Heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan

Fimmtudaginn 28. febrúar 2008, kl. 15:17:24 (5240)


135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[15:17]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er búinn að sitja undir þessari umræðu og hlusta og get einfaldlega ekki lengur orða bundist. Þetta mál á sér upphaf í því að í Afganistan voru mannréttindabrot framin, þar var kvenfyrirlitning, Afganistan var skjólshús alþjóðlegra hryðjuverka og lýðræði, mannréttindi, friður og öryggi var fótumtroðið. Sameinuðu þjóðirnar og NATO eru ekki með hernað og við tökum ekki þátt í þeim aðgerðum, þetta snýst um varnir og hjálp. Afganistan er vettvangur um átök um mannréttindi og það er einfalt svar við allri þessari umræðu, Íslendingar eiga að taka þátt í að standa vörð um þau mannréttindi.