Breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði

Fimmtudaginn 28. febrúar 2008, kl. 16:25:59 (5256)


135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[16:25]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því í þessari ræðu að taka undir með hæstv. iðnaðarráðherra um að það frumvarp sem við ræðum hér varðar grundvallaratriði. Það er ekkert ofsagt í því að þegar rætt er um auðlindamál og orkumál þá takast menn á um grundvallaratriði. Það gladdi mig mjög þegar ég heyrði hæstv. iðnaðarráðherra segja að það væri ekki ætlunin með þessu frumvarpi að taka neitt af neinum. Því ber auðvitað fagna enda er það óheimilt samkvæmt eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.

Það væri auðvitað óðs manns æði að ætla að fjalla í stuttri ræðu um alla þætti þessa frumvarps. Ég get í fljótu bragði sagt að það er ýmislegt sem fram kom í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra sem ég get tekið undir og ég tel eðlilegt að gera kröfu um aðskilnað á sérleyfisrekstri og samkeppnisrekstri eins og gert er í frumvarpinu. Mig langar til að nota þennan tíma til að nefna sérstaklega þrjú atriði sem ég skora á hv. þingmenn, sérstaklega þá sem sæti eiga í hv. iðnaðarnefnd, að taka til skoðunar við meðferð málsins í nefndinni.

Fimmta atriði frumvarpsins varðar bann á varanlegu framsali opinberra aðila á vatns- og jarðhitaréttindum. Eins og segir í greinargerð með þessu frumvarpi er megintilgangur þess sá að setja reglur um eignarhald auðlinda í opinberri eigu og skýra mörk samkeppnis- og sérleyfisþátta í starfsemi orkufyrirtækja. Þegar efnisákvæði frumvarpsins eru síðan skoðuð er ljóst að eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins er að banna ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum sem alfarið eru í þeirra eigu, að framselja beint eða óbeint og með varanlegum hætti eignarrétt á orkuauðlindum. Þess vegna er um hápólitískt grundvallarmál að ræða sem varðar meginreglur um eignarhald og nýtingu auðlinda. Ég er almennt þeirrar skoðunar að vilji menn á annað borð setja meginreglur um eignarhald og nýtingu auðlinda þá eigi að gera það í stjórnarskrá en ekki í almennum lögum.

Ég er hins vegar ósammála þeirri nálgun á málið sem kom fram í ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, að ástæða sé til að binda í stjórnarskrá sameignarákvæði þjóðarinnar hvað varðar orkuauðlindir. Ég er a.m.k. þeirrar skoðunar að vilji menn setja slíkar reglur sé rétta leiðin að gera það í stjórnarskrá fremur en að kveða á um það í almennum lögum.

Ef við víkjum svo að banninu við varanlegu framsali opinberra aðila á vatns- og jarðhitaréttindum þá er ljóst að slíkt bann er breyting á meginreglum íslensks réttar um eignarrétt á vatni. Ég fæ ekki séð hver hin rökbundna nauðsyn er á þessari breytingu. Hefur hún skapað einhver sérstök vandamál í íslensku samfélagi, þ.e. að unnt sé að framselja vatnsréttindi eða fara með þau eftir venjulegum leikreglum eignarréttarins? Það hefur ekki gert það síðan 1923 þegar vatnalögin voru sett. Draga má í efa að markmið um hagkvæmustu nýtingu náist ef ekki er unnt að framselja auðlind til þess sem telur hana mest virði. Eignarhald ríkisins tryggir ekki endilega að nýtingin verði hagkvæm. Ekki er heldur með því tryggt að verndarsjónarmið fái aukið vægi. Handhöfn ríkisins á orkuauðlindum hingað til bendir ekki endilega til þess.

Að auki blasir við að til þess að ná þeim markmiðum sem að baki banni við framsali kunna að búa getur löggjafinn alltaf sett reglur um nýtingu auðlinda. Til þess þarf hvorki eignarhald hins opinbera né bann við framsali. Hægt er að færa fyrir því rök að einmitt framsal hins opinbera á eignarrétti á auðlindum geri hið opinbera betur til þess fallið til að setja almennar reglur um nýtingu og meðferð auðlindanna og hafa eftirlit með þeim reglum.

Ég vil síðan víkja að nokkrum atriðum sem fram koma í greinargerð með frumvarpinu um þessi mál. Á bls. 4 í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Það er engum vafa undirorpið að skynsamleg nýting orkuauðlindanna hefur mikla efnahagslega þýðingu fyrir Ísland.“ Og síðar: „Ljóst er að verðmæti og mikilvægi hreinna orkugjafa er stöðugt að aukast.“

Reynslan sýnir — og þá er ég ekki að vitna í greinargerðina — að einkaframtak dugar betur en opinbert við að grípa viðskiptatækifæri og gera mat úr verðmætum með jákvæðum efnahagslegum afleiðingum fyrir allt samfélagið í kring. Verðmætasköpun hefur mest verið þegar einstaklingar fá að spreyta sig. Hví skyldi eitthvað annað gilda um þetta svið? Ef markmiðið er að skapa sem mest verðmæti, ganga efnisatkvæði frumvarpsins þvert á það markmið.

Önnur fullyrðing á bls. 5 hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ljóst er að miklir þjóðhagslegir og samfélagslegir hagsmunir tengjast eignarhaldi og nýtingu orkuauðlinda landsins“ Hún er botnuð með setningu sem gengur í þveröfuga átt og hljóðar svo: „og því er mikilvægt að þær verði áfram í samfélagslegri eigu“.

Ekkert liggur fyrir um að leiðin sem farin er sé líkleg til að ná þessu markmiði að mínu mati. Ef til vill getur framleiga til einkaaðila til ákveðins tíma komið til móts en hví skyldi ekki allt eins mega framselja réttindin? Auðlindirnar eru staðbundnar og þær verða ekki fluttar úr landi eins og bankarnir t.d. og lúta þar af leiðandi alltaf reglum sem settar eru af Alþingi.

Á bls. 6 í greinargerð er rakið hvers vegna ítarlegar reglur gilda um flutning og dreifingu raforku, þ.e. til að tryggja hagsmuni neytenda annars vegar og til að tryggja jafnrétti fyrirtækja í framleiðslu og sölu hins vegar. Fyrirtækin lúta síðan eftirliti Orkustofnunar og úrskurðarnefndar raforkumála, eins og fram kemur í athugasemdum. En ég spyr: Hvers vegna þurfa fyrirtækin að vera í opinberri eigu í ofanálag? Skapar þetta ekki bara hættu á því að sjónarmið neytenda og einkafyrirtækja í framleiðslu og sölu raforku verði fyrir borð borin, t.d. þegar ríkið situr beggja vegna borðs, annars vegar sem eigandi og hins vegar sem eftirlitsaðili? Sömuleiðis geta pólitískir hagsmunir ráðið nokkru, svo sem þegar sami stjórnmálaflokkurinn heldur um taumana hjá ríki og í tilteknum sveitarfélögum. Þetta er ekki endilega gæfulegt til lengri tíma litið og klárlega ónauðsynlegt til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Ég tel að menn ættu að velta þessu fyrir sér í nefndarstarfinu. Veigamestu rökin fyrir banni við framsali opinberra aðila á vatns- og jarðhitaréttindum koma hins vegar fram í greinargerð með frumvarpinu sjálfu, þ.e. í lokaorðum prófessoranna Friðriks Más Baldurssonar og Nils-Henrik von der Fehr sem iðnaðarráðuneytið leitaði til við smíði þessa frumvarps en þar segir á bls. 13 í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Takmörkun á eignarhaldi og framsali auðlinda takmarkar möguleikana á því hver nýtir auðlindirnar og með hvaða hætti það er gert. Slíkar takmarkanir hafa neikvæð áhrif á efnahagslegt virði auðlindanna og hagkvæmni í nýtingu þeirra. Hversu víðtæk þessi áhrif eru er háð því hvernig takmörkunum er háttað og hvort og þá hvernig unnið er gegn þessum neikvæðu áhrifum með ákvæðum og samningum um bætur og með reglusetningu um umgengni um auðlindirnar.“

Í ljósi álits prófessoranna tveggja sem hæstv. iðnaðarráðherra leitaði til við smíði frumvarpsins hljóta menn að velta því fyrir sér hvers vegna í ósköpunum ástæða sé til að setja löggjöf sem hefur augljóslega í för með sér neikvæðar efnahagslegar afleiðingar því að það er niðurstaða prófessoranna. Það er bara spurning um hversu mikið tjónið verður. Verður það mikið eða verður það lítið? Það er kannski ástæða til að setja þetta álit prófessoranna síðan í samhengi við það sem segir á bls. 4 í greinargerð frumvarpsins og ég rakti áðan en þar segir, með leyfi forseta: „Það er engum vafa undirorpið að skynsamleg nýting orkuauðlindanna hefur mikla efnahagslega þýðingu fyrir Ísland.“ Svo velti menn fyrir sér hvernig þetta harmónerar allt saman.

Það vekur síðan furðu mína þegar ég skoða 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins að fulltrúum ríkis og sveitarfélaga sé einum heimilt að framselja auðlindir sínar sín á milli en að einstaklingar og einkaaðilar séu útilokaðir frá því að taka þátt í sams konar starfsemi. Ég á dálítið erfitt með að sjá hvers vegna sú leið er farin. Ég skora á hv. þingmenn, og sérstaklega þá sem sæti eiga í hv. iðnaðarnefnd, að taka þessi sjónarmið til skoðunar og þá sérstaklega í ljósi þess sem fram kemur í greinargerð prófessoranna tveggja sem iðnaðarráðuneytið leitaði til við smíði frumvarpsins. Það er álit sem leiðir til þeirrar niðurstöðu að bann við varanlegu framsali opinberra aðila á vatns- og jarðhitaréttindum hafi neikvæð áhrif á efnahagslegt virði auðlindanna og hagkvæmni við nýtingu þeirra.

Í öðru lagi vil ég benda á atriði sem varðar sveitarfélögin. Í 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

„Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.“

Þetta er reglan um sjálfsforræði sveitarfélaganna. Í þessu frumvarpi er lagt bann við því að sveitarfélög framselji vatns- og jarðhitaréttindi sín. Ég velti því fyrir mér og ég beini því til nefndarmanna í iðnaðarnefnd hvort ekki sé ástæða til að fara vægari leið hvað framsalið varðar en frumvarpið kveður á um. Væri t.d. möguleiki að binda bann við framsali við auðlindir sem þegar eru í ríkiseigu en ekki aðrar? Væri hugsanlega mögulegt að fara aðra leið sem bindur framsalið eingöngu við þjóðlendur en undanskilur sveitarfélögin? Þetta finnst mér atriði sem ástæða væri til að skoða. En í mínum huga er það vafasamt gagnvart ákvæðum stjórnarskrár að binda hendur sveitarfélaganna með þeim hætti sem gert er í þessu frumvarpi.

Fram kom í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra að hann aflaði sér álits Eiríks Tómassonar prófessors vegna þessa álitamáls og prófessorinn komst að þeirri niðurstöðu að slíkar hömlur séu löggjafanum heimilar en takmarkaðar. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að sú niðurstaða kunni að orka tvímælis, a.m.k. þurfi að kanna það og ég fagna því að hæstv. iðnaðarráðherra leggi áherslu á það og nefndarmenn í hv. iðnaðarnefnd taki þetta atriði sérstaklega til skoðunar. Ég tel að það sé skylda þingsins og skylda þeirra þingmanna sem sitja í nefndinni að kalla til vísustu menn þjóðarinnar á sviði eignarréttar og stjórnskipunarréttar til að gefa álit sitt á því hvort slíkar takmarkanir standist ákvæði stjórnarskrár um sjálfsforræði sveitarfélaganna eða ekki. Sérstaklega í ljósi orðalags 78. gr. stjórnarskrárinnar sem er alveg skýrt og kveður á um að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum.

Það sama á að mínu mati við hvað varðar spurninguna um hvort ákvæði laganna kunni að baka ríkinu bótaskyldu af einhverju tagi. Það var drengilegt af hæstv. iðnaðarráðherra að leita álits Eiríks Tómassonar prófessors á því hvort slík bótaskylda kynni að skapast en álit hans er álit eins lögfræðings. Ég tel að hér séu svo miklir hagsmunir í húfi að fá þurfi álit fleiri lögfræðinga á þessu atriði.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég nefna það, eins og Friðrik Már Baldursson gerir í álitsgerð sinni, að það er líklegt að setja þurfi nánari ákvæði um framkvæmd laganna í reglugerðir og að leggja þurfi í aðrar aðgerðir til að lögin nái markmiði sínu að fullu. Líklega mun hæstv. ráðherra nýta tímann þar til frumvarpið tekur gildi til að smíða þessar reglugerðir, verði það að lögum. Að mínu mati orka slík vinnubrögð tvímælis og eru ekki í samræmi við góða lagasetningarhætti. Ég tel að þessi atriði ættu að eiga heima í lögunum sjálfum. Við værum með þessu að samþykkja lög sem ætti eftir að útfæra mikilvæga þætti sem varðar þessi atriði. Það er mín einlæga skoðun að Alþingi eigi að koma að þeirri reglusetningu, með fullri virðingu fyrir ágætum embættismönnum í iðnaðarráðuneytinu sem eru örugglega fullfærir um að gera þetta. Þetta eru þó það mikilvægir hagsmunir sem við fjöllum um hér að ég tel að þær reglur og sú sýn sem hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin hafa á þessa hluti ættu frekar að koma til umræðu inni á hinu háa Alþingi en þau séu leidd til lykta í iðnaðarráðuneytinu.