Atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

Þriðjudaginn 22. janúar 2008, kl. 19:27:49 (3886)


135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[19:27]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um frjálsan atvinnubúseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta tekur m.a. mið af þeim breytingum sem orðið hafa á innlendum vinnumarkaði í kjölfar stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins á árinu 2004 þegar tíu ríki gerðust aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ríkisborgarar þessara ríkja hafa notið ákveðins forgangs í laus störf hér á landi síðan við stækkun svæðisins en þeim var veitt heimild til frjálsrar atvinnuleitar í maí 2006. Njóta þeir því þeirra réttinda að ráða sig til starfa á innlendum vinnumarkaði með sama forgangsrétti og íslenskir ríkisborgarar enda þótt vinnuveitendum beri að tilkynna ráðningu þeirra til Vinnumálastofnunar.

Fjölmargir ríkisborgarar nýju aðildarríkjanna hafa nýtt sér þessar heimildir og komið hingað til starfa enda hefur eftirspurn eftir vinnuafli verið mikil. Til marks um það hversu hröð þróunin hefur verið bendi ég á að frá árinu 2005 og fram til síðustu áramóta hafa rúmlega 16 þúsund einstaklingar frá þessum aðildarríkjum komið hingað til starfa. Flestir þessara launamanna voru ráðnir í ósérhæfð störf hér á landi. Reynslan hefur því sýnt að nokkur hreyfanleiki er meðal ríkisborgara þessara aðildarríkja hingað til lands. Við höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa að öllu jöfnu haft hátt atvinnustig á innlendum vinnumarkaði og þannig viljum við hafa það áfram. Til að stuðla að því markmiði hefur m.a. verið lögð áhersla á framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga, að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir starfsfólki á innlendum vinnumarkaði sé viðhaldið.

Í ljósi breyttra aðstæðna á vinnumarkaði hefur því þótt enn frekari ástæða til að líta til þeirra langtímaáhrifa sem útgáfa atvinnuleyfa vegna tímabundins skorts á vinnuafli getur haft á framangreint jafnvægi á vinnumarkaði. Á sama tíma þarf jafnframt að horfa til áhrifa hnattvæðingarinnar þar sem heimurinn verður sífellt minni og innlend sem erlend fyrirtæki teygja anga sína yfir landamæri og jafnvel yfir til fjarlægra heimshorna. Samkeppni atvinnulífsins um hæft starfsfólk verður sífellt harðari og sá mannauður sem fyrirtækin telja sig þurfa oft og tíðum ekki auðfenginn. Þarf því að leita fanga víða og þá ekki síður til ríkja sem standa utan við Evrópska efnahagssvæðið. Í þeim tilgangi að samræma þessi markmið er talið nauðsynlegt að löggjöfin um atvinnuréttindi útlendinga sé gerð skýrari en verið hefur. Er því lagt til með frumvarpi þessu að teknar verði upp fleiri tegundir tímabundinna atvinnuleyfa en samkvæmt gildandi lögum er einungis um að ræða eina almenna tegund atvinnuleyfa sem flestum sem fá leyfi er veitt án tillits til þess hvaða ástæður liggja að baki ráðningu viðkomandi útlendinga hingað til lands. Er þar með stuðlað að því að ljóst sé á hvaða grundvelli atvinnuleyfi eru veitt hér á landi og hvaða skilyrði þarf að uppfylla hverju sinni. Verður slíkt að teljast til samræmis við auknar kröfur um málefnalega, faglega og gagnsæja stjórnsýslu. Síðast en ekki síst er lagt til að skýrar komi fram hvaða tegundir atvinnuleyfa geta orðið grundvöllur ótímabundinna atvinnuleyfa.

Auk þessara nýju tegunda tímabundinna atvinnuleyfa er jafnframt miðað við að tímabundin atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna er koma tímabundið hingað til lands á grundvelli þjónustusamninga við erlend fyrirtæki verði áfram í lögum um atvinnuréttindi útlendinga.

Það hefur verið talið mjög brýnt að komið sé til móts við þarfir íslensks atvinnulífs eftir starfsfólki í störf sem krefjast sérfræðiþekkingar sem ekki er fáanleg eða a.m.k. ekki auðfengin meðal þeirra sem þegar hafa aðgengi að innlendum vinnumarkaði. Er frumvarpi þessu m.a. ætlað að mæta þessum kröfum en lagt er til að ein af þeim tegundum atvinnuleyfa sem teknar verði upp verði sérstök tímabundin atvinnuleyfi vegna starfa sem krefjast sérfræðiþekkingar. Þessi krafa er ekki einstök fyrir íslenskan vinnumarkað heldur virðist hið sama eiga við í nágrannaríkjum okkar. Málið snýst því fyrst og fremst um samkeppni um hæfasta fólkið hvaðan sem það kemur úr heiminum. Er því nauðsynlegt að styðja við íslenskt atvinnulíf að þessu leyti svo að fyrirtækin geti m.a. staðist betur samkeppni að utan sem hlýtur að teljast þýðingarmikið svo að tryggja megi áframhaldandi velgengni í íslensku atvinnulífi.

Skilyrði fyrir veitingu tímabundinna atvinnuleyfa vegna starfa sem krefjast sérfræðiþekkingar er að sérfræðiþekking viðkomandi útlendings sé hlutaðeigandi fyrirtæki nauðsynleg. Miðað er við að Vinnumálastofnun verði heimilt að hraða afgreiðslu slíkra umsókna og jafnframt að stofnuninni verði m.a. heimilt að víkja frá vinnumarkaðssjónarmiðum þegar um er að ræða störf sem krefjast háskólamenntunar. Þá er gert ráð fyrir að stofnuninni verði jafnframt heimilt að víkja frá vinnumarkaðssjónarmiði í öðrum tilvikum þegar um er að ræða þess konar sérfræðistörf að það sé fyrirsjáanlega árangurslaust að leita eftir starfsfólki á sameiginlegum vinnumarkaði Evrópska efnahagssvæðisins að mati stofnunarinnar enda um mjög sérhæfða þekkingu að ræða. Tímabundið atvinnuleyfi vegna starfa sem krefjast sérfræðiþekkingar geta orðið grundvöllur óbundinna atvinnuleyfa.

Líkt og fram kom í upphafi ræðu minnar hefur mikill fjöldi ríkisborgara ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins ráðið sig til starfa hér á landi á undanförnum missirum en í flestum tilfellum hefur verið um að ræða störf sem ekki krefjast sérstakrar sérfræðiþekkingar. Hefur því veiting atvinnuleyfa á grundvelli laganna um atvinnuréttindi útlendinga að sama skapi dregist saman enda eiga framangreindir ríkisborgarar forgang í laus störf hér á landi fram yfir ríkisborgara utan svæðisins. Í ljósi þessa og hugsanlegra langtímaáhrifa um veitingu atvinnuleyfa á jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar starfsfólks þykir mikilvægt að veiting tímabundinna atvinnuleyfa vegna tímabundins skorts á starfsfólki sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði verði betur afmörkuð við tímabundnar sveiflur í atvinnulífinu en áður. Þannig er áfram gert ráð fyrir að það kunni að koma upp tilvik þar sem atvinnurekandi þurfi að ráða til sín ríkisborgara utan Evrópska efnahagssvæðisins og mæta þannig tímabundnum sveiflum í íslensku atvinnulífi. Hins vegar er miðað við að um sé að ræða undantekningartilvik þar sem atvinnurekendum ber að leita fyrst eftir starfsfólki sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði hvort sem er hér á landi eða innan Evrópska efnahagssvæðisins áður en leitað er lengra eftir starfsfólki. Jafnframt er miðað við að eingöngu sé um að ræða tímabundnar sveiflur sem ekki er ætlað að vara lengur en tvö ár. Gert er ráð fyrir að hið sama geti átt við um afmarkaðar og tímabundnar verkframkvæmdir sem kalla á frekari mannaflaþörf og er þá heimilt að endurnýja atvinnuleyfi vegna starfa við hlutaðeigandi framkvæmd þar til henni lýkur. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að sambærileg skilyrði liggi fyrir veitingu slíkra leyfa og er að finna í 7. gr. gildandi laga um atvinnuréttindi útlendinga.

Hæstv. forseti. Það hefur færst í vöxt að íslensk íþróttafélög óski eftir því að erlendir þjálfarar og leikmenn fái að starfa undir merkjum viðkomandi félaga. Eru því lögð til þau nýmæli að fjallað verði um skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfa vegna starfa íþróttafólks hjá íþróttafélögum innan Íþróttaólympíusambands Íslands í sérstöku ákvæði. Markmiðið með þessu ákvæði er að lögfesta þá framkvæmd sem verið hefur á veitingu atvinnuleyfa vegna starfa íþróttafólks innan íþróttafélaga þannig að því verði jafnframt óheimilt að gegna öðrum störfum á innlendum vinnumarkaði samhliða starfi sínu hjá viðkomandi íþróttafélagi. Ástæðan er sú að önnur sjónarmið liggja að baki veitingu atvinnuleyfa hjá íþróttafélögum heldur en gilda um veitingu atvinnuleyfa vegna almennra starfa á innlendum vinnumarkaði. Hefur í því sambandi einkum verið litið svo á að það geti eflt íslensk íþróttafélög að fá hingað til lands erlent íþróttafólk sem þykir skara fram úr á sínu sviði og getur þannig reynst hvatning fyrir ungt fólk innan íþróttahreyfingarinnar. Er því gert ráð fyrir að ekki þurfi að huga sérstaklega að vinnumarkaðssjónarmiðum við veitingu slíkra atvinnuleyfa eins og gildir um veitingu atvinnuleyfa vegna starfa á vinnumarkaði.

Í frumvarpinu eru enn fremur lagðar til breytingar á veitingu atvinnuleyfa vegna erlendra ríkisborgara sem stunda nám hérlendis. Markmið þeirra breytinga er að undirstrika að komi erlendur ríkisborgari hingað til lands í því skyni að stunda nám við íslenska skóla er litið á nám hans hérlendis sem megintilgang dvalar hans hér á landi en ekki þátttaka á vinnumarkaði. Í slíkum tilvikum er því almennt ekki gert ráð fyrir að viðkomandi starfi hér á landi með náminu nema starfið sé hluti af náminu þegar um starfstengt nám er að ræða. Er þá gert ráð fyrir að heimilt verði að gefa út sérstök tímabundin atvinnuleyfi vegna tiltekinna starfa sem eru hluti af náminu. Hins vegar er miðað við að heimilt verði að veita atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar þegar útlendingur hefur lokið námi sínu hér á landi og sækir um starf sem tengist menntun sinni.

Virðulegi forseti. Það er ekkert launungarmál að nokkuð algengt er að ættingjar og vinir erlendra ríkisborgara sem hér dvelja og starfa óski eftir því að koma hingað til dvalar og starfa. Það hefur hins vegar verið litið svo á að persónulegir hagir fólks, svo sem fjölskyldu- eða vinatengsl við fólk sem þegar býr hér á landi, verði almennt ekki taldir til málefnalegra sjónarmiða sem réttlæti að atvinnurekandi geti haft sérstakan hag af því að ráða útlendinga til starfa. Með frumvarpi þessu er því jafnframt undirstrikað að það fellur í hlut Útlendingastofnunar að meta hvort persónulegir hagir útlendinga réttlæta dvöl hér á landi á grundvelli heimilda í lögum um útlendinga óháð aðstæðum á vinnumarkaði. Engu að síður hefur það þótt mikilvægt að þeim útlendingum sem hafa fengið heimildir til að dvelja hér á landi á grundvelli persónulegra aðstæðna verði jafnframt gert kleift að starfa hér bjóðist þeim störf. Í ljósi þess er gert ráð fyrir að heimilt verði að veita tímabundin atvinnuleyfi vegna starfa erlendra ríkisborgara hér á landi þegar Útlendingastofnun hefur metið það svo að vegna sérstakra aðstæðna, sem tengjast aðstæðum viðkomandi útlendings, skuli honum veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra heimilda í lögum um útlendinga. Þegar um slík tilvik er að ræða er miðað við að Vinnumálastofnun geti veitt atvinnuleyfi á þeim forsendum án þess að líta til hefðbundinna vinnumarkaðssjónarmiða eða sérstakra hagsmuna atvinnurekenda af því að ráða hlutaðeigandi útlendinga til starfa.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að unnt verði að veita atvinnuleyfi fyrir nánustu aðstandendur erlendra ríkisborgara sem starfa hér á landi á grundvelli nánar tiltekinna atvinnuleyfa án tillits til þess hversu lengi þeir hafa starfað hérlendis sem er nýmæli. Þannig er gert ráð fyrir að nánustu aðstandendur erlendra ríkisborgara með tímabundin atvinnuleyfi, sem geta verið grundvöllur óbundinna atvinnuleyfa, geti einnig fengið tímabundið atvinnuleyfi á þeim grundvelli að uppfylltum skilyrðum laganna að öðru leyti. Ég tel jafnframt mjög mikilvægt að börnum erlendra ríkisborgara verði auðveldað að laga sig að íslensku samfélagi en einkum kann það að vera þýðingarmikið að þau geti fylgt jafnöldrum sínum bæði í leik og starfi. Er því lagt til í frumvarpi þessu að börnum undir 18 ára aldri sem hafa gild dvalarleyfi fyrir aðstandendur á grundvelli laga um útlendinga geti starfað hér án sérstakra atvinnuleyfa fram til 18 ára aldurs. Enn fremur er gert ráð fyrir að heimilt verði að veita börnum sem hafa fengið búsetuleyfi hérlendis fyrir 18 ára aldur óbundið atvinnuleyfi þegar þau verða 18 ára.

Af öðrum atriðum frumvarpsins má nefna að lagt er til að á grundvelli samnings sem íslensk stjórnvöld gera við önnur ríki verði heimilt að veita sérstök atvinnuleyfi fyrir ungt fólk á aldrinum 18–26 ára í þeim tilgangi að kynna sér landið og menningu þess. Enn fremur eru lagðar til ákveðnar breytingar með það að markmiði að auðvelda mökum og börnum erlendra sendimanna sem hér dvelja á grundvelli þjóðréttarsamninga að stunda störf á innlendum vinnumarkaði. Þá er í frumvarpinu sérstaklega kveðið á um eftirlitshlutverk Vinnumálastofnunar og lögreglu auk þess sem lögreglu eru veittar skýrar heimildir til vinnustaðaeftirlits í því skyni að stuðla að virkara eftirliti með að útlendingar starfi hér löglega. Þannig er lagt til að atvinnurekendum verði gert skylt að veita lögreglu aðgang að vinnustöðum sínum. Enn fremur eru lögð til sambærileg ákvæði og er að finna í lögum um útlendinga um að útlendingum sé skylt að hafa ávallt skilríki um atvinnuleyfi með sér og sýna þau krefjist lögregla þess.

Auk þess sem að framan er rakið felur frumvarpið í sér breytingar á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins með síðari breytingum en sú breyting byggist á efni 23. gr. tilskipunar nr. 38/2004, um rétt ríkisborgara ríkja Evrópusambandsins og fjölskyldna þeirra til frjálsrar farar og dvalar innan svæðisins, sem felld hefur verið undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Gert er ráð fyrir að meginefni tilskipunarinnar verði innleitt í íslenskan rétt með frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra til laga um breyting á lögum um útlendinga sem var hér til umræðu fyrr í dag.

Tilskipunin felur jafnframt í sér breytingar á reglugerð nr. 1612/68, um frelsi launþega til flutnings innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem innleidd var í íslenskan rétt með lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, en ákvæði 23. gr. tilskipunarinnar kemur í stað 10. og 11. gr. þeirrar reglugerðar. Ákvæði þessi fjalla um rétt aðstandenda ríkisborgara ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins til að starfa hér á landi óháð þjóðerni þeirra. Ákvæði 23. gr. tilskipunarinnar felur ekki í sér efnisbreytingu að þessu leyti en nauðsynlegt þykir að breyta ákvæðum laganna til samræmis við það sem mælt er fyrir um í tilskipuninni.

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið er markmið frumvarpsins að gera löggjöfina um atvinnuréttindi útlendinga skýrari og gagnsærri, framkvæmdina skilvirkari sem og að tryggja virkara eftirlit með framkvæmd laganna. Frumvarpið var m.a. samið í samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins á almennum vinnumarkaði þar sem vógust á þau sjónarmið um nauðsyn þess að viðhalda jafnvægi á framboði í eftirspurn á vinnumarkaði og mikilvægi þess að komið verði til móts við kröfur atvinnulífsins um starfsfólk og þá ekki síst sérhæft starfsfólk. Þótti liggja fyrir að laga þyrfti löggjöfina að breyttum aðstæðum á vinnumarkaði og því er frumvarp þetta lagt fram á Alþingi.

Enn fremur vil ég undirstrika það hér að mikilvægt er að fjallað verði um efni þessa frumvarps samhliða frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra til laga um breytingu á lögum um útlendinga sem mælt var fyrir í dag. Kann því að vera þýðingarmikið að hv. félags- og tryggingamálanefnd og allsherjarnefnd hafi náið samráð sín á milli þegar frumvörpin verða tekin til umfjöllunar.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. félags- og tryggingamálanefndar.