Tekjuskattur

Þriðjudaginn 01. apríl 2008, kl. 15:19:50 (5864)


135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:19]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er nú enn eitt frumvarpið flutt til þess að rýmka fyrir undanþágum og möguleikum þeirra sem hagnast á viðskiptum með hlutabréf til þess að komast hjá því að borga skatta af þeim hagnaði.

Til þess að glöggva mig betur á frumvarpinu — vegna þess að mér sýnist ekki alveg ljóst hvað í því felst og ég sé að á umsögnum sumra umsagnaraðila er einmitt vakin athygli á því. Ég vil því spyrja hv. þm. Pétur Blöndal hvað felst í frumvarpinu og tillögum nefndarinnar varðandi þann uppsafnaða söluhagnað af hlutabréfum sem geymdur hefur verið og frestaður? Á tekjuárinu 2006 reynist hann vera 336 milljarðar kr. 18% tekjuskattur af þeim hagnaði eru 60 milljarðar kr.

Virðulegi forseti. Er tillaga ríkisstjórnarinnar sú að strikað verði yfir þessar skattgreiðslur? Á sama tíma og verið er að setja 5 milljarða inn í almannatryggingakerfið til að draga úr skattheimtu á gamlingja og öryrkja, er þá verið að leggja til að þeir sem hafa það að atvinnu að sýsla með hlutabréf og verðbréf og reka fjármálastofnanir fái á einu tekjuári 60 milljarða kr. eftirgjöf af sköttum? Ég held að það verði að liggja ljóst fyrir hvað felst í frumvarpinu hvað þetta varðar.