Prófessorsembætti kennt við Jónas Hallgrímsson

Þriðjudaginn 19. febrúar 2008, kl. 18:15:34 (4796)


135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

prófessorsembætti kennt við Jónas Hallgrímsson.

221. mál
[18:15]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er vissulega allt rétt sem kom fram í máli hv. þm. Árna Johnsens. Það er hins vegar tvennt sem ég vil koma á framfæri sem er lykillinn að þeim árangri sem við viljum ná varðandi íslenska tungu til að hún haldi áfram að eflast og styrkjast og dafna og við þurfum að styrkja hana enn frekar í dag. Í fyrsta lagi þurfum við að lesa meira fyrir börnin okkar. Viðhorfin heima fyrir þurfa að breytast miðað við það sem er ástandið í dag. Það segja okkur ýmsar kannanir eins og PISA, sem eru að vissu leyti bara kannanir, bara viðmiðun. Þetta er eins og með skoðanakannanir, maður á ekki að móta stefnuna út frá þeim en við eigum að hlusta á þær, við eigum að skoða hvað hægt er að gera betur. Við eigum að lesa meira fyrir börnin okkar, við eigum að hvetja þau til að kynna sér þann undraheim sem íslenskan er, í gegnum ljóðin, þulurnar og þjóðsögurnar og í gegnum allt barnaefnið sem ritað er á íslenska tungu. Þetta er í fyrsta lagi það sem ég tel mikilvægt að séu skilaboð frá þinginu til fjölskyldnanna í landinu. Þannig munum við stuðla að því að við komum betur út ekki bara í lestri og íslenskunni sem slíkri heldur mun góður árangur í íslensku skila sér í önnur fög sem kennd eru innan skólakerfisins.

Síðan er hitt atriðið sem mér finnst þýðingarmest varðandi íslenskukennsluna í Háskóla Íslands og það er að halda áfram að hlúa sérstaklega að íslenskudeildinni. Ein mikilvægasta sérstaða Háskóla Íslands er að sá skóli ber ábyrgð á því að miðla íslenskukennslu með sómasamlegum hætti til samfélagsins, að við menntum íslenskufræðinga, bókmenntafræðinga. Þess vegna tel ég mikilvægt að við hlúum vel að hugvísindadeildinni, að íslenskudeildin sé það flaggskip sem við viljum að hún sé innan Háskóla Íslands. Ég tel að á undanförnum árum, og sérstaklega með fjárlagatillögum síðustu ára, höfum við einmitt verið að undirstrika þessa stefnu íslenskra menntayfirvalda, framkvæmdarvaldsins, að við viljum að sérstakur gaumur sé gefinn að stöðu íslenskrar tungu. Við höfum gert það í gegnum lagabreytingar og Stofnun Árna Magnússonar og síðan með því að efla íslenskudeildina innan Háskóla Íslands. (Forseti hringir.) Það er afar mikilvægt að háskólinn átti sig, sem hann gerir, á þýðingarmiklu hlutverki þeirrar deildar.