Friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár

Fimmtudaginn 07. júní 2007, kl. 18:37:22 (0)


134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

6. mál
[18:37]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það stendur í stjórnarsáttmála, stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar, vissulega: „Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna.“ Þetta er það sem stendur um Þjórsárver.

Það er ekki minnst einu orði á að ekki skuli ráðist í Norðlingaölduveitu, ekki einu orði. Og daginn eftir að ný ríkisstjórn tók til starfa ítrekaði hæstv. forsætisráðherra Geir Haarde að ef planið hefði verið að falla frá Norðlingaölduveitu hefði það staðið í sáttmálanum.

Skilaboðin sem við fáum í þessum efnum eru ekki skýr. Einhverjir segja hér: Já, það verður ekki gert á þessu kjörtímabili. Nú, eruð þið að bíða þangað til — eins og ég sagði einmitt áðan í minni ræðu eru orkufyrirtækin bara að bíða þetta af sér, sjá til. Er þetta stórhugurinn í kringum sjálf Þjórsárver? Hvað er svona erfitt við að taka af skarið við að vernda hjarta landsins?

Nú veit ég ekki hvort hv. þm. Helgi Hjörvar var viðstaddur í dag þær umræður, ég var það, og þar kom ýmislegt gagnlegt í ljós. Mér þykir undarlegt ef ekki á að gera meira til að breyta þeim venjum og siðum sem hingað til hafa verið höfð uppi hvað varðar náttúruvernd og stóriðju og orkumál á Íslandi.