Breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði

Fimmtudaginn 28. febrúar 2008, kl. 19:07:19 (5294)


135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[19:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er fjallað um mjög mikilvægt lagafrumvarp, frumvarp til laga um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði.

Einhvern tíma heyrði ég nokkuð skondna sögu frá Írlandi sem gekk út á það að maður var á leið til Dyflinnar, villtur, og spurðist vegar og sá sem hann spurði vegar sagði: Já, þú ert að fara til Dyflinnar, ég mundi nú ekki byrja héðan ef ég væri að fara þangað.

Spurningin sem við hljótum að byrja að velta fyrir okkur er frá hvaða punkti, hvaðan við ætlum að leggja upp í þessa för þegar við fjöllum um auðlindirnar, eignarhald á auðlindunum og fyrirkomulag í orkugeiranum almennt. Eigum við að horfa til þess ástands sem nú er eða eigum við að hugleiða hvort það séu aðrar forsendur sem við viljum horfa til? Hér er t.d. vísað í heimildir fyrirtækja í opinberri eigu varðandi ráðstöfun á eignarrétti á vatni. En hvað með þá aðila sem eiga vatn og eru ekki opinberir aðilar? Var það ekki þetta sem við vorum að ræða á sínum tíma þegar við ræddum um vatnalögin, þar sem við byggðum á kröfum sem m.a. komu frá verkalýðssamtökunum, BSRB, ASÍ, Kennarasambandinu, kirkjunni, mannréttindasamtökum, sem hvöttu okkur til þess að tryggja að vatn, að allt vatn yrði í þjóðareign? Þetta er sá upphafsstaður sem ég mundi vilja leggja út frá, að byrja á því að ræða: Hverju viljum við almennt ná fram í lögum um auðlindir og síðan ráðstöfun þessara auðlinda? Ég held að við eigum að hugleiða málið á þennan hátt.

Líka hitt: Hvert er markmiðið með þessari lagasetningu? Er markmiðið að tryggja að orkufyrirtækin verði í eigu almennings, sveitarfélaga, ríkis eða fyrirtækja sem alfarið eru í almannaeign til frambúðar — eða viljum við opna á eignarhald einkaaðila í þessum fyrirtækjum? Það vil ég ekki. Hvers vegna vil ég ekki gera það? Það er ekki bara af prinsippástæðum, alls ekki. Það er vegna þess að dæmin hræða, að einkaeignarhald á vatnsveitum, á orkuveitum, hefur ekki skilað þeim árangri sem vonir margra stóðu til. Þetta er ekki samkeppnisrekstur í þeim skilningi sem margur annar rekstur er.

Ég velti því t.d. fyrir mér hvort við eigum að setja lög sem þvinga Orkuveitu Reykjavíkur, sem hefur sérleyfisstarfsemi á sinni hendi en jafnframt er framleiðandi orku, til að aðskilja þennan rekstur í tvö fyrirtæki. Ég spyr: Hvað er unnið með því, hvers vegna að setja í lög kvaðir sem þvinga okkur til þessa? Er þetta ekki eitthvað sem við tökum afstöðu til í hverju tilfelli fyrir sig? Eftir því sem ég best veit er þetta ekki samkvæmt skilyrðum sem Evrópusambandið setur, þ.e. að við göngum þetta langt.

Ég hef því ákveðnar efasemdir varðandi eignarréttinn á vatni sem menn eru á óbeinan hátt að festa í sessi og kveða á um ráðstöfun eignarréttarins þar. Ég spyr: Hvað með eignarrétt á vatni sem er ekki á hendi opinberra aðila? Ætluðum við ekki að taka þennan eignarrétt til endurskoðunar í nýjum vatnalögum, var það ekki viðfangsefnið, að snúa til baka þeirri vegferð sem fyrri ríkisstjórnir hófu, að treysta einkaeignarréttinn á vatni í sessi? Það er það sem þær vildu.

Við í stjórnarandstöðunni vorum því andvíg. Við sögðum sem svo að jafnvel þótt dómapraxís 20. aldarinnar hafi verið í þessa veru væru komin upp ný viðhorf í heiminum sem ganga í gagnstæða átt og sem ganga út á það að treysta almannaeign á vatninu. Ég fyrir mitt leyti hefði viljað festa slík ákvæði í stjórnarskrá. Það er þetta sem ég á við þegar ég er að tala um að upphafspunkturinn sé kannski rangur. (Gripið fram í.) Já, ég er að tala um það að endurskoða á róttækan hátt þá þróun, þau lög og þann dómapraxís sem var einkennandi á 20. öldinni, í samræmi við breytta tíma, það er það sem ég er að tala um. Það er krafan sem er að koma frá hinni alþjóðlegu verkalýðshreyfingu og þar á meðal frá verkalýðshreyfingunni hér á landi. Já, ég er að tala um það, ég er að tala um að leggja önnur sjónarmið til grundvallar.

Nú er það svo að orkufyrirtækin á Íslandi eru í almannaeign. Með þessum lögum værum við hins vegar að opna fyrir einkaeignarhald á orkufyrirtækjunum og ég spyr: Er það til góðs? Sýnir reynslan að það sé æskileg þróun að halda inn á þá braut? Ég held ekki. Það hefur komið fram, m.a. í allnýlegum skýrslum frá Alþjóðabankanum, af öllum stofnunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að orkufyrirtæki í almannaeign, orkufyrirtæki sem alfarið eru í almannaeign hafi staðið sig betur þegar á heildina er litið, samkvæmt þessari úttekt, en einkafyrirtækin hafa gert. Þegar orkukerfin í Bandaríkjunum lentu í vandræðum voru það þau fyrirtæki sem voru í almannaeign eða sem bjuggu við þröngar skorður frá hendi hins opinbera sem stóðu sig en slökkt var á hinum. Hvort á að vera okkar fyrirmynd? Inn í hvaða heim viljum við halda? Inn í þann heim sem reyndist myrkur eða hinn sem var þó upplýstur?

Ástæðan fyrir því að Los Angeles slapp í Enron-hneykslinu í Bandaríkjunum, hver skyldi hún hafa verið? Jú, vegna þess að Los Angelesborg átti sín raforkukerfi. Annars staðar víðast hvar í Kaliforníu voru orkukerfin í einkaeign og þar kom Enron að málum.

Þetta vildi ég, hæstv. forseti, setja inn í þessa umræðu á þessu stigi. Ég sé hvað það er sem vakir fyrir hæstv. iðnaðarráðherra, hann vill leita leiða til að tryggja að orkulindirnar verði í almannaeigu en síðan vill hann opna á einkaeignarhald í orkufyrirtækjunum og það eigi að aðskilja, eins og ég gat um, sérleyfisstarfsemi frá framleiðslunni á orku. Ég hef ákveðnar og miklar efasemdir um þessar breytingar en að sjálfsögðu mun þetta frumvarp nú fara til nefnda og til umsagna í þjóðfélaginu og við munum ekki láta okkar eftir liggja að taka á kraftmikinn hátt þátt í umræðu um þetta mjög svo mikilvæga frumvarp.