Stjórnarráð Íslands

Þriðjudaginn 12. júní 2007, kl. 18:26:59 (0)


134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:26]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi afstöðu starfsmanna og stéttarfélaganna í þessu máli er það rétt sem kom fram í máli hv. þm. Atla Gíslasonar að BHM og BSRB lögðust gegn þessu ákvæði frumvarpsins. Hins vegar er líka rétt að geta þess að þeir sem komu fyrir nefndina fyrir hönd starfsmanna Stjórnarráðsins voru jákvæðir í garð breytinganna. Talsmaður félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins var afar jákvæður og fulltrúi starfsmannafélags Stjórnarráðsins taldi að breytingarnar væru til bóta. Ég gat ekki skilið orð hennar öðruvísi.

Hins vegar gat hún þess aðspurð að hún teldi rétt að þarna giltu einhverjar reglur vegna þess að hún hafði áhyggjur af því að ekki væri skýrt að starfsmenn innan Stjórnarráðsins hefðu raunverulega vitneskju um störf sem losnuðu með þessum hætti.

Segja má að með þeirri breytingartillögu sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur til við þessa umræðu sé komið til móts nákvæmlega við þessi sjónarmið. Það var raunar gert í athugasemdum með frumvarpinu. En í breytingartillögunni er skýrt kveðið á um að forsætisráðherra skuli setja reglur um tilhögun auglýsinga og aðra þætti sem varða framkvæmd þessa ákvæðis. Í því felst auðvitað að kominn er rammi sem hægt er að vinna eftir.

Með öðrum orðum verður tryggt með setningu reglna af þessu tagi að ekki verður um geðþóttaákvarðanir að ræða eins og sumir óttuðust í upphafi. Það verður ekki um að ræða neinar geðþóttaákvarðanir enda stóð það aldrei til heldur verða skýrar reglur sem gilda um þetta. Og það m.a. gefur auðvitað þeim sem áhuga hafa á þessum störfum, en fá ekki, tækifæri til þess að leita réttar síns á grundvelli almennra stjórnsýslureglna, sem að sjálfsögðu munu áfram gilda um ákvarðanir af þessu tagi.