Norræna ráðherranefndin 2007

Fimmtudaginn 06. mars 2008, kl. 11:17:09 (5548)


135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

norræna ráðherranefndin 2007.

452. mál
[11:17]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að segja að það er afar miður að hæstv. samstarfsráðherra Norðurlanda, Össur Skarphéðinsson, skuli ekki vera hér og þetta segi ég algerlega að hæstv. samgönguráðherra ólöstuðum sem flutti ræðu samstarfsráðherra af stakri snilld. En þetta er auðvitað mjög mikilvægt samtal sem við sem störfum í Íslandsdeild Norðurlandaráðs þurfum að eiga á opinberum vettvangi við samstarfsráðherrann. Þetta er lykilsamtal og ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. samgönguráðherra sé undir það búinn að taka við okkur einhverja rökræðu um þau álitamál sem eru uppi í samskiptum ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs.

Fyrsti hluti ræðu hæstv. ráðherra fjallaði um samstarfið fram undan og verkefnin sem varða hnattvæðingarverkefnið, 60 milljónirnar dönsku sem nú stendur ákveðinn styr um milli ráðherranefndarinnar eða ráðherranna og Norðurlandaráðs. Sá styr kristallaðist afar vel í Stokkhólmi á fundum nefnda Norðurlandaráðs núna um mánaðamótin janúar/febrúar þar sem það er ljóst að hugmyndir ráðherranna um þetta verkefni eru mjög óljósar og þingmennirnir sem starfa í deildum Norðurlandaráðs eru mjög gagnrýnir á það hvernig verja á þessum fjármunum. Það er algerlega nauðsynlegt að ráðherra Íslands sé með það á hreinu á hvern hátt íslensku þingmennirnir hafa tekið á þessum málum í starfi sínu þannig að þau skilaboð þurfa að fara héðan að ráðstöfun þessara 60 milljóna, sem eru 600 millj. íslenskar, er á miklu reiki og það er útlit fyrir að aftur verði settar 60 millj. danskar í verkefnið á árinu 2009. Við sem störfum í vinstri grænu grúppunni hefðum viljað sjá þessum fjármunum allt öðruvísi varið og viljum þar leggja áherslu á toppfundinn í Kaupmannahöfn 2009.