Norræna ráðherranefndin 2007

Fimmtudaginn 06. mars 2008, kl. 12:12:21 (5561)


135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

skýrslur um norrænt samstarf 2007.

452. mál
[12:12]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Á þskj. 715 liggur fyrir ársskýrsla Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál og mun ég í stuttu máli kynna þingheimi helstu mál í brennidepli innan norðurskautssamstarfsins á liðnu ári.

Ársskýrsla Íslandsdeildar fyrir árið 2007 gerir störfum þingmannanefndar um norðurskautsmál ítarleg skil og auk þess skipan Íslandsdeildar. Ég mun því aðeins stikla á stóru en vísa að öðru leyti í skýrsluna sem mælt er fyrir.

Ég vil byrja á að nefna að fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993 en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum var samþykkt í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði hins vegar upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál sem sett var á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjum við norðurskaut sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðursins varða.

Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er að fylgja eftir samþykktum ráðstefnunnar sem og að fylgjast grannt með störfum norðurskautsráðsins en þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa.

Segja má að helstu verkefni norðurskautssamstarfsins lúti að umhverfismálum og sjálfbærri þróun. Undanfarin ár hefur aukin áhersla einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka sem byggja landsvæðin við norðurskaut sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins.

Frú forseti. Af þeim málum sem fjallað var um á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál árið 2007 vil ég leggja áherslu á nokkur atriði sem voru í brennidepli í starfi nefndarinnar. Í fyrsta lagi voru umhverfismál og sérstaklega loftslagsbreytingar að venju mjög áberandi í umræðunni. Kynntar voru rannsóknir um loftslagsbreytingar sem hafa átt sér stað á norðurskautssvæðinu síðustu áratugi en ekki sér fyrir endann á þeim breytingum. Norðurslóðir einkennast af sérlega viðkvæmum vistkerfum og bendir ýmislegt til að þróunin við norðurskaut sé eins konar fyrirboði þess sem verður annars staðar í heiminum.

Í öðru lagi voru umræður um siglingaleiðir og björgunarmál áberandi á árinu. Með minnkandi hafís á norðurskautssvæðinu og auknum þrýstingi alþjóðavæðingar um sífellt stærri flutningaskip má búast við að siglingaleiðir milli Asíu annars vegar og Evrópu og austurstrandar Norður-Ameríku hins vegar opnist á næstu árum. Þar með styttast siglingaleiðir verulega eða um allt að helming. Auknar siglingar um norðurskautið munu hafa veruleg áhrif á Ísland sem gæti legið vel við sem umskipunarhöfn fyrir þessa miklu flutninga. Þeim tækifærum sem í þessu felast fylgir einnig nokkur áhætta, m.a. vegna meiri hættu á umhverfisslysum og verulega auknum verkefnum fyrir Landhelgisgæsluna. Einnig hafa Norðmenn hafið mikla olíu- og gasvinnslu í Barentshafi og fylgja Rússar líklega í kjölfarið. Hluti þeirrar orku verður fluttur með skipum til Norður-Ameríku um íslenska landhelgi.

Í þriðja lagi var lögð áhersla á alþjóðaár heimskautasvæðanna eða International Polar Year sem gekk í garð í mars 2007 og var haldið í þriðja sinn. Vísindamenn frá yfir 60 löndum taka þátt í rannsóknum alþjóðaársins sem lýkur í mars 2009. Markmiðið með árinu var að leiða til stórátaks í rannsóknum og athugunum á heimskautasvæðum jarðar. Rannsóknir á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á umhverfi, lífríki og samfélag voru í brennidepli á rannsóknarárinu en lögð var sérstök áhersla á þverfaglegar rannsóknir. Einnig varð mönnum tíðrætt um öryggi í orkumálum á árinu og þörfina fyrir aukna notkun orkugjafa sem ekki hafa mengandi áhrif á andrúmsloftið.

Frú forseti. Þingmannanefndin hélt þrjá fundi á árinu og sótti ég þá sem formaður Íslandsdeildar. Haldinn var fundur í Reykjavík 1. júní þar sem Þórir Ibsen, skrifstofustjóri auðlinda- og umhverfisskrifstofu utanríkisráðuneytisins, hélt m.a. erindi um öryggis- og björgunarmál í Norðurhöfum út frá sjónarhorni Íslendinga. Hann ræddi um skýrsluna Fyrir stafni haf – Tækifæri tengd siglingum á norðurslóðum, sem gefin var út á Íslandi 2005 og fjallar um opnun norðaustursiglingaleiðarinnar. Í skýrslunni eru m.a. metin viðskiptaleg áhrif og umhverfisáhrif af fyrirsjáanlegri opnun alþjóðlegra siglingaleiða fyrir Ísland, ekki síst með tilliti til mögulegrar umskipunarhafnar í landinu. Þórir vitnaði einnig í niðurstöðu ráðstefnunnar sem haldin var á Akureyri í mars 2007 og fjallaði um áhrif og tækifæri með opnun nýrra siglingaleiða um Norðurhöf.

Á fundum nefndarinnar fjallaði ég sem formaður Íslandsdeildar um þróun mála hér á landi og mikilvægi norðurskautsins fyrir Ísland sem mætti m.a. sjá í fjölda verkefna sem íslensk stjórnvöld hafa unnið að í kjölfar formennskuárs Íslands í norðurskautsráðinu árin 2002–2004. Ég lagði m.a. áherslu á umræðu um siglingaleiðir, eftirlit og björgunarmál í Norðurhöfum og greindi frá samkomulagi sem undirritað var af utanríkisráðherra Íslands við Dani og Norðmenn, um samstarf á sviði öryggis-, varnar- og björgunarmála á Norður-Atlantshafi og við Ísland á friðartímum, en fyrir þessu er gerð frekari grein í skýrslu Íslandsdeildar. Enn fremur lagði ég áherslu á þýðingarmikið hlutverk hinnar norðlægu víddar sem samstarfsvettvangs í Norður-Evrópu og benti á að meiri áherslu mætti leggja á norðurskautið í því samstarfi.

Frú forseti. Eins og áður sagði er gerð nákvæm grein fyrir því sem fram fór á fundum nefndarinnar í skýrslu þeirri sem ég hef mælt fyrir og vísa ég til hennar varðandi frekari upplýsingar um störf nefndarinnar. En um leið og ég læt lokið umfjöllun minni um skýrslu Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir árið 2007 vil ég þakka Örnu Gerði Bang fyrir framúrskarandi störf í þágu Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.