Lög um fjárreiður stjórnmálasamtaka

Miðvikudaginn 06. júní 2007, kl. 13:44:29 (0)


134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

lög um fjárreiður stjórnmálasamtaka.

[13:44]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar lögin um fjárreiður stjórnmálaflokkanna voru sett var vitað að ýmis tækifæri væru til þess að koma á annan hátt að kosningabaráttunni. Menn vissu af þessu og menn ræddu það en töldu mikilvægt samt að fara þá leið sem farin var. Nú hefur reynt á hana í einum kosningum og það er án efa rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að það þarf að skoða þetta mál og hugsanlega velta fyrir sér hvað megi betur fara og hvar hugsanlega kunni að hafa orðið einhverjir misbrestir.

Vandinn í þessari umræðu er hins vegar sá að hér á landi er tjáningarfrelsi og það er prentfrelsi og það er erfitt að setja mönnum skorður um það hvað menn setja fram. Hér var áðan vísað til skrifa Morgunblaðsins sem hugsanlega hallast að því að standa með tilteknum flokki og það blað kemur út í hundruðum þúsunda, eða milljónum eintaka á ári, ef menn vilja fara út í þetta. Ég man eftir að einhvern tíma tók Bændablaðið sérstaklega fram að minn flokkur væri bændum hættulegur. Ekki datt okkur í hug að reyna að fara að tengja það við einhverja stjórnmálaflokka. Þetta er vandinn í umræðunni, þetta er vandinn sem við er að etja og verður alltaf.

Hvort hægt sé að setja einhverjar reglur til að koma til móts við þetta þekki ég ekki, a.m.k. sé ég ekki leiðina, en það breytir ekki hinu að það er fínt að taka þessa umræðu og skynsamlegt. Við eigum að ræða þetta en ég sé í sjálfu sér ekki neina þá lausn í þessu að við komum í veg fyrir að einstaklingar í samfélaginu tjái sig á einn eða annan hátt.