134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[16:54]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég gat ekki skilið hv. þm. Árna Pál Árnason með öðrum hætti en þeim að hann hefði talið að í sjálfu sér hefði verið ástæða til að hafa meira ráðrúm, meiri tíma varðandi önnur ný ríki Evrópusambandsins til þess að íslensk verkalýðshreyfing og íslenskt þjóðfélag hefði verið betur í stakk búið. Ég gat ekki skilið hann öðruvísi. Sé svo, þá erum við sammála um það efni.

Við erum sammála, að því vék ég í ræðu minni, um að þetta sé að sjálfsögðu spurning um efnahagslega uppbyggingu, ekki síst heima fyrir, í þeim ríkjum sem um er að ræða, til að þróa vinnumarkaðinn þar. Að sjálfsögðu stefnir bandalagið að almennri velsæld og því að þar sé sem jöfnust staða og lífskjör innan svæðisins.

Þar komum við inn í málið og þar verður misvísun, sérstaklega í röðum hinna nýju ríkja Evrópusambandsins. Þar hafa menn kannski ekki gætt þess að þróa markaðinn með eðlilegum eða markvissum hætti og þar hafa vandamálin skapast.

Þær áhyggjur sem ýmsir þingmenn höfðu uppi þegar umræður voru um Evrópska efnahagssvæðið og hvort við skyldum ganga í það reyndust ekki á rökum reistar vegna þess að markaður þeirra þjóða, þróaður markaður Evrópusambandsríkjanna eins og þau voru þá, var tilbúinn til að standa. Það var ekkert vandamál og það var enginn sérstakur fólksflutningur til landsins. Það breyttist fyrir um tveimur árum.

Íslensk stjórnvöld gátu fyrir fram séð að það gerðist og þá bar að móta stefnu í innflytjendamálum varðandi málefni útlendinga. Þá brást kerfið. Þess vegna komu upp þau vandamál sem við frjálslynd höfum síðan gagnrýnt (Forseti hringir.) að ekki skyldi hafa verið brugðist við í tíma.