Almannatryggingar og málefni aldraðra

Miðvikudaginn 13. júní 2007, kl. 14:51:53 (0)


134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:51]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Já, við í Framsóknarflokknum teljum líka að þetta sé ekki rétt skref sem meiri hlutinn er að taka. Til að stytta mál mitt vil ég koma því á framfæri að hér á að nota fjármuni sem reyndar er deilt um hvað eru miklir. Í kostnaðarmatinu kemur fram að frumvarp ríkisstjórnarinnar muni kosta 560–700 millj. kr. Þó hefur komið fram í máli hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar að hugsanlega kostar þetta mun meira, jafnvel helmingi meira, en segjum að það kosti þetta sem fram kemur í kostnaðarmatinu, 560–700 millj. kr., að afnema tengingarnar hjá þeim sem eru 70 ára eða eldri — þá er það það fjármagn sem menn ætla að setja í þetta skref, skref sem hér er búið að færa afar sterk rök bæði í 2. og 3. umr. fyrir að sé ekki það sem ætti að taka fyrst, alls ekki, og gagnast ekki þeim sem lakast eru settir. Miklu nær væri að nota þessa peninga á annan hátt eins og minni hlutinn hefur flutt tillögu um og var felld. Þar var lagt til að til að sem flestir mundu hagnast á breytingum yrði frítekjumarkið hækkað úr 300 þús. kr. upp í 960 þús. kr., bæði fyrir ellilífeyrisþega — og þá alla ellilífeyrisþega, 67 ára og eldri — og líka þá sem taka örorkubætur.

Sú aðgerð hefði kostað í kringum 490 millj. kr., virðulegur forseti, þannig að það hefði sem sagt verið nálægt neðri mörkum kostnaðarmats meiri hlutans. Sú leið hefði ekki kostað meira en meiri hlutinn er að leggja til, alls ekki, hún hefði kostað nálægt neðri mörkunum þannig að minni hlutinn lagði fram tillögu um að hækka frítekjumarkið á alla þannig að það væri hvati fyrir alla til að vinna og fá þá minni skerðingar. Það felldi hins vegar meiri hlutinn í atkvæðagreiðslu og það kemur okkur sérstaklega spánskt fyrir sjónir af því að Samfylkingin lagði svo mikla áherslu á þetta á síðasta kjörtímabili. Samfylkingin hélt varla ræðu úr þessum ræðustól nema koma því á framfæri varðandi lífeyrismálin að það ætti að hækka frítekjumarkið. Frítekjumarkið var nýmæli sett á í tíð síðustu ríkisstjórnar og þar var valið að fara í 300 þús. kr. á ári en við leggjum til að það verði hækkað í 960 þús. kr. Það var sem sagt fellt þannig að hér er ekki farin leið jöfnunar.

Maður hlýtur að spyrja sig af hverju Samfylkingin styðji þetta mál. Af hverju samdi Samfylkingin svona við Sjálfstæðisflokkinn, að styðja það ekki að fara leið jafnaðar? Það vekur mikla furðu. Nú á að skilja eftir aldurshópinn 67–70 ára og hugsanlega gera eitthvað fyrir hann síðar eins og hér hefur komið fram. Við í Framsóknarflokknum lýsum mikilli furðu yfir þessari leið þar sem við teljum að ekki sé verið að taka það skref sem réttast væri að taka á þessari stundu sem við teljum að væri að nýta peningana þannig að allur hópurinn hefði hag af því, allir lífeyrisþegar og líka örorkulífeyrisþegar, og það er að hækka frítekjumarkið.