Öryggismál í sundlaugum

Miðvikudaginn 23. janúar 2008, kl. 15:50:52 (3963)


135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

öryggismál í sundlaugum.

316. mál
[15:50]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Jú, það er einmitt verið að endurskoða reglugerðina með tilliti til þess að eftirlits og öryggis sé betur gætt og að eftirfylgnin sé betri en raun hefur borið vitni. Ég tel að það sé leiðin, lögin eru skýr, þessar reglugerðir eru, eins og hv. fyrirspyrjandi veit, nokkuð flóknar og tyrfnar en þær þurfa að vera þannig að auðvelt sé að vinna eftir þeim.

Ég vil ekki gera lítið úr ábyrgð heilbrigðisnefnda sveitarfélaga í þessu. Þær eiga að sjá til þess að þessir hlutir séu í lagi. Það er rétt hjá hv. þingmanni að kannski eru ekki margir staðir á landinu þar sem þetta fer saman, þó örugglega nokkrir, þar sem sundlaug er í nágrenni ár og fiskigengd í ánni. Ég held að það sé ekki slíkt verkefni að það þurfi sérstaka tilskipun úr ráðuneytinu til að fara yfir það. (Gripið fram í.) Við endurskoðum reglugerðirnar, heilbrigðisnefndirnar fylgja þeim eftir og það er á þeirra ábyrgð að sjá til þess að þessir hlutir séu í lagi.