Íbúðalánasjóður -- stefna NATO í kjarnorkumálum

Miðvikudaginn 23. janúar 2008, kl. 13:54:33 (3914)


135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:54]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það er ekki síst vegna orða hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem ég vil að það sé algjörlega skýrt hvað stefnu Framsóknarflokksins um Íbúðalánasjóð varðar að við höfum staðið vörð um hann. Við höfum byggt hann upp og talið hann mikilvægan í samfélagi dagsins í dag og framtíðarinnar. Menn hafa verið að deila út af ESA-málum þar og talað um breytingar. Það er annað verkefni.

Við tókum strax á núverandi ríkisstjórn. Um leið og hún tók til starfa lá það nánast í loftinu að færa ætti Íbúðalánasjóð fólksins yfir til fjármálaráðherra frá Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra. Hún lýsti því strax skýrt yfir eftir nokkrar umræður að hún mundi standa vörð um þennan sjóð og hann yrði ekki seldur meðan hún starfaði. Það er því ljóst að ágreiningur er um þennan sjóð. Sjálfstæðisflokkurinn hefur viljað og vill hann burt, telur að markaðurinn geti tekið við.

Ég er ekki sömu skoðunar. Íbúðarhús er fjárfesting lífsins fyrir hvern þann ungan mann og konu sem þarf á húsnæði að halda. Ríkissjóði og ríkinu ber því að halda uppi Íbúðalánasjóði, að hann sé vel rekinn og að þar séu sem lægstir og stabílastir vextir horft til framtíðar. Lífeyrissjóðirnir geta síðan og að mínu viti Íbúðalánasjóður komið með sterkari hætti inn í félagskerfi framtíðarinnar til þess að taka á með því fólki sem býr við lakari kjör.

Í mínum huga og okkar framsóknarmanna gegnir Íbúðalánasjóður gríðarlega mikilvægu hlutverki. Yfir 80% þjóðarinnar vilja að honum verði ekki raskað og eru þar sammála okkur framsóknarmönnum. Deilan hefur í þessum efnum alltaf staðið við Sjálfstæðisflokkinn sem vill sjóðinn (Forseti hringir.) á burt. Hann hefur reynt það í samstarfi við okkur og hann hefur reynt það í samstarfi við Samfylkinguna en við framsóknarmenn (Forseti hringir.) komum í veg fyrir það í vor strax og ríkisstjórnin kom til þings.