Heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan

Fimmtudaginn 28. febrúar 2008, kl. 14:45:58 (5222)


135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[14:45]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þungar áhyggjur af sambandi hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og hans flokks sérstaklega við systurflokka úti í heimi. Það vekur mér reyndar undrun að hann skuli frekar skilgreina sig sem systurflokk Die Linke í Þýskalandi en græningja en það er hans val og hans réttur.

Ástæða þess að ég beindi gagnrýni minni að honum í þessu máli er sú að hér er um allt annars konar mál að ræða en þegar fulltrúi Íslands í herliðinu í Írak var kallaður heim. Í því tilviki var um að ræða starfsmann sem starfaði innan herkerfis með beinum hætti og verkefnið taldist ekki borgaralegs eðlis í þeim skilningi að það félli undir skilgreiningar alþjóðasamtaka þar á. Þau verkefni sem hér er verið að vinna falla undir þær skilgreiningar.

Þar fyrir utan er Atlantshafsbandalagið einhuga að baki stjórnun þessa verkefnis og til þess er umboð Sameinuðu þjóðanna. Ég hlýt að setja spurningarmerki við það ef markmið tillögunnar er: Við ætlum að fara út og láta aðra um vandann, taka ekki ábyrgð á vandanum sem er fyrir hendi. Ef hv. þingmaður vill láta taka þessa stefnumörkun í alþjóðamálum alvarlega (Gripið fram í.) hlýtur hann líka að segja okkur hér og nú hvaða valkostur á sviði alþjóðasamfélagsins eigi að taka við. Þar einkennist hins vegar allt af óskhyggju. Þar er slegið úr og í, talað um að það eigi að vera Sameinuðu þjóðirnar eða eitthvað annað, það á ekki að vera NATO. Það er þessi ósamkvæmni og óskýrleiki sem ég gagnrýni. Í því felst enginn æsingur og í því felst engin hártogun, hér er hreinlega verið að rekja staðreyndir (Forseti hringir.) sem fram komu í máli hv. þingmanns.