Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 10. máls.
134. löggjafarþing 2007.
Þskj. 10  —  10. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, sbr. lög nr. 74/1992, 102/1993 og 68/2007.

Flm.: Arnbjörg Sveinsdóttir, Lúðvík Bergvinsson.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      2. tölul. 1. mgr. orðast svo: Efnahags- og skattanefnd; og jafnframt bætist nýr töluliður við sömu málsgrein, í stafrófsröð, svohljóðandi: Viðskiptanefnd.
     b.      3. tölul. 1. mgr. orðast svo: Félags- og tryggingamálanefnd; og 5. tölul. sömu málsgreinar orðast svo: Heilbrigðisnefnd.
     c.      7. tölul. 1. mgr. fellur brott og jafnframt orðast 10. tölul., er verður 9. tölul., sömu málsgreinar svo: Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.

2. gr.

    Í stað orðanna „efnahags- og viðskiptanefndar“ í 3. málsl. 2. mgr. 25. gr. laganna kemur: efnahags- og skattanefndar, og í stað orðanna „Efnahags- og viðskiptanefnd“ í 5. málsl. sömu málsgreinar kemur: Efnahags- og skattanefnd.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp til breytingar á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum, er hér lagt fram til samræmis við frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, sem þingflokkar stjórnarflokkanna hafa sameinast um að flutt verði og ráðgera að verði afgreitt á þessu þingi. Með breytingum á þeim lögum verða ráðuneyti sameinuð og breytingar gerðar á heitum ráðuneyta vegna tilfærslu á málaflokkum milli þeirra. Skipan og heiti fastanefnda Alþingis hafa tekið mið af heitum ráðuneyta og skiptingu málaflokka milli þeirra og er í 1. mgr. 23. gr. þingskapa kveðið á um að vísa skuli frumvörpum, þingsályktunartillögum og skýrslum til nefnda eftir efni þeirra og hafa um það hliðsjón af skiptingu málefna í Stjórnarráðinu. Þingnefndir eru samkvæmt nýlegum breytingum á þingsköpum kosnar fyrir allt kjörtímabilið og því mikilvægt að nefndaskipan liggi fyrir þegar í upphafi kjörtímabils og miðist við það hvernig skipan Stjórnarráðsins er ætlað að verða. Með þessu frumvarpi verður því samræmi milli heita ráðuneyta og fastanefnda þingsins og málaflokka.