Almannatryggingar og málefni aldraðra

Fimmtudaginn 13. mars 2008, kl. 12:24:13 (5725)


135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[12:24]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að lengja þessa umræðu meira en góðu hófi gegnir en vildi þó aðeins taka til máls til að undirstrika að ég tel það mál sem hér er verið að afgreiða mjög mikilvægt og gott. Ég þakka félagsmálanefnd fyrir meðhöndlun og afgreiðslu á því og góðar undirtektir, að mér heyrist, frá öllum nefndarmönnum og vilja til þess að greiða fyrir afgreiðslu málsins svo að lögin verði að veruleika og komist til framkvæmda.

Frumvarpið er afrakstur yfirlýsinga og ákvörðunar hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarflokkanna við afgreiðslu fjárlaga fyrr í vetur svo að það er ekki nýtt af nálinni sem hér er verið að leggja til, við þekkjum þau mál sem um ræðir í frumvarpinu. Þetta eru fyrst og fremst leiðréttingar á flóknu og óréttlátu kerfi sem við höfum búið við og lagfæringar og kjarabætur í þágu aldraðra og öryrkja sem eru vel þegnar. Að svo stöddu geri ég engar athugasemdir við þau mál sem hér eru til umfjöllunar enda þótt endalaust væri hægt að bæta við þennan lista og gera tillögur um enn frekari úrbætur. Eins og við höfum heyrt hér í dag er margt undir og sýnist sitt hverjum. Það bíður þá betri tíma enda lít ég svo á að um sé að ræða fyrstu skref í átt að bættum hag fyrir þá hagsmunahópa sem hér um ræðir, aldraða og öryrkja.

Ég nefndi að um væri að ræða leiðréttingar í flóknu kerfi og vildi kannski taka enn sterkara til orða og segja að verið sé að leiðrétta fátæktargildru sem kerfið er að mörgu leyti með öllum sínum skerðingum og takmörkunum út og suður þannig að sem fæstir skilja. Það veldur því að því miður dregur úr löngun og áhuga þeirra sem í hlut eiga á að afla sér tekna vegna þess að það er þá jafnóðum tekið af þeim aftur. Menn geta lítið bætt efnahag sinn við þær aðstæður sem nú ríkja og gilda.

Í frumvarpinu sem hér er til meðferðar og afgreiðslu er að mínu mati mest um vert að frítekjumarkið er hækkað þannig að það nemur nú um 100 þús. kr. á mánuði sem jafngildir 1.200 þús. kr. á ári, sem þýðir að menn geta aflað sér tekna upp í þessar upphæðir án þess að bætur þeirra skerðist. Ég legg líka mikið upp úr því að skerðing vegna tekna maka er afnumin. Ég hef sagt það áður og endurtek að það er mikið mannréttindamál að hver einstaklingur njóti réttar síns í kerfinu án þess að tekið sé með inn í reikningsdæmið hvað maki hans hefur í tekjur á ákveðnu tímabili.

Nokkuð hefur verið rætt um nauðsyn þess að hækka hinar almennu bætur og jafnframt hafa menn verið að velta vöngum yfir hugmyndafræðinni á bak við almannatryggingakerfið. Á að láta þetta fé sem Tryggingastofnun ríkisins hefur til umráða renna til allra? Eða á að taka sérstakt tillit til þeirra sem verst eru settir?

Ég held að óhætt sé að draga þá ályktun af umræðum sem hér hafa farið fram að það sé almenn og ríkjandi skoðun að fyrst og fremst eigi að einbeita sér að þeim sem lægst eru settir án þess að um sé að ræða einhverja ölmusu. Ég lít svo á að um sé að ræða kerfi sem er til þess að tryggja lífsgæði þeirra sem eru komnir á þann aldur sem um ræðir og að verið sé að leggja velferðarnet þannig að enginn verði útundan í þjóðfélaginu þó að hann hafi notið þeirrar gæfu að lifa lengur en aðrir og lifa fram á ellilífeyrisaldur. Um takmarkað fé er að ræða hjá Tryggingastofnun, hjá ríkissjóði og hjá þeim sem leggja í þennan sameinaða sjóð og því hlýtur það að vera forgangsröð á hverjum tíma hvað eigi að mæta afgangi og hvað ekki.

Í næstu skrefum ætti að gera enn frekari leiðréttingar að því er varðar aldurinn 67–70 ára. Nú hefur áður verið samþykkt að þeir sem eru 70 ára og eldri geti aflað sér tekna án þess að til skerðingar komi í kerfinu. Ég held að það sé galli í löggjöfinni að aldurinn 67–70 ára sé undanskilinn. Það gefur auga leið að fæst af því fólki sem verður að hætta starfi 67 ára fer aftur inn á vinnumarkaðinn þegar það er orðið 70 ára af þessum ástæðum einum og sér. Ef menn hafa fallist á að það eigi að leyfa eldra fólki, 70 ára og eldra, að afla sér tekna án þess að verða fyrir skerðingum á að stíga það skref til fulls og miða við 67 ár aldur. Það er ekki nema sanngjarnt.

Það er ljóst að eldri borgarar eru misjafnlega sprækir eins og það var orðað hér áðan. Sem betur fer er langstærsti hópur þessa fólks, 67 ára og eldri, við góða heilsu og hefur alla möguleika á því að halda fullu starfi og leggja sitt til þjóðarbúsins. Ég held að þetta sé kannski orðið pínulítið úrelt, það er mjög misjafnt hvernig ástand er hjá 67 ára einstaklingi. Það er alltaf spurning hvort eigi að miða við þennan 67 ára aldur. Er það eitthvað heilagt? Er kannski hægt að hafa rýmri heimildir í því? Í lögum er gert ráð fyrir því, m.a. hjá opinberum starfsmönnum, að fólk verði að hætta störfum 67 ára eða sjötugt. Hvers vegna erum við að setja slík aldurstakmörk þegar lífið lengist hjá flestum og lífsorkan er enn til staðar?

Að því er varðar vangaveltur um það hvar eigi að setja frítekjumark, hvort það eigi að vera að greiða framlög frá Tryggingastofnun til fólks sem er efnalega vel statt o.s.frv. þá er það nú svo í reynd að þegar fólk hefur haft eða hefur verulegar tekjur þá þiggur það ekki eða nýtur neinna bóta frá tryggingakerfinu. En kerfið tvinnast saman við lífeyrissjóðakerfið og ég leit alltaf svo á að lögbundinn lífeyrissparnaður væri til viðbótar við það velferðarnet sem ríkið stendur fyrir í gegnum Tryggingastofnun ríkisins.

Nú erum við búin að ákveða það með þessu frumvarpi að afnema skerðingu að því er varðar séreignarsparnað. Einstaklingur sem hefur tök á því í gegnum ævina að leggja til hliðar fé og spara með þeim hætti getur tekið það fé út þegar hann er orðinn 67 ára og eldri og án þess að um skerðingu verði að ræða á rétti hans og bótum frá almannatryggingakerfinu.

Ég samþykki þessa tillögu en ég á erfitt með að skilja hvar munurinn er á þessum séreignarsparnaði annars vegar og lögbundnum skyldusparnaði hins vegar. Er það ekki jafnvel eðlilegra að sá sem er skyldugur til þess að spara í gegnum lífeyrissjóðakerfið fái líka þá umþóttun að hann gjaldi ekki fyrir þá lögskyldu sína með því að verða fyrir skerðingu sem séreignarsparnaðareinstaklingurinn verður ekki að sitja undir? Ég held að næsta skrefið sé að hugleiða breytingar að þessu leyti.

Ég tel líka að það sama gildi um mismunandi skatta sem fólk borgar. Annars vegar er 10% skattur greiddur af arði eða ávöxtun af sjálfseignarsparnaði en hins vegar þarf fólk að greiða 35,7% tekjuskatt af lífeyrissjóðstekjum, af greiðslum sem það hefur þurft að borga hvort sem því líkar betur eða verr. Þetta er ósanngjarnt og óréttlátt og þarf að laga þegar næstu skref eru stigin í því þýðingarmikla réttlætismáli sem hér er á dagskrá. Þessu starfi er engan veginn lokið, við erum öll sammála um að skoða þarf fleiri þætti og gera endurbætur á kerfinu. En við afgreiðum hér tillögur sem orðið hefur sátt um og staðið hefur verið fyrir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Þær hafa hlotið eindreginn stuðning stjórnarflokka og flestallra þingmanna og því fagna ég. Ég þakka fyrir þetta svo langt sem það nær.