Aðkoma ríkisstjórnarinnar að gerð kjarasamninga

Þriðjudaginn 19. febrúar 2008, kl. 13:56:34 (4722)


135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

tilkynning frá ríkisstjórninni.

[13:56]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna, eins og aðrir framsóknarmenn, þessum kjarasamningi og óska ASÍ og Samtökum atvinnulífsins til hamingju með niðurstöður þeirra. Þetta er kjarasamningur sem marga hefur dreymt um í áratugi, að horft væri til lágtekjufólksins á vinnumarkaði, sérstaklega til þess, og kjör þess bætt á markaðnum. Hér er því stigið skref sem ég vona að ég sjái framhald á.

Það var skoðun okkar framsóknarmanna að kjarasamningar þyrftu nú að snúa sérstaklega að tvennu: Að bæta kjör láglaunafólksins — þar með talin kjör kvenna — á vinnumarkaði og í leiðinni að hafa það í för með sér að verðbólgan héldist áfram lág. Ég óska því hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórninni eðlilega til hamingju með þessa niðurstöðu. Það er gott að hún er í höfn. Stóra atriðið er svo að lækka verðbólguna og vaxtastigið sem er allt og alla að drepa.

Seðlabankinn barði hausnum því miður við steininn og lækkaði ekki stýrivexti í síðustu viku, sem var áfall fyrir íslenskt atvinnulíf. Bandaríkjamenn eru byrjaðir að lækka vexti sína til þess að mæta framtíðinni. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er óskýr þrátt fyrir þetta. Hún er ómarkviss. Hún er eiginlega á floti eins og íslenska krónan.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra, þar sem hann boðar lækkun á tollum og vörugjöldum — ég hygg að vörugjöld séu nú ekki lengur á innfluttum matvælum: Kom ekki til greina við þessar aðstæður að taka síðari hlutann af matarskattinum nú ári síðar? Hann var lækkaður fyrir ári síðan úr 14% í 7% og hefði verið ástæða nú til að lækka hann enn frekar. Mig minnir að það hafi verið samstaða um, meira að segja af hálfu Samfylkingarinnar á síðasta vetri, að ganga lengra í þeim efnum.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvernig hann ætli að mæta þeim gríðarlegu hækkunum sem blasa nú við á matvælaverði hér í landi út af 80% hækkun á áburðarverði, yfir 50% á fóðurverði o.s.frv. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bregðast við þeim vanda?

Ég spyr enn fremur hæstv. forsætisráðherra: Kom skattlagning á flutningskostnaði út á landsbyggðina ekki til greina eða umræðu í þessum kjarasamningum? Ég hygg að atvinnulífið hafi horft mjög til þess að ríkisstjórnin gripi þar inn í.

Svo vil ég segja að því miður er íslenska krónan í gíslingu jöklabréfanna og erlendra spákaupmanna. Íslenskt atvinnulíf mun leita leiða frá okurvöxtum til að lifa af. Það er í rauninni háskaleg stefna dagsins að ríkisstjórnin og Seðlabankinn skuli ekki takast á við stærsta verkefnið sem snýr að kjörum hvers einasta Íslendings í samstarfi með atvinnulífinu, að lækka hér vaxtastig og hemja verðbólguna. Þetta eru langstærstu hættumerkin sem blasa við íslensku samfélagi og því miður skilar ríkisstjórnin áfram núlli í þessum efnum.

Húsnæðisverð á Íslandi hefur hækkað alveg gríðarlega á síðustu árum sem mun reyna á unga fólkið sem þarf að kaupa sína fyrstu íbúð og auðvitað ríkir hér mikil okurvaxtastefna. Þess vegna þýðir ekkert fyrir ríkisstjórnina að segja nú: Við höfum lokið gerð kjarasamninga. Hún á auðvitað eftir að semja við opinbera geirann o.s.frv. En hún verður að takast á við þetta stærsta hagsmunamál íslensks almennings og íslenskra fyrirtækja, að fást við verðbólguna af meiri alvöru en gert hefur verið í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Það er óþolandi ástand að búa við hæstu vexti í Evrópu, að hér skuli húsnæðisverð hafa hækkað svo af einhverjum ástæðum sem ekki liggja nú hreint fyrir, á síðustu árum og væri auðvitað fróðlegt að skoða þann markað. Ég hygg að bankarnir hafi þar komið inn á markaðinn með byggingarverktökum o.s.frv. Þannig að það er að mörgu að hyggja sem skoða þarf með launafólkinu til þess að bæta hér lífskjör og lífsgæði.

Ég vil að lokum segja að við framsóknarmenn fögnum gerð þessara kjarasamninga og teljum að stigin hafi verið skref í rétta átt gagnvart þeim sem verst eru settir. Við viðurkennum og vitum að það sem hér hefur komið fram er rétt, að laun eru enn of lág á Íslandi. Aðilar vinnumarkaðarins í atvinnulífinu þurfa að átta sig á því að margir fá meira en þeir hafa þörf fyrir. Við viljum vera íslensk samvinnuþjóð og þess vegna verða þeir sem leiða atvinnulífið einnig að gá að sér og marka stefnu um að ganga ekki of langt varðandi eigin laun. Því miður hefur það gerst á síðustu árum að við höfum séð ofurlaun sem ganga illa upp í þessu samhengi.

Hækkun skattleysismarka, 2 þús. kr. á ári, er auðvitað lítið skref en við fögnum því og mörkin fara upp í 115 þús. í lok samningstímans. Hækkun skerðingarmarka á barnabótum finnst mér sérlega jákvæð og hugarfar samningsaðilanna er, eins og ég hef margsagt hér, auðvitað mjög gott við þessar aðstæður. Að laga og bæta kjör þeirra sem setið hafa eftir í launaskriði á síðustu árum er mikilvægt mannréttindamál í hugum okkar framsóknarmanna.

Ég þakka sérstaklega ASÍ og aðilum vinnumarkaðarins fyrir að hafa klárað þennan kjarasamning. Það veitir okkur öryggi. En ég mun ekki sitja á neinum friðarstóli við hæstv. ríkisstjórn því að hún hefur ekki unnið heimavinnuna sína. Hún hefur því miður ekki tekist á við það sem mestu máli skiptir. Verðbólgan er þjófur í veskjum fólksins og tekur þar stærri og stærri hlut í vöxtum og vaxtavöxtum og þess vegna er það krafa mín og okkar framsóknarmanna að ríkisstjórnin vakni og taki betur á honum stóra sínum. Það á hún að geta. Við framsóknarmenn skiluðum góðu búi til þjóðfélagsins í ágætu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Þess vegna er hægt að bæta lífskjör sem verið er að gera í gegnum þessa kjarasamninga.

Ég hef þessi orð mín lokaorð. Auðvitað verða ríkisstjórnin, Seðlabankinn og aðilar vinnumarkaðarins að mynda nýja þjóðarsátt til þess að takast á við þetta stærsta verkefni dagsins, hvernig lækka á verðbólguna, vextina og horfa á stöðu gjaldmiðilsins til framtíðar. Þau þurfa að velta fyrir sér hvers vegna íbúðarverðið á Íslandi er orðið svo ógnarhátt, svo hátt að ungt menntafólk, t.d. það sem ég hitti í Horsens í Danmörku, segir að við þessar aðstæður sé erfitt að velja sér búsetu á Íslandi. Þess vegna eru verkefnin ærin, hæstv. forsætisráðherra. Ég bið ríkisstjórnina að bretta upp ermar og fást við þetta mikilvæga verkefni á Íslandi.