Réttur verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum

Þriðjudaginn 22. janúar 2008, kl. 21:13:46 (3902)


135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

réttur verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum.

164. mál
[21:13]
Hlusta

Flm. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Allar þessar kvaðir og öll þessi skilyrði rugla jafnvægið. Ruglar þá ekki fæðingarorlofið jafnvægið? Ruglar þetta ekki allt jafnvægið? Eigum við ekki bara að fara inn í einhvers konar villimannaþjóðfélag á vinnumarkaði?

Þetta eru reglur sem stuðla að öryggi, hreinskiptnum samskiptum og að vinnumarkaðurinn sé stöðugur, sem er aðalatriðið. Ég vil halda því til haga eins og hv. þingmaður nefndi að um er að ræða gagnkvæmar reglur sem tryggja að starfsmaður hlaupist ekki á brott fyrirvaralaust. (Gripið fram í.) Já, það er skaðabótaréttur eftir meðalhófsreglu hjúalaganna fyrir atvinnurekandann, hálfur uppsagnarfrestur, hv. þingmaður. Þetta skapar traustari vinnumarkað. Rétt eins og vinnumarkaður hefur þróast á síðustu árum á Íslandi síðustu 15, 20 árin, hann hefur orðið friðsamlegur, þróaður og samskiptin hafa almennt gengið vel, en það eru frá því undantekningar í illa reknum fyrirtækjum að fólki er sagt upp fyrirvaralaust og það er ærumeitt með því og því er sagt upp með órökstuddum hætti. Það gerist í illa reknum fyrirtækjum en ekki á góðum vinnustöðum.