Fríverslunarsamtök Evrópu 2007

Fimmtudaginn 06. mars 2008, kl. 14:47:04 (5583)


135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

Fríverslunarsamtök Evrópu 2007.

448. mál
[14:47]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir þær upplýsingar sem hann setti fram um samskipti sín sem formaður utanríkismálanefndar við forseta Alþingis. Ég tek undir að það er prýðilegt og mikilvægt að koma þeim málum sem við erum að ræða í þann farveg að allar gerðir komi með einhverjum hætti til umfjöllunar. Það er ljóst að ef ætlast er til þess að Alþingi leiði í lög tilteknar gerðir þá mun þurfa að þýða þær yfir á íslensku hvort eð er þannig að því á hvorki að fylgja aukavinna né aukakostnaður í sjálfu sér. Einnig má segja að þær gerðir sem hugsanlega væru útfærðar sem stjórnvaldsákvarðanir, þ.e. reglugerðir, þyrfti líka að þýða yfir á íslensku. Við kæmumst aldrei hjá þeirri vinnu og þeim kostnaði sem því fylgir að þýða yfir á íslensku þær gerðir sem eiga að taka gildi hér á landi óháð því hvort það er í formi laga eða reglugerða. Ég tel því mjög mikilvægt að koma upp þeim vinnubrögðum að þessi gögn séu lögð fyrir þingið eins fljótt í ferlinu og unnt er, bæði með það fyrir augum að mönnum hafi gefist tækifæri til að ræða efnislegt innihald, koma á framfæri athugasemdum eða álitamálum og jafnvel ræða að hve miklu leyti tilteknar gerðir sem eru í farvatninu heyri undir EES-samninginn þannig að það sé ekki bara framkvæmdarvaldið sem tekur slíkar ákvarðanir heldur sé það líka hugsanlega undir löggjafanum komið að hve miklu leyti hann telur að tilteknar gerðir eigi undir EES-samninginn.

Ég fagna því að þetta skuli vera í þessum farvegi og að komnar verði fastmótaðar reglur og praxís um þetta í lok vorþingsins.