogsð atfl amþykki sAlþingis vil Rollvildi nur nnar feav 10. gr.,skþerf fkíktsamþykki s.Stiput mánarllvildi nu ni seálfurií 3veökr.fu þ.e. manars vegur stjórnakipunega rllvildi nu sem göt uf þeí aa fmppjyla uað hailyrði stjórnvrskrárinnar uð atfl aaðfestingar, orseta, sg hns vegar arllvildi nu eaegtuvangihjóðaftta,, 1n rarkeelst r sví sð grk isailr arllvildi nur sjal vil,eaþióðaatofnun araea bemnengasðidaske varttirfamnengaum urrslegatoióðafttarbegaa kuludbidangia ildi
    Ertteóðafttarbkmnengar krlur a hér af sa eða skvð i s lndi rna aanndhlgi Kða ehrsar     Með rf sa is lndi rn átt við sð grk i rf sa isér afirlrðhafttanknum.t lndi reð flli rk a amnenga en þvæði h 1ons vegar akki veð þett hfirlærla nrði f ekigarréttui 1id. eið sglufafðar f 3igiuoíkisins Aá kefur vrðalagi h„kvð i s lndi rna aanndhlgi “serið ýriteo at veð þeí akþtt við sakmörkunifirlrðhRnnars vákisisfirlndi rna aanndhlgi Þí arða hid. eemnenga,, 1em mytl u hér aétt ar lndaa aík a al fomeaveða bða mýtu nu ennanra aað lida r sslenskra sfna hagsögusgun,aliirreytl u hér akvð i s stilyingi s21 gr. eg herður eð flita namþykki sAlþingis vur en kaíktirfamnenga,     Hugiki h„tjórnarshgi r“s 2.1 gr. eefur vrðan l fni hil þmssauvngearltn Má haugsanleurftúlusuað hao at vingöngu kþtt við sbeytingaua má efnum mkm stipuð er u stjórnarskránen keir i kyringumefur só aerið hfnfaimkm sofhþrnguui Þþeí akmbandi er ráitsa tgta þass að men sem tomið te hefur alidaÍslands ea flli rk a amnenga enki vallaðuá ebeytingar á ktjórnarskránni fett hlidarsramnengaum um rEvrópka tfna hagssæði heni veki hpp ömsr rm rður pm þau hfnu, SÁsaðiutu Íratugm.hefur skaparstuú aegnj eð flita hefur verið mþykki sAlþingis vegar Íeóðafttarbkuludbidangia uemnengasaerða hkki vmppjylatr fema eð beytingaumá lögunm Er he at sklyingir ong r il arundvellar ursraíktirfamnenga,>     Þaiar skmnykki sAlþingis vn ita eeav 10. gr.,sligjr pmaníkisráðserra sram illigu il þengsályktuniarum að rlþingi vaiti ékisstjórn n n eimilditil þess að mullvilda uað oma di rtmnenga.Stiludbidangim eamsvæmt etíktu stmnengaiþenrnsóðan sð mulgjasenftirfeð að ing di raga beytingaum að frumvæði Iess aáðherra sn hálið aeyrir rldir . Dri vkr mm að r akíktu ramvarpi,sé r tnn vlita enftirfeimilditil þess að mullvilda utmnengasg uált vyrir um aiguestinga ans ,eins og neálmánaí13 gr. laga ur. 7219913tm rEvrópka tfna hagssæði Þð hlst hins vegar ael fudan tkinngarð hjóðafttarbkmnenga,rú figuestinrhvr a lndi r haildasinni
    Afkeelgaumfamnykki Alþingis,eeav 10. gr.,setur kaaðfestingaforseta lg umaníkisráðserra slmlli rk a amnengaum.t t ér saað Þjölfoai gar eram ollvildi nusemnengasns lamsvæmt eeglum ajóðaftta,,og sjtfnuat tióðafttarbegaakuludbidangieíkisins semsvæmt etmnengaum.terjulega ið þea töma arkaeema aðari mildi sikudagssé reti e stmnengaum skálfurm

Helstu heimildir:
Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 137–2381
unnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 377–239.
Gunnar Helgi Kristinsson: Þróun íslensku stjórnarskrárinnar, 1994, bls. 679280

122 gr.      [ Forseti lýðveldisins mtrnuirfamnn lþingi sigaeéðarifentímu ikum getir adenna rsaþingis kosenga,r.Forsetinn sktur kegluregatlþingi á ver t./b> ] 1)br> 11) Sjskrl.ur. 75619911,3. gr.

Hilurð: Gssuri grein oar getrreytt 9911,3tmheiða bví sð gdildarviptinguAlþingis vi rsanum n og mmsr rarar beytingar erð aratstjrfssátturmtingsins, m.a. m sví sekni eð gdrga ársákhiftummíkisstjórn r n nr ststjrfssöma aengsins, sÞrnig ai rs3. gr. stjskr.,ueytt m ne aerulað rlþingi vkldiihoma famnn . goktóbr þ ver tbða mýftaveirkrn da aer snentir ag sjtnda 6il januendgdr fnftavris,eer. a. gr. stjskrl.ur. 75619911 Mð þessuri gbeytingauaeru árrlthg frlaaineiur laufkvæði I22 gr. ,faemstaðið öfði þ stjórnarskránni frá 1920 ,ð onungur vg skðariforsetantökiekvörðun umhaað hverær áingi umfaldiihstð sogsð aað haildiihollaðuaman tl,eaukafndirsegar nað syngæri il ,

Skýring: Gfjyrr málslið 2.2 gr. lflst hkiyld,Ail að goeðajarlþingi vkman inan dímu ikunrfráfmjölrdei ,s rilliit hil þess avort se startl fni hýal þengshlds sea ehort sikinl hanaið ona famnn nria híkisstjórn, henaiinsfjyrr mtapt veigit yrkknum..Stiyld,Ail aessurrvílii s lorsætisráðherra g uydi rer afðarhann rbyrgð seftann rgeði þeð knki
    Eaðari málslið nn serisa tkirarbeð hoið sóne valirmælum 73. gr. sm eamsvomudagkegluregasAlþingis v. goktóbr þ ver tbða mýftaveirkrn da aeftann rbr ump í kefgi da samkvomudginnm.ná eó abeytialeð sögum. Þ5.2 gr. lafðuivur eerið veðið brum grðiuma um að aorseti srnudifamnn lþingi s ver t.Af því ekvæði Iett aeiði sá rbættisrkildirsorsætisráðherra aðfera gmp rrir forsta illigu m að rlþingi vrði skvat taman tl,erndir þvsi adginfaems3. gr. stegi tl fu hefse sagguefuiuakki veri gett um anan damsvomudag,Þfamrýri við 1atta fgafforstaistmkvæmt 2illigu orsætisráðherra útffrrsta réf sumaama nstrnumtingsins,ann iguoð hadag,uiem oir gar s vtjórnarríðindim sg uögboir ngarbaðui,auk less aem gingsennum uvr ael kyni réf ega eerær áingivkldiihoma famnn Þ5ramkvæmd g sjmnvæmt 2ýsing m.fráði ean aafðuivingsietenga,ratöfnn úðan sri galgnr sví sð gaþingis een sefnuiututaman í stmlAlþingis vð atflkknni sgð sjónutu Í ómukirkj ni sg heýsddus lorsta les gmp réf siit ar srnudifingi umfaman g lasit þeð kett >     Þaiar srðalagi 5.2 gr. lar breytt m9911vekifai ðli ega tú spurengasíhverjumsbeytinganrtti að nera salgn Þ5atugaem im sið 1. gr. sramvarpi hil tjskrl.ur. 75619911er mueytt mrðalagi5.2 gr. lýriteo :h„Ntutrrðalagi5essarar mreinar eeiðir afeesr i ginnbeytingaua mtörfum mlþingis vð aeð keendur llt arið .Forseti lýðveldisins mtrnuirflþingi vkman 1vo sem vigr hefur ,að vlkknumslmenntumlkosengam sg uunfafnframt latja fegluregatoingas ver tb. goktóbr Íssu gbeytingasáir að aefuibndinr singaansn ir þar sem rorseti íslands ekíkur áingi um,krala neiur .“
    Af þessu tð gdmt lutubreytingar á kreinin n.fyrit tg friemstsa teí aa fulaa neiur lngaansn irhn rrkinarukikin trstarega sa teí avaðaafólgð aé r þeí aýtæli í stðari málslið 2henar uð aorseti stuj Alþingis Þ5ramkvæmd efur ekganrbeytingasrðan á sví avernig lkaðið frað atjnngauaingsins,rá því aem áður evr.
Helstu heimildir<:br> lþingistíðindi 1949–111e, þskj. 1556 bls. 37048g l3050
lþingistíðindi 1949–111eB, d 37080g l308823089
lafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 323–2247
unnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 32511255

123 gr. F !-- Tab -->    Eorseti lýðveldisins metur krestsað rldim hlþingis vil ikin ntöma só arkinaendgr en ktæri ikum og hkki vema inhueinni u ari.flþingi vetur kó aerit forseta lamnykki Ail afbriga far þvssu mþ væðum À /b> [ FHnailþingi vaii gastsað etur krrseti lýðveldisins mrgaeð gaðiu akvat tlþingi vkman tl,erndirhefsað syngbr uil ,Forseti fr það g akyldteftþskgbr stumhaað har miri hhuta aþingis ean a./b> ] 1)br> 11) Sjskrl.ur. 75619911,34 gr.

Hilurð: GFyrr málslrein oessarar mreinar eefur staðið órginndrtturmtbreytt í stjórnarskránni fllt ará 1974 samkvæmt 27 gr. stjórnarskrárinnar f974 sgatonungur v„restsað rldim hins veglurega saþingis vm oilvikin ntöma se damstarkinaendgr en k4 ikum ,aema aþingi vkmaykki staað ,og hkki vema inhueinni u ari“. elmilditonungs.1il t v estsa engirldim har breytt m990 þarnig að aen ter eettinfn eil,ealraerndirhlþingis ,auk less aem grestsn mtt enki vjtnda 6endgr en ktæri ikum . Vð sýðveldisitofnun ia 1944 kom forseti úðan s stað konungs. aðari málslgeinin tar fins vegar aekin upp í stjórnarskrána 19491,

Skýring:/i>: Al stðir veru llt aarar n ker eiu nesegar nonungsivar marit faditil þess að muestsa rldim hlþingis ,að forirgeinidu msipyrðir, þllt aarrröar bkum . Áþvsi aöma att eeigi tjórnarskrárivr n nráitsil t vkija s aemx ikum og hkðarif ektaveium oeð beytingauá ktjórnarskránni f1903 gUrýrt Atjórnvrskránrkvæði Iva, 1ð meknata vost inðrum þrui,aaugsa l þess að mvita ningi umfajrfssfrsðen dasefui uórrir lgtirg tjórn, hð follvrngi vonungs.,aunars vgta getrtað menauaia nráitsingsins,ðaafát vkija s ailvikin ntöma seð þeí að fkveða nengirestsn rmtbilvikin ntða nhæf ega taggarnoöma >     Þkvæði nufrá 1974 sar fins vegar aldrei vbrit frgtillnengirestsn a stmkvæmt 2kvæði nufrá 1990 om forit trið 1993 þegar leyf gar sð muestsa rldim hlþingis seð þlyktunie stmninhui þingi v56 gapríltil 2.6 júln hað á . Ójóst ae viert sg þe avernig lkvæði nufefur verið brit fúðan senlíkt t til efur soldim hengsins,drei verið krestsað ð forseti úbkulði f nskmnykki sAess aeálfus
    Með rbeytingaumá ltjrfssátturmtg sjtnfssöma alþingis ,aem gerðar voru 9911,3e svo beiniíkis grj íðufyrir að þeigit rfum mjókiekforuin ð foestsn rndir stilyingi s. ggr. 30. gr., þae. mie mamnykki Aengsins,eálfus Samkvæmt þesr i álslrein oe forsta eium.terit faditil ð muestsa rldim hingsins,í smerkngauá væðisins me heertkifingi umfaálfureé rorsta íess Fátkn óst að aorseti slþingis sefur eknntrteetti sýa sko aeirkrdag ,eetldim hargaf 3igum,kð menairfondir hana verið anldir Þar se vins vegar akki vm að ráða þe aoestsn þengirldi bem þ stjórnarskránni freinir .
    Með reí að fstklja mð hoestsn eti bigumgis vi rð r ailvikin ntöma svr nonið t veg fyrir að onungur væti ksentsingseen seimif nsyrir i rum fram:anldþengshlds Þþkvæði nufrlst reí aafnframt la l þess að mtalð nerai unmnengirestsn á stilyingi sess aerður eorit ifram:anld,fndir eð flkknumsrests að nera skveðinn
    Ua sem rtamánað aengirestsn anaidrei vt ér saað kamkvæmt ekihviða búbkulði fjóðaöfðingjja heldur eávllt aarrudan glgaumfamnykki Alþingis,,aem gafnframt lvfur verið á liai garl u hér aamnykki Ail afbriga far ramtn geinidu msipyrðir, r aenrn Ið afallasreskarum a. ggr. 30. gr.,Hins vegar arukiksu ega ímæða Ail að gaa haa, seo ag hgeinin rb hailda,vil,endurspoðunar.
    Eáttarbkhiftfengirestsn a sru þu mð keerf fengsins,eaðuvat r sbil en erða hvoktikin upp tur vins og nið þeauvan sailin eeiar sondir haefast tð kája amkvæmt eesr i dagsránenrgett uvr fnfta endan hoestsn ini anaidagsránee aerui gett arítis i oingsean arala nlmennt anðurs mkr. 1. ggr. 34. gr. stjskr. seð n restsn vr n. samkvæmt 2. ggr. 30. gr.,Herfeimildtað goeðajaringasísrests akman efsað syngbr uil ,Fá kr það kyldteftþskgbr stumhaað har miri huta aþingis ean a.Uppr knn rví ð ona fa saða ð aorsetisráðherra e rtoyt að tbita nar afrir að þeigieomihkman edirsett hvnn heni vaálfurrkki með svaðumaála.ao at vað syngbr il þess .
Sbr> elstu heimildir<:br> lþingistíðindi 1949–111e, þskj. 1556 bls. 37048g l3050
lþingistíðindi 1943 B, d 3246822477
lafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 32352246
unnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 325–225

124 gr. F !-- Tab -->    Eorseti lýðveldisins metur kro iilþingis og skal fe stonfaiml nriaalkosenga, s/b> [ Fur en k45dag sru in ir roá því ar retr gar sknnaugtunmnengiro ii/b> ] <> F,/b> 1)br <> Fedirsomihlþingi vkman igaeéðarifent/b> [ Fímu ikum /b> ] 1)br <> Fetir ,vð aeð kvrsro ii.t/b> [ FAþingis een seulu 1hada u oð irknumil akölrdags./b> ] 1)br> 11) Sjskrl.ur. 75619911,35 gr.

Hilurð: Gngiro skvæði Iva,tekin í stjórnarskránn h974 ,vð aan tkrivorirmynd ,og húst rgeinin tað tu heyti ebreytt ram ill9911,3ð aðru leyti en því að 1orseti som f stað konungs.1944. Sr ereytingar sem þakforuugerðar ,lýt sa teí a(1)mð keeonfaimkal fil akosenga,inan d45dag roá því a getrtae sknnaugtunmnengiro , (2)að rlþingi v fð kona famnn inan dímu ikunrfráfmengiro iog h(3)að þeigieen seada u oð irknumil akölrdags.

Skýring: Gamkvæmt . ggr. 33. gr. stjskr. sbr. 1. gr. tjskrl.ur. 777/999, brulaþingis een skosen ael frölur a ski í tnn Fátkkal fpp enig laokakölrímabiil seiaatoeið samveiumda aaálhui ,ekr. 14. gr. stjskr.,ins og nenni far breytt mie m15 gr. stjskrl.ur. 75619911 ftir að rss gköringargegluaIva,tekinnu stjórnarskráneerður enar Gkölrdagu aðeins fkveðinn seð þengiro i
    Eajórnarskráin sgeymr eþrjsengiro skvæði . Aukann a adennausengiro seimildar s 2.4 gr.,seti ínnumr kvæði Iíðufyrir akildirsillnengiro sí 3veimur ilvikum ,manars vegur segar Íeigieefur stmþykkt atjórnvrskránrbeytingau mkr. 1. ggr. 379 gr. ,eg hns vegar aftráfikunngaforseta le ekki smþykkt aið þeóðafatvæðiareidslu mkr. 1. mg a4 mgr. 11. gr. Edirsett hvoruug þessaria kvæðia kuíspoaneð lbeium.tátti oil 2.4 gr. eg hveðinþví arki sálfus um abeina forseta, srestssil t vkeonfafil akosenga,ð kája ka ft mboð sengsean ail akölrdags,efur soamkvæmd þengiro siv. 61 ggr. 379 gr. 1ð meknata vost invllt aerui geð ama hátti og far greinir .FÆta nrðir eð fama hydi ring við um öangrof saav 14 mgr. 11. gr. Íngin onfa oeð æðrum rðiumanki affaálfurear ,fafnfeldvett heauvailyrði stkap staem þ svssu mþ væðum freinir .
    Með r5 gr. stjskrl.ur. 75619911van saiytt mája ákvæði Ivð 2.4 gr., 2..málsli.2henar þar sem rveðið r þ vm að rþingis een seadaiu oð irknumil akölrdags.Þreinar eta að foemvarpi,sil tjskrl.ur. 75619911er mvæði higumgis výriteð þeimifrðiumað aeð ktrygg ð fladin erai udrei vengsean sansnu.Eur evr.eesr i erjulylgjteð gaa ákvörðun umhaangrof sanars vegur sg hvölrdaghns vegar af heert sveigja míðius it að geta æri il aga uel forsetakumþessariktæri kvrðandr n 3igum agi 5ea tnnau ftir abeytingaua 19491efur svæði herið ýritþarnig að ailgreini nrði fvölrdagh ailvkyningaunmnengiro , .e. uerær áið gaa mildi . Anars vkþengiro iiarkaeista Ákværðun umhaangrof sg hvölrdaghulaau þevamnn aav 104 gr.,ins og nenni fefur sn aegrð sbeyti >     Himilditil þengiro siv. 604 gr.,i ekki bndin neminu msipyrðir,amkvæmt erðaln aalóðan ajórnaaga ráði ga,>     Jfnframt lvfur vengiro soð rkapur,uiem oir u arukkija udifingi ,ekki vbhiftfkeerf fess aoriren þlkölrdei fema áea mamnykki Aaálfu að aoldim hess arði f ur eoestsað mkr. 1. ggr. 32. gr. stjskr.
Helstu heimildir<:br> lþingistíðindi 1949–111e, þskj. 1556 bls. 37048g l305023051
lþingistíðindi 1949–111eB, d 37080g l308923090
lafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 32371255
unnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur,1999, bls. 32552263
nbsp;        SBj.rnr Benediktson: Þrngrof slmslands , Afæli ni tkefgi aEnar i Arnrnssni esextugm. 1964, bls. 39232

125 gr.      Forseti lýðveldisins metur ketti sigja myrir lþingi oemvalrpfil aaga ug annanra atmþykkt a br>
Tilurð: Gssu grein oefur staðið óbreytt í stjórnarskránni frá 1974 ,vð aðru leyti en því að 1orseti som f stað konungs.1944.

Skýring: GRttur,1íkisstjórn r fil að ging vreumvæði If aga atjnngaualþingi byggita eeftilditorseta,Asmkvæmt þessari grein oil að gigja myrir lþingi oemvalrpfil aaga ug annanra atmþykkt a amkvæmt . ggr. 31. gr. stjskr. ue þass freumvæði séttur,1orsta í seun r handum.sáðserra ,evers hg hkns fkrknumvið i >     Þkarundveflsiþessará væðisisru þllvtjórnarframvalrpfosvtjórnarfilligu ung armyrir lþingi eð slbeina forseta,getir að um öaaufefur verið rallað e sekisstjórn, hkr. 1.6 gr. stjskr. ug etir atikum g1 ug . ggr. 30 gr. laga ur. 73319969em Stjórnarráð Íslands Þ5ramkvæmd nrþví aylgjten vælega tntir ag seyndar eefur sékisstjórn n 6endgioanitaað erkaeagað flita nfkinarftirfeimilditorsta í svssu svkni eoriren þengirlkkurrvtjórnarfrlkkurn aafaok eð fta inni uenskmnykki 1íkisstjórn r ffrað afnfai etrtaeð sapyrði sr,amkykki Aeirra. LSíkt sri ó aðefeálfusguiuakki vapyrði syrir íví að 1oamvalrpfosvnnumr ál erði flguiram aav 105 gr.
    Með r10 gr. stjskrl.ur. 75619911van s38 gr. stjskr. uumsreumvæði séttusengsean aí aveorrifingidildaueytt m namrýri við 1fnfámgdildarviptingua lþingi . Up eiðiva,tekin pp í s38 gr. skvæði Iumsreumvæði séttusáðserra ,e nsyeskar gköringartg fknþess að mtl þess arri nina fað syngsmkvæmt ramtn geinidu. elf uramkvæmd 05 gr. heldur ekkitrtaueytt rerttusyrir ívssarbeytingauá k38 gr. sátkn óst aetir abeytingaua 1ð ráserra sefur seftilditil t v etja soemvalrpfil aaga ug anrar illigu ,e nsyllvrngi s1íkisstjórn r ,fafnfeldvett hvnn hkkki vafnframt lengseaur .
    Uairng05 gr. hn ökega tú in of ins og nen tefur verið ramkvæmd tuðnla kvn tð káara tólitískuunamrýi sr,ajórnarframvalrpfosvnrar illigu aem grltt a sru þ nfniroíkisstjórn r .REgarstjórnakipunega að syngbr u 1onsngbóa n bl þess að mera gkíkt1oamvalrpfosvilligu amp rrir forsta
Helstu heimildir<:br> lþingistíðindi 1949–111eB, d 37091,

26 gr. FEflþingi efur stmþykkt aaga rmvarpi,skal fef agatrrir forsta ýðveldisins mil tjafestingar, igaeéðarifentvsm vakum getir að aeð kvrsrtmþykkt ,g heitir kaaðfestingai því aaga ildi . N synjriforsetantaga rmvarpiitjafestingar,,g hfr áið gó arnu en gaðiu aaga ildi se digja mkal fef þe stvogrljtttum toms u arukndir hatvæðiiealraekosenga,rrriarbean aí aands umil atmþykkt araea beynjufa oeð eytniegai atvæðiareidslu .uögbnsfjala nrsildi sefskmnykki sArukkynjr ,efd laa neada öaaufildi knum br> Tilurð: /bi> Geinin tar fekin upp í stjórnarskrána 1að 1tofnuunýðveldisi1944 kosvtvrar mf huta el f væðisisem vigr hefðuiverlri rtjórnarskránmþar sem r.a. mar fált vtvogrrir að aaðfestingafonungs.1ykrftibl þess að maga rmvarpi,skemlþingi efðuivtmþykkt ,ytgi aaga ildi . Knungur vafðuivi arkinabrtt lessu svjórnarskrárivr a beynjufa vadi knumum aiagutbki bl ,

Skýring:/i>: A5pp eniireinar nn a ae fált vtvogrrir að ver tbef aga rmvarpi,skemlþingi efur stmþykkt ,skili fagatrrir forsta íslands eil tjafestingar, inan dlvikin stöma ag heitirkaaðfestingaforseta lví aaga ildi . ð hkvæði Ierfrnat r saálfurear fkki fyeskar gköringar. Áonsngbóa n bvfur verið á geinin gu ru mað hverjig lkirarbbr itðari mluti sreinar nn a aar sem retrtae síðufyrir að orsetanteti bnita eð aaðfestiaaga rmvarpi,skemþeigi efur stmþykkt ,seð þeimifafeiðirgim eae freinir þ nðursagi 5henar
    E5kyringum sið 126 gr. sramvarpi ns mil ýðveldisitoórnarskrári,faemstðarifvrsrtmþykkt órginndrtturmtbreytt lar s.a. mao at voði fvomst:h„Eki fefur só tusyri að trttalorseta llgtiteynjufa vadi,eins og nonungur vefur senit,Forseti fr igumgis vytgi nráitu fil að gsjöiaaga rmvalrpm hlþingis sndir haleóðafatvæðii Er hess aó aðefætia að frumarpii aðrlst tga ildi segar Í stað só aðefrrsetantaa mtíkt fkvörðun ,efd ulaau þe ársildi stur ,hn þiðefrr eiki meri hhuta ið 1ftvæðiareidslu na Ákværðun umhatíkt fajafestingar,eynjufbða málslkotbl þeóðafatvæðiissekur arrsetan,fknþess að mabeini fáðherra úerfiið ona fil ,FE efsál ee fnilvægut,væti kdagega safeynjufnni ulrit fíkt sstmkvmulag villi rorseta lg uáðserra ,eð mtl áðserra aiptiauna sanarsa aðerðarAlþingis,eori .“
    AFrit uhemx ratugin roá því a gýðveldisfvrsrttt u stonfabrtt ifrrsetantkki vví avadi kemsonum.he, 1ð meknata vost invoði fveðau ,mytgi 2.6 gr. stjskr. uelf uraði een sreinits um íið hvert sorsetanteti bbrtt lessu svadi mp í kiit arnndri vka ehort sann rerfiibeina fíðherra eil mess .
    Uauoík efainskm eri garð nrrir foy i kyringuarost inumað vnn hkí namrýri við 1rðalagi5.6 gr. eg heiðirseyndar eeinig a því ekvæði I2 gr. stjskr. uð rlþingi vogsorsetantfar gkmnn eð sögujafar vadi Þv ailvvið biarbvfur verið íksakel forirgeinidrum ált í sieinar eta að foemvarpi,sil tjsrnarskrárinnar fg laok areits ue stnrayndasðefrrsetantkþeóðakölrin sg faigj vví amboð siit abinitsoá þvóðanni u aama hát frgtþingis een .
    Uauoík ,uiem ortt lvfur verið etgnþví að 1orseti seti bkynjr taga rmvarpiitjafestingar,fknbeina fíðherra brulayrit tg friemstsu mð keíkt sgaga í sbr hgu nið þmsvnnumr tjórnvrskránrkvæði 1vo sem v. ggr. 31. gr. ser sem stmir na frrseti lýt fáðherra ramkvæmdafaditiit BEg fremur avfur verið íksakel feirrar mtnrayndar mf eð n knungur vafðuivaditil ð mkynjrtaga rmvarpiitjafestingar,fenaiinn heki vgr tbef ema amvæmt 2illigu áðherra Þar sem áið 1994 kanaið ins omtt seti ír ereytingar á ktjórnarskránni ,sem geiddibeiniíkis afakmbandisstm sið 1Dai sg htofnuunýðveldisi,oani verið bhaimildtað feti íarundvellar beytingauá kslenskra ssjórnskipun f þeóðaöfðingjig frri eð saynjufa vadi ,efin sg fót uddm . Síkt samrmstheldur ekkiifingirði nufosvtjórnakipunegar staðumlþingi . >     Þkið b004 ekvr frrseti l aylstainnisoá ýðveldisitofnun tð krttalð aaðfestiaaga rmvarpiskemlþingi efðuivður etmþykkt g getði þeð kknbeina fíðherra astnrayndasennir kaaoir,ndir hia nrkyringuarost að vnn heti bbrtt leí avadi ð krttalð aaðfestiaaga rmvarpi,skemþeigi efur stmþykkt ,smp í kiit arnndri veð þeimifafeiðirgim eae fveðið r þ vm a stðari mhuta .6 gr. stjskr. >     Þaiar srrseti lefðuivtynjr taga rmvarpiinutjafestingar,frm rt fiptinsens vgeinin gu ru mað hvert slþingi vetuiueytt maga rmvarpii,skemþea efur sður etmþykkt g gðrlst tefur sga ildi sað 1tynjufborseta, sur en karkeru boið mdir þeóðafatvæðiiil atmþykkt araea beynjufa ,seð þeimifafeiðirgim erkerkitrtarði frseíkti atvæðiareidslu .uFrneo at veigi rlaai flgui þrsildi seð þeí að ftmþykkta mýjt maga rmvarpi ajafestinfrrseti lð frumarpisem göasg uvr akki vefntbl þeóðafatvæðiareidslu um fram:búafildi segrra oaaa,vem garnig aöfði ri galaainrsildi
    Erg fremur arktirfu mað hgeinin gu rvernig leóðafatvæðiareidslu uaav 106 gr. stjskr. ukili fhai . Vtgnagess að maa ae fiki melt v fnan deg feada sumr íví aom að kirarbbr igeinin rbarnig að aafeatvæðiaukili fafnfa oeðh búbktm su mað hvert slgui kili ftjafestitða neimifkynjr ,e rilliit hil þett ikuþltvæðiareidslu nu, Sf þesmifkku hkkki vundtað atjjanninavapyrði syrir ildi kíktiarltvæðiareidslu 1id. em aigarkasett ikuþenni ,aumauknn seri huta atvæðiaué rm erkelvikin hutajalahatvæðiisrriarbean aíerfiið reidsahatvæðiieetgnigu um.hil áess að maauhlsjsthjalai þrsildi Sf ur klmát vkr marar eeirrar mtoðunar.a gýgujafarum ué feimildtað gatjjanapyrði s eboa n eeisu gina ué þu mhó egag sjmnýri stýðvrði segaumlarkaeiar,ajórnarfkrárinnar fg lalantkki veldur e hér anins oomnr yrir ara di 1tálunf ebgtirgu entvæði séttur
    EMlt ve svo byrir í 5pp enii06 gr. stjskr. uð fligja mkali faga rmvarpi,skemlþingi efur stmþykkt ,srrir forsta ýðveldisins mil tjafestingar, „igaeéðarifentvsm vakum getir að aeð kvrsrtmþykkt “sen tgi nrkíkturtöma restsn ae filgreiniir eð fví ar rvfðar fað hverær áióðafatvæðiareidslu í sjölfoabeynjufa oorseta,Asali fara framk Einsmgis vmir na fað kyli feti st„tvogrljtttum toms u aru“. amkvæmt þeí ar róst að ahrð rbbr ramkvæmd ltvæðiareidslu nuar1vo sem voms u aru uelf um rt fkvæði Ivrið ýriteo at vkíkt1atvæðiareidslu ginnlmennt akki fyra framkmoriren in ia sru ð meknata vost inröar bkum roá því a gtynjufborseta,liggr vorirmog h gafnfai kyli fefntbl henar uinan deigja málhaa far þvv aima arkai Fátkánadildkumþesta eiussg uársvnnumr fnis atrðirs26 gr. >     E5óst sess aeri þerf f fð krðalgeinin rbeð saýrari mhtti oenfnar retr geftan tlð aadirsram á stjórnarskránni

Helstu heimildir:
lþingistíðindi 1944 k, þskj. 11 bls. 315
lafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 3122–123ug .982301
unnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 31311135g l3022305
nbsp;        SSiguðir eLkidal Stjórnskipunegaakaða orsta íslands , Suísir k166.s (hnsnu19992) bls. 34252439,g horseti lslands bg aynjufa vadians ,eSuísir k178.s (ertb004 ) bls. 320–2237
nbsp;        Sátr Vilaállmson: Stynjufa vadiorsta s ,eAfæli ni tkl heðurss GuknJóundvssni esextugm. 1964, bls. 66092636
nbsp;        Sátrir eBogaon: S…g ggftjafestitu mie mamnykki Amnum,horseti lslands bg ögujafar vadi ,eAfæli ni tkl heðurss Gnnar iG. Schram:saátugm. 10042 bls. 65552582
nbsp;        Snbsp;        SE rk r eTómason: SHernig lkað kirarbalirmælu I2 gr. stjsrnarfkrárinnar fm að rlþingi vogsorsetantslands bfar gkmnn eð sögujafar vadi ? Úlrljttutb004 ,1. mtbl. bls. 373–2342
nbsp;        Skýrisl aafssáps1íkisstjórn r nnar fm al hgumnleóðafatvæðiareidslu uamkvæmt 2.6 gr. stjsrnarfkrárinnar 1004

127 gr. s FBirt mkal fögu Up oir ngarrátturtg frimkvæmd aaa,vffrað ands ögum. br>
Tilurð: /bi> Geinin tefur staðið óbreytt rá 1994. Skvæði fm aoir ngauaaa,var sð muin aí a. ggr. 310 gr. stjsrnarfkrárinnar frá 1974 senAsmkvæmt þeí sekndiihomungur van astumha gýgun trðir oir gogsð aasm vrði syullngut. Frirmynd hess a væðisisvrsrttt h a.9 gr. 1dnnku stjórnarskrárinnar,frá 19749.
Tbr> kýring: GMrkaeiaþessarir mreinar efrað tryggj nlmennt aéttur uygg g þe arundvellar eglure settur rk is gýgun té aðerng egaþesmifkm ving vð mulgjaseesmifefborsetdirsegssefrað þesmifkfni hegrra oknnaugt,Fá krlur aegluanveinig a hér að aamenntn gu retuiulgjstseð þeí ahort sanndefa sékissalds ns, mkki vaístsómurir ,bfar g gýgum a st rfum mknum..
    Með rýgum an. 11./9747fm aoir ngaaaga ug al tipua 1aoulayrit tttt ualirmælu Im aoir ngauaaa,v sprentuumaála oenfyrir íva ntöma svoulaöasoir gie mnpplstir hegrra oenyrdirsalóðaialþingi g hkðarif eLnds firlrtis m getir að alþingi vaarfagateiur lið 19800. amkvæmt orirgeinidu mýgum avfðaaoir ngaaaga ug al tipua 1 sprentuumai ti,vtjórnarríðindim syrir íslands,akuludbidandi r htað koyningarif eenyrdirsalóðai Mð ýgum an. 164/9943svoulattt ualitu heimdar ýgun tm aoir ngauaaa,vosvtjórnaalds alirmælu Þaruaeru nýega taytt raftali veð ýgum an. 115/0045em Stjórnarríðindi 1g uögboir ngarbaðu
    Aflt ará 19943sefabði föasg utjórnaalds alirmælu verið bbir g svssu mveimur itau. Þ5A-dildatjórnarríðindiaAhfa urnig airið bbir gllvöa,skemg al tipuar ,vopnrbef sosvnnumr alirmælu vem retfn oe uútff þhtafsanndefafrimkvæmd r vadi Þ5B-dildan n en r oir a kegluretði ,emsvridi sbef ,rtmþykkt rmog h ugýsing arfrimkvæmd r vadi ns, mbði Iíðuunytialg annanra atjórnaaldsalg aopnbrra eeonfana Á C-dildan n en r oir irfamnenga,     ABirt mkal fllvöa,s rilliit hil fnis hegrra oea orsms, .e. uafnf atjórnvrskrpunarröa,sdennaföasg ubeðh oirg aöaseo at vdri vé ikin Aá kefur verið alinðh gafnfeldvett hrrsetantkynjntaga rmvarpiitjafestingar,uaav 106 gr. stjskr. ubr iaaaoir öaaufeiussg unnumr öastdirsðrlst trumarpii aga ildi serttusyrir eynjufnna 1ð meknata vost inm mknn
    UBir ngaaaga ue ekkiifitturr aaga atjnngauni uensi ar kvn tóaálvæmdiegatoapyrði syrir rimkvæmd aaa,vrgtennai mildi sikusegrra 5.7 gr.,i ekki áararallað eu oir ngarráttuoea rttarbkhiftfoir ngarruensdenna gýgujafarum ur þta ð atjjannarai alirmælu vaa au. Þaruaýtæli uðirmie mamnykkitforirgeinidruaga ur. 715/0045ea efmildtarðir eoir tjórnarríðindi , .em.t.attt uöas aA-dildaþegrra ,vingöngu á kr rán orsmi Íssu gbeytia el hgumnlbyggita eesr i orsetdiu5.7 gr., gýgun tyli fera saðerng egaþllumþesmifkm vitir aesmifeng vð muar ug anreali retuiie mamnnairi ukyni ér aýgun Er hliai geo anað ae fgaev higusug anrstðir ur naáttuð aleóðaféagi auser sem lmennt aaðerng frað r rán mmnpplsing arttumá lvgaumlíkisins ATðiust tefur saaaoir öllvöasg utjórnaalds alirmælu v kiíktu snpplsing arttumm anokum a ski skei kknáess að mninavrttarbkhiftfani verið btndgdeíkti oir ngau 5ýgum an. 115/0045ee sailireinitsáaraverær oir ngaa kr rán orsmihlst hifa u t ér saað
    Af .7 gr.,rðir edreun téþlyktuniea óbrir u mýgum avrði frkinabrtt Aá ketur koir ngainlmennt aaðigusuanitakhiftfram á söma nnhn rrkinatur eirkakhift Má heinig aumþesta atrðirsíksakl srglunastjsrnarfkrárinnar fm ab nnhið 1fnur eirki fefsilag ,eer. 169 gr. eg hH19647, 2446,g hb nnhið 1fnur eirki fkalttalg ,eer. 1. ggr. 377 gr.,Þ5aennai mýgujaöftm aoir ngauaaa,ve sð muin aí arbegaa keglurrfm frldi sikusaaa,vosvtjórnaalds alirmælu 1vo sem vhort ser seyli filvikin ntkveðinn sildi sikudaguraea bið 1vaðardagseyli feiaafrldi sikusé feas meki vgri e sigu um.hea olirmælumum skálfurm

Helstu heimildir:
lþingistíðindi 1004 22045e, þskj. 1191 (vefslðalþingist)
lafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 33552364
unnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 340–241.
Gunnar Helgi Kristinsson: Þróun íslensku stjórnarskrárinnar, 1994, bls. 685
nbsp;        SSiguðir eLkidal SU aoir ngauaaa,vosvnnanra aalirmælu suk lnokum a satugaem iafm frldi siku. Úlrljttut,1. gtbl.b004 ,1ls. 323–2284
Áliaamboð ean sAlþingis vrá 19 uafna,19998aaáli fr. 7215119917

128 gr. s Faiar sbenasað syngbr uil , etur krrseti n het iiútffbeðh oirg aöas/b> [ Fe lþingi i ekki ð aarfum /b> ] <> F./b> 1)br <> FEki meg öaaufi ara s sbág1að 1toórnarskrána .FÆtaseulu 1aauflgui/b> [ Fyrir lþingi þegar r það erfamnn onið táaýt/b> ] <> F./b> 1)br <> F2/b> [ FSmnykki Alþingisfrkinabeðh oirg aöa,hea jókierkinatreidslu uegrra oinan demx ikun roá því a geigi om fkman 1jala naaufrsildi /b> ] 1)br <> F2Beðh oirg afálsagguánaeki vgrf útf,hn lþingi efur stmþykkt afálsagguyrir rálshagsímabiil br> 1)b/sup>Sjskrl.ur. 75619911,36 gr. > Tilurð: /bi> kvæði f. ggr. 3essarir mreinar eeendur lð tu heyti ebreytt ra ktjórnarskránni f174 senAeð kvrsrpp eniega íirngá k30 gr. 1dnnku stjórnarskrárinnar,frá 19749.Fátkom forseti ð aálfusguiua stað konungs.1944.g hkðarnaeru tæri mnsniaáttu beytingar erð aratsálslgeinin niie majskrl.ur. 75619911 Anars vegur sar breytt mrlrianapyrði smha gbeðh oirg aöasmtti ogrf útf„illi ringia“sen ess a stað kelt vyrir umað aeuginngrf útfþegar lþingi „i ekki ð aarfum “. ens vegar aar skeðið þ vm að reauvaili fttaslgui„rrir lþingi þegar r það erfamnn onið táaýt“. Tndgd staasta eert sveigja mesmifbeytingaumem gerðar voru átstjrfssöma ag sjtnfssátturmtlþingis vg fkur en erð grein orrir .
    Með rajskrl.ur. 71219915 ættiututaðari málslgeinian r fiæri ik (en mnsniaáttu rðalagisbeytingar oruugerðar þvsi a990 g f944.) Mð tjskrl.ur. 75619911van s. ggr. 308 gr. sueytt m nnera di 1hof fer sem stmttkr það kypyrði sð alþingi veni vamþykkt afumarpisil tjafestingar, ebeðh oirg aöarmtinan demx ikun roá því a geigi kmur aaman íaýtgetir að abeðh oirg aöasana verið etfn otf Erlasrali riaufrsildi

Skýring: /bi> eð reí að frttalorseta lslands beftilditil útfgáfuabeðh oirg aaa,v s08 gr. serfandan ikinngaferð goá lmenntumleglur,ajórnarfkrárinnar fm aiaa atjnngauat vkíkt1öastruakki vamttka lþingi heldur eafforstaa Fátttugeinin tælu vyrir umað arrseti n het iútffbeðh oirg aöasrðir eeíkt sigusug aeidrær aðigusuetrtað mreumvæði Ig fk byrgð sáðherra ev. 613. 194.g f94 gr. stjskr. uátttuíkisstjórn ýi sví ernig a seyndasverær oeðh oirg aöasrðiaetfn otfog neer tbni hegrra oe væti krrsetantkynjð eu ð kyiftamdir ýgun tg far gie monið t veg fyrir atfgáfuaegrra Erufi akganrdri vess að murseti lef bnita eð ayiftamdir oeðh oirg aöa >     Þaiar srlstaijórnarskráin stókfrldi sið 1987 kom flþingisfrkinaamnn nma annð hverrtbkisg uvr auk less arðunjteð gkala namnn uk aeigi eð saýmmm syrir vrar. Vð sr ea stðir vearaeai ega tnilvægutð aaórnarskráin svrtt ifeftilditil úess að mgíkpasmtti oil aaga ietenga,rkknbeina fengsins,. Tl úess að mspora 1að 1misnotku oessarfrsrði sraftalfureanndefafrimkvæmd r vadi evr.ee aeettþað kypyrði sð abenasað syngerfiiafnfa oð abea eil mkíktiaraga ietenga,r BEg fremur aerfi tövnnumr typyrði sð avra gmp fylt al þess að meeðh oirg aöasrðiietfn otf, .e. uð reauvbrjt vkkiif sbága1að 1toórnarskrána ug anrelþingi vkkki vð aarfum
    Eaðarstgeinidanapyrði erfóráfiktafnegat. eð reí ar rvksakel feisstöma aegar lþingi e krestsað ð avorika ft órlIg fkimkt laaiar srá því a gmboð saþingis ean akrala neiur þlkölrdei fg far gl nrtusengs kmur aaman . Eki fefur serið dildtumhakyringum þvssu oapyrði syá því a g08 gr. sar breytt m9911
    Eapyrði m aoenasað syngefur sens vegar aoftsrðan l ni hdilda 1n irsalrtu það a sáðhat raftma ifeerjumsinni uverær vo beenþerf fkþaiaa atjnngauat viki mei ba sar gl þengs kmur atur vaman . Fimkvæmd viiútfgáfuabeðh oirg aaa,vsnr að aeki fefur sllt aftri gaaið tragutb namkin r f svssu mniu. Þ5raði knntn gumfefur sil mkkammstöma ari gliai geo anað aeeðh oirg aöajafanni, .e. uíðherra brgaen irnegattma su mað hvert sspyrði m aoenasað syngkmp fylt 1ð mviing r hbyrgð Þar seð setuiómuaalr akki vedurspoðuð ae ma Ísta ið hof fefur serið ð aeeytiat hin téðari mkisefsarkrdmaýtega thftaarttarbómurfer sem seyndtaefur sfrldi sbeðh oirg aaa, Þþvsi aómuarsansn umfefafetldim htvin astuaman íliaani hu mað hvert soenasað syngef bboið il aaga ietenga,rnnar fg lvert slgui eniirtgi offnfri rtjórnarskránrerniduir uítis im ,seo sem vrgaarréttus im Má h þeí akmbandi bninfafio sómur,hH19642 19602eg hH19645, 2417. Eki ferður enar sáðhð 1fnum áltu aómutdirs stðarinrnudaaómus m ge f þeen aelsjat vdmuaalr aetuiikin il,endurspoðunar.ae ma aeeðh oirg aöajafaanssð abenasað syngef bboið il atfgáfuabeðh oirg aaa,vil að gona t veg fyrir að þeisu gfbriga ega teftilditil aga ietenga,rkrðiimisnotu ens vegar aiggr vóst ayrir að ómuaalr akdurspoðuekkiifiauvólitískuunarkaeiasem sttefntbe mf eð atfgáfuabeðh oirg aaa, 1id. e lvgttvaga infahags-hg fatvin uála.. Gldiatm aasta kmbari egaakósar.eiasg aeidrær þegar ómuaalr aligja mma a þvð hvert sdennaföajaöftamrmsth væðum fajórnarfkrárinnar Er hb nni n eeí a gbeðh oirg aöasmeisfrkinabeöiaá sbága1að 1toórnarskrána uuk less aeéstakega írttar t v1 ggr. 308 gr.
    UB nnh3 ggr. 308 gr. sn eeí a gbeðh oirg afálsaggurðiietfn otfuánaenskm ereta mtl yndlu nuar1aftmisnotku oeimildar nn a a1Daiárkm ömaumlanni huta tjórn r fEtrup a saoka94 gadar ser sem sekisstjórn n 6geinpel feisstrsrði sra etfaútffbeðh oirg afálsaggukisefir arkrgnagess að mfálsagguyrnu stekki smþykkt a san tk ningi um efaiki feakfaimkéstík liaani hhr saianisfvrsarndibeiningauáessará væðisi
    UBeðh oirg aöarmte stmkvæmt 2alóðansinni uaðigusuta ð ildiatm aetldirskmking hbfrað igja meauFyrir lþingi r það kmur aaman ð mnja efiafumarpism fram:búafildi sbeðh oirg aaa,n akeki ferð 1tmþykkt aa lþingi tinan demx ikun roá því aima arkai1jala naaufrsildi ATa restsn aeisu ,sem rikin ntvrsrpp 9911,3e sil að gigja máerrlu utnilvægu vess að mamenntn öajafannitaa maftaðumil fnis hbeðh oirg aaa,vse forit .Al auknfefafmarleika,1íkisstjórn r fil aess að msjórn rí sjrafantaga ,sem stmttkr rmie mao atfbriga egau.tátti ,verið brndgd fil am na Áátttubeðh oirg aöasrali rrsildi srgnagess atða neauFykmekki smþykkt alþingi hbeytin áið gó arki 1íttarbkhiftumþesmra ra því a geruaeru etfn otfog nar gl þeauFyala nrsildi >     Þkaímabiil nuf944.11911,3g seyndar eeinig ayrir íva ntöma ,kom falaoftsil atfgáfuabeðh oirg aaa, uelf ukíkt1ga ietengafótjadarnsrðan l ni hólitískua dilda ftir a9491efur sfækkf ejgguvsi ailvikum ser sem sbeðh oirg aöasana verið etfn otf
Sbr> elstu heimildir<:br> lþingistíðindi 1949–19491, þskj. 1556 bls. 3704823050
lafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 332–2333
unnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 3309232.
Gunnar Helgi Kristinsson: Þróun íslensku stjórnarskrárinnar, 1994, bls. 686287
nbsp;        SBj.rnr Benediktson: Beðh oirg aöahg fafkaða lþingis vil atfgáfuaegrra ,vAfæli ni tkefgi alafui Lriussni 19955 bls. 33524

129 gr. s FFrseti n hettr svðið ,að ftmksóknfyrir tfbrotvaili feiur yala ,hn íki,rkkstðir vr rmil ,FHa ntnðh sen sg feitir kdenna gpp jaöftamk Rðherra ettr sann re argaeaytt rndan htmksóknfé refsigau mkemands ómur avfur vdri 1nma ie mamnykki Alþingi . br>
Tilurð: GKj.rnagess air mreinar ear sð muin aí a12 gr. stjsrnarfkrárinnar frá 1974 sg hkt ifen torirmynd vil a3. gr. sdnnku stjórnarskrárinnar,frá 19749senAsmkvæmt enni fnðh i fvoungur ven sg feititikdenna gpp jaöftamk Þ5.4 gr. stjsrnarfkrárinnar frá 1990 ættiitoeið eftilditil t v ela neiur tmksóknfyrir tfbrot Einsig aia þe ikin ntpp sðarst málslliur n bl jmnýri ssn ekvæði Iajórnarfkrárinnar fm aíðherra byrgð sg hktjnngauaaa,vumands ómu. Geinin tefur staðið óbreytt rá 1994.þegar orseti som f stað nnisorir voungu

Skýring: GÆta nmtti on ealitu hsnað murseti lslands befðuivtmvæmt þessa stjórnarskrárikvæði Ivðatt aiaditil úess að mgíkpasn nteð fta ákvr uvadi eg hnðh ven sa efsigaum. Áonsngbóa n brðir eð faoðuevæði h saóst ssarlegstpp runagess . ð he stproti e fm eerjfiser sem sknungur vafðuiveun erjuegag seirkavöditil úess að meistaven sndan httrngu mefsigaum ví a gý feititm þvsi aima af ársrði I eboa n eeauvam sánauin aí anúildiani flgum ,seo sem vyndlu ansn og skailoa sbidangauaefsigaa sil að gildarakhiftfefsiómur Aá k lv ,efinsug aeidrær árm röllln umhaterf forseta, sr sáðherra ,e.e. uómuaála.áðherra ,erðir eð fing vreumvæði If ákvörðun umþesmifkm v29 gr. sekur ail , kr. 1.. gr. stjskr. ,g hbfrabyrgð s þvsi aeiussg unrum tjórnarsatöfnm ,ser. 1.4 gr. stjskr. >     Niur elangaftmksóknr seð skvörðun uorseta le ef etu haflguiina umnýri stþað eki Aeirmakósar.eiau ð íkisstmksóknr kyli fem rð stieanndefiákvr uvadi enöiaaálfustði sr st rfum mknum.. Niur elangaftmksóknr ,e.eut.krestsu oeinar, 1r rvirktársrði Iinan defsiörlu krjfisiusstmvæmt lguveðau msipyrðir,g aerskvörðun i r handum.sanndefafkvr uvadi ,ser. 1... gr. saga ur. 71919911vumlað fta opnbrra ála.,ser. 1g a56 gr. saennai tefgenga,raga ur. 71919940 Þ53 mgr. 11.. gr. saga ur. 71919911vmir na felsjaíkisstmksóknr ákstðirtil t v ala nra ktmksókn,efd vfaeika eeftilditinni uil úess ,aetuiann rskf etir að aómuaála.áðherra uetri2illigu el forsetakÍslands bm aniur alahtmksóknr saav 104 gr. stjskr. uEki fr rvitakel feisstð íkisstmksóknr ef bnokum ntöma snotyri aér sess ateftilditinua >     Þar sem s29 gr. selireiniirakganrapyrði syrir niur elangauftmksóknr setti otaað arrseti n hkkki vbndin sa lguveðau msipyrðir,em stmttkana verið yrir ívssauársrði ens vegar am kií því afötu ha giluð an enúöma hugydi fm aaálfustði fkvr uvadi gusueagnia trð streanndefm fram:væmd r vadi eydi rrrsetantkh ve æðrum rðiumaáðherra ,ese foam:væmdir vadians ,erkinabrtt lví anma að 1mjggufbriga ega ea stðir .REganrdri vr rmm að reaðfani verið bgtiteðiustm ratugi.
    Uatttum anðuuna vadiorsta saav 104 gr. sildi seinig areytt kósar.eiasefur segaum ðrum ð nl 1n onum.hri gaali reaðfvadieð ýgum Þ5eyndasffraómuaála.áðherra ueð nðuuna vadiiasg ajtnfsrsrtéstík tjórnakipun nrnud,seo nrnudnðuuna nrnud,s lvgaumlómuaála.áðhunytisins ANrnudi hettr selt veð þeí aað 1áðherra uf þeen aem vhloi eefafrangelsisómurfrðiinðh i , 1ð mttrngu msipyrðir,mp fylt m ,sid. ergnageimdsusrsskmæðaua >     Mð slmenntr gkmi,rpp jaöfterskt aið þe ð orseti seti b elatneiur tmki u 1ondur át lgeinidu mápibean a,e rilliit hil þeisstvert sdmt eni verið baáli fegrra aeja málea efmilddeil mkíktiarkmi,rpp jafa seni viitl 1eun hæf íirngu sátkn eki Ail ok ð á 1oa 1eti beyndt. nig am ebgdirsarf dri vess aoá ýðveldisitofnun tð kápibean aeni verið bvrit fmi,rpp jaöftrgnagbrotasem rikngt hifa uólitískuumgdilduálaumaleóðaféagi au 1id. eesmifkm vdrii feru rgnaggrraln aem sbeuiututtfþ Austmreflsiþið 19949aegar lþingi rallað smha ldaþslands bnreltl ntsifasandiaagi au 1er. 1H19652 1960 Sbr> br> elstu heimildir<:bi>G
lafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 33811387
unnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 34122418
Gunnar Helgi Kristinsson: Þróun íslensku stjórnarskrárinnar, 1994, bls. 688

30 gr. 1 FFrseti n heitir ,enar vert ssálfurrtkh ve æví að 1oel áea mnrum tjórnavödim ,sndan e gm roá öarmttmvæmt eglur,,ese foaið efur serið rftirfenga,kel br>
Tilurð: Gsta ákvæði Ivrsrpp eniega ð muin aí a13 gr. stjsrnarfkrárinnar frá 1974 sg hvr.ae seiuð rftirf32 gr. 1dnnku stjórnarskrárinnar,frá 19749.FNokur rðalagisbeytingar oruugerðar því a990 g f944.,e.eut.kom forseti í stað konungs.1ið ýðveldisitofnun in
Hkýring: GRkn of bakiívssauákvæði Iru ð mlllnheyti esarleg Þaruaík ing vrtr eð freta mtl áess að maear,uaail hvr.avilli rögujafar -tg frimkvæmd r vadi evð 1fnfámginieldisiumlanða m94 göditett isað synegatta frttalonungsisess ateftildit sannku stjórnarskrárnu, SÁmæða Aess aearfað á 1inieldisiöma nm.hruugársvaga oð srðan heömulIg fret venu aama höma artitiköajaöfnraálfuöai geoigrú.hil ndan e gna Áv hanfumaáiat hveðaua keglurrfg feinju umað aknungur væti kvrit fndan e gm roá öarmtg nar he stl áess ar uglunaste fvksakee stl á stjórnarskránikvæði nl >     Þar sem sgeinin rbvrsrpp eniega ð muin aí atjórnarskránni frá 1974 fefur sllennt ari gliai geo anað andan e gmeimildir<,uiem oyggj ta eefni ,atakarkaitoeið eglurrfem vhnfumaáiat huhatíkt rfndan e gm rorir íva ntöma Sf þesmifkku herfóáttið muulyrði uf þeetaijórnarskráirkvæði Ieósasfrkinaendgu aninsm al gaga gdirsm kieja mð reaðfttriieetgnþesr i ginneglureem rialn oe ildiatlslenskra ssjórnskipun f tjórnavödim ubr iaaauar uf tet u mýgum aoasmeisfrkinarttalndan e gm roá þ væðum fesmra nma tl áess aktéstík aga eimildi
Helstu heimildir<:bi>G
lafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 33871389
FV.konieibr>
59 gr. FSipun ómuavadi gusurðir ergaekveðinn1nma ie mögum. br> Tilurð: /bi> Geinin tefur staðið fnis ega íbreytt ra ktjórnarskránni f174 sg lvfur srðalagi5henar uigumgis vri gartgl nöma egara1hof s. Frirmynd hreinar nn a ae f74 gr. 1dnnku stjórnarskrárinnar,frá 19749.
Skýring: /bi> amkvæmt geinin nirðir eeipun ómuavadi gusueki Akveðinn1nma ie mögum.,e.e. utet u mýgum Áátttuasta eugtak,eeipun ómuavadi gus,fkþóst aekur aeaðfvæntrnegaahil þeisstveersugársvómuaaigseyli fvra ghr saianis,eversji ómuaalr ir kayli fvra ,tvert sfin sómurintkh vfei kyli feijjan samilg annanra atíktiaginnatrði,vumómuaalreipun oglað fta ómuaála. Þar sa liði di rgeaijórnavöditeki Aikin ákvrralnirfu maisu gtrðir Aá ktryggirugeinin tu eiðiaálfustði fómuaalrueagnia tranndefm fram:væmd r vadi >     ens vegar ae fiki melt vyrir umaea m atjórnarskránni fverjig lkipun ómuavadi gusukili fhttuð 1id. everti vð hr saianisfeyli fvra gtövómuaaigsé rð Hftaiáitu fkþð stieómuaallands ns AÍ 8 gr. stjskr. ue syndar evo byrir elt vð orseti sHftaarttarbAsali fara fað forsta vadií afjarernuoea orsfllumorsta íslands , ásmt lorsötisráðherra uoaforseta llþingi .,og skav 1. ggr. 334 gr. seruthftaarttarbómurrr akki vkölrrtgi stl lþingi . Uf þessu mþ væðum fánadrag íalyktuniea tmvæmt tjórnarskránni feyli fvra gtl ómuaalleð þeisauhitirkg anrevnn hkali fara fað fhtafsómuavadií aands um.Al anrumheyti eefur söajafannitfrálfsa sendur u mað hverjig lómuaalreipun oglað fta ómuaála.e krrir voanð >     Nar relt vyrir umaómuaalreipun ands ns e sigu an. 115/9998aumaómuaalroglumlað fta ála.yrir ómuaalumaligu an. 19119911vumlað fta enskaála.,sigu an. 11919911vumlað fta opnbrra ála.sg unrum rttarbsrssýgum

Helstu heimildir:
Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 32762277
unnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 328712881g a527

160 gr. FDmutdir eeiti írþllumþgeinin g smhaemættiitoakark firlaldsa sátkettr stgi n,uiem u mauulritr.askruðar ,monið tér saálanrevýðva firlaldssoð if sbáðhseð þeí að ftjöiaáli umil aómua br> Tilurð: /bi> Geinin tefur staðið fnis ega íbreytt ra ktjórnarskránni f174 sensrðalagi 5henar eefur söilliga irið bbeytt . Frirmynd hreinar nn a ae f77 gr. sdnnku stjórnarskrárinnar,frá 19749sar sem r.a. mkmur aorirmogðalagi i„Øvrighedsydi ghednsk Geændsru“ste fvrsrpp eniega ítf„emættiitoakark firlaldsanar“.
Skýring: /bi> róttusyrir gðalagi iefur sgeinin tvrið ýri geo að aómuaalr akiisfrkinaaðigususkruðar vadiu mað hvert ssjórnavöditeni voaið útfyrir vadiark inu heldur eeiti fegrrírþgeinin g smhaýgumti kg aafnfeldvéttumti kveersukynsvtjórnaalds kvrralna. Frirmylu v1 ggr. 370 gr. stjskr. um að rllumbr iáitu fil að gf ársansn or uítis i knuog skaydur eorir íáir,g alutdeægumaómuaalnfefafafnfram: ari gtúlku reanig að a svsmifalanstáitu fil aess að meti íkvrralnirftjórnaaldsalmdir ómuaalr.
    Uatttudmuaalr aetuirallað eu tjórnaalds kvrraln , 1ð mmp fylt m ráfm fmha lda, ráfmerð gg unnumr kíkt1rttarbsrsstrðir,ue ekkiifir seð ssaatta fegrretuiedurspoðuð aala natti oegrra Egi nrvni viekum r því a gómuaalr akiiarskora fskruðar vadiu mað hvert sorsmskvörðun arkmrmsthýgum aoasvert srttaeni verið btaðið ,keíkuskvörðun arogludir búnngi efnnr ,e.eut.kvert ssjórnavaditeni virið bbri að toak íalvörðun uiem u mfrað rða Aoasvert sjtnfssmair era Anrnudarmair eeni virið bhæfu fil aess að moak íttteð fta álslgusuinan dejórnskýlu nuar.FDmuaalr aetu 1n fremur aaytt rrþeí ahort sni hkvörðun arkýgumtit,e.eut.kvert seaðfttórnavadi,sem rlvörðun uefur sikin ,oani výritagguk1rttarnfhttu Aá kbfraómueidu mð mgtiata feí ahort slvörðun ui réttumti aaga egau.taailnngi hid. everttýgumtisg uá niaegaakósar.eiasef bbúð ð aeak efnni sátkn óst að askruðar vadiiaómutdirsr rmiakark tet ,sid. erra Aesr að aunagfnis egaufosvtr raði egaufma ifar gl brisvtjórnaalds ,seo sram:rbegaasem l aeak iggjaýgumtisg uá niaegaakósar.eia
    Eamkvæmt oam:rnsguiuae ómuaalumaytgi úskruðar vadiu mu matrðirsr rvfðaríkvrralnirftjórnaaldsa. Komsthómuaalr aa fegrrr feiur taðumaðftíkt1lvörðun ubrjt v sbága1að 1öas armi gti gaufetu 1egrr 1ð mmp fylt m visu msipyrðir,,b elatnkvörðun i nrsildi ens vegar ahfa uen aeakarkaaareftilditil úess að meeytia1lvörðun ura Aoak njaa1lvörðun u stað keirrar mtemgalaainefur serið ársildi >     Þfeiur agi 560 gr. ee stkin om að íð frstinfkki fyimkvæmd tjórnaalds kvörðun arþett hen ti rboinlmdir ómuaalr.
Helstu heimildir:
unnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 34262432
nbsp;        SE rk r eTómason: STakarkaani u 1skruðar vadiiaómutdirskav 160 gr. stjsrnarfkrárinnar , Úlrljttutb1984, 4 mtbl. bls. 31822217
nbsp;        SE rk r eTómason: SEmættiitoakark firlaldsa,eAfæli ni tkl heðurss GuknJóundvssni esextugm. 1964, bls. 62052242

161 gr. FDmutdir eeiuure semættiiterikm mknum.fara figumgis vrftirfigu um. Ísimaómueidu ,sem reki fefa uð aaukamboð terf f 1ondui,erðir erkinaikð ársemættii1nma ie mami,og seki ferðu uen aeldur efluttr í 5nar semættii1lmát vvila mesmra ,enma óaear,uao seendur á,sð avra erfð aknm njri rtipun Íómuaalrna. /b> [ Fátkánavrtt lvsimaómuaa ,ese frðan oe uulya f65ski gm:rll, ansn orá 1emættii,efd hftaarttarbómurrr aeiuurekiisfmsstmanins o 5f ansnm mknum../b> ] 1)br>
Sjskrl.u5619911,326 gr. > Tilurð: /bi> Geinin tefur staðið áart rbreytt ra ktjórnarskránni f174 sett htafietengafeni virið barðkel nöma s AEinagfnis beytingain,uiem erð gefur serið á eefni ,ava erð gie m06 gr. stjskrl.ur. 75619911var sem reiur agisvæði hu mð mómurrr aeiydurfiki messtmanins o 5f ansnm mknum.vearaens kgðal an ehftaarttarbómurrrsenAeð kafðuivikin il,ealya fómurrrskur .
Skýring: /bi> 5pp eniireinar nn a amir na fdmutdir eeiuuifigumgis vara fiftirfigu um.r st rfum mknum.. Hr serskt aið öas avðatti gti gau,e.e. urkinaaðigusuttt uöa heldur eveersukynsvettur rglurr,eeirðh sem reirðh Ísta íirrfafnfram: aa fdmutdir ee uúbndinr afolirmælummgýgujafarusaea bejórnaaldsalm mað hverjig leen aeiuuifdrian sigustku hómuaálam
    Eaðari mhuta reinar nn a ae fta ð ona t veg fyrir að þbinsm aengaunrré stfmum.hrðuivbrtt ueagnia trómueidu metir að aeen aena verið tipuðirrfil tjabsr. Tl iksufinil aómutdir,sem reki fefa uð aaukiamboð terf f 1ondui,enav,ragaendgu aið þe sem remættiitómurrr aara fikinaendgu aie majsrnskýlu kmhlði,vómuaarfum
    Eamkvæmt 61 gr. erðir ehftaarttarb-tg fhr a sómur umerkinaikð ársemættii1nma ie mamisenAe ae fu ð íða Andan ikinngaura krglurni f v3 ggr. 300 gr. stjskr. uer sem stmir na furseti lslands bgri eikð ávsmifaá 1emættiiar kvnn hefur serittþað sátkefur svæði hvrið ýriteo at vorseti seti ,ie mbeina fáðherra ,eikð ómurrrsrsemættii1m aetldirskmkinn rrkinayrir rulatnrgtt 1er. 1H1968, b1627
    Þf61 gr. ee ek fremur avo byrir elt vð ómurrr avrði frkinaeldur efluttr í 5nar semættii1lmát vvila mesmra enma óaear,uao seendur ásð avra erfð aknm njri rtipun Íómuaalrna. aiar sao seendur ásetti oe aví a igusuflyjjanómurrrs 5nar semættii1ð ftjpyrðir,4 ggr. 300 gr. stjskr. urði syullngut.
    Eamkvæmt oam:rnsguiuaefur serið liai geo anað aemættiitómurrr aé tipuðirrf semættiiknuoil úkveðinnstöma ,ker. 1. ggr. 34 gr. eg h. ggr. 312 gr. saga ur. 715/9998aumaómuaalr. amktsem rlir verðir edmurintaytt m roá emættii1fheitirgar alds hfa uear ahf oe rðan o65ski afu ð íða Ahftaarttarbómurrrskal fann re ahldsalbreytt umanuum.. Niur agisvæði f61 gr. eefur se avrið ýritá þvn hei anreali rómurrr avrði fa öiatafst rfum mear aeen aá 70ski ldsrihigusug anrir emættiitennt

Helstu heimildir:
Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, 1960, bls. 32771281
unnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, 1999, bls. 32882211
FVIÐAUKI 4br>
i> br> < !-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&STJÓRNSKIPUNARÞRÓUN/r> &/b> < Ahref="#Footnote60" id="Footref60"> !-- TWPStjyle Ope: Styeenm_17-->&/sup>59 !-- TWPStjyle End Styeenm_17-->&//a br> E rk r eTómason: prófssonr/r> i> EFNISYFIRLIT/r>
/bp FInbsp;   EIngarngu /b>     E    E124
    E1.nbsp;   Eamarn    E    E124
    E2.nbsp;   EForm,sni hogluppbygging    E    E125
    E3.nbsp;   EAfærkmngfnis     E    E126 FIInbsp;   Ekvæði fm arundvellar ildi sog     E    E126
    E1.nbsp;   EIngarngu     E    E126
    E2.nbsp;   ETndgslíkisssog    E    E127
    E4.nbsp;   EU eerjfisernidog segaarrhadiínauai idu     E    E128 FIIInbsp;   ELðvaði /b>     E    E130
    E1.nbsp;   EAlennt     E    E130
    E2.nbsp;   EFulatralðvaði - Binitslðvaði     E    E130
FIVnbsp;   EMnneítis i /b>     E    E134
    E1.nbsp;   EIngarngu     E    E134
    E2.nbsp;   ENosrnnáitu     E    E135
    E3.nbsp;   EÖnumr rk i    E    E136 FVnbsp;   ELgujafar engs g söajaöf/b>     E    E136
    E1.nbsp;   EIngarngu     E    E136
    E2.nbsp;   EUboð sengsi    E    E137
    E3.nbsp;   ELajaöf    E    E138
    E4.nbsp;   Eftir iit hutaerik engsins,    E    E139
    E5.nbsp;   EAnar     E    E141 FVInbsp;   EFam:væmd r vadioglað fta úess /b>     E    E141     E1.nbsp;   EIngarngu     E    E141     E2.nbsp;   EEmættiitg fhutaerik eóðahnfungsja    E    E142
    E3.nbsp;   ERkisstjórn g seðherra     E    E143 FVIInbsp;   EDmuavadioglað fta úess /b>     E    E144
    E1.nbsp;   EIngarngu     E    E144
    E2.nbsp;   Ekvæði f anosrnm fajórnarfkrár     E    E145
    E3.nbsp;   EÖnumr rk i    E    E145
FVIIInbsp;   EUtaníkissála/b>     E    E146
    E1.nbsp;   ESaða áeóðaarttarbinssð aands,ítis    E    E146
    E2.nbsp;   ETlurð:áeóðarttarbsamenga,    E    E146
    E3.nbsp;   EAleóðaegaakamvin a a mnrumheyti     E    E146
    E4.nbsp;   ESmr n eengafí utaníkissálau     E    E147
FIXnbsp;   ESasrnarfkráribeytingar /b>     E    E148
    E1.nbsp;   EIngarngu     E    E148
    E2.nbsp;   Ekvæði f anosrnm fajórnarfkrár     E    E149
    E3.nbsp;   Ekvæði f aajórnarfkrár lnokum a sananra aEvrópurktaf    E    E149
FI Ingarngu /r>

F1. amarn/r>     EFlitu hsasrnarfkrári a a1nöma aailnngi aknmuom a 197 gödi. Fimkta feí aoru áar henskm eeinju am sátu utut aima nsvessem stguiuail nhateriuavadihfa ug settuasgnanan 1 !-- TWPStjyle Ope: Styeenm_17-->&/sup>60 !-- TWPStjyle End Styeenm_17-->&//a Eltafsnúildiani fsasrnarfkrárt vegttrnmslðvaði síkisserfaandiarsku nra k1778 uEkititEvrópurktikettr stesað fgeo aandgr gkmmalaaia ssjórnskipun rssgu saaman buði fað 1toórnakipunegaanateriugeika Bndiarstafnn ,eirt rfEvrópasem nokum saknur gl eun atofnaí atjórnarskrán raðim Þ5Fimkkianisfinsmahfa uanig avrði f arldi ssanann tug     EEltafsnúildiani fsasrnarfkrárt vEvrópuee uanosku nfd h hefur sigumgis vsttioakarkuir ubeytingaumra því ah hva stmþykkt a17. ma a98.4 gAvaarsnúildiani fsasrnarfkrárrsem l atofnu uil e urá 199 gödite uabelgsku n(1831)fosvtslxemærgsku n(1868)
    EFlstsa sivrópsur sasrnarfkrárrse urá 1ímabiil nufetir attriug aeidm spegl lví afrekarsnúöma egar sasrnakipun rshugydi . nig auðire talku n(1947)tg naýku naaórnarskráin s(1949)mtl áttuetir attriug aarkaat raftviieitu uil t vostsaslðvaði ík ega t atisu gk1rs um ats eauoafoats ea Aá kmainfafð íktikSuirr-Evrópueem stne ustkl lðvaði sttu æalttldir ratugnm faet utér snjaa1sasrnarfkrártaflví al ni h(Grikkiani19975, Portúial19976uoafSpnni19978) Flstsbyrirera di 1knmmúnntaarktikAustmr-Evrópuehfa uedurspoðuð asasrnarfkrárrsenua roá rundnieðiustm 20skiin
    EOrangeinida sasrnarfkrárrsuðiretl á skölla snilvlahólitískua umbrotaöma Sþnrum rstaumaena verið tetu njaa sasrnarfkrárrs(ða ner edurspoðuð a a1vkiianil matrðium)e ress að mso aærii Má hinfafDaiárkm (1953), Svðeóða (1974), Holiani1(1982)tg n atinni uiiuSvisu (2000)tg nFnniiani1(2000) SAustmrrktikva stettþ ft sasrnaaga engafem sttabsri f atövrrs(200–22005) uEki fnðhistuamaknmuagi5r ubeytingaarilligu rsg lvfur sorsmair esasrnaaga engains olaattom ailligu þ siganrnani
    UBeetiani1efur stéstíkireví er ae figanriganegaakasrnarfkrárteldur ebyggistsasrnakipun ins lvgnjm aoaslmenntumlýgum
    Þar erfrkinaauveldtað mgina fillikina„sasrnakipun rsþóun “s vEvrópuendan f.rnag ratugi.Stjórnskipunegaaröllbeytinsserfnilv. Umæiat af f 1ér svgnjmega trtr einan ands boafoylir nkki smiganega ialeóðaegaa ssjniu. Tl ikin atri Iru áe aauveitakemiganegarllumegttrnmmlðvaði s-ug settarrstaum: Vrnidomnneítis i.,sigubndin sasrna,lðvaði syrir knmuagi, .e. uíitu fboraarln ail t vkiputalm mvadihfa ,sg hvrlddinfnga, .e. uíkissvadiiae eeiputvilli rnokum a sginnanndefafil aess að moempra vadiia. elstukmagina fetir ara di 1þóun ardeætii1mdan f.rnag ratugi:
&    E&*& nbsp;    &mnneítis i.væði fhfa ugri h trbegari;áseeansiasrnarfkrárrs94 gadar nn a aoru ofiat hfáoðar umlanneítis i íaetgnrrfnrumháli fm mær vasrnarfkrárrsem gri hefafil aetir a9445; féagi egauítis i efafhloi evaxanisfviur knntn guan ehl hboraarlegara-sog&
& &    E&*& nbsp;    &etir iitseð þeí að föaskmrmsthkasrnarfkrártelur serið rft 1aárgm rstaumaena veéstaki esasrnaaga ómuaalr aerið tetui u 1ft a feýkuritorirmynd ,íaelur serið eitiptþ tíktufetir liaif anosrnm fítis,ker. 1sasrnarfkráribeytingar f aFnniianiitg fSvðeóða o areytt anómuryimkvæmd í1Daiárkm; &
& &    E&*& nbsp;    &vaxanisfaleóðaegatuamat af felur skllað e ktjórnakipunegaarubeytingaar;uanig aena verið tetuekvæði Iam vhimildatom saluíkissvadis1ð mmp fylt m illikin msipyrðir,; &
& &    E&*& nbsp;    &lritr gefur serið liði il t vrftarögujafar ingi u,r.a. m saóst sdvnua i íkhift sandspnisvEvrópukmbandi nm; birt stþasta il aóri ssíemignngauáengadildd il t vauu nailvr ki hogl væðum fu ð eti vrði fillikinaríkvrralnirf vEvrópu-aea baleóðaaálaumamdir áingi u; &
& &    E&*& nbsp;    &lritr gefur serið liði il t vauu nlðvaði segarkhiftfamenntngai;sett hrjfit aérað moalalm mdenna gþóun herfóáttið muulyrði uf þeeg æanar sboa efur serið reytt eglur,lm mkosenga,rkg naóðaaratvæðuaginðslu þe r það firllritttl áess að mtíkka kíkt1rttas i ; &
& &    E&*& nbsp;    &aukinrvituudm gnilvægu vess að mernidafm eerjfiðaeidm spegl t rndan ikinngarbeai g1negaa ssjórnarfkrár . &
&    EDrgguð asasrnarfkrárrsttuála.sEvrópukmbandiins ooel einig aíeér smara eathyglisernar nja ga,rke ress abfrað aálfusguiuað mgeiata fann rgeydir alitutg frieat arundvellar eglurrfrmttmandi temfirleóðaegaa tofnun tog !-- TWPStjyle Ope: Styeenm_17-->&/sup>61 !-- TWPStjyle End Styeenm_17-->&//a
    EEf1hof tee stl Nrðiurianiln aeéstakega íkánavrta mathyglir því a g aNreisfena vumættur1mdan f.rin aía uoaf ratugametint að aví a gmp fr ákvæði Iumlanneítis i , ij ngarbriels hoglu eerjfisernid 1aSvðeóða va sikin fgekaið umað aknungur vefðuivegarfhutadilddí afam:væmd r vadii,f aFnniianiitfrtom ahildd re urspoðunasar sem r.nneítis i.oniei ntvrsrpp arðku ,e.igi rft sg hvöditorseta lmi nkui.
Fbr> 2. Form,sni hogluppbygging
    EFlstsa svasrnarfkrárrsEvrópurktafIru ritthilddstt atafl. Fi því ar rmmdan ikinngarb. nig aaman eendur snku naaórnarskráin sfoórnm gnsm nadi rgundvellar textm g(eieing:sorsmeu,rtryckfrihetsfrordnngaeu,rtt a diefrihetsagaeuog skuccisu onsordnngaeu)
    EÍ Mnneítis iafirllýkngaurannku sbylingaainnar,frá 106 gágs f1789asagi If áíktikar sem rítis i g hvrlddinfngaaærirfiki mtryggðaæriiáan heganraasrnakipun Þar nagbirt sthugydiumað aillikinr áiætii áiujfisð mern.yrir onduireanig að ahgutaérað moalalm mnúöma egarraasrnakipun Þatt htasrnarfkrárrsEvrópurktafIé röllbeytita þe r uaillikinr fnis iætii á svsmifalstsm Flitukmainfafkvæði Iumltjsrnarforsmuíkissgusug arundvellar eglurrflðvaði sns AÍ nrumhegi 5ru ávæði fm arundvellar ítis i boraarln avkiianiillfhutai1fhnöma egar fsasrnarfkrártg naí ar mauugj.rnanð muin aí app eniitasrnarfkrárr,henskm e svsmifnjri . ð he sbeytinegatuoá e nufianiitil tnar,stveersug trbegamaisu gkvæði Iru g fre rfiat hetir aaia ssjórnsrskránnia. nig an stinsnugj.rnanmjgguík egaurf aajórnarfkrár lrktafIAustmr-sEvrópu AÍ rannku stjórnarskránni fogfegrrr f tllku stvodri vé ikin ru ávæði nfm arundvellar ítis i mn uoábrotar n AÍ rnða megi 5m kivoinfafkvæði Iumlð streanndena víkissvadis, .e. ueóðahnfungsja,íkisstasrna,þengs g sómuaalroglamatpl áesmra evilli saaumumlýgidu mertipuðiaaman l væðum fem reiga1að 1umaeernisginnanndefafíkissvadis Sþnrum ýgidu mrð steeiputngi usgiratafsginnerikniumuíkissgus, .e. uöajaöf,fyimkvæmd aga ,vómuaarfum oglamatiputm vi he lnduuíkis
    EUpprkirnkonieaí atjórnarskránkettr stinig agefiðaiksbgdingaum mvadiahutafllvilli rð stretofnuanauíkissgus AÍ rannku stjórnarskránni fil aóri sse stl tllmega trk egaurfoniei umorsta n hefður ásndan hköflmum.humuíkisstjórn g sengs Sþ tllku ,vaustmrrkku ,vsnkuutg naýku stjórnarskránnm mkomaávæði nfm aengs hns vegar aásndan h væðum fu áeóðahnfungsjaug sekisstjórn
    ELegadhtasrnarfkrárrserskvniega beytinegauoá e nufianiitil tnar,s. Holienku naaórnarskráin seð 142 reinar ar manig aíeeealegi 5ýgis SPortúialku naaórnarskráin shns vegar aie m098 reinar ar míkt stkl eð þeiimaendgstm.1Daiku naaórnarskráin sosvtsyimiku neð 89areinaumaeeorse uhns vegar aie mesmifkttt as
    ESuma svasrnarfkrárrsefafrrsmla.egusug ail aóri sstsaýku ,f rku ,fg frimiku nam vdrgaurfaman lnilvæguustm atrðirnste fvrsi urundvellvsasrnakipun rsnn a aei uffærkmngíkissgusug aaálfusydiíaóðaarnnar , er. 1e tyrknekuutg n rkum.1Síktirfrrsmla.rse ukkiif snosrnmstjórnarskránnm
F3. Afærkmngfnis /r>     EÍ grrr freinar erð gem vhr sferskhetir aerðir evðaa lritr grangalm mthyglisernaijórnarskráirkvæði Ig seyndtað mgina fþóun Flitukg frieat ae uaoðun fnisgem vhaf íirngur þslandsi1n onf teom ahjarrum vi rangsniumuem vkun aem: aa fern.s arþeáitu f atjórnakipun vi komadsi1íkisss(il aóri sskvæði Iumlandsvr ir kearíkvæði f aambandiiíktikm mvadiark tmbandiins og anrldaarrstaamaisu)
    ERttuerta fannaí ahuga1að 1tíkt naaman buðita fnosrnmsíktinfefa uð aaumuheyti esstíkireiluð an ennumr Evrópurkti Þar smainfaftlvrstþaóðakinkjuáseeansa sailnair eíkisssog FII kvæði fm arundvellar ildi sog <1. Ingarngu /r>     EMara evasrnarfkrárrsgeydafkvæði Iumltjsrnarforsmuíkissgusug ahlstu hginneglur sasrnakipun rsnn a ag aafnfeldvnokum saknur ghimispek ega sosvti fta s ega nurundvellvíkissgus
    EAlrtgi5ru ávæði fm app spret utíkissvadis Snig aamir n a9.mgina Fsnkuuttjsrnarfkrárinnar /b> (Reieing:sorsmeu)sð h„t mdean avaditafr,frá 1aóðainig“sg aeinremur að aankutslðvaði ti rbyggtþ „frálfsi rtioalnaydin tog     EAnar atrðirsiem ej.rnanerta fuin aí app enis væðum feasrnarfkrárrsersa fað fta íkissvadis1byggistá öarm, er. 12 gr. sriniku stjórnarskránsnn a ag a1 gr. esnkuuttjsrnarfkrárinnar . Umþasta ersnúg trbegatíkvæði f a5 gr. esvisunekuuttjórnarskránsnn a aer sem stmir na fthani ruíkissgusuvrði fa oyggj ta eýgum aoasern.inan darkaaaga ,vaásvrði fær a:áeó a adean ahgismutumlg ameisfrkinagangalendgrrsenAað syn krfur :
&     Enbsp;   EArt. 5 Gundvsätze rechtstjaatlicefn H diels,
nbsp;   Enbsp;   E1    EGundvagaesndaSchramnke tjaatlicefn H diels, sthas Recht
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; 2    ESjaatlicefs H diels mus, mþffentlicefn I ikrisue lieaeuondaSvrhältnssássg aamin
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; 3    ESjaatlicef OrarnrondaSPrivateeanndels nach Trermmda Glauben
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; 4    UBuudmudKantonrobeachteuoas Vlkerrecht. & &
    EGottudri vm app talnrngur hlstu hrundvellar ildim e snöma slðvaði síkisserfuin aí atjórnarskránrsttuála.s FEvrópukmbandiins /b> a2 gr. :
&     Enbsp;   E    ETef Union s vaondved on tef ellufs offrispec sorsahuan ldignity,fyieedom, democracy,fequality,ftef rule offlawsandfrispec sorsahuan lrights,incluingaftef rights offperson abflonging& &
    EFrðaegatuersa feti orangeinida kansnufaman lið ingarngnsnua f Fandiarsku stjórnarskránni f/b> (1787)1n o n helóðaarkivo:
&     Enbsp;   E    EWeftef People offtef UnitedStjates,in Orde stosorsmsa more perfec sUnion,fetjablish Justice, ns ure domstinc Tranquility,fprovidesorsatef common defence, promoteftef aeuti l Wela e, andfsecure tef Blisu g:s offLietityatosom selvfs andou fPosikrity,fdosordainuandfetjablish ths vCon titutionsorsatef UnitedStjates offAmkrica. & &
    EVrðir enúgikð áarruð asasrnarfkrárr væðum fu tndgslíkisssog Fbr> 2. Tndgslíkisssog     EÍ árgm ajórnarfkrár lr rvsð aill krstinegara aienenga,rarfeifh Ínig an oala 1umaábyrg asasrnarfkrárrjafarusaaýku n„frammnayrir gui Ig smnnumm“s(rrsmlai a feýku stjórnarskránni )áseeansar hereéstakega tkin om a afrsmla.a fuannku stjórnarskránni fð íkti aan„hutaansnut aira,nium“.
    ERkisskinkjaefur serið ið ýðvi1lmNrðiurinidu mosvtr maisuastað k aajórnarfkrár laisuaralrktaf. amkvæmt 2.mginanoskuuttjórnarskránsnn a aerfrvangelskuslikrttropnbrríkisstráer s aands . Jfnfram: aamir na na furseldar mtemgé lihkrttrr avrði fa alalbrnknuopp aíeémuair.Al ama ifraði ean aeefur sesta sðaastnrnudagkvæði Irkinaendgu anina faga ega íirngu
    EÍ dnnku stjórnarskrárnnsserfkvæði f a4 gr. eem rermjgguíktteví esienku n e62 gr. stjsrnarfkrárinnar mosvtmir na na fhn rvangelskuaslikrtuaskinkjaanhn opnbrraskinkjaí1Daiárkmog skauuifíkissvadii asayða mhanautemgíkt
    EÍ snkuutg nriniku stjórnarskránnumaena verið ttganrskrfuil t vlosafu tndgslilli ríkisssog     afliai gl nokum a sananra arstaammainfafð afnfeldvett hvðaa anvitnð aill ðir 5m ita aldsal eskuuttjórnarskránni faástmir na neinremur a a44 gr. eð íktinuti rbnar sa asayða mtl ikin trr brgui Sþ tllku stjórnarskrárnnsseruesstíkkavæði fm akaetltuu Fbr> 4. Umeerjfisernidog segaarrhadiínauai idu /r> <4.1 Ingarngu /r>     EMlrr íkissena vk1mdan frnumaáru mosv ratugu tnkð ávæði fm apmeerjfisernidopp aíejórnarskránk(Nreiu ,eSvðeóða,aFnniiani,uSvisu g nFimkkianin rrinig aGrikkiani, Kraöma,fSpnni, Ungernjaianig nTékkiani). aiar seu     Tak íaf faftíkiretl áess aveersugvðafðimrrfrmeerjfisáitu nsnuásð avraa: Erskt aið ernidopmeerjfis,áttúru,aíkfíkiss,akálfubrirr seóun ar,auai idaag aafnfeldvaóðaararfsgusu(er. 120 gr. sriniku stjórnarskránsnn a )? Áfafnfram: aa fsasrnarfkrárib idaaítis nil t arngs1ð mmp lýkngaumfm apmeerjfismla?
    Þakánageiat2 gr. sriniku stjórnarskránsnn a aer sem stmir : „Lðvaði talau f atr máttueint aklnga,il t voak íttto aena vkhiftf 1aóun íeóðaféagisgusug aíkfssipyrði,sem reen abraið .“sar nagr rvsð aill „íkfssipyrði,“sg avirhistunri æk aa fáttúr sosvm eerjfiðaheyrikar sudi . amkvæmt áess uku umeerjfisernidog smgumeikar mln ail vitnekujufm apmeerjfismlaug ail aa fannaíkhiftf 1kvrralnirfm apmeerjfismlaunilvæguurþeáitu f anöma aailnngi a eýðvaði
    EErlm mdenna gsjniufirllýkngauð íða Aalitutg frieat aearáttueint aklnga,temgaam:oyliaammaframmnayrir ómuaalum?fSpyraammavert sjtniufirllýkngaa eeni vnil íirngureffær fr eint aklngam ge a nueina náit. Lkiega erðir eð msorrrsí ejsaduireí eær geiatannaíkhiftfið túlkmngdennar faga fogfegar sef fa voak ma sknntdaríkvrralnir.AÞrahfa uanig akhiftf 1ægu vkósar.eia
    EÁsigumgis vð akvearíkumaáttuearíkrinig aa feltaharir umakiydurr?saaumumlsasrnarfkrárr væðumnu merlguiakherslaf 1kbyrg aeint aklnga,n aíapmeerjfimknum. ð hvirhistuskynsamegaug seai egauálgn hegaauveitakeerepurengahvraa lga egauíirngurtíkt1lvöði fhfa
    ajaidgæara fi na fujllað ei ríejórnarskránkumsegaarrhadiínauai idu ,lað fta úesmra eoauátrngu
Fbr> 4.2 Dri vm aijórnarskráirkvæði /r>     EÁvæði fm apmeerjfisernidoena verið ikin pp aíejórnarskránrnokum a sEvrópurktafIð mmdan frnuegusug aimk r hr sa fean.AÞ efur skranuku nvæði hsstíkireaflví aa feð moeku aie mbinsm ahttii1lmegaarrhadiiáttúruuai ida
FNreiu ,e/b> gina110btemgikin vrsrpp ríejórnarskránknsn 1992:
br> nbsp;    /i>:nbsp;   E    ESr eerj mair ek1rttkl helngmsapmeerjfiseoauáttúruaer sem sgreiauoafoöllbeytinsseruernidui. Ntaabfraáttúruuai idi u 1rundveeli rhilddrnnaaandgöma aósar.eia kar sem rítiurfoomadsi1kynslðaaaerfrinig aikin nil gina
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     Tl áess að mssaduahvör 1umarttksnsnuásgndveeli rorangeinidrr smlsreinar ,reiga1boraarl máttuásð afnkup lýkngar umlássaduaáttúruegasapmeerjfiseoaukhiftfarir hugavaauearfirlssaduaniitfam:væmd ruásáttúrua
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     tjórnsvöditeiuuregea utáarriolirmælui umoimkvæmd aisuaralginnegluna
FFnniiani,u/b> 20 gr.eiastjsrnarfkrárinnar frá 1rinnm 2000:
nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; :nbsp;   EÁbyrg aapmeerjfinubr> nbsp;    /i>:nbsp;   Enbsp;Enbsp;Enbsp;Enbsp;ENttúr sosvoöllbeytiieikiaíkfíkissgus, m eerjfiðag naóðaararfu nsnuru á1kbyrg aalya
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     tjórnsvöditeiuurekeppa a maí að moryggj rllumrttkl helngmsapmeerjfiseoaumgumeikasnuásð aannaíkhiftf 1kvrralnirfte fvrsi uesmra eiganríkfíntapmeerjfi
FEvrópukmbandi a,a/b> 97 gr.eiastjsrnarfkráristtuála.s ooá 1rinnm 2004:
:nbsp;   Enbsp;Enbsp;Enbsp;Enbsp;ENttúruernidbr> nbsp;    /i>:nbsp;   E    ENttúruernidr háuttga o art apmeerjfimernaraa fern.hutai1fhjtniu amkandiins . Tryggj rrðir ehert stveggj rskmrri við ginneglurnaumakálfubr áóun
FFimkkiani,/b> hnsnusvokllað iapmeerjfisernidaisttuálai (La Chr te de l'environneennt) va sikinn pp aíejórnarskránn neð ívær unemigna sreigish. ggr,st2005:
nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;   E    E„1 a eerj mair ek1rttkásð alinaí ahelsusamega umeerjfikar sem ríktirfafnfegu
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     2 a eerjjumlanneiabfrakiydu,il t voak íttternidog sumæim apmeerjfisgus
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     3 a eerjjumlanneiabfrakiydu,il t voilkynnaharir om a akmrri við öasm af erð irfte fgeiateiauð am eerjfið,ueardrrga a mnrum mkosii1rteiauega míkhiftm
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     4 a eerjjumlanneiabfrað mssuaia a maí að mrta1rteiauagem vhan heidur epmeerjfinu,uamakæmt áarriþ væðum flgum
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     5. aiar soimkvæmd irfgeiateiauð am eerjfiðneð alvrbegau mosvafiurráfm ahttii1bfrakjórnsvödim af káletl áess a akmrri við vrsaareglurnað e httia anmetn sosvð edrgai aanrthenaihetir arieat algin
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     6.hStefn naaórnaaldsalað mssuaia a mkálfubrir 1þóun . […]
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     7 a eerj mair ek1rtt,inan darkaaaga ,vt arngi1ð mmp lýkngaumfm apmeerjfi k afrnm gaaórnaaldsalg naáttíkk þ svær unumuem vannaíkhiftf 1pmeerjfi
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     [8.–10 gr.eia]“br> /i>: FSvðeóða,a2 gr.eiastjsrnarfkrárinnar frá 11974:/r>

nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;   E    E„[…] Sjórnsvödim abfrað mssuaia a mkálfubrir 1þóun uem vliðiirsil gðasapmeerjfisearir núera di 1og FSvisu/b> , 73 og<79 gr.eiastjsrnarfkrárinnar frá 1rinnm 2000:
nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;   73 gr.eia
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     tmbandiiíktiðag nkastónui a aeiuurestinfafð þaí að mkomaáaandgvin ufafnfegu villi rnttúruaar ,reiskm ehvramvrsi r ettrfhenar eil aedur nja gr ,roauátrnga nafhálfulannesgus
nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;   79 gr.eia
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     tmbandiiíktiðakal sátahginneglur umoiskviði mosvtkotviði m eí augnamii fa ernidafoöllbeytinssoiskjr ,rvlli br mosvfugla
FÚkranua/b> , 13 gr.eiastjsrnarfkrárinnar
nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;   E    EJr u,r.álmr ,rloftið,uvat sosvð aarsnáttúruegaa nauai idi uinan dfirlr sæði sFÚkranuu,andirundnsgusug ainfahgislgusgunar eliamegaarrrtisekranukuumaóðaarnnar . H dihfr,fíkissvadis1o ae a stjsrnar faralg úesna náití apboð imaóðaarnnar kinan desmra earkaaam vdrgan ru áejórnarskránnn
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     Herjjumlboraarlr himild aa fáiamegaai maisuara akmrri við öa
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     Egaafoylir nkbyrg . Notkmngfgaarmmakki siauagavaaueint aklnga,earkmmaéagii
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     […]
FIII Lðvaði /r> <1. Alennt /r>     EÍ aumumlnegam ajórnarfkrár lr ávæði fm aáitamenntngaietl áeáttíkk þ slðvaði segaumaóðaaéagii. Berrsau vot apmuani aailnngiaf álðvaði segam rtisealanstfeirrsenAítiurfil t voak ítttkosengam L tr5m kivoíað mítiurfamenntngaietl up lýkngaraaneáitu fess u fítis,kanig aai stamenntngau fbetriorstdur il t vydiaeés poðunasnagerum feasrnaaldsa Aá kmageiatess að móun uefur serið í eæalttfa erita1tlgdingaumuem vannafat aabsttrfei komadsi1l di 1knsenga,rti,t vinik aakosii1 akeritarajórnarfkosengam Komiðahefr il umaðim aumsstað a na flækka knsenga,dur e a961ri
    VIfoniei sasrnarfkrárrsttuála.sEvrópukmbandiins o !-- TWPStjyle Ope: Styeenm_17-->&/sup>62 !-- TWPStjyle End Styeenm_17-->&//a bfrafirlsuriftina„lðvaði segartlvrn.smbandiins “.AÞr semir neealtnar,st a46 gr. eð boraarl ir kega rttkásð aoak ítttlðvaði segarirtlvrnusmbandiins . Tak bfri1kvrralnirfg egusugpsm ahttii1g segusunrir 1boraurutumlg ahgutaer.Stjórnsála.flokur nirse usagi rmssuaia a mivrópsua ssjórnsála.vituudosvð evllj boraarln akomitfam: Aá ktmir na na ftofnuanirsEvrópukmbandiins okali fgea uboraurutumlg aféagiaem: kk mkosikásð alsaa aaóstnosvtkputatutgpnbrrega í poðunam fu állvthani sir tmbandisgus AÞlmegaiftofnuanirarruð airhldsalgpsm ,aetgnsæjm aoasegluregam aamaðim vi hféagiaem: kkoglamaaéagii
    Einremur arj mæltharir umarttkboraarln ail t vfletl ikin álafnisgikin tl umoöllurna aie mer sa augnamii fa tetu vrði fpmuau b idadsi1l aarglur .AÞr ft vinik aakosii1eiasilliósa mln ará 1nokurm af ldaarrstam af ksaduahf kíktuffrm væði
    ELokslr ávæði f aaisum akaieaESB-tjsrnarfkrárinnar fm af eangfamenntngaief gpnbrrumakiöllm Smir na neealtnar,stð aill ess að mssuaia a mgðam ajórnarfháitu aoasoryggj reáttíkk amaaéagiins okali ftofnuanirskmbandiins oktabsrfg egusugpsm ahttii1g shgutaer.
F2. Fulatrúalðvaði t–mbinstslðvaði /r>
    EBinstslðvaði kar sem rboraarl ir krim amiganegaumlalaumakálfuirsil lyktrfg atvæðuaginðslu rilli ggisuskölrin arulatrúavydiikvafaansnuttelj ta tr k aaorsmslðvaði sns AÍ an rnueikasumse uhns vegar afleeareganrdri vm að alani fsnajórnarðneð þaisum ahttii. Hns vegar aannamlrr íkisstnkð pp aýmsaorsmsetintslðvaði ssil styrkrnga neuagavhadis1eð fulatrúalðvaði um. Ens og anlkun ae þe r þaóðaaratvæðuaginðslaaveergi1lrtgirrienfFSvisu. Ensar herkasnskieðiusritr sa abinstslðvaði aerfrinig amjgguiikf áBndiarstanam f ahnsm aeint kk rstam a(1002200atvæðuaginðslur m aeint kkálafnisg 1rinsa fað altali)1g segusu kivritarajórnarfttga (10–15.000atvæðuaginðslur 1rin).Bndiarsku naaórnarskráin sieinrhns vegar akki sr arir íaóðaaratvæðuaginðslu a 1alíkissrundveeli
    EFlokurkmaaóðaaratvæðuaginðslu etir amu mliðim Hvramfnisg hrriirageiater enskm eerral fsasrnarfkrár,tetueöa,af ldafa alaóðaasttuálam aei il ikin nilvæguálafnisg(d.     EGagnegatuersa fflokuraaóðaaratvæðuaginðsluutra því ahernig ae hvrðir eoimkvllura. egutaerað moalalm mkálfukrfa uóðaaratvæðuaginðslu þegar skyltuerta fandsalaóðaaratvæðuaginðsluuumil ikin texta, t.d.     EÖnumr nilvægufnisgem vskyltuerta fandsalaóðaaratvæðuaginðsluuumr uaillaóri ssbeytingar fleknsenga,aia sí1Daiárkm,sbeytingaflekinkjukipun h þslandsi1g anrldata ffirleóðaegam aam kk mFSvisu.
    ESuma sóðaaratvæðuaginðslu ernaraeki fefldar fnem.a fuam væði ffirlaldsa Aaaumumlrstam aerorsta npmuanig aeimild aa finfaftlvlaóðaaratvæðuaginðsluu(dri vTyrkianiþar sem rorstansnugttr svsð aýgum atlvlaóðaaratvæðuisgem vhan hefur sir esentkl bak tlvlangains oe reigi efur stmþykkt aa fájuaie m0/3sgirihutaa,fAlandmaaeduakomitfam:fpmua abinðnira a.m.k. 50.000kósteidu ,lslandseerralni fátmþykkt aöasra Aleigi , Kraömaaeduaie mdir sitirorsættisáiherrani aíkt svær un) Sþnrum rstaumagttr seigi ívðin ea finftokali ftlvlaóðaaratvæðuaginðsluu(d.nFnniiani1g fSvðeóða)fosvtumsstað a nefur safnfeldviniihutai1eigimln a(t.d.<í1Daiárkmo1/3seigimln a,ukfSpnni10%nafhertri1eigidildd)úesna náit
    ajaidgæara fi nhns vegar aa finftokntlvlaóðaaratvæðuaginðsluua fuam væði fkósteida. ererðir eð mgina fávilli tnar,stegar aaóðaaratvæðuaginðsluuumiextasem reega nefur shloi eafginðsluuafhálfulfirlaldsamosvtvokllað s„aóðaaruam væði “ hns vegar aar sem rhutai1kósteidaagttr slaatttlvliextasem reki fefur sin heloi enina forsmega afginðslu
    EFam væði fkósteidaf aaisum aaailnngi aefur serið íóua fava fanut aSvisu ensar hegkkrsteinig aíeAlandmu,h þsoalmu,hLitháeu,uLitaiani , MakedódmumosvMlltu.AÞ þegkkrstafbrigi IffkíktufíePóliani , Portúial1osvUngernjaianiiaar sem rhutai1kósteidaagttr slaatttlvlvi hfirlaöditf áaóðaaratvæðuaginðslaafrriom a ress ae aa hfirlaödité kalidbndin il t vernaran egrrr fráfu
    EEki fvrðir eoaið hr snarrutí amur,fglur se fgldd umoimkvæmd aóðaaratvæðuaginðsluuegusug ail aóri sserralni far hhernig aleggj rbfri1mlauarir atvæðus (skýreikiaepurengaa,hginnegluanfm afnis egarraamtíkir, .e. ua fiki sæntl stkl ð mkósteidu stmþykktiaalar 1illigu rsearhani esmifllumnem.fnis egatndgslé ávilli úesmra eo.fl.).AÞ e máttut vini ta eeglur umþeáttíkk -earkmmykktissipyrðisgem vsumsstað a negkkj ta
    EÍ Búla,rmu,hKraömu,h þsoalmu,hMlltu,f aLitaiani (nem.erralni fsasrnarfkrár,akálsðaar),hLitháeu,uRússiani , Makedódmume fess krfait að agirihutai1kósteidaaakiítttatvæðuaginðsluuill ess að me hi rb idadsi SAzerbaijanherkrfait aeáttíkk t vinik aakosii125%fkósteida. Póliani ug aPortúial1ildi aa finaeáttak e fmdir 50%ntlstukatvæðuaginðslaná erfnds n rrktiab idadsi
    ammykktissipyrðisgerta fuin aí aUngernjaianiia(oórn unaurfoósteida),fAlandmumosvAsmeumuu(rnðaunaurfoósteida)mosvDaiárkmo(40%nerralni fsasrnarfkrárrbeytingaar;a.m.k. 30%niujfraa fern.á kmtiil t vfeliafátmþykkt aöasrtildi ).Stjuidu meruageruareéstakega rstarfráfurnerralni fsasrnarfkrárrbeytingaar, er. 1Litaianiar sem rásipy r tmþykktia50%nkósteidaaerralni fslstarfbeytingaar
    Þass amageiatt vFeneyjanrnudsEvrópur ins ohefr ialn ea fkmmykktisókalidareé æsk egarienfeáttíkk ókalidareganatess aáttiesrið ð mkósteidu sté avatui uil t vkitjaefimafil aess að mógldd kosengaman 1 !-- TWPStjyle Ope: Styeenm_17-->&/sup>63 !-- TWPStjyle End Styeenm_17-->&//a
F2.1mNrðiurinid!r> < b-- Tab -->    EDaiku naaórnarskráin /b> geydir trbegatíkvæði fumaóðaaratvæðuaginðslu.AÞr semir n a9.mmr..e42 gr. eð þeega nuam errpeeni verið emþykkt aaóðaingi uuageai1ernðaunaurfeigimln ainan deriggj rik akrfait aess að móðaaratvæðuaginðslaafrriom aumoim errpi Mgirihutai1eigishgttr s eí ail feli rvðin ea fdrrga uam errpel bak . Efntlvlaóðaaratvæðuaginðslunar fkmur aæaef feguf,dur egirihutai1ð mginaraatvæðus etgnoim errpinuediaeévm að aíða Aknsenga,eáttíkk t vinik aakosii130%nalya flekölrkrái.Stumumloim elrpm aereki fegutat vkkóstaftlvlaóðaaratvæðuaginðsluuegusug ail aóri ssoórl aaoim errpi. Eki fefur smikð eyndta þegta þkvæði Iajsrnarfkrárinnar . Aðegusue nufsnsn fefur skomiðatlvlaóðaaratvæðuaginðsluuamakæmt ráfuviniihutaafeigimln ag naásertuei komadsi1lasrelid (jrralla). Anar fdri vemainfttelur serið rrfð afnfð a mln atjsrnaeni váttin eð mnsn 1977fa tetjaöasm akjr norkmerj eganathimar eil sipy nsfoölldafeigimln am að agrspaftlvlaóðaaratvæðuaginðslu
     FÍ riniku stjórnarskránni /b> , 2.mgina,aermjgguamennttíkvæði fumf álðvaði talanstáitu ftint aklnga,il t voak íttto aena vkhiftf 1aóun íeóðaféagisgusug aíkfssipyrði, Aá ktmir n a94 gr.eias(knsenga,-lg naáttíkk áitu )aa hfirlaöditali ftouaia a mmgumeikumlorir tint aklngas nil t voak ítttféagisálam ao aena vkhiftf 1kvrralnirfte fvrsi uhan .nFnniku naaórnarskráin sieinrigumgis vr arir á erfnds aóðaaratvæðuaginðslu.ASmir n a53 gr.eiast voak bfri1kvær u aumaíkt satvæðuaginðsluuie mýgum
     FÍ snkuuttjsrnarfkrárnig/b> ru áe8.akaieaReieing:sorsmeugvæði fm aá erfnds aóðaaratvæðuaginðslu sem stmir neai gnar senð e kvearegaifarir komneagsesmra eað alenntumlýgum

F2.2 Önumr rkti!r> < b-- Tab -->    ESvisu/b> telur sýgism aerni gkllað fvrgarfhin abfna faðvaði s Aaavisunekuuttjórnarskránnnira þrinnm 2000 ru átrbegamkvæði fumaóðaaratvæðuaginðslur svæði f138 gog<139 gr.eiaarakvearíkumaáttuamenntngaie(100.000kósteidu na flágarkai)kl ð mkrefj ta aóðaaratvæðuaginðsluuumr urspoðunastjsrnarfkrárinnar .AÞ r un a940 gr.eiaskvæði fumf andsalvrði fóðaaratvæðuaginðsluuumbeytingar fletjórnarskránni , nrldata foölleóðaegam herfð a andiaýgum aearfirleóðaegam aofnun u ,losv rðaadsi1lasem rbyggj ta kkiifaeimilddáejórnarskránnn ao aena vildi söma sem rerendgr n rrittká .AÞ gttr samenntngau f(a.m.k. 50.000kósteidu )aamakæmt 149.mgina krfait aeóðaaratvæðuaginðsluuumöajaöf:

Fnbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; < b-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->&Art. 149 Faalitativfs Refere urmbr> nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; /b>     EVerianaeuofs 50 000Stimmbfrechtigte ode sachtKantonronnaerhadbsern 100Tabaeuosrit de samtlicefn Vrðffentlicemgi des Eriasses,so werdeuom rVolk zu fAbstimmmgi ertgeegat:
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; a.nbsp;   EBndvesgetetze;
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; b.nbsp;   Eding:licererklä te Bndvesgetetze, dere Gelimagsdauerfrin Jah fbkrttegat;
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; c.nbsp;   EBndvesbeschlüsse,sowrit Vrfassmgi ode sGetetz dies vrstefn;
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; d.nbsp;   Evlkerrechtlicef Vrträge, die:
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; 1.nbsp;   Eunbefrittet uudmukündbr seind;
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; 2.nbsp;   Ede Britrittkzuuegue kinterftionaend Orarnistion vrstefn;
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; 3.nbsp;   Ewichtige rechtsetzedve Brstimmmgieuofnthadteuoode sdere Umsetzmgi den Eriasssern Bndvesgetetzenherorsdert. & &
    ESmakæmt 142 gr.eiasildi aeguf,dur egirihutai1esmra etemgiak ítttkosengamnn Aaaumumlil felipmuarftmþykktiabði fgirihutaankósteidaag ameirihutaankastón,il t vlasakiildi
     FÍ skuuttjórnarskránni /b> ruávæði f a27 gr.eiasumf il ikin hutai1eigimln a(girihutai1efri dildd rosvð einik aakosii1ernðaunaurfeari dildd rí akmeiangam)ageai1binstsegrrr fskil orsta alanisgusu fann rmdir sitirrkinaeasem reigi efur stmþykkt aediaeéuuau ivonilvæguarir íaóðaifafð það mbiai1ð mlritr      FÍ tllku stjórnarskrárnns/b> tmir n a75 gr.eiast vandsalbfri1eóðaaratvæðuaginðsluuumöafinaborinar mfam:fpmua aillirga af 500.000kósteidu fhi einik aaearfimmae a saim Fórla,askattaýguug aíasm asak ruppjaöfeoauá uner une amdan sipy n.Saóðaaratvæðuaginðslanugttr ssnúit am afnr lirga aheldneuagavhutaa ATllirganam afnr lirga tlstuktmþykkt aefegirihutai1eáttakeidaf akosengamnn mginar atvæðus að henaiheidafeni vkölrkóknserni ggirin r50%
    Þa r þvenjuegatíkvæði f a79.mgina er sem stmir na fmenntngau fgeai1laattuam errpearir íaigi rft vinik aakosii150.000kósteidu ksaduaha na fbati Eganroryggigi5ru a mkálfusguiuearir íaí að msíktteuam errpevrði ftmþykkt
    EÍ Flettnekuuttjórnarskránnni/b> ru athygliserntfarir komneagsaaóðaaratvæðuaginðslu.AÞr semir n a72 gr.eiast vorstansnugttiedrgai að m t mð aivoánnui fa mdir sitafeaso aennnavrði fa gerrsa rft vinik aakosii1ernðaunaurfeigimln akreft aess Komimfam:fpmua askra a vinik aakosii110%nkósteidaabfrað minfaftlvlaóðaaratvæðuaginðsluuumöainarliafiak íau ildi AÞigi gttr se aaftít saóðaaratvæðuaginðslunairft vinik aakosii1ersnafherjjumloórnu reigimnnummmginaraatvæðus ie mýgumam f aeidu ikin isatvæðuaginðsluupmuau Lgguatfis tagiuegusug afórlanosvtkattaýguuku udan sipy n.SEinig an udan sipy naeasem rtmþykkt aena verið áldveerireafl0/3shutau reigiman aeei einik a AÍ óðaaratvæðuaginðsluni faf fmirrsenA50%nkólrkóknsg seguf,duanameirihutaanesmra etemgiak ítttil aess að mfeliafeasrtildi
    Þa r áttut vinfafð amakæmt 78 gr.eiasita a10%nkósteidaaoaið om a ua avi hfrsta nnu fann rlegg fil búi fuam errpel irga ei il beytingarfletjórnarskránni earir íaigi . Efnaigi tmþykktirrrkinaeainari beytinroim errpinuíaásbfrað minfaftlvlaóðaaratvæðuaginðslu
F< b-- Tab -->    Easksasrnakipun /b> geri akki sr arir íaóðaaratvæðuaginðslu . aiar snúgldd ni fsasrnarfkrár va stetueva sveers1kynsmbinsmlðvaði thfnfð eidaaaln ea faóðainaefui Irkinaað synega nulðvaði segan derost
    EÁið 2002lguiuíaáera di 1ekisstjórn arfeokur (jrnfð a min hg sgínigijar)om auam errpel beytingarfletjórnarskránni eem rhfui Ieimildð móðaaratvæðuaginðslr s eafárkm u ail felipm Fim errpi uá Irkinaom aa gangalar sem rar hhlaua kkiifbrauaarrtgi f aefri dilddlangains , amkandiiai nu
    EÍ athugaem du feð fim errpinutmir na fbinstslðvaði aeévlkiegatkl ð mveetjanil tukinar elðvaði segarasritutdarhj 1alenntngai1g anraennnavrði finðubúi nil t vaxia auk aamaaéagiiega íbyrg .
    EFam errpi ugrði fþ arir mgumeikasu a 1tvoklluraumaóðaarfrm væði AÍ óðaaruam væði fflstuka 400.000kósteidu na flágarkaisita akrfait aess að mil ikin fl aaoim errpearkasrnarfkrárroim errpásm: aakýriism aerni fikin ftl umoöllurna alangi uu Fim errpeaflves tagiugttifujllað eu állválafnisgnem.fórla,askatta,anu opnbrrraoktabssmln a,uáttastíkireeigimln ag ndað a,nsngaar sEfei komadsi1oim errpe akki srðin ea fýgum a8ánnuim asðaarsita atrúfð a min haóðaaruam væði in abyraa ea fkmfnaharlgiearir íaí að mom auari1eóðaaratvæðuaginðsla ATllaess að mkájaom aóðaaratvæðuaginðsluuef fmdir suriftirt vinik aakosii15%nkósteidaainan dsexánnai, ANáistusk1mdar suriftaoölld faf feóðaaratvæðuaginðslanfa ffrrrsom ainan dsexánnai, AÞigi gttr svðin ea fíeémuaóðaaratvæðuaginðsluuerni feinig akosi eu áess aiganrilligu Fim errpetlstuktmþykkt alaóðaaratvæðuaginðslufg egufödim ameirihutaaneidafeni vt vinik aakosii120%nkósteidaatnkð átt sEfoim errpbeytinrtjórnarskránni faf fhns vegar atmþykktia0/3shutaanesmra etemgginaraatvæðus eidafeni vt vinik aakosii140%nkósteidaatnkð átt
    EÍ fim errpinuvarskvæði fumf aieamttii1b idadsi1laitstjórnal aaómuaalsgusu kví ahert sei komadsi1l aaoim errpstði tukeagnia trtjórnarskránni fð ráfuvekisstjórn arskmbandiilðveidussgus, ekisstjórn arskmbandiilndiiuearíernðaunaseeigimln a

FIV Mln ítis d /r> <1. Ingarngu /r>
    EEns og aari semir n r unkvæði fummln ítis d feinierigamstin eáitu nsnu anöma egaritjórnarskrán. Rttue albyraunfa ffrrrsrfám aor u aumhugiak notkmn. Hfuiar mfrir íaí asienku msasrnakipun rrrtisea avstil aesira artis dasem rboraurutumln orygg k aajórnarfkrársem rmln ítis d . Erlgdinsfi nhns vegar aijaran doala 1umarundvealar ítis d f aaisumskmbandiiil t r.eiangar fra mln ítis dumuem vorygg kr un ahlstuualaóðaasamengam kví asir
    EEai aesira artis dasem rorygg kr un aajórnarfkrársgttr svrni gsafnft. egutaerað mflokuraítis d h eara vegau. FÍ rlituaagas/b> magina fávilli rtis dasetir aví ahert sómuaala fgeai1byggta þegim niiustíkireearaeki . Reytdardrrga sudir efraa fítis d fem reki fr hgutat vflefulatngai1ómuaalamfrir eéuuiganegafítis d ANæ svai1ð moalalm markamiðaem ríktinubiai1ð mstinfafð . Mletaaaam vdri v22 gr. eholienku stjórnarskránsnn a er sem stmir : „tjórnsvöditeiuuregrspaftlvla erð anil t vrta1helsuuamenntngai.“s FÍ nrumagas/b> maflokuraítis d utra því aherntoknhutaerik íkissgusrið ð maam:oyliaamegim.AÞr smagina fai,lega í illi tnar,stegar afrlstisáitiduaha nem ríktinubiaAalitutg frieat at vandsalð msr shnidu mosvhns vegar aoilk,lesáitiduaha nem ríktinubiaAa fláiamegttava f aié.Sass ivtkputigi5fiaAa fnokurm lytinskmbn dir tkputigiun aajórnaála.egaug sboraarlegafítis d tnar,stegar ag aféagisegafítis d hns vegar ATllairæiasrilja sudir mina faifítis d tl áeáttíkk þ sktabssemi íkissgusré késtakr eolokum artis dasem rogfítis d fem rtndgj ta ítiláiri1mlasað fta . Ens oiaAalrtgiteð moalalm maismn rdsi1kynslðairartis dasoge þe ijaran dvsð aill áttasil oni r ag ahelngmsapmeerjfiseemaájutuukynslðaasnn a þegim nium.
F2. Norrnnáitu /r>     EMismn rdsi1,dur enorrnuttjórnarskránnnafkmur aeldv aaóstneega nborinar uskmbn dkvæði fesira aummln ítis d Snig ageyda daiku noauorku naaórnarskráin sremur aflbrotn smln ítis d kvæði fg avrnidaft vginnjtniu il t egusuboraarlegafog     EJfnfrtisskvæði f Friniku stjórnarskránsnn a /b> a6 gr. eer trbegarrsenAsienku nvæði hð mí alytinsð moalaiar mm helsuug afötln uem vertiseem reki fmaoiameg ag nsr sil t vítilta1aismn mn. Hns vegar ak akki sgeai mmss sananra aeáttasem rkomafrir íAsienku nvæði nuegusug ainfahgislosvrtirnigs AÞlme íAriniku safnfrtissr.eiangn feinig avæði fm aáitbaran
    EÍ finiku stjórnarskránni aerfrinig avæði fm a„knsenga,-lg naáttíkk áits d “.AÞr semir n a94 gr.. m.a eð þtlgdingar sem rhni vfat aabsttrfFnniianii njtiknsenga,rti rí akeritarajórnarfkosengam Einremur atmir na na ftoórnsvöditeiuu t„touaia a m ækifr umlorir tint aklngas nil t voak ítttféagisíkfiao aena vkhiftf 1kvrralnirfte fsnrnt uhan “.
    Þa r erntot vinfafoóenga,rfrlstisvæði h a92 gr. eem stmir nm.a : „tiöllhg sgögnu aærsluuaaórnaaldsalr unlluma ergasegauem.biringafesira aeni vtfbeýsu a stðim aerni goakárkm uie mýgum “     Þatt h FNrðennt/b> teni vfani gjgguvrbegaaf at vreyti naaórnarskráinnira 1814þe ena verið geruararkaveruarbeytingar fernerral ítis d kvæði fhenar eil airæiasri am eerjfisrti rvæði h ar. e110btemgari svr fnenft. Í tndgslm vi hýgufstingiunMln ítis dasttuála.sEvrópuknsn 1994 va stvohlóðaadsi1lvæði fbttin ejórnarskránn :
nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;   E < b-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->&Gina110. c.br> nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; /bi     EDet paaligger Statnds Mydiighede saa espekirneg nsikneMenaeskrnetisghede ne
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     Næ mrneBrstemmlste som Gjenaemførlstenf Traktatn nefromvfat srtir vegd Lov. & & & & & &
    EÁið 2004 va stvofoóenga,rfrlstisvæði uorku stjórnarskránsnn a r urspoðuð . Me fnokuurr fis mlefulaynaraa flritu hi ra fafnf trbega stjórnarskránsvæði fm aoóenga,rfrlstirfudan ar uskipy navæði nfíeénkuuttjsrnarfkrárnig. Norku nvæði hhlóðaa snústvo:
nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;   E < b-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->&100.ar. br> nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; /bi     EYting:sorihedfbr findehSted
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     Igieuokn aholdes netslg aansorrlg apaaaandet rundveagsr u Kontraktarlie sandet privaa Retsrundveag,hfrssaa haveuieddeltarlie smodtagea Oplysengaer, Ideerfrlie sBudku b,hgdmnidre det lade ssg afrsorreaholdutgpsmod Yting:sorihednds Berundvlste i S dihedssgueu,uDemokraii1g sIdiividet ooieMeniagsdanaeste. Det netslg e Ansorrfbr vaeafrseskrevet i Lov.
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     Frimodg e Yting:e som Statsstyrlsteno aevilkndsomhlstukanden GjenssaduarneEneerj illirdte. Det kn aku hirtir vslg e klrrlg adefgue edn Grndserors denne Ret,aherthirrlg aimagtviedve Hensyn jaöre det frsorrlg taholdutgpsimod Yting:sorihednds Berundvlster.
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     Forhandiicndsurosvidre frsebyggedve Forholdsegluerkunne ikke benytir ,hgdmnidre det fraádvgdingthfrssaa beskytir Brn1osvUngesimod ku vlsg aPaavirknngiafa alevedve Blliede . Brevcndsurkn aeihirtir vi Vrrk uden i Anstadter.
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     Eneerj hrrfReteil aIdisyn i Statnds osvKommmge nes Akirnug ail aaa födge Forhidlng:e ne i Retsádrnug afolknaldgte Orarne . Det kn ai Lovvfat srtir vBerunkengaer i denne Ret udafa aHensyn il aPerso rn sosvfvidre imagtviedve Gundvl. Uppl.áitu
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     Det paaligger Statnds Mydiighede saa lægge Forholdene il aRette frssenabeno aoplysutgffentlig amktade. & &
t3. Önumr rkti!r> /b>     EEns og aari semir n r sa rittkhlstuameg kenaihnöma egarr 1sasrnarfkrárifa geyda trbegamkvæði fumítis d fboraarln a. Flirmydir eruagjaran dstt r eil ahlstuualaóðaasamengaa ATllaóri ssmlevðaahgrkj rskjórnarfkrár lAustmr-Evrópurkj rorallaasem rttt hrj illnMln ítis dasttuála.sEvrópu
    Vðaahefur sð mnlitamlauuppihhernig aegaifa ffrrrsað hin1tvoklluraumféagisegaufítis d AÖrum úerði aeruAítiurfil vin u,aíkfsviiusvais1o aesnðuisgevofdri væntnkð eg eerj mnilvæguutuuítis d ffólkslosví aafnfeldvhugeiknrrienfhin1tvoklluraumboraarlegaufog     EÍ aumumlnegam ajórnarfkrárriextumln þegta vaduamlauleysuteð þaí að mena vkéstakaakaieam a„féagisegafarkamið“, er. 1t.d.<3.akaiea tavisunekuuttjórnarskránsnn a /b> ra þrinnm 2000.AÞr semir nð amaandiiíktiðag nkastónui a aeiuuirkosi.kappssumf iryggj ra fmlr njtialmln aoryggigia,helbrigi saónutuu,hentugsaesnðuis,hgnnimar eg anrstouaremaaéagiins oeega negttava fbjáia fleeganat,dur s,afötln r ,rveikidua, elysa, atvin uleysis o.s.frv. Jfnfaam: hrj inkð om aa íkvæði fess ivliðiiakki sil aess að mtint aklnga,r nr tukgiaegarrb idadsi1áitil onamirga af hálfulíkissgus
    EÞð þarftma kkiifð þaðvaaa íkvæði faflves tagiueni vtgirkgiaegarraðvngiu. Í lnidu mer sem stjórnarskránsetir lit af hálfulómuaalamrj hva fóua ta ita aómuaala f aisum ail felipmulaattamennttmata öajaöfa ress aaifítis d tl ikin aueint aklnga,ærtiun ahlut Snig agttifeyndta hert sa erð irftaórnaaldsalvaua akmrri við jtniufirllýkngarrfaflves tagi
    ERtis dasrárs tEvrópukmbandiins /b> tmmln hutai1f sasrnarfkrárrsttuála.numueke ssg aenskm ertmiða avi hil aóri sssienku ,aónkuutoauorkuuttjsrnarfkrárnaeganatesira aféagisegaufítis dasem rea eruaalnnuupp. Mleinfaferikf,lesáitrogfítis n il aókeyp ssatvin umiðln r
    EÍ fiamandsi1f fulaildi giunKvenarsttuála.sSmeiaraumaóðaan aeena vnokum arktikfani g liðifð rvearí aajórnarfkrárskumathani skydurftaórnaaldsalil t vafem.aismn mm. Mleea infafaku ,afiniku sg sgíkuuttjsrnarfkrárna AÍ askaianiiar sa oral fsvofa ftoórnsvöditeiuu ttouaia a man rnueg safnfrtiskynjln ag ngrspaftlvla erð anil t veyaríegrrr faismn mneemaáavi ergast. Me fbeytingam kgíkuuttjsrnarfkrárnnira 2001ar uskoórnsvöditnústalidbndin il t vafem.aisítis,keéstakega aisítiskeagnia trko mm. Í Fnniianii e saf ur 1mtieéstakega vsð aill afnfrtissfleein umrkaai fg aillr.eia aa fá a aeiuuirkðin ekumaliðiirsil f iryggj rafnfrtiskynjln aálgum
<1. Ingarngu /r>     EOf hrj tetuejrnfð a miriifailli „ang:s“sg a„lggjafaa“sg arðinnaoiuðegusug am aamheisvai1ð míða aoralnotkmngf nauaitr srkinaojarri1l aienfh hr tma kkiiffyli ega nkvæm AÞigi dildrfirllrittklggjafaalaldsienufg þnrum aofnun u íkissgusrosvau iganatfeirinhutaerikm hedur en rriuggisuslggjafaalhutaerik um. Ekiifaf fhedur ea ffrrrsendgrasaf ur e il 18.t,dua sil t vek ta eeigiuem rhnfuuómuaaldsn rrktialggjafaalaldsegusug aorrfan nfíeFrakkianii orir byatngau
    EÍ uppeni veorulangi uaá eafaalamakuidu norir ko mng Samvrs mnilvægu aakrina aóun íenga,æeega ng limi maiira alosraumsg audan aaí að mern.bndinr afnorir mælumloi þegim em rtilnrnuduíaá Samerfrinmitin uskenattmlrrumlnöma sejórnarfkrár la figimin hé frálfsr nð þaí að mr itna vatvæðus enufa avildosvð eaiireéuu han hfulatrúa íaóðaarnn a alya r, er. 148 gr..esi.sejkr
    EÞð va f aBreaiani em reigi nuíxAalitutoiskr umhrygg Samfékkvaxadsi1hutadilddlklggjafaalaldsiko mngs. Jfnfaam: hóua it abyrg ekisstjórn arseagnia trangi uu Hi fsvokllað afeigirði aerrartil. Lyklli nnu fegim blmuaöma saóðaingiln aem rhfta esensn feutaan19.t,dua sog     EUdan faranþriatugiefur stmuevax am íða Au la figiineéuu hkrippu. Talaiar mm olokusrga sm rhfuinroilstiúeigimln ail t vgerrsa em rtmiskn abðvu þegi ,lsri egam kkhgismn rtmuaka,la figimin heni vfjarlægt am bóðaeidu stí ag nð maam:væmd alaldsi fnoai1eigiineemahina fafginðsluaofnun ATllat vrta1ir sgfn h sia trrigaeeigiuEvrópukmbandiirkj nna–vt vinik aakosii1–vn eð maiartj ra flggjafaalaldsefur svaxadsi1mæl ffærstkl firleóðaegaraoktfnuan attr eynditf hvarvetnalr unvaduamlain em reigi n glma sið jvipuðbedir il aess að megta eéuuinanrillf,leadiikvaduamlauhedur emnilusremur akrjfislæg. Enshva frj illnr a? Auaitr sk nnu frn.sviirmlorir mirrsbinstslðvaði aenstmuevir it aillokð maiað mgeai1komiðat viinuvrnueg slytins skta fulatrúalðvaði oeega nkmur að þaí að mr aom a þegi olóknuuransnna,nnumuem vnúskomaillnkat aaingiln a. Fulatrúalðvaði amerfrftirtt mllisk st sejórnarforsmiðaem rtjeidu nl boua
    Viðfn gsfnisgeasrnakipun rrrtiarnnsalbyraunf21.t,dua svir it aaí arn.iki sæstua abiduahaliðiirsil f renarastyrkaritjo u audir ivövginnhutaerik ingiln a, .e. uöajaöfa(3)1g setir lit eð fim:væmd alaldsinmo(4). Ensalitutvrðir ehugaðat vá a að mgundveeli aess am bo sem reigi n ena v(2)
Fbr> 2. U bo langai/r>     EFlektab1sasrnarfkrárifmælafsvofarir umaa figimin hé frálfsr nosvbndinr aeagnia trkósteidu /bi Hugsn n,nem rekj rmletl ehugydi Au la ffulaeidusðoknhjaaóðaini , ru súsa figimin hé aldsi sem roulatrúa alya ríaóðaarnn a /bi fg aiakiíkvrralnirflm bo fhenar eví ah hr úfæ spmua aem rtlkiafnpraktkuu a stðim .Sass ivegluaumaa figimin hé frálfsr nosvriuggisusbndinr afntmiskufsnsn f r fittkmppdrátta aeagnia trolokusrganumuem veg kenaib1sarflnöma ingil. Auaitr sr tma kkiifhgutat vbln aáeigimnnummmð mgangastafffúsu mosvfrálfsm vilja udir olokusrga.Stumsstað a nena verituubiringarforsmrolokusrgansaerni goaain etrðaa etgnajórnarfkrárs(dri vr unoi aumumllnidu maiað meni viikfstua aorsmeu íengaflokurafndgjunoi áju reigimnnummmafsrgarfbrfem rhiteerrua adrrga pp aú pússs enufhvenæ sem rá iujfinsð mandsalefegn rluuukkiifflokusrga)
    ETllar unefri dilddr íaigiaha nem roilstiúeigimln ak akki sn uskenat.AÁ a avi hm aamandiiai h aaskaianiiaem rtmantjeidu nf fulatrúu íkissajórnarskmbandiilndiln aem rtilnrnu ísosvf urklla.
    EFalstiúeigimln ahlsgastaffaí að maiirr unkosenruie mýðvaði segau ahttii/bi Amlr íkissboraarl njtaknsenga,rti r(ko mrag nkarlarsknuudan ikisngarrfem.hva frralrt,dur ,ehugsanega a vin heni veki fvrð jviptirboraarlegaumítis du mosvbsttr).AÞttknsengai hi rbinaogknsenga,rtiu nsnuafnf r uneglur umþtreiknigiueta1ajgguaismn rdsi.Stumstað a nr usklstarfeglur í aajórnarfkrársegusug a aBlsgmu,hriani fg aAustmrrkti. Anar,sttað a nr sa lggjafansnuem stmtr ser enssug a aFrakkianii. Í mlrrumlEvrópurkjumsildi ahutaf,leskrjfi/bi , .e. ua fmlr feokur flsins shutaf,le við arlgiesittk(tumsstað a nefur svrð jetueögarka1–v5%h aaskaianiiail aóri s).AÓkosiu nsnuru s a varlgi gttr sdreifta eajgguaara vflokuraosva gttr serið rrfittka vydi Atíkirganameirihutaa.aMgirihutaakrjfi/bi esrið ýðv tnar,sttað a nrgusug a aBreaiani er sem stalisiseem rfæ sflektvatvæðus ahernjunkólrdri vfæ sllvsinnfíen huta Snig avrðir eil aflugu sog     EÍ Fsnkuuttjsrnarfkrárnig/b> ruíkvæði fumf áþvngikosengam aeiuuirkósteidu neki frgumgis vrigaeess kostua aginaratl ikism areokuivatvæðus eittkhlsdurfrinig aa laansaóst ttouanigiuvi hil ikin fim:bóðaadsa, er. 11 gr..e3.akaieaReieing:sorsmeu
    EU bo langamln ak ahvarvetnaloakrkaaií aima .aLrgadkólröma blls/bi aðitukanar,stegar aaflverrr fað synt vgefaáeigimnnummmfai1 a vhrs dasetniuálam aenu f aoimkvæmd rnvhns vegar aaf fuaitr seglurega a vleggj rerik iiira a aómufkósteida. an herkólröma bllaangamln avðaatukhvar 4uear5ká .
    ERtiu nsnutlvlangarofsr ernjuegaanut ahnidu meóðahnfuigijaus, orsmega i ðat vinik aakosii, ettsumsstað a nenai1eigii mkálfu aesna náit Gjaran dereitn ekíangarofsítis n em rmnilvæguanfeáttf at viryggj rhtfiegtnafnfegisilli úíktrraldsað a.
    EFaleforsmnuari1ena veigi n erið dildd tkput/bi Önumr dilddr hefur se ijaran dvrið vaain ie meéstíkk ahttii Aaambandiirkju meruail aóri ssoulatrúa íaiira an uegaaf atnanraiúeigidilddinig. Breaianiueke ssg aú ð þaí alytinsð mlrraldilddr hr tmjetueaflmnnummmtmmln fafítis n il aættis,meruail nrnudr il avllok ei ielj stkl áðituu mln akirkjunar .AÁhriani feruag limi mefri dildd rnn a , Seanad Eireann,ail nrnudr aflari ennttaaofnun u AaBadsarkjuummmbyggirehugydiiasumdildd tkputeeigiu hugydisumaldsdreif giunosvarlr unvadsdreif gifg aiakárkmnnvadsskoaldaregramgundn stðimraess að mena vkíkttekrjfi
    Vissuegaafena vmin hpurtssg ahert sildd tkputigiuem riki styitukendgusrið iinmeéstíkkfíkkfm maismn rdsi1lðvaði segatlm bo aegaifrtiálsr. Norrnulíkis taan Noregusrena vdrgai atí auíklyktanr afnves osvf umiðsildd tkputigiua fávudan frnm iatugm Erfeynddarfrinig atl umávuf aNoregit vafem.ildd tkputigiua .
F3.Lggjaöf/r>     EÞigi ar ushvarvetnalð alhidenai1lggjafaalaldsu enssafnftaerað mhva a arkaisau dildrþaí ag þnrum .Stkput rmlelggjafaalaldsinuf a3hep, .e. u(1)Aítiurfil uam væði ra flggjaöf,v(2) athugunug am íða Ag aoksa(3)1tað fstingimosvbiringa.AÁhg an rlituaíep amerfernjuegaanut ahnidu mekisstjórn arsosva sðaatu fávaldsiáeóðahnfuigija r sa 2.íep a, .mgiamiðjanhklggjafaalftaainu,nem rfelip í aakaua angains
    EEki fmaeisdurfgleyda aí að mfrm:væmd alaldsi fefur sfirllrittkeimilddil t vkrtj reglur /bi í kgndveeli amenntrrkgia.Sass iveimildde safárkm u a80 gr.eias Faku tjórnarskránsnn a er sem stmir : „Dabe fmuss ensInhadt, Zweck uudAusmasssde serteidteuoErmaechtigiuag imsGetetze bestimmt werdeu.“stumsstað a nenssug a a FFrakkianii/b> telur sfrm:væmd alaldsi fkálfustða Aeimilddil giatetenga,rhr. 134 gog<37 gr. eejsrnarfkrárinnar .AÞn nr saln epp aámhva a sviiu reigi efur slggjafaalaldsg ainkð om aa íkþnrum aviiu rem reki fr uaillr.eiadeéstakega krtjisfrm:væmd alaldsi feglur . er 1ianii e seki fumf rr 1slstarfoakrkaanr nð íða Aenfeæ sem rliðiirsafueint kk agiaásipyfð a eglurmí aajórnarfkrársea Aýgum aog     EVðaaherfrinig aa uin aeimilddi norir frm:væmd alaldsi ft vkrtj rlasl be abirgaríegirr mnil fliggusrið , er. 1kvæði f sienku g ndnkuutejsrnarfkrárinnar .
    Þa íegktisteð maialggjafaalaldsi rfrm:seltaeiginrnudu /bi er. 1„litluseain“s(legg ne) rs tÍtaýu/b> tog F< b-- Tab -->    ESnku naaórnarskráin /b> mæl rfarir uma(18 gr..)ft vkrttaeiuuirleftagiaþ áer sem stitjaómuarl ú Hæktabtisosvr itngeasrnakkluómuaalnm Erfhutaerik iiira at vgefaánlit 1iaaaoim elrpm aa abiianimekisstjórn arnn a r afeiginrnudr .ARi haenskm et vkoðu:
&    &*& nbsp;   &hernig aoim errpi akmrmstrtjórnarskránni fg aaa,krjfinuuamenntt; &
& &    &*& nbsp;   &intrrkkmrri vkl aaoim errpi; &
& &    &*& nbsp;   &hernig aoim errpi aktndsttráfurnumaeabndinðlíkissvadi &
& &    &*& nbsp;   &hernig aoim errpi akmrmstregi illragi aem rtmgimraerfbaat vblkiAg aoksa&
& &    &*& nbsp;   &hea a vaduamlaué lkiegakl ð mkomapp aegirr a abiiingiunirgannafkmur .a&
&    ESmakæmt 83 gr. e Forku stjórnarskránsnn a /b> geturfeigið oegið ánlit Hæktabtia flelggjafaalálam Samefur seakki sgerstusðaad 1945.
    Athyglisern fegluame íA41 gr. e Fdnkuutejsrnarfkrárinnar er sem stmir na ffret aabfri1ernðaug nsðautuuumávufu auam errpe a92svirka dagalefe2/5feutaarfeigimln ahi einik aakrefj ta ass Hfur sess riveimildderni gbrittknokurmmen m SRttue at vinfafð nokura npdan ikisngarrfr unoi áess riveimilddiniihutaassul ð m„kaupansr sima “.
    Athygliserntfe at vumávurfr unrkinaem.tvæ spmuiaaaoim elrpamakæmt 41 gr. e Friniku stjórnarskránsnn a /b> , er. 1rinig a72 gr. eSmakæmt 72 gr. everuamaiala Að einik aakosii1ersndagarsilli alituuosvianra rvumávu eSjórnal aanrnud angains biaAa fgefaánlit 1ví ahert siaaaoim elrpasadu tukeagnia trtjórnarskránni fosvleóðaegam mln ítis d samengam ,askv. 74 gr..
    EEvrópukmbktabsð gerireð maiaerikm ð þaóðaingi n ena vmssthfrsaði a 1mlrrumlála.olokumm. Reyttnefur svrð áþmsumllnidu mEvrópukmbandiins maiaerga pp a 1mtiþves eð þaí að mbiidaf aajórnarfkrársð mekisstjórn inmr fai1sg an eóðaingi ð/bi í vurfrníkvrralnirfr uaikisarsmmmafsíkireil giatetenga,rhrsEvrópuvsu.
F4 sEfir litshutaerik ingiins /r> /b>     EEfir litshutaerik ingiiu aæðaatu fsipyfigi aer1ererti.FÍ rlituaagas aldsi fil t vvelj f rr hidenaalíkissvadis,álrumagas aldsi fil t vkrefj sia afu auaammstkiretí ag n aiðjaagas vaasi fil t vjvipt f rr hidenaalíkissvadis embttii
Fbr> 4.1 gValíkþnrum hidefumlíkissvadis/r>     EÍ mlrrumlrkju mvelurfeigið orsta aíkissgus Sasta erfan nfíeaskaianii,íkþtaýug n Grikkianii. amerftvofeg kenaiheigirði aaifíkisstjórn geturfiki seai mem.h henai1touanigiumeirihutaaneigimln a Msafnftaerahert sess ivtouanigiu aaf fð mkomaom aeð frsmega ahttiiaegirr nýfíkisstjórn oeku an evödim a(.e. uhert seigirði amerfjkvættueuaeivætt) .AÞttkipun orsættisr hera a aembttiii rfirllrittk ahnidu meóðahnfuigija geturfennnavrg aáeigirði eglurn a rkuivanfð eirarlg vilja angains þ av akmandii.
    Þa r safnftaeftirlnidu mhert sr hera rstitjaí kvngi , er. 1aií a Forku /b> tjórnarskránni aerfkvæði f(62 gr..)fu að aí hera rsgin rkuivjfnfaam: hverrsigimin
    EÍ aumumlrkju mefur seigi eutaerik Aa fgeg avs vaaí kómueidu f aajórnal aaómuaal Amlr ómuarl nirflaskaaajórnal aaómuaalnu meruaenig aaldsi sfnvskaaangi uu Í nrummllnidu menssug aÍtaýu,aAustmrrkti,aSpenug aPrt úgaavelurfeigið hutaanómueidaf aalstanaómuaal.
    EEnssukmur aeigið firllrittkg eguu me afnrum httiinæ rs aldií kómuurm vi hsr ómuaala,lefeaiirr unrsnfð brðifil ,sem rhnirsa hutaerik a admtafu abyrg e hera aosvóðahnfuigija effaí aru a mkkput , er. 1íasm alndiiómufn. 13/1963.
F4 2 SRttursil f grenasiastuarir umahernig af rir hidenaarlíkissvadis sinarastajfiuinu/r>     EÞaranerkomiðat vkjaran u f aefir litshutaeriki angains sEfir lit amerf aorsmiuarir pur ail e hera ,ráfuvm aeiýrslr sosvafnfeldvrln kóknararnudr gVðaatukhvar af fmirihutaaneigimln a il aipun rrvrln kóknararnudram vdregusrnokumií svirknnsess í rði . Anar,sttað a ngeturfiniihutaiúeigimln akrfait aess að mslstarfnrnudr é ketia fleft, er. 144 gr. e Faku /b> tjórnarskráninnar <(oórn unaurfeigimln a)1g s178 gr. e Fprt úgllku /b> tjórnarskráninnar <(oimmtunaurfeigimln aeidafeni vei komadsi1igimin hrkuiv vurf samaaangi aoaið om a urln kókn) Í drgum að nýrai1ustmrrksuriaajórnarfkrárserfrinig aget sr uarir btisiniihutaafeigimln að mais lytin.
    ERtiu neigimln a il at vkrefj e hera asia afu aálafnisgam verral amenntngaaerttaórnarskránibndin ní a FDanárkm/b> , er. 153 gr. eÞlme íAdnkuutejsrnarfkrársn f væði fumln kóknararnudi sem rr tmaaiegatlaí asienkun
    EÞlme m bo smln s ingiins /bi geai mForku ,aónkuu,Fsnkuutosvfiniku stjórnarskránni .aÍtaregaanutr unkvæði áþverrr ffiniku :
nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;   E38 gr.eia
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     Þigi ipuarsmmbo smln s g aivoin heo mm il at stouaril ujggura ara.Stiuureaiirhnirsafburaríegkuigiunlgum
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     Þigi getur,la foeginufnlitiaajórnal aanrnudr nn a , vnil fmmbo smln ií sembttiií vurfrnipun rrimaiehansae ítirfsr egarrauag íkkfmælafeð þaí ,eidafi rsúskvæn unvtouddfeð atvæðum að inik aakosii12/3 iiira atemgginaraatvæðus.
    ESstakr ekaieime íA Fsnkuu/b> tjórnarskránni ,a92 gkaieimReieing:sorsmeu,sem rhiiinrm„Etir lit af hálfulang:s“ Erfer sujllað eu ábyrg e hera aosvhutaerik ajórnal aanrnudr angains þ av akmandii. Nrnudinefur stmkæmt 1 gr. e92 gkaieað ragila ffuudr gta umaekisstjórn arsosvllumsiöllu rem regi indgj ta eÞlme ufrinig avæði fm apur nga,rhil e hera af hálfulang:mln a,ummbo smln angains ogfíkissr urspoður urs
    ESmuliðiisaerað mfin aáfiniku stjórnarskránni atrbegamkvæði fumð ands angains eð fim:væmd alaldsinmoogfítineigimln a il aupplýkngar
<4.3 SRttursil f vkj rnrum hidefumlíkissvadisí sembttii/r>     EÍ eigirði aflstuka ekisstjórn inmr h áeigi nug ngeturfiki seai mem.girihutai1ess atyijiehan ei ð inik aakosii1mmberiehan AÞigirði aerakki sn ýðv í aaBadsarkjuummmaí aarlr orstainn,aefu ekisstjórn r nn a , kólrnsnubensn fkosengam
    EÍ Fdnkuutejsrnarfkrársn /b> ruíeigirði eglu nulgufsti.AÞr semir n a95 gr. :
&      nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     Stk.<1. Ingensnit erkn aorsblive i sit embede,lefte saa Folkningiet hrrfudtadt sit mstlli dil ha
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     Stk.<2. Udtade sFolkningiet sin mstlli dil statsnit ereu,sekal denne begaeanit eriet oafsked,hgdmnidre nyaldg udkurive sEtanit erim ,asom hrrffaaet ft mstlli dsvotm ,arlie ssom hrrfbegaet sin afsked,hfuugtaer, nidil et nytanit erim ar mmdnævat.AFuugtaedve nit re kn ai dtaes embedeaku hfrsetage1sg ,aheadsde sereforsdrntkl embedsorsretengae nes uorstyr edn freste. & &
    Þigirði eglu nukmur arinig afrir íA3 gr. e Friniku stjórnarskránsnn a /b> er sem stmir : „Fim:væmd alaldsme íAhnidu morsta alðveidussgusogfíkisstjórnars, ensg limi mhenar everuamaianjtatrusts ingiins “     Þaigirði eglu nubirinnutrinig aeénkuuttjsrnarfkrárnig er sem soalaiar mm a ekisstjórn inmi rbyrgseagnia trangi (Reieing:sorsmeu,sr. e9.6)
    EEns og aari semir nr sa kjaran ní aeigirði nufa aíkisstjórn erakki sæ tAem.girihutai1engiiutyijiehan ei þolia aembttii Sasar aass ivtouanigiu aerakki sendgusrfrir hedirngeturfgirihutai1engiiuknúi aíkisstjórn eaaheint ak e hera ail ffsrgarf gVðaameruaeesum abtisketia fnokura npoðir .Stlstarfpoðir ita at.d. Fbr> 5. Anarð/r>     EÞaamerftstakin eorku naaórnakipun a áeigi sitp í aujggurarfg avrnir ekki srofi mais failli , er. 171 gr..
    EÞlme rinig aefiniku stjórnarskránni aathygliserntfkvæði fumf mlauf,le vrkinan ussilli úaigiahimaseega nknsenga,rhena verið ands a illi iiini , er. 149 gr. eÞsta erfnnumrfegluamenfhr 1ianii Einremur atmir na n50.ar. a áeigiarnudi sgin andsalop arudsi1ega nerið rrað msrnfaupplýkngau au aála il auudi b ngiiukvrralna kk
Fbr> VI Fim:væmd alaldsmog að fta mais /r> <1. Ingarngu /r>     EÍ rlektu fvretrnm aöðvaði srkju merfrm:væmd alaldsi fmunmirrsenfnrnfi fkyni aa abiduahtil. Í atð mais aa laansr snægj ra faam:oyliaamkvæn unu rem rf rir hfantnkð erfrm:væmd alaldsi fmi un k ur vrralna kk Fim væði aa lgiatetengaufog     EÞttfim:væmd alaldsinmoenai1enig aalx aajgguásginn aðvn sa rkiifð þaa s ameáttugt Samvrnir etjkirg at vanfrkkmr ir g arita samengaadir íkt     EÁvæði fumfim:væmd alaldsmog að fta mais fr unorir feralrmnilv aajórnarfkrármlnöma rkj . Gina fmletvövódldv aav akmandiiarftiráví ahert su mens eaahivoiinnhidenaalfim:væmd alaldssaerað míða Badsark ar ushlstuamóri eu íkis er sem srgumgis vrrsu mens a alhidenaalfim:væmd alaldssað míða , .e. uorsta nn. Hnttkódldð rralgtgirra Evrópuka nem roim:væmd alaldsi fkkputisutelli úaóðahnfuigija, ee farf ak enseiduss,ogfí hera ase fbia ábyrg eagnia trangi uu
F2. Embttiiosvhutaerik aóðahnfuigija/r> <2.1. Ingarngu /r>     ELðvaði srkju mmaskipt ar.ófumldráttu f atvenattrftiráví ahert sau r uslðveiduska nem raóðahnfuigiierkosnsnubenstaffaóðaini ei frangi lndiins meaaheftiráví ahert sóðahnfuigiisnuru ko mngur,lur sii1eaahprnnsaer sem silg inmr ait afársegunskynslðaail fianra r.Stisuffelip rkiifn ní aess olokumnavrg aáess aaifí hera rstkipt ster1 a vgeg aembttiiíaóðahnfuigija. amerfví anæ ækfstua abia ásianiuembn dir nnumrflðveidus Gjaran derþaa svoí aleóðaegam embn buraiua aorstaieem rkosisnuru bensn fkosengamaffaóðaini efur smirinvöditn reóðahnfuigija famenntt Hfsgastþaa g alkanar,staffaí að m egi illfelipmuelur sfrstainn1lðvaði segatlm bo aem rr iki sæ rr enlm bo aa aem rigimin hnjta eÞsta íleei eu Badsark , msíkis Sraur-Ameíkiu,Frakkiani,aPrt úgaaogímsíkis Austmr-Evrópumenssug aRússiani,aÚuraí a, Asmeuía, Azerbaijanhg aGeorga ATllar usnokura npdan ikisngarrfoi áess u, .e. uíkis er sem sfrstainn1geg rfaristmosvfremstká vnrnulhutaeriki attennnas kosnsnubensn fkosengam E usAustmrrkti,arianiug aÍsianiuijaran dnrnud aav akmhegi eSja a orsta aarlr lstarietjkir orsta alrkju mer sem sennnaerkosnsnufrangi lndiins menssug a aaskaianiiail aóri s1eaahtjkir ko mngs. amerfrinig aaósttua abeytingar flefin kuutejsrnarfkrársn f ið 2000fmi rauma þaí að mdrrga efdur e svödim aorsta ns
F2.2. Knsenga,rh–vKólröma bll/r>     EKólröma bll orsta ar sfirllrittk bpy nu 4–7ká . amerf7ká íkþriani fg avar a smuliðiisa aFrakkianiimer sil urir skmumtuua aa ava sttyttk a5ká .vKólröma blliamerfrinig a alydgrasai f aFnniianii g aAustmrrkti1eaah6ká . aBadsarkjuummmhns vegar akrkólröma blli rkiifimas4ká í aumumlrkju menssug aBadsarkjuumm,hriani ,aAustmrrkti,aPrt úgaaogFnniianii e ufrinig almgiarfoakrkaanr nir í að morstaiegtaieemai mendgusre ivövkólröma bllasrgum.
    Algtgitfe at vkrtj rhæ rs ,dur sárknorir frm:bóðaeidu srníkeei eu frm:bo l áang:sei ianra embttia,lei 35ká íaBadsarkjum,aPrt úgaa,hriani fg aAustmrrkti. Egi n ,dur ssipyyri aerað mfin aáfiniku sosvfrnkuutejsrnarfkrársm
    EKnsenga,krjfin r uslstauaismn rdsi.SÍ Frakkianii, Austmrrkti1ogFnniianii e ufenig aands a tvæ spmfrð irfefuinannmens fim:bóðaadsinæ shinau mmeirihutaansalituuumfta eÞlme írku narir komneagiðatthyglisernt, .e. ua fkósteidu nforaag:sra aom bóðaeidum1ega naiirkósta1g setuinannmnæ shinau mmeirihutaantmkæmt atvæðum a a9.usinsereitn eil aaavæðuaí a2.usin fil t vflom a slit og F2.3 eSja fstingimlggjafaal/r>     EVðaatukhvar erþaa hutaerik aóðahnfuigijaat vkja fstiaflggjaöf Í í aflstuka kja fstiafa li n enaiaonus fil ie meaórnakipunegaafítiu httiiosvð eaausgin biria,la fausgin ganga arlddiosvð eaiimsgin brita
    ESegj rmlea ir g lilgirr a stðimrai ra oran eá asthfrsmsatið ievðaaht vkja fstiaflggjaöf Í Danárkmhefur sð mkki sgerstusðaad 1865fð mko mngureiinsð mudir riiaflgg eSmakæmt Forku stjórnarskránsn /b> , 78 gr. egeturfko mngureiið mð mudir riiaflgg eEr aav aillfeli úeimildtua abia li n pp avð ansnufturf samaaangi . Unftaerað mfirlvin aeiiu hko mngssetuuam errper tmþykkt 1vrmur aeigiumuie mtvinummmkosengam aailli skv. 79 gr. eÞss ivkvæði fgeg duemnilushutaeriki n19.töditn renaallitl ase ftgirkpraktkurraðvngiumendgus.AÞfeynddi n78 gr. e ið 1975seega nkn mngurlt udir efu leggj tuka udir riiaflggem aáttanrnud em stmtaamktiií eftail t vafstrran mdildu Ávurfrnil auudi riimar eko rhnfuua a sná tamengam . Ekiifvar endgusrarflorir li n ogkn mngurudir riiai feaunrkin
    EÍtrbegamkvæði fe ufum1eta efi ae Friniku stjórnarskránsn /b> .AÞr semir n a77.ar. a orstaieenaia3rmlaraiail t vudir riiaflggeg ngetiansnu 1ví aöma blli aiea ánlits Hæktabtia fosvr itngeasrnakkluómuaalins þlgumnm Efaorstaieeja fstinrrktialggif f rivaauufturftl umujgdln r m eigi uu Smþykki1eigii mlggif beytit iakiíau ilddiíknutað fstingia sfrstan
    EÞaranerþaí arki fumeiiu alaldsmð míða efdur eremur aaldsmil t vfret aailddit kk kgia.SMiinnaðvngiaess vadis,sm rhfur svrð átjsrnarfkrárnnira 1919,aerað menig akurp tukmgumeiki1 a vaieaánlits Hæktabtia fei r itngeasrnakkluómuaalins þlgummí vurfrníau ianga arlddi
    ESmakæmt 26 gr. e Fírku stjórnarskránsnn a /b> geturforstaielndiins moegið ánlit Hæktabtia fleví ahert snkmþykkt lggeetrðai etgnajórnarfkrárni .aÞss riveimilddhfur svrð brittkeanokurmmen m ug a atpegaafeelmngi il vikakoaldi rtiu nsnua abeytingarvai1arflámhnau mkmþykktantnxt .
F2.4.SHltaerik vð ydiunfíkisstjórnars/r> /b>     EEittaaflvermnhutaerikm em raóðahnfuigiihfur svðaahenataerfkvðin euam væði vð ydiunfíkisstjórnars.aÞóun inefur shns vegar aoran esúsa fetuaósttuerahee nenai1unfi fknsenga,rhei orir liggusrð mkominnas stajfhtfurfgirihutai1e kgndgusraóðahnfuigiisnurki sgeg aaí .FÍ rin kuutejsrnarfkrársn fvr aass ivaóun mirrst vkriaamtfa ir beytingar auíkið 2000 eSmakæmt 61 gr. ekk1eigii morsættisr hera aeftirkmr illi úaigireokurn a Hltaerik orsta ar ser sa fil kyniaaangi uu orsmega hee ni rarsættisr hera efi arftirt hnaalí fat1sg an eorsta angains ogfaigireokurn aosv vurfrngegið rj illnknsenga,r. A eaiimseoknumuekpuarsfrstainn1orsættisr hera a aembttii
    ESmakæmt Fsnkuuttjsrnarfkrárnig/b> ruuíkvrralnirfu fvriingiunm bo sil stsrnarfydiuna íAhnidu maigirrsta , er. 12.–4 gr. e6.akaieaReieing:sorsmeu Kn mngurefur sí aan hekiifi n eöditendgusrosvhfur sriuggisushutaerik ae roulatrúiíaóða rstin a osvíkiss.
F3.Rkisstjórn ogfí hera r/r> <3.1. Ingarngu /r>     Eamerfrinksna nii orir sasrnarfkrárifsensn föma sa ekisstjórn ir ogfí hera rvflmirintthygliaefdur en ran biaAvitni aajórnarfkrárml19.t,dua .
    EÁvæði f Friniku stjórnarskránsnn a /b> r usl ómuarkia mais lytin.AÞn nr sl aóri s1kðin ekumaaifí hera rslrksstjórn bfri1 akmensigiunbyrg rskvæn unu rhenar eimaseei nenai1lair bótauatmæl f afuudr gta , er. 160 gr. eÞlme uer1 væði fm akydurr1orsættisr hera , 66 gr. ,ogfglur umþ vrralna kk a urkisstjórnarsfuudm ,asb. e67 gr.
<3 2 SR hera byrg /r>     EGina fmleailli hin a plitkuurosvhin a giaeg sbyrg r .AÞn nem rigirði aeran ýðv ildi aa ekisstjórn ir komaom aem srguveimdsmog í hera rsbia á akmensigiunplitkuanbyrg rserikm henar .AHee nr hera avrnir eaí að mernja geð irfekisstjórn arnn a r afkriaamafsr arlin
    EHguvgiaeganbyrg vrg arefsivrnisntthtfisaeranar,stg liu ensvðaaherfð mfin am hia1kvæði f aajórnarfkrárm Ávæði f Fdnkuutejsrnarfkrárinnar /b> umlr hera byrg , 16 gr. ,r jgguíktteaí asienkuneimasa vauk ingiins vhfur skn mngurrinig av uvadi
    ESmakæmt Fsnkuuttjsrnarfkrárnig/b> óri Hæktiítiurflndiins milam aem verral embttiisfærslue hera ,r. 13 gr. e92 gkaiea Áv uvadime íAhnidu majórnal aanrnudr angains
    E FFiniku naaórnarskráin /b> geymi mtrbegaarfglur umr hera byrg ar. e914–116 gtkput rmleftaainun ajúsep Ávæn unvumln kókn lminuubroinserikin ufrangi nufa aráfuva inik aakosii110 eigimln a Sjórnal aanrnud angains oeku asvoívæn unvumhert sielj sgin a lifeni verð broinn Efatvofer geturfeigið íkvðin eg egufödim ameirihutaanhert sei komadsi1r hera aerav ir euaamm orir séstíkk aómuaals er sem srga iinsoimmómuarl ú áðituu ómuaalm alndiins og aaimmáigimin Sðaatukeynddi nass ivkvæði f ið 1993fg avar r hera a fndin nseku .
F3.3. etfisráfurnil e hera /r>     EÍ ájutuu norrnulejsrnarfkrársm tr unkvæði u htfisráfurnil e hera Snig aemir n9 gr. e6.akaiea Fsnkuuttjsrnarfkrárinnar (Reieing:sorsmeu)aaifí hera sgin rkuivgeg aiinuírumstajfiulasushns ogpinbia eaaheinkað a.eÞlmgin ansnurki sð anfatuknrittkea aem rginssaaia firust amenntngaslámhosm
    EÍ Friniku stjórnarskránsn /b> tr unjvipaa rsglur em.hva faí aru bttian aifí hera seiuuireega nrftirt hnn oeku an eembttiiikrríangi uu oársegg a-rosvhgismn rindgsam aem vtkputeita amlai vð aiálsarfm his.
FVII Dmuaaldsmog að fta mais /r>
F1. Ingarngu /r>     EFalstinæ skkiiffm aa iangaem.ómuaaldsi hsr a sklli oárslggjafaal-sosvfrm:væmd alaldsi,sekrifai fMontesquieun ritiaanufAduahirganna.
    EÁvæði fumað fta mómuaalds fr unmnilvægur se ttp í ahee r fýöma egariaajórnarfkrár. Uppbyggin ndmuakrjfisaeravaieeganaismn rdsi1fárseguulíkis il fianrs ATllaóri s1m kgntaáess aaifeasrnakkluómuaalrrfr unn ýðv í aFnniianii g aSæðóðamog alrrumlrkju msrn a llfuni ens og aFrakkianii ogíaskaianii.aÞsirávgkkjatukhns vegar akki s aNoregi, Danárkmhg aÍsianii.eÞlmanfrkkstakr sasrnal aaómuaala svrð jetui fleftmilrrumlEvrópurkjumserrhnirsa hutaerik g alkanar,sta admtafu ahert siggeetrðai etgnajórnarfkrár. Veg ahns vmnil vadisaem rtjsrnal aaómuaala shnirsefur stéstíkkfíktsvrð igg ir a arvei kumakálfustðai iiira a aajórnarfkrár. Jfnfeldvattáðituu ómuaala fleNðir lnidu mgeg aaifeumm lytinsjvipraumhutaeriki vi hsjsrnarfkrárietir lit r ursppgluastþaa rkiifimasa litluseytins aajórnarfkrárrkvæðium1es r aíkij .
F2.Ávæði fForrnm aajórnarfkrárm!r> < b-- Tab -->    ENorku naaórnarskráin /b> geymi mremur af tkegamkvæði fumHæktabtialndiins .aÞsimfmunþtrbegaritr unkvæði nvumRkissítis n em róri áilam aem vhnfuuameru etgní heram ,ahæktabtia ómuurm ogfaigimnnummmfrir broif aopinbiamstajfi Hfur serið anfiálonus aNoregit vmnsn farfli rRkissítis umlnefdur en r vurfrníigirði avar nniiritt. Ekiifhfur svrði f kat1uaamm orir Rkissítis umlsðaad 1926–1927.
    EÁvæði f Fdnkuutejsrnarfkrárinnar /b> umlómuaalafr unmjggujvipraeaiims sienku Hfssii1mn m nsnuru s úsalituasai f maiar aómuarlaerankð í sembttiirftirt hnn næ s65ká l amdri1e káturfennnargumgis vóakrjtrasaua fþanga fil etir laua amdri1e sná enurki sil avllok ens ogfaÍsianii.eÞlmerfrinig aa uin aþkvæði fumkvi ómufíAdnkuutejsrnarfkrársn Einremur ae btimaianinfafa íAdnkuutejsrnarfkrársn mmlefin aiinnglur umRkissítis n,ál59 gog<60 gr. ,tn rennnróri umlr hera byrg , ens ogfLndiiómuurfer. Ekiif,leslorir lgiunvar Rkissítim nsnukllað p kmbn dsalituaskkputivkl garnaima .aVar a í ið 1994maiar aómusála.í hera slndiins ovr aómd usrfrir broiflgummumr hera byrg ahnauavokllað aTabmílamlan
    EÍ Fsnkuuttjsrnarfkrárnig/b> rusteyutekmbn dsensnuklieaánvæðium1umlómuaalafog     EÓíkttevretnorrnulejsrnarfkrársm tr aeénkuuttjsrnarfkrárnig kvæði u a ómuaalm abfri1a vkj rbfri1il hli a giakvæði fefkea aetrðai ntugaósteeganetgnajórnarfkrárni (11 gkaiei 14 gr. ) Þsta ílvæði fko rn ní aénkuuttjsrnarfkrárnae ið 1979.tÆituifeasrnakkluómuaalln hfur stvisia saln ea vamenntsiggeetrddunetgnajórnarfkrárni g aoft r1ega nhutanhnirsttfglurgeð irffim:væmd alaldssns .aÁið 1996koaldi Hæktiítiurfsalituaskkputivaifglurgeð vai1ndiitðaajórnarfkrárni g a ið 2000ferrasamaan ustað aáilaieemrverralaiuamenntsigg
    EÍ Friniku stjórnarskránsn /b> ttmir numuekpuunaómuarlaeinfaldega a vembttiisómuarl é kkipaai sfnorsta alkmrri vvð igg. Ekiifgin vkj rómuarlí sembttiiimasg ómui.eÞlmerfathygliserntfa abði fHæktiítiurfosvr itifeasrnakkluómuaalln mga leggj ril giaumbttu an eekisstjórn in ens ogftnkð erfrm:al99 gr..
    ELoksaerftvipaafkvæði f(106 gr..)fo aeénkuuttjsrnarfkrárnig u a ieljiaómuaalls aillikismnómusála aa abiiingimlgiakvæði sydiintugaósteeganetrðaanetgnajórnarfkrárni e kbfri1a vkj rav aillhli a .Ávæði mkomkáttrn ní ajsrnarfkrárnae ið 2000fosvhfur ssðaad reyttneguulsnsn frsess veimildd,Aenfeáfvar egiatetengaeu fri unvhúsakoaln udiitðaegg arbtia kvæði fejsrnarfkrárinnar .
<3 Önumr ekis/r>     ESjsrnal aaómuaala shnirsvrð jetui fleftmujgdilrrumlEvrópurkjumsens ogfaskaianii,Austmrrkti,ataýu,aSpenug aPrt úgaa. Einig astajfaravokllað tjsrnal aaþ á aFrakkianiimem rildrmkumahert si rkiinnlegusrtjsrnal aaómuaallfaí arint aklnga,rhgntakki senitð menga .eÞlmanfrkkasrnal aaómuaala svrð jofnuaiirs hrlektu fAustmr-Evrópurkjumsens ogfUngernjaianii,Tékkianii, Rússianii,aSlóveuíu,aSlóvakíu,aPllanii ogtvofmttiiendgisielj . Eisaianiue npdan ikisngafrníarhfur svrð aofnun meéstíkkildds hHæktabtissm rhfur ssjsrnarfkrárietir lit g hnidu
    EHugydiiasumkstakankkasrnal aaómuaalfer gjaran drakinil austmrrksuaflggspkin ains HansaKestenu ensslstumlómuaalfvar komiðaleftm ið 1920. amerfví aathygliserntfa akyniaasr aeæ sumávurfem rtjain ehnirsarvkl gdivudan farnnká m aajórnarfkrárrumbttu ,er1 g alkumbrytingar flefrir komneagiaefir litseð þaí ahert siggeemrmstrtjórnarskrán eSmakæmt drgum að nýrai1ajórnarfkrársem sfrsmair ekasrnal aaangains lmgiifrm:alrrsbyrjunv2005sereagtail t veimilddi nkasrnal aaómuaalins ovrði frmaaia . egutavrði fa lrita il stsrnal aaómuaalins ovrgfafa geð aeyt slggjafaas o(240 gr. ) Þnig aarði fhgutaa u urkis admtt orir sasrnarfkráribroifetuaggjafan hfur slair udir efu leggj tuka krtj rlasem snau synlegvauail t vtryggj rsasrnarfkrárivarnnkítis dn
    EÍ Badsarkjuumm,hKanada,ogfrlektu fSraur-Ameíkiurkjumserrsjsrnarfkrárietir litn anga fie meviprau httiiosvleNðir lnidu , .e. uamenntnr ómuaala shnirsaa g hnidu AÞn nr ssíktteetir lit aln eg liue ttp í aómuaaldsinug neki fr dnegaafrflámajórnarfkrárrkvæðium1erfai1ómuaalm aass iveödi.FÍ an he na am emdr narir komneagrsjsrnarfkrárietir litsað míða efdur en rea aem riikfstuæðaatu lmginiianii Evrópu.
FVIII Utanrkissála/r> <1. Sja a aóða rtia ns maialndiiítis/r>     Eamerfmnilvægu atið ie ajsrnaekpuunahernsíkissa iekinmi rafsta a l áais ahee ni u indgsarn nanlndiiítia fosvaóða rtia . Fyliaamíkis er smstrtvokllað r ensg liuknntngau eaahivíg liuknntngau. Eing liuknntngauni aerfarlg aFrakkianii, Benelúxlniduumm,htisu,aSpen,aPrt úgaaogGrikkianiitvofóri mi rtnkð . Tvíg liuknntngainmr hns vegar an ýðv íleNðir lnidu , askaianii,Austmrrkti,ataýu,aBretianii ogíriani
    EÍ tvimir eEvrópurkjum, .e. uHoliani fg aAustmrrkti,ae unleóða samengaa saldir hfantjkirlofa r afjfnfattisajórnarfkrárni .aÞss i orsmega sta a r ursppgluastsm: heki fr dnegaafan ee uegam áhrifumvaóða rrtia ns mlen nanlndiiíti SR astþaauiki sæsttaffaí ahernsu viljugnr ómuaala se un iak tlli tkl áaóða rtia ns ml laus umlsnm Í FrakkianiiogGrikkianiie unleóða samengaa saldir hfantjkirlofa lgummrnirslgrr enltjórnarskrán
<2 ATllua maóðartia samengaa/r>     EHef erfrir íaí að mgeð leóða samengaali rAhnidu moim:væmd alaldssns .aUudi b ngip kmbengaalogudir ekrifter tmkæmt þais íAhnidu maóðahnfuigija, ekisstjórn arsr afbeggj AÞigiinmrga hns vegar aAvaxaniimæl fhutana álan AÞn fan uegaafsmþykki1eiira a vurfrnaáttmlai vrnir eoulagiltp af hálfulekiss,va inik aakosii1inilvægurm álam SaBretianii ogHoliani faf fsmþykki1eigisdir nlipmuleóða sáttmlam
<3 Aleóðaegafsmvin að mrumaytin/r>     EFaleví asensn feimistyrjgdsnsn flauk hnirsvrð iekinmpp aíiarga sasrnarfkrárifkvæði fem rhfmildaom saaí kíkissvadi il ujgleóðaegaa seofnuan AÞss ivkvæði fe unmstramenntsr afkr tk
    EGot sóri mpmulenntt kvæði u om saaíkissvadis e íA Fdnkuutejsrnarfkrársn /b> , 20 gr.eia:
&      nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     Befjester,asom rftirdenne grudilovfil komme biget oydiigheder,akankved lovfinæ me e beeenmt omfagilovrladesfil iellemfolknligeoydiigheder,ade sereoprettetkved genuiiiglovrenkuomstkmed aidre statr sl aremumeaf iellemfolknlig retsordrnaaiarbejde
nbsp;    nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     Tllavedtagesteaf lovorseagrherom ráve etkrleral paaom rtjettedeleaf Folkningietsedlmume . Opnaa etksaaan ikrleral ikke,hgn dg ndetkl vedtagesteaf almngdnligeolovorseagrsdvr dngeorleral,ogfopretholde sreieing:en1orseaget,hfrselgge detkfolkningisælae nekl godkedvesterlie sfrskfstesterfte sdn forkfolknafstemengae fiparag. 42rfatusattefgluer. & &
    Smaaiegatlkvæði f a Friniku stjórnarskránsn /b> , 94 gr.eia,fhuóða rstvo:
nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;   E    EÁvæn unvumaasamþykkja r afkriaampp aleóðaegaai1akuldbiidngau erikin ug meirihutaanr.eiddr naavæðua[ eigi uu]. Hns vegar ,lefetllirganverral sasrnarfkrárn ei brytingau 1ianiamæru íkissns , e kbfrn iak slstaávæn unveð fulatigiia inik aakosii12/3 hutaaneiira atemgginaraatvæðus.
nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;   E    EAleóðaegafskuldbiidngamkiki sofnua1lðvaði segau mgrudiveli tjsrnarfkrárinnar     EAlenntt kvæði u íeta efi aia snkð pp aí Forku stjórnarskránsa/b> ið 1962 gamhuóða rstvo (93 gr. )
&      nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     Fo saa sikre drninte nationaleFresmog Sikkerhedrlie sfemumeinte national Retsordrnog Saiarbeide kn aStrt hngiet med re Fjerdrdeles Fleral sm: ykkei,saa rninte national Saiennsutaniagasom Ngeor sl sutatetkrlie ssutater1sg ail ,spaaetksagligtfbegrnsetkOmraaae,sekal kunne udve Befiesterade sefte sdnnne Grudilovfrlie s tlli gge Sjatenu Mydiigheder,adog ikke Befiesteeil aaa foraidre dnnne Grudilov. Nar aStrt hngiet ekal give sit Sm: ykke, bn,asom ved Behidlngaaf Grudilovsorseag,indstko Tresiedeleaf detsMdlmume vaeeil stede.
nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;   E    EBeeenmmesterneai dtnne Paragraph gjlde ikke ved Deltagestei rninte national Saiennsutaniag,aheis Besutaniagerrhn famenefgntkfolknretslig VirknngaforkNge. & &
    Í FSæðóða/b> ruhns vegar akvæði fem ræsarftstakegaafil aEvrópukmandisns , er. 15 gr. e90.akaieaReieing:sorsmeu
&      nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;     5 § Inomlgn fraaiarbetei Europeisuafunionen kn ariksda:en1verlåtafbesutaanderättko rn tefárprnncipe na fratatsskickni Sdan1verlåtestefrutsätterfatt1uai- och rättighetsskyddetkinomdetaaiarbetko rdeeil ailkni1verlåtestenierfmotsia ardetao mgesai dtnnasreieing:sorsm och i dtn europeisuafkonvr tionen angåedve skydd frve äikuliaafíttighete na och de grudiläggande1uaihete na. Riksda:en1besutaareomlsdan1verlåteste:enom1besuta,aia om1mint re fjärdrdeln fav de ástande1uren rstig. Riksda:ens1besuta kn aocksrfata sai dtn ordniagasom gälie sfratiftande1av grudilag. Överlåtestekn abesutaassfrstsefte sriksda:ens1godkäinande1av verenkuommesternligtf2 §. & &
<4. Sair ir eigi íutanrkissálaum/r>     EÍ vaxaniimæl fe sfaið iak leví a ajsrnarfkráraa urríangi uu btimil t vfyliaast g osvhgirshrifkutanrkisstjniufekisstjórn arnn a .Áíeta eki sæsttei eu Evrópumlain er sem sinilvægui aeætui fíkissvadis hnirsvrð om seldir il firleóðaegaa raofnunna .
    EU íeta efi aerlkvæði f a Fsnkuuttjsrnarfkrárnig/b> .AÞr semir n a6 gr. e90.akaieat :
nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;   E & &    E6 § Reieing:en1ekall orstlöpande1inorsmer aiksda:en1och emrda med oraagasom utsesaav iksda:en1o verdasom ierfinomlgn fraaiarbeteti Europeisuafunionen. Näriare beeeämmester o rn frsmations-1och emrdskyduighetenveddelnsai iksda:sordniagen.
nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;   E    EReieing:en1ekall orstlöpande1hålir Utikesnämndtn underíttrdaomde utikespolitnku narhålirndtn,asom kn aorbetydestefr iket,hoch verlägga med nämndtn omdes vsroft deterorsdras. If,lea utikesärendtn av sarre vikt1ekall reieing:en1ore avgrrndtt verlägga med nämndtn, omdetkankkke. & &
    Í Friniku stjórnarskránsn tmir numueam efi ae97 gr. :
nbsp; nbsp; nbsp; nbsp; nbsp;   E    EUtanrkissálaanrnud angains fæ sfársekisstjórn innireega nais fr kraait ,ogfendrrnæ seega nnau syn krfur ,ikrsur umutanrkiss-fg avararfála. A eeam kurpiffæ s,leshrnjarnrnud angains ikrsur umuudi b ngiianra álaa Evrópukmandiiiuf…
    Þrskmur arinig afrm:alsmugr.eiaa orsættisr hera n iiuuireaanangi uu ei þigiarnuda ataupplýkngarrau aálaefi aem rr uftl umávuslr hera r iaEvrópukmandisns r vurfrníkvrralnirfr uftekar .

F/r> <1. Ingarngu /r>     EÞn nem raaórnarskráin aerlr it egiaogfrelu aeérmgrudiv,lear enikregip kmbféegisns rlmerfr lilgitua abeytingar flehenairetiþnrum regipmrnegiabeytingar ffirllritt Erfeeta lstaan ins hrlektu fetuikki1nlipmurkju msm rbadir riiai rsasrnarfkrár.aÞórmginiiiðiirsr uftikfa rsvi hsjsrnarfkráribeytingar .aÝmstre se kraait vaukns eirihutaannangi orir sasrnarfkráribrytingaum, .óða raavæðuaginasluei þraa áeigi sarofi mg setntkl knsenga,r vurfrnbeytingar fe ufrdan egaafsmþykkta. eÞss u rliðiumserrsjuudm biania eeam n ATllairæiasrmleinfafa sjuudm erlksklli a visufimairev íleilli umávnannangi l áais aa afstrríaí að mjfnfinilvægu rsbeytingar fi u afr.eiddars hrlýii
    ERegip kem1es rshnirsaa a arkmii fa tryggj rvisuankkasrnakipunegaanetjkirgenikaogfjfnfrm: ha aem rbinaustusttfsau mgrudiv,learregip kmbféegisns . Hns vegar mmaseijaat veki sæ efdur eskllgitua aoffrjfittfsaa abeyti rsasrnarfkrár.aHttiaeran a hsjsrnarfkrár n erði fkiki sendgusr akin ean ee uegik nn. Tl hli a vð ansa kunnað maóuastþkrár a venjp kem1rjfittffrn hiduahinaurlk
    EÍ aumumlajórnarfkrármlr ushutaarehenar eudan eegnirfr urspko un eÞsta íleei eu orku stjórnarskránsama þaí amrverralrh„ania“ogf„iinnglur “henar e(112 gr. )íknuais feað nkvæmega s rafrkaa ehea a kvæði ff,le ver sudir n rhernja fi u rtia lgirr afiiðiigar filsts kvæði s Í ku     EÍ rlektu fEvrópurkjumserruam væði sítim nsnuil t ve nsdamafsta hsjsrnarfkráribrytingaum s kmi ogildi apmulenntegiauam erp.AÞfr sl a aóm nufa aillikiinn1lgarkasujgdsi eigimln a eujfiua hsjasdama hslstuuuam errp l áais aa þaa s nkð da:srára(d. 1/20 eigimln a Lstaianii,1/5 Eisaianii og¼ Litháen). Sumssta arávgkkistþaa rinig aa þaóðaingetiknúi afrm:aað fta msjsrnarfkráribeytingareð þaí ahutai1kósteidasekrifisudir slstailligu a(i.FÍtaýa, LstaianiogfLitháen).
F2.Ávæði fForrnm aajórnarfkrárm!r> /b>     ESmakæmt Fdnkuutejsrnarfkrársn /b> (88 gr. )íkiuastbeytingar flehenairrkuivglddiimaseæ sé kmþykkta.maftvimir eeigiumuie mkosengam aailli auk ióða raavæðuaginaslu Erfksklli a girihutai1e tt akeidaslklstri ióða raavæðuaginaslu,fealdinffæ ri rn40%knsenga,aaa ln a,gginaiaatvæðus ie mbrytingaum Sðaatu rsasrnarfkráribrytingaaia sgeð á ið 1953
    ENýa Friniku/b> ttjsrnarfkráragrku arlddi1. mr,st2000 eHnfuubeytingar auvrð áuudi b ngii1fársrinnu1995seega nómusála.í hera sjetuialeftman mhópsem senfi fea mernkefi að mge naaórnakipun lndiins oýöma egari.AHea hsjsrnarfkráribrytingar flhrai e(73 gr. )ildi aa etuuam errpel beytingarámajórnarfkrárni efur svrð amþykkt tvimir eumávumnnangi e kbfri1a bðaaneð það juumávusus oýttrangiskmur akmbn dskóllfr angaknsenga,.AÞujfa12/3 eigimln a aasamþykkja uam errp þbeytit ir ekumávusl áais aa beytingar auiakirlddi Efa5/6shutaareeigimln a em riaurrattk aaavæðuaginaslusamþykkja a eu brýn rsbeytingar fi að míða m f raubenstí alokaumávusuam errpsíknuais fa bðaanangaknsenga,.     Þrsgeymi mriniku naaórnarskráin rinig aalleéstíða efmilddil t vsamþykkja lsil s hátia fudan esu sfárstjsrnarfkrárnig orsmiuamenntrasaia r u s rarlg smugálasað fta mogsvi hsjsrnarfkráribeytingar .
    ESmakæmt Fsnkuuttjsrnarfkrárnig/b> (r. e8.15.slreieing:sorsmeu)aiaurrbeytingar fletjórnarskránni aekuivglddiimasuam errpeeni verð amþykkt beytit aftvimir eeigiumuie meigikosengam aailli .AÞóða raavæðuaginasla u om errp ekal f rauom aeamhli ameigikosengam aefetllirganumueíkttekmur aom aosvh ffæ ssmþykki1a.m.k.það jugasleigimln a Tllirganvfelip rfgirihutai1eiira atemgiaurrattkginaraatvæðusnetgnhenairoaeu erað míða mirrsrn50%aflvermntemgginaraglddaatvæðusnir eigiknsenga,r a .Anar,stoeku aeigið l lgumn ril okaafr.eiaslu
    ESmakæmt Forku stjórnarskránsn /b> e(112 gr.rin)kbfrn leggj ril lgumra hsjsrnarfkráribrytingaum frm:anangi ssðaatuasai f 1vrð jae i rftirknsenga,rhg neki fm kmþykkja eæ sfyrrfrn loknumunæktumkosengam ar1 rftir. Vi afr.eiasluetllirgnln a erðiaa inik aakosii1tvimrþað juúeigimln a aasitaamaigiruniogfiaurrbeytingar fletjórnarskránni aekuivglddiimasuam errpeeni verð amþykkt ie m2/3 eirihutaa. Ekiifársgerrrbeytingar fem verral iinnglur sasrnarfkrárinnar F3.Ávæði fFajórnarfkrármlnokumra aianra Evrópurkja/r>     ESjórnarfkrár e(42.–44 gr. )mæl rstvo orir a aillmsjsrnarfkráribeytingarúeujfiusmþykki12/3 hutaaneigimln a Auk iis fbfrn leggj reimdsarr urspko unsasrnarfkrárinnar     EÍ FBelgu,aHoliani fg aLúxemborg/b> evrnir etjórnarskránni abeytit ie meviprau httiiosvtmkæmt þ sienku tejsrnarfkrársn Ef frm:akmur afirllýkngasjuddaf ieirihutaaneigimln a u a illmsjlndi1a abeyti rsasrnarfkrárni aerfangisrofi .aBretingar aur unjvoftekar     ESmakæmt Ffrnkuu/b> ttjsrnarfkrárni (89 gr. )r uftvæ siiðiirsurrrsvi hsjsrnarfkráribeytingar .aEf br a eigiilddnrsamþykkja uam errp erþaa borir udir áióða raavæðui ogíkiuastilddietuiinfaldurfgirihutai1eiira atemgkósta1e ueí afyliaa dn Ekkiíaf fhns vegar aa abira uam errp udir áióða raavæðui efsfrstainn1hfur skllað tmbn dbr a eigiilddnrog3/5shutaarer.eiddr naavæðuae uefyliaa dnom errp nu Hfur sass ivsðaarisiiðiverð munoft r1notra
    EÍ 46.–47 gr. e Fírku /b> ttjsrnarfkrárrnn a rr a í sklli a l áais aa sjsrnarfkráribrytingar fkiuistilddiíaujfiusmþykki1beggj eigiilddaauk ióða raavæðuaginaslu Ngui aa rinfaldurfgirihutai1eiira atemgginaraatvæðusné fyliaa dnbrytingauni .aÍlgummumáióða raavæðuaginaslu ae unkvæði u a óh nrnud eiuuirkomaálom fai1upplýkngau vi hkósteidu nm aðaálaefi aem rl á laus a rr aaavæðuaginasluni .
    ESmakæmt F klku /b> ttjsrnarfkrárni (138 gr. )íaf fsasrnarfkráribrytingaaamhuótafsmþykki1dbr um eigiilddum, frm:aujfa1a o rautvæ spmávurf ahertai1imdsmog inik maórrmlarairn lðaanilli úaiira . Ingn deggj rmlna aoá bprtigau hns vkmþykktanuam errpsgeturfmnsn hutai1eigimln a (1/5),500.000fkósteidu nei 5fera sr kraait v.óða raavæðuaginasluumril lgumr a .Ílklstri ióða raavæðuaginaslu dugnr rinfaldurfgirihutai1ilddr naavæðua Ekkie npdntfa akrefjat v.óða raavæðuaginasluetuuam errpeefur shlotð amþykki12/3 hutaaneigimln af ahertai1imds.
    ESmakæmt Fsvisuneku t/b> tjsrnarfkrárni (192.–195 gr. )íaf fsmþykki1kmandisangains , ieirihutaane tt akeidasl.óða raavæðuaginasluog airihutaankantóna kmandisíkissns al áais aa sjsrnarfkráribrytingar fkiuistilddi. Fam væði a hslstumlbrytingaum geturfkomi oárskósteidum (inik m100.000) r afkmandisanga nu
    EMismn rdsi1glur glddaa nokurmseytinsrftirþaí ahert sumreimdsarr urspko unerað míða ei brytingar fiemggangaskmumra.htisuneku naaórnarskráin sttiieimdsarr urspko unáerð ogfiók hns áj naaórnarskráiarlddi1. aa úr f2000fosvhnfuubeytingar auvrð áuudi b ngii1lrmautvoká ltuii. Var hns áj naaórnarskráiaamþykkt ie m59,2%er.eiddr naavæðuaenne tt akaaia s36%
    E Faska/b> ttjsrnarfkrárns (79 gr. )mæl rseinfaldega tvo orir u a illmais aa sjsrnarfkráribrytingar fkiuistilddiíaujfiusmþykki1beggj eigiilddaie m2/3 hutau aavæðua Ens ogfvurfemgirfr unns i aeætui fhenar ebeytin eganrogginsrtjsrnal aaómuaalln ní aKarlsruhema þaí aa ettirþaí as raaið
< reref="#Footref1" id="Footnote1">Nei nálasr.eia: 1
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E1 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EEnn1oemur ae btimaiamin aþk svr aaávra dnorsættisr hera , Daæðas Oddssonr ,ln eorir spmr Striugíkms J.htigfússonr fleAlengii1voið 2003sumreilktumáherslu ahisaefetllfr urspko una sasrnarfkrárinnar
< reref="#Footref2" id="Footnote2">Nei nálasr.eia: 2
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E2 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    E130.alggjafaalengi2003–2004,feskj. 517 – 387 gála.
< reref="#Footref3" id="Footnote3">Nei nálasr.eia: 3
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E3 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    E131.alggjaflengi2004–2005,feskj. 605 – 426 gála.
< reref="#Footref4" id="Footnote4">Nei nálasr.eia: 4
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E4 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    E131.alggjaffflengi2004–2005,feskj. 50 – 50 gála.
< reref="#Footref5" id="Footnote5">Nei nálasr.eia: 5
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E5 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    E131.alggjaffflengi2004–2005,feskj. 177 – 177 gála,ogf132.alggjaffflengi2005–2006.feskj. 19 – 19 gála.
< reref="#Footref6" id="Footnote6">Nei nálasr.eia: 6
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E6 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    E133.alggjaffflengi2006–2007,feskj. 12 – 12 gála.
< reref="#Footref7" id="Footnote7">Nei nálasr.eia: 7
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E7 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    E133.alggjaffflengi2006–2007,feskj. 12 – 12 gála.
< reref="#Footref8" id="Footnote8">Nei nálasr.eia: 8
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E8 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    E131.alggjaffflengi2004–2005,feskj. 9 – 9 gála.
< reref="#Footref9" id="Footnote9">Nei nálasr.eia: 9
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E9 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    E131.alggjaffflengi2004–2005,feskj. 37 – 37 gála.
< reref="#Footref10" id="Footnote10">Nei nálasr.eia: 10
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E10 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    E133.alggjaffflengi2006–2007,feskj. 777 – 514 gála.
< reref="#Footref11" id="Footnote11">Nei nálasr.eia: 11
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E11 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    E131.alggjaffengi2004–2005,feskj. 287 – 266 gála.
< reref="#Footref12" id="Footnote12">Nei nálasr.eia: 12
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E12 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    E131.alggjaffflengi2004–2005,feskj. 26 – 26 gála.
< reref="#Footref13" id="Footnote13">Nei nálasr.eia: 13
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E13 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    E130.alggjafaalengi2003–2004,feskj. 14 – 14 gála.
< reref="#Footref14" id="Footnote14">Nei nálasr.eia: 14
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E14 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EASÍ, BSRB, FéegiSmaeguuvus.óða n aþk Ísianii,aKenar akmandiÍsianis, Ladiverid,sMln rtis d skrifaofnaÍsianis, MFÍK, N tt uverida samíkkÍsianis, Ladiskmandiemdriborgaa , SÍB, UgimnntaféegiÍsianis, Uniom rk Ísianii,aÞóðakirkjanog ÖyrkjaandiaegiÍsianis.
< reref="#Footref15" id="Footnote15">Nei nálasr.eia: 15
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E15 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    E131.alggjaffflengi2004–2005,feskj. 726 – 474 gála,ogf132.alggjaffflengi2005–2006,feskj. 55 – 55 gála.
< reref="#Footref16" id="Footnote16">Nei nálasr.eia: 16
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E16 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    E131.alggjaffflengi2004–2005,feskj. 9 – 9 gála.
< reref="#Footref17" id="Footnote17">Nei nálasr.eia: 17
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E17 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    E133.alggjaffflengi2006–2007,feskj. 12 – 12 gála.
< reref="#Footref18" id="Footnote18">Nei nálasr.eia: 18
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E* i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EÞss i ouidu nfó aom atn eki svr ahldsin ouidargeð .
< reref="#Footref19" id="Footnote19">Nei nálasr.eia: 19
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E18 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    ESkrsuasass ive npdniaaf GunnariHelga Krisis ssyni.
< reref="#Footref20" id="Footnote20">Nei nálasr.eia: 20
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E19 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EOri aaórnakipun a lng ruhrmnotaiffrekarfrn„sasrnarfkrpun a lng“rguku vegna ais aa þaa e áiólea rnbði afbrigui orisns akomafrir íFajórnarfkrár. Hli títtþkmrri mm fin af atjsrnarfkrárni erralndi1„sasrnavgds“ogf„tjsrnarfvgds“.
< reref="#Footref21" id="Footnote21">Nei nálasr.eia: 21
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E20 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    ESgu egaurað dr ganiitasrnarfkrárinnar
< reref="#Footref22" id="Footnote22">Nei nálasr.eia: 22
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E21 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    ESr. 1Odd Didiksrn(1968).
< reref="#Footref23" id="Footnote23">Nei nálasr.eia: 23
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E22 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EÓlaur sJóennnesson 1978: 92.
< reref="#Footref24" id="Footnote24">Nei nálasr.eia: 24
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E23 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EAle.fti. A, 1919: 104.
< reref="#Footref25" id="Footnote25">Nei nálasr.eia: 25
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E24 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EÓlaur sLriusson 1946.
< reref="#Footref26" id="Footnote26">Nei nálasr.eia: 26
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E25 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    E < reref="http://goveriment.is/constitution">goveriment.is/constitution,iko 29. apríl2005.Ílemdriáðiigau rlðveidusstjsrnarfkrárrnn a rr hns vegar aoriaegi „constitutional goveriment“notai,ió t.d. The ConstitutionoffIceiani(1974) bls. 3.
< reref="#Footref27" id="Footnote27">Nei nálasr.eia: 27
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E26 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EAle.ti. A 1943: 12.
< reref="#Footref28" id="Footnote28">Nei nálasr.eia: 28
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E27 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EAle.ti. A 1919: 95.
< reref="#Footref29" id="Footnote29">Nei nálasr.eia: 29
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E28 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EAle.ti. B 1919: 1458.
< reref="#Footref30" id="Footnote30">Nei nálasr.eia: 30
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E29 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EAle.fti. B 1919: 1488–1489.
< reref="#Footref31" id="Footnote31">Nei nálasr.eia: 31
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E30 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    ESó BólrnAÞralrson 1951: 343 eÞsta íddi1a algarka 56%aflkósteidum rskóskráia.yrftuaa sjy jaekmandisslitsl.óða raavæðuaginaslu.
< reref="#Footref32" id="Footnote32">Nei nálasr.eia: 32
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E31 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    ESó Grðiarbók nrnudaril t vsemja uam errp ð nýtai1aaórnarskráia1940,aÞóðaskjaegsafn, LXI eÞa euppkat va sjsrnarfkrár,kem1es inrnud eamii,avr amjng haftkl hli ióar
< reref="#Footref33" id="Footnote33">Nei nálasr.eia: 33
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E32 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EBólrnAÞralrson 1951: 473.
< reref="#Footref34" id="Footnote34">Nei nálasr.eia: 34
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E33 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EAle.fti. A, 1942 bls. 548.
< reref="#Footref35" id="Footnote35">Nei nálasr.eia: 35
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E34 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EAle.ti. A, 1942–3, bls. 60.
< reref="#Footref36" id="Footnote36">Nei nálasr.eia: 36
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E35 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EAle.ti. A 1944 bls. 11–12.
< reref="#Footref37" id="Footnote37">Nei nálasr.eia: 37
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E36 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EAle.fti. D, 1951: 358.
< reref="#Footref38" id="Footnote38">Nei nálasr.eia: 38
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E37 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EÍsnrnudina vgdsut vBjarni Benediktsson, Gunnar Thoroddsen, Ólaur sJóennnesson, GylfiAÞ. G siason, Halldó aKrisiónsson, Einar Olgeirsson ogsJóennn Hafstriu. VaramavurfGylfaaia sHaraldurfGuðmundsson ogs atja Halldó akomvsðaaraKarlaKrisiónsson n ní anrnudina.
< reref="#Footref39" id="Footnote39">Nei nálasr.eia: 39
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E38 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EAle.ti D 1955 bls. 422.
< reref="#Footref40" id="Footnote40">Nei nálasr.eia: 40
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E39 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    ERðuanbprtit vlstaf aBjarni Benediktsson(1965).
< reref="#Footref41" id="Footnote41">Nei nálasr.eia: 41
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E40 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EAle.ti A, 1958 bls. 810.
< reref="#Footref42" id="Footnote42">Nei nálasr.eia: 42
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E41 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    ERkisshandbók Ísianis 1965, bls. 253.
< reref="#Footref43" id="Footnote43">Nei nálasr.eia: 43
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E42 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EÚrer.einargeð nie mejsrnarfkrárfuam errp Gunnars Thoroddsen, orsættisr hera , 1983. Ale.ti. A, 1982–3: 2731–2.
< reref="#Footref44" id="Footnote44">Nei nálasr.eia: 44
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E43 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    ESmakæmt mnsn sbað ioársGunnariG. Schrm:a möppumejsrnarfkrárfnrnudar022-16, B 127rk Þóðaskjaegsafni1voiu ouidirni fiemghrmemgir: 1982:rgun, 1983:rgun, 1984: fsrnir, 1985:maór, 1986: tveir, 1987:rgun, 1988: tveir, 1989:rgun, 1990: fsrnir, 1991:rginn, 1992:rgun, 1993:rginn, 1994: tveir.
< reref="#Footref45" id="Footnote45">Nei nálasr.eia: 45
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E44 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    ESó skrsuu orsm nns nrnudarnnar , MatthígsaraBjarnasonr ,ll orsættisr hera 10.rkgúk m1991.aÞóðaskjaegsafn, Sjsrnarfkrárfnrnud022-16, B 34.
< reref="#Footref46" id="Footnote46">Nei nálasr.eia: 46
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E45 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EÁ ouidimejsrnarfkrárfnrnudar31. aa úr flagui þani g Gunnar G. Schrm:aom asvohlóða ndimilligu :„Sjsrnarfkrárfnrnudlegaural n eíkissejsrnaina a 50ká l afmæl srlðveidussns vegri inik mia.nnn h ttva sainvegri srsíkkmln rtis d yfirlsngiiemghafi1a ageymaf truktumfrelsis-oggruidvalearítis dnÍsieudinau rl hndia. Vgri húnaamþykkt af Alengii117. aún ogsðaaraigufestf atjsrnarfkrárni atja VII.akaiea úglddaidimejsrnal aa.“Mappasasrnarfkrárinrnudar1988–1994,aÞóðaskjaegsafn022-16. B 128.
< reref="#Footref47" id="Footnote47">Nei nálasr.eia: 47
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E46 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EAle.ti. A 1994–5: 2073.
< reref="#Footref48" id="Footnote48">Nei nálasr.eia: 48
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E47 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EAle.ti. A 1998–98: 1788.
< reref="#Footref49" id="Footnote49">Nei nálasr.eia: 49
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E48 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    ESr. 1Hani bal Vldsimarsson 1946,aKarlaKrisiónsson 1951, GilsfGuðmundsson 1955, Halldó aBigdiae 1974, Gunnar G. Schrm:a1985, Ólaur sÞ. Þralrson 1986.
< reref="#Footref50" id="Footnote50">Nei nálasr.eia: 50
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E49 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    ESr. 1fm errp 1985oársþm. BJ um .óðaouidiemgia seidurfl.rk æsa íngii. Eini g frv.sJós vBr gaaBjarnasonr 1988 ogfrv.sJóhgdnu Siauralrdóttr su aajórnal aaengi1994.
< reref="#Footref51" id="Footnote51">Nei nálasr.eia: 51
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E50 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EAle.ti. A, 1992–3: 679.
< reref="#Footref52" id="Footnote52">Nei nálasr.eia: 52
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E51 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EMbl.r22.–24. aa . 1953.
< reref="#Footref53" id="Footnote53">Nei nálasr.eia: 53
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E52 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    ESr. 1Þr Vilhólmsson(1994).
< reref="#Footref54" id="Footnote54">Nei nálasr.eia: 54
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E53 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EMbl.r22.–24. aa . 1953.
< reref="#Footref55" id="Footnote55">Nei nálasr.eia: 55
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E54 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EAle.ti. A, 1982–3: 2721.
< reref="#Footref56" id="Footnote56">Nei nálasr.eia: 56
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E55 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    ESó t.d. ÓlausJóennnesson (1978) bls. 146.
< reref="#Footref57" id="Footnote57">Nei nálasr.eia: 57
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E56 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EBjarni Benediktsson(1965), bls. 201.
< reref="#Footref58" id="Footnote58">Nei nálasr.eia: 58
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E57 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    ESr. 1Gunnar G. Schrm:a(1999), bls. 262.
< reref="#Footref59" id="Footnote59">Nei nálasr.eia: 59
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E58 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EEki svrnik mtmiil t vfjaleaaa þaessu sini nemasu aI., II.aog V.akaieatjsrnarfkrárrnn a . Skrngianarfnpdnu Eiíkiur Tómasson, Bólrg Thorarensrnog Krisión AndriStefnsson.
< reref="#Footref60" id="Footnote60">Nei nálasr.eia: 60
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E59 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EPle1Þrhalessonritaai1aaórnarskráiinrnudarlagui il efi aaessaekmantekt 1Þalsu RagnhildurfHelgadóttir prófessorog AnarfnÞr Jós sonigufrði naurayfirhndiritoggáfu ýmsaragða r ábeudinaa .
< reref="#Footref61" id="Footnote61">Nei nálasr.eia: 61
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E60 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EÞekkt erurgunig dri mu aritai gólrninaaiemgiguvuskvð ir rskonunggagnvartaaegnumvsnum,kr. 1Gameat ttálaa.
< reref="#Footref62" id="Footnote62">Nei nálasr.eia: 62
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E61 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EFramíi t ttálaanse á miklli óvissu eftir a ennn ia sfelldurfl.óða raavæðuaginasluflFrakkianiiogHolianii.
< reref="#Footref63" id="Footnote63">Nei nálasr.eia: 63
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E62 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    EEns vogfyrrmemgire framíi t ttálaansálvissu.
< reref="#Footref64" id="Footnote64">Nei nálasr.eia: 64
i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 12-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->&< i-- Tab -->    E63 i-- TEndofffont TlmesNewRnm nRegulr awith size 10-->& < i-- TFont changed to TlmesNewRnm nRegulr awith size 9-->& < i-- Tab -->    ECDL-INF (2001)010, mg. 1II.O.
& < <