Vandi sjávarbyggðanna

Þriðjudaginn 05. júní 2007, kl. 13:50:19 (0)


134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

vandi sjávarbyggðanna.

[13:50]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Hæstv. þingforseti. Það er fiskveiðistjórninni að kenna hvernig ástandið er á landsbyggðinni, hjá almenningi, hjá fólkinu. Þetta er vandi út af fiskveiðistjórnarkerfinu. Þingmenn verða að átta sig á því, og ráðherrar og ríkisstjórn og kannski sérstaklega byggðamálaráðherra, að þetta er vegna fiskveiðistjórnarkerfisins. Öll þau vandamál sem varða landsbyggðina eru út af þessu bölvaða óréttláta fiskveiðistjórnarkerfi, ræningjakerfi. Það er búið að ræna lífsbjörginni frá fólkinu á landsbyggðinni. Það eru ýmis félagsleg vandamál sem tilheyra og hafa orðið til út af þessu fiskveiðistjórnarkerfi. Það eru hlutir sem alþingismenn verða að viðurkenna og átta sig á, þetta eru staðreyndir.

Það hafa ekki náðst nein markmið í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Það hefur ekki tekist að byggja upp fiskstofna eða auka hagræðingu í útgerð. Skuldir útgerðar hafa aldrei verið meiri og ástand fiskstofna aldrei sennilega verra þó að kannski megi segja að sem betur fer sé vandi þorskstofnsins ekki jafnslæmur og Hafrannsóknastofnun heldur. Það eru ýmsar forsendur fyrir því sem orsaka það að ekki hefur tekist að byggja upp fiskstofnana. Þá vil ég minna á að það eru tugir, 20, 30, jafnvel 40, 50, fiskstofna hringinn í kringum landið. Það eru sérstakir stofnar inni á hverjum flóa og firði og það þarf að sækja í þá eins og passar. Fyrir daga kvótakerfisins voru þeir fiskstofnar nýttir á venjulegan og eðlilegan hátt en núna, eftir að kvótakerfið kom til og byrjað var að færa veiðiheimildir á milli landshluta, (Forseti hringir.) höfum við horft upp á fiskveiðistjórnarkerfið fara svona illa með. Þess vegna er kannski ekki hægt að byggja upp fiskstofna.