Breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði

Fimmtudaginn 28. febrúar 2008, kl. 16:59:36 (5273)


135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[16:59]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að frumvarpið sé ekki þess efnis að það auki möguleika á markaðsvæðingu á þessu sviði. Ég get nú ekki sagt það. En það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að í þeim viðhorfum sem ég lýsti birtist ákveðið vantraust á opinberri forsjá.

Ég sagði í ræðu minni að eignarhald ríkisins tryggir ekki endilega að nýting auðlinda sé hagkvæm og ekki heldur að með eignarhaldi ríkisins séu verndarsjónarmið tryggð eða fái aukið vægi. Handhöfn ríkisins á orkuauðlindum hingað til bendir ekki endilega til þess. Ég hefði haldið að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir mundi nú taka undir með mér hvað þetta varðar, sérstaklega ef hún lítur austur á firði.