Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 15. janúar 2008, kl. 15:41:24 (3510)


135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:41]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi tal hv. þingmanna um að jafnréttisáætlanirnar geti verið íþyngjandi eða að það þurfi að forða smáum fyrirtækjum frá íþyngjandi aðgerðum löggjafans vil ég segja þetta: Jafnréttisstofa er samkvæmt frumvarpinu ráðgefandi um setningu jafnréttisáætlana. Ég treysti Jafnréttisstofu fullkomlega til þess að gefa litlum fyrirtækjum ráð sem mundu auðvelda þeim að uppfylla markmið laganna á þann hátt sem hagkvæmast yrði og útheimti minnst útgjöld eða minnst umstang.

Ég treysti því líka og veit að Jafnréttisstofa mundi ráðleggja litlu einkafyrirtæki á allt öðrum nótum en risastórri stofnun með tugi manns í vinnu. Mér finnst þetta því ákveðið vantraust sem nefndin sýnir Jafnréttisstofu, að hún skuli ekki treysta Jafnréttisstofu til að ráðleggja fyrirtækjum miðað við stærð og umfang viðkomandi fyrirtækja. Mér finnst ákveðin uppgjöf í því sem leysa á með flóttanum inn í einhverja hugmyndafræði um vottunarkerfi, sem menn hafa ekki hugmynd um hvort yfir höfuð verður nokkurn tíma framkvæmanlegt, hvað þá að fara eftir því.

Ég tel að menn séu að íþyngja löggjafanum og málaflokknum um of með því að setja upp vottunarkerfi sem hvergi nokkurs staðar hefur verið reynt að gera með viðlíka hætti og að mínu mati eru allar líkur á því að það sé dæmt til að mistakast.

Varðandi jafnréttisþingin vil ég segja að auðvitað eru jafnréttisþingin samkvæmt frumvarpinu mjög fín hugmynd og eiga eftir að verða lífleg og þar á eftir að takast á um skoðanirnar. Þar er auðvitað vettvangur frjálsra félagasamtaka til að koma að umræðunni. En í Jafnréttisráði á Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum miklu meira erindi (Forseti hringir.) en nokkur frjáls félagasamtök, eins og Félag um foreldrajafnrétti.