Embætti umboðsmanns aldraðra

Miðvikudaginn 12. mars 2008, kl. 14:32:21 (5648)


135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

embætti umboðsmanns aldraðra.

396. mál
[14:32]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka þátt í þessari umræðu af því að málið er mér skylt. Ég hef verið stuðningsmaður þess — var það í kosningabaráttunni í fyrra — um að stofnað yrði sérstakt embætti umboðsmanns eldri borgara. Ég hef verið að veikjast í þeirri skoðun minni og tek að mörgu leyti undir það sem komið hefur fram hjá hv. þm. Ástu Möller og hæstv. ráðherra og jafnframt undir það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni. Vitnað er til þess að það er verið að gera kröfu um að stofna til embættis umboðsmanns fyrir eldri borgara, fyrir öryrkja, fyrir konur o.s.frv. og við höfum umboðsmann Alþingis. Ég held að þessi mál eigi vel heima þar — fyrir utan náttúrlega sterk hagsmunasamtök viðkomandi flokka og fólks úti í þjóðfélaginu.

Að síðustu vil ég taka fram að ég tel þessum málum vera vel borgið því að við erum nú þegar komin með umboðsmann aldraðra í stól félagsmálaráðherra.