Breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði

Fimmtudaginn 28. febrúar 2008, kl. 17:51:34 (5280)


135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[17:51]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Bara til þess að svara í skjótu bragði því sem hv. þingmaður spurði mig um þá er svarið nei, ég sé ekkert í fljótu bragði sem mælir gegn því. Hins vegar á ég svolítið erfitt með að sjá rökin fyrir því að slík staða kynni að koma upp í lögunum um það hvernig Landsnet á að fjármagna sig. Það segir t.d. alveg skýrt að þegar leggja þarf nýjar flutningslínur sem þurfa að þjóna mjög stórum fyrirtækjum þá er kostnaðurinn við það í reynd greiddur með flutningsverðinu. Það kemur alveg skýrt fram í lögunum til að tryggja það að almenningur greiði ekki kostnaðinn af því t.d. þegar stóriðja er reist í einhverjum landsfjórðungi og þarfnast orku, tilgangurinn er sá að tryggja það að almenningur greiði ekki fjárfestingarkostnaðinn sem felst í því að reisa flutningslínur fyrir slíkar framkvæmdir.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það er óljóst ákvæði í raforkulögum sem heimilar að í því tilviki þegar Landsnet ekki sinnir þessu og sennilega þegar ágreiningur kemur hugsanlega upp um verð, þá sé þessi möguleiki uppi. Hann hefur aldrei verið nýttur og hann er óljós í lögunum. Ekkert slíkt varðar hins vegar dreifikerfið. En það er allt í lagi að skoða þetta. Ég sé ekki alveg hinar praktísku ástæður sem kæmu upp, hafi ég skilið hv. þingmann rétt, því að hún talaði bæði um flutning og dreifingu. Ég fæ ekki alveg skilið aðstæðurnar sem gætu komið upp sem kölluðu á það. En það er allt í lagi að skoða svona ákvæði, það er allt í lagi að skoða þetta.

Ég fagna því síðan að hv. þingmaður hefur ekki sömu áhyggjur og komu fram hjá flokksbróður hennar fyrr í dag, hv. þm. Pétri H. Blöndal, að sú aðferð sem lögð er til í frumvarpinu muni leiða til þess að auðlindirnar verði svo hart keyrðar að úr hófi fari. Hún skilur það af því að hún hefur þekkingu á þessum málum að það eru mjög sterkar eftirlitsstofnanir sem fylgjast með því að svo verði ekki gert. Hún skilur það líka, sem er jákvætt, að frumkvæði einstaklinganna fær notið sín í gegnum heimildina til þess (Forseti hringir.) að leigja og leyfa afnot af auðlindunum.