Heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan

Fimmtudaginn 28. febrúar 2008, kl. 15:04:48 (5229)


135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[15:04]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan í ræðustól að það sem sagt hefði verið hér í þessari umræðu af minni hálfu og Árna Páls Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, rímaði við áherslur haukanna í Washington. Það sem er að gerast í Afganistan er að öryggissveitir eru í Afganistan á vegum Sameinuðu þjóðanna, þær byggja á samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem hafa skilgreint ástandið í Afganistan sem ógnun við alþjóðlegan frið og öryggi. Það er á því sem aðgerðirnar í Afganistan byggja.

Að tala um það í sömu andrá og Írak og að líkja því saman við skoðanir haukanna í Washington, eins og þingmaðurinn sagði, er honum ekki til framdráttar. Þvert á móti, virðulegur forseti.