Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 11. máls.
134. löggjafarþing 2007.
Þskj. 22  —  11. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra.

Frá meiri hluta heilbrigðisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Vilborgu Þ. Hauksdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Karl Steinar Guðnason, Sigurð M. Grétarsson, Sigríði Lillý Baldursdóttur og Ágúst Þór Sigurðsson frá Tryggingastofnun ríkisins, Borgþór S. Kjærnested, Helga Hjálmsson og Margréti Margeirsdóttur frá Landssambandi eldri borgara, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands og Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins. Þá hefur nefndinni borist umsögn um málið frá Landssambandi eldri borgara.
    Frumvarp þetta er flutt í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007 og hefur að markmiði að stuðla að bættum hag aldraðra. Með frumvarpinu er lagt til að atvinnutekjur ellilífeyrisþega og vistmanna 70 ára og eldri hafi ekki áhrif á fjárhæð ellilífeyris, tekjutryggingar, vasapeninga og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Jafnframt er lagt til að atvinnutekjur vistmanna 70 ára og eldri hafi ekki áhrif á greiðsluþátttöku þeirra í dvalarkostnaði á dvalar- og hjúkrunarheimilum fyrir aldraða. Til að ná þessu markmiði eru annars vegar lagðar til breytingar á 26. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, og hins vegar 16. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.
    Meiri hluti nefndarinnar vekur athygli á því að atvinnutekjur 70 ára og eldri hafa ekki heldur áhrif á fjárhæð heimilisuppbótar skv. 8. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, sbr. 13. gr. sömu laga. Í 13. gr. laganna kemur fram að ef greiðsla samkvæmt lögunum er grundvölluð á tekjum umsækjanda eða bótaþega skuli þær ákveðnar skv. 16. gr. laga um almannatryggingar.
    Meiri hlutinn áréttar að með þessum breytingum hafa atvinnutekjur 70 ára og eldri hvorki áhrif á fjárhæð lífeyris þeirra sjálfra né lífeyris maka þeirra frá Tryggingastofnun ríkisins. Meiri hlutinn leggur því til að c-lið 1. gr. frumvarpsins og 2. gr. þess verði breytt þannig að þessi skilningur komi skýrt fram.
    Samkvæmt 5. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga, nr. 100/2007, og 5. mgr. 26. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, eru bætur reiknaðar út frá tekjum lífeyrisþega og vistmanna á almanaksári. Í þessum ákvæðum kemur fram að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/ 12af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Þá segir að bótagreiðsluár sé almanaksár. Í ljósi þess að miðað er við að frumvarp þetta verði að lögum á miðju ári, þ.e. 1. júlí 2007, þarf að leysa úr eftirfarandi úrlausnarefni. Verði frumvarpið að lögum er ljóst að skipta verður almanaksárinu upp hjá þeim lífeyrisþegum og vistmönnum sem hafa atvinnutekjur og verða 70 ára á almanaksárinu. Þannig munu tekjur sem þeir afla fyrir 70 ára aldurinn skerða bætur með sama hætti og nú en aftur á móti munu tekjur sem aflað er eftir að 70 ára aldri er náð ekki skerða bæturnar. Hið sama gildir um atvinnutekjur maka, þ.e. þær skerða ekki bætur lífeyrisþegans sé þeirra aflað eftir að 70 ára aldri er náð. Atvinnutekjur maka á aldrinum 67–69 ára geta hins vegar haft áhrif á tekjutryggingu lífeyrisþega sem orðinn er 70 ára eða eldri, sbr. b-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.
    Áætluðum tekjum lífeyrisþega og vistmanna fyrir árið 2007 hefur í samræmi við ákvæði 5. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga, nr. 100/2007, og 5. mgr. 26. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, þegar verið dreift jafnt yfir allt árið og hefur verið greitt út samkvæmt því, enda var ekki gert ráð fyrir því við gerð tekjuáætlana fyrir árið í ár að skipta þyrfti árinu upp miðað við 70 ára aldurinn. Þetta kann einnig að valda erfiðleikum við endurreikning og uppgjör bóta sem kveðið er á um í 7. og 8. mgr. 26. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, og 7. og 8. mgr. 16. gr., sbr. 55. gr., almannatryggingalaga, nr. 100/2007.
    Þrátt fyrir að það sé almennt ívilnandi fyrir þennan hóp ellilífeyrisþega að dreifa tekjum jafnt yfir árið er það ekki svo í öllum tilvikum. Með hliðsjón af þessu og til að tryggja hagstæðustu niðurstöðu fyrir alla lífeyrisþega og vistmenn 70 ára og eldri leggur meiri hlutinn til að sett verði bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið verði á um að ellilífeyrisþegar og vistmenn 70 ára og eldri geti óskað eftir því við Tryggingastofnun ríkisins að tekjum þeirra og/eða maka verði skipt niður á tímabil fyrir og eftir gildistöku laganna eða 70 ára aldur, eftir því hvort er síðar á árinu. Á þetta ákvæði reynir einkum ef meðaltekjur á mánuði fyrir 70 ára aldur eru lægri en eftir að 70 ára aldri er náð. Ef meðaltekjur á mánuði fyrir 70 ára aldur eru hærri en eftir þann aldur hagnast viðkomandi einstaklingur á því að árið sé reiknað út í einu lagi. Það stafar af því að í jafndreifingu tekna kemur lægra hlutfall árstekna til skerðingar en raunverulega var aflað fyrir 70 ára aldur. Þessu er öfugt farið ef meðaltekjur á mánuði fyrir 70 ára aldur eru lægri en eftir það þar sem þá kemur hærra hlutfall árstekna til skerðingar en raunverulega var aflað fyrir 70 ára aldur.
    Síðari málsliður bráðabirgðaákvæðisins mun aðeins taka til tiltölulega fárra einstaklinga og mun einkum gilda ef meðaltekjur hækka við 70 ára aldur. Meiri hlutinn leggur áherslu á að Tryggingastofnun ríkisins gegni leiðbeiningarskyldu sinni og hafi frumkvæði að því að upplýsa bótaþega um þetta atriði. Jafnframt leggur meiri hlutinn áherslu á að Tryggingastofnun upplýsi alla aldraða um þá breytingu að atvinnutekjur þeirra sem eru 70 ára eða eldri skerði ekki bætur frá stofnuninni.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 8. júní 2007.




Ásta Möller,


form., frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Pétur H. Blöndal.



Árni Páll Árnason.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Ellert B. Schram.