Stjórnarráð Íslands

Þriðjudaginn 12. júní 2007, kl. 18:00:31 (0)


134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:00]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég flyt minnihlutaálit mitt, Jóns Magnússonar og Sivjar Friðleifsdóttur.

Minni hlutinn tekur ekki afstöðu til nafnbreytinga á ráðuneytum samkvæmt frumvarpinu, m.a. af þeirri ástæðu að verkaskiptingin er enn óljós. Það er mat minni hlutans að eðlilegt hefði verið að verkaskiptingin hefði legið fyrir áður en gengið hefði verið til afgreiðslu frumvarpsins en um hana er nú óvissa. Það má segja að hér hafi eggið komið á undan hænunni.

Ýmis afar vandasöm vandamál blasa við varðandi þessar breytingar sem að mati minni hlutans hefur alls ekki verið hugsað út í heldur hefur skipting ráðuneyta, úr ráðuneytum í það sem ég gæti kallað örráðuneyti, valdið því að það þarf að fara í þessa vegferð en óvissan er mikil og vandinn mikill fram undan. Það varðar m.a. landbúnaðarskólana og hugsanlegan flutning þeirra undir menntamálaráðuneytið, það varðar byggðamálin og ekki síst Tryggingastofnun ríkisins og flutning verkefna þaðan. Það rekst svolítið hvað á annars horn.

Með f-lið 1. gr. frumvarpsins verður forseta Íslands heimilt að úrskurða um sameiningu ráðuneyta. Okkur er ljóst að slíkt fyrirkomulag tíðkast víða annars staðar og er markmið þess að gera framkvæmdarvaldinu auðveldara að fækka ráðuneytum. Sjálfur hef ég fyrirvara um þetta og hefði talið eðlilegra að slík breyting yrði gerð á grundvelli löggjafar.

Þá breytingu að gera Hagstofu Íslands að ríkisstofnun í stað ráðuneytis telur minni hlutinn eðlilega með tilliti til þeirra verkefna sem stofnunin sinnir nú og styður hann breytinguna hvað það varðar.

Minni hlutinn samþykkir hins vegar ekki 3. gr. frumvarpsins þar sem afnumin er sú skylda að auglýsa störf innan Stjórnarráðsins. Þessari grein er skellt inn í frumvarpið án nokkurra tengsla við þær breytingar sem uppstokkun ráðuneyta í kjölfar ríkisstjórnarskipta kallar á og er gerð án samráðs við stéttarfélög starfsmanna ráðuneytisins. Það kom í ljós á fundum nefndarinnar að þessi breyting byggir á einhliða ákvörðun forsætisráðuneytisins, eða hæstv. forsætisráðherra, án nokkurs samráðs.

Þessi breyting er nokkuð í anda þeirra breytinga sem gerðar voru á réttarstöðu starfsmanna þeirra ríkisfyrirtækja sem einkavædd voru á síðasta kjörtímabili. Ég nefni Ríkisútvarpið og Matvælastofnun Íslands og fleiri fyrirtæki sem einkavædd voru á síðasta kjörtímabili. Ég sagði þá í einhverri ræðu að manni sýndist þáverandi ríkisstjórn vera í nöp við opinbera starfsmenn og mér sýnist með þessari 3. gr. hér hafa orðið framhald á þeirri andúð sem maður merkti í fari fyrri ríkisstjórnar í garð opinberra starfsmanna.

Nefndin fékk fulltrúa BSRB og BHM á fund sinn og bæði stéttarfélögin vara eindregið við breytingu á auglýsingaskyldunni sem nú gildir. Í umsögn BSRB segir m.a. orðrétt:

„BSRB leggst á hinn bóginn alfarið á móti 3. gr. frv. sem felur í sér að afnumin verði sú skylda að auglýsa laus störf innan Stjórnarráðsins. BSRB varar við því að hróflað verði við auglýsingaskyldunni og telur mikilvægt að fólki séu gefin jöfn tækifæri til starfa og starfsframa innan Stjórnarráðsins. Bandalagið áréttar að markmiðið með starfsauglýsingum er ekki eingöngu að tryggja jöfn tækifæri til starfa og starfsframa heldur einnig að hæfasti einstaklingur sem völ er á hverju sinni verði ráðinn til starfans. Jafnframt telur BSRB mikilvægt að gagnsæi sé viðhaft við ráðningar í störf. Sé þess gætt dregur verulega úr svigrúmi til ómálefnalegra vinnubragða við ráðningar.

BSRB telur afar mikilvægt að ákvarðanir um ráðningar starfsmanna séu sýnilegar og að fólk, jafnt innan Stjórnarráðsins sem utan, geti auðveldlega séð hvernig að þeim sé staðið í öllum aðalatriðum. Jafnframt telur bandalagið mjög mikilvægt í þessu samhengi að horft sé til þeirra varna sem þegar eru fyrir hendi til að auka möguleika kvenna og aðkomu þeirra að störfum. Ekki verður annað séð en 3. gr. frv. kollvarpi helstu vörnum í þessu efnum. Að þessu leyti, sem og í ýmsum öðrum veigamiklum atriðum er það því niðurstaða BSRB að með frv. þessu sé verið að stíga stórt skref aftur á bak.“

Fyrir mér er það alvarlegt mál ef stigið er skref til baka í jafnréttismálum því að ekki var úr háum söðli að detta í þeim efnum. Gagnsæ og lýðræðisleg umfjöllun um stöðuveitingar er helsta vopn kvenna í baráttu þeirra til jafnræðis og jafnréttis. Stöðuveitingaleyndin, ógagnsæið, er gróðrarstía mismununar rétt eins og leyndin um laun er gróðrarstía kynbundins launamunar.

Það er mín skoðun að þessi breyting sé ekki í anda jafnréttislaga og þeirrar sóknar sem við viljum viðhafa í réttindabaráttu kvenna. Ég minni á þau markmið jafnréttislaga í þessum efnum sem eru að „koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins“ og að allir „einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði“. Enn fremur segir síðan í lögunum að markmiði þessu skuli náð með því að „gæta jafnréttissjónarmiða á öllum sviðum samfélagsins“ og „bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu“.

Umrædd 3. gr. er afturför að mínu mati í þessum efnum en ekki framsækið spor eins og raunin hefði þurft að verða eður að láta kyrrt liggja. Þetta óheillaspor byggir, eins og ég sagði fyrr, á einhliða ákvörðun hæstv. forsætisráðherra og hún er að mínu mati á skjön við þessi markmið jafnréttislaga.

Í umsögn BSRB segir enn fremur:

„Í 3. gr. frv. er opnað á mjög almenna meðferð við ráðningar í störf og reyndar svo að ógerlegt er að lesa út úr frv. hvernig ráðningarferlið á að fara fram. M.a. má spyrja eftirtalinna spurninga í þessu sambandi:

1. Verður starfsmaður valinn í laust starf án þess að öðrum starfsmönnum Stjórnarráðsins sé veitt formlegt tækifæri til að gefa kost á sér til starfsins?

2. Verða laus störf í öllum tilvikum auglýst innan Stjórnarráðsins?

3. Verður það matsatriði hverju sinni hvernig staðið skuli að vali starfsmanns, þ.e. hvort aðeins einn tiltekinn komi til greina eða að auglýst verði og þá til hvaða hóps auglýsing eigi að höfða?

Í þessu samhengi er jafnframt rétt að huga grannt að því hvað verði um rökstuðning fyrir stöðuveitingum eftir ráðningarferli á borð við það sem að framan er lýst. Það kemur ekki skýrt fram. Getur einstaklingur sem ekki hefur verið viðraður í stöðu óskað eftir rökstuðningi fyrir flutningi eða ráðningu starfsfélaga?“

Síðar segir í umsögninni:

„Með hliðsjón af framansögðu varar BSRB við því að afnema auglýsingaskyldu innan Stjórnarráðs Íslands. Bandalagið óttast að með þessu sé verið að stíga fyrsta skrefið í þá átt að afnema auglýsingaskyldu á störfum hjá hinu opinbera. Sé það virkilega stefna stjórnvalda verður að gera þá lágmarkskröfu að þau marki þá stefnu sína einungis að vandlega athuguðu máli, að verklagsreglur verði skýrar og að fullt samráð verði haft við samtök launafólks.“

Það er mitt mat að breytingartillaga meiri hlutans megni ekki að sníða þá agnúa af frumvarpinu sem ég hef hér nefnt.

Þar segir eftirfarandi:

„Í reglum, sem forsætisráðherra setur, skal mæla fyrir um tilhögun auglýsinga innan Stjórnarráðsins um laus störf og önnur atriði er varða framkvæmd þessa ákvæðis.“

Hæstv. forsætisráðherra hefur algjörlega frjálsar hendur með það hvernig hann útfærir þessar reglur, hvað er auglýst, hvað er ekki auglýst, hvernig málsmeðferðin er og þar fram eftir götunum. Ég ítreka að það er enn ekkert samráð við samtök launafólks. Þessi breyting breytir ekki megininntaki þeirrar gagnrýni sem minni hlutinn hefur fram að færa á frumvarpið. Þar er hvorki mælt fyrir um eindregna fulla auglýsingaskyldu né samráð við hagsmunasamtök starfsmanna Stjórnarráðsins.

BHM tekur í sama streng og segir í umsögn sinni:

„BHM leggst hins vegar á móti því að auglýsingaskylda starfa verði afnumin innan Stjórnarráðs Íslands. Grunnhugsun bak við auglýsingaskyldu opinberra starfa er að tryggja að hæfasti starfsmaður sé ráðinn í hverju tilviki, jafnframt að gagnsæi sé tryggt við ráðningu opinberra starfsmanna. Í meðhöndlun almannafjár, svo sem við ráðningar starfsmanna, eru miklar skyldur lagðar á stjórnendur og ekki einungis þarf að tryggja að því sé vel ráðstafað, heldur má enginn vafi leika á að svo sé.

Bandalagið styður á allan hátt hreyfanleika starfsmanna innan opinbera vinnumarkaðarins og styður að þeim sé auðveldað að afla sér nýrrar reynslu, veita af sinni reynslu og öðlast ný tengsl. Má í því sambandi benda á það að starfsmenn geta fengið leyfi frá störfum til að vinna við erlendar stofnanir og að til eru reglur um skiptidvöl norrænna ríkisstarfsmanna. Einnig er nú í gangi tilraun með tímabundin vistaskipti starfsmanna með þátttöku fjögurra ráðuneyta og undirstofnana þeirra. Með hliðsjón af framangreindu varar BHM við því að afnema auglýsingaskyldu innan Stjórnarráðs Íslands og bendir á að engin rök hafi verið færð fyrir því hver sérstaða Stjórnarráðsins sé í þessu tilliti og óttast að þetta sé fyrsta skrefið til að afnema auglýsingaskyldu starfa hjá hinu opinbera.“

Ég vek sérstaka athygli á því tilraunaverkefni sem BHM vísar til. Með 3. gr. er hæstv. forsætisráðherra með einhliða inngrip í það verkefni sem á að standa til ársins 2008 og átti að þróast síðan áfram.

Minni hlutinn bendir á það enn fremur að óskum hans um að fulltrúar BHM og BSRB kæmu fyrir nefndina á nýjan leik var hafnað en minni hlutinn taldi mikilvægt að eiga kost á því að ræða við fulltrúa stéttarfélaganna þar sem nefndarmönnum hafði sama morgun borist í hendur skrifleg umsögn BSRB og BHM. Einnig var farið fram á að gerð yrði nánari grein fyrir þeim reglum sem forsætisráðherra hygðist setja í þessu sambandi en ekki var á það fallist. Þá var á það bent að óeðlilegt væri að löggjafarvaldið framseldi rétt sinn með þeim hætti sem lagt væri til, samanber viðbót við 3. gr. sem meiri hluti nefndarinnar leggur til, og einnig að málið væri tekið út úr nefndinni með meirihlutavaldi án þess það væri tilbúið til afgreiðslu. Málið var afgreitt úr nefndinni gegn atkvæðum minni hlutans og eindregnum óskum hans um frekari umsagnir og skoðun. Það gerir málsmeðferðina enn ámælisverðari að sáttaleiðir í málinu blöstu við en þeim var hafnað án viðhlítandi rökstuðnings.

Ég ítreka að þessi 3. gr. er hreint smyglgóss inn í þetta frumvarp, hreint og klárt smyglgóss, og kemur hvorki stjórnarskiptunum við né þeirri skiptingu ráðuneyta sem stjórnarflokkarnir hafa orðið ásáttir um, kemur því ekkert við þannig að tilgangurinn er einhver annar. Tilgangurinn er að mínu mati sá að leggja stein í götu starfsmanna ráðuneytisins og draga úr starfsmannalýðræði og gagnsæjum opinberum ráðningum. Það lá heldur ekkert á að lögfesta þetta ákvæði. Það gat fullkomlega beðið haustsins og vandaðrar og góðrar umfjöllunar allsherjarnefndar sem nefndarmenn voru svo sannarlega tilbúnir að leggja á sig, jafnvel nú á sumarþingi ef þess hefði verið kostur. Þetta veldur mér satt best að segja vonbrigðum í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur í stefnuyfirlýsingu sinni lýst því yfir að hún hyggist eiga gott samstarf við alla flokka á Alþingi og standa vörð um sjálfstæði Alþingis og eftirlitshlutverk þess. Þessi málsmeðferð fullnægir ekki þessum góða vilja ráðuneytisins.

Þessi 3. gr. er keyrð í gegn þrátt fyrir ummæli hæstv. utanríkisráðherra og formanns Samfylkingarinnar í stefnuumræðum sem ég hef farið með áður hér í ræðu en tel ekki vanþörf á að hafa yfir aftur. Hún sagði orðrétt við stefnuumræðuna:

„Ný ríkisstjórn er byrjuð á því verki að stokka upp verkaskiptingu ráðuneyta og innleiða ný vinnubrögð hjá framkvæmdarvaldinu. Ég vil leyfa mér að færa fram þá ósk að við sameinumst um að bæta vinnubrögð einnig hér á Alþingi Íslendinga. Okkur ber að vera öllu lýðræðislegu félagsstarfi í landinu góð fyrirmynd. Við eigum að leita sáttaleiða þegar þær eru færar en virða grundvallarmun á afstöðu án svikabrigsla eða stóryrða.“

Þessi vinnubrögð sem hæstv. utanríkisráðherra kallar eftir liggja ekki í þessari 3. gr., þvert á móti. Þarna koma upp gamalkunnir draugar, og vart draugar því að það er ekki búið að kveða þessi vinnubrögð niður. Þetta er nákvæmlega sama aðferðin og þegar Ríkisútvarpið var einkavætt og fleiri opinberar stofnanir, réttindi starfsmanna voru fyrir borð borin. Þar var þó verið að semja frumvörp um þær opinberu stofnanir sem átti að einkavæða. Hér er verið að huga að skiptingu ráðuneyta og þessu smyglgóssi er laumað inn.

Hæstv. utanríkisráðherra er ekki einhöm í þessum efnum samráðs og lýðræðis. Ég verð að minna á Borgarnesræður hv. formanns Samfylkingarinnar haldnar í febrúar og mars/apríl 2003, ræður sem vöktu verulega athygli og höfðu yfir sér blæ nýmæla í málsmeðferð, boðuðu nýtt fagnaðarerindi lýðræðis og málefnalegra ákvarðana á 21. öldinni. Fyrri ræðuna flutti hv. formaður Samfylkingarinnar í Borgarnesi 9. febrúar. Hún fór illilega fyrir brjóstið á stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins og jafnvel fleiri.

Í síðari ræðunni segir hv. formaður Samfylkingarinnar orðrétt:

„Síðan þessi fundur var haldinn þann 9. febrúar, þá hef ég verið á ferð og flugi um landið með formanninum og öðrum frambjóðendum og við höfum verið að tala milliliðalaust við fólk. Við höfum haldið 24 opna fundi og þetta er líklega sá 25. Við höfum verið að tala við fólk um það sem skiptir máli í pólitík, hin pólitísku aðalatriði vorsins. Og ég hef komist að því að það sem ég sagði í Borgarnesi þann 9. febrúar á sér samsvörun hjá fólkinu í landinu og það sem ég sagði þó ég hafi ekki talið það merkilegt á þeim tíma, það skiptir máli. Ég hef fengið staðfestingu á því að fólki mislíkar hvernig gæðum og embættum er útdeilt í samfélaginu, að fólk hefur fengið sig fullsatt á sjálfmiðuðu stjórnlyndi stjórnarherranna, að fólk vill gefa stjórnmálunum nýtt inntak og nýja ímynd, að fólk vill leggja áherslu á lífsgæði sem eru ekki bara efnisleg gæði heldur lúta að aðgangi að fjölbreyttri menningu, góðri menntun og öruggu velferðarkerfi. Fólk vill að jafnrétti, sanngirni og réttlæti séu leiðarljós í stefnumótun hins opinbera. Fólk vill þróa hér sómasamlegt samfélag þar sem stofnanir og stjórnmálamenn koma fram af virðingu gagnvart fólki, fara að leikreglum sem eru gegnsæjar og það sé fyllsta jafnræðis gætt. Þar sem staða, stétt og flokkspólitísk afstaða skiptir ekki máli, þar sem býr ein þjóð í einu landi.“

Því er það svo þá í anda þessarar ræðu að hér er skotið inn bakdyramegin eða smyglað inn þessari 3. gr. án nokkurs samráðs við stéttarfélög starfsmanna Stjórnarráðsins? Er þetta ekki gamalt vín á nýjum belgjum? Auðvitað er það það. Ég hygg reyndar að belgurinn sé gamall enn þá. Ég held að hinum nýja stjórnarflokki hafi verið troðið inn í hinn gamla belg og sitji þar.

Rauði þráðurinn í þessum Borgarnesræðum hv. formanns Samfylkingarinnar var samráð og samræða, samræðupólitík, en ekki átakastjórnmál hins stjórnlynda Sjálfstæðisflokks, eins og það var margsinnis orðað, hins stjórnlynda Sjálfstæðisflokks. Á þessu sumarþingi hafa hin fögru fyrirheit í Borgarnesræðunum brugðist. Það er miður og boðar ekki gott og það er í annað sinn á þessu stutta sumarþingi sem þetta gerist.

Er Sjálfstæðisflokkurinn hættur að vera stjórnlyndur? (Gripið fram í.) Er það ekki stjórnlyndi að taka burtu auglýsingaskyldu án nokkurs samráðs við starfsmenn Stjórnarráðsins? Hvaða afleiðingar getur það haft þegar menn makka bak við tjöldin? Það er ekki góð starfsmannastefna. Það skapar ólgu og óróa að vera ekki með gagnsætt lýðræði í ráðningum og velja þann hæfasta.

Þessi 3. gr. er dæmigerð stjórnlyndisgrein og mikil vonbrigði að því er varðar fyrirheit ríkisstjórnarinnar í stefnuyfirlýsingunni og Borgarnesræður hv. formanns Samfylkingarinnar. Ég lýsi vanþóknun minni á þessum vinnubrögðum.