Heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan

Fimmtudaginn 28. febrúar 2008, kl. 15:15:15 (5238)


135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[15:15]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skil hv. þingmann þannig að það sé sem sagt í lagi að vera í Afganistan, bara ekki undir NATO. Það væri hægt að vera þar inni t.d. undir stjórn Sameinuðu þjóðanna og það er alveg í anda þess sem kemur fram í greinargerðinni. En ég vil þá benda á að bæði verkefnin í Írak og verkefnin í Afganistan eru í anda samþykktar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og þessi verkefni eru bæði NATO-verkefni. Samt kaus hæstv. utanríkisráðherra að draga okkur út úr Írak, sem ég tel að hann hefði ekki átt að gera. En allt í lagi, það er búið að gera það.

Hæstv. utanríkisráðherra telur að við eigum ekki að draga okkur út úr Afganistan og ég deili þeirri skoðun. Ég tel að við eigum að taka þátt í friðargæslu þar og reyna að standa að friði og uppbyggingu í landinu. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju vinstri grænir hafa svona mikið á móti þessu nema skýringin sé einfaldlega sú að þeir eru á móti NATO. Það er kjarninn í málflutningnum. Af því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna styður verkefnið, sem er núna í Afganistan, þannig að það eina sem stendur eftir er bara NATO-aðildin. Það er kjarninn í málflutningi vinstri grænna.