Aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna

Fimmtudaginn 07. júní 2007, kl. 11:53:15 (0)


134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:53]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert, innlitið sem maður fær á stjórnarheimilið hér, nú þegar sléttar tvær vikur eru liðnar frá uppstigningardeginum. Hvað er að ske? Er ríkisstjórnin að falla? (EOK: Nei.) Nei, hér kemur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og lýsir því yfir að hér sé óvarlega farið, þetta sé algerlega óþarft plagg, þetta sé fordæmalaust og geri ekki annað en að auka væntingar í mjög kröppum efnahagslegum dansi sem þjóðin sé í og að þetta beri vott um lausagang í ríkisfjármálunum. Svo koma hér aðrir hv. þingmenn eins og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og segja: Hvað með vegamálin?

Þetta er athyglisvert innlit sem við fáum þarna á stjórnarheimilið. (Gripið fram í.) Og ég ætla ekki að svara frammíköllum frá hæstv. iðnaðarráðherra. (Gripið fram í.)

Það sem ég vil vekja athygli á er að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem er valdamikill maður í Sjálfstæðisflokknum sem er, ef menn skyldu ekki vita það, annar stjórnarflokkanna, hefur lýst því yfir að hann styðji ekki þessa þingsályktunartillögu. Og ég spyr: Eru það fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins í þessum sal? Ég spyr: Hvar er formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins? Því hefur verið lýst hér að a.m.k. hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi lýst andstöðu við þetta meginmál Samfylkingarinnar í ríkisstjórn. Eru fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins þeirrar skoðunar og kom það fram á þingflokksfundinum?