134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[15:46]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir miður ef hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur ekki áttað sig á því að við erum hér að ræða um lög og frumvarp til breytinga á lögum að því er varðar atvinnuréttindi útlendinga hér á landi, tiltekinna tveggja hópa, Rúmena og Búlgara. Við höfum ekki í þessari umræðu verið að ræða um launakjör Austfirðinga eða stöðuna á vinnumarkaði á Austurlandi fyrir eða eftir Kárahnjúka.

Það er rétt, mér varð tíðrætt um þrælahaldið á Kárahnjúkum og auðvitað er mér, eins og mörgum öðrum, misboðið og maður fyrirverður sig fyrir það að hér á landi skuli vera atvinnurekendur, leigusalar og stór fyrirtæki sem loka augunum fyrir því og leyfa sér jafnvel að njóta þess að hagnast á því hvernig farið hefur verið með útlendinga á þeim vinnustað. Ég er til í kappræður við hv. þingmann hvenær sem er um atvinnumál á Austurlandi en við skulum halda okkur við það sem hér er á dagskrá sem er atvinna útlendinga á Íslandi og hvernig íslenskt samfélag er í stakk búið til að taka á móti öllum þeim fjölda sem stjórnvöld hafa kallað hingað til lands. Eins og ég benti á áðan virðist sem það eigi nú að halda áfram sem aldrei fyrr að kalla eftir aukinni þenslu í þjóðfélaginu og þar með auknu vinnuafli útlendinga. En við skulum muna að þegar kallað er eftir vinnuafli fáum við einstaklinga, manneskjur, við fáum fólk og við þurfum að mæta þörfum þess.