Raforkumálefni

Mánudaginn 25. febrúar 2008, kl. 18:09:37 (5021)


135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[18:09]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var fyrsta atriðið sem ég tók í ræðu minni í dag. Ég dró þá ályktun af því sem kemur fram í þeim söfnuðu upplýsingum sem er að finna í skýrslunni að samkeppnin er mjög lítil hér á landi að því er að okkur neytendum snýr. Það er einfaldlega staðreynd.

Hv. þingmaður fór með ýmsar tölur um Norðurlöndin sem allar eru réttar og gat sérstaklega um þróunina í Noregi þar sem miklu fleiri hafa þó skipt, t.d. á árinu 2006 sem er viðmiðunarár í skýrslunni, um orkusala. En Noregur er líka það land sem hefur verið hvað lengst með þetta frelsi. Norðmenn tóku það upp árið 1990 en þá voru ákveðin gjöld sem féllu á þá sem skiptu um orkusala. Það var ekki fyrr en 1997 þegar þau gjöld voru afnumin sem fjöldinn sem skipti um tók að vaxa. Hugsanlega er þetta fall af tíma, við sjáum til.

Það eru að mörgu leyti mjög óeðlilegar samkeppnisaðstæður hér á markaði. Við sjáum það í fyrsta lagi að hlutdeild þess fyrirtækis sem stærst er í framleiðslu orku er gríðarlega stór. Í öðru lagi eru mjög mörg fyrirtækjanna bæði með sérleyfis- og samkeppnisþætti á sinni hendi og ég tel að það sé vel hugsanlegt að það leiði til þess að samkeppni verði minni en ella.

Á hvoru tveggja er tekið í því frumvarpi sem ég mæli vonandi fyrir síðar í vikunni. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður verður ánægður með það. Þar eru menn að stíga lengra á þessari vegferð, þetta er leiðangur. Þegar menn ætla að breyta rafmagnsmarkaðnum á þennan hátt þá er þetta leiðangur. Fyrsta skrefið var tekið 2003. Menn hafa tekið fleiri skref. Eitt skref var tekið um daginn sem hugsanlega getur haft áhrif á þetta. Það var ákvörðun Landsnets samkvæmt heimild sem er að finna í raforkulögum að hefja skyndimarkað í heildsölu á raforkumarkaði. Ég tel að það gæti leitt til gagnsærri verðmyndunar og það gæti leitt til þess að menn gætu nýtt sér aðstæður betur til þess að selja rafmagn. Það gæti leitt til þess (Forseti hringir.) að neytendur þroskuðu verðvitund sína og fengju líka betri kjör.